Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 68/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 68/2019

Mánudaginn 15. maí 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. febrúar 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. desember 2019, um endurhæfingarlífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 4. nóvember 2018, sótti kærandi um endurhæfingarlífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 13. nóvember 2018, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 3. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. a-lið 1. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar um rétt til lífeyris á grundvelli búsetu hér á landi. Í kjölfar framlagningar gagna og kröfu kæranda um endurskoðun synjaði Tryggingastofnun kæranda á ný með tveimur ákvörðunum, dags. 3. desember og 13. desember 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 13. febrúar 2019. Með bréfi, dags. 14. febrúar 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. mars 2019. Með bréfi, mótteknu 12. mars 2019, bárust athugasemdir kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með bréfi, dags. 19. mars 2019, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. mars 2019. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að synjun Tryggingastofnunar á umsókn hans um endurhæfingarlífeyri verði endurskoðuð og að fallist verði á umsókn hans. Þá fer kærandi fram á undanþágu á sérreglum sem gildi þegar skert vinnufærni sé til staðar við komu til landsins, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og ákvæði a-liðar 1. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007.

Kærandi hafi verið óvinnufær í X ár. Kærandi eigi langa sögu um kvíða frá X ára aldri og þá uppfylli hann greiningarviðmið almennrar kvíðaröskunar að mati geðlæknis hjá B og sálfræðingi hjá VIRK.

Upphaf óvinnufærni kæranda megi rekja til X. Þegar kærandi hafi verið fjarverandi í X vikur frá vinnu vegna slyss hafi hann [...]. Kærandi hafi leitað til bráðamóttöku geðdeildar og farið í viðtal hjá geðlækni sem hafi sagt að hann væri sennilega með almenna kvíðaröskun, [...] og að hann þyrfti á viðtölum við geðlækni að halda. Á þessum tíma hafi verið X mánaða bið eftir viðtali hjá geðlækni og hafi hann því verið settur á biðlista. Kærandi hafi ekki getað beðið svo lengi vegna slæmrar geðheilsu og hafi hann því leitað til heimilislæknis sem hafi skrifað upp á róandi lyf og seinna meir kvíða- og þunglyndislyf. Heimilislæknirinn hafi sagt að hann gæti beðið eftir viðtali hjá geðlækni á Landspítala eða borgað sjálfur fyrir tíma hjá geðlækni á einkastofu. Þar sem kærandi hafi ekki haft efni á slíkum viðtölum hafi hann verið hvattur til að notast við lyf til að gera lífið bærilegra á meðan hann biði eftir úrræði hjá Landspítala. Hefði kærandi vitað að hann hefði getað sótt námskeið í hugrænni atferlismeðferð hjá heilsugæslunni hefði hann beðið um að fara á slíkt námskeið. Kærandi hafi ekki fengið skilning hjá vinnuveitanda sínum vegna veikindanna og hafi hann því sagt upp starfi sínu í X.

Kærandi hafi upplifað mikið hjálparleysi og hafi fundið að hann gæti ekki beðið mikið lengur eftir aðstoð þar sem andlegri heilsu hans hafi hrakað mjög mikið. Í X hafi kærandi ákveðið að flytja til C ásamt [...] í von um betri þjónustu. Það hafi ekki verið ætlunin að búa þar til lengri tíma heldur hafi […] hugsað sér að flytja aftur til Íslands með betri heilsu. Það sé því kaldhæðnislegt að hann hafi farið út vegna langrar biðar eftir þjónustu á Íslandi og hafi endað á að bíða mikið lengur eftir almennilegri þjónustu í C.

Eftir um X ár í C hafi kærandi fengið viðtalsmeðferð hjá geðhjúkrunarfræðingi til að byrja með og svo hjá sálfræðingi en sú meðferð hafi verið án árangurs. Í kjölfar rannsóknar í X vegna [...] hafi komið í ljós [...] og hafi þá vaknað grunur um [...]. Enn sé ekki vitað hvað valdi [...] en það sé fylgst reglulega með þeim. Streitan og óvissan sem hafi fylgt þessum fréttum hafi haft neikvæð áhrif á kæranda og hafi hann oft fengið [...]. Kærandi hafi fengið [...] vegna [...] og hjálpi þeir einnig við að draga úr [...].

Eftir X í C hafi kærandi gefist upp og flutt aftur til Íslands í X. Síðan þá hafi hann verið tekjulaus, hann hafi fengið synjun frá Tryggingastofnun um endurhæfingarlífeyri og þá eigi hann hvorki rétt á atvinnuleysisbótum né fjárhagsaðstoð.

Stuttu eftir að kærandi flutti til landsins hafi hann sótt um þjónustu hjá VIRK og hafi byrjað í endurhæfingu hjá B í X. Þessi stutti tími í endurhæfingu hafi hjálpað honum mikið. Kærandi hafi skýr framtíðaráform og vilji ná heilsu svo að hann geti orðið virkur samfélagsþegn á ný.

Kærandi telji að hefði hann vitað af þeim úrræðum sem honum hafi staðið til boða hér á landi hefði hann ekki flutt til C. Fjárhagsáhyggjur hafi neikvæð áhrif á endurhæfingu hans og því voni hann að fallist verði á að biðtíminn eftir endurhæfingarlífeyri verði styttur úr þremur árum í sex mánuði.

Í athugasemdum kæranda spyr kærandi hvort sérákvæði um tryggingavernd í 1. mgr. 5. gr. laga um almannatryggingar geti átt við í hans tilfelli þar sem  maki hans hafi [...] á meðan þau dvöldu í C. 

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærðar séu synjanir á umsóknum kæranda um endurhæfingarlífeyri þar sem hann uppfylli ekki skilyrði um búsetu.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Greinin sé svohljóðandi:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.

Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um hvaða aðila skuli falið að annast gerð endurhæfingaráætlunar“.

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð gildi ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar um endurhæfingarlífeyri. Í 4. og 5. mgr. sé fjallað um upphæð og skerðingu lífeyrisins en í a-lið 1. mgr. sé tekið sérstaklega fram að rétt til lífeyris eigi þeir sem hafi verið búsettir á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka hafi verið óskert er þeir tóku hér búsetu.

Endurhæfingarlífeyrir sé eingöngu greiddur einstaklingum með lögheimili hér á landi í skilningi lögheimilislaga. Upplýsingar um lögheimilisskráningu sæki Tryggingastofnun til Þjóðskrár Íslands. Samkvæmt upplýsingum þaðan hafi kærandi verið með lögheimili í C frá X til X.

Tryggingastofnun hafi fyrst borist umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri þann 4. nóvember 2018. Með umsókninni hafi fylgt læknisvottorð D, dags. X 2018, þar sem fram komi að kærandi hafi verið óvinnufær frá árinu X. Þá komi fram í vottorðinu að kærandi hafi flutt til C til að leita lausna við sömu kvillum og hrjái hann enn í dag og hann hafi búið þar í X ár. Þar sem kærandi hafi ekki flutt aftur til Íslands fyrr en í X, samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá, hafi starfshæfni hans verið skert við flutning hans aftur til landsins eins og staðan hafi verið þegar hann hafi flutt til C. Umsókninni hafi því verið synjað með bréfi, dags. 13. desember 2018, þar sem hann hafi ekki uppfyllt það skilyrði laga að hafa verið búsettur á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn var lögð fram. 

Eftir fyrstu synjunina hafi Tryggingastofnun borist þann 6. desember 2018 ósk kæranda um endurskoðun á fyrri synjun og greinargerð frá B endurhæfingu. Með þeirri beiðni hafi fylgt staðfesting frá E. Við frekari skoðun málsins hafi ekki þótt rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem nýjar upplýsingar hafi ekki gefið tilefni til breytinga á fyrra mati. Jafnframt hafi verið vakin athygli á að Norðurlandasamningurinn sem sé í gildi hér á landi komi ekki til skoðunar í tilviki kæranda því að ef ákvæði samningsins eigi að virkjast þá þurfi kærandi að hafa verið virkur á vinnumarkaði í C og eiga rétt á greiðslum þaðan. Af gögnum megi ráða að kærandi hafi ekki verið í vinnu síðastliðin X ár. Á þeim forsendum hafi kæranda í framhaldinu verið synjað tvisvar sinnum í viðbót um endurhæfingarlífeyri með bréfum, dags. 3. desember 2018 og 13. desember 2018, þar sem hann eigi ekki rétt á greiðslum endurhæfingarlífeyris fyrr en þremur árum eftir að búseta hófst að nýju á Íslandi.

Tryggingastofnun sé bundin af þeim upplýsingum sem komi fram í Þjóðskrá um búsetu og lögheimili kæranda. Stofnunin taki þó fram að verði breyting á endurhæfingu kæranda eða aðstæðum sé hægt að leggja inn nýja umsókn og endurhæfingaráætlun, auk gagna frá fagaðilum sem staðfesti virka þátttöku í endurhæfingu.

Tryggingastofnun telji ljóst að synjun stofnunarinnar á endurhæfingarlífeyri til kæranda, þar sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði um búsetu, hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög um almannatryggingar, lög um félagslega aðstoð og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga. Megi meðal annars í því samhengi benda á nýlegt mál úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 354/2015 og eldri mál úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 124/2010, 407/2012 og 282/2014. Í öllum þessum málum hafi atvik verið nokkuð sambærileg og í þessu máli. Tryggingastofnun telji því ekki ástæðu til þess að breyta ákvörðun sinni.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að þrátt fyrir að maki kæranda hafi verið [...] erlendis þá veiti það [...] ekki aukin réttindi hérlendis.

Að öllum gögnum málsins virtum á ný þá telji Tryggingastofnun að synjun stofnunarinnar á endurhæfingarlífeyri í tilviki kæranda, þar sem hann hafi verið óvinnufær vegna veikinda við komuna til Íslands, hafi verið í samræmi við gögn málsins og fari fram á að niðurstaðan verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri, dags. 13. desember 2018. Ágreiningur málsins snýst um það hvort Tryggingastofnun hafi verið heimilt að synja kæranda um greiðslu endurhæfingarlífeyris vegna búsetu hans í C.

Í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er kveðið á um endurhæfingarlífeyri en þar segir í 3. mgr. að um endurhæfingarlífeyri gildi ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 1. mgr. nefndrar 18. gr. segir að rétt til örorkulífeyris eigi þeir sem hafi verið búsettir á Íslandi, sbr. I. kafla, séu á aldrinum 18 til 67 ára og hafi verið búsettir á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert þegar þeir tóku hér búsetu.

Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn 4. nóvember 2018. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að ekki væru uppfyllt skilyrði 3. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. a-lið 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar um búsetu hér á landi.

Ljóst er að framangreint búsetuskilyrði a-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar gildir einnig um endurhæfingarlífeyri þar sem vísað er beint til ákvæðisins í 7. gr. laga um félagslega aðstoð sem kveður á um endurhæfingarlífeyri.

Samkvæmt upplýsingum úr breytingaskrá Þjóðskrár Íslands var kærandi skráður með lögheimili í C á tímabilinu X til X. Það er í samræmi við þær upplýsingar sem koma fram í kæru. Samkvæmt framangreindu var skilyrði um þriggja ára búsetu hér á landi ekki uppfyllt þegar umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri barst Tryggingastofnun þann 4. nóvember 2018. Í læknisvottorði D, dags. X 2018, sem fylgdi með umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri, kemur fram að kærandi hefur verið óvinnufær frá árinu X. Því er ljóst að starfsorka kæranda var ekki óskert í skilningi a-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar þegar hann flutti aftur til Íslands í X.

Að öllu framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd að skilyrði a-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, um búsetutíma á Íslandi séu ekki uppfyllt í máli þessu. Engar heimildir eru til að víkja frá framangreindu skilyrði í tilviki kæranda. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um endurhæfingarlífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum