Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 4. apríl 2003

 

Föstudaginn 4. apríl 2003 var í Matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 4/2000


 


Vegagerðin


gegn


Eigendum Skjöldólfsstaða I, Jökuldal.


 


 


I.  Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:


 


Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Magnús Leópoldsson, löggiltur fasteignasali, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.


 


II.  Málsmeðferð og tilefni úrskurðar:


 


Matsnefnd eignarnámsbóta hefur þegar kveðið upp tvo úrskurði í máli þessu, en málið varðar mat á bótum vegna lagningar nýs vegar um land eigenda Skjöldólfsstaða I, Jökuldal (eignarnámsþola) og eignarnám Vegagerðarinnar (eignarnema) á landi og útihúsum í tilefni af því.


 


Þann 20. desember 2000 ákvarðaði matsnefndin bætur til eignarnámsþola fyrir fjós, hlöðu og fjárhús sem tekið hafði verið eignarnámi og þurfti að fjarlægja vegna veglagningarinnar.


 


Þann 7. júní 2002 kvað matsnefndin upp sinn annan úrskurð í máli þessu.  Með þeim úrskurði ákvarðaði matsnefndin eignarnámsþola bætur fyrir eignarnumið land vegna veglagningarinnar, en þegar sá úrskurður var upp kveðinn var ljóst orðið að eigandi Skjöldólfsstaða II, Eiríkur Skjaldarsson,  sem verið hafði aðili að málinu fram að því, átti ekki tilkall til hluta af þeim bótum.  Við flutning málsins fyrir matsnefndinni gerði lögmaður eiganda Skjöldólfsstaða II kröfu um greiðslu kostnaðar upp á kr. 709.027, þ.m.t. virðisaukaskattur, vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni.   Matsnefndin hafnaði hluta af þeim kostnaði með eftirfarandi rökstuðningi:


 


Svo sem fram hefur komið var í upphafi talið að eigendur Skjöldólfsstaða II gætu átt aðild að máli þessu.  Óumdeilt er að lögmaður eigenda Skjöldólfsstaða II starfaði að málinu framan af.  Hann hefur lagt fram málskostnaðarreikning upp á kr. 709.027- þ.m.t. virðisaukaskattur.  Meðfylgjandi reikningnum lagði lögmaðurinn fram tímaskýrslur vegna vinnu við málið.  Nefndinni þykir ljóst af tímaskráningum að hluti af vinnu lögmannsins tengdist ekki meðferð málsins fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta, heldur kærumálum í tengslum við eignarnámið o.fl.  Með vísan til 11. gr. laga nr. 11/1973 þykir nefndinni ekki tækt að gera eignarnema að greiða fyrir alla þá vinnu.  Með vísan til atvika málsins þykir hæfileg fjárhæð til Eiríks Skjaldarssonar, eiganda Skjöldólfsstaða II vegna þessa vera kr. 180.000- auk virðisaukaskatts.


 


Eigandi Skjöldólfsstaða II sætti sig ekki við þessa niðurstöðu nefndarinnar og kvartaði til umboðsmanns Alþingis í þeim tilgangi að fá leiðréttingu mála sinna.  Eftir hefðbundna málsmeðferð umboðsmanns gaf hann út álit sitt í málinu nr. 3541/2002.  Umboðsmaður Alþingis segir m.a. í áliti sínu:


 


Að því virtu og með vísan til framangreindra sjónarmiða tel ég að líta verði svo á að það sé verkefni matsnefndar eignarnámsbóta, þegar hún úrskurðar um fjárhæð eignarnámsbóta til eignarnámsþola, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 11/1973, að taka afstöðu til þess hvort gera eigi eignarnema að greiða eignarnámsþola málefnalegan og hæfilegan kostnað sem hann hefur stofanað til við að leita lögmætra leiða til að fá skorið úr um gildi eignarnámsákvörðunar, sbr. 1. mgr. 2. gr. og lokaákvæði 11. gr. laga nr. 11/1973.  Ég ítreka það sjónarmið að ákvæði laga nr. 11/1973 og lögskýringargögn benda ekki til annars en að ákvarðanir nefndarinnar um bætur vegna eignarnáms eigi að jafnaði að taka mið af heildstæðu ferli máls sem hefst með ákvörðun um eignarnám hjá eignarnámsþola á grundvelli lagaheimildar.


 


Niðurstöðukafli álits umboðsmanns Alþingis er svohljóðandi:


 


Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða mín að matsnefnd eignarnámsbóta hafi borið að fjalla um það í úrskurði sínum 7. júní 2002 hvort kostnaður Eiríks Skjaldarssonar við meðferð ágreiningsmáls um málsmeðferð og ákvörðun Vegagerðarinnar um eignarnám hafi verið málefnalegur og eðlilegur og  þá að hvaða leyti eignarnema var skylt að bera þann kostnað.  Það er því niðurstaða mín að úrlausn matsnefndarinnar á þessu atriði hafi ekki verið í samræmi við lög.


            Ég beini þeim tilmælum til matsnefndar eignarnámsbóta að mál Eiríks verði tekið upp að nýju, komi fram ósk þess efnis frá honum, og að nefndin taki þá mið af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í áliti þessu.


 


Með bréfi dags. 1. janúar 2003 óskaði lögmaður eiganda Skjöldólfsstaða II þess að málið yrði endurupptekið með vísan í framangreint álit umboðsmanns Alþingis.  Í bréfinu var gerð krafa um að nefndin ákvarðaði umbj. hans þóknun með vísan til málskostnaðarreikningsins sem lagður var fram við flutning málsins fyrir matsnefndinni, áður en hún kvað upp úrskurð sinn þann 7. júní 2002, auk þess sem gerð var krafa um viðbótarkostnað vegna meðferðar málsins hjá umboðsmanni Alþingis upp á kr. 150.800- þ.m.t. virðisaukaskattur. 


 


Matsnefndin tilkynnti eignarnema um endurupptökukröfuna með bréfi dags. 4. janúar 2003, þar sem eignarnema var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum vegna kröfunnar.    Svar barst frá eignarnema dags. 14. janúar 2003, þar sem málið var reifað auk þess sem talið var að ekki væri tilefni til endurupptöku málsins.  Með bréfi lögmanns eiganda Skjöldólfsstaða II dags. 25. janúar 2003 tjáði lögmaðurinn sig um sjónarmið þau sem fram komu í framangreindu bréfi eignarnema frá 14. janúar 2003.   


 


Með tölvupósti dags. 13. febrúar 2003 tilkynnti formaður matsnefndar aðilum málsins að ákveðið hefði verið að endurupptaka málið með vísan til álits umboðsmanns Alþingis.  Jafnframt var aðilum gefinn frestur til 20. febrúar 2003 til að koma að frekari sjónarmiðum sínum í málinu.  Engin frekari gögn bárust frá aðilum málsins.  Að áliti matsnefndarinnar þóttu ekki efni til að láta flytja málið munnlega fyrir nefndinni og var það því tekið til úrskurðar.


 


III.  Niðurstaða:


 


Svo sem að framan er rakið lagði lögmaður eiganda Skjöldólfsstaða II fram málskostnaðarreikning í málinu áður en matsnefndin kvað upp úrskurð sinn þann 7. júní 2002.  Tímaskýrslur þær sem fylgdu málskostnaðarreikningnum eru ekki dregnar í efa af hálfu nefndarinnar, en ljóst þykir að sú vinna sem lögmaður eigenda Skjöldólfsstaða II vann í málinu stafaði af ákvörðun eignarnema um eignarnámið og eftirfarandi málsmeðferð vegna þess.  Þykir því rétt að leggja fram lagðan málskostnaðarreikning til grundvallar við ákvörðun viðbótarþóknunar í máli þessu. 


 


Eigandi Skjöldólfsstaða II hefur að auki gert kröfu um viðbótarkostnað upp á kr. 150.800-, þ.m.t. virðisaukaskattur, vegna meðferðar málsins hjá umboðsmanni Alþingis.  Með sömu rökum og fyrr greinir þykir einnig rétt að eignarnema verði gert að greiða þennan kostnað.


 


Með vísan til framangreinds er það niðurstaða nefndarinnar að eignarnemi skuli, til viðbótar við það sem áður hafði verið ákvarðað, greiða Eiríki Skjaldarsyni, eiganda Skjöldólfsstaða II, kr. 635.727-, þ.m.t. virðisaukaskattur, vegna reksturs matsmáls þessa.  Ekki þykja efni til að gera eignarnema að greiða viðbótarkostnað í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.


 


 


ÚRSKURÐARORÐ:


 


Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgarúni 5 og 7, Reykjavík, greiði Eiríki Skjaldarssyni, kt. 120853-2019, Skjöldólfsstöðum II, Jökuldal, kr. 635.727, þ.m.t. virðisaukaskattur, í kostnað vegna reksturs matsmáls þessa.  Kemur framangreind fjárhæð til viðbótar þeirri fjárhæð sem ákvörðuð var í úrskurði nefndarinnar frá 7. júní 2002.


 


 


_______________________________


Helgi Jóhannesson


 


____________________________                _____________________________


Ragnar Ingimarsson                                          Magnús Leópoldsson



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum