Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Nr. 486/2017 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 486/2017

Þriðjudaginn 17. apríl 2018

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 15. desember 2017 kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 1. desember 2017 vegna umgengni við börn hennar, D, E, og F. Er þess krafist að úrskurður barnaverndarnefndarinnar verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir nefndina að taka málið fyrir að nýju. Til vara og þrautavara er þess krafist að úrskurðinum verði breytt og að umgengni kæranda við börnin verði aukin eins og hún tilgreinir nánar í kröfugerð sinni fyrir úrskurðarnefndinni og lýst er í kafla II hér á eftir.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

D, E og F eru X, X og X ára alsystkini og lúta forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er móðir barnanna. Samkvæmt gögnum málsins fluttu kærandi og þáverandi sambýlismaður hennar, sem er faðir barnanna, til G árið X. Í byrjun árs X slitnaði upp úr sambúðinni og flutti kærandi þá með börnin til Íslands. Kærandi á einnig fjórða barnið, fætt X, með öðrum manni.

Samkvæmt hinum kærða úrskurði bjó kærandi með börnin í H frá 2012. Barnaverndarnefnd H bárust á þeim tíma ítrekað tilkynningar þar sem lýst var áhyggjum af andlegri heilsu kæranda, vanlíðan hennar og ójafnvægi. Kom þetta fram í andlegu og líkamlegu ofbeldi gagnvart börnunum sem voru vistuð utan heimilis frá árinu 2013 til X 2014. Kærandi flutti í B [árið] 2014 og bárust áfram tilkynningar vegna gruns um andlegt, tilfinningalegt og stundum líkamlegt ofbeldi af hendi kæranda. Kom ítrekað til átaka á milli kæranda og barnanna. Vísbendingar voru um óhóflega áfengisneyslu kæranda.

Kæranda var veittur ýmis konar stuðningur svo sem sálfræðiviðtöl, geðlæknismeðferð, tilsjón á heimili, listmeðferð, félagsleg heimaþjónusta og helgardvöl í I fyrir börnin. D er greind með [...]. E er greindur með [...]. F var einnig farin að sýna [...]. Að mati Barnaverndarnefndar B var ljóst að systkinin höfðu sérstaka þörf fyrir að búa við öryggi og tilfinningalegt jafnvægi sem ekki var til staðar á heimili kæranda. Barnaverndarnefndin kvað upp úrskurð X 2016 um að börnin þrjú skyldu vistuð utan heimilis í X mánuði og samþykkti jafnframt að gera kröfu fyrir héraðsdómi um að kærandi yrði svipt forsjá þeirra. Börnin fóru öll í fóstur, sitt á hvert heimilið. Með dómi héraðsdóms X 2017 var kærandi svipt forsjá barnanna.

Í sálfræðilegri matsgerð X 2017, sem unnin var fyrir héraðsdóm, segir meðal annars að kærandi sé stutt á veg komin með að vinna í áfengisvanda sínum og áfallastreituröskun og sé því ekki í stakk búin til að sinna foreldraskyldum sínum. Börnin hafi öll tekið miklum framförum í fóstrinu og virðist í öruggum tengslum við fósturforeldra. Matsmaður taldi mikilvægt að börnin yrðu áfram í núverandi aðstæðum þar sem þau fyndu öryggi og stöðugleika en einnig væri mikilvægt að þau fengju að halda tengslum við systkini sín og kæranda með reglulegri umgengni. Fyrsta umgengni kæranda við börnin var í X 2016, næst í X 2016 og síðan í X 2017X. D komst ekki í umgengni í X 2016 en hitti kæranda annars staðar í staðinn.

Í gögnum málsins kemur fram að D hefur ekki hitt foreldra sína í fyrirfram ákveðinni umgengni síðan X 2016 þar sem fósturforeldrar fóru fram á það við barnavernd að hlé yrði gert á umgengni þar sem staða hennar var orðin mjög slæm. Brugðu fósturforeldrar á það ráð að flytja á milli bæjarfélaga til að hún gæti farið í annan skóla og fengið þá faglegu aðstoð sem hún þurfti á að halda.

Þá kemur einnig fram í gögnum málsins að eftir umgengni í X 2017 varð E hortugur við fósturforeldra og tók að sýna þeim dónaskap en þessi hegðun stóð yfir í margar vikur eftir umgengni. Bæði fósturforeldrar og starfsmenn í skóla tóku eftir því að hann var órólegri, bæði fyrir og eftir umgengni.

Jafnframt er því lýst í gögnum málsins að F hafi ætíð verið mjög viðkvæm eftir umgengni við kæranda. Það hafi tekið hana nokkrar vikur að jafna sig í kjölfarið og hafi bæði heimili og leikskóli fundið fyrir breytingum á hegðun hennar. Sérstaklega hafi verið tekið eftir þessu við síðustu umgengni.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að barnaverndarstarfsmenn hafi lagt á það ríka áherslu við kæranda að hún setti sig ekki í samband við börnin á fósturheimilunum en kærandi hafi átt erfitt með að virða það. Hún hafi hringt mikið, sent smáskilaboð og tölvupósta. Einnig hafi kærandi orðið uppvís að því að reyna að hitta börnin utan skipulagðrar umgengni, til dæmis farið í skóla þeirra. Þá hafi eftirlitsaðili með umgengni orðið var við að kærandi hafi sagt við börnin að þau væru aðeins í pössun á fósturheimilinum, þrátt fyrir að hún hafi verið beðin um að eiga ekki þess konar samtöl við börnin.

Með hliðsjón af því hve umgengni við kynforeldra hefði komið miklu róti á líf barnanna hafi verið samþykkt á meðferðarfundi barnaverndar 18. ágúst 2017 að umgengni yrði einu sinni á ári við hvort foreldri, á hlutlausum stað. Öll börnin yrðu saman. Að auki myndu systkinin hittast með fósturforeldrum tvisvar sinnum á ári.

Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni í varanlegu fóstri var úrskurðað um hana á grundvelli 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Með úrskurði Barnaverndarnefndar B 1. desember 2017 var ákveðið að kynforeldrar hefðu umgengni við börnin einu sinni á ári. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi:

„Systkinin D, E, og F, skulu hafa umgengni við kynforeldra sína, A, og J, einu sinni á ári hvort þeirra, auk símtala í kringum jól og afmæli.‟

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður BarnaverndarnefndarB verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir barnaverndarnefndina að taka málið fyrir að nýju. Til vara krefst kærandi þess að úrskurðinum verði breytt þannig að umgengni barnanna E og F við kæranda verði ákveðin áttundu hverja helgi frá kl. 14.00 á laugardegi til kl. 18.00 á sunnudegi á heimili kæranda. Til þrautavara er gerð krafa um að börnin dvelji á heimili kæranda áttunda hvern laugardag í sex klukkustundir í senn frá kl. 11.00-17.00.

Forsaga málsins sé sú að þegar tilkynningar hafi tekið að berast til barnaverndaryfirvalda í H á árinu 2012 um vanrækslu barnanna, hafi verið hafin könnun á aðstæðum þeirra og líðan. Börnin hafi verið vistuð utan heimilis í X mánuði 2013. Héraðsdómur K hafi úrskurðað samkvæmt kröfu um vistun barnanna til X mánaða en það hafi verið staðfest af Hæstarétti Íslands. Meðan á vistun barnanna hafi staðið hafi kærandi sótt margvíslega aðstoð og gengist undir foreldrahæfismat. Í niðurstöðu forsjárhæfismats X 2014 hafi komið fram að forsjárhæfi kæranda væri skert, einkum vegna skorts á hæfi hennar til að mynda náin tengsl.

Í X 2014 hafi kærandi komið á fund Barnaverndarnefndar H og kveðist samþykk því að börnin yrðu vistuð utan heimilis á meðan hún ynni að eigin endurhæfingu. Kærandi hafi lagt til að vistunarsamningur tæki til X mánaða en ekki X mánaða eins og nefndin hefði lagt til. Næstu mánuði hafi kærandi unnið að endurhæfingu sinni. Hún hafi meðal annars sótt meðferðartíma hjá sálfræðingi. Í skýrslu sálfræðingsins X 2014 hafi komið fram að kærandi hefði náð töluverðum bata. Þegar endurhæfingin hafi verið farin að skila árangri hafi verið ákveðið á fundi Barnaverndarnefndar B í X 2014 að börnin færu aftur til kæranda.

Skömmu eftir að börnin hafi öll verið komin í umsjá kæranda hafi hún ákveðið að flytja með þau til móður sinnar. Hvorki starfsmenn barnaverndar né sálfræðingur kæranda hafi gert athugasemdir við fyrirkomulagið. Málið hafi verið flutt til barnaverndaryfirvalda í B í X 2014 og hafi kærandi fengið góðan stuðning inn á heimilið. Kærandi hafi kynnst öðrum barnsföður sínum [...] 2015 og hafi orðið ófrísk eftir hann. Kærandi hafi fætt stúlkuna L í X 2015. L hafi fæðst á X viku meðgöngu og við hafi tekið vökunætur kæranda yfir barninu á Vökudeild Landspítala næstu mánuðina. Kærandi hafi notið stuðnings M geðlæknis sem hafi talið hana hafa sýnt framfarir þrátt fyrir mikið álag. Kærandi hefði náð góðum stöðugleika og betra andlegu jafnvægi og líðan fyrst eftir að hún hafi flutt til móður sinnar. Fyrirburafæðingin hefði á hinn bóginn sett strik í reikninginn. Það hafi verið mat læknisins að kærandi væri hæf til að bera ábyrgð á uppvexti barnanna, fengi hún áfram tilheyrandi stuðning og aðstoð.

Veturinn 2015 til 2016 hafi kærandi notið stuðnings barnaverndaryfirvalda í B. Mál barnanna hafi verið lagt fyrir Barnaverndarnefnd B [í] X 2016 og hafi barnaverndarnefndin talið að grípa þyrfti til annarra úrræða en þeirra sem reynd höfðu verið. Á fundinum hafi kærandi samþykkt að börnin D og E yrðu fóstruð utan heimilis til X 2016 til að gefa kæranda tóm til að sinna uppeldi yngri telpnanna og gangast undir endurhæfingu. Umönnun barnanna hafi verið flókin og erfið fyrir kæranda, enda börnin fjögur á misjöfnum aldri, tvö höfðu greinst með alvarleg frávik og nýburinn hafi enn verið á viðkvæmu stigi. Þar fyrir utan hafi móðir kæranda veikst á þessum tíma. D og E hafi verið komið fyrir í fóstri og haft ríkulega umgengni við kæranda. Þrátt fyrir vistun þeirra utan heimilis hafi börnin verið mikið hjá kæranda og því hefði tilgangur vistunarinnar ekki náð fram að ganga.

Þegar málið hafi verið tekið fyrir að nýju á fundi Barnaverndarnefndar B í X 2016 hafi verið lagt til að öll börnin yrðu vistuð varanlega utan heimilis. Á það hafi kærandi ekki fallist. Hún hafi benti á að tilgangur vistunar í X 2016 hefði ekki haft tilætluð áhrif og því hefðu endurhæfingaráform ekki gengið eftir. Af framburði kæranda hafi mátt ráða að álagið af umönnun eldri barnanna hefði verið viðvarandi, enda hefðu þau verið vistuð á heimili í nágrenni við heimili hennar og smám saman hafi þau verið farin að koma til kæranda í tíma og ótíma. Kærandi kvaðst samþykkja vistun D og E utan heimilis til X og hafi lagt til að þeim yrði komið fyrir á heimilum fjarri heimili hennar og umgengni yrði sett í fast form. Í X 2016 hafi verið kveðinn upp úrskurður með vísan til a- og b-liða 1. mgr. 27. gr. bvl. þar sem ákveðið hafi verið að börnin þrjú yrðu vistuð á vegum barnaverndarnefndar á fósturheimilum sínum í X mánuði.

Með dómi Héraðsdóms N X 2017 hafi verið ákveðið að kærandi yrði svipt forsjá eldri barnanna þriggja. Í forsendum dóms komi fram það álit dómsins að mikilvægt væri að börnin fengju að halda tengslum við kæranda með markvissum hætti og að systkinin fengju að rækta samband sín á milli.

Frá X 2016 hafi börnin hitt kæranda þrisvar sinnum. Í fyrsta skipti hafi E og F hitt kæranda X 2016 en D í X 2016. Þá hafi kærandi fengið að hitta börnin X 2016 og X 2017.

Kærandi sé mjög ósátt við þá takmörkuðu umgengni sem henni og börnunum hafi verið skömmtuð og hafi óskað eftir að barnaverndarnefndin úrskurðaði um rýmri umgengni. Þann 1. desember 2017 hafi hinn kærði úrskurður verið kveðinn upp en samkvæmt honum hafi kærandi fengið minni umgengni en foreldrar fái að jafnaði.

Ógildingarkrafa kæranda sé reist á því að hinn kærði úrskurður uppfylli hvorki skilyrði form- né efnisreglna bvl. Þá stríði úrskurðurinn gegn reglum stjórnsýsluréttar í lögum nr. 37/1993.

Byggt sé á því að ekki hafi verið gætt áskilnaðar 41. gr. bvl. en þar segi að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Um tilgang og umfang rannsóknarskyldu stjórnvalds segi í 10. gr. stjórnsýslulaga að mál teljist nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hafi verið aflað sem séu nauðsynlegar til að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu. Gera verði strangari kröfur til upplýsingaöflunar eftir því sem ákvörðun sé tilfinningalegri eða meira íþyngjandi fyrir aðila. Kærandi byggi kröfu sína á því að barnavernd hafi hvorki rannsakað málið nægjanlega áður en hún hafi ákveðið að umgengni skyldi fara fram einu sinni á ári né nýtt allar þær upplýsingar sem liggi fyrir í málinu og því sé ákvörðunin efnislega röng.

Við ákvörðun um umgengni verði að taka mið af tengslum barns við foreldri sitt, vilja barnsins, hæfi foreldris og nauðsyn á stöðugleika í fóstrinu. Kærandi byggi á því að barnaverndarnefndin hafi við ákvörðun um umgengni horft fram hjá niðurstöðum þeirra gagna sem aflað hafi verið í tengslum við rannsókn málsins, meðal annars vitnisburð dómkvadds matsmanns, O sálfræðings, fyrir dómi.

Kærandi styður málsástæðu sína um brot á rannsóknareglunni við eftirfarandi atriði: Í fyrsta lagi hafi Barnaverndarnefnd B ekki nýtt sér niðurstöður fjölda rannsókna á hæfi kæranda og mikilvægi þess að varðveita tengslin á milli barnanna innbyrðis og tengsl barnanna við kæranda. Því séu líkur til þess að hinn kærði úrskurður sé efnislega rangur. Af forsendum hins kærða úrskurðar megi ráða að nefndin hafi nær eingöngu byggt ákvörðunina á viðtali talsmanns við börnin í X 2017 og viðtölum við fósturforeldrana. Hefði nefndin sinnt rannsóknarskyldu sinni í samræmi við ákvæði 41. gr. bvl. væru líkur til þess að foreldrahæfisskýrsla dómkvadds matsmanns, O sálfræðings, hefði haft áhrif á umfang og tíðni umgengni, enda komi þar fram að kærandi hafi unnið vel að endurhæfingu sinni og náð tiltölulega góðum árangri. Í skýrslunni komi einnig fram að kærandi hefði nýlega opnað á erfiða reynslu af kynferðislegri misnotkun [...] í æsku og því væri vinnan með þessa reynslu of stutt á veg komin. Af dómi héraðsdóms, þar sem kærandi hafi verið svipt forsjá barnanna, megi ráða að niðurstaðan hafi öðrum þræði ráðist af þessu mati matsmanns að teknu tilliti til þess að börnin hafi aðlagast vel í fóstrinu. Þessi atriði séu mikilvæg við mat á umgengni því gera megi ráð fyrir að kærandi, haldi hún áfram að vinna með bata sinn, nái árangri og fari þá af stað með kröfu um forsjá en þá skipti miklu máli að tengslin við börnin verði ekki rofin. Allar rannsóknir sem gerðar hafi verið á forsjárhæfi kæranda bendi til þess að hún eigi að geta bætt foreldrahæfi sitt, haldi hún áfram á sömu braut. Einnig verði að horfa til þess að endurhæfing virðist hafa skilað góðum árangri X 2014. Þegar fjórða barnið hafi fæðst löngu fyrir tímann hafi heimilið farið á hliðina. Umönnun þriggja barna á mismundandi aldri þar sem tvö væru með greiningu og vökurnar yfir nýbura á gjörgæsludeild, hafi orðið kæranda ofviða. Kærandi telji að gera megi ráð fyrir að geta hennar og möguleikar til endurhæfingar hafi haft áhrif á mat fagaðila og dómara í málinu þar sem allir hafi verið sammála um að mikilvægt væri að tengsl barnanna við kæranda yrðu ræktuð með markvissum hætti, auk tengsla þeirra innbyrðis.

Í annan stað byggi kærandi á því að barnaverndarnefndinni hefði borið að horfa til þeirra gagna sem fjalli um tengsl barnanna við kæranda og tengsl þeirra innbyrðis en þau sýni mikilvæg innbyrðis tengsl barnanna og við kæranda. Við lestur gagna málsins megi sjá að starfsmenn barnaverndarnefndar hafi aðra og verri upplifun af umgengni barnanna við kæranda en sálfræðingur og fjölskyldu- og félagsráðgjafi sem einnig hafi fylgst með umgengninni. Kærandi haldi því fram að barnaverndarnefndin hafi brotið gegn 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga er hún byggði ákvörðun sína á einu viðtali talsmanns við hvert barn fyrir sig í umhverfi fósturforeldris og afstöðu fósturforeldranna sjálfra en hafi horft fram hjá niðurstöðum rannsókna sem byggt hafi á tengslaprófunum. Rannsóknareglan sé öryggisregla sem leiði til ógildis þeirrar stjórnvaldsákvörðunar sem fari í bága við hana. Þegar ljóst sé að skortur á rannsókn hafi haft áhrif á efni ákvörðunar beri að ógilda hana.

Kærandi telji að Barnaverndarnefnd B hafi brotið gegn meðalhófsreglu bvl., sbr. meðal annars 7. mgr. 4. gr. bvl. og til hliðsjónar 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með því að takmarka svo umgengni á milli barna og kæranda að nær ógjörningur verði að viðhalda eðlilegum tengslum á milli þeirra. Tilgangur meðalhófsreglna sé að tryggja að vægasta úrræði sé beitt til að ná því markmiði sem að sé stefnt og úrræðinu auk þess beitt af hófi. Barnið eigi rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem séu því nákomnir á meðan það sé í fóstri, sbr. 70. og 74. gr. bvl., auk 25. gr. reglugerðar nr. 804/2004. Barnið eigi auk þess rétt á að þekkja uppruna sinn, sögu og foreldra auk þess sem mikilvægt sé að það hafi tilfinningalegt leyfi til að þykja vænt um kynforeldra sína og aðra sem tengist því. Engin rök hafi verið færð fyrir því hvernig svo takmörkuð og lítil umgengni, einu sinni á ári, í stuttan tíma í senn geti stuðlað að þessu markmiði. Í málinu hefði verið nauðsynlegt að taka mið af möguleikum kæranda til endurhæfingar og þeirri staðreynd að hún muni að öllum líkindum höfða mál og krefjast þess að henni verði falin forsjá barnanna að nýju.

Að mati kæranda hafi barnaverndarnefndin ekki gætt þess við ákvörðun sína að miklar líkur væru á að hún næði bata og öðlaðist með því nægilega færni til að annast börnin. Kærandi telji mikilvægt að nefndin hefði þurft að hafa þetta í huga þrátt fyrir að ætlun hennar hafi verið að vista börnin varanlega, enda hafi kærandi lagalega heimild til að höfða mál að nýju. Ljóst sé að aukin foreldrafærni auki líkurnar á því að dómur félli henni í hag en þá sé mikilvægt barnanna vegna að tengslin viðhaldist. Varðandi líkurnar á að kærandi nái fullum bata sé vísað til fyrirliggjandi vottorða sálfræðinga, geðlæknis og göngudeildar P.

Úrskurður Barnaverndarnefndar B fari í bága við 2. mgr. 49. gr. bvl. þar sem kveðið sé á um að úrskurður skuli vera skriflegur og rökstuddur. Kærandi telji að allan rökstuðning skorti í úrskurðinn, enda sé ekki gerð grein fyrir þeim efnisatriðum sem lögð hafi verið til grundvallar við ákvörðunina, ekki sé getið málavaxta og kærandi hafi ekki verið upplýst um kæruleiðir. Skortur á rökstuðningi leiði til þess að erfitt sé fyrir kæranda að taka til varna með því að hrekja röksemdir nefndarinnar og tefla fram nýjum. Óásættanlegt sé að byggja á því einu að börnin séu komin í varanlegt fóstur, enda ríki óvissa um það. Þá hefði verið nauðsynlegt að gera grein fyrir ástæðum þess að nefndin ákveði mun minni umgengni en venjulegt sé.

Ákvörðun barnaverndarnefndarinnar um svo litla umgengni fari í bága við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og stjórnarskrárbundin réttindi kæranda og barna hennar þar sem gengið sé út frá því að sambærileg mál skuli njóta sömu meðferðar. Af lestri úrskurða kærunefndar barnaverndarmála megi ráða að Barnaverndarnefnd B hafi séð ástæðu til að ákveða kæranda minni umgengni en gengur og gerist þrátt fyrir að aðstæður virðist ekki eins hagfelldar og í máli hennar. Kærandi vísi til úrskurða í málum nr. 21/2015 þar sem umgengni hafi verið ákveðin fjórum sinnum á ári, nr. 25/2015 þar sem umgengni hafi verið ákveðin sex sinnum á ári og nr. 24/2015 þar sem umgengni hafi verið ákveðin tvisvar sinnum á ári.

Kærandi byggi varakröfu sína á því að úrskurður barnaverndarnefndarinnar sé andstæður hagsmunum barnanna skv. 74. gr. bvl., enda tryggi hann ekki umgengni barnanna með þeim hætti að koma megi í veg fyrir tengslarof, þrátt fyrir álit héraðsdóms og mats margra fagaðila sem komið hafi að málinu. Með hliðsjón af rannsóknarskyldu úrskurðarnefndarinnar telji kærandi að nefndinni sé í lófa lagið að taka afstöðu til varakröfunnar á grundvelli þeirra gagna sem liggi fyrir í málinu. Úrskurður barnaverndarnefndar tryggi ekki umgengni barnanna við kæranda, og hvort annað, með markvissum hætti í samræmi við forsendur héraðsdóms. Óhætt sé því að fullyrða að fyrirkomulag umgengninnar eins og barnaverndarnefndin hafi ákveðið það, muni hafa í för með sér tengslarof sem þeir fagaðilar sem komið hafi að málinu hafi lagt ríka áherslu á að komið verði í veg fyrir. Mat á umfangi umgengni þegar börn hafi verið vistuð utan heimilis, verði að taka mið af aðstæðum barna í hverju máli og þeirri þróun sem átt hafi sér stað í kjölfar rannsókna á hagsmunum barna í sál- og félagsfræði, enda sé ekkert í íslenskum lögum og reglum sem bindi hendur barnaverndaryfirvalda í þessu sambandi. Eftir nákvæma rannsókn á hæfi kæranda, tengslum barnanna við kæranda og innbyrðis tengslum þeirra hafi dómkvaddur matsmaður komist að þeirri niðurstöðu að mikilvægt væri fyrir börnin að umgangast annan hvorn mánuð eða á tveggja mánaða fresti og að umgengnin færi fram á heimili kæranda. Börnin væru tengd, þeim þætti mjög vænt hvoru um annað og hefðu ánægju af samverustundunum. Kærandi telji að barnaverndarnefndinni hefði borið að rökstyðja sérstaklega ákvörðun sína um svo takmarkaða umgengni, með vísan til hagsmuna barnanna, enda virðist úrskurðurinn víkja frá stjórnsýsluframkvæmd. Það hafi barnaverndarnefndin ekki gert heldur tekið mið af hagsmunum fósturforeldra, ávallt stuðst við þær umsagnir sem verið hafi kæranda í óhag og horft fram hjá gögnum er stutt hafi kröfur hennar og sjónarmið. Kærandi dragi í efa að það endurspegli raunverulegan vilja barnanna að hitta kæranda einu sinni á ári. Þá bendi kærandi á tengslapróf sálfræðings þar sem fram hafi komið að tengslin á milli kæranda og barnanna væru verulega sterk.

Kærandi geri kröfu um að umgengnin fari fram á heimili sínu, þar sem litla systir barnanna búi einnig, til þess að umgengni fái að vera sem eðlilegust og tengslin verði ekki afbökuð enn frekar. Kærandi kveður umgengnina við E og F í X 2017 ekki hafa verið þægilega. Umgengin hafi farið fram á heimili eftirlitsaðila þar sem hafi verið mikið af brothættu dóti og það hafi skapað vissa spennu, enda hafi yngsta barnið verið með. Umgengnin við D í X 2017 hafi hins vegar gengið vel, enda hafi þær gert ýmislegt saman.

Að mati kæranda hafi barnaverndarnefndin ekki gætt hagsmuna barnanna með því að horfa fram hjá gögnum málsins við ákvörðun á umgengni. Óásættanlegt sé hve úrskurðurinn taki einhliða mið af hagsmunum fósturforeldranna. Þá veki athygli hve viðtali talsmanns við börnin í X 2017 sé gefið mikið vægi. Eðlilegt hefði verið að bera niðurstöðuna saman við önnur gögn málsins, kanna hverju það varðaði niðurstöðuna að börnin kæmu í fylgd fósturforeldranna á tíma þegar langt væri um liðið síðan þau hittu kæranda og systkini sín. Þá hefði borið að skoða svör barnanna með hliðsjón af hugsanlegri innrætingu.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B til úrskurðarnefndarinnar 16. mars 2018 er vísað til þess að afskipti Barnaverndarnefndarinnar af fjölskyldunni hafi hafist 2014 er hún flutti í B. Áður hafi Barnaverndarnefnd H haft mál barnanna til meðferðar frá [...] 2012. Afskipti nefndanna hafi verið vegna gruns um andlega vanheilsu kæranda, vanlíðan hennar og ójafnvægi. Það hafi komið fram í andlegu og líkamlegu ofbeldi og vanvirðandi háttsemi gagnvart börnunum, grun um að þeim væru gefin róandi lyf á heimilinu og að óhófleg áfengisneysla hafi viðgengist hjá kæranda og móðurömmu sem hafi um tíma haldið heimili með kæranda og börnum hennar. Til ýmissa úrræða hafi verið gripið til aðstoðar fjölskyldunni, meðal annars hafi börnin ítrekað verið vistuð utan heimilis, en stuðningur hafi ekki skilað árangri.

Barnaverndarnefndin hafi kveðið upp úrskurð X 2016 um að börnin þrjú skyldu vistuð utan heimilis í X mánuði. Þau hafi öll farið í fóstur [...], en hvert á sitt heimili þar sem þau hafi verið síðan. Fósturforeldrar D hafi nú flutt með hana á höfuðborgarsvæðið þar sem hún fái þjónustu við hæfi vegna fötlunar sinnar. Héraðsdómur N hafi kveðið upp dóm X 2017 um að kærandi skyldi svipt forsjá barnanna þriggja, en hún hafði þá flust á Q til að vera nærri börnunum á fósturheimilum þeirra. Börnin lúti nú forsjá Barnaverndarnefndar B.

Aðlögun barnanna að fósturheimilum hafi gengið mjög vel og sé það samdóma álit fósturforeldra og kennara barnanna að þau hafi sýnt markverðar framfarir og bætta líðan eftir að þau hafi farið af heimili kæranda. Í sálfræðilegri matsgerð X 2017, sem unnin hafi verið fyrir héraðsdóm, komi fram að börnin hafi öll tekið miklum framförum í fóstri og virðist í öruggum tengslum við fósturforeldra. Hafi matsmaður talið mikilvægt að þau yrðu áfram í núverandi aðstæðum þar sem þau fyndu öryggi og stöðugleika en þó væri einnig mikilvægt að þau fengju að halda tengslum við kæranda og systkini með reglulegri umgengni.

Umgengni barnanna við kynforeldra og móðurömmu hafi verið nokkuð regluleg frá því að þau fóru í fóstur. Kynforeldrar hafi hitt börnin hvort í sínu lagi, þó kærandi talsvert oftar en kynfaðir sem sé búsettur [...]. Móðuramma hafi gjarnan komið með kæranda í umgengni. Barnaverndarnefnd hafi haft eftirlit með umgengninni.

Þann 1. desember 2017 hafi Barnaverndarnefnd B kveðið upp úrskurð um að umgengni systkinanna við kynforeldra skyldi vera einu sinni á ári við hvort þeirra, auk símtala í kringum jól og afmæli. Að auki sé áformað að öll börnin hittist ásamt fósturforeldrum sínum tvisvar á ári. Hafi þessi ákvörðun verið tekin með hliðsjón af því hvernig til hafði tekist með umgengni fram að því. Að sögn fósturforeldra, starfsfólks skóla og leikskóla hafi umgengni við kynforeldra komið miklu róti á börnin, reynst þeim öllum erfið og hafi margháttaðir erfiðleikar komið upp hjá þeim í kjölfarið. Fósturforeldrar D hafi sagt hana hafa sýnt kvíða, vanlíðan og einkenni þunglyndis í tengslum við umgengni. Fósturforeldrar E hafi sagt að drengurinn umhverfðist eftir hverja umgengni og eftir umgengni í X 2017 hafi hann verið þrjá mánuði að jafna sig. Fósturforeldrar F hafi greint frá því að hún hefði sýnt mikla afturför í líðan og hegðun eftir umgengni og það hafi haft mjög neikvæð áhrif á hana.

Áður en barnaverndarnefnd kvað upp fyrrnefndan úrskurð um umgengni hafi börnunum verið skipaður sálfræðimenntaður talsmaður til að kanna afstöðu þeirra til umgengni við kynforeldra. Skýrt hafi komið fram hjá D að hún vildi ekki vera ein með kynforeldrum og vildi vita með fyrirvara hvenær hún myndi hitta þau. E kvaðst ekki vilja vera einn með kæranda og hafi viljað hafa fósturföður hjá sér við þau tækifæri. Hjá F hafi kveðið við sama tón. Börnin hafi sagst vilja hitta kynforeldra sína einu sinni til tvisvar á ári. Hafi talsmaður talið brýnt að taka tillit til óska barnanna og væri ljóst að þau vildu takmarkaða umgengni við kynforeldra.

Kærandi hafi átt erfitt með að fara að fyrirmælum barnaverndarstarfsmanna um að hafa ekki samband við börnin eða fósturheimili þeirra utan fyrirfram ákveðinnar umgengni. Á tímabilum hafi verið mikið áreiti af hennar hálfu. Frá því að börnin fóru í fóstur hafi hún ítrekað sett sig í samband við þau eða fósturheimili þeirra símleiðis, í gegnum tölvupóst eða netmiðla og jafnvel setið fyrir þeim við skóla. Hafi hún nokkrum sinnum orðið uppvís að því að gefa börnunum í skyn að þau væru aðeins um stundarsakir á fósturheimilunum. Að mati talsmanns barnanna og fleiri sérfræðinga sem komið hafi að málinu sé mjög brýnt að umgengni sé ákveðin með fyrirvara og sé í föstum skorðum.

Samkvæmt 74. gr. bvl. eigi barn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem því séu nákomnir og kynforeldrar eigi rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Skuli meðal annars taka tillit til þess hve lengi fóstri sé ætlað að vara og taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Í 4. tölul. 3. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004 segi að með varanlegu fóstri sé átt við að fóstur haldist þar til forsjárskyldur falli niður samkvæmt lögum og að markmiðið með varanlegu fóstri sé að tryggja til frambúðar umönnun, öryggi og stöðugleika í lífi barns innan fósturfjölskyldu. Í 25. gr. sömu reglugerðar segi meðal annars að við ákvörðun á umgengni við barn í fóstri skuli tekið mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best með það fyrir augum að ná því markmiði sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur.

Umgengni systkinanna þriggja við kynforeldra þurfi því að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt hafi verið að með ráðstöfun þeirra í fóstur. Markmið með varanlegu fóstri sé að börn aðlagist fósturfjölskyldum sínum og tilheyri þeim eins og um eigin fjölskyldu væri að ræða. Einnig að tryggja að sá friður, ró, stöðugleiki og öryggi, sem skorti á heimili kynforeldra, ríki í lífi barnanna hjá fósturfjölskyldunum. Til að þær framfarir og sú bætta líðan sem systkinin hafi sýnt hjá fósturforeldrum megi verða til frambúðar sé nauðsynlegt að umgengni þeirra við kynforeldra og aðra valdi sem minnstum truflunum og vinni ekki gegn þeim árangri sem þegar hafi náðst varðandi líðan barnanna.

Systkinin hafi mestan hluta ævi sinnar búið við mjög erfiðar og óviðunandi aðstæður. Fyrst hafi þau búið hjá báðum kynforeldrum og síðar kæranda einni þar sem mikið óöryggi og óstöðugleiki hafi ríkt ásamt andlegu og líkamlegu ofbeldi og ýmiss konar vanrækslu. Í mati sem gert hafi verið á foreldrahæfi kæranda þegar forsjársviptingarmál hafi verið rekið í héraðsdómi segi að tengsl barnanna við kæranda einkennist af öryggisleysi, en þau hafi náð öruggum tengslum við fósturforeldra eftir að þau hafi farið á fósturheimilin. Ekki megi raska ró þeirra og tefja eða hindra þá jákvæðu framför sem átt hafi sér stað.

Umgengni barna í varanlegu fóstri við kynforeldra hafi það að markmiði að viðhalda tengslum í því skyni að börnin þekki uppruna sinn en ekki að efla tengslin með það í huga að þau flytji aftur á fyrra heimili sitt. Við ákvörðun um umgengni einu sinni á ári hafi barnaverndarnefnd horft til þess hvort umgengni gæti á einhvern hátt raskað ró barnanna á fósturheimilum eða orðið til þess að koma í veg fyrir að frekari árangur næðist þannig að kastað yrði á glæ þeirri miklu vinnu sem fósturforeldrar og aðrir hafi lagt fram til að bæta hag barnanna. Telji Barnaverndarnefnd B að hinn kærði úrskurður sé í samræmi við þau markmið sem stefnt sé að með umgengni í varanlegu fóstri, þ.e. að börnin þekki uppruna sinn.

Með hliðsjón af þeim upplýsingum sem borist hafi frá fósturforeldrum, kennurum og talsmanni barnanna um líðan þeirra í kringum umgengni, um viðbrögð þeirra við áreiti af hendi kæranda og með vísan til allra þeirra gagna sem fyrir liggi í málinu telji Barnaverndarnefnd B að það geti á engan hátt þjónað hagsmunum barnanna að auka umgengni þeirra við kæranda. Mikilvægt sé að sú ró og sá stöðugleiki, sem einkennt hafi líf barnanna eftir að þau fóru á fósturheimilin, haldist, verði til frambúðar og að þau þroskist og dafni sem best í þeim aðstæðum. Að mati Barnaverndarnefndar B krefjist hagsmunir barnanna þess að umgengni þeirra við kynforeldra verði takmörkuð með þeim hætti sem barnaverndarnefndin hafi gert.

Barnaverndarnefnd B gerir þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV.  Sjónarmið fósturforeldra D

Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu fósturforeldra D til kröfu kæranda og barst svar þeirra með tölvupósti 12. apríl 2018. Afstaða þeirra er sú að ein umgengni á ári sé nægileg.

Um sé að ræða barn sem glími við gífurlega erfiðleika og þarfnist mikils. Að mati fósturforeldra virðist kærandi ekki hafa skilning á eða innsýn í þau áföll og þær greiningar sem hafi stöðugt áhrif á þroska, hegðun og líðan D í hennar daglega lífi.

Sú umgengni, sem nú þegar hafi átt sér stað, hafi gengið mjög brösuglega og einnig hafi það haft mikil áhrif á D að kærandi virtist ekki geta virt þá umgengnissamninga sem þegar hafi verið gerðir. Kærandi hafi komið stúlkunni að óvörum með alvarlegum afleiðingum.

 

V.  Sjónarmið fósturforeldra E

Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu fósturforeldra E til kröfu kæranda og barst svar þeirra með tölvupósti 9. apríl 2018.

Þar kemur fram að umgengni E við alla aðra en kæranda sé til fyrirmyndar, þar með talið umgengni við kynföður og systur kynföður sem hafi komið með honum í umgengni í eitt skipti. Sama megi segja um umgengni við systur en hann hafi hitt F nokkrum sinnum og D sem hann hafi hitt einu sinni utan skipulagðrar umgengni. Öll hegðun E í samskiptum við ættingja sé þannig til fyrirmyndar og virðist ekki raska jafnvægi hans.

Á hinn bóginn hafi öll umgengni við kæranda verið hrein martröð, bæði fyrir E og fósturforeldrana. Það hafi líka haft áhrif á skólastarf eftir hverja einustu heimsókn undanfarin tæp tvö ár. Sömu áhrif hafi komið fram eftir símtöl sem kærandi og móðir hennar hafi átt við E samkvæmt samningi og úrskurði barnaverndarnefndar.

Það sé gríðarlega erfitt að eiga við drenginn eftir umgengni og það stigversni allt upp í þrjá mánuði eftir umgengni. Í þau skipti sem hann hafi verið svo lengi að jafna sig hafi fósturforeldrar bæði leitað aðstoðar hjá BUGL og sálfræðingi fyrir sig sjálf og drenginn.

Kærandi hafi ekki virt beiðnir um að segja börnunum ekki að þau væru bara í pössun og komi til hennar bráðum og þess háttar sem drengurinn segi þeim. En síðan séu það samskiptin sem drengurinn segi ekki frá sem hljóti að vera mun verri sálfræðilega þar sem hann fari alvarlega út af sporinu.

Þótt umgengnin sé komin niður í eitt skipti á ári, sé það of mikið fyrir drenginn. Kærandi hafi sannað svo ekki verði um villst að hún eigi ekki að hafa börn eða sjá um börn. Skýrslur barnaverndar og sálfræðinga ættu að duga. Fósturforeldrar ættu ekki að þurfa að tjá sig um af hverju E ætti ekki að þurfa að hitta kæranda, að minnsta kosti ekki fyrr en hann biðji sjálfur um það.

Fósturforeldrar sjái til þess að drengurinn hitti systur sínar og samskipti verði aukin við þau ættmenni sem hafi þann þroska að setja drenginn ekki viljandi út af sporinu þegar þau hittist. Í bígerð sé að hitta föðurömmu í sumar en samskipti við föðurfjölskyldu virðist enn sem komið er vera í lagi. Þau samskipti séu samt alltaf undir umsjón fósturforeldra. Drengurinn hafi talað við föðurömmu sína um síðustu jól í myndsímtali þegar kynfaðir hafi verið [...] og það hafi gengið mjög vel og ekki haft sjáanleg áhrif.

Fósturforeldrar vilji að E kynnist sinni líffræðilegu fjölskyldu og haldi tengslum við bæði frændfólk og systkin. Það sé markmið þeirra að hann tengist þeim aftur þannig að hann viti um og fylgist með sínum rótum.

Fái kærandi að hitta drenginn áfram einu sinni á ári fari fósturfaðir fram á að vera sjálfur viðstaddur og fylgjast með sálfræðistríði kæranda gagnvart barninu. Hingað til hafi ekki dugað að umgengnin væri undir eftirliti fagaðila svo að fósturfaðir vilji sjá hvaða aðferðum kærandi beiti á drenginn sem verði til þess að líf hans fari á hvolf og hægt gangi að fá það á réttan kjöl aftur.

 

VI.  Sjónarmið fósturforeldra F

Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu fósturforeldra F til kröfu kæranda og barst svar þeirra með tölvupósti 9. apríl 2018.

Þar kemur fram að fósturforeldrar óski eftir því að umgengni verði óbreytt, þ.e. einu sinni á ári við hvort foreldri, en þau telji það þjóna hagsmunum F umtalsvert að takmarka umgengni eins og hægt sé. Stúlkan eigi við mikinn tengslavanda að stríða í öllum aðstæðum utan fósturheimilis auk þess að glíma við mikil einkenni [...] með ríkjandi hvatvísi og skapofsa. Hún þoli mjög lítið áreiti og sé enn að byggja upp traust og öryggi í aðstæðum sínum þar sem hún sýni sífellda hræðslu um að verða mögulega send aftur til kæranda.

Eftir að kærandi hafi flust á Q [...] hafi aukin nálægð við hana valdið F miklum áhyggjum. Hún þurfi góðan tíma frá umgengni til þess að byggja upp traust en hún ókyrrist reglulega á nokkurra mánaða fresti þegar hún eigi von á umgengni. Þegar F fari úr jafnvægi fari hún aftur í eldra hegðunarmynstur og sýni árásargirni gagnvart öðrum. Þetta grafi undan henni félagslega, tilfinningalega, námslega o.s.frv.

F sé bráðgreind og hæfileikarík stúlka með alvarlega áfallareynslu að baki sem hái henni verulega og taki langan tíma fyrir hana að vinna úr þrátt fyrir stuðning fósturheimilis og teymis fagfólks. Umgengni við kæranda valdi alltaf bakslagi sem öll fósturfjölskyldan þurfi að taka á með F. Þegar um varanlegt fóstur sé að ræða liggi hagsmunir barnsins í því að mynda tengsl og stöðugleika í nýjum aðstæðum en umgengni við kynforeldra gegni einungis því hlutverki að barn þekki uppruna sinn. Í tilviki F sé árleg umgengni fullnægjandi til þess. Aukin umgengni myndi á hinn bóginn skaða möguleika hennar á aðlögun og tengslamyndun, valda henni miklu tilfinningalegu ójafnvægi og vanlíðan eins og sjá megi af reynslu síðustu tveggja ára.

 

VII.  Sjónarmið D

Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns stúlkunnar frá 18. júlí 2017. Þar kemur fram að talsmaður hafi hitt D á skrifstofu sinni í tvígang en stúlkan hafi komið í fylgd fósturmóður. Bæði hafi verið rætt einslega við stúlkuna og í viðurvist fósturmóður.

Stúlkan hafi verið nokkuð hikandi í samskiptum og oft átt erfitt með að koma orðum að því sem rætt hafi verið. Aðspurð hafi hún sagt að sér liði almennt vel og ætti góð samskipti við fósturforeldra og börn þeirra. Hún teldi sig tengjast fóstursystkinum sínum vel og segði „við erum öll góðir vinir“. D telji sig örugga á heimili fósturforeldra, lýsi ágætri tengingu og telji sig hluta af fjölskyldunni.

Stúlkunni hafi greinilega þótt nokkuð erfitt að ræða um líffræðilega foreldra og kvaðst ekki muna mikið um samskipti þeirra. Hún hafi skilið hlutverk talsmanns vel og hafi átt auðveldast með að svara beinum spurningum, svo sem „[h]versu oft myndir þú vilja hitta...“. „Ég myndi vilja hitta hana (líffræðilega móður) tvisvar sinnum, ekki fjórum sinnum. Kannski fyrir jólin og kannski á afmælinu hennar.“

Í viðtalinu hafi einnig komið fram að stúlkan vildi alls ekki vera ein með líffræðilegum foreldrum. Hún vildi ávallt hitta þau með systkinum sínum og fyndist mikilvægt að fá að vita með fyrirvara áður en umgengni yrði. Hún óskaði einnig eftir því að búið væri að ákveða hvað þau ættu að gera; „t.d. búa til piparkökuhús eða eitthvað svoleiðis, við getum ekkert spjallað við hana (líffræðilega móður)“. Stúlkan sæi umgengni við líffræðilega foreldra einnig sem tækifæri til að hitta systkini sín.

D hafi mest rætt um líffræðilega móður en þegar spurt hafi verið um umgengni við líffræðilegan föður hafi hún svarað „bara eins og með hana (líffræðilega móður)“.

Talsmanni hafi þótt nokkuð erfitt að ná til D og ljóst að hún reyndi að forðast athygli, umræður um eigin hag og hafi stundum reynt að þóknast talsmanni. Þegar þetta hafi verið rætt við hana hafi hún brosað og segðist „oft segja að það sé allt í lagi, þó það sé ekki svoleiðis“.

D hafi greiningu um [...] og geti því átt erfitt með að átta sig á eigin líðan og tilfinningum. En í samtali við talsmann hafi ítrekað komið fram að hún tæki ábyrgð á atvikum og oft þeim óviðunandi aðbúnaði sem hún hafi búið við hjá líffræðilegum foreldrum.

Talsmaður telji mikilvægt að farið sé að óskum stúlkunnar hvað varði umgengni við líffræðilega foreldra.

 

VIII.  Sjónarmið E

Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns drengsins frá 3. júlí 2017. Þar kemur fram að talsmaður hafi hitt E á skrifstofu sinni en drengurinn hafi komið í fylgd fósturföður. Bæði hafi verið rætt einslega við drenginn og í viðurvist fósturföður. Áhersla hafi verið lögð á að fylgjast með samskiptum og tengslum drengsins við fósturföður.

E hafi verið mjög kurteis og ljúfur í samskiptum. Aðspurður kvaðst hann skilja hlutverk talsmanns „þú átt að segja orðin mín við dómarann út af mömmu sem fæddi mig“. Auðvelt hafi verið að grípa athygli drengsins og allt félagslegt samspil hafi verið aldurssvarandi.

E virðist líta á fósturforeldra sem „eigin foreldra“. Hann segist ekki vera fósturbarn heldur að hann „hafi komist til alvöru mömmu og pabba“. Hann deili greiðlega upplýsingum um eigin hag, segist vera glaður en stundum reiður en það sé allt í lagi. Hann lýsi kærleiksríku umhverfi, hann sé stundum skammaður en það sé vegna þess að hann sé svo líkur pabba sínum. Þegar nánar sé spurt komi fram að hann eigi við fósturföður en ekki líffræðilegan föður. Í samtalinu hafi einnig komið fram góð tengsl og einstakt traust til fósturmóður.

Ljóst sé að E telji sig mjög öruggan á heimili fósturforeldra. Hann eigi auðvelt með að sýna þeim kærleika og hann virðist treysta þeim fyrir vanlíðan sinni og erfiðri hegðun. Í samtalinu hafi komið skýrt fram að drengurinn sé fullviss um ást fósturforeldra.

E segi að líffræðileg móðir „kunni ekki að vera með börn“. Hann segist alls ekki vilja eiga heima hjá henni „nokkurn tímann“ en langi til að hitta hana með systrum sínum. Hann vilji ekki vera einn með henni og segi að hann vilji að fósturfaðir komi með sér eða „sé rétt hjá“. Aðspurður segist hann gjarnan vilja hitta líffræðilega móður fyrir jólin „og kannski í annað skipti“. Ljóst sé að drengurinn vilji ekki umgangast líffræðilega móður meira en eitt til tvö skipti á ári og hafi þá þörf fyrir stuðning fullorðins einstaklings sem hann treysti. Tengsl hans við líffræðilega móður virtust skert og verði yfirbragð hans dapurlegt þegar hún sé rædd.

Þegar talsmaður hafi rætt um líffræðilegan föður hafi drengurinn ekki haft eins afgerandi skoðanir á umgengni við hann. Fram hafi komið ákveðið „hlutleysi“ eða „áhugaleysi“ í garð hans. E hafi lítið viljað ræða um tengsl þeirra og hafi sagt: „ég get bara hitt hann eins og hana, svona fyrir jól og eitthvað“.

Mat talsmanns sé að E þrífist mjög vel í því umhverfi sem hann búi við hjá fósturforeldrum. Tengsl við líffræðilega foreldra séu mjög skert en tengsl við fósturforeldra góð og stöðug. Talsmaður telji að umgengni við líffræðilega foreldra valdi drengnum meiri skaða en gagni og ætti að takmarkast við eitt eða í mesta lagi tvö skipti á ári. Þeir fundir þurfi að vera stuttir, að hámarki tvær til fjórar klukkustundir og þurfi drengurinn að vita fyrirfram um skipulag funda. Hann þurfi að hafa með sér fullorðinn einstakling sem hann treysti.

 

IX.  Sjónarmið F

Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns stúlkunnar frá 18. júlí 2017. Þar kemur fram að talsmaður hafi hitt F á skrifstofu sinni en stúlkan hafi komið í fylgd fósturforeldra. Bæði hafi verið rætt einslega við stúlkuna og í viðurvist fósturforeldra.

F hafi verið einlæg og ljúf í samskiptum, mjög hreinskilin og átt auðvelt með að setja orð á flest það sem talsmaður hafi rætt við hana. Strax í upphafi viðtals hafi hún haft frumkvæði að því að útskýra aðstæður sínar. „Mamma mín sem er frammi (átti við fósturmóður) er ekki konan sem fæddi mig. Ég fór til mömmu R og S af því að konan sem fæddi mig hún var ekki góð. Hún lamdi mig.“

Í viðtali hafi komið fram að F virtist mjög örugg á fósturheimilinu, tengdist fósturforeldrum vel og sérstaklega fósturmóður. Hún sagðist aldrei vilja flytja aftur til „konunnar sem fæddi mig“. Hún sé dugleg að setja orð á upplifanir og atburði, hún lýsi góðum aðstæðum á fósturheimili og ljóst sé að þar finni hún til öryggis. F hafi oftast talað um fósturmóður og vísað til hennar sem „mamma“. Í spjalli og við áhorf hafi komið skýrt fram hve tengsl þeirra hafi verið góð og samskipti eðlileg og einlæg.

F hafi ekki sýnt áhuga á reglulegri umgengni við líffræðilega foreldra. Hún hafi verið mjög skýr í svörum um að hún vildi bara hitta þau með systkinum sínum og „alls ekki ein“. Hún hafi sýnt lítinn áhuga á að ræða líffræðilega foreldra og nýta hafi þurft sjónrænar vísbendingar til að grípa betur athygli hennar.

Í viðtali hafi einnig komið fram að F virtist lítið tengd systkinum sínum. Hún hafi komið sér hjá því að ræða samskipti við þau og hafi látbragð hennar gefið til kynna að eldri systir hefði sýnt F óviðeigandi hegðun.

F sé snjöll stúlka sem búi nú við nærandi og heilbrigðar aðstæður hjá fósturforeldrum sem hún tengist vel og finni öryggi hjá. Mikilvægt sé að taka tillit til óska hennar og setja þarfir hennar framar óskum líffræðilegra foreldra. Því telji talsmaður að umgengni F við líffræðilega foreldra eigi að takmarka verulega og miðast að hámarki við eitt skipti á ári. Nauðsynlegt sé að undirbúa hana vel fyrir fund og tryggja að hún eigi útleið upplifi hún vanlíðan eða ótta. Tryggja eigi að hún sé aldrei ein með líffræðilegum foreldrum og ávallt sé viðstaddur fullorðinn einstaklingur sem hún þekki og treysti.

X. Niðurstaða

D, E og F eru fædd X, X og X. Barnaverndaryfirvöld munu hafa haft afskipti af málefnum þeirra frá því í X 2012 í kjölfar ítrekaðra tilkynninga þar sem lýst var áhyggjum af andlegri heilsu kæranda, vanlíðan hennar og ójafnvægi sem kæmi fram í andlegu og líkamlegu ofbeldi og vanrækslu gagnvart börnunum.

Börnin voru fyrst vistuð utan heimilis [...] 2013 og [...] 2014 en um tímabundna vistun var að ræða. Börnin fóru síðan aftur til kæranda en voru aftur vistuð utan heimilis X 2016. Þau voru vistuð sitt á hvoru fósturheimilinu og hafa verið á sömu fósturheimilum síðan. Kærandi var svipt forsjá barnanna með dómi Héraðsdóms N X 2017 og hefur fóstur barnanna verið varanlegt frá þeim tíma.

Kærandi krefst þess aðallega að úrskurður Barnaverndarnefndar B verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir barnaverndarnefndina að taka málið fyrir að nýju. Til vara krefst kærandi þess að úrskurðinum verði breytt þannig að umgengni barnanna E og F við kæranda verði ákveðin áttundu hverja helgi frá kl. 14.00 á laugardegi til kl. 18.00 á sunnudegi á heimili kæranda. Til þrautavara er gerð krafa um að börnin dvelji á heimili kæranda áttunda hvern laugardag í sex klukkustundir í senn frá kl. 11.00-17.00. Kærandi telur að hinn kærði úrskurður uppfylli hvorki form- né efnisreglur barnaverndarlaga og sé þannig bæði efnislega rangur og skorti rökstuðning. Þá telur kærandi að úrskurðurinn sé hvorki í samræmi við meginreglu bvl. um meðalhóf, sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, né rannsóknarreglu 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Það er enn fremur mat kæranda að úrskurðurinn brjóti í bága við jafnræðisreglu og stjórnarskrárbundin réttindi kæranda. Loks er það mat kæranda að úrskurðurinn sé andstæður hagsmunum barnanna.

Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að börnin hafi framan af ævi búið við erfiðar aðstæður og óstöðugleika á heimili kæranda og þurft að þola andlegt og líkamlegt ofbeldi auk vanrækslu. Einnig er vísað til sálfræðilegrar matsgerðar sem unnin var fyrir héraðsdóm X 2017 þar sem segi að kærandi sé stutt á veg komin með að vinna í áfengisvanda og áfallastreituröskun og því ekki í stakk búin til að sinna umgengni við börnin. Börnin hafi öll tekið miklum framförum í fóstri. Þá er vísað til umsagna fósturforeldra þar sem tilteknir eru þeir erfiðleikar sem umgengni hefur valdið öllum börnunum. Enn fremur hafi kærandi hunsað tilmæli barnaverndarstarfsmanna um að setja sig í samband við börnin utan skipulegrar umgengni, átt samskipti við þau án leyfis og sagt þeim að þau væru aðeins í pössun á fósturheimilum. Einnig var byggt á því sem fram kom í skýrslum talsmanna barnanna. Loks var lagt mat á hagsmuni barnanna með vísan til fyrirliggjandi gagna. Niðurstaðan var sú að börnin ættu umgengni við kæranda einu sinni á ári.

Meðal gagna málsins er forsjárhæfnismat sálfræðings á kæranda X 2017 en á því var meðal annars byggt í dómsmáli á hendur kæranda vegna forsjársviptingar barnanna þriggja. Í niðurstöðum matsins kemur fram að svarmynstur persónuleikaprófs bendi til langvarandi misnotkunar á áfengi með tilheyrandi samspili við þunglyndi, kvíða, svefnvanda, orkuleysi o.fl. Áfengisvandinn hafi leitt til alvarlegrar skerðingar á hæfni kæranda til að rækja skyldur sínar. Þá hafi sérstakt próf til að meta áfallastreitueinkenni/röskun sýnt mjög alvarleg einkenni hjá kæranda. Fram hafi komið hjá kæranda að hún hefði ekki gefið þeim matsmönnum, sem gerðu foreldrahæfnismat á henni 2014 og 2015, réttar upplýsingar um áfengisvandann. Einnig kemur fram að kærandi hafi verið í mikilli endurhæfingu árum saman, til dæmis hjá sálfræðingi, geðlækni, í meðferð á T og á P. Hún hafi farið í sína fyrstu áfengismeðferð X 2016 en ekki farið í eftirmeðferð eins og mælt sé með. Kærandi sé stutt á veg komin í edrúmennsku sinni og þurfi að halda vel á spöðunum til að eiga möguleika á langtímaárangri. Þá hafi kærandi geint frá langvarandi kynferðislegri misnotkun í æsku og hafi snemma lært að deyfa vanlíðan sína með áfengi. Hún hafi fyrst áttað sig á afleiðingum misnotkunarinnar í áfengismeðferðinni og ekki sagt sálfræðingi sínum frá þessu fyrr en vorið 2016 og geðlækni í desember 2016. Ætla megi að kærandi eigi langt í land með að vinna í afleiðingum kynferðisofbeldisins en slík vinna taki tíma. Í matinu segi að það hafi verið kæranda mikið áfall að eignast fyrirbura [...] 2015 þegar hún hafi verið nýkomin úr meðferð af P. Í kjölfarið hafi hún misst tökin á heimilinu og börnunum. Á sama tíma hafi hún misnotað áfengi.

Matsmaður telur að í gögnum málsins megi sjá dæmi um ótal erfiðleika kæranda við umönnun D en stúlkan hafi fjölþættar greiningar. Stúlkan sé nú ánægð á fósturheimili. Í viðtali matsmanns við stúlkuna hafi komið fram að hún sé tengd kæranda. Tengslin séu þó óörugg og stúlkan sé óviss um hvort hún vilji flytja til kæranda. Hún lýsi því þó yfir að vilja hitta bæði kæranda og systkini sín oftar en hún geri. Í viðtali við kennara D hafi komið fram að hún væri illa sett félagslega. Að því er varði E hafi hann verið greindur með [...]. Á meðan hann hafi verið í umsjá kæranda hafi hann sýnt erfiða hegðun á heimili, í leikskóla og skóla. Hann hafi einnig sýnt erfiða hegðun fyrst eftir að hann kom til fósturforeldra en að sögn þeirra og kennara hafi orðið gífurlegar framfarir í þroska hans og námi. Einnig hafi geðlæknir hælt framförum hans. Drengurinn sé nú vel staddur félagslega. Í viðtali matsmanns við drenginn hafi komið fram að honum líði vel á fósturheimili og í skóla. Hann sé í öruggum tengslum við fósturforeldra og líti á fósturheimili sem sitt heimili. Vinna fósturforeldra hafi skilað undraverðum árangri fyrir drenginn. E hafi sýnt erfiða hegðun og óöryggi fyrst eftir umgengni við kæranda. Hann óski þó eftir því að hitta bæði kæranda og systkini sín oftar. Yngsta barnið, F, hafi tekið miklum framförum frá því að hún kom á fósturheimilið. Í viðtalinu hafi komið fram að hún upplifi kæranda frekar sem vonda en góða og það bendi til óöruggra tengsla. Hún hafi sýnt erfiða hegðun í kringum umgengni við kæranda og virðist óttast að þurfa að yfirgefa fósturheimili þar sem hún vilji eiga heima. Hún lýsi því þó yfir að vilja hitta bæði kæranda og systkini sín oftar.

Matsmaður telur einnig að þó að börnin séu tengd kæranda virtust þau tengsl óörugg. Tengsl taki mið af raunverulegum atburðum í lífi barns og samskiptareynslu þeirra. Örugg tengslamyndun sé undirstaða fyrir tilfinningaþroska. Truflanir í tengslaferli geti átt sér stað meðal annars vegna aðskilnaðar á milli foreldra og barns, við álag til dæmis vegna þunglyndis foreldris, ofbeldis, vanrækslu o.fl. Flest hafi þetta átt sér stað í lífi barnanna. Bæði E og F hafi myndað örugg tengsl við fósturforeldra á kostnað tengsla við kæranda. Erfiðara sé að segja til um þetta hjá D. Að áliti matsmanns sé kærandi ekki í stakk búin til að sinna því krefjandi verkefni sem foreldraskyldur við börnin séu. Börnin hafi öll tekið miklum framförum í fóstrinu og virtust í öruggum tengslum við fósturforeldra. Niðurstaða matsmanns sé sú að það sé mikilvægt að börnin verði áfram í núverandi aðstæðum þar sem þau finni öryggi og stöðugleika. Einnig sé mikilvægt að þau fái að halda tengslum við kæranda og systkini sín með reglulegri umgengni.

Með dómi Héraðsdóms N X 2017 var kærandi svipt forsjá barnanna þriggja. Í forsendum og niðurstöðum héraðsdóms er meðal annars vísað til forsjárhæfnismatsins þar sem segi að forsagan hafi ítekað afhjúpað hve takmarkað álagsþol kærandi hefði. Einnig hefði margoft komið í ljós, að áliti matsmanns, að ef kærandi færðist of mikið í fang yrði glíman við skapbresti og áfengi henni strembin og auknar líkur væru á að hún missti tökin. Afskipti tveggja barnaverndarnefnda hafi staðið yfir í tæp fjögur ár er kæranda hafi verið tilkynnt á fundi Barnaverndarnefndar B [þann] X 2016 að lagt yrði til að hún yrði svipt forsjá barna sinna til 18 ára aldurs þeirra. Fyrir liggi að tilefnið hafi verið rökstuddar áhyggjur af vanrækslu kæranda en einnig að ofbeldi hefði viðgengist af hennar hálfu gagnvart börnunum þremur eða þau orðið vitni að slíku. Á fundinum hafi einnig verið tiltekið að kærandi hefði ekki náð að nýta sér þá aðstoð sem hún hefði fengið til margra ára, þar á meðal sálfræði- og geðlæknisþjónustu, fjárstuðning, viðvarandi heimilisþjónustu og reglubundið tilsjónareftirlit. Markmiðið með þessu hafi verið að styrkja kæranda í uppeldishlutverkinu. Barnaverndaryfirvöld hafi reynt að beita öllum vægari úrræðum til úrbóta áður en komið hafi að forsjársviptingu án þess að viðunandi árangur hefði náðst. Margstaðfest sé af sérfræði- og meðferðaraðilum að hún sé í raun enn í brýnni þörf fyrir aðstoð og skammt á veg komin í bata. Hún eigi þó möguleika á bata og mikilvægt að vel takist til. Kærandi annist nú fjórða barn sitt, L fædda 2015, en fái við það sérfræðiaðstoð. Að mati dómsins séu engar sönnur fram færðar fyrir því að styrkur kæranda haldi, verði verkefni daglegs lífs hennar aukin svo sem ef barn eða börn bættust í hópinn undir hennar daglegu forsjá. Miðað við forsögu og erfiðleika barnanna þriggja til margra ára og miðað við framfarir barnanna hjá fósturfjölskyldum þyki dómnum það ekki hagsmunir barnanna að látið verði á það reyna hvort kærandi hafi burði til að standast auknar kröfur við uppeldi þeirra. Ætla verði að áhætta yrði tekin með framtíð þeirra ef þau yrðu enn og aftur flutt til kæranda. Var fallist á að kærandi yrði svipt forsjá barnanna þriggja.

Við meðferð málsins var utanaðkomandi talsmanni falið að ræða vð börnin og fá fram sjónarmið þeirra. Rætt var við börnin á skrifstofu talsmanns, ýmist með fósturforeldri eða rætt einslega við hvert og eitt barn. Töluverður samhljómur er með sjónarmiðum barnanna. Þannig vilja þau alls ekki vera ein með kæranda og segja að þeim líði vel á fósturheimilunum. Eldri börnin sögðust vilja hitta kæranda oftar en nú, en yngsta barnið sýndi ekki sérstakan áhuga á að hitta kæranda. Öll virðast börnin sjá umgengni við kæranda sem tækifæri til að hitta systkini sín.

Kærandi telur að barnaverndarnefndin hafi brotið málsmeðferðarreglur bvl. og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við úrlausn málsins. Nefnir kærandi þar rannsóknarreglu, jafnræðisreglu og meðalhófsreglu.

Rannsóknarreglan er lögfest í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Þá er rannsóknarreglu að finna í 1. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því.

Að mati kæranda var málið ekki rannsakað nægilega þegar ákveðið var að umgengni skyldi vera einu sinni á ári. Þá hafi barnaverndarnefnd ekki nýtt allar fyrirliggjandi upplýsingar í málinu svo sem fjölmargar rannsóknir á hæfi kæranda. Sömuleiðis hafi tengsl kæranda við börnin og tengsl barnanna innbyrðis verið vanmetin. Loks telur kærandi það sjálfstætt brot að talsmaður hafi einungis tekið eitt viðtal við hvert barn en ekki verið byggt á niðurstöðum rannsókna sem byggðar hafi verið á tengslaprófum.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barna skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem börnin eru í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni þeirra við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum þeirra best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Hinn kærði úrskurður byggir á núverandi stöðu barnanna en jafnframt er horft til margþættra vandamála kæranda og núverandi stöðu hennar en í málinu liggja fyrir umfangsmikil gögn þar að lútandi. Talsmaður hefur einnig komið á framfæri sjónarmiðum barnanna og fyrir liggur að ekkert þeirra vill hafa umgengni við kæranda eins mikla og hún fer fram á. Einnig er litið til þess hvernig börnunum hefur liðið fyrir og eftir umgengni við kæranda. Þetta eru grundvallaratriði málsins. Að teknu tilliti til alls þessa telur úrskurðarnefndin að Barnaverndarnefnd B hafi ekki gerst brotleg við rannsóknarreglu að því er varðar úrvinnslu á gögnum málsins.

Talsmaður var skipaður börnunum sem ræddi tvisvar sinnum við D og einu sinni við yngri börnin. Viðtölin fóru fram á skrifstofu talsmanns eins og fram kemur í gögnum málsins. Annars vegar var rætt við barnið eitt og hins vegar í viðurvist fósturforeldris. Í 2. mgr. 46. gr. bvl. segir að gefa skuli barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og taka skuli réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. Ætla verður að barnaverndarnefnd hafi sjálf annars vegar mat um það hvort vilji barns komi nægilega vel fram í viðtali við talsmann og hins vegar að hve miklu leyti byggja eigi á skoðunum barnsins með tilliti til aldurs þess og þroska. Í máli þessu fullnægði barnaverndarnefndin þeirri skyldu sinni að afla sjónarmiða barnanna að því marki sem hún taldi tilefni til. Telur úrskurðarnefndin þessa málsmeðferð ekki brot á rannsóknarreglu.

Í jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga segir að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti en gengið er út frá því að sambærileg mál skuli njóta sömu meðferðar. Kærandi heldur því fram að umgengni hennar hafi verið ákveðin minni en gengur og gerist og vísar því til stuðnings til úrskurða kærunefndar barnaverndarmála í málum nr. 21/2015, 25/2015 og 24/2015.

Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki rétt að bera saman barnaverndarmál þegar taka á ákvarðanir um umgengni. Eðli sínu samkvæmt eru málin ávallt ólík þar sem þau eru saman sett úr ólíkum þáttum og aðstæður eru yfirleitt ekki sambærilegar. Meta verður hagsmuni og öryggi barna í hverju máli fyrir sig og verður lausn í málum ætíð að vera í samræmi við hagsmuni barnanna. Úrskurðarnefndin telur að fram komi í hinum kærða úrskurði að barnaverndin hafi við meðferð og úrslausn málsins haft hagsmuni barnanna í fyrirrúmi. Með vísan til alls þessa verður ekki fallist á að jafnræðisregla hafi verið brotin þegar barnaverndarnefndin tók ákvörðun um umgengni.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfu kæranda um að umgengni hennar við börnin verði aukin með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum barnanna best með tilliti til þeirrar stöðu sem börnin eru í. Umgengni kæranda við börnin þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun þeirra í varanlegt fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi barnanna í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrunum þar sem markmiðið er að tryggja þeim stöðugt og öruggt umhverfi hjá fósturforeldrunum til frambúðar. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum barnanna best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Í hinum kærða úrskurði er aðstæðum og erfiðleikum barnanna lýst. Þar er enn fremur vísað til þess að skýrt komi fram í skýrslum talsmanns barnanna að þau vilja mjög takmarkaða umgengni við kæranda. Fósturforeldrar hafa lýst afstöðu sinni varðandi umgengni með tölvupóstum til úrskurðarnefndarinnar. Fósturforeldrar eru allir mótfallnir því að umgengni verði meiri en kveðið hafi verið á um í hinum kærða úrskurði. Byggja þau meðal annars á því að umgengni hafi slæm áhrif á börnin, umgengni sé erfið fyrir þau og valdi miklu tilfinningalegu álagi og vanlíðan. Þá hafa börnin öll fengið að tjá sig við talsmann samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl.

Þau börn, sem hér um ræðir, eiga öll við mikla erfiðleika að glíma. Kærandi hefur með framkomu sinni sýnt að hún reynir að innræta börnunum neikvæðar skoðanir varðandi fóstrið og hefur í reynd unnið gegn fóstrinu og fósturforeldrunum. Samkvæmt gögnum málsins hefur öllum börnunum farið fram eftir að þau fóru úr umsjá kæranda. Einnig má ráða af gögnum að umgengni við kæranda valdi börnunum mikilli spennu og vanlíðan. Þau hafa skaddast verulega í umsjá kæranda, meðal annars vegna áfengisneyslu hennar og þess ofbeldis og vanrækslu sem þau hafa þurft að þola af hendi hennar. Rekja má tengslaröskun þeirra til ofangreindra aðstæðna sem þeim var búin á heimili kæranda. Það er mikið í húfi fyrir hagsmuni barnanna að stöðugleiki geti ríkt í fóstrinu og að þeim verði forðað frá þeirri miklu vanlíðan sem umgengnin veldur þeim.

Þegar leggja þarf mat á það hvort og þá hve mikla umgengni börnin eiga að hafa við kæranda þarf að gera það út frá hagsmunum barnanna og hvaða hlutverki kæranda sé ætlað í lífi þeirra. Þá er mikilvægt að þau fái frið til að aðlagast fósturfjölskyldum sínum án þeirrar truflunar sem umgengni kæranda veldur þeim. Með því að takmarka umgengni kæranda við börnin er verið að tryggja hagsmuni barnanna, öryggi þeirra og þroskamöguleika. Það álag sem umgengnin við kæranda veldur börnunum og fósturforeldrum gerir stöðu barnanna ennþá verri, eins og gögn málsins bera með sér, en fósturforeldrarnir þurfa að takast á við þær alvarlegu afleiðingar sem umgengni við kæranda hefur fyrir börnin.

Í fyrirliggjandi sálfræðilegri matsgerð frá X 2017 kemur fram að mikilvægt sé fyrir börnin að hafa reglulegt samband við kæranda og halda þannig tengslum við hana. Kærandi heldur því fram að umgengni sem er einu sinni á ári geti vart talist regluleg. Á þeim tíma er umrædd matsgerð var unnin höfðu börnin aðeins verið tæplega níu mánuði í varanlegu fóstri og lítil reynsla komin á það hvernig þeim myndi vegna í fóstrinu. Ekki lá heldur fyrir hvaða áhrif umgengni við kæranda myndi hafa á börnin. Síðan hefur komið í ljós að staða allra barnanna hefur batnað verulega hjá fósturforeldrum, umgengni við kæranda hefur reynst þeim erfið og kærandi hefur beinlínis unnið gegn fóstrinu. Að mati úrskurðarnefndarinnar skipta þessi atriði miklu máli þegar ákveðið er hversu oft kærandi hefur umgengni við börnin. Við þessar aðstæður er mjög mikilvægt að látið verði á það reyna hvernig börnunum vegnar þegar þau hafa aðlagast fóstrinu betur og hvort áframhald verður á því að þau nái meiri sálarró og jafnvægi.

Þegar allt framangreint er virt er það mat úrskurðarnefndarinnar að það þjóni hagsmunum barnanna best við núverandi aðstæður að umgengni þeirra við kæranda verði verulega takmörkuð á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Í því felst að úrskurðarnefndin telur hvorki rök fyrir því að meðalhófsregla hafi verið brotin né að hinn kærði úrskurður sé órökstuddur.

Því verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra er ákveðin. Með vísan til þess sem að framan greinir ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.

Að því er varðar kröfu fósturföður E um að fá að vera sjálfur viðstaddur umgengni ber honum að beina þeirri kröfu til barnaverndarnefndarinnar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 1. desember 2017 varðandi umgengni A við börn hennar, D, E og F, er staðfestur.

 

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum