Hoppa yfir valmynd

Mál 16040051 Hlífðarfatnaður fyrir slökkviliðsmenn

Þann 31. mars 2017 var í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi 

Úrskurður: 

Með bréfi til ráðuneytisins, dags. 12. apríl 2016, kærði Kostur lágvöruverðsverslun ehf. ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 29. febrúar 2016 þess efnis að synja kæranda um mat og viðurkenningu á Globe hlífðarfatnaði fyrir slökkviliðsmenn. Kæruheimild er í 36. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000. 

I. Málavextir. 

Með erindi, dags. 5. febrúar 2016, fór kærandi þess á leit við Mannvirkjastofnun að stofnunin myndi meta og viðurkenna Globe hlífðarbúnað, sbr. 6. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000 og 5. gr. reglugerðar nr. 914/2009 um að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi. Fram kom í erindinu að viðeigandi staðall fyrir hlífðarfatnaðinn væri ÍST EN 469. Taldi kærandi að búnaðurinn hefði ekki verið metinn með tilliti til staðalsins. Búnaðurinn væri aftur á móti mjög öruggur og uppfyllti allar kröfur sem settar væru í umræddum staðli. Búnaðurinn væri framleiddur samkvæmt svokölluðum NFPA 1971 staðli sem gerði jafnmiklar eða meiri kröfur en ÍST EN 469 staðallinn. Taldi kærandi að búnaðurinn væri jafnöruggur og raunar öruggari en sambærilegur búnaður sem uppfyllti einungis evrópska staðla. Þannig tryggði búnaðurinn meginmarkmið laga nr. 75/2000 og reglugerðar nr. 914/2009. Fór kærandi þess á leit við Mannvirkjastofnun að búnaðurinn yrði metinn og viðurkenndur þar sem búnaðurinn uppfyllti allar öryggiskröfur. Með erindinu fylgdu upplýsingar um staðalinn NFPA 1971, staðalinn ÍST EN 469 og samanburð á framangreindum stöðlum.  

Með bréfi, dags. 29. febrúar 2016, hafnaði Mannvirkjastofnun beiðni kæranda um viðurkenningu á umræddum Globe hlífðarbúnaði. Í bréfi Mannvirkjastofnunar kemur fram að um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna gildi einnig reglur um gerð persónuhlífa nr. 501/1994 og vísar stofnunin til 1. tölul. 1. gr. og 4. tölul. 4. gr. reglnanna í því sambandi. Eftirlit með framkvæmd reglnanna annist Vinnueftirlit ríkisins. Þegar Mannvirkjastofnun taki búnað til viðurkenningar, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 914/2009, sé horft til framangreindra reglna um persónuhlífar með allan búnað sem reglurnar taki til og sé eingöngu metinn og viðurkenndur búnaður sem falli utan reglna um persónuhlífar. Að mati Mannvirkjastofnunar falli hlífðarfatnaður slökkviliðsmanna ótvírætt undir reglur um persónuhlífar og skuli hann því vera CE-merktur. Með vísan til framangreinds eigi ákvæði 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 914/2009 ekki við og því geti Mannvirkjastofnun ekki orðið við beiðni um viðurkenningu á framangreindum hlífðarfatnaði.  

Með bréfum dags. 29. apríl og 4. maí 2016 óskaði ráðuneytið eftir umsögnum Mannvirkjastofnunar og Vinnueftirlitsins um kæruna. Ráðuneytinu barst umsögn Vinnueftirlitsins með bréfi dags. 20. maí 2016 og umsögn Mannvirkjastofnunar með bréfi dags. 10. júní 2016. 

Með bréfi, dags. 15. júlí 2016, gaf ráðuneytið kæranda færi á að koma með athugasemdir við umsögn Mannvirkjastofnunar og Vinnueftirlitsins. Ráðuneytinu bárust athugasemdir kæranda með bréfi dags. 16. ágúst 2016 og tölvupósti þann 8. desember 2016 ásamt viðbótargögnum. Með tölvupósti hinn 9. desember 2016 gaf ráðuneytið Vinnueftirliti ríkisins og Mannvirkjastofnun færi á að koma að frekari athugasemdum vegna viðbótargagna kæranda. Ráðuneytinu barst svar í tölvupósti frá Vinnueftirliti ríkisins þann sama dag og tölvupóstur frá Mannvirkjastofnun hinn 2. janúar 2017.  

II. Málsástæður kæranda og umsagnir um kæru. 

Kærandi telur að hin kærða ákvörðun byggi á rangri túlkun á viðeigandi lögum og reglugerðum. Hafi beiðni kæranda um viðurkenningu á umræddum búnaði verið rökstudd með vísan til viðeigandi laga og reglna, þ.e. laga nr. 75/2000 um brunavarnir og reglugerðar nr. 914/2009 um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna. Stofnunin byggi ákvörðun sína aftur á móti á því að um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna gildi einnig reglur um gerð persónuhlífa nr. 501/1994. Samkvæmt reglum um gerð persónuhlífa sé óheimilt að setja á markað persónuhlífar nema þær séu merktar CE-merki. Af því dragi stofnunin þá ályktun að óheimilt sé með öllu að setja hlífðarfatnað slökkviliðsmanna á markað án slíkra merkinga og hafnar því að meta búnaðinn sem kærandi óski eftir. Kærandi telur að túlka verði lög og reglugerðir saman í samræmi við almennar túlkunarreglur og sé niðurstaða Mannvirkjastofnunar í andstöðu við niðurstöðu sem fæst með hefðbundnum túlkunaraðferðum og einnig í augljósri andstöðu við tilgang og markmið reglnanna. Fyrst beri að geta þess að skv. 6. gr. laga um brunavarnir skuli Mannvirkjastofnun gera sjálfstæðar athuganir og úttektir á þeim kröfum sem gerðar séu til eldvarnareftirlits og slökkviliða. Afstaða stofnunarinnar sem birtist í hinni kærðu ákvörðun sé í andstöðu við þessi lagafyrirmæli. Þar sem reglugerðir geti ekki verið í andstöðu við lög sé stofnuninni óheimilt að byggja niðurstöðu sína á reglum um persónuhlífar án frekara mats. Í öðru lagi beri að túlka viðeigandi reglugerðir saman. Reglur um persónuhlífar byggi á almennri reglugerð gagnvart reglugerð um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna. Ákvæði reglugerðar um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna sé alveg skýr um að sá sem flytur inn eða selur hlífðarbúnað, sem ekki hafi fullgilda viðurkenningu á Evrópska efnahagssvæðinu, skuli leita viðurkenningar Mannvirkjastofnunar áður en búnaðurinn sé settur á markað hér á landi. Sé þannig sérstaklega gert ráð fyrir að Mannvirkjastofnun meti búnað í tilvikum eins og þeim sem mál þetta lúti að. Í þriðja lagi sé tilgangur laga um brunavarnir og reglugerðar um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna alveg skýr. Tilgangurinn og markmiðið sé að hlífðarbúnaður, sem ekki hafi fullgilda viðurkenningu á Evrópska efnahagssvæðinu, sé borinn undir Mannvirkjastofnun til mats og viðurkenningar. Ótækt sé að túlka almenna reglugerð með þeim hætti að hún komi í veg fyrir það ferli sem hafi verið mælt fyrir um í lögum og sérreglugerð. Auk þessa hafi ákvörðun Mannvirkjastofnunar ófullnægjandi lagastoð þar sem hún feli i sér takmörkun á atvinnufrelsi, sbr. 75. gr. stjórnarskrárinnar.  

Kærandi segir einnig að umræddur búnaður uppfylli allar kröfur sem fram komi í staðlinum ÍST EN 469, þó að búnaðurinn sé ekki framleiddur samkvæmt staðlinum. Ljóst sé af umsögnum Mannvirkjastofnunar og Vinnueftirlitsins að ágreiningur málsins snúi einungis að því hvort hægt sé að flytja inn búnað sem framleiddur sé í samræmi við aðra staðla en ÍST EN 469. Að mati kæranda séu þau atriði sem þurfi að leysa úr í fyrsta lagi þau hvort yfir höfuð sé hægt að flytja inn búnað sem sé ekki framleiddur eftir ÍST EN 469 og í öðru lagi, ef hægt sé að flytja hann inn, hvernig skuli ákvarða hvort heimilt sé að selja búnaðinn hér á landi. Hvað varðar fyrra atriðið vísar kærandi til ákvæðis 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 914/2009 þar sem segi að hlífðarbúnaður sem framleiddur sé eftir öðrum stöðlum skuli einnig uppfylla ÍST EN staðlana. Einnig vísar hann til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 75/2000 þar sem segi að sá sem framleiðir, flytur inn eða selur vöru skuli leita viðurkenningar hjá Mannvirkjastofnun eða öðrum aðila sem ráðherra viðurkennir áður en varan er sett á markað hér á landi hafi varan ekki fullgilda viðurkenningu á Evrópska efnahagssvæðinu. Að mati kæranda er því ekki hægt að synja um innflutning vöru einungis af þeirri ástæðu að búnaður hafi ekki merkingu samkvæmt íslenskum eða evrópskum staðli. Telur kærandi að orðalag 2. mgr. 25. gr. laganna verði ekki skilið með öðrum hætti en þeim að innflytjandi skuli leita viðurkenningar hjá Mannvirkjastofnun eða öðrum aðila sem ráðherra viðurkennir áður en varan er sett á markað hér á landi. Mannvirkjastofnun leggi megináherslu á 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 914/2009 og tilvísun hennar til reglna nr. 501/1994. Að mati kæranda er reglugerð nr. 914/2009 sérreglugerð sem gangi þannig framar almennum reglum nr. 501/1994 og augljóst sé að reglugerð nr. 914/2009 geri ráð fyrir að flytja megi inn hlífðarbúnað sem framleiddur sé eftir öðrum stöðlum. Tilvísun í reglugerðinni til reglna nr. 501/1994 sé til fyllingar og ákvæði reglnanna sem banni innflutning, nema þær séu merktar CE-merkingu, geti ekki gengið framar skýru orðalagi og markmiði reglugerðar nr. 914/2009. Mannvirkjastofnun segi í umsögn sinni að stofnunin hafi ekki viðurkenningu til þess að annast prófanir samkvæmt reglum nr. 501/1994. Telur kærandi að Mannvirkjastofnun sé skylt samkvæmt lögum að framkvæma prófanir og reglugerð geti ekki afnumið þá skyldu. Þá komi fram að Mannvirkjastofnun hafi túlkað 25. gr. laga nr. 75/2000 þannig að stofnunin geti einungis gefið út viðurkenningu á grundvelli ákvæðisins fyrir vörur sem ekki falli undir samhæfðan evrópskan staðal og sé ekki háð kröfu um CE-merkingu. Sé túlkun Mannvirkjastofnunar í andstöðu við skýrt orðalag viðkomandi lagaákvæðis. Kærandi segir einnig að Mannvirkjastofnun og Vinnueftirlitið vísi til málsmeðferðar um mat og viðurkenningu á hlífðarfatnaði fyrir slökkviliðsmenn en erindi kæranda hafi verið synjað án þess að slík málsmeðferð hafi farið fram og án nokkurra frekari leiðbeininga.  

Í umsögn Mannvirkjastofnunar segir að viðurkenning stofnunarinnar á vörum sem hafi áhrif á brunaöryggi byggi á 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 75/2000. Vísar Mannvirkjastofnun einnig til 3. gr. reglugerðar nr. 914/2009 um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna. Í málinu hafi verið sótt um viðurkenningu Mannvirkjastofnunar fyrir hlífðarfatnaði sem falli undir samhæfða staðalinn ÍST EN 469 sem settur sé á grundvelli tilskipunar ráðsins 89/686/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna um persónuhlífar. Skýrt komi fram í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna að ef gefinn hafi verið út samhæfður staðall fyrir hlífðarbúnað, eins og við eigi um þann búnað sem hér um ræði, skuli sá búnaður vera CE-merktur og uppfylla ákvæði reglna nr. 501/1994 um gerð persónuhlífa. Í 4. tölul. 4. gr. þeirra reglna segi jafnframt: „Óheimilt er að setja á markað hér á landi persónuhlífar sem falla undir gildissvið þessara reglna nema þær séu merktar með CE-merkinu sem getið er um í III. kafla.“ Ef hlífðarbúnaður er framleiddur eftir öðrum stöðlum, t.d. NFPA stöðlum, þá skuli búnaðurinn einnig uppfylla ÍST EN staðlana, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna. Reglur um CE-merkingu persónuhlífa komi fram í tilskipun 89/686/EBE og reglum nr. 501/1994 um gerð persónuhlífa þar sem ákvæði tilskipunarinnar séu innleidd. Vísað sé til þessara reglna í 3. gr. reglugerðar um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna. Ísland sé skuldbundið skv. EES-samningnum að fylgja hinum samræmdu kröfum tilskipunarinnar hér á landi. Heimild til CE-merkinga persónuhlífa, skv. framangreindri tilskipun, sé háð kröfum um framlagningu tæknilegra gagna, EB-gerðarprófun og framleiðslueftirlits, sbr. 7.-9. gr. og II., VI. og VII. viðauka reglna um gerð persónuhlífa. Vinnueftirlit ríkisins viðurkenni þá aðila sem megi annast gerðarprófanir samkvæmt ákvæðum framangreindra reglna, sbr. 13. gr. reglna um gerð persónuhlífa. Mannvirkjastofnun hafi ekki slíka viðurkenningu. Mannvirkjastofnun hafi túlkað 25. gr. laga nr. 75/2000 þannig að stofnunin geti einungis gefið út viðurkenningu á grundvelli ákvæðisins fyrir vörur sem ekki falli undir samhæfðan evrópskan staðal og séu ekki háðar kröfu um CE-merkingu. Af þeim ástæðum hafi erindi kæranda verið synjað. Viðurkenning Mannvirkjastofnunar geti ekki komið í stað slíks. Ef vara sé ekki CE-merkt sé skýrt bæði í reglugerð um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna og reglum um gerð persónuhlífa að markaðssetning hennar sé ekki heimil. Segir Mannvirkjastofnun þá að ranglega hafi í upphaflegu erindi og í kæru verið vísað til 6. gr. laga um brunavarnir varðandi viðurkenningu Mannvirkjastofnunar. Það ákvæði fjalli um heimildir stofnunarinnar til úttekta á slökkviliðum og eldvarnareftirliti en ekki á vörum sem hafi áhrif á brunaöryggi. Lagastoð 5. gr. reglugerðar um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna sé í 25. gr. laga um brunavarnir en ekki í 6. gr. laganna.  

Í umsögn Vinnueftirlitsins segir að hlífðarfatnaður slökkviliðsmanna sem ætlaður sé til verndar starfsmönnum gegn hita, eldi og/eða kulda teljist til persónuhlífa í skilningi reglna nr. 501/1994 um gerð persónuhlífa, sbr. 2. gr. þeirra. Allar persónuhlífar sem falli undir framangreindar reglur verði að uppfylla grundvallarkröfur varðandi hollustu og öryggi eins og þeim er lýst í I. viðauka við reglur nr. 501/1994, sbr. 2. mgr. 4. gr. reglnanna. Reglur nr. 501/1994 geri þær kröfur til framleiðanda persónuhlífa að þeir sýni fram á samræmi varningsins við grundvallarkröfur varðandi hollustu og öryggi eins og þeim er lýst í I. viðauka við reglurnar. Sé það hægt með t.d. EB(ESB)-gerðarprófun skv. V. kafla reglnanna, sbr. 1. mgr. 5. gr., eða með því að sýna fram á samræmi vörunnar við samræmdan staðal, sbr. 3. mgr. 4. gr. og 3. gr. reglnanna. Eftir að framleiðandi persónuhlífa hafi gert fullnægjandi ráðstafanir til að sýna fram á samræmi persónuhlífa við I. viðauka við reglur nr. 501/1994 þá beri honum eða fulltrúa hans að útbúa EB(ESB)-samræmisyfirlýsingu og framleiðanda að CE-merkja persónuhlífarnar áður en þær séu settar á markað á EES svæðinu, þar með talið á Íslandi, sbr. 4. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 10. gr. reglna nr. 501/1994. Af öllu framangreindu leiði að ólöglegt sé að setja á markað á EES svæðinu, þar með talið á Íslandi, hlífðarfatnað fyrir slökkviliðsmenn sem ætlaður sé til að vernda þá gegn hita, eldi og/eða kulda nema fatnaðurinn sé í samræmi við grundvallarkröfur varðandi hollustu og öryggi, eins og þeim sé lýst í I. viðauka við reglur nr. 501/1994, að fatnaðurinn sé CE-merktur og framleiðandi eða fulltrúi hans geti framvísað EB(ESB)-samræmisyfirlýsingu fyrir fatnaðinn.  

III. Forsendur ráðuneytisins. 

Þann 2. júní 2016 var samþykkt á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 65/2016. Með lögunum voru gerðar tilteknar breytingar á 25. gr. laga nr. 75/2000. Hin kærða ákvörðun var tekin 29. febrúar 2016, þ.e. áður en umrædd breytingalög tóku gildi. Í ljósi þessa lítur ráðuneytið svo á að við úrlausn máls eigi lög nr. 75/2000 við eins og þau voru fyrir gildistöku laga nr. 65/2016. 

Kærandi vísar til 6. gr. laga nr. 75/2000. Í umræddu lagaákvæði segir að Mannvirkjastofnun skuli vinna að samræmingu brunavarna í landinu og stuðla að samvinnu þeirra sem starfi að brunavörnum. Enn fremur að stofnunin skuli með sjálfstæðum athugunum og úttektum leiðbeina sveitarstjórnum um kröfur sem gerðar séu til eldvarnareftirlits og slökkviliða. Ráðuneytið tekur undir það sem fram kemur í umsögn Mannvirkjastofnun um að með ákvæðinu sé átt við úttektir á eldvarnareftirliti og slökkviliðum en ekki á vörum sem hafi áhrif á brunaöryggi. Að mati ráðuneytisins á því ákvæði 6. gr. ekki við í máli þessu.  

Fyrir gildistöku laga nr. 65/2016 var í 1.-3. mgr. 25. gr. laga nr. 75/2000 kveðið á um kröfur til brunaöryggis vöru og var ákvæðið svohljóðandi:  

Hver sá sem framleiðir, flytur inn eða selur vöru sem haft getur áhrif á öryggi mannvirkja og fólks gagnvart eldi skal ábyrgjast að varan fullnægi öryggiskröfum á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við fyrirsjáanlega og eðlilega notkun vörunnar.  

Hafi slík vara ekki fullgilda viðurkenningu á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 1. mgr., skal sá sem framleiðir, flytur inn eða selur vöruna leita viðurkenningar hjá Mannvirkjastofnun eða öðrum aðila sem ráðherra viðurkennir áður en varan er sett á markað hér á landi. Kostnaður vegna beiðni um viðurkenningu skal borinn af þeim sem óskar viðurkenningar.  

Mannvirkjastofnun sker úr um ágreining vegna notkunarsviðs vöru.“ 

Ráðuneytið telur ljóst samkvæmt umræddu ákvæði 25. gr. laga nr. 75/2000, eins og það hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 65/2016, að sú frumskylda hvíldi á framleiðanda, innflytjanda eða seljanda vöru sem haft getur áhrif á öryggi mannvirkja og fólks, að ábyrgjast að varan fullnægði öryggiskröfum á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við fyrirsjáanlega og eðlilega notkun vörunnar. Ljóst er að ýmsar öryggisreglur hér á landi, sem settar hafa verið til innleiðingar á evrópulöggjöf vegna skuldbindinga skv. EES-samningnum, geta átt við um þær vörur sem falla undir ákvæðið, þ.á m. hlífðarbúnað slökkviliðsmanna. Ráðuneytið bendir á að slíkum öryggisreglum beri ætíð að framfylgja í samræmi við skuldbindingar EES-samningsins. Í ljósi þessa ber, að mati ráðuneytisins, að túlka umrædda 2. mgr. 25. gr. laganna á þann veg að eingöngu hafi verið unnt að leita viðurkenningar hjá Mannvirkjastofnun, eða öðrum aðila sem ráðherra hefði viðurkennt, þegar ljóst var að tiltekin vara félli ekki undir slíkar öryggisreglur.  

Reglugerð nr. 914/2009 um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna er sett á grundvelli heimildar í 39. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir.  

Í 3. gr. reglugerðar nr. 914/2009, sem fjallar um kröfur til gæða búnaðar, segir: 

Allur hlífðarbúnaður skal að lágmarki uppfylla ákvæði þeirra ÍST EN staðla sem taldir eru upp í viðauka við reglugerð þessa. Sé keyptur hlífðarbúnaður sem framleiddur er eftir öðrum stöðlum skal búnaðurinn einnig uppfylla ÍST EN staðlana. Ætíð skal miða við nýjustu útgáfu staðalsins. 

Hafi verið gefinn út samhæfður staðall fyrir hlífðarbúnað skal sá búnaður vera CE-merktur og uppfylla ákvæði reglna nr. 501/1994 um gerð persónuhlífa.“ 

Í 5. gr. reglugerðar nr. 914/2009, sem fjallar um kröfur til seljanda hlífðarbúnaðar, segir: 

Seljandi hlífðarbúnaðar fyrir slökkviliðsmenn skal ábyrgjast að hlífðarbúnaðurinn fullnægi öryggiskröfum á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við fyrirsjáanlega og eðlilega notkun búnaðarins. 

Hafi hlífðarbúnaður ekki fullgilda viðurkenningu á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 2. mgr. 3. gr., skal sá sem framleiðir, flytur inn eða selur hlífðarbúnaðinn leita viðurkenningar hjá Brunamálastofnun áður en búnaðurinn er settur á markað hér á landi. Kostnaður vegna beiðni um viðurkenningu skal borinn af þeim sem óskar viðurkenningar. 

Telji Brunamálastofnun að búnaðurinn fullnægi ekki kröfum skv. 1. mgr. er stofnuninni heimilt að banna sölu hans.“ 

Að mati ráðuneytisins kemur skýrt fram í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar að sú skylda hvílir á seljanda hlífðarbúnaðar fyrir slökkviliðsmenn að sjá til þess að búnaðurinn fullnægi þeim öryggiskröfum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Samræmist sú skylda 3. gr. reglugerðarinnar þar sem fram kemur sú skylda að CE-merkja hlífðarbúnað í þeim tilvikum sem samhæfður staðall hefur verið gefið út og er í því sambandi einnig vísað til reglna um gerð persónuhlífa. Ráðuneytið bendir á að samhæfður staðall er gefinn út af staðlaráði Evrópu (CEN) og er hann sérstaklega samþykktur af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem kröfuskjal vegna CE-merkingar vöru. Í viðauka við reglugerðina er að finna samhæfða staðalinn ÍST EN 469 - Hlífðarfatnaður fyrir slökkviliðsmenn sem settur var á grundvelli tilskipunar 89/686/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna um persónuhlífar eins og fram kemur í umsögn Vinnueftirlitsins.  

Eins og áður getur gilda ekki eingöngu lög um brunavarnir og reglugerð um hlíðarbúnað slökkviliðsmanna um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna. Slíkur búnaður fellur einnig undir lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, sökum þess að slíkum búnaði er ætlað að vernda slökkviliðsmenn við þeirra störf. Á grundvelli þeirra laga hafa verið settar tilteknar öryggisreglur, þ.e. reglur nr. 501/1994 um gerð persónuhlífa. Með þeim reglum var innleidd tilskipun 89/686/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna um persónuhlífar eins og henni var breytt með tilskipunum 93/95/EBE og 93/68/EBE. Í reglunum er kveðið á um skilyrði fyrir markaðssetningu persónuhlífa innan Evrópska efnahagssvæðisins og þær grunnkröfur um öryggi sem þær verða að uppfylla. Þar koma fram kröfur um framlagningu tæknilegra gagna, EB-gerðarprófun, framleiðslueftirlit og EB-samræmisyfirlýsingu sbr. eftirfarandi.  

Í 1. og 2. tölul. 1. gr. reglna nr. 501/1994 segir: 

„1. Reglur þessar gilda um persónuhlífar sem settar eru á markað og ætlaðar eru til notkunar á vinnustöðum sem lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum gilda um. Reglurnar gilda jafnframt um persónuhlífar sem seldar eru eða leigðar jöfnum höndum til notkunar við atvinnurekstur og einkanota almennings, séu þær ekki háðar öðrum lögum eða reglum. 

2. Í reglum þessum er kveðið á um skilyrði fyrir markaðssetningu persónuhlífa innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) svo og grunnkröfur um öryggi sem þær verða að uppfylla til að tryggja heilsuvernd og öryggi notenda.  

Í 2. gr. reglna nr. 501/1994 segir: 

„1. Í reglum þessum er orðið persónuhlíf notað um hvers konar búnað eða tæki, sem einstaklingar klæðast eða halda á, sér til verndar gegn hættu eða hættum er ógna heilsu eða öryggi þeirra.  

2. Orðið persónuhlíf getur auk þess átt við:  

a) íhluta í persónuhlíf sem hægt er að skipta um og eru ómissandi fyrir eðlileg not hennar og notast eingöngu í slíkum búnaði,  

b) öll kerfi sem ætluð eru til notkunar ásamt persónuhlífum til að tengja þær við annan aukabúnað og teljast óaðskiljanlegur hluti af þeim búnaði jafnvel þótt ekki sé ætlast til að notandi klæðist eða haldi stöðugt á þeim á meðan hættan steðjar að.“  

 

Í 3. gr. reglna nr. 501/1994 segir: 

„Í þessum reglum merkir samræmdur staðall texta sem inniheldur tækniforskriftir samkvæmt evrópskum staðli eða samhæfingarskjali sem Evrópsku staðlasamtökin (CEN) eða Evrópsku rafstaðlasamtökin (CENELEC) hafa samþykkt.  

Í 3. og 4. tölul. 4. gr. reglna nr. 501/1994 segir: 

„3. Líta verður svo á að persónuhlífar sem eru framleiddar, prófaðar og merktar samkvæmt samræmdum staðli, uppfylli þær grunnkröfur sem um getur í I. viðauka. 

4. Óheimilt er að setja á markað hér á landi persónuhlífar sem falla undir gildissvið þessara reglna nema þær séu merktar með CE-merkinu sem getið er um í III. kafla.  

Í 1. tölul. 5. gr. reglna nr. 501/1994 segir: 

„1. Heimilt er að setja á markað hér á landi án takmarkana eða hindrana persónuhlífar eða íhluta í persónuhlífar, sem merkt eru með CE-merkinu, ef það uppfyllir öll ákvæði þessara reglna, þar með talin ákvæði sem taka til vottunarferilsins í 7., 8., 9. og 10 gr.“ 

Í 1. tölul. 8. gr. reglna nr. 501/1994 segir: 

„1. Áður en raðframleiðsla persónuhlífa hefst skal framleiðandi eða umboðsmaður hans innan EES afhenda eintak til EB-gerðarprófunar hjá samþykktum skoðunaraðila innan EES í samræmi við þau ákvæði sem um getur í VI. viðauka.  

Í 2. tölul. 8. gr. reglnanna eru taldar upp tilteknar persónuhlífar sem undanþegnar eru EB-gerðarprófun. 

Í 1. og 2. tölul. 10. gr. reglna nr. 501/1994 segir: 

„1. EB-samræmisyfirlýsingin er það ferli sem framleiðandi eða fulltrúi hans innan EES útbýr fyrir hverja gerð persónuhlífar eftir fyrirmyndinni í V. viðauka og vottar að persónuhlífar sem hann setur á markaðinn séu í samræmi við ákvæði þessara reglna. Vinnueftirlitið getur krafist þess að yfirlýsingin sé lögð fram. 

2. Framleiðandinn skal merkja hverja persónuhlíf með "CE"-merki um samræmi eins og um getur í 11. gr.“ 

Í 1. tölul. 13. gr. regla nr. 501/1994 segir: 

„1. Vinnueftirlit ríkisins viðurkennir þá aðila sem taka að sér gerðarprófanir samkvæmt ákvæðum þessara reglna og eru á skrá hjá stjórnvöldum aðildarríkjanna innan EES.“ 

Ráðuneytið telur ljóst samkvæmt gögnum málsins að ekki er ágreiningur með aðilum um það hvort umræddur hlífðarfatnaður teljist vera persónuhlíf, sbr. 2. gr. reglna nr. 501/1994 um gerð persónuhlífa, heldur varðar hann eingöngu túlkun og beitingu viðeigandi laga og reglna. Í ljósi þess að umræddur hlífðarbúnaður fellur undir umræddar reglur ber að mati ráðuneytisins að uppfylla þær öryggiskröfur sem þar koma fram vegna markaðssetningar á umræddum búnaði.  

Að mati ráðuneytisins kemur skýrt fram í 4. tölul. 4. gr. reglna um gerð persónuhlífa að óheimilt er að setja á markað hér á landi persónuhlífar sem falla undir gildissvið reglnanna nema þær séu merktar með CE-merkinu. Þá er samkvæmt 1. tölul. 5. gr. reglnanna eingöngu heimilt að setja á markað persónuhlífar sem eru merktar með CE-merkinu ef ákvæði reglnanna eru uppfyllt, þ.m.t. ákvæði sem taka til vottunarferlisins, sbr. 7.-10. gr. Í umræddum ákvæðum koma fram kröfur um framlagningu tæknilegra gagna, EB-gerðarprófun, framleiðslueftirlit og EB-samræmisyfirlýsingu. Eins og fram kemur í 3. tölul. 4. gr. reglna nr. 501/1994 þá er litið svo á að persónuhlífar sem eru framleiddar, prófaðar og merktar samkvæmt samræmdum staðli, uppfylli þær grunnkröfur sem um er getið í I. viðauka reglnanna. Bent er á í þessu sambandi að hugtakið samræmdur staðall hefur sömu merkingu og samhæfður staðall. Eins og áður hefur komið fram þá var samhæfði staðalinn ÍST EN 469 - Hlífðarfatnaður fyrir slökkviliðsmenn, settur á grundvelli tilskipunar 89/686/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna um persónuhlífar, sem innleidd var með reglum 501/1994 um gerð persónuhlífa.  

Í máli þessu er kærð synjun Mannvirkjastofnunar á að meta og viðurkenna Globe hlífðarbúnað í samræmi við 25. gr. laga nr. 75/2000 og 5. gr. reglugerðar nr. 914/2009. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda er umræddur Globe hlífðarfatnaður framleiddur samkvæmt staðlinum NFPA 1971.  

Í samræmi við framangreint er það mat ráðuneytisins að á framleiðanda, innflytjanda eða seljanda hlífðarbúnaðar slökkviliðsmanna hvíli sú skylda að ábyrgjast að varan fullnægi öryggiskröfum á evrópska efnahagssvæðinu eins og fram kom í 25. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir, eins og hún var fyrir gildistöku laga nr. 65/2016, sbr. einnig 3. og 5. gr. reglugerðar nr. 914/2009 um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna og 4. og 5. gr. reglna nr. 501/1994 um gerð persónuhlífa. Um þessar öryggiskröfur er fjallað í umsögnum Mannvirkjastofnunar og Vinnueftirlitsins til ráðuneytisins í máli þessu. Að mati ráðuneytisins var eingöngu unnt að leita viðurkenningar hjá Mannvirkjastofnun, eða öðrum aðila sem ráðherra viðurkenndi, ef ljóst var að viðkomandi vara félli ekki undir slíkar öryggisreglur. Í því tilviki sem hér ræðir um er ljóst að varan fellur undir öryggisreglur á Evrópska efnahagssvæðinu, þ.e. reglur um gerð persónuhlífa og samhæfða staðalinn ÍST EN 469 – Hlífðarfatnaður fyrir slökkviliðsmenn. Staðall þessi heyrir undir samræmdan staðal skv. 4. gr. reglna um gerð persónuhlífa auk þess sem skýrt er í 3. gr. reglugerðar um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna að hlífðarbúnaður skuli vera CE-merktur, hafi verið gefið út samhæfður staðall, en umræddur staðall er tilgreindur í viðauka reglugerðarinnar. Kærandi þarf því að uppfylla kröfur um framlagningu tæknilegra gagna, EB-gerðarprófun, framleiðslueftirlit og EB-samræmisyfirlýsingu sem fram koma í reglum um gerð persónuhlífa en benda má á að Mannvirkjastofnun hefur ekki þá viðurkenningu frá Vinnueftirliti ríkisins sem krafa er gerð um í 1. tölul. 13. gr. reglna nr. 501/1994, til að taka að sér gerðarprófanir skv. ákvæðum reglnanna. Í ljósi þessa er það mat ráðuneytisins að hin kærða ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 29. febrúar 2016 um synja kæranda um mat og viðurkenningu á Globe hlífðarfatnaði fyrir slökkviliðsmenn samræmist 25. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir, eins og ákvæðið hljóðaði þegar hin kærða ákvörðun var tekin, ákvæðum reglugerðar nr. 914/2009 um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna og reglum nr. 501/1994 um gerð persónuhlífa.  

IV. Niðurstaða. 

Með vísan til þeirra forsendna sem fram koma í III. kafla telur ráðuneytið að Mannvirkjastofnun hafi verið rétt að synja Kosti lágvöruverðsverslun ehf. um mat og viðurkenningu á Globe hlífðarfatnaði fyrir slökkviliðsmenn. Að mati ráðuneytisins var samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 75/2000 eingöngu unnt að leita viðurkenningar hjá stofnuninni ef ekki voru í gildi öryggiskröfur á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 1. mgr. 25. gr. laganna, um viðkomandi vöru. Ráðuneytið telur því að hin kærða ákvörðun sé ekki haldin lagalegum annmörkum heldur hafi verið í samræmi við ákvæði laga nr. 75/2000 um brunavarnir, reglugerð nr. 914/2009 um hlífðarbúnað slökkviliðsmanna og reglur nr. 501/1994 um gerð persónuhlífa.  

Að öllu framanvirtu er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Mannvirkjastofnunar um að synja Kosti lágvöruverðsverslun ehf. um mat og viðurkenningu á Globe hlífðarfatnaði fyrir slökkviliðsmenn.  

Úrskurðarorð: 

Hin kærða ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 29. febrúar 2016 þess efnis að synja Kosti lágvöruverðsverslun ehf. um mat og viðurkenningu á Globe hlífðarfatnaði fyrir slökkviliðsmenn er staðfest.  

Björt Ólafsdóttir

Íris Bjargmundsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum