Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 265/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 265/2018

Miðvikudaginn 17. október 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir. Með kæru, dags. 11. júlí 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. júní 2018 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en honum metinn örorkustyrkur tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 22. mars 2018. Með örorkumati, dags. 11. júní 2018, var umsókn kæranda synjað en hann var talinn uppfylla skilyrði örorkustyrks frá 1. apríl 2018 til 30. júní 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. júlí 2018. Með bréfi, dags. 30. júlí 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 29. ágúst 2018, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. ágúst 2018. Með bréfi, dags. 9. september 2018, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. september 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að synjun Tryggingastofnunar ríkisins um örorkulífeyri og tengdar greiðslur verði endurskoðuð.

Í kæru segir að Tryggingastofnun ríkisins hafi metið það svo að kærandi uppfylli ekki skilyrði staðals um örorkulífeyri en að færni hans til almennra starfa sé skert að hluta og læknisfræðileg örorka hans sé því 50%. Kærandi sé ekki sáttur við þessa ákvörðun, hann sé X ára gamall og þetta verði erfiðara með hverju árinu.

Kærandi hafi fyrir X árum verið [...], hann hafi þurft að fara í aðgerð vegna þess og fengið blóðgjöf. Þetta hafi alltaf hrjáð hann líkamlega og andlega, þá hrjái þetta hann með árunum meira og meira líkamlega. Kærandi fái doða yfir þetta svæði, kuldablett, og þá festist hann stundum í bakinu. Kærandi hafi einnig axlarbrotnað og fyrir X árum hafi hann farið í aðgerð þar sem [...] verið saumað saman. Hann muni aldrei jafna sig að fullu en hann sé samt enn í reglulegri sjúkraþjálfun sem kosti sitt. Það sé vont að lyfta einhverju með öxlinni og þá fái hann oft verki og sofi illa.

Kærandi biðji nefndina að endurskoða ákvörðun Tryggingastofnunar, hann fái einungis 33.000 kr. á mánuði auk barnalífeyris en hann eigi X börn sem búi hjá honum og konu hans. Þá eigi hann að auki […] sem séu X. Bara sjúkraþjálfun sé hátt í 10.000 kr. á mánuði fyrir utan bensínkostnað. Þessi meiðsli og verkir muni alltaf há honum og erfitt sé að fá t.d. 30-40% vinnu sem henti. Í gegnum tíðina hafi hann unnið [...] en hann geti það ekki lengur. Kærandi geti ekki setið lengi eða lyft upp fyrir sig né borið þunga hluti.

Í athugasemdum kæranda, dags. 9. september 2018, eru gerðar athugasemdir við að stofnunin hafi ekki aflað gagna vegna [...] sem hann hafi orðið fyrir X árum fyrr.

Þá kemur fram að í skýrslu læknis segi að kærandi hafi ekki farið í sjúkraþjálfun vegna þess. Kærandi hafi verið í reglulegri í sjúkraþjálfun eftir aðgerð og mörg vottorð séu því til sönnunar. Þá segi í skýrslunni, undir liðnum dæmigerður dagur, að kærandi sjái mikið um heimilið. Það sé ekki rétt þar sem að eiginkona hans geri það einnig. Einnig komi fram að verkir hái honum ekki í daglegum störfum. Þeir geri það víst stundum, suma daga festist hann í baki.

Mat skoðunarlæknis á færni kæranda sé að enginn vandi sé fyrir hann að standa upp af stól. Vissulega geti það komið fyrir þegar hann sé slæmur í baki/fastur. Eins segi matslæknir að hann beygi sig og krjúpi án vandkvæða en það geti oft verið erfitt fyrir hann og það leggist þungt á axlirnar. Einnig komi fram í skýrslunni að kærandi sé ekki með vandamál með að ganga. Það sé ekki rétt, suma daga geti hann ekki gengið uppréttur. Eins komi fram hjá skoðunarlækninum að hann geti gengið upp og niður stiga án vandkvæða en það passi ekki alltaf, suma daga sé það erfitt fyrir hann. Þess vegna hafi hann [...]. Einnig komi fram í sömu skýrslu að kærandi sé ekki með vandamál með að nota hendur. Kærandi sé með [...]. Varðandi liðinn að lyfta og bera þá sé ekki hakað við í liðnum að lyfta og bera og það sé skrítið.

Varðandi svefnvandamál sé það að segja að kærandi sofi stundum illa vegna verkja í baki/öxl. Þá segir að kærandi hafi aldrei verið kallaður til skoðunar hjá lækni frá Tryggingstofnun en hann hafi farið á fund hjá matslækni á vegum stofnunarinnar.

Þá spyr kærandi hvar hafi verið fjallað um eða skoðuð gögn t.d. frá því að hann hafi verið [...] eða hvað hafi verið gert í axlaraðgerðinni.

Fram komi að kærandi hafi hlotið níu stig plús eitt stig, samtals fimmtán stig [sic]. Að mati kæranda vanti stig þarna inn í. Kærandi sé ekki sáttur við að vera metinn með 50% örorkustyrk.

Kærandi hafi alla tíð unnið, hann sé með gögn um axlarbrotið og þá séu gögn um [...] einnig til. Kærandi hafi legið á spítala og þurft blóðgjöf og hafi næstum því dáið.

Kærandi hafi reynt að svara spurningalistanum eftir bestu getu. Sumar spurningarnar passi ekki fyrir hann en auðvitað taki þetta líka á stundum andlega að festast í baki og finna fyrir verkjum. Kærandi sé alinn upp við það að harka af sér svo að hann hafi ef til vill ekki hakað við allt í andlega hlutanum þótt sumt hafi átt við stundum.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kært sé örorkumat Tryggingastofnunar, dags. 11. júní 2018.

Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eigi þeir rétt á örorkulífeyri sem uppfylli tiltekin skilyrði. Þar segi:

„Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, eru á aldrinum 18-67 ára og

a)    hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert við [sic] er þeir tóku hér búsetu,

b)    eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilegra viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.“

Þá segi í 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar að Tryggingastofnun sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Fjallað sé um framkvæmd örorkumats í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Samkvæmt 1. og 2. gr. reglugerðarinnar meti tryggingalæknir örorku þeirra sem sæki um örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Þá segi í 4. gr. reglugerðarinnar að heimilt sé að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli, sbr. fylgiskjal 1, ef tryggingalæknir telji sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku.

Mál þetta varði örorkumat Tryggingastofnunar, dags. 11. júní 2018, með gildistíma frá 1. apríl 2018 til 30. júní 2020. Niðurstaða örorkumats hafi verið að synja kæranda um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar en hann hafi verið talinn uppfylla skilyrði örorkustyrks (50% örorka), samkvæmt 19. gr. laganna. Í gögnum málsins komi fram að kærandi þjáist af verkjum í [...] öxl ásamt langvarandi bakverkjum.

Við mat á örorku hafi tryggingalæknir stuðst við þau gögn sem hafi legið fyrir: Læknisvottorð B, dags. 28. mars 2018, svör við spurningalista, móttekin 27. mars 2018, skoðunarskýrslu, dags. 16. maí 2018, umsókn kæranda, dags. 22. mars 2018, ásamt gögnum frá Sjúkraþjálfun C, dags. 3. apríl 2018.

Líkt og fram komi í reglugerð nr. 379/1999 meti tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri frá stofnuninni samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjalli um líkamlega færni og þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lúti að andlegri færni. Þar leggist öll stig saman og þurfi umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins geti hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skuli Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat sé síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telji nauðsynlegt að afla.

Kærandi hafi fengið níu stig fyrir líkamlega þáttinn en eitt stig fyrir andlega þáttinn. Það nægi ekki til að uppfylla skilyrði til efsta stigs samkvæmt staðli en líkt og fram hafi komið hafi kærandi verið talinn uppfylla skilyrði til örorkustyrks og hafi hann verið veittur.

Ítarlega hafi verið farið yfir gögn málsins. Tryggingastofnun líti svo á að kærandi hafi 50% starfsgetu í samræmi við þau gögn sem liggi fyrir í þessu máli og sé því talinn uppfylla skilyrði til örorkustyrks samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar.

Þá telji Tryggingastofnun ekki ástæðu til að meta kæranda í samræmi við 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat þar sem að um undantekningarákvæði sé að ræða sem skýra verði þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. 

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla Tryggingastofnunar á örorku hafi verið réttmæt miðað við fyrirliggjandi gögn.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. júní 2018, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en honum veittur tímabundinn örorkustyrkur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 28. mars 2018. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu „Lumbago chronica“ og „Shoulder syndrome“ og mat læknis er að kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. maí 2016. Þá segir í læknisvottorðinu:

„Hann lenti áverka á [...] öxl árið X. Þá sýndi rtg: „Beináverkar greinast ekki í öxl, en það sést að claviculan [...]megin stendur hátt og greinileg luxatio í AC lið“. […] Hefur verið að vinna við [...] og vann mikið upp fyrir sig. Talsverðir verki í [...] öxl við þetta. Var [...] í X ár þar áður. Hefur stóran part undanfarinna X ára verið frá vinnu [...]. Ekki farið í sjúkraþjálfun vegna þessa. Þetta truflaði stundum fyrir honum svefn og við að halda á hlutum s.s. búðarpokum og þegar hann er að halda á börnum sínum.

[…]

A fór í axlarspeglun X þar sem [...], skv D bæklunarlækni] áætlaður batatími eftir slíka aðgerð 12 vikur.

A hefur sjálfur stundað styrktaræfingar og náð þónokkrum bata varðandi öxl.“

Um sjúkrasögu segir í vottorði:

„Hann fór í aðgerð á [...]öxl í X axlarspeglun X þar sem […] snyrt. Hann hefur verkir í [...] öxl enn þó hann sé betri en hann var. Hann vill líka læsast í mjóbaki. Með langvarandi bakverki. Saga um […]bak fyrir X árum. Viðkvæmur í baki síðan. Hann hefur undanfarið ár verið í sjúkraþjálfun vegna axlar. Þurft að styrkja vöðva í kringum öxl.

[…] Mætir í sjúkraþjálfun tvisvar til þrisvar í viku. Hann hefur einnig fenigð þjálfunarprógramm hjá sjúkraþjálfara til að stunda æfingar í [...] sjálfur milli þess sem hann kemur í sjúkraþjálfun. Endurhæfing ekki skilað honum vinnufærum.“

Í lýsingu læknisskoðunar segir:

„Aktiv elevation 180 gr. passiv elevation 180 gr. abduction 180 gr, ER munar 1 cm, IR munar 10 cm.

Eymsli í bakvöðvum. Sárt að beygja sig fram, dálítið stirður í hreyfingum baks. […] Hefur fulla hreyfigetu í öxlinni, getur ekki haldið hendi upp fyrir öxl nema stutt í senn. Getur ekki beitt kröftum ef hann er með handlegg út frá bol.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hann sé með gamalt axlarbrot, í aðgerð hafi [...] Hann hafi [...] fyrir X árum, hann hafi slasast alvarlega og þurft blóðgjöf. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að sitja á stól þannig að hann fái stundum þyngsli í axlir og bak. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól þannig að hann fái stundum tak. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa og rétta sig upp aftur þannig að stundum festist hann illa í baki og hann sé með skerta hreyfigetu í öxl. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að standa þannig að hann sé með þreytuverki og þyngsli. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að ganga þannig að svo sé stundum. Kærandi svarar spurningu um það hvort erfitt sé að ganga upp og niður stiga þannig að hann búi á X hæð og það taki í bakið og hann fái verki í hné eftir árekstur árið X. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að nota hendur þannig að hann geti ekki gert allar hreyfingar með öxlinni. Kærandi svarar spurningu um það hvort erfitt sé að teygja sig eftir hlutum þannig að það sé stundum erfitt út af bakinu og öxlinni, álag. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera þannig að það sé erfitt að halda á „plum“ og þyngri hlutum. Þá svarar kærandi ekki spurningu um það hvort hann eigi við geðræn vandamál að stríða. Í athugasemdum kæranda segir: „Þetta háir mér daglega og sef oft illa á næturnar er búinn að vera í sjúkraþjálfun 2-3.í viku“

Skýrsla E skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hann að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 16. maí 2018. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hann geti ekki setið nema í tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Kærandi geti ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um. Kærandi geti ekki lyft hvorum handlegg sem er til að setja á sig hatt. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi kvíði því að sjúkleiki hans versni fari hann aftur að vinna. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„[…] Kemur gangandi í skoðun, göngulag eðlilegt. Sest í stól og getur setið í stól án sjáanlegra vandkvæða. Stendur upp úr stól án stuðnings. Lyftir höndum upp fyrir axlarhæð en getur lyft í um 120 gráður í framsveigju og frásveigju. Getur handfjatlað smápening með báðum höndum og getur tekið 2 kg lóð og flutt á milli handa og sett það frá sér aftur. Getur náð í hlut upp af gólfi, fer í krjúpandi stöðu og reisir sig aftur upp. Gengur upp og niður stiga án erfiðleika, býr upp á […] hæð án lyftu.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Engir geðrænir erfiðleikar til staðar. Kveðst ekki finna fyrir depurð, kvíða eða nokkru öðru sem trufllar hann í daglegu lífi.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið nema í tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Slíkt gefur ekkert stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki lyft hvorum handlegg sem er til að setja á sig hatt. Slíkt gefur sex stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til níu stiga samtals. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi kvíði því að sjúkleiki hans versni fari hann aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til eins stigs.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við skoðunarskýrslu og leggur hana til grundvallar við mat á örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk níu stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og eitt stig úr andlega hlutanum, þá uppfylli hann ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum