Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 22. nóvember 2007

Matsnefnd eignarnámsbóta

 

 

Ár 2007, fmmtudaginn 22. nóvember, er haldinn fundur í Matsnefnd eignarnámsbóta í fundarstofu formanns að Flókagötu 56, Reykjavík.

                                                                                      Fyrir er tekið:

                                                                                      Málið nr. 7/2004

                                               Eignarnemi:                   Vegagerð ríkisins

                                               Eignarnámsþoli:             Jóhanna Jónsdóttir.

 

Mættir eru Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl. sem stýrir fundi,

Þorsteinn Einarssson hrl. og Vifill Oddsson verkfræðingur.

Skjöl málsins nr. 1-72 liggja frammi. 

Lagt er fram nr.

73 Tölvusending lögmanns sóknaraðila                                  07 09 07

 

Kveðinn er upp í málinu svohljóðandi úrskurður:

 

            Ár 2007,  fimmtudaginn 22. nóvember, er í Matsnefnd eignarnámsbóta kveðinn upp svofelldur

 

ÚRSKURÐUR

 

í málinu nr. 7/2004

Jóhanna Jónsdóttir

gegn

Vegagerð ríkisins

 

I.

            Þann 1. nóvember 2004 var lagður úrskurður á málið þess efnis að sóknaraðila, eignarnámsþola, skyldi hvorki ákveðnar bætur né málskostnaður.

            Eignarnámsþoli leitaði ásjár umboðsmanns Alþingis með erindi 10. janúar 2005 og kvartaði yfir því að matsnefndin hefði ekki úrskurðað honum málskostnað.

            Með bréfi til nefndarinnar, dags. 14. febrúar 2005, óskaði umboðsmaður eftir nánari skýringum á niðurstöðu nefndarinnar um málskostnað með vísan til lokamálsliðar 11. gr. laga nr. 11/ 1973.  Óskaði umboðsmaður m.a. eftir afstöðu matsnefndar til þess hver hefði verið skilningur nefndarinnar á lokamálslið 11. gr. laga nr. 11/1973 og til þess hvort sá skilningur samrýmist orðalagi og efni lokamálsliðar 11. gr. laga nr. 11/1973.

            Þann 13. júní 2005 svaraði varaformaður nefndarinnar, sem stóð að úrskurðinum 1. nóvember 2004 sem formaður, erindi umboðsmanns þannig:

 

Ég tel að aðili missi ekki rétt sinn skv. nefndum lokamálslið 11. gr. laga um framkvæmd eignarnáms enda þótt nefndin telji að skilyrði skorti til að greiða honum eignarnámsbætur.  Við nánari athugun málsatvika og stöðu eignarnáms-þola svo og þegar litið er til álits yðar frá 23. desember 2002 í máli nr. 3541/2002 tel ég að rétt sé að matsnefnd eignarnámsbóta endurupptaki þennan þátt málsins og taki rökstudda afstöðu til kröfu eignarnámsþola um málskostnað í þessu máli.

           

            Þann 27. júní 2005 lauk umboðsmaður umfjöllun um kvörtun sóknaraðila með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85 1997.

            Þann 27. október 2006 var þess krafist af hálfu sóknaraðila að nefndin tæki fyrir kröfu hans um málskostnað.

            Með bréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 29. nóvember 2006 var þess óskað af hálfu nefndarinnar að skipaður yrði formaður ad hoc til meðferðar málsins og þann  4. desember 2006 var Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl. skipaður formaður ad hoc ,, til þess að endurupptaka mál nr. 7/2004 og ákvarða á ný málskostnaðarátt málsins” eins og segir í bréfi ráðuneytisins.  Formaðurinn kvaddi með sér Vífil Oddsson verkfræðing og Þorstein Einarsson hrl. og staðfesti þá ákvörðun á fundi með umboðsmönnum aðila þann 14. mars sl.

 

II.

            Sóknaraðili krefst þess að matsnefnd úrskurði honum 7.977.900 krónur í málskostnað auk virðisaukaskatts.

            Varnaraðili, Vegagerðin, krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara, að kröfum sóknarðila verði hafnað. Sóknaraðili telur að nefndin sé bundin af ályktunum sínum í fyrri úrskurði um aðild og lausn ítaka og byggir á því að hún hafi að eigin frumkvæði og eftir tilmælum umboðsmanns ákveðið að endurupptaka þennan þátt málsins.   Aðkoma sóknaraðila hafi einungis verið fólgin í því að hlutast til  um að málið væri tekið fyrir eftir að nefndin hafði ákveðið að endurupptaka málskostnaðarákvörðun sína. Sóknaraðili byggir á því að 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eigi því ekki við auk þess sem frávísunarkrafa varnaraðila sé of seint fram komin.  Loks byggir sóknaraðili á því að nefndin hafi stuðst við rangan texta afsals þannig að álíta megi að niðurstaða um bætur og þar af leiðandi málskostnaðarákvæði hefði orðið önnur ef réttur texti hefði verið lagður til grundvallar.

 

 

Varnaraðili styður aðalkröfu um frávísun málsins í fyrsta lagi þeim rökum að frestur, samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, til þess að óska endurupptöku málsins hjá nefndinni hafi verið liðinn er sóknaraðili óskaði eftir endurupptöku þann 27. október 2006.  Þá byggir varnaraðili jafnframt frávísunarkröfu sína á aðildarskorti.  Til stuðnings varakröfu vísar varnaraðili m.a. til þess að vafi sé um tilvist og efni réttinda sóknaraðila  og að hagsmunir sóknaraðila hafi ekki verið skertir og því sé eðlilegt að hún beri sjálf kostnað sinn.  Málskostnaðarreikninga sóknaraðila telur varnaraðili vera ósanngjarna, of háa og í engu samræmi við umfang málsins. 

 

            Af hálfu Vegagerðarinnar er því mótmælt að bréf varaformanns til umboðsmanns hafi þýðingu fyrir álitaefni málsins og vísar m.a. til 14. gr. og 20. gr. stjórnsýslulaga í þvi sambandi. Varnaraðili byggir á því að varaformaður nefndarinnar hafi aðeins tilkynnt umboðsmanni að hann teldi rétt að málskostnaðarþáttur málsins yrði endurupptekinn. Nefndin hafi hins vegar ekki tekið ákvörðun um endurupptöku þessa þáttar málsins.  Þá gagnrýnir Vegagerðin kröfugerð sóknaraðila á þeim grunni að hún sé vanreifuð og ósundurliðuð og bendir á að hluti af kröfu sóknaraðila virðist vera kostnaður hans vegna reksturs mála fyrir Óbyggðanefnd og Matsnefnd eignarnámsbóta í máli út af annarri spildu.

 

III.

            Þann 29. maí 1912 afsalaði ráðherra Selskarð ábúandanum Jóni Felixsyni ásamt hagbeit fyrir jarðarfénað í óskiptu beitilandi Garðahverfisbúa.  Sóknaraðili mun vera kominn að hluta jarðeignarinnar fyrir erfð.

            Þann 30. ágúst 1913 afsalaði ráðherra, með heimild í lögum nr. 13 1912, Hafnarfjarðarkaupstað hluta lands Garðakirkju og mun umdeild spilda vera þar í.  Ábúendum Garðakirkjujarða er áskilinn beitarréttur “svo sem verið hefur”.

            Búskapur á Selskarði mun hafa lagst af um miðbik 20. aldar.

            Þann 7. apríl 2003 var gefin út sameiginleg yfirlýsing Vegagerðarinnar og Hafnarfjarðarkaupstaðar um úrbætur á Reykjanesbraut frá Hamarskotslæk að Hvammabraut og þann 25. júní 2003 samþykkti  Hafnarfjarðarbær færslu Reykjanesbrautar austur fyrir kirkjugarð.  Fræmkvæmdin fól í sér breikkun Reykjanesbrautar.

            Í byrjun júlí 2003 var Vegagerðinni gert viðvart um beitarrétt Selskarðs og þann 9. september s. á. kærðu eigendur Selskarðs framkvæmdir til sýslumanns.  Þann 24 október tilkynnti sýslumaður kæranda að hann aðhefðist ekki frekar í kærumálinu.

            Þann 16. desember 2003 birti Jón Lárusson, einn eigenda Selskarðs, vegamálastjóra stefnu til staðfestingar og viðurkenningar á beitarrétti og til stöðvunar framkvæmda á landi sem beitarrétturinn næði til.  Málið var fellt niður 14. apríl 2004 með bókun þar sem því var lýst yfir af hálfu Vegagerðarinnar að hún mótmælti því ekki að Selskarð eigi þar beitarrétt.  Hinsvegar var staðhæft að beitarrétturinn hefði ekki verið nýttur og að hann hefði ekki mátt nýta vegna reglna opinbers réttar.  Af hálfu stefnanda var boðað að ágreiningur aðila yrði borinn undir Matsnefnd eignarnámsbóta.

            Þann 20. júní 2004 gaf  sóknaraðili syni sínum, Jóni Lárussyni, víðtækt umboð til að gæta hagsmuna sinna og   næsta dag Jóni Erlendssyni og Eyvindi G. Gunnarsyni hdl. umboð til að fara með mál þetta fyrir  nefndinni.

            Í greinargerð eignarnámsþola 23. júlí 2004 krafðist hún bóta að fjárhæð 24.909.750 krónur auk málskostnaðar “þar sem matsþoli þurfti að leita sér aðstoðar lögmanns og annarra sérfræðinga til þess að setja fram bótakröfu ...”.  Þess var sérstaklega krafist að við málskostnaðarákvörðun yrði tekið tillit til umfangs málsins og nauðsynjar að bera það undir dómstóla.  Fram kom að bóta sé krafist vegna beitarréttar á 66.426.000 m.² spildu og að matsþoli eigi þriðjung Selskarðs og beitarréttar jarðarinnar í spildunni.

           

            Þann 28. mars 2007 var í Matsnefnd eignarnámsbóta lagður frávísunarúrskurður á  mál nr. 11 2006:  Jóhanna Jónsdóttir, Jón Erlendsson, Björn Erlendsson, Halldóra Erlendsdóttir og Hákon Erlendsson gegn Vegagerðinni um missi beitarréttar vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Fífuhvammsvegi að Kaplakrika.  Nefndin ályktaði að ekki hefði verið sýnt fram á að sóknaraðilar hefðu notið beitarréttar þegar kom til eignarnáms.  Lokaályktun forsendukafla úrskurðarins er svohljóðandi:

 

Þá telur nefndin óhæfilegt, eins og úrslit máls þessa eru, að gera eignarnema að greiða kostnað eignarnámsþola vegna máls þessa og skal hann bera sjálfur kostnað sinn vegna reksturs máls síns fyrir nefndinni.

 

IV.

Sóknaraðili telur sig hafa fengið því framgengt að matsmálið væri endurupptekið

jafnframt því sem hann heldur því fram að nefndin hafi tekið upp hjá sjálfri sé að endurupptaka málið.  Ekki þykir rétt að túlka þennan málatilbúnað svo að sóknaraðili telji sig ekki eiga rétt á endurupptöku eftir 24. gr. stjórnsýslulaga. Sóknaraðila var rétt að óska endurupptöku málsins jafnframt því sem hún leitaði til umboðsmanns Alþingis. Nefndin telur rétt að miða við að bréf sóknaraðila 27 október 2006 jafngildi endurupptökubeiðni í skilningi 24. gr.  

Úrskurður nefndarinnar frá 1. nóvember 2004 er bindandi fyrir nefndina og aðila.  Einungis er til umfjöllunar í máli þessu hvort til greina komi að endurskoða úrskurð matsnefndar frá því 1. nóvember 2004  um að varnaraðili skuli ekki greiða kostnað sóknaraðila vegna matsmálsins nr. 7/2004.  Um aðild, lausn ítaka, tilvist og inntak beitarréttarins og eignarnámsbætur verður þannig að leggja  úrskurðinn frá 1. nóvember 2004 til grundvallar.  Nefndin telur að þegar gætt er sjálfstæðis hennar gagnvart dómsmálaráðuneyti og úrlausnarheimilda hennar, að erindi nefndarinnar sé að taka afstöðu til þess hvort skilyrði séu fyrir því að endurskoða nýnefnda málskostnaðarákvörðun.  Þannig sé það ekki hlutverk nefndarinnar að endurupptaka málið og ákvarða á ný málskostnaðarátt þess, nema skilyrði séu til endurupptöku þess.  Nefndin telur sig óbundna af orðalagi bréfs dómsmálaráðuneytisins 4. september 2006 við úrlausn um kröfur í málinu og hlutverk sitt vera m.a. að leysa úr því sjálfstætt samkvæmt réttarheimildum og gildum lögskýringarsjónarmiðum hvort skilyrði séu til að endurupptaka málið.

Ekki verður fallist á þann skilning sóknaraðila að nefndin  hafi þegar ákveðið endurupptöku málsins.  Bréf formanns til ráðuneytisins 13. júní 2005 felur í sér álit hans um að rétt sé að endurupptaka þennan þátt málsins en ekki ákvörðun nefndarinnar um endurupptöku málsins.

 Úrskurðir stjórnvalda um réttarágreining eru bindandi fyrir aðila og stjórnvaldið

sjálft.  Þeir hljóta almennt að halda gildi sínu þar til æðra stjórnvald eða dómstóll fellir þá úr gildi.  Stjórnvald sem hefur kveðið upp úrskurð getur almennt ekki breytt úrskurði sínum þótt síðar megi draga í efa að sá úrskurður byggist á réttri lögskýringu.

            Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eru reglur um endurupptöku mála að kröfu aðila máls.

Til að ákvæði 24. gr. verði beitt verður ákvörðun annaðhvort að hafa byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum eða á atvikum sem hafa breyst verulega frá því ákvörðun var tekin.

Sóknaraðili heldur því fram að úrskurðurinn frá 1. nóvember 2004 sé byggður á  röngum upplýsingum.  Í afsali til Jóns Felixsonar frá 1912, eins og það var innfært í þingmálabók Gullbringusýslu, segir að Selskarði fylgi “ekkert land óskipt annað en tún.  Umboðsmaður sóknaraðila afhenti nefndinni þann 28. ágúst sl. ljósrit af afriti afsalsins með staðfestingu Þjóðskjalasafns, árituðu “A. 11. 11 i”.  Kveður hann þetta vera réttan og óbrenglaðan texta afsalsins en þar stendur:  “Henni fylgir ekkert land afskipt.”

Niðurstaða nefndarinnar 1. nóvember 2004 er á því byggð að beitarréttur sóknaraðila hafi ekki rýrnað svo neinu nemi við það að  varnaraðili tók við litlum hluta beitilandsins.  Nefndin telur að ekki séu fyrir hendi skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga fyrir því að endurupptaka málið enda verður ekki talið að fyrri ákvörðun nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að um hafi verið að ræða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann byggða á atvikum sem breyst hafa verulega frá því fyrri ákvörðun var tekin.  Þá liggur fyrir að varnarðili fellst ekki á kröfu sóknaraðila um endurupptöku málsins og að frestir 24. gr. stjórnsýslulaga voru liðnir er bréf lögmanns sóknaraðila barst nefndinni 27. október 2006.

            Verður þá að taka afstöðu til þess hvort önnur lagaákvæði eða óskráðar reglur skyldi  eða heimili nefndinni endurupptöku. 

Í 25. gr. stjórnsýslulaga er ákvæði sem heimilar stjórnvaldi að afturkalla ákvörðun að eigin frumkvæði þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun er ógildanleg. Ákvæðið mælir ekki fyrir um skyldu til að afturkalla ákvörðun.

Þar sem um er að ræða úrlausn um réttarágreining, málið varðar ekki aðeins einn aðila og ekki nægir að leysa úr ágreiningi aðila með afturköllun einni saman er það mat nefnarinnar að ekki séu skilyrði fyrir afturköllun fyrri ákvörðunar matsnefndar eignarnámsbóta um að eignarnámsþoli skuli bera sjálfur kostnað sinn vegna reksturs máls síns fyrir nefndinni.

Loks hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á tilvist ólögfestra reglna sem skyldi nefndina til endurupptöku eins og á stendur í þessu máli gegn andmælum varnaraðila.

Miðað við þessar ályktanir eru ekki efni til að taka sérstaklega  afstöðu til krafna aðila.

 

Nefndin hefur haldið tvo fundi með aðilum og  fjóra fundi án þeirra.  Uppkvaðning úrskurðar hefur tafist vegna anna nefndarmanna og veikinda.

Kostnaður vegna starfa matsnefndar í máli þessu er kr. 996.000,00 að meðtöldum virðisaukaskatti.  Ekki þykja efni til að gera eignarnema að greiða þann kostnað og greiðist sá kostnaður úr ríkissjóði.

 

Úrskurðarorð

                       

            Málið verður ekki endurupptekið.

 

 

           ------------------------             ---------------------------------------    

            Þorsteinn Einarsson             Steingrímur Gautur Kristjánsson

 

            Steingrímur Gautur Kristjánsson og Þorsteinn Einarsson standa að úrskurðinum.  Vífill Oddssson skilar svohljóðandi 

 

Sératkvæði

 

            Ég er sammála meirihlutanum um að nefndin sé bundin af ályktunum sínum í fyrri úrskurði um annað en málskostnað.  Ég tel, eins og meirihlutinn, að leysa verði úr málinu eins og að sóknaraðili hafi krafist endurupptöku en ég er hinsvegar ósammála meiri hlutanum að því leyti að ég tel að líta verði svo á að nefndin hafi í reynd og réttilega endurupptekið málskostnaðarþátt málsins til að taka rökstudda ákvörðun um hann, sú ákvörðun komi fram í bréfi formanns til umboðsmanns Alþingis 13. júní 2005 sem hafi hætt meðferð kvörtunarinnar í því trausti.  

            Lokamálsliður 11. gr. laga nr. 11 frá 1973 er ótvíræður um að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verður talinn.

Ég tel eðlilegt, þegar menn eru sviptir eign sinni með eignarnámi, að þeir fái uppiborinn kostnað sinn af því að gæta hagsmuna sinna fyrir matsnefndinni þótt niðurstaða nefndarinnar sé sú að ekki séu efni til að ákveða bætur fyrir missi eignar.  Að öðrum kosti mundi eignarnámsþoli tapa fé á eignarnáminu í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrár. 

Álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3541/2002 styður þessa skoðun.  Þar segir að nefndinni hafi borið að leggja á það mat í úrskurði sínum hvort tiltekinn kostnaður væri málefnalegur og eðlilegur og að hvaða leyti eignarnema sé skylt að bera hann en eignarnámsþoli hafði misst eignarráð á eign sem eignarnámið laut að í landskiptum meðan matsmálið var fyrir nefndinni.  Matsnefnd kvað upp úrskurð 7. júní 2002 og ákvað eignarnema nokkurn kostnað.  Þann 19. s. m. kvartaði eignarnámsþoli yfir málskostnaðarákvörðun matsnefndar.  Þann 23. desember 2002 gaf umboðsmaður álit  en það var ekki fyrr en 1. janúar 2003 sem eignarnámsþoli óskaði enduerupptöku.  Þá var liðinn þriggja mánaða frestur samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga til að beiðast endurupptöku án samþykkis annarra aðila og þann 14. s. m. mótmælti eignarnemi – Vegagerðin - endurupptökunni.  Nefndin hafði mótmælin að engu og ákvarðaði eignarnámsþola viðbótarkostnað með úrskurði 4. apríl 2003 í samræmi við álit umboðsmanns.

Ég hlýt að fallast á skoðun umboðsmanns og tel að niðurstaða nefndarinnar feli í sér fordæmi sem nefndinni beri að fylgja.  Ég tel einnig að í erindi umboðsmanns í þessu máli felist að nefndinni beri að endurskoða málskostnaðarákvörðun sína með rökstuddum úrskurði samkvæmt lokamálslið 11. gr. laga um framkvæmd eignarnáms.  Nefndin hefur þegar fallist á þessa skoðun í bréfi til umboðsmanns 13. júní 2005.

Í þessu máli stendur eins á og í nýnefndu máli að því leyti að á skorti að tekin væri rökstudd afstaða til málskostnaðarkröfu eignarnámsþola.  Hann lét undir höfuð leggjast að biðja jafnframt um endurupptöku.  Ekki kom fram ósk um endurupptöku innan tilskilins frests. 

Í eldra málinu mæltist mboðsmaður til þess við nefndina að málið yrði tekið upp að nýju, kæmi fram ósk um það frá eignarnámsþola og að nefndin tæki þá mið af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í áliti umboðsmanns.  Ekki er gerður neinn fyrirvari um að ósk skyldi hafa komið fram innan fresta enda hafði nefndin mótmæli eignarnema að engu, eins og áður segir og fór að tilmælum umboðsmanns.

Í þessu máli tók umboðsmaður yfirlýsingu nefndarinnar 13. júní 2005 gilda og taldi óþarft að láta uppi sérstakt formlegt  álit. Málskostnaðarákvörðun úrskurðarins frá 1. nóvember 2004 var ekki sérstaklega rökstudd auk þess sem niðurstaða hennar fær, að mínu mati, ekki samrímst lokaákvæði 11. gr. laga nr. 11/1973, sbr. 24. gr. og 25. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt þessu tel ég að nefndin eigi að kveða upp efnsilegan, rökstuddan úrskurð um hvern kostnað eignarnemi eigi að greiða sóknaraðila vegna málflutnings fyrir nefndinni, gagnaöflunar og málareksturs í tengslum við matsmálið.  Ég tel samkvæmt framansögðu að einungis eigi að greiða þann kostnað sem hæfilegur verður talinn og í eðlilegum  tengslum við matsmálið, þar á meðal við álitsumleitun til umboðsmanns, í samræmi við tilvitnaðan úrskurð nefndarinnar frá 4. apríl 2003 en þar var kostnaður vegna meðferðar máls fyrir umboðsmanni hluti viðbótarkostnaðar sem eignarnema var gert að greiða.  Þá tel ég, samkvæmt framansögðu, að eignaarnemi eigi að greiða hæfilegan kostnað af rekstri málsins eftir uppkvaðningu fyrri úrskurðar.

 

Þann 25. maí 2004 óskaði Björn Erlendsson, f. h. eigenda Selskarðs, eftir áliti Bændasamtaka Íslands á beitarrétti jarðarinnar.  Már Pétursson hrl., lögmaður samtakanna, veitti umbeðið álit í eigin nafni 25. maí 2004 og var það lagt fram í málinu með greinaragerð, dags. 23. júlí 2004, sem lá fyrir á fundi nefndarinnar með umboðsmönnum aðila 25. ágúst 2004.  Þá aflaði sóknaraðili verðmats Jóns Hólm Stefánssonar, sölumanns bújarða 21. ágúst 2004 og mats Jóns Guðmundssonar fasteignasala 19. júlí 2004.  Meðal skjala sem lögð voru fram við upphaf málsins voru merkjaskrá Garðakirkju frá 1890, kaupsamningur frá 1912, afsal frá 1913 og dómur gestaréttar frá 1920.  Ekki kemur fram af gögnum málsins hvern kostnað sóknaraðili hefur borið af þessari gagnaöflun sérstaklega.

Af hálfu varanaraðila komu fram undir rekstri málsins, fram að fyrri úrskurði, þrjú málflutningsskjöl sem gáfu tilefni til andsvara.  Eftir fyrri úrskurð hafa komið fram tvö varnarskjöl.

Af hálfu sóknaraðila hafa, auk greinargerðar, komið fram eftirtalin sóknarskjöl – fram að fyrri úrskurði:  Erindi lögmanns um athugun á hæfi nefndarformanns, greinargerð Jóns Lárussonar, f. h. móður sinnar, ódagsett og óundirrituð skjöl með yfirskriftinni “Beitarréttur Selskarðs í landi Garðakirkju” og Lög um lausn ítaka af jörðum nr. 113 frá 1952 ...”, óundirritað skjal, dags. 22. ágúst 2004, með yfirskriftinni “Beitarland Selskarðs...”, bókun lögmanns með endanlegum dómkröfum eignarnámsþola og greinargerð, dags. 15. október 2004, undirrituð af Jóni Lárussyni; eftir fyrri úrskurð en áður en málið var tekið fyrir í nefndinni að nýju:  “Greinargerð matsþola ...” dags. 9. nóvember 2004, erindi lögmanns til nefndarformanns um að sóknaraðili verði að koma að eigin hugmyndum um skipulag og erind lögmanns til formanns, dags. 27. október 2006, með beiðni um fyrirtöku vegna endurupptöku.

Eftir að meðferð vegna málskostnaðarins hófst að nýju fyrir nefndinni hafa komið fram greinargerð og athugasemdir lögmanns sóknaraðila og eftir að málið var tekið til úrskurðar bréf Jóns Lársussonar til nefndarinnar með gagnrýni á úrskurð nefndarinnar 28. mars 2007 í máli nr. 11/2007.  Í þessum þætti málsins hefur nefndin fundað tvisvar með umboðsmönnum aðila.

Fram hefur komið í málinu reikningur frá Jóni Lárussyni til nefndarinnar, dags. 18. september 2004, að fjárhæð kr. 986.040,- að meðtöldum virðisaukaskatti vegna fundasetu, aðstoðar við skýrslugerð og útlagðs kostnaðar.  Samskonar reikningur frá Birni Erlendssyni er um kr. 5.333.580,-.

 

Málskostnaðarkrafa sóknaraðila sundurliðast þannig:

 

Reikningsyfirlit Jóns Láarussonar dags. 18.09.2004              kr.    792.000

Reikningsyfirlit Björns Erlendssonar dags. S. d.                       4.284.000

Lögmannskostnaður EGG 2004                                                   525.000

Viðbótarvinna Björns Erlendssonar e. úrskurð (150x8500)      1.275.000

Viðbótaravinna Jóns Lárussonar                  (75x8.500)            637.500

Lögmannskostnaður PAP 2006                                                       179.200

Lögmannskostnaður PAP 2007                                                       285.200

 

Samtals                                                                                    kr.  7.977.900

 

Virðisaukaskattur 24,5%                                                             1.954.585

 

Alls                                                                                                     Kr.  9.932.485

 

 

Fallist er á það með eignarnema að málskostnaðarreikningar sóknaraðila séu of háir og í engu samræmi við umfang málsins og að á skorti að kröfugerð sóknaraðila sé nægilega reifuð.  Þá virðist kostnaður vegna reksturs mála fyrir Óbyggðanefnd og Matsnefnd eignarnámsbóta í máli út af annarri spildu vera málinu óviðkomandi og nauðsynlegt að sóknaraðili geri grein fyrir kröfum sínum að þessu leyti.  

            Samkvæmt þessu og þar sem meirihluti nefndarinnar fellst ekki á endurupptöku eru ekki efni til að tiltaka matsfjárhæð í þessu áliti.

Ég er sammála meirihluta nefndarinnar um kostnað af  starfi hennar.

 

 

                                                                                      ------------------

                                                                                      Vífill Oddsson

 

                                                                                     

 

Fundi slitið

 

------------------------             ---------------------------------------    ------------------

Þorsteinn Einarsson             Steingrímur Gautur Kristjánsson            Vífill Oddsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum