Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Atvinnuleysistryggingar%20og%20vinnumarka%C3%B0sa%C3%B0ger%C3%B0ir

Nr. 60/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 60/2019

Þriðjudaginn 14. maí 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. febrúar 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. febrúar 2019, um að hafna beiðni hennar um gerð námssamnings.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 8. janúar 2019. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir námssamningi við stofnununa vegna MBA náms við Háskóla Íslands. Beiðni kæranda um gerð námssamnings var hafnað af ráðgjafa Vinnumálastofnunar með tölvupósti 4. febrúar 2019. Samdægurs óskaði kærandi eftir að vera afskráð af atvinnuleysisskrá. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. febrúar 2019, var umsókn kæranda hafnað með vísan til 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 7. febrúar 2019. Með bréfi, dags. 8. febrúar 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. mars 2019. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 22. mars 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. mars 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá aðstæðum sínum og skipulagi námsins sem hún stundi. Kærandi telur að meta þurfi nám hennar á annan hátt en hefðbundið háskólanám. Það sé gert ráð fyrir að námsmaður sé í vinnu með náminu en kennsla fari fram tvo daga í senn, föstudag og laugardag á tveggja vikna fresti. Námið sé þannig byggt upp að í hverri kennslulotu séu tvö fög kennd í einu, þeim lokið með prófum og byrjað á næstu tveimur. Námið sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, eingöngu sé hægt að sækja um skólagjaldalán. Kærandi sé í 10 einingum í fyrstu kennslulotu og 13 í annarri kennslulotu. Hún sé í virkri atvinnuleit, hafi sótt um hjá sjö fyrirtækjum/stofnunum frá því um áramót en engin viðeigandi störf hafi verið auglýst í hennar landshluta á þessum tíma. Kærandi óskar eftir að úrskurðarnefndin fari yfir athugasemdir hennar og meti þær heildstætt með tilliti til laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og frumvarps til þeirra.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar er vísað til þess að í 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar komi fram að hver sá sem stundi nám, sbr. c-lið 3. gr., teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tímabili, enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna komi fram að þrátt fyrir framangreint ákvæði geti atvinnuleitendur í háskólanámi átt rétt til atvinnuleysisbóta að nánari skilyrðum uppfylltum. Þær undanþáguheimildir komi til skoðunar þegar nám sé undir 20 ECTS-einingum og ekki lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Nám kæranda sé umfram 20 ECTS-einingar, alls 23 ECTS- einingar, og falli þar af leiðandi utan skilyrða 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna. Því verði að álykta að meginregla 1. mgr. 52. gr. laganna eigi við um atvik í máli kæranda. Af framangreindum ákvæðum sé ljóst að það sé ekki tilgangur laganna að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 komi fram sú meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum, hvort sem um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Auk þess sé það eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysisbótum að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laganna.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar komi fram sú málsástæða að þar sem nám kæranda sé kennt í lotum, fyrst 10 einingum og svo 13 einingum á vorönn 2019, eigi ákvæði 3. mgr. 52. gr. laganna ekki við í hennar tilviki. Vinnumálastofnun hafni þeirri túlkun, enda komi fram á skólavottorði frá Háskóla Íslands að um sé að ræða 23 ECTS-einingar á vormisseri 2019. Fyrirkomulag á kennslu haggi ekki þeirri staðreynd. Slík túlkun á undanþágureglu vegna náms samhliða atvinnuleysisbótum fæli í sér verulega mismunun gagnvart þeim námsmönnum sem ekki stundi nám í lotum eða hafi tök á því að skipuleggja nám sitt með sambærilegum hætti. Þá telji kærandi enn fremur að ákvæði 3. mgr. 52. gr. laganna eigi ekki við í hennar tilviki þar sem Lánasjóður íslenskra námsmanna veiti aðeins lán fyrir skólagjöldum vegna námsleiðar hennar. Stofnunin árétti að lánhæfni náms samkvæmt undanþágu 3. mgr. 52. gr. komi aðeins til skoðunar þegar nám nemi minna en 20 ECTS-einingum. Þegar námshlutfall sé umfram það sem áskilið sé í greininni komi lánshæfni náms ekki til skoðunar, enda sé ekki lagaheimild fyrir gerð námssamnings í slíkum tilvikum.

Þar sem kærandi uppfylli ekki almenn skilyrði laga nr. 54/2006 á meðan hún stundi nám, sbr. 1. mgr. 52. gr. laganna, hafi stofnunin talið rétt að synja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur, enda hafi hún ekki uppfyllt skilyrði laganna til slíkra greiðslna. Með vísan til ofangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar um að synja kæranda um gerð námssamnings vegna þess náms sem hún hafi lagt stund á við Háskóla Íslands samhliða töku atvinnuleysisbóta.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. febrúar 2019, um að hafna beiðni kæranda um gerð námssamnings.

Í IX. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 52. gr. laganna er fjallað um nám en þar segir:

„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.“

Í c-lið 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á námi samkvæmt lögunum en þar segir:

„Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í athugasemdum við ákvæði 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kemur fram að það kunni að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, en í slíkum tilvikum geti atvinnuleitandi talist tryggður samhliða námi.

Óumdeilt er að kærandi var skráð í 23 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun í janúar 2019. Að því virtu uppfyllti kærandi ekki skilyrði þess að vera tryggð samkvæmt lögunum á þeim tíma, þrátt fyrir að um lotuskipt nám sé að ræða. Með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að synjun Vinnumálastofnunar á beiðni kæranda um gerð námssamnings sé reist á réttum forsendum. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. febrúar 2019, um að hafna beiðni A, um gerð námssamnings er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum