Hoppa yfir valmynd

Sýslumaðurinn Eskifirði - höfnun á endurveitingu ökuréttinda: Mál nr. 37/2009

Ár 2009, þann 27. ágúst er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður

í stjórnsýslumáli nr. 37/2009

A

gegn

sýslumanninum á Eskifirði

 

I.         Aðild, kröfugerð, kærufrestur og kæruheimild

Þann 15. maí 2009 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Sigríðar Kristinsdóttur hdl. f.h. A (hér eftir nefndur kærandi) þar sem kærð er sú ákvörðun sýslumannsins á Eskifirði (hér eftir nefndur sýslumaður) að hafna útgáfu ökuskírteinis til kæranda.  

Að mati ráðuneytisins gerir kærandi þá kröfu að höfnun sýslumanns verði felld úr gildi og lagt fyrir hann að endurnýja ökuréttindi kæranda.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

Nr. 1. Stjórnsýslukæra dags. 15. maí 2009 ásamt eftirfarandi fylgigögnum:

a) Bréf sýslumanns til kæranda dags. 4. mars 2009.

b) Læknisvottorð dags. 20. nóv.2008.

c) Álit ÞÞ ökukennara  dags. 3. des. 2008

Nr. 2. Bréf ráðuneytisins til sýslumanns, með afriti til kæranda, dags. 19. maí 2009.

Nr. 3. Umsögn sýslumanns dags. 25. maí 2009.

Nr. 4. Bréf ráðuneytisins til kæranda, dags. 10. júní 2009.

Nr. 5. Andmæli kæranda, dags. 19. júní 2009.

Nr. 6. Bréf ráðuneytisins til kæranda og til sýslumanns, dags. 23. júní 2009.

Kæruheimild er í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki er ágreiningur um aðild.

 

II.  Málsatvik

Málavextir eru þeir að með bréfi dags. 4. mars 2009 hafnaði sýslumaður umsókn kæranda um endurnýjun ökuréttinda en ekki liggur fyrir hvenær E kærandi lagði inn umsókn þar um. 

Ákvörðun sýslumanns var kærð til ráðuneytisins með bréfi dags. 15. maí 2009. Leitað var umsagnar sýslumanns þann 19. maí sl. og barst umsögn ráðuneytinu með bréfi þann 25. maí 2009. Með bréfi dags. 13. maí 2008 eru ítrekuð sjónarmið sýslumanns fyrir hinni kærðu ákvörðun.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar þann 10. júní 2009 og bárust þau með bréfi þann 19. júní sl.   

Með bréfum þann 23. júní 2009 var kæranda annars vegar og sýslumanni hins vegar tilkynnt um meðferð máls og að ráðgert væri að ljúka málinu í ágúst.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er hér með tekin til úrskurðar. 

 

III.      Málsástæður og lagarök kæranda

Kærandi vísar í málatilbúnaði sínum til þess að í Viðauka II með reglugerð nr. 501/1997 sé að finna heimild til undantekninga frá kröfum um sjón ef að baki liggur læknisfræðilegt álit og hæfnisathugun sem gefur jákvæða niðurstöðu. Leggur kærandi fram í málinu vottorð augnlæknis þar sem fram kemur að hann sjái vel umferðarmerki, bíla og menn og nái sjónerfiðleikar hans einungis til að lesa smáan texta. Þá vísar kærandi til álits ökukennara sem reyndi ökuhæfi kæranda. Þar komi fram að þekking kæranda á umferðarreglum sé mjög góð og einnig stjórnun hans á bifreið. Kærandi meti aðstæður mjög vel og gæti vel að hraða. Tekur ökukennarinn fram að hann hafi fylgst með kæranda í akstri og telur hann aka af öryggi.

Kærandi álítur það sér nauðsynlegt að hafa gild ökuréttindi þar sem hann á erfitt með gang og þarf því að fara allra sinna ferða í bifreið. Hann sé búsettur í litlum bæ þar sem umferð er lítil en vegalengdir langar fyrir fótgangandi.

Kærandi vísar að öðru leyti til A-liðar viðauka II. með reglugerð nr. 501/1997 um ökuskírteini.  

Í andmælum sínum tekur kærandi fram að í umsögn sinni taki sýslumaður enga afstöðu til vottorðs augnlæknisins né álits ökukennarans. Áréttar kærandi sérstaklega það sem fram kemur í nefndum vottorðum. Telur kærandi ljóst að hann uppfylli skilyrði þau sem fram koma í nefndum Viðauka II þar sem bæði læknisfræðilegt álit og hæfnisathugun gefi jákvæða niðurstöðu. 

 

IV.       Málsástæður og rök sýslumanns

Sýslumaður vísar í umsögn sinni til bréfsins dags. 4. mars 2009 þar sem umsókn kæranda er hafnað. Kemur þar fram að samkvæmt 1. mgr. 21. gr. reglugerðar um ökuskírteini nr. 501/1997 megi einungis veita þeim ökuskírteini sem sér og heyrir nægilega vel og er að öðru leyti hæfur andlega og líkamlega til að stjórna ökutæki. Nánari ákvæði um heilbrigðisskilyrði til að öðlast ökuskírteini komi fram í II. viðauka við reglugerðina og komi þar fram að lágmarkssjónskerpa til að öðlast ökuréttindi skuli vera 0,5 á hvoru auga en í framlögðu læknisvottorði kæranda frá 20. nóvember 2007 komi fram að sjónskerpa kæranda sé einungis 0,16 á hægra auga en 0,016 á vinstra auga. Mikið vanti því uppá að sjónskerpa kæranda sé nægileg og í samræmi við gildandi reglur og því óheimilt að gefa út ökuskírteini til hans, miðað við núverandi forsendur. Ekki skipti máli í því sambandi þótt augnlæknir telji sjónsvið gott, né það álit ökukennara að mæla með að kærandi haldi ökuréttindum þó þannig að þau séu staðbundin.

Þá áréttar sýslumaður í umsögn sinni að sjónskerpa kæranda sé svo miklu lakari en lágmarkið samkvæmt II. Viðauka reglugerðarinnar að ekki sé forsvaranlegt að gera undanþágu frá því.

 

V.        Álit og niðurstaða ráðuneytisins

1.  Ágreiningur máls þessa varðar rétt kæranda til að fá ökuréttindi endurnýjuð og greinir aðila á um hvort kærandi uppfylli kröfur reglugerðar nr. 501/1997 um skilyrði fyrir því.   

Álitaefni þetta hefur áður komið til úrlausnar hjá ráðuneytinu en með úrskurði uppkveðnum 6. október 2008 í máli nr. 38/2008 (SAM08040082) komst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki heilbrigðisskilyrði reglugerðar nr. 501/1997 um ökuskírteini, hvað sjón varðar, til að fá útgefið ökuskírteini. Kröfu kæranda um að ráðuneytið ógilti höfnun sýslumanns á því að gefa út ökuskírteini til hans var því hafnað. 

Að mati ráðuneytisins er hér um sama mál að ræða nema að því leyti að kærandi leggur nú fram vottorð augnlæknis og umsögn ökukennara til frekari stuðnings kröfum sínum, þ.e. að beita megi heimild reglugerðarinnar, um undantekningar frá kröfum um sjón, liggi fyrir læknisfræðilegt álit og hæfnisathugun sem gefa jákvæða niðurstöðu. 

2.  Í málinu liggur fyrir læknisvottorð augnlæknis dags. 20. nóvember 2007 þar sem fram kemur að sjón hans á hægra auga sé 6/36 en á vinstra auga 1/60. Auk þess er gefinn sá vitnisburður að miðsjón/skerpa sé ekki góð sem hái honum við að lesa smáan texta en hann sjái vel umferðarmerki, bíla og mannaferðir og að sjónsvið sé gott.

Í bréfi sýslumanns sem hefur að geyma hina kærðu ákvörðun er vísað til þess vottorðs um að sjónskerpa kæranda mælist 0,16 á hægra auga en 0,016 á vinstra auga. 

Einnig hefur kærandi lagt fram yfirlýsingu ökukennara dags. 3. desember 2008 sem tók kæranda í ökumat vegna umsóknar um endurnýjun ökuskírteinis, með sjón hans og þekkingu að leiðarljósi. Kemur þar fram að merkja megi að sjón sé ekki 100 prósent en þekking á umferðarreglum er mjög góð og stjórnun á bíl einnig. Þá sé mat á aðstæðum gott og val á hraða miðað við aðstæður. Leggur ökukennarinn til að kærandi fái að halda sínum ökuréttindum þó þannig að þau verði staðbundin við Hornafjörð.

Með vísan til fyrri úrskurðar ráðuneytisins í máli nr. 38/2008 (SAM08040081) hefur ráðuneytið þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllir ekki heilbrigðisskilyrði reglugerðar nr. 501/1997 um ökuskírteini hvað varðar kröfur sem gerðar eru um sjón. Það er mat ráðuneytisins að ekkert nýtt hafi komið fram í málinu um að sú niðurstaða hafi verið byggð á röngum forsendum þannig að rétt sé og/eða skylt að taka hana til endurskoðunar enda liggur fyrir læknisvottorð augnlæknis sem staðfestir að sjón kæranda uppfyllir ekki lágmarksskilyrði reglugerðarinnar.

Í máli þessu kemur því eingöngu til skoðunar hvort þau gögn sem kærandi lagði fram geta vikið til hliðar þeim skilyrðum sem kveðið er á um í reglugerðinni að uppfylla skuli varðandi sjón ökumanna.

3.  Um ökuskírteini og útgáfu þeirra er fjallað í umferðarlögum nr. 50/1987 og reglugerð nr. 501/1997 með síðari breytingum.

Í 2. mgr. 48. gr. umferðarlaga eru talin upp þau skilyrði sem einstaklingur verður að uppfylla til að öðlast ökuskírteini og eru þau:

a)    að vera fullra 17 ára;

b)    að sjá og heyra nægilega vel og vera að öðru leyti nægilega hæfur andlega og líkamlega; og

c)    að hafa hlotið kennslu löggilts ökukennara og sannað með prófi að hafa til að bera næga aksturshæfni og nauðsynlega þekkingu á ökutækinu og meðferð þess og umferðarlöggjöf.  

Í 1. mgr. 21. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um eftirfarandi:

Ökuskírteini má aðeins veita þeim sem sér og heyrir nægilega vel og er að öðru leyti nægilega hæfur andlega og líkamlega. Nánari ákvæði um heilbrigðisskilyrði til að öðlast ökuskírteini koma fram í II. viðauka.“

Um heilbrigðisskilyrðin segir svo m.a. um sjónkröfur í A lið II. viðauka:

Sá sem sækir um ökuskírteini skal fara í skoðun til að ganga úr skugga um að hann hafi nógu góða sjón til að stjórna vélknúnu ökutæki. Ef ástæða er til að efast um að svo sé skal umsækjandi fara í rannsókn hjá þar til bærum lækni. Í þeirri rannsókn skal einkum lögð áhersla á sjónskerpu, sjónsvið, sjón í rökkri og augnsjúkdóma sem ágerast.

Hópur 1.

Sá sem sækir um útgáfu eða endurnýjun ökuskírteinis skal hafa sjónskerpu sem nemur a.m.k. 0,5 þegar bæði augu eru mæld samtímis, eftir atvikum með sjónglerjum.  Ökuskírteini má hvorki gefa út né endurnýja ef fram kemur við læknisskoðun að lárétt sjónsvið viðkomandi er innan við 120°, nema víkja megi frá því í undantekningartilvikum á grundvelli læknisfræðilegs álits og hæfnisathugunar sem gefur jákvæða niðurstöðu, eða að sjón hans er [af] öðrum ástæðum þannig að hann getur ekki ekið af öryggi. [...].

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar skal umsækjandi um ökuskírteini leggja fram með umsókn yfirlýsingu um heilbrigði eða læknisvottorð. Um læknisvottorð er kveðið á um í 22. gr. og segir þar að það skuli vera á tilteknu eyðublaði og gefið út af heimilislækni umsækjanda að öðrum kosti skuli umsækjandi gefa fullnægjandi skýringar.

Þá er í 1. mgr. 23. gr. reglugerðarinnar fjallað um mat á framlögðum gögnum vegna umsóknar um ökuskírteini en þar segir:

Á grundvelli heilbrigðisyfirlýsingar/læknisvottorðs ákveður lögreglustjóri hvort umsækjandi fullnægi heilbrigðisskilyrðum til að öðlast þau ökuréttindi sem sótt er um."

Í 2. og 3. mgr. 23. gr. segir:

„Lögreglustjóri getur krafist þess að frá sérfræðingi eða öðrum verði fengin yfirlýsing eða ítarlegri upplýsingar, svo og að umsækjandinn að öðru leyti taki þátt í læknisfræðilegum rannsóknum til að skera úr um hvort gefa megi út ökuskírteini eða það skuli skilyrt á einhvern hátt.

Lögreglustjóri getur og krafist þess að aflað verði yfirlýsinga eða ítarlegri upplýsinga frá prófdómara og enn fremur að umsækjandi gangist undir hæfnisathugun, sbr. 45. gr., til að meta hvort gefa megi út ökuskírteini eða það skuli skilyrt á einhvern hátt.“

Eins og rakið er í úrskurði ráðuneytisins í máli nr. 38/2008 gefa framangreind ákvæði 2. og 3. mgr. 23. gr. lögreglustjóra heimild til að krefjast frekari gagna og upplýsinga en kveða ekki á um heimild umsækjenda til að leggja fram slík gögn. Við túlkun á ákvæðum þessum verði að líta til annarra ákvæða reglugerðarinnar sem gilda um útgáfu ökuskírteina sbr. framangreint, og sé hér verið að veita lögreglustjóra heimild til að krefjast ítarlegri gagna þegar framlögð gögn, þ.e. læknisvottorð samkvæmt 22. gr., er ekki fullnægjandi. Mat á því hvort kalla skuli eftir slíkum viðbótargögnum sé hins vegar hjá sýslumanni. Hér sé því ekki um sjálfstæða heimild umsækjanda að ræða til að fá að leggja fram frekari gögn. 

Ráðuneytið tekur fram að ákvæðið girði þó að sjálfsögðu ekki fyrir að umsækjandi geti lagt slík gögn fram með umsókn og var það einmitt það sem kærandi gerði í máli því sem hér er til umfjöllunar.

Það álitaefni sem er til úrlausnar í máli þessu er því það hvort gögn þessi geti leitt til að víkja beri frá þeim kröfum sem gerðar eru í reglugerðinni um sjón vegna útgáfu ökuskírteinis.

4.  Eins og rakið er að framan eru í reglugerð nr. 501/1997 sett fram ákveðin skilyrði fyrir því að fá útgefið ökuskírteini og er í viðauka II. með reglugerðinni kveðið á um lágmarkskröfur um líkamlegt og andlegt hæfi til að stjórna vélknúnu ökutæki. Kemur þar fram sú meginregla að lágmarkskröfur séu gerðar um andlegt og líkamlegt heilbrigði ökumanna. Í A-lið er kveðið á um sjón og að umsækjandi hafi tiltekna sjónskerpu hið minnsta. 

Ráðuneytið lítur svo á að í viðauka þessum sé kveðið á um lágmarkskröfur sem uppfylla þarf og enga heimild sé þar að finna til að víkja frá þeim kröfum. Þau gögn sem lögreglustjóra sé heimilt að krefja um, eða umsækjandi að leggja fram, sbr. 2. og 3. mgr. 23. gr. breyti þar engu heldur sé þar um að ræða heimild til að kalla eftir ítarlegri gögnum þegar þau sem lögð eru fram eru ekki fullnægjandi eða þykja ekki gefa rétta mynd af hæfi umsækjanda. 

Þau gögn sem kærandi lagði fram með umsókn og kröfugerð hans grundvallast nú á, geti þar af leiðandi ekki vikið til hliðar skýrum ákvæðum reglugerðarinnar um lágmarkskröfur til ökumanna, en fyrir liggur og er óumdeilt að kærandi uppfyllir ekki ákvæðin hvað sjónskerpu varðar.

Að virtu öllu framangreindu telur ráðuneytið ekki efni til að ógilda hina kærðu ákvörðun sýslumanns um að hafna útgáfu ökuskírteinis til handa kæranda.

5.  Aðfinnsluvert er að í ákvörðun sýslumanns er enn á ný röng leiðbeining um kæruheimild þar sem ákvörðun sýslumanns er sögð kæranleg til dómsmálaráðuneytisins. Það veldur þó ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.  

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

 

Kröfu Sigríðar Kristinsdóttur hdl., f.h. A, um að fella úr gildi þá ákvörðun sýslumanns á Eskifirði um að hafna endurnýjun ökuréttinda, er hafnað.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Svanhvít Axelsdóttir

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum