Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 383/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 383/2018

Miðvikudaginn 5. desember 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 30. október 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. ágúst 2018 um greiðslu örorkustyrks.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur á árunum 2017 og 2018 ítrekað sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, síðast með umsókn, dags. 29. mars 2018. Tryggingastofnun ríkisins hefur synjað umsóknum kæranda með þeim rökum að hún uppfylli hvorki skilyrði staðals til fullrar örorku né örorkustyrks, síðast með ákvörðun, dags. 14. maí 2018. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. kærumál nr. 190/2018. Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 15. ágúst 2018, var annars vegar staðfest sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en nefndin felldi hins vegar úr gildi ákvörðun stofnunarinnar um að synja kæranda um örorkustyrk og féllst á að skilyrði örorkustyrks væru uppfyllt. Úrskurðarnefndin heimvísaði málinu til ákvörðunar á tímalengd örorkustyrks. Samkvæmt gögnum málsins ákvarðaði Tryggingastofnun ríkisins örorkustyrk frá X 2017 til X 2019, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 23. ágúst 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. október 2018. Af hálfu nefndarinnar var haft símasamband við Tryggingastofnun ríkisins þann 8. nóvember 2018 og fengust þær upplýsingar að kærandi hafi ekki sótt um örorkulífeyri að nýju eftir úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 190/2018.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hún krefjist þess að fallist verði á að hún uppfylli skilyrði örorkulífeyris.

Í kæru kemur fram að kærð sé afgreiðsla Tryggingastofnunar á umsókn hennar um örorku. Kærandi byggir málatilbúnað sinn á því að ákvörðun um að synja henni um örorku sé ekki réttmæt þar sem að hún uppfylli kröfur um örorku og að þetta sé í þriðja sinn sem umsókn hennar sé synjað.

Kærandi hafi útskrifast úr VIRK í X 2017 með 50% starfsgetu en hafi hvorki getað unnið né sinnt sínu starfi sem [...] vegna mikilla verkja í líkama eftir  [slys] í X. Þá þjáist hún einnig af miklum kvíða og áfallastreituröskun og hafi ekki unnið síðan […] nema í smá hlutastarfi sem [...].

Hjá Tryggingastofnun liggi nokkur læknisvottorð og starfsgetumat VIRK þar sem fram komi að kærandi sé ekki með fulla starfsgetu.

Kærandi hafi alltaf verið mjög heilsuhraust en við slysið hafi hún skaddast á [...]og [...]og hafi þurft að hætta að vinna sem [...]. Í kjölfarið hafi kærandi þróað með sér mikinn kvíða og mikla vanlíðan. Kærandi hafi farið í endurhæfingu hjá VIRK í X og hafi ráðgjafi bent henni á að sækja um örorku hjá Tryggingastofnun þegar hún myndi útskrifast frá þeim. Hún hafi fyrst sótt um örorku í X 2017 og hún sé enn að fá synjun frá Tryggingastofnun. Kærandi sé á barmi taugaáfalls við allar þessar synjanir og hún megi ekki við því ofan á hennar dagsdaglega kvíða og vanlíðan.

Kærandi vilji einnig koma því á framfæri að það hafi ekki verið hennar val að vera í þessari stöðu og þess vegna ætti hún ekki að þurfa að sitja undir því að þurfa að berjast fyrir rétti sínum þegar allt sé nú þegar borðleggjandi.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. ágúst 2018 um greiðslu örorkustyrks.

Fyrir liggur úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála í kærumáli nr. 190/2018 þess efnis að kærandi uppfylli ekki skilyrði örorkulífeyris en að hún uppfylli skilyrði örorkustyrks. Í kjölfar framangreinds úrskurðar tók Tryggingastofnun ákvörðun um gildistíma örorkustyrks kæranda með bréfi, dags. 23. ágúst 2018. Af kæru verður ekki ráðið að kærandi sé ósátt við ákvörðun Tryggingastofnunar um gildistíma örorkustyrks heldur virðist hún telja að um sé að ræða nýja synjun á umsókn um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Af kæru má ráða að kærandi krefjist greiðslu örorkulífeyris og tengdra greiðslna. Engin ný gögn voru lögð fram með kæru.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Úrskurðarnefndin óskaði nánari upplýsinga frá Tryggingastofnun ríkisins í þeim tilgangi að upplýsa hvort kærandi hafi sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur að nýju eftir að úrskurður féll í kærumáli nr. 190/2018 og fékk þær upplýsingar að svo væri ekki.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvarðanir er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds.

Með stjórnvaldsákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. maí 2018, var kæranda synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur sem og örorkustyrk. Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 15. ágúst 2018, var kveðið á um að kærandi uppfyllti skilyrði örorkustyrks en ekki örorkulífeyris. Málinu var heimvísað til Tryggingastofnunar til ákvörðunar á tímalengd örorkustyrks. Með stjórnvaldsákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. ágúst 2018 var kæranda ekki synjað um örorkulífeyri að nýju, enda hefur engin ný umsókn borist frá kæranda, heldur er einungis kveðið á um gildistíma örorkustyrks. Eins og áður hefur komið fram er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi sé ekki að kæra þá ákvörðun heldur krefjist hún greiðslu örorkulífeyris og tengdra greiðslna. Ljóst er því að úrskurðarnefnd velferðarmála hefur þegar úrskurðað um ágreiningsefni málsins. Með vísan til þess er kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum