Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 59/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA 

 nr. 59/2015

 

Ár 2015, miðvikudaginn 11. mars, er tekið fyrir mál nr. 6/2015; kæra A og B. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :


I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kærenda var sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 19. maí 2014. Útreikningur ríkisskattstjóra á leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána kærenda var birtur kærendum 11. nóvember 2014 og grundvallaðist hann á þeim verðtryggðu lánum sem tilgreind voru í lið 5.2 í skattframtölum þeirra árin 2009 og 2010, vegna tekjuáranna 2008 og 2009, nánar tiltekið lánum X banka nr. 1 og 2.

Með kæru til úrskurðarnefndar um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, dags. 2. janúar 2015, kærðu kærendur fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Kærendur krefjast þess að lán X banka nr. 3 verði tekið til greina við útreikning ríkisskattstjóra. Í kæru er vísað til þess að lánið hafi verið útgefið 20. janúar 2004, samtals fjárhæð 1.752.449 kr. Það hafi verið tekið til að fjármagna stækkun á fasteign kærenda. Kærendur lögðu ekki fram gögn þessu til stuðnings.

 

II.

Ljóst er að lán X banka nr. 3 var ekki fært í reit 5.2. í skattframtölum kærenda 2009 og 2010. Í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, kemur fram það skilyrði fyrir því að lán sé leiðrétt samkvæmt ákvæðum þeirra laga að vaxtagjöld af því láni hafi verið viðurkennd sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta, í heild eða hluta, á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Í ákvæði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 35/2014 kemur einnig fram að þrátt fyrir að einstaklingur hafi fært verðtryggð fasteignalán með þeim lánum á skattframtölum 2009 og 2010 sem ekki veittu rétt til vaxtabóta af vaxtagjöldum sé engu síður heimilt að óska eftir því að slík lán verði lögð til grundvallar útreikningi samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, enda hafi lán þessi sannanlega verið nýtt til endurbóta á íbúðarhúsnæði á því tímabili sem leiðrétting samkvæmt lögum nr. 35/2014 tekur til. Við þessar aðstæður skal einungis tekið tillit til umræddra lána við útreikning leiðréttingar samkvæmt lögunum og ákvarðast þannig ekki vaxtabætur af þessu tilefni skv. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram að ef niðurstaða útreiknings samkvæmt 9. gr. laganna byggir á röngum upplýsingum skuli umsækjanda heimilt að óska eftir leiðréttingu með rafrænum hætti til ríkisskattstjóra innan þriggja mánaða frá birtingardegi. Í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 35/2014 segir í athugasemdum við 10. gr. að þetta eigi fyrst og fremst við það þegar ekki sé um að ræða lögfræðilegan ágreining, heldur sé frumákvörðun byggð á röngum upplýsingum. Óskir um leiðréttingu af þeim toga eigi ekki undir úrskurðarnefnd skv. 14. gr. laganna. Í 5. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 698/2014 um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána er fjallað nánar um þetta atriði. Þar segir að umsækjandi geti gert athugasemdir til ríkisskattstjóra vegna rangra upplýsinga um staðreyndir, s.s. um lán, hjúskaparstöðu eða frádráttarliði. Eigi þetta t.d. við ef ekki hefur verið tekið tillit til áhvílandi fasteignaveðláns við útreikning eða við ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar.

Ekkert hefur komið fram um það að kærendur hafi óskað eftir því við ríkisskattstjóra að lán X banka nr. 3 yrði lagt til grundvallar útreikningi leiðréttingarfjárhæðar, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 35/2014. Kærendur hafa heldur ekki óskað eftir leiðréttingu ríkisskattstjóra þess efnis, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. Ekki hefur verið tekin stjórnvaldsákvörðun af hálfu ríkisskattstjóra um ágreiningsefni þessa máls þar sem ekki hefur verið fjallað um kröfu kærenda hjá embættinu.

Með hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 og 26. gr. laga nr. 37/1993 þykir rétt að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd og senda ríkisskattstjóra til umfjöllunar, með þeim rökstuðningi sem fram er kominn af hálfu kærenda.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána og framsend ríkisskattstjóra til meðferðar.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum