Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Úrskurður nr. 626/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. nóvember 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 626/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17100027

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 11. október 2017 kærði [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. október 2017, um að synja henni um dvalarleyfi vegna vistráðningar.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi hafi lagt fram umsókn um dvalarleyfi vegna vistráðningar þann 8. júní 2017. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. október 2017, hafi umsókn hennar verið synjað. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin fyrir hönd kæranda hér á landi þann 5. október 2017. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála þann 11. október 2017. Kærunni fylgdu athugasemdir kæranda ásamt fylgigagni.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga um útlendinga skuli umsækjandi um dvalarleyfi á grundvelli samnings um vistráðningu fullnægja skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. og megi ekki vera yngri en 18 ára eða eldri en 25 ára þegar umsókn sé lögð fram. Þar sem kærandi hefði verið á 26. aldursári þegar hún lagði fram umsókn um dvalarleyfi vegna vistráðningar uppfyllti hún ekki aldursskilyrði 1. mgr. 68. gr. laga um útlendinga. Var umsókn hennar synjað á þeim grundvelli.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kæranda kemur fram að við gerð umsóknar um vistráðningu hafi hvergi komið fram í leiðbeiningum á heimasíðu Útlendingastofnunar að miðað væri við 25 ára afmælisdag. Samkvæmt almennri málvenju sé kærandi 25 ára þar til að hún eigi 26 ára afmæli í desember nk. Á þeim degi verði kærandi eldri en 25 ára. Þá hafi kærandi hvergi fundið stoð fyrir því í lögum að einstaklingur teljist eldri en 25 ára þegar hann sé „25 og hálfs árs“. Útlendingastofnun líti hins vegar svo á að strax eftir 25 ára afmælisdag sé einstaklingur orðinn eldri en 25 ára. Kærandi telur að sú túlkun sé ekki hafin yfir allan vafa og óskar eftir endurskoðun á henni. Hvorki í lagagreininni sjálfri né í lögskýringargögnum sé vísað til afmælisdags. Þegar þannig hátti til sé full ástæða til að túlka þann vafa umsækjanda í hag. Leiðbeiningar á heimasíðu Útlendingastofnunar verði að hafa lagastoð, en í tilviki kæranda leiki verulegur vafi á því að viðmið við afmælisdag standist kröfur 68. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi vegna vistráðningar, sbr. 68. gr. laga um útlendinga.

Í 68. gr. laga um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi vegna vistráðningar. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli samnings um vistráðningu á heimili fjölskyldu hér á landi. Umsækjandi þarf að fullnægja skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. og má ekki vera yngri en 18 ára eða eldri en 25 ára þegar umsókn er lögð fram. Með hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda synjað um dvalarleyfi vegna vistráðningar á þeim grundvelli að uppfyllti ekki aldursskilyrði ákvæðisins þar sem hún hefði verið á 26. aldursári er hún hefði lagt fram umsókn sína.

Kærandi byggir á því að það leiði af orðalagi 1. mgr. 68. gr. laga um útlendinga að hún sé eldri en 25 ára þar til að hún eigi 26 ára afmæli í desember nk. Að mati kærunefndar gefur orðalag ákvæðisins svigrúm til túlkunar um hvernig fara eigi með umsóknir um dvalarleyfi vegna vistráðningar frá umsækjendum sem eru á 26. aldursári þegar umsókn er lögð fram. Hins vegar telur nefndin að horfa verði til forsögu ákvæðisins. Samkvæmt 12. gr. d eldri laga um útlendinga nr. 96/2002, sem leyst voru af hólmi með gildistöku laga um útlendinga nr. 80/2016 þann 1. janúar sl., voru skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis vegna vistráðningar m.a. að útlendingur væri ekki yngri en 18 ára eða eldri en 25 ára. Ákvæðið kom inn í eldri lög um útlendinga með lögfestingu laga nr. 86/2008 um breyting á lögum um útlendinga, sbr. 10. gr. laganna. Í athugasemdum við það ákvæði í frumvarpi til laga nr. 86/2008 kom fram að lagt væri til að efri aldursmörkin yrðu miðuð við að sótt væri um leyfi áður en útlendingur yrði 25 ára þannig að tryggt væri að hann lyki vistinni á 26. aldursári.

Þá kemur orðalagið „eldri en“ tiltekinn aldur fram í fleiri ákvæðum laga um útlendinga. Í 1. mgr. 56. gr., 1. mgr. 65. gr., 1. mgr. 67. gr., 1. mgr. 68. gr., 1. mgr. 78. gr. og 1. mgr. 79. gr. laganna er vísað til þess að einstaklingur þurfi að vera „eldri en 18 ára“ til að geta sótt um tiltekin réttindi. Kærunefnd hefur í framkvæmd nefndarinnar litið svo á að orðalagið „eldri en 18 ára“ eigi við um þá einstaklinga sem náð hafa 18 ára aldri.

Í ljósi forsögu ákvæðisins og með vísan til innra samræmis við túlkun hugtaka í lögum um útlendinga er það niðurstaða kærunefndar að hugtakið „eldri en 25 ára“ í 1. mgr. 68. gr. laga um útlendinga skuli túlkað á þann veg að þar sé átt við þá sem ekki hafa náð 25 ára aldri. Þar sem kærandi var á 26. aldursári þegar hún lagði fram umsókn um dvalarleyfi vegna vistráðningar uppfyllti hún ekki skilyrði ákvæðisins.

Kærandi byggir á því að hún hafi fengið rangar leiðbeiningar varðandi þetta atriði hjá Útlendingastofnun. Leiðbeiningar stofnunarinnar hafi kveðið á um að útlendingar á aldrinum 18 til 25 ára gætu lagt fram umsókn um dvalarleyfi vegna vistráðningar.

Með kæru kæranda fylgdi ljósmynd af enskum leiðbeiningum á heimasíðu Útlendingastofnunar um dvalarleyfi vegna vistráðningar, en kærandi kveður myndina hafa verið tekna í maí sl. við gerð umsóknar hennar um dvalarleyfi. Í leiðbeiningunum, sem fjalla um dvalarleyfi vegna vistráðningar samkvæmt 12. gr. d eldri laga um útlendinga, segir að umsækjandi verði að vera á aldrinum 18 til 25 ára þegar umsókn er lögð fram (e. between the ages of 18 and 25). Í leiðbeiningum sem nú er að finna á heimasíðu Útlendingastofnunar segir að dvalarleyfi vegna vistráðningar sé fyrir einstaklinga á aldrinum 18 til 25 ára sem hafi áhuga á að starfa sem „au pair“ á Íslandi. Fram kemur að miðað sé við 25 ára afmælisdag en þar sem afgreiðsla umsóknar geti tekið allt að 90 daga eftir að fullnægjandi gögn hafi borist sé ekki mögulegt að leggja fram dvalarleyfisumsókn á þessum grundvelli stuttu áður en umsækjandi verði 25 ára. Þá segir að útlendingur geti átt rétt á „au pair“ leyfi ef hann uppfyllir tiltekin skilyrði, m.a. um að hann sé á aldrinum 18 til 25 ára þegar umsókn er lögð fram. Í enskri útgáfu leiðbeininganna koma sömu upplýsingar fram. Af framangreindu er ljóst að ekki er fullt samræmi í leiðbeiningum á heimasíðu Útlendingastofnunar um það hvort útlendingur geti lagt fram umsókn um dvalarleyfi vegna vistráðningar þegar hann er á 26. aldursári. Þótt kærandi kunni að hafa haft tilteknar væntingar um að henni yrði veitt dvalarleyfi vegna vistráðningar á 26. aldursári tekur kærunefnd fram að villandi leiðbeiningar stjórnvalds geta ekki verið grundvöllur réttinda sem eiga sér ekki lagastoð að öðru leyti. Að þessu virtu verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest á þeim grundvelli að kærandi uppfyllti ekki aldursskilyrði 1. mgr. 68. gr. laga um útlendinga er hún lagði fram umsókn um dvalarleyfi vegna vistráðningar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum