Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 8/2011

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Kvenfélagasambandi Gullbringu- og Kjósarsýslu

 

Orlofsnefnd Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu synjaði kæranda, sem er karl, um að taka þátt í orlofsferð húsmæðra til Slóveníu. Kærandi taldi sig uppfylla skilyrði laga nr. 53/1972, um orlof húsmæðra, til þess að eiga rétt á að taka þátt í ferðinni utan skilyrðis um kynferði. Taldi hann að brotið hafi verið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þegar honum var neitað um þátttöku í ferðinni. Kærunefnd jafnréttismála taldi að fyrirkomulag það sem mælt er fyrir um í lögum nr. 53/1972 feli í sér sértækar aðgerðir sem heimilar eru skv. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 10/2008 og að orlofsnefnd kærða hefði því ekki brotið gegn lögunum með afgreiðslu umsóknar kærða.

 

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 8. febrúar 2012 er tekið fyrir mál nr. 8/2011 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 21. september 2011, kærði kærandi, A, ákvörðun orlofsnefndar Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu um að synja honum um þátttöku í orlofsferð húsmæðra á grundvelli kynferðis. Kærandi telur að kærði hafi með ákvörðun sinni brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 6. október 2011. Greinargerð og fylgigögn bárust frá kærða 31. október 2011, sem send voru kæranda til kynningar 7. nóvember 2011. Kærandi sendi frekari gögn og athugasemdir með bréfi, dagsettu 20. nóvember 2011.
  4. Kærða var með bréfi kærunefndar, dagsettu 23. nóvember 2011, gefinn kostur á að gera athugasemdir við bréf kæranda, kærði óskaði eftir fresti til að skila inn athugasemdum og bárust þær eftir nokkrar ítrekanir 7. febrúar 2012.
  5. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR
  6. Í lögum nr. 53/1972, um orlof húsmæðra, er kveðið á um skipulag orlofs húsmæðra. Kvenfélagasamband Íslands skiptir landinu í orlofssvæði. Orlofsnefndir í einstökum umdæmum skipuleggja orlof húsmæðra en skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 53/1972 á sérhver kona sem veitir eða hefur veitt heimili forstöðu án launagreiðslu fyrir það starf rétt á að sækja um orlof.
  7. Kærandi í máli þessu sendi með tölvubréfi, dagsettu 17. mars 2011, umsókn til fulltrúa kærða um að fara í ferð húsmæðra til Slóveníu. Kærði, sem skipuleggur orlofsferðir í umdæmi kæranda, hafði auglýst slíka ferð, sbr. fyrrgreind ákvæði laga nr. 53/1972. Umsókninni var með tölvubréfi, dagsettu 20. apríl 2011, hafnað af fulltrúa kærða með vísan til þess að kærandi uppfyllti ekki skilyrði laganna til að sækja um slíkt orlof.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA
  8. Kærandi lýsir því að hann hafi sótt um að fara í orlofsferð húsmæðra til Slóveníu. Hann hafi gert grein fyrir því í umsókn sinni að hann teldi sig uppfylla öll skilyrði til þátttöku nema að hann væri karlmaður. Eftir tölvubréfaskriftir við kærða hafi kæranda verið synjað um þátttöku með vísan í lög um húsmæðraorlof.
  9. Kærandi rekur að samkvæmt jafnréttislögum sé óheimilt að mismuna fólki á grundvelli kynferðis og að útiloka karla frá sveitarsjóðarstyrktum fríðindum sé augljóst brot á lögunum. Í lögum um húsmæðraorlof sé tekið fram að sérhver kona sem hafi veitt heimili forstöðu án þess að þiggja fyrir það laun hafi rétt á að sækja um orlof. Kærandi heldur því fram að í seinni tíð hafi þessi skilgreining verið teygð og toguð. Upphaflega hafi orlofið væntanlega verið ætlað heimavinnandi konum sem ekki höfðu tök á að safna sér orlofi á vinnumarkaði en kæranda sýnist að nú séu það konur á öllum stigum samfélagsins sem fari í ferðirnar, hvort sem þær séu útivinnandi, heimavinnandi, á eftirlaunum eða annað. Eftir standi að þeir einu sem ekki megi fara í þessar ferðir séu karlar.
  10. Kærandi telur að konum sé frjálst að hópa sig saman um ferðalög, eins og körlum, en umræddar orlofsferðir séu styrktar af hinu opinbera og því sé það sjálfsögð krafa að umsækjendum sé ekki mismunað eftir kyni.

    SJÓNARMIÐ KVENFÉLAGASAMBANDS GULLBRINGU- OG KJÓSARSÝSLU
  11. Kærði telur sig ekki hafa brotið ákvæði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, eða önnur ákvæði laganna. Jafnframt telur kærði að ákvæði laga nr. 53/1972 feli ekki í sér brot á jafnréttislögum.
  12. Af hálfu kærða er það áréttað að ráðstöfun lögbundins fjárframlags til orlofsnefndarinnar hafi ávallt farið að gildandi lagaákvæðum sem hafi gefið konum kost á orlofsdvöl bæði hérlendis og erlendis. Þá séu þátttakendur hverju sinni valdir af orlofsnefnd kærða svo sem lögin geri ráð fyrir, með hliðsjón af þeim atriðum sem lögbundin séu í 6. gr. laganna. Reynslan hafi sýnt að það séu helst eldri konur sem sækist eftir ferðum orlofsnefndanna í hverju umdæmi, konur sem hafi um lengri tíma veitt heimilum forstöðu án þess að taka fyrir það laun og eigi á sama tíma lítil sem engin réttindi í lífeyrissjóðum. Þannig sé stórum hópi kvenna gert kleift að fara í orlofsferðir með þessum hætti sem annars gæti ekki tekið sér orlof sökum lágra tekna.
  13. Kærði áréttar að starf hans fari ávallt samkvæmt viðkomandi lagaákvæðum. Þannig hafi kærði ekki val um það hvort farið sé að ákvæðum 1. mgr. 6. gr. laga nr. 53/1972, um orlof húsmæðra. Samkvæmt almennum lögskýringarreglum eigi orðið kona í lagaákvæðum aðeins við um konur en ekki karla. Ef lögin ættu að ná til beggja kynja yrði að standa maður eða menn í viðkomandi lagaákvæði en svo sé ekki. Þá komi skýrt fram í lögskýringargögnum laganna, svo sem greinargerð með frumvarpinu, að lögunum sé eingöngu ætlað að gefa konum rétt á að sækja um orlof en ekki körlum. Í þessu sambandi bendir kærði á að lögum þessum hafi verið breytt oftar en einu sinni, nú síðast með lögum nr. 126/2011 sem tekið hafi gildi þann 30. september 2011, án þess að löggjafinn hafi talið rétt að breyta þessu ákvæði.
  14. Kærði hafi því enga heimild til að stækka þann hóp sem fella megi undir ákvæði laganna, svo sem með því að ákveða að veita körlum einnig heimild til að sækja um orlof, ekki frekar en kærði gæti ákveðið að veita konum orlof samkvæmt ákvæðum laganna sem aldrei hafi veitt heimili forstöðu. Þá bendir kærði sérstaklega á að skv. 11. gr. laganna sé eftirlitsvald með framkvæmd laganna hjá ráðuneyti. Kærði hafi ekki fengið athugasemdir um framkvæmd laganna frá viðkomandi ráðuneyti og geti því ekki annað en gert ráð fyrir að hún sé í samræmi við lögin.
  15. Af hálfu kærða er byggt á því að lög um orlof húsmæðra og framkvæmd þeirra stríði ekki gegn jafnréttissjónarmiðum þar sem tilgangur laganna sé einmitt að auðvelda konum orlofstöku og jafna þar hlut kynjanna enda eigi karlar almennt auðveldara með að fjármagna eigin orlofsferðir, svo sem vegna hærri tekna. Konur hafi enn aðeins rúm 60% af heildarlaunum karla á Íslandi og þrátt fyrir stefnuyfirlýsingar og ýmis verkefni sem staðið hafi verið að af hálfu hins opinbera hafi þessi munur lítið breyst undanfarna áratugi.
  16. Kærði tiltekur að frekari upplýsingar um launamun kynjanna megi finna í ítrekuðum mælingum á launamuninum og ítarlegum greiningum á honum, athugasemdum með jafnréttislögum og inngangi greinargerðar með frumvarpinu. Þá sé mikill meirihluti fasteigna á Íslandi og fyrirtækja í eigu karla svo og innstæður í lífeyrissjóðum, líklega rétt um 80%. Þá hafi nýlegar rannsóknir staðfest að mikill meirihluti heimilisstarfa sé unninn af konum og séu hlutföllin þar um 65% hlutur kvenna á móti 35% hlut karla. Sama niðurstaða komi fram í skýrslunni, „Konur í kreppu? Samantekt á opinberum tölulegum gögnum á áhrifum efnahagshrunsins á velferð kvenna“ sem unnin hafi verið fyrir velferðarvaktina[1] í febrúar 2011. Þar komi fram meðal annars að atvinnulausir karlar bæti óverulega við sig af heimilisstörfum á atvinnuleysistímabili en konur verulega. Í þessu sambandi megi einnig benda á að það hafi margoft komið fram í launakönnunum, að mun algengara sé að karlar ferðist erlendis á kostnað vinnuveitenda sinna, hvort sem sé á einka- eða opinberum markaði, og hafi karlar því mun fleiri tækifæri en konur til að samtvinna stutt leyfi með starfi.
  17. Ákvæðum laga eins og lögum um orlof húsmæðra sé ætlað að vinna gegn þessum mismun, að auðvelda þeim sem búa við rýrari hlut að fara í orlof og þeim sem eigi alla jafna ekki orlofsrétt, sbr. almennar athugasemdir í greinargerð með lögunum. Lögin feli þannig vissulega í sér jákvæða mismunun í þágu kvenna en það stríði engu að síður ekki gegn jafnréttissjónarmiðum sé tekið tillit til framangreindra staðreynda. Þá sé sérstaklega gert ráð fyrir því í b- og c-lið 1. gr. jafnréttislaga, að markmiðinu um jafnrétti kynjanna skuli meðal annars náð með beinum aðgerðum til að jafna hlut kynjanna. Þar sé beinlínis gert ráð fyrir verknaðarskyldu opinberra aðila til að jafna hlut kynjanna og því séu allar aðgerðir sem miði að því markmiði heimilaðar, svo lengi sem fallist sé á að hlutur kynjanna sé ójafn á því sviði.
  18. Þannig verði jafnrétti kynjanna aldrei náð ef bæði kynin fái sams konar ívilnun eða aðstoð þegar ójöfnuður sé til staðar sem verði ekki jafnaður nema með beinum aðgerðum. Kærði bendir á að fleiri tilvik um slík úrræði séu til í löggjöfinni og framkvæmd jafnréttismála, svo sem með lánatryggingasjóði kvenna, án þess að talið hafi verið að það fæli í sér mismunun á grundvelli kyns. Af hálfu kærða sé vegna þessa byggt á því að lög um orlof húsmæðra bæti aðeins mjög ójafna stöðu á því sviði sem þau varði og það án þess að jafna hana að fullu. Þau feli í sér sértæka aðgerð sem sé heimil skv. 2. mgr. 24. gr. jafnréttislaga og geti þannig ekki falið í sér brot á lögunum.
  19. Kærði bendir á að það verði ekki séð með hvaða hætti kærandi geti talið sig uppfylla öll skilyrði fyrir þátttöku í starfi orlofsnefndar skv. 1. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 53/1972. Kærandi hafi tekið það fram að hann hafi veitt heimili forstöðu án þess að þiggja fyrir það laun en ekki komi fram hvort kærandi hafi verið á launum frá öðrum á sama tíma eða hvort hann sé enn í þeirri stöðu þegar umsókn var gerð. Þá sé ekkert að finna í gögnum málsins um heimilisaðstæður kæranda né um fjölskyldustærð hans eða aðstöðu að öðru leyti til að greiða sjálfur fyrir sig orlof.
  20. Að mati kærða verði ekki séð af þeim gögnum sem fylgdu kærunni eða öðrum fyrirliggjandi gögnum að forsendur fyrir lagasetningunni séu breyttar. Staðan sé enn sú að konur séu með lægri laun en karlar og hafi því minni möguleika á að taka orlof á sömu kjörum og þeir. Af sömu ástæðu eigi konur auk þess enn erfiðara með að fjármagna orlofstöku með tekjum en karlar og þá séu mun fleiri konur heimavinnandi eða í hlutastarfi en karlar. Þá séu mun fleiri konur en karlar lífeyrisþegar á lágmarkslífeyri frá almannatryggingakerfinu og einnig hafi konur átt erfiðara með að fá vinnu að loknu atvinnuleysi en karlar, samanber það sem komi fram í skýrslunni „Konur í kreppu?“ Í sömu skýrslu komi einnig fram að atvinnuleysi meðal kvenna á landsbyggðinni sé nú meira en karla og standi einnig lengur í einstaka tilvikum en orlofsferðir á vegum orlofsnefnda húsmæðra hafi í áratugi verið vel sóttar á landsbyggðinni.
  21. Loks hafi kærandi auk þess bent á að það hafi ávallt verið og sé enn aðallega verkefni kvenna að annast uppeldi barna. Takmarki það mjög atvinnuþátttöku af þeirra hálfu og möguleika á að afla sér lífeyrisréttinda á sama tíma. Fjölskylduábyrgð kvenna takmarki þannig enn verulega möguleika þeirra á vinnumarkaði og sé það sameiginleg skoðun vinnuveitenda og kvennanna sjálfra eins og fram hafi komið í rannsóknum, meðal annars í skýrslu sem unnin hafi verið fyrir jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar, útgefinni 2007. Þrátt fyrir nýlega löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof sem ætlað hafi verið að jafna hlut kynjanna á þessu sviði sé hlutur karla enn rýr í barnaumönnun, eins og sjáist meðal annars á þeim mun á fjölda kvenna og karla sem taki fæðingarorlof. Þannig séu flestar þær forsendur sem núgildandi löggjöf um orlof húsmæðra sé miðuð við óbreyttar enn í dag. Vonir kærða standi til að hlutur kynjanna jafnist hvað þetta varðar fyrr en síðar og þá verði lög um orlof húsmæðra vonandi óþörf.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA
  22. Kærandi áréttar að hann hafi ekki tekið fram í umsókn sinni um húsmæðraorlof að hann veiti heimili forstöðu eða hvort hann væri á launum frá öðrum á sama tíma né annað um heimilisaðstæður, fjölskyldustærð og aðstöðu að öðru leyti. Ástæða þess sé sú að ekki hafi verið óskað eftir öðrum upplýsingum í auglýsingu kærða en þeim sem lögin áskilja, að veita heimili forstöðu og vera kona. Í samskiptum við fulltrúa kærða hafi kærandi ekki verið beðinn um frekari upplýsingar. Kærandi hafi uppfyllt annað skilyrðið en ekki hitt og á það hafi hann bent í umsókn sinni.
  23. Kærandi bendir á að hann veiti heimili sínu forstöðu í fullu samstarfi við unnustu sína og þau séu bæði í 100% starfi sem grunnskólakennarar. Börn þeirra séu tvö, sex og tveggja ára, og þegar þannig hafi staðið á hafi þau bæði nýtt sér það fæðingarorlof sem stóð til boða. Laun þeirra fyrir grunnskólakennsluna þiggi þau frá Reykjanesbæ en enginn greiði þeim fyrir forstöðu heimilisins. Kærandi veltir því fyrir sér hvort kærði hafi sett það skilyrði að konur sem fari í húsmæðraorlof séu ekki á vinnumarkaði.
  24. Í rökstuðningi kærða hafi komið fram að það séu helst eldri konur sem sækist eftir ferðum orlofsnefndanna, konur sem hafi um lengri tíma veitt heimilum forstöðu án þess að taka fyrir það laun og eigi á sama tíma lítil sem engin réttindi í lífeyrissjóðum. Kærandi kveðst gjarnan vilja fá þetta staðfest. Hann reiknar með að þar sem kærði veiti opinberu fé til ferðanna séu til skrár um hvaða konur fari í ferðirnar. Miðað við þær upplýsingar sem séu sagðar hafa skort í umsókn kæranda búist hann við að aðrir umsækjendur séu krafðir um sömu upplýsingar og að haldin sé skrá um þær. Kærandi óskar eftir að þessar upplýsingar séu lagðar fram til skýringar á því hvernig farið sé með það opinbera fé sem kvenfélögin sýsli með og til að varpa ljósi á hvaða viðmið séu höfð til hliðsjónar við úthlutanir húsmæðraorlofs.
  25. Í rökstuðningi kærða hafi verið haldið fram að karlar eigi almennt auðveldara með að fjármagna eigin orlofsferðir, svo sem vegna hærri tekna. Konur hafi enn aðeins rúm 60% af heildarlaunum karla á Íslandi. Að mati kæranda sé það ekki eðlilegt að réttlæta úrelt lög með úreltum gögnum. Vísað sé í 16 ára gamla skýrslu um launamun kynjanna þessum tölum til stuðnings en öllum ætti að vera ljóst að svo gamlar upplýsingar eigi tæpast við, sér í lagi ef tekið sé tillit til þess að nýrri og ítarlegri skýrslur séu til. Í einhverri viðamestu launakönnun sem gerð hafi verið hér á landi og hafi verið birt árið 2007, komi fram að launamunur kynjanna sé að meðaltali 18% og óútskýrður launamunur kynjanna sé um 10%. Hér sé gríðarlegur munur á og ljóst sé að jafnrétti kynjanna hafi batnað mikið undanfarin ár.
  26. Um fullyrðingar kærða um að mikill meirihluti fasteigna á Íslandi og fyrirtækja séu í eigu karla svo og innstæður í lífeyrissjóðum, bendir kærandi á að ekki sé auðséð hvernig eignarhlutur karla í fyrirtækjum og fasteignum eigi við um útdeilingu úr orlofssjóði húsmæðra. Það að meirihluti fyrirtækja sé í eigu karlmanna þýði ekki að meirihluti karlmanna eigi fyrirtæki. Um fasteignir geti kærandi lítið lagt til þar sem hvorki sé tilgreint um hvaða fasteignir ræði né hvaða tekjur umræddir karlmenn hafi af þeim.
  27. Rétt sé að rannsóknir sýni að hlutfall milli karla og kvenna sem sinna heimilisstörfum sé ójafnt en óljóst sé hvort það eigi við um útdeilingu úr orlofssjóði húsmæðra. Ekki sé heldur ljóst hvenær maður veitir heimili forstöðu, hvort það eigi aðeins við um þá sem vinna öll heimilisstörf eða hvort einhver neðri mörk séu til. Kærandi kallar því eftir afstöðu kærða til þess. Þó sé mikilvægt að líta til þeirrar staðreyndar að þessi munur hafi verið að minnka og í fréttabréfi Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands nr. 10 2010 sé fjallað um rannsókn Þóru Kristínar Þórsdóttur og Kolbeins Sturlusonar þar sem segi orðrétt: „Niðurstöður þessarar greiningar benda til þess að verkaskipting kynjanna sé jafnari eftir bankahrun en hún var fyrir það.“
  28. Kærandi fellst ekki á að forsendur séu til að beita jákvæðri mismunum í þágu kvenna í krafti b- og c-liða 1. gr. jafnréttislaga eins og felist í lögum nr. 53/1972 þar sem hlutur kynjanna sé svo ójafn á þessu sviði að það réttlæti aðgerðir sem taki til allra kvenna í landinu líkt og kærði byggi á. Atvinnuþátttaka kynjanna sé nokkuð jöfn, um 73% kvenna á móti 80% karla. Launamunur kynjanna sé aðeins um 10%. Þegar lögin hafi verið sett hafi um 40% kvenna verið á vinnumarkaði á móti 90% karla. Þá hafi vissulega hallað á kvenþjóðina og orlof húsmæðra hafi kannski átt rétt á sér á þeim tíma. Nú séu liðin 39 ár og margt hafi breyst til hins betra. Þátttaka kvenna á atvinnumarkaði hafi aukist jafnt og þétt síðan lögin hafi verið sett og því megi áætla að fjöldi kvenna sem ekki njóti lífeyrisréttinda fari minnkandi. Þar sem atvinnuþátttaka kynjanna sé svipuð í dag megi einnig gera ráð fyrir að því sé jafnt farið með kynjunum varðandi orlofsréttindi.
  29. Kærandi sjái ekki að það sé réttlætanlegt að mismuna körlum þegar komi að ríkisstyrktum orlofsferðum. Kærandi bendir á að í 2. mgr. 24. gr. jafnréttislaga sé um að ræða tímabundnar aðgerðir sem ætlað sé að bæta stöðu kvenna eða karla til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna. Tímabundnar aðgerðir hljóti að vera einhverjum takmörkunum bundnar.
  30. Lánatryggingasjóður kvenna sé sannarlega tímabundin aðgerð sem hafi verið nýtt einu sinni áður á sex ára tímabili og nú aftur í ár, enda séu aðeins um 20% fyrirtækja í eigu kvenna á móti 80% í eigu karla. Þessi munur eigi ekkert skylt við þann 7% mun sem sé á atvinnuþátttöku karla og kvenna. Konur séu fyrir löngu komnar út á vinnumarkaðinn nær til jafns við karla en þörf sé á aðgerðum til að auka eignarhlutdeild þeirra í atvinnulífinu, en ekki til að borga undir þær skemmtiferðir.
  31. Þrátt fyrir röksemdir kærða séu forsendur fyrir setningu laga um húsmæðraorlof byggðar á úreltri staðalmynd um hlutverk kvenna sem í dag sé móðgandi fyrir bæði kynin. Lögin hafi verið sett til að umbuna konum fyrir að sinna húsmóðurhlutverki. Viðhorf samfélagsins séu breytt í dag og engum þyki sjálfsagt að konur sinni einar heimilisstörfum og uppeldishlutverki, því eigi ríkið ekki að ýta undir þetta viðhorf með bitlingum.
  32. Varðandi fullyrðingar kærða um atvinnuleysi kvenna bendir kærandi á að í skýrslunni „Konur í kreppu?“ sé ekki vitnað í rauntölur hér á landi um langtímaatvinnuleysi kvenna, heldur sé fjallað um erlendar rannsóknir og líkur leiddar að því að svipað ástand eigi við um Ísland. Þetta séu því aðeins getgátur. Kærandi bendir á að ekki sé unnt að alhæfa um íslenskan raunveruleika út frá erlendum rannsóknum, eins og sjáist á rannsókn Þjóðmálastofnunar en þar komi fram að íslenskur raunveruleiki sé annar en erlendar rannsóknir bendi til. Enda hafi sá fjöldi klukkustunda sem karlar verji í heimilisstörf að meðaltali á viku á Íslandi aukist á milli 2005 og 2010 og fjöldi stunda sem konur verji í heimilisstörf dregist saman. Kærandi bendir einnig á að frá bankahruninu hafi karlar verið í meirihluta atvinnulausra á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni hafi kynin reglulega skipst á að tilheyra meirihluta á atvinnuleysisskrá.
  33. Kærandi bendir á að í Hagtíðindum Hagstofu Íslands 19. október 2011 komi fram að hlutfall starfandi kvenna á landsbyggðinni sé um 79% á móti um 73% karla. Samkvæmt þessu sé munurinn konum í hag á landsbyggðinni, þvert á það sem kærði haldi fram. Að mati kæranda sé samt rétt að halda þeirri staðreynd til haga að um 67% kvenna séu í fullu starfi á móti 89% karla. Þessi 22% munur sé vissulega leiður en þetta sé þó langur vegur frá því ástandi sem ríkt hafi í atvinnumálum kvenna þegar lög um orlof húsmæðra hafi verið sett.
  34. Vegna fullyrðinga kærða um uppeldishlutverk kvenna bendir kærandi á að persónubundið sé hvernig fólk hagi uppeldismálum en miðað við þær tölur sem kærandi hafi vitnað í um atvinnuþátttöku kvenna sé ekki að sjá að möguleikar þeirra til að afla sér orlofs- og lífeyrisréttinda séu miklu minni en karla. Það virðist því sem vonir kærða séu að mestu uppfylltar og lög um orlof húsmæðra því óþörf.
  35. Kærandi telur að orlof húsmæðra væri sjálfsagður hlutur ef það stæði til boða þeim sem sjálfviljugir eða tilneyddir afsali sér orlofsréttindum með því að vera heimavinnandi, hvort heldur körlum eða konum, og þeim eldri kynslóðum kvenna, sem fyrir sakir gamalla þjóðfélagsviðhorfa hafi ekki tekið þátt í atvinnulífinu á sínum tíma. Framkvæmd laganna í nútímanum eigi ekkert skylt við það sem haft hafi verið til hliðsjónar þegar lögin hafi verið sett. Nú séu þetta ferðir fyrir hvern sem er, svo lengi sem það sé kona.
  36. Á meðan kærði greiði niður orlofsferðir einstaklinga í bæjarfélagi kæranda sem vinni sama starfshlutfall og hann, með sömu tekjur og sömu orlofsmöguleika en meini honum um að njóta sömu réttinda, sé fólki mismunað eftir kynferði.

    NIÐURSTAÐA
  37. Ákvæði um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru fyrst leidd í lög hér á landi með lögum nr. 78/1976 um jafnrétti kvenna og karla. Í 1. mgr. 1. gr. núgildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 18. gr. laganna skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laganna er óheimil hvers kyns mismunun á grunvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein. Í 2. mgr. 24. gr. er kveðið á um að sértækar aðgerðir gangi ekki gegn lögunum en með sértækum aðgerðum er átt við sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar, sbr. 7. tölul. 2. gr. laganna.
  38. Með lögum nr. 45/1960 voru leidd í lög ákvæði um orlof húsmæðra. Núgildandi lög um sama efni, er leystu af hólmi lög þessi, eru nr. 53/1972. Í lögum nr. 53/1972 er kveðið á um að Kvenfélagasamband Íslands skipti landinu í orlofssvæði. Héraðssambönd Kvenfélagasambandsins kjósa orlofsnefndir hvert í sínu umdæmi. Orlofsnefndir í einstökum umdæmum skipuleggja orlof húsmæðra og sjá um rekstur orlofsheimila.
  39. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 53/1972 á sérhver kona sem veitir eða hefur veitt heimili forstöðu án launagreiðslu fyrir það starf rétt á að sækja um orlof. Í 3. mgr. 6. gr. er kveðið á um að verði orlofsdvöl ekki við komið sé heimilt að nota orlofsfé sem veitt er samkvæmt lögunum til ferðalags fyrir húsmæður. Í athugasemdum með frumvarpi er varð að lögum nr. 53/1972 kemur fram að tilgangur laganna sé að gefa nokkrum hluta húsmæðra kost á orlofi og hvíld frá störfum.
  40. Í athugasemdum með frumvarpinu er að finna upplýsingar um fjölda húsmæðra í landinu samkvæmt manntalsskýrslum 1970 og tiltekið að samtals séu um 50 þúsund konur í landinu sem eigi rétt á að sækja um orlof húsmæðra. Við samanburð þessa fjölda við manntalsskýrslur sést að með hugtakinu húsmóðir í frumvarpinu er átt við allar konur sem teljast forstöðumenn heimila án tillits til þess hvort þær gegni jafnframt launuðu starfi utan heimilis. Þessi afmörkun var óbreytt frá eldri lögum nr. 45/1960 um orlof húsmæðra sem lög nr. 53/1972 leystu af hólmi. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 45/1960 var þess sérstaklega getið að konur geti átt rétt til orlofsfjár þó þær vinni utan heimilis að því einu tilskildu að þær þiggi ekki laun sem ráðskonur eða húsmæður á heimilinu.
  41. Eftir setningu laga nr. 53/1972 varð því engin breyting á í þeim efnum að orlofsnefndum bar áfram að úthluta orlofi til kvenna úr hópi þeirra er veittu eða höfðu veitt heimilum forstöðu án launagreiðslu fyrir það starf. Í þeim lögum var ekki frekar en áður sett það skilyrði fyrir því að njóta þessara réttinda að húsmóðurstarfið væri eina starf kvennanna. Konur er gegndu jafnframt launuðu starfi utan heimilis áttu því einnig rétt til umsóknar um orlof. Í 2. mgr. 6. gr. laganna er að finna viðmið er orlofsnefndum ber að fylgja við val úr umsóknum.
  42. Innan vébanda Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu starfar orlofsnefnd er skipuleggur orlof húsmæðra í sínu umdæmi. Nefndin auglýsti ferð húsmæðra til Slóveníu. Kærandi sótti um þátttöku í ferðinni en var synjað á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki það lagaskilyrði að vera kona. Úrlausnarefni kærunefndar jafnréttismála er í þessu tilviki hvort synjun þessi feli í sér brot á lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.
  43. Engar breytingar voru gerðar á lögum nr. 53/1972 um orlof húsmæðra við gildistöku laga nr. 78/1976 um jafnrétti kvenna og karla. Lögunum um orlof húsmæðra hefur verið breytt tvisvar frá því lögin voru sett en þær breytingar hafa ekki þýðingu fyrir úrlausnarefni máls þessa. Lög þessi leystu af hólmi eldri lög um sama efni sem sett voru í þeim tilgangi að bæta sérstaklega stöðu kvenna, sbr. nú c-lið 1. gr. laga nr. 10/2008 og draga þannig úr ójafnræði með kynjunum með tilliti til möguleika á orlofstöku. Þetta lögbundna fyrirkomulag sem þar er mælt fyrir um felur þannig í sér sértæka aðgerð á þessu sviði. Slíkt er sérstaklega heimilað með 2. mgr. 24. gr., sbr. c-lið 1. gr. laganna. Stjórnvöld hafa beitt sér fyrir fleiri sértækum aðgerðum í skilningi 7. tölul. 2. gr. laga nr. 10/2008 í því skyni að auka tækifæri kvenna en sem nýlegt dæmi má nefna Svanna, lánatryggingasjóð kvenna, sem tók til starfa þann 23. september 2011.
  44. Kærandi hefur í málatilbúnaði sínum lagt áherslu á ójafnræði er hann telur felast í því að einstaklingar á vinnumarkaði sitji ekki við sama borð gagnvart þeim réttindum er lögin um orlof húsmæðra kveða á um þar sem þessi réttindi séu eingöngu til handa konum. Eins og að framan greinir er verksvið kærunefndar jafnréttismála eingöngu að fjalla um hvort jafnréttislög hafi verið brotin. Nefndin fjallar þannig hvorki um það hvort önnur löggjöf gangi gegn stjórnarskrá né er það hlutverk nefndarinnar að taka af skarið um hvort æskilegt sé að taka til athugunar breytingar á gildandi lögum, svo sem þeim ákvæðum er fela í sér sértæk úrræði í skilningi laga nr. 10/2008.
  45. Ekki liggur annað fyrir en kærði hafi farið að gildandi lögum við afgreiðslu umsóknar kæranda. Eins og áður greinir heimila lög nr. 53/1972 veitingu orlofs til húsmæðra án tillits til þess hvort þær hafa gegnt öðru starfi samhliða. Eru því ekki efni til að kærunefndin rannsaki eða afli gagna um hvernig sá hópur kvenna er samsettur er nýtur réttinda samkvæmt lögunum á hverjum tíma.
  46. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að orlofsnefnd Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu hafi brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, er hún synjaði kæranda um þátttöku í orlofsferð er auglýst var með heimild í lögum nr. 53/1972, um orlof húsmæðra.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Orlofsnefnd Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu braut ekki gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er hún synjaði umsókn A um að fara í orlofsferð húsmæðra til Slóveníu.

 

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir



[1] Velferðarvaktin er stýrihópur sem skipaður var af velferðarráðherra þann 17. febrúar 2009.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum