Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 564/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. október 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 564/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17070065

Kæra [...] á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 21. júlí 2017 kærði [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. júlí 2017, um að synja beiðni kæranda um að fá að dveljast á landinu meðan umsókn hans um dvalarleyfi væri til meðferðar og synja honum um dvalarleyfi hér á landi.

Kærandi hefur ekki lagt fram greinargerð en litið verður svo á að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda hafi verið veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar þann 20. janúar 2014. Það leyfi hafi verið endurnýjað í tvö skipti, síðast með gildistíma til 3. febrúar 2017. Útlendingastofnun hafi synjað kæranda um endurnýjun á dvalarleyfinu þann 24. mars 2017 og veitt kæranda 30 daga frest til að yfirgefa landið. Þann 23. júní 2017 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli, sbr. 62. gr. laga um útlendinga. Með hinni kærðu ákvörðun synjaði Útlendingastofnun beiðni kæranda um að dvelja á landinu meðan umsókn hans um dvalarleyfi væri til meðferðar. Þá var umsókn hans um dvalarleyfi synjað. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála þann 21. júlí 2017. Kærunefnd hefur ekki borist greinargerð frá kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að kæranda hefði verið synjað um endurnýjun á dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þann 24. mars 2017. Þar af leiðandi teldist umsókn kæranda um dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli, sem lögð var fram 23. júní 2017, ekki vera umsókn um endurnýjun dvalarleyfis heldur umsókn um fyrsta leyfi. Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga væri kveðið á um að útlendingur, sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti, skuli sækja um leyfið áður en hann komi til landsins og sé honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hafi verið samþykkt. Frá þessu væru undantekningar, t.d. ef umsækjandi væri undanþeginn áritunarskyldu eða félli undir a-c lið 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Þá væri jafnframt heimilt að víkja frá skilyrði 1. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður mæltu með því. Með hliðsjón af gögnum málsins taldi Útlendingastofnun að ekki væru fyrir hendi ríkar sanngirnisástæður til að veita kæranda undanþágu frá 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Var beiðni hans um að dveljast á landinu meðan umsókn hans um dvalarleyfi væri til meðferðar því synjað. Þá var kæranda synjað um dvalarleyfi hér á landi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja beiðni kæranda um að dveljast á landinu meðan umsókn hans um dvalarleyfi er í vinnslu og synja honum um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki með vísan til 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

Eins og fram hefur komið var kæranda synjað um endurnýjun á dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. mars 2017, en með ákvörðuninni var kæranda veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið. Kærandi yfirgaf ekki landið og var því í ólögmætri dvöl er hann lagði fram umsókn um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga. Kemur því ekki til álita að líta á umsókn kæranda sem umsókn um endurnýjun dvalarleyfis og fer því um umsókn hans samkvæmt ákvæðum 51. gr. laga um útlendinga.

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann komi til landsins og sé honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hafi verið samþykkt. Frá þessu sé heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og skilyrði a- til c- liðar 1. mgr. ákvæðisins eiga við. Varða a- og b-liður ákvæðisins m.a. aðstæður þar sem umsækjandi er maki eða sambúðarmaki íslensks ríkisborgara eða barn íslensks ríkisborgara. Á grundvelli c-liðar 1. mgr. 51. gr. laganna er heimilt að víkja frá skilyrði 1. mgr. 51. gr. um að sækja um dvalarleyfi áður en komið er til landsins ef umsækjandi er staddur hér á landi og sækir um dvalarleyfi á grundvelli 61., 63. eða 64. gr. laga um útlendinga. Þá er heimilt að víkja frá 1. mgr. í öðrum tilvikum en þar eru talin upp ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Ef umsækjandi um dvalarleyfi sem dvelur hér á landi sækir um dvalarleyfi án þess að vera undanþeginn því að sækja um leyfi áður en hann kemur til landsins skv. 1. og 2. mgr. skal hafna umsókninni á þeim grundvelli, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

Ljóst er að kærandi, sem er ríkisborgari [...], er ekki undanþeginn áritunarskyldu hér á landi. Þá eiga aðstæður í a- til c- lið 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga ekki við í málinu. Verður því að hafna umsókn hans um dvalarleyfi nema ríkar sanngirnisástæður mæli með því að vikið verði frá 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 51. gr. laganna. Í athugasemdum við síðastnefnt ákvæði í frumvarpi er varð að lögum um útlendinga segir að ætlunin sé að ákvæðinu verði beitt þegar tryggja þurfi samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi.

Fyrir Útlendingastofnun byggði kærandi á því að tilefni væri til að heimila honum dvöl á landinu meðan umsókn hans væri til meðferðar með vísan til dvalartíma hans hér á landi og þess að hann ætti kost á áframhaldandi atvinnu. Kom fram hjá kæranda að það myndi reynast honum verulega erfitt að yfirgefa landið. Það er mat kærunefndar, með hliðsjón af fyrrnefndum athugasemdum við 3. mgr. 51. í frumvarpi til laga um útlendinga, að hagsmunir kæranda af því að dvelja hér á landi meðan umsókn hans um dvalarleyfi er til meðferðar séu ekki þess eðlis að ríkar sanngirnisástæður mæli með því að vikið verði frá 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt framangreindu verður staðfest sú ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum