Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20um%20uppl%C3%BDsingam%C3%A1l

840/2019. Úrskurður frá 28. október 2019

Úrskurður

Hinn 28. október 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 840/2019 í máli ÚNU 19060002.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 5. júní 2019, kærði A, blaðamaður, ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun beiðni um aðgang að gögnum með upplýsingum um hvaða fyrirtæki hafi gripið til hópuppsagna í maí 2019. Kærandi óskaði eftir upplýsingunum með erindi, dags. 4. júní 2019 og var beiðninni synjað daginn eftir. Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 5. júní 2019, segir að Vinnumálastofnun birti fjölda hópuppsagna ásamt atvinnusvæði og þeirri atvinnugrein sem við á hverju sinni. Upplýsingar um það hvort tiltekið fyrirtæki hafi tilkynnt um hópuppsögn séu í nær öllum tilfellum viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu viðkomandi fyrirtækis og kunni að varða mikilvæga viðskiptahagsmuni þess. Birting á nafni þess fyrirtækis sem hafi boðað til hópuppsagnar kunni einnig að fela í sér viðkvæmar upplýsingar um einkahagsmuni starfsmanna þess.

Þá kemur fram að þegar stofnuninni berist tilkynning um fyrirhugaða hópuppsögn sé mál jafnan enn á viðræðustigi. Tilgangur laga um hópuppsagnir sé m.a. að tryggja samráð við trúnaðarmenn eða fulltrúa á vinnustað þegar uppi séu áform um hópuppsagnir. Með tímanlegu samráðið fyrirtækja, fulltrúa starfsmanna og stéttarfélaga sé reynt að komast hjá hópuppsögnum eða draga úr afleiðingum þeirra. Vinnumálastofnun telji að birting í fjölmiðlum á nafni þeirra fyrirtækja sem hafi tilkynnt um hópuppsögn sé ekki til þess fallið að draga úr afleiðingum fyrirhugaðra uppsagna og gangi þvert á tilgang laga um hópuppsagnir. Birting á nöfnum fyrirtækja kunni einnig að minnka hvata þeirra til þess að tilkynna um fyrirhugaðar hópuppsagnir og dragi hún þannig úr virkni þess úrræðis sem lögunum er ætlað að koma á fót. Í ljósi framangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að birting á nafni fyrirtækja sem tilkynna hópuppsagnir fari gegn 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Í kæru segir að það hljóti að teljast til almennra upplýsinga sem eigi erindi við almenning þegar fyrirtæki í rekstri segi upp stórum hluta starfsmanna sinna, svo stórum að um hópuppsögn sé að ræða. Að nefna nafn fyrirtækisins sem eigi í hlut, greini á engan hátt frá einka- eða fjárhagsmálefnum einstakra starfsmanna.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 6. júní 2019, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn Vinnumálastofnunar um kæruna, dags. 20. júní 2019, kemur m.a. fram að stofnunin birti í byrjun hvers mánaðar tölulegar upplýsingar um atvinnuástand og horfur á vinnumarkaði. Meðal þeirra upplýsinga sem stofnunin birti séu upplýsingar um fjölda hópuppsagna sbr. lög nr. 63/2000 um hópuppsagnir. Stofnunin birti fjölda þeirra starfsmanna sem hópuppsagnir nái til, atvinnugrein og atvinnusvæði. Þann 4. júní 2019 hafi Vinnumálastofnun birt frétt á heimasíðu sinni um hópuppsagnir í maí 2019. Í fréttinni komi fram að tvær tilkynningar um hópuppsagnir hafi borist Vinnumálastofnun í maí þar sem 53 starfsmönnum var sagt upp störfum. Þá segi að 34 hafi verið sagt upp í flutningum á Suðurnesjum og 19 í heilbrigðis- og félagsþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Fram kemur að Vinnumálastofnun sé með lögum nr. 63/2000 um hópuppsagnir falið að taka á móti tilkynningum um fyrirhugaðar uppsagnir á grundvelli laganna. Samkvæmt lögunum beri atvinnurekanda að tilkynna um fyrirhugaðar uppsagnir skriflega til Vinnumálastofnunar. Í tilkynningu skuli m.a. tilgreina fjölda þeirra starfsmanna sem til standi að segja upp, hvaða störfum þeir gegni og á hvaða tímabili fyrirhugaðar uppsagnir eigi að koma til framkvæmda. Fram kemur að Vinnumálastofnun birti ekki upplýsingar um þau fyrirtæki sem segi upp starfsfólki. Beiðnum frá fréttastofum eða öðrum um að fá nöfn þeirra fyrirtækja sem hafi sagt upp fólki sé því almennt hafnað.

Vinnumálastofnun segir upplýsingar um það, hvort tiltekið fyrirtæki hafi tilkynnt um hópuppsögn, vera í nær öllum tilfellum viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu viðkomandi fyrirtækis sem kunni að varða mikilvæga viðskiptahagsmuni þess. Þá kunni birting á nafni þess fyrirtækis sem hefur boðað til hópuppsagnar einnig að fela í sér viðkvæmar upplýsingar um einkahagsmuni starfsmanna þess.

Fram kemur að tilgangur laga um hópuppsagnir sé m.a. að tryggja samráð við trúnaðarmenn eða fulltrúa á vinnustað þegar uppi séu áform um hópuppsagnir. Með tímanlegu samráði fyrirtækja, fulltrúa starfsmanna og stéttarfélaga sé reynt að komast hjá hópuppsögnum eða draga úr afleiðingum þeirra. Vinnumálastofnun telur að birting í fjölmiðlum á nafni þeirra fyrirtækja sem hafi tilkynnt um hópuppsögn sé ekki til þess fallið að draga úr afleiðingum fyrirhugaðra uppsagna og gangi þvert á tilgang laga um hópuppsagnir. Í þessum aðstæðum geti það skaðað hagsmuni fyrirtækja að veittur sé aðgangur að upplýsingunum. Birting á nöfnum fyrirtækja kunni einnig að minnka hvata þeirra til þess að tilkynna um fyrirhugaðar hópuppsagnir og draga þannig úr virkni þess úrræðis sem lögunum er ætlað að koma á fót.

Auk þess kemur fram í umsögninni að vitneskja um uppsagnir fyrirtækja feli óumflýjanlega í sér upplýsingar um uppsagnir starfsmanna þeirra. Þótt þeir starfsmenn sem sæti uppsögnum séu ekki nafngreindir sé í fámennu samfélagi auðvelt að álykta um hvaða einstaklingar eigi í hlut. Þá berist tilkynning um hópuppsagnir oft áður en starfsmönnum hafi verið sagt upp störfum og jafnvel áður en þeim hafi verið tilkynnt um fyrirhugaðar uppsagnir. Fyrsti viðkomustaður þeirra forsvarsmanna fyrirtækja sem hugi að hópuppsögnum sé jafnan Vinnumálastofnun og berist stofnuninni reglulega tilkynningar án þess að lögbundið samráð hafi átt sér stað. Stofnunin þurfi ítrekað að benda fyrirtækjum á skyldur sínar samkvæmt lögum um hópuppsagnir eftir að tilkynning hafi borist stofnuninni. Stofnunin telur sér ekki stætt að stuðla að því að starfsmenn fái tilkynningar um uppsagnir sínar í fjölmiðlum. Einnig beri að líta til þess að upplýsingarnar varði ekki ráðstöfun opinberra hagsmuna eða framkvæmd á opinberri þjónustu heldur hafi Vinnumálastofnun þær undir höndum á grundvelli tilkynningarskyldu fyrirtækja samkvæmt lögum um hópuppsagnir sem sé ætlað er að tryggja nauðsynlegt og formbundið samráð atvinnurekenda við fulltrúa starfsmanna sinna. Í ljósi alls framangreinds og tilgangs laga um hópuppsagnir sé það afstaða Vinnumálastofnunar að birting á nafni fyrirtækja sem tilkynna um hópuppsagnir feli í sér upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að fari leynt á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Umsögn Vinnumálastofnunar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 25. júní 2019, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 4. júlí 2019, segir að kærandi telji svör Vinnumálastofnunar ekki standast skoðun. Á þeim tíma sem fyrirtæki tilkynni um hópuppsagnir hafi starfsfólkinu á viðkomandi stað verið tilkynnt um uppsagnirnar. Að það hafi áhrif á reksturinn að það spyrjist út að gripið hafi verið til hópuppsagna geti vel verið. Upplýsingar um hópuppsögn í fyrirtækjum á Íslandi eigi sannarlega erindi við almenning.

Með bréfum, dags. 3. september 2019, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afstöðu þeirra fyrirtækja sem tilkynntu Vinnumálastofnun um hópuppsagnir í maí 2019. Með tölvupósti, dags. 6. september 2019, veitti annað þeirra, Isavia ohf., samþykki sitt fyrir því að upplýsingarnar yrðu gerðar opinberar. Fram kemur að félagið telji ekkert því til fyrirstöðu að upplýsingarnar verði birtar en félagið hafi sjálft útbúið fréttatilkynningu þess efnis. Því hafi upplýsingarnar þegar verið gerðar opinberar. Hitt félagið veitti ekki samþykki sitt fyrir því að upplýsingarnar yrðu gerðar opinberar en í bréfi þess til úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. september 2019, kemur m.a. fram að hópuppsögnin hafi verið dregin til baka og mikill meirihluti starfsmannanna endurráðnir. Í ljósi þessa geti birting upplýsinganna haft í för með sér óþarfa neikvæða umræðu um starfsemi félagsins. Hætta sé á að viðskiptavinir félagsins leiti annað ef upplýsingarnar yrðu gerðar opinberar.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er blaðamaður, til aðgangs að upplýsingum hjá Vinnumálastofnun um það hvaða fyrirtæki hafi gripið til hópuppsagna í maí 2019. Samkvæmt 7. gr. laga um hópuppsagnir nr. 63/2000 er fyrirtækjum skylt að tilkynna Vinnumálastofnun skriflega um fyrirhugaðar hópuppsagnir og taldi stofnunin að beiðni kæranda tæki til tilkynninga tveggja fyrirtækja.

Vinnumálastofnun synjaði um aðgang að framangreindum tilkynningum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga sem fjallar um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna einstaklinga, fyrirtækja og annarra lögaðila. Þar segir orðrétt:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“

Í athugasemdum greinargerðar er fylgdi frumvarpi til laganna segir um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“

Í tilefni af kærunni óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afstöðu viðkomandi fyrirtækja til upplýsingabeiðninnar. Í svarbréfi annars fyrirtækjanna, þ.e. Isavia ohf., kom fram að fyrirtækið legðist ekki gegn því að kærandi fengi afrit af tilkynningu félagsins til Vinnumálastofnunar enda kæmu þar fram upplýsingar sem félagið hefði þegar sjálft opinberað með fréttatilkynningu. Í ljósi þessa er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að fella ákvörðun Vinnumálastofnunar úr gildi og beina því til stofnunarinnar að afhenda kæranda umrædda tilkynningu. Úrskurðarnefndin bendir á að Vinnumálastofnun hefði sjálfri verið rétt að leita afstöðu umræddra fyrirtækja áður en hún synjaði um afhendingu gagnanna á grundvelli meintra hagsmuna þeirra.

Líkt og rakið er í málsmeðferðarkafla hér að framan lagðist hitt félagið sem tilkynnt hafði Vinnumálastofnun um fyrirhugaða hópuppsögn í maí 2019 hins vegar gegn því að kæranda yrði afhent afrit af tilkynningu félagsins. Fyrir liggur að umrædd hópuppsögn kom ekki til framkvæmda. Þótt kæran til úrskurðarnefndarinnar sé orðuð svo að kærandi óski eftir upplýsingum um hvaða fyrirtæki hafi gripið til hópuppsagna í maí 2019, telur úrskurðarnefndin – líkt og Vinnumálastofnun – rétt að skilja beiðnina sem svo að hún taki til allra tilkynninga um fyrirhugaðar hópuppsagnir, hvort sem þær hafi komið til framkvæmda eða ekki. Liggur því fyrir nefndinni að taka afstöðu til synjunar Vinnumálastofnunar á afhendingu gagnsins.

Ákvæði 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er rakið hér að framan ásamt skýringum greinargerðar er fylgdi frumvarpi til laganna. Í skýringunum er m.a. áréttað að óheimilt sé að veita upplýsingar um „viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni“. Jafnframt er tekið fram að vega þurfi saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að „upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi“.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur engum vafa undirorpið að sú tilkynning sem hér um ræðir um fyrirhugaða hópuppsögn feli í sér mikilvægar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu umrædds fyrirtækis, enda þótt ekki hafi að lokum komið til hópuppsagnar. Þá horfir nefndin til þess að upplýsingarnar liggja ekki fyrir hjá Vinnumálastofnun í tilefni af ráðstöfun opinberra hagsmuna, heldur vegna lagaskyldu viðkomandi félags til þess að tilkynna um fyrirhugaða hópuppsögn á grundvelli laga nr. 63/2000. Af þessum ástæðum telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að Vinnumálastofnun hafi verið rétt að synja beiðni kæranda um aðgang að umræddri tilkynningu.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni kæranda um aðgang að tilkynningu Isavia ohf., dags. 23. maí 2019, til stofnunarinnar um fyrirhugaða hópuppsögn og lagt fyrir Vinnumálastofnun að afhenda kæranda gagnið.

Hin kærða ákvörðun er að öðru leyti staðfest.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir                  Friðgeir Björnsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum