Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 2. maí 2003

 

Föstudaginn 2. maí 2003 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 5/2002


 

 


 

Eigendur Skógtjarnar og Tjarnarlands,

Bessastaðahreppi

gegn

ríkissjóði

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :


 

 


 

I.  Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.


 

II.  Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

Með bréfi dags. 23. maí 2002 sem lagt var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 27. ágúst 2002 fór Klemenz Eggertsson hdl. þess á leit við  matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur til handa eigendum Skógtjarnar, Bessastaðahreppi,  fyrir lóðina nr. 26 við Miðskóga í Bessastaðahreppi vegna framkvæmda á IV. kafla þjóðminjalaga, en skv. matsbeiðninni hafði Þjóðminjasafnið ákveðið að heimila ekki byggingu á lóðinni vegna fornleifa sem safnið taldi sig hafa fundið þar.  Undir rekstri málsins hefur verið lagt fram bréf frá ríkislögmanni dags. 31. mars 2003 þar sem fram kemur að forkönnun Fornleifanefndar ríkisins vegna lóðarinnar sé lokið og að frekari rannsóknarskylda hvíli á matsbeiðanda skv. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 107/2001.  Skv. greinargerð Fornleifanefndar sem fylgdi bréfi ríkislögmanns kemur fram að kostnaður vegna fornleifarannsókna á lóðinni geti numið um kr. 70.000.000-.


Þá krefjast matsbeiðendur enn fremur bóta vegna þess að sala þeirra á tveimur næstu lóðum við Miðskóga 26 gekk til baka, en náðst höfðu samningar um sölu þeirra á kr. 2.800.000- og kr. 3.000.000-.  Í upphafi var talið að þær lóðir væru innan þess svæðis sem rannsóknarskylda hvíldi einnig á skv. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 107/2001 og þess vegna gengu sölurnar til baka.  Að undangenginni fornleifakönnun sem matsbeiðendur framkvæmdu sjálfir kom í ljós að þær lóðir voru utan þess svæðis sem um ræðir og því er þeim í raun heimilt að ráðstafa lóðunum nú að vild án þess að taka þurfi tillit til ákvæða þjóðminjalaga.


Þá er þess krafist f.h. eiganda Tjarnarlands, Bessastaðahreppi, að henni verði dæmdar bætur einnig vegna framkvæmda á IV. kafla þjóðminjalaga, en frekari rannsóknarskylda hvílir jafnframt á henni hyggist hún gera heimkeyrslu að húsi sínu og/eða færa og snúa við bílskúr á lóðinni eins og sveitarstjórn Bessastaðahrepps hafði samið um að gera vegna breytinga á skipulagi á svæðinu.


Máli þessu var vísað til Matsnefndar eignarnámsbóta með heimild í 25. gr. þjóðminjalaga nr. 107/2001.

Eigendur Skógtjarnar eru þau Auðbjörg Eggertsdóttir, kt. 120744-2839, Melateig 8, Akureyri, Klemenz Eggertsson, kt. 221252-4629, Miðskógum 20, Bessastaðahreppi og Sigurður Eggertsson, kt. 040451-4559, Tjarnarlandi, Bessastaðahreppi.  Eigandi Tjarnarlands er Helga Sigurðardóttir, kt. 210155-2419, Tjarnarlandi, Bessastaðahreppi.  Saman eru þessir aðilar nefndir matsbeiðendur í úrskurði þessum.  Matsþoli er ríkissjóður Íslands.

III.  Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 27. ágúst 2002.  Nefndinni hafði borist erindið frá matsbeiðendum nokkru fyrr, en skv. samkomulagi við talsmann matsbeiðenda var þess freistað um sumarið 2002 að ná sáttum milli aðila.  Við fyrirtökuna þann 27. ágúst 2002 lögðu matsbeiðendur fram matsbeiðni og fleiri gögn og var málinu að því búnu frestað til framlagningar gagna af hálfu matsþola.


Þriðjudaginn 3. september 2002 var málið tekið fyrir að nýju.  Matsbeiðendur lögðu fram frekari gögn.  Matsþoli lýsti því yfir að ekki væri gerð athugasemd við það af hans hálfu að mál þetta væri rekið fyrir matsnefndinni.  Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu matsþola til 8. október 2002.


Þriðjudaginn 8. október 2002 var málið tekið fyrir.  Matsþoli lagði fram greinargerð.  Þá lögðu matsbeiðendur einnig fram gögn.  Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu.

Föstudaginn 18. október 2002 var málið tekið fyrir.  Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar.  Málinu var að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess til 29. nóvember 2002.


Ekkert varð af fyrirtöku málsins þann 29. nóvember 2002.  Þriðjudaginn 17. desember 2002 var málið tekið fyrir.  Lögð voru fram nokkur ný gögn.  Af hálfu matsnefndarinnar var ítrekað mikilvægi þess að hún fengi upplýsingar um hversu langan tíma matsþoli þurfi á landi matsbeiðenda að halda til rannsókna sinna.  Nefndin tók fram að hafi henni ekki borist svör við þessu álitaefni fyrir 1. apríl 2003 yrði litið svo á að matsbeiðendum væru meinuð notkun landsins um alla framtíð vegna fornleifarannsóknanna og að beðið yrði með að kveða upp úrskurð í málinu fram yfir þann tíma.  Matsþoli kvaðst ekki sammála því að líta megi svo á að notkun landsins verði bönnuð um alla framtíð þó rannsóknum á því verði ekki lokið fyrir 1. apríl 2003  Hann taldi málsmeðferðina alla vera innan eðlilegra marka hvað tíma varðaði og kvað Fornleifanefnd muni kappkosta að klára rannsóknina sem fyrst eins og sjáist á því að rannsóknarstörfin hefjist um há vetur sem sé óvenjulegt.  Að þessum bókunum gerðum var málið munnlega flutt fyrir nefndinni og tekið til úrskurðar að því loknu með framangreindum fyrirvörum.


Þriðjudaginn 15. apríl 2003 var málið tekið fyrir.  Þá hafði matsnefndinni borist bréf matsþola dags. 31. mars 2003 ásamt bréfi Fornleifanefndar dags. 28. mars 2003 og greinargerð Fornleifanefndar sem fylgdi því bréfi.  Með vísan til fyrri ákvörðunar nefndarinnar var málið tekið til úrskurðar að þessum gögnum fengnum.


 

 IV.  Sjónarmið matsbeiðanda:

Af hálfu matsbeiðanda, eigenda Skógtjarnar, er þess krafist að þeim verði úrskurðaðar fullar bætur fyrir lóðina na. 26 við Miðskóga, Bessastaðahreppi, þar sem þeim sé í raun ómögulegt að nýta lóðina vegna þeirrar rannsóknarskyldu sem á framkvæmdaaðila hvílir skv. 2. mgr. 14. gr. þjóðminjalaga nr. 107/2001.

Matsbeiðendur vísa til þess að þeir hafi verið búnir að selja lóðina fyrir kr. 2.500.000- staðgreitt, þegar sveitarstjórn hafi ákveðið að heimila ekki neinar framkvæmdir á lóðinni og öðrum lóðum við enda götunnar Miðskóga, vegna fyrirmæla frá Þjóðminasafninu.  Þetta hafi valdið því að ekkert hafi orðið af samningum um sölu á lóðinni vegna brostinna forsendna.

Þá krefjast eigendur Skógtjarnar þess einnig að þeim verði úrskurðaðar bætur vegna þess að sala þeirra á lóðunum nr. 17 og 19 við Miðskóga gekk til baka.

Af hálfu eiganda Tjarnarlands er krafist bóta vegna þess að rannsóknarskylda hvíli einnig á henni skv. 2. mgr. 14. gr. þjóðminjalaga nr. 107/2001, sem þýði að ekki verði hægt að breyta aðkeyrslu að húsi hennar og snúa bílskúr, eins og samþykkt deiliskipulag fyrir reitinn geri ráð fyrir, nema að undangenginni fornleifarannsókn sem hún þurfi að kosta.  Telur eigandi Tjarnarlands þetta valda því að eign hennar hafi rýrnað í verði, en fyrirhugað hafi verið að Bessastaðahreppur myndi kosta framkvæmdina, enda var bílskúrinn í upphafi byggður í samræmi við útgefið byggingarleyfi frá sveitarfélaginu, en síðari breyting á deiluskipulagi kallaði á framangreinda breytingu á aðkeyrslu og legu bílskúrsins.

Lögmaður matsbeiðenda gerði eftirfarandi bótakröfu á hendur matsþola með bréfi dags. 22. janúar 2002 og hefur undir rekstri málsins fyrir matsnefndinni ítrekað þá bótakröfu:


Andvirði lóðarinnar nr. 26 við Miðskóga                                    kr.           2.500.000-


 

Bætur vegna lóðanna nr. 17 og 19 við Miðskóga, sem reiknast sem verðbætur skv. neysluvísitölu til verðtryggingar og meðalvextir banka og sparisj. af alm. sparisj.b. frá 26. apríl 2001 til 22. janúar 2002 (dags bréfsins) af söluverði lóðanna (5.800.000 * 219,5/204=440.686*1,61%)         
  kr.              445.928-

Bótakrafa vegna Tjarlands að álitum                                           kr.           2.000.000-

Bætur vegna kostnaðar við fornleifarannsókn                              kr.              211.635-

Vextir                                                                                        kr.              362.025-

Innheimtulaun                                                                             kr.              254.017-

Vsk.                                                                                          kr.                62.234-

Samtals bótakrafa                                                                      kr.           5.835.839-


Undir rekstri matsmálsins upplýstist að matsþoli hefði þegar greitt matsbeiðendum til baka kostnað þeirra vegna fornleifarannsóknanna og lækkar því ofangreind bótakrafa um kr. 211.635-.


V.  Sjónarmið matsþola:

Af hálfu matsþola er þess aðallega krafist að máli þessu verði vísað frá matsnefndinni.  Til vara er bótakröfum matsbeiðenda hafnað en til þrautavara er þess krafist að þær verði lækkaðar verulega frá því sem gerð var krafa um í bréfi matsbeiðanda til matsþola dags. 22. janúar 2002.

Matsþoli kveður Bessastaðahrepp hafa auglýst breytingu á deiliskipulagi við Miðskóga með auglýsingu dags. 12.01.2001.  Þjóðminjasafn Íslands hafi skilað athugasemdum vegna auglýsingarinnar með bréfi dags. 07.03.2001, þar sem fram hafi komið að nauðsynlegt væri að gera úttekt á fornleifum áður en deiliskipulagsbreytingin yrði lögð fram til samþykktar.  Um var að ræða deiliskipulag á jörðinni Skógtjörn á Álftanesi en vitað var að þar hefði staðið bær allt frá miðöldum.  Matsþoli kveður fornleifafræðinga safnsins hafa farið á staðinn þann 20.03.2001 til að kanna aðstæður og hafi þá verið búið að grafa grunn fyrir nýju húsi að Miðskógum 22, á þeim stað sem bærinn Skógtjörn áður stóð.  Hafði bærinn verið rifinn skömmu áður en grunnurinn var grafinn.  Búið hafi verið að fjarlægja fornleifar áður en Þjóðminjasafni Íslands hafi borist vitneskja um málið vorið 2001.  Landeigendur og seljendur lóðarinnar munu ekki hafa haft samband við Þjóðminjasafnið áður en lóðin var seld til að gera grein fyrir breyttri nýtingu hennar, en lóðin var seld Helenu Guðmundsdóttur 30.11.2000.   Matsþoli kveður könnun fornleifafræðinga Þjóðminjasafns Íslands að Miðskógum hafa leitt í ljós margvíslegar og þykkar mannvistarleifar, sem myndast höfðu á löngum tíma sbr. skýrslu safnsins um málið.


Þann 10.04.2001 kveður matsþoli sveitarstjórn Bessastaðahrepps hafa samþykkt breytingu á deiliskipulagi svæðisins, sem m.a. hafi falið í sér að land austan götunnar, innst við Miðskóga, skyldi nýtt sem byggingarland og skipt upp í fjórar lóðir.  Samþykktin var gerð með þeim fyrirvara að ekki yrði byggt á lóðunum nema að undangenginni fornleifarannsókn.  Eigendum lóðanna nr. 17, 19 og 26 við Miðskóga var tilkynnt um þetta með bréfi dags. 26. apríl 2001.

Matsþoli kveður niðurstöðu fornleifakannana á svæðinu hafa leitt í ljós að á syðstu lóðinni (nr. 26) og syðri hluta göngustígasvæðis á fyrirhuguðu skipulagssvæði væru fornleifar, sem ekki mætti hrófla við frekar án undangenginnar rannsóknar.  Einnig lenti fyrirhugað vegstæði milli Miðskóga 22 og Tjarnarlands fyrir miðju hins forna bæjarhóls Skógtjarnar.  Niðurstaðan hafi því orðið sú að ekki væri heimilt að grafa fyrir vegi að Tjarnarlandi án undangenginnar fornleifarannsóknar, en ekki væri þörf á frekari rannsókn á lóðunum nr. 17 og 19 við Miðskóga.

Matsþoli kveðst rökstyðja frávísunarkröfu sína með því að krafa matsbeiðenda sé verulega vanreifuð og vísar í því sambandi til grunnsjónarmiða að baki 80.gr. laga nr. 91/1991. 

Matsþoli byggir á því varðandi höfnun á greiðslur bóta að matsbeiðendur hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni.

Vegna bótakröfu varðandi lóðina nr. 26 við Miðskóga kveður matsþoli að nokkurrar ónákvæmni gæti í frásögn matsbeiðenda í málinu þar sem því sé haldið fram, að Þjóðminjasafn Íslands hafi ákveðið að heimila ekki byggingu á umræddri lóð.  Í bréfi Þjóðminjasafns til Bessastaðahrepps, dags. 1.10.2001, komi ekki fram að ekki skuli heimila byggingu á umræddri lóð, heldur sé þess krafist að fornleifarannsókn verði gerð á lóðinni áður en farið verði í framkvæmdir þar. 

Þá segir matsþoli því einnig haldið fram af hálfu matsbeiðenda að lóðin og næsta nágrenni hafi verið friðað.  Þessu mótmælir matsþoli sem röngu.  Hið rétta sé að minjar 100 ára og eldri teljist til fornleifa, sbr. 2.mgr. 9.gr. og forngripir séu lausar fornminjar, einstakir hlutir, 100 ára og eldri, sbr. 1.mgr. 18.gr. laga nr. 107/2001, sbr. IV. kafli laganna með þeim réttaráhrifum sem greini í þeim lögum.

Því er sérstaklega mótmælt af matsþola sem fráleitu að matsbeiðendur hafi verið sviptir ráðstöfunarrétti á þessum hluta landsins sem jafngildi eignaupptöku og að hægt sé að krefjast söluandvirðis hennar.  Eins og fram komi í lögum 107/2001 þurfi allir að sæta þeirri skoðun sem boðuð er í lögunum, komi í ljós að fornminjar/fornleifar séu fyrir hendi.  Ekki sé að finna heimild til eignarnáms í lögunum og landið hafi ekki verið tekið eignarnámi.  Matsbeiðendur hafi sönnunarbyrði fyrir því að þeir hafi orðið fyrir tjóni en ríkissjóður telji að þeir hafi ekki sýnt fram á það í málinu.  Því liggi ekkert fyrir um að matsbeiðendur hafi verið sviptir varanlega ráðstöfunarrétti eignarinnar, heldur liggi aðeins fyrir að framkvæmdir á lóðinni muni tefjast tímabundið vegna nauðsynlegra fornleifarannsókna á lóðinni.  Ekki hafi verið sýnt fram á tjón vegna tafanna af hálfu matsbeiðenda.

Matsþoli kveður ekkert liggja fyrir um sölu lóðarinnar nr. 26 við Miðskóga nema uppkast að óundirrituðum kaupsamningi og því er því mótmælt að byggt sé á þeim upplýsingum við matið.

Vegna þriggja lóða á skipulagssvæðinu er tekið fram af hálfu matsþola að fram komi í bréfi Þjóðminjasafns dags. 1.10.2001 að ekki þyki ástæða til að gera athugasemdir við framkvæmdir á þeim þremur lóðum og í bréfi til lögmanns matsbeiðenda dags. 18.10.2001 komi fram að skipulagsnefnd geri ekki athugasemd við að nyrðri lóðirnar þrjár innst við götuna verði teknar til byggingar í samræmi við deiliskipulagið.  Í síðarnefnda bréfinu hafi komið fram, að hreppsnefnd tók undir ályktun skipulagsnefndar.

Matsþoli mótmælir sérstaklega bótakröfu matsbeiðenda vegna lóðanna nr. 17 og 19 við Miðskóga.  Lengi hafi verið vitað um mögulegar fornleifar á svæðinu og vænta megi að matsbeiðendum hafi verið um það kunnugt.  Ekki liggi fyrir í gögnum málsins hver aðdagandi hafi verið að hinni fyrirhuguðu kaupsamningsgerð, en matsbeiðendum hlaut að hafa verið kunnugt um fyrirhugaða breytingu á deiliskipulaginu 12.1.2001 þegar auglýsingin var birt.  Því megi ætla að áður en gengið var til þeirrar kaupsamningsgerðar sem lýst er af matsbeiðendum eða sala á öðrum lóðum undirbúin þá hafi matsbeiðendum mátt vera ljóst að við meðferð umræddrar breytingar á deiliskipulaginu gætu komið fram athugasemdir sem áhrif gætu haft á hugsanlega kaupsamningsgerð.  Draga megi þá ályktun af gögnum málsins varðandi hinar brostnu forsendur, að matsbeiðendur hafi ekki greint væntanlegum kaupendum frá umræddri óvissu og því hafi kaupendur hætt við.  Þetta sé aðeins á ábyrgð matsbeiðenda sjálfra sem ekki sé hægt að krefja aðra um.

Matsþoli bendir á að ekkert liggi fyrir um hvort verðmæti umræddra lóða hafi aukist á þeim tíma sem liðinn er frá hinni fyrirhuguðu sölu, en ekki er hægt að útiloka að svo sé og þá jafnvel að verðmætaaukningin hafi orðið umfram þær verðbætur og vexti sem krafist er.  Að mati ríkissjóðs ber að hafna alfarið bótakröfum matsbeiðenda í málinu, enda hafi ekki verið sýnt fram á neitt tjón.

Varðandi bótakröfu eiganda Tjarnarlands tekur matsþoli fram að aðeins sé um að ræða tímabundna frestun á fyrirhuguðum framkvæmdum á lóðinni vegna nauðsynlegra fornleifarannsókna.  Forsenda kröfunnar af hálfu matsbeiðanda sé röng og  ekki verði séð af gögnum málsins hvernig fjárhæð hennar sé fundin út.  Ekki hafi verið sýnt fram á að eigandi Tjarnarlands hafi orðið fyrir nokkru tjóni.

Vegna bótakröfu um fjártjón vegna kostnaðar við fornleifarannsókn er bent á af hálfu matsþola að matsbeiðendur og Bessastaðahreppur gerðu með sér samkomulag, dags. 21.9.2001, um að standa sameiginlega að kostnaði við framkvæmd fornleifakönnunar, sem fram fór hinn 23. og 24. sama mánaðar á vegum fornleifadeildar Þjóðminjasafnsins.   Enn fremur er bent á að í 1.mgr. 14.gr. i.f. þjóðminjalaga nr. 107/2001 komi fram, að við allar meiri háttar framkvæmdir, svo sem vegagerð, virkjanaframkvæmdir, flugvallargerð, veitulagnir og skógrækt, skuli sá sem fyrir þeim standi bera kostnað af nauðsynlegum rannsóknum.  Skv. 3.mgr. 14.gr. sömu laga skuli framkvæmdaraðili greiða kostnað vegna þeirra rannsókna á fornleifum sem Fornleifavernd ríkisins úrskurðar að séu nauðsynlegar vegna athafna hans.  Önnur regla gildi sbr. 2.mgr. 14.gr. sömu laga þegar athugun á fonleifafundi er gerð í því augnamiði að staðfesta eðli og umfang fundarins.  Kostnaður vegna slíkrar athugunar skuli greiddur af Fornleifadeild ríkisins.  Því er á því byggt af hálfu matsþola að matsbeiðendur verði sjálfir að bera kostnað vegna framangreindra fornleifarannsókna sem nauðsynlegar voru vegna fyrirhugaðra framkvæmda á viðkomandi lóðum, enda lögbundið.

Verði ekki fallist á að synja matsbeiðendum um bætur, þá er þess krafist af hálfu matsþola að bótakrafan verði lækkuð verulega og er vísað til þeirra sjónarmiða sem nefnd hafa verið hér að framan.   Í þessu sambandi vísar matsþoli til sjónarmiða um eigin sök og skyldu til að takmarka tjón.

VI.  Álit matsnefndar:

Í 25. gr. þjóðminjalaga nr. 107/2001 kemur fram að hver sá sem verði fyrir fjártjóni vegna framkvæmda á ákvæðum IV. kafla laganna eigi rétt á skaðabótum úr ríkissjóði.  Ef samkomulag næst ekki um bætur skulu þær ákveðnar eftir reglum laga um eignarnám.

Fyrir liggur að matsbeiðendur og matsþoli hafa ekki náð sáttum í máli þessu og vísuðu matsbeiðendur því ágreiningnum til Matsnefndar eignarnámsbóta með vísan til framangreinds ákvæðis í þjóðminjalögum.  Þá samþykkti matsþoli sérstaklega við fyrirtöku málsins þann 3. september 2002 að málið væri rekið fyrir nefndinni.

Af hálfu matsþola er þess krafist að málinu verði vísað frá nefndinni þar sem bótakrafa matsbeiðanda sé verulega vanreifuð.  Er í þessu sambandi vísað til grunnsjónarmiða að baki 80. gr. laga nr. 91/1991 því til stuðnings.

Í 2. mgr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms kemur fram að hlutverk Matsnefndar eignarnámsbóta sé að  skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.  Nefndin er stjórnsýslunefnd og lýtur ekki réttarfarsreglum í lögum nr. 91/1991, þó vissulega sé litið til þeirra reglna við meðferð mála hjá nefndinni, eftir því sem við á.   Nefndin er í niðurstöðum sínum ekki bundin við kröfugerð aðila, né er aðilum matsmála yfirleitt skylt að gera ákveðnar kröfur fyrir nefndinni.  Af þessum sökum er frávísunarkröfu matsþola hafnað.

Skv. 3. mgr. 14. gr. þjóðminjalaga nr. 107/2001 kemur fram að framkvæmdaaðili greiði kostnað vegna þeirra rannsókna á fornleifum sem Fornleifanefnd ríkisins úrskurðar að séu nauðsynlegar vegna athafna hans.  Bréf Fornleifanefndar ríkisins dags. 28. mars 2003 hefur verið lagt fram í máli þessu.   Í því kemur m.a. fram að á syðsta hluta svæðisins sem fjallað er um (þ.e. lóðinni nr. 26 við Miðskóga) og á fyrirhuguðu vegstæði milli Miðskóga 22 og Tjarnarlands séu fornleifar sem ekki megi hrófla frekar við án undangenginnar rannsóknar.  Með framangreindu bréfi Fornleifanefndar fylgdi ódagsett greinargerð um fornleifar að Skógtjörn á Álftanesi, en skv. henni kemur fram að fornleifauppgröftur á svæðinu myndi kosta kr. 70.000.000-.

Þar sem greiðsla framangreinds kostnaðar er forsenda fyrir frekari nýtingu matsþola á spildu sinni þykir matsnefndinni ljóst að lóðin nr. 26 við Miðskóga er matsbeiðendum í raun verðlaus vegna ákvæða um rannsóknarskyldu þeirra í lögum nr. 107/2001, auk þess sem rannsóknarskyldan leggur kvaðir á eiganda Tjarnarlands sem eru til þess fallnar að rýra verðgildi þeirrar eignar nokkuð af sömu ástæðum.

Ekki þykja efni til að ákvarða matsbeiðendum bætur vegna riftana á kaupsamningum um lóðirnar nr. 17 og 19 við Miðskóga, enda hvíla engar kvaðir vegna þjóðminjalaga á þeim lóðum.  Þá hefur fasteignaverð að áliti nefndarinnar ekki lækkað neitt frá því þeir samningar voru gerðir og því er ekki á það fallist að matsbeiðendur hafi orðið fyrir neinu tjóni vegna þessa sem matsþoli ber ábyrgð á skv. 25. gr. laga nr. 107/2001.

Svo sem fyrr segir þykir matsnefndinni ljóst að lóðin nr. 26 við Miðskóga er matsbeiðendum í raun verðlaus.  Þykja hæfilegar bætur vegna þessa vera kr. 2.700.000-. 

Svo sem að framan greinir getur eigandi Tjarnarlands ekki breytt aðkeyrslu að húsi sínu né legu bílskúrs svo sem skipulag gerir ráð fyrir, nema gegn greiðslu hins mikla rannsóknarkostnaðar skv. 14. gr. laga nr. 107/2002.  Nefndinni þykir ljóst að verðmæti Tjarnarlands rýrnar lítillega vegna þessa.  Hæfilegar bætur vegna þessa þykja kr. 1.000.000-.

Þá skal ríkissjóður enn fremur greiða matsbeiðendum kr. 450.000- auk virðisaukaskatts vegna reksturs máls þessa fyrir matsnefndinni og kr. 480.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta að málinu.


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Matsþoli, ríkissjóður Íslands, greiði matsbeiðendunum Auðbjörgu Eggertsdóttur, kt. 120744-2839, Melateig 8, Akureyri, Klemenz Eggertssyni, kt. 221252-4629, Miðskógum 20, Bessastaðahreppi og Sigurði Eggertssyni, kt. 040451-4559, Tjarnarlandi, Bessastaðahreppi, sameiginlega kr. 2.700.000- og Helgu Sigurðardóttur, kt. 210155-2419, Tjarnarlandi, Bessastaðahreppi, kr. 1.000.000- í skaðabætur vegna framkvæmda á IV. kafla þjóðminjalaga nr. 107/2001.

Þá skal ríkissjóður Íslands greiða matsbeiðendum öllum sameiginlega kr. 450.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs máls þessa  og kr. 480.000- í ríkissjóð í kostnað vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 


 

___________________________________

Helgi Jóhannesson


 

 


 

____________________________                _________________________________

Vífill Oddsson                                                   Kristinn Gylfi Jónsson


 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum