Hoppa yfir valmynd

Sveitarfélagið Ölfus - Synjun form. bæjarráðs um að taka mál á dagskrá, bókunarréttur

Ásgeir Ingvi Jónsson
22. desember 2006
FEL06110034

Sambyggð 2

815 Þorlákshöfn

Þann 22. desember 2006 var í félagsmálaráðuneyti kveðinn upp svofelldur

ú r s k u r ð u r:

Þann 13. nóvember 2006 barst ráðuneytinu erindi frá Ásgeiri Ingva Jónssyni, bæjarfulltrúa og

bæjarráðsmanni í Sveitarfélaginu Ölfusi, dags. 9. nóvember 2006, hér eftir nefndur kærandi. Í

erindinu er óskað eftir því að ráðuneytið úrskurði um hvort fundarstjórn formanns bæjarráðs

Ölfuss brjóti í bága við samþykktir sveitarfélagsins og sveitarstjórnarlög.

Kærandi óskar eftir því að ráðuneytið úrskurði um eftirfarandi tvö atriði:

1. Hvort formanni bæjarráðs hafi verið heimilt að neita að taka málið á dagskrá (á fundi

bæjarráðs 9. nóvember 2006).

2. Ef svar við lið nr. 1 er játandi er óskað að úrskurðað verði hvort þá hafi ekki verið rétt að

beiðni kæranda á fundinum væri bókuð, svo og hvernig hún hafi verið afgreidd.

Erindið var sent Sveitarfélaginu Ölfusi til umsagnar með bréfi, dags. 23. nóvember 2006.

Umsögn barst þann 12. desember 2006 og var send kæranda þann sama dag.

I. Málavextir og sjónarmið aðila máls.

Fram kemur í erindi kæranda að að morgni 7. nóvember 2006 hafi bæjarstjóri sent tölvupóst til

bæjarstjórnarmanna. Í tölvupóstinum var kaupsamningur við Golf ehf. og tilkynning um að

skrifað yrði undir hann þann 9. nóvember 2006 kl. 11.30 með fyrirvara um samþykki

bæjarstjórnar.

Kærandi brást samdægurs við með tölvupósti sem sendur var kl. 10.50 þar sem hann óskaði eftir

því við bæjarstjóra og formann bæjarráðs að kaupsamningur við Golf ehf. yrði ræddur á

bæjarráðsfundi 9. nóvember kl. 8.00. Bæjarstjóri svaraði sama dag kl. 15.00 að dagskrá væri farin

út til fundarmanna og því yrði málið ekki á dagskrá bæjarráðsfundar 9. nóvember 2006.

Að kvöldi þessa sama dags, 7. nóvember 2006, sendi kærandi tölupóst til bæjarstjóra og formanns

bæjarráðs þess efnis að heimilt sé að taka mál á dagskrá eftir að dagskráin hafi verið send til

fundarmanna, en ekki megi afgreiða mál sem bar að með þeim hætti ef einhver bæjarráðsmaður

óskar eftir því. Vísar kærandi til 47. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins

Ölfuss nr. 727/2004, með síðari breytingum, í því sambandi.

Kærandi bendir á að ekki sé að finna nokkurt ákvæði í samþykkt sveitarfélagsins um það hvenær

bæjarráðsmaður eigi að skila inn gögnum til að mál sé tekið fyrir. Þar komi aðeins fram að boða

eigi fundinn með minnst eins sólarhrings fyrirvara, sbr. 46. gr. samþykktar sveitarfélagsins.

Loks tekur kærandi fram að þegar hann hafi óskað eftir því á fundinum (átt mun við fund

bæjarráðs 9. nóvember 2006) að málið yrði tekið á dagskrá hafi formaður svarað svo að hann hafi

vald til að úrskurða um að málið sé ekki á dagskrá og jafnframt að honum sé óheimilt að rita það

í fundargerð að óskað hafi verið eftir því að málið yrði rætt.

Í umsögn kærða, dags. 12. desember 2006, segir svo um erindi kæranda:

„Ósk um að það málefni sem bæjarráðsmaðurinn vildi að sett yrði á dagskrá fundar bæjarráðs 9.

nóvember sl. kom fram eftir að dagskrá hafði verið ákveðin og send bæjarráðsmönnum. Erindið

átti að mati formanns bæjarráðs ekkert erindi á fund bæjarráðs, enda bar honum engin skylda til

að setja málefnið á dagskrá fundarins, sbr. 47. gr. samþykkta fyrir bæjarráð Sveitarfélagsins

Ölfuss, en þar segir orðrétt:

„Heimilt er að taka mál til meðferðar í bæjarráði þótt ekki sé það tilgreint á dagskrá.“

 

Engin skylda hvíldi á formanni bæjarráðs að setja málið á dagskrá.“

II. Niðurstaða ráðuneytisins.

 

Samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, úrskurðar ráðuneytið um ýmis vafaatriði sem

upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna, meðal annars um það hvort

sveitarstjórnarfundir og fundir nefnda sveitarfélagins fari fram í samræmi við sveitarstjórnarlög

og samþykktir viðkomandi sveitarfélags.

Ráðuneytið lítur svo á að í erindinu felist kæra í skilningi 103. gr. sveitarstjórnarlaga og að kæran

taki til þess að formaður bæjarráðs hafi á fundi 9. nóvember 2006 hafnað því að taka viðkomandi

mál á dagskrá og jafnframt hafnað því að sá atburður væri bókaður á fundinum. Greinir aðila á

um framangreind atriði

Kæran er fram komin innan tilskilins kærufrests, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Málið

er því tækt til úrskurðar.

Hvað varðar rétt bæjarráðsmanns til að fá mál tekið fyrir á fundi bæjarráðs Sveitarfélagsins

Ölfuss vísast til 46. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Ölfuss, nr.

727/2004, með síðari breytingum. Þar kemur fram að bæjarstjóri undirbýr bæjarráðsfundi í

samráði við formann bæjarráðs og sér um að boðað sé til fundar með skriflegu fundarboði ásamt

dagskrá a.m.k. einum sólarhring fyrir fund.

Í 47. gr. samþykktarinnar kemur fram að heimilt er að taka mál til meðferðar í bæjarráði þótt ekki

sé það tilgreint í dagskrá. Þó er samkvæmt ákvæðinu skylt að fresta afgreiðslu slíks máls ef

einhver bæjarráðsmanna óskar þess. Af ákvæðinu er ljóst að ekki er fyrir hendi ófrávíkjanleg

skylda til að taka mál til meðferðar í bæjarráði ef það er ekki tilgreint í dagskránni.

Um skráningu fundarðgerða er bent á 22. og 23. gr. sveitarstjórnarlaga. Samkvæmt 22. gr.

laganna skal oddviti sjá til þess að fundargerðir séu skipulega færðar í gerðabók og skv. 23. gr.

laganna skal skrá í fundargerð það sem gerist á sveitarstjórnarfundi. Um ritun fundargerðar

bæjarráðs Sveitarfélagsins Ölfuss gilda sömu reglur og um ritun fundargerðar bæjarstjórnarinnar,

sbr. 47. og 32. gr. samþykktarinnar. Samkvæmt 32. gr. samþykktarinnar getur bæjarráðsmaður

sem gera vill athugasemd við eitthvert atriði í fundargerð undirritað fundargerðina með fyrirvara

um það atriði.

Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að kærða hafi ekki verið skylt að taka fyrir

tillögu kæranda á fundi bæjarráðs Sveitarfélagsins Ölfuss þann 9. nóvember 2006 sem ekki var á

dagskrá fundarins, sbr. 47. gr. samþykktar bæjarfélagsins. Ráðuneytið telur á hinn bóginn að rétt

hefði verið að bóka í fundargerð að kærandi hefði óskað eftir því að mál varðandi kaupsamning

sveitarfélagsins við Golf ehf. yrði tekið á dagskrá, en að því hefði verið hafnað, sbr. 22. og 23. gr.

sveitarstjórnarlaga. Ágalli þessi er að mati ráðuneytisins aðfinnsluverður en varðar ekki lögmæti

fundar bæjaráðs þann 9. nóvember 2006.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Formanni bæjarráðs Sveitarfélagsins Ölfuss var heimilt að hafna því að taka tillögu kæranda fyrir

á fundi bæjarráðs 9. nóvember 2006. Formanni bæjarráðsins bar að sjá til þess að framangreind

beiðni kæranda og afgreiðsla þeirrar beiðni yrði bókuð í fundargerð fundar bæjarráðs 9.

nóvember 2006.

Fyrir hönd ráðherra

Sesselja Árnadóttir (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)

22. desember 2006 - Sveitarfélagið Ölfus - Synjun form. bæjarráðs um að taka mál á dagskrá, bókunarréttur. (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum