Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 7. janúar 2003

 

Þriðjudaginn 7. janúar 2003 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 2/2002

 

Vegagerðin

gegn

Kristbjörgu Hrólfsdóttur

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

 

I.  Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður nefndarinnar kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II.  Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

 

Með matsbeiðni upphaflega dags. 18. júní 2002 óskaði Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi), eftir því að Matsnefnd eignarnámsbóta mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á spildu úr jörðinni Þjórsártúni, Ásahreppi, en eignarnámsþoli er eigandi jarðarinnar, Kristbjörg Hrólfsdóttir, kt. 100917-2389,  Þjórsártúni.  Tilefni eignarnámsins er veglagning Hringvegar að nýrri brú yfir Þjórsá, u.þ.b. 800 m. neðan við núverandi brú yfir ána.

Eignarnámið nær nánar tiltekið til landspildu undir hinn nýja veg í landi Þjórsátrúns.  Vegsvæðið í landi jarðarinnar er 1.060 m. langt og 60 m. breitt.  Auk þess þarf að skerða land jarðrainnar til viðbótar vegna skeringa við veginn.  Heildarflatarmáls 60 m. breiðs vegsvæðis og lands undir skeringar er 7,45 ha.  Til viðbótar fara 1,5 ha. lands undir nýja heimreið heim að Þjórsártúni.  Við framkvæmdina er eignarnemi reiðubúinn að skila landi undir núverndi vegsvæði Hringvegar til eignarnámsþola, að svo miklu leyti sem ekki er þörf á því undir reiðveg.  Ætlunin er að skila til eignarnema 1,95 ha. lands með þessum hætti.  Heildarstærð hins eignarnumda er því 7,0 ha.

 

Lagaheimild til eignarnámsins er að finna í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.

 

III.  Málsmeðferð:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta barst matsbeiðni dags. 18. júní 2002 frá eignarnema.  Eignarnemi hafði samband við formann matsnefndarinnar áður en boðað var til fyrstu fyrirtöku málsins og óskaði eftir fresti á að matsstörfin hæfust meðan á útgáfu nýs framkvæmdaleyfis vegna veglagningarinnar stæði, auk þess sem reyna ætti frekar sættir við eignarnámsþola.  Með bréfi dags. 2. september 2002 var fyrri matsbeiðni ítrekuð og óskað eftir því við matsnefndina að matsstörfin hæfust, enda lá þá nýtt framkvæmdaleyfi fyrir og tilraunir eignarnema til að ná sáttum við eignarnámsþola um bætur fyrir hið eignarnumda land höfðu ekki borið árangur.

 

Málið var fyrst tekið fyrir mánudaginn 23. september 2002 á vettvangi.  Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgiskjölum.  Eignarnemi krafðist þess að sér yrðu heimiluð umráð hins eignarnumda þó mati væri ekki lokið með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973.  Þessu mótmælti lögmaður eignarnámsþola.  Fulltrúar aðila reifuðu sjónarmið sín vegna þessa atriðis og ákvað matsnefndin að taka sér nokkurra daga frest til að taka ákvörðun í þessum þætti málsins.  Að þessu búnu var gengið á vettvang og aðstæður kannaðar.  Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 7. október 2002.

 

Föstudaginn 27. september 2002 ritaði formaður matsnefndarinnar bréf til eignarnema þar sem honum var tilkynnt að nefndin hefði komst að þeirri niðurstöðu að heimila eignarnema umráð hins eignarnumda þó mati væri ekki lokið.  Í bréfinu kemur eftirfarandi m.a. fram:

“Fyrir liggur að nokkuð hefur tafist að hefjast handa við matsmál þetta af ástæðum sem eignarnema verður ekki kennt um.  Eignarnámsheimildin er óumdeild sem og framkvæmdaleyfi sem gefið hefur verið út vegna framkvæmdarinnar.  Fallist er á það með eignarnema að það skipti hann miklu að geta haldið áfram með framkvæmdirnar þó mati sé ekki lokið, enda nú komið fram á haust og mikilvægt að vinna við veglagninguna gangi sem best áður en vetur gengur í garð.  Þá verður ekki séð að hagsmunir eignarnámsþola séu fyrir borð bornir þó framkvæmdir séu leyfðar nú þegar, enda hefur matsnefndin skoðað hið eignarnumda land svo sem fram hefur komið.

Eignarnema eru heimiluð umráð hins eignarnumda þó mati sé ekki lokið.”

 

Mánudaginn 7. október 2002 var málið tekið fyrir.  Eignarnemi lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar og annarra gagna af hálfu eignarnámsþola til 28. október 2002.

 

Að beiðni eignarnámsþola var fyrirtöku málsins þann 28. október 2002 frestað og var málið næst tekið fyrir miðvikudaginn 20. nóvember 2002.  Eignarnámsþoli lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings til 3. desember 2002.

 

Munnlegum flutningi málsins var frestað til miðvikudagsins 4. desember 2002.  Aðilar reifuðu kröfur sínar og sjónarmið fyrir nefndinni.  Samkomulag varð um að veita aðilum viðbótarfrest að málflutningi loknum til að koma að frekari gögnum sem bárust nefndinni og var málið því tekið til úrskurðar.

 

IV.  Sjónarmið eignarnema:

 

Eignarnemi kveður tilefni eignarnámsins vera lagning vegar að nýrri brú á Hringvegi yfir Þjórsá.  Nýtt brúarstæði sé tæpum 800 m. vestan við núverandi brú yfir ána og til að tengja hina nýju brú við Hringveginn þurfi að breyta legu hans í landi Þjórsártúns á 1.060 m. löngum kafla um landið.   Eignarnemi segir að vegurinn komi til með að liggja í stórri bergskeringu að hluta til og að sú skering sé áætluð 86.000 m³.  Skeringin sé allt að 6 m. djúp.  Ætlunin sé að vinna sprengt grjót úr skeringunni í burðarlag og fyllingu vegarins og að útreiknað nýtanlegt magn sé um 112.000 m³. 

 

Eignarnemi kveður heildarflatarmál eignarnumis lands undir vegsvæði og skeringar vera 7,45 ha.  Til viðbótar fari 1,5 ha. lands undir nýjan veg frá hinum nýja vegi heim að Þjórsártúni.  Þá kveðst eignarnumi muni skila 1,95 ha. lands sem er undir núverandi vegsvæði Hringvegar frá fyrirhuguðum vegi að Þjórsártúni að merkjum við Lækjartún.  Eignarnemi mun halda eftir hluta vegsvæðisins um land eignarnámsþola vegna ríðandi umferðar, sem ætlunin er að verði áfram um núverandi brú yfir Þjórsá og tengja þarf við núverandi reiðveg.  Að auki mun litið á gömlu brúna yfir Þjórsá sem varaleið lokist nýja brúin.  Samkvæmt því sem að framan greinir segir eignarnemi flatarmál hins eignarnumda lands sundurliðast með eftirfarandi hætti:

 

Vegsvæði Hringvegar og skeringar                                7,45 ha.

Vegsvæði vegar að Þjórsártúni og reiðvegar                 1,50 ha.

Samtals nýtt vegsvæði                                                  8,95 ha.

Til frádráttar því sem skilað verður                             - 1,95 ha.

Samtals skerðing lands vegna nýs vegar                        7,00 ha.

 

Eignarnemi kveðst hafa boðið eignarnámsþola bætur fyrir hið eignarnumda land með hliðsjón af landverði á svæðinu og að teknu tilliti til nýlegra úrskurða sem gengið hafa í eignarnámsmálum á nærliggjandi jörðum.  Þá hafi ennfremur verið tekið tillit til orðsendingar nr. 13/2001 um landbætur o.fl. sem liggur frammi í málinu og þess að töluvert magn jarðefna til vegagerðar sé nýtanlegt með því að sprengja það úr skeringu og því hafi verið boðnar bætur fyrir það.  Þá hafi einnig verið boðnar bætur vegna aukinnar skiptingar lands og vegna jarðrasks og átroðnings af völdum vegarlagningarinnar.  Með hliðsjón af framangreindu voru eignarnámsþola boðnar bætur upp á kr. 2.850.000-.

 

Varðandi verðmat á hinni eignarnumdu spildu bendir eignarnemi á að samkvæmt útboðslýsingu komi fram að enginn hluti hinnar eignarnumdu spildu sé ræktað land.  Skipta megi spildunni í þrjá hluta, fyrst mýrlendi á um 350 m. kafla, síðan gróið holt á um 250 m. kafla og þvínæst yfirborðsþurrkuð hallamýri á um 300 m. kafla, þar sem farið verður niður af Selásnum og niður að brún árgilsins þar sem fyrirhugað er að hin nýja brú verði reist.  Spildan sé því skv. framangreindu að stórum hluta blaut, alldjúp mýri, sem takmarki nýtingarmöguleika landsins.  Hún henti þannig illa til ræktunar og bygginga sem sjáist m.a. á því að ræktun og byggingar á jörðinni hafi verið staðsett annars staðar.  Í dag sé spildan einungis nýtt til beitar fyrir búsmala.

 

Eignarnemi kveðst hafa boðið eignarnámsþola upp á ákveðnar lausnir til að draga úr neikvæmum áhrifum á búskap vegna aukinnar skiptingar lands vegna framkvæmdanna, s.s. með gerð gangna undir hinn nýja veg, jöfnun og sáningu í raskað land, nýjar girðingar o.fl.   Eignarnemi segir að tilboð hans um sérstaka greiðslu fyrir efni sem hann muni nýta úr hinni eignarnumdu spildu sé niður fallið þar sem eignarnámsþoli hafi ekki tekið því, enda hljótist ekkert tjón af efnistökunni fyrir eignarnámsþola þar sem það sé tekið úr spildu þeirri sem tekin er eignarnámi og greitt verði fyrir. 

 

Eignarnemi vill miða bætur fyrir landið við núverandi notkun landsins eða notkun sem sennilegust verði í nánustu framtíð.  Til þessa dags hafi jörðin verið nýtt til hefðbundins landbúnaðar og ekki liggi fyrir áætlanir eða skipulag sem geri ráð fyrir öðru.  Eignarnámsþoli hljóti að bera sönnunarbyrði fyrir annars konar nýtingu landsins.

 

Eignarnemi vísar til þess að skv. orðsendingu nr. 13/2001 séu lágmarksbætur fyrir ræktunarhæft land kr. 20.000 pr. ha., en kr. 7.500 pr. ha. fyrir óræktunarhæft gróið land.  Eignarnemi kveðst því hafa boðið betur en þetta þar sem viðurkennt sé að landverð á því svæði sem um ræði kunni að vera hærra.  Eignarnemi bendir á að fasteignamat óræktaðs lands Þjórsártúns sé kr. 670.000-.  Fram komi að 85 ha. ræktaðs lands séu metnir á tæpar kr. 4,5 millj., eða rúmar kr. 50.000- pr. ha.  Eignarnemi vísar einnig til úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta í sambærilegum málum t.d. málum nr. 18/1998 og nr. 6/2000 og úrskurða nefndarinnar um mat á bótum vegna lagningar Búrfellslínu frá árinu 1999, eftir því sem við getur átt.

 

Eignarnemi telur að bætur til eignarnámsþola eigi að miðast við sannað fjárhagslegt tjón eignarnámsþola af eignarnáminu.  Til frádráttar bótunum eigi að koma hagsbætur þær sem ætla megi að hljótist af framkvæmdum þeim sem eru tilefni eignarnámsins.  Í þessu sambandi vísar eignarnemi sérstaklega til þess að hann kemur til með að skila 1,95 ha. lands til eignarnámsþola auk þess sem hagræði felist í því fyrir eignarnámsþola að vegurinn verði fluttur fjær íbúðarhúsum og öðrum mannvirkjum á jörðinni.

 

Eignarnemi vísar til vegalaga nr. 45/1994, einkum ákvæða IX. kafla laganna.  Þá er vísað til laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum.

 

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

 

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að bætur vegna eignaskerðingar og verðmætarýrnunar sem hljótast muni af framkvæmdum eignarnema verði metnar a.m.k. að fjárhæð kr. 15.000.000-.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi matsbeiðanda.

 

Eignarnámsþoli kveður Þjórsárholt hafa verið stofnað sem nýbýli úr landi Kálfholts árið 1898.  Jörðin sé að mestu þurrlend, um 250 ha. að stærð og öll gróin.  Hlunnindi séu af lax- og silungsveiði í Þjórsá og í landi jarðarinnar sé heitt vatn.  Jörðin sé í um 80 km. fjarlægð frá Reykjavík og af henni sé gott útsýni.  Nú sé stundaður sauðfjár- og hrossabúskapur á jörðinni, en til framtíðar litið sé landið kjörið til að reisa á því sumarbústaði eða aðra byggð og stunda á því skógrækt og útivist ýmis konar.

 

Af hálfu eignarnámsþola hefur verið gerð nákvæm grein fyrir aðdraganda matsmáls þessa, þ.e. útgáfu framkvæmdaleyfis, galla sem var á veitingu upphaflegs framkvæmdaleyfis og aðgerðum sem lögmaður eignarnámsþola þurfti að grípa til til að fá þann þátt málsins leiðréttan.

 

Eignarnámsþoli heldur því fram að fyrirsjáanlegt sé að verulegt ónæði verði af framkvæmdunum á verktímanum auk þess sem skemmdir hafi verið unnar á túnum og ræktanlegu landi vegna efniskönnunar o.fl.  Telur eignarnámsþoli að þessi atriði munu hafa mikil áhrif á búskap á framkvæmdatímanum.  Fyrst og fremst sé um að ræða sauðfjárbúskap á jörðinni sem sé afar viðkvæmur fyrir öllu raski af þessu tagi og óhægt sé um vik að flytja sauðféð til meðan á framkvæmdum stendur, enda jörðin lítil.

 

Varðandi mat á verðmæti hins eignarnumda lands vísar eignarnámsþoli fyrst og fremst til 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar sem segir að fullt verð skuli koma fyrir hlut sem eignarnám er gert í.  Samkvæmt hefðbundnum sjónarmiðum við verðlagningu eigna sé rétt, við mat á því hvað teljist fullt verð í skilningi sjórnarskrárákvæðisins, að líta til þess hvert sé líklegt söluverðmæti eignarinnar, notagildi hennar eða hver kostnaður sé fyrir eignarnámsþola að útvega sér sambærilega eign.  Síðan eigi að beita því sjónarmiði sem komi hagstæðast út fyrir eignarnámsþola.

 

Eignarnámsþoli leggur á það þunga áherslu að við mat á bótum vegna eignarnámsins megi ekki leggja það til grundvallar að til frambúðar verði fyrst og fremst stundaður sauðfjárbúskapur á jörðinni svo sem nú sé gert.  Komi þar einkum til stærð jarðarinnar sem sé óhagkvæm fyrir slíkan búskap, en ekki síður staðsetning jarðarinnar nærri þéttbýlissvæðinu á Stór-Reykjavíkursvæðinu, þróun á notkun og verði jarða á svæðinu.  Eignarnámsþoli telur land jarðarinnar kjörið til að reisa á því sumarbústaði eða eftir atvikum aðra byggð á heilsársgrundvelli.

 

Eignarnámsþoli bendir á að jörðin Þjórsártún sé ekki nema um 250 ha. að stærð.  Skv. fram lögðum uppdrætti komi fram að um helmingur jarðarinnar sé neðan við núverandi Hringveg en hinn helmingur hennar ofan hans.  Sá hluti jarðarinnar sem sé neðan við núverandi Hringveg muni klofna að engilöngu við lagningu hins nýja vegar sem feli í sér verulegt óhagræði og verðrýrnun, enda muni jörðin á eftir vera tvíklofin, annars vegar vegna hins nýja vegar og hins vegar vegna gamla vegarins sem verður haldið við áfram sem reiðvegi að hluta.  Að mati eignarnámsþola er því fráleitt að tjón hans sé einskorðað við það land sem fari undir hinn nýja veg.  Þá verði að taka sérstakt tillit til þeirrar hljóð-, sjón og loftmengunar sem leiði af hinum nýja stofnvegi og þeirri umferð sem fara muni um þann veg annars vegar og reiðveginn hins vegar.

 

Af hálfu eignarnámsþola er sérstaklega vísað til skýrslu KPMG ráðgjafar ehf. um verðrýrnun vegna eignarnámsins sem lögð hefur verið fram í málinu.  Þar komi fram að land innan 100 m. frá hinum nýja vegi teljist algerlega verðlaust fyrir eignarnámsþola á eftir, land sem sé í 100-200 m. fjarlægð frá hinum nýja vegi rýrni um 50%.  Þá sé gert ráð fyrir því í skýrslunni að eignarnámsþoli fái kr. 15 pr. m³ í bætur fyrir efnistöku og kr. 1.000.000- í sérstakar bætur vegna óhagkvæmrar skiptingar lands og áhrifa þess á búskap.  Þá sé ennfremur gert ráð fyrir að tjón vegna jarðrasks, og átroðnings og tímabundinna afnota eignarnema á landi á framkvæmdatíma nemi kr. 900.000-.   Skýrsluhöfundur hafni því að nokkuð verðmæti sé í þeim veghluta sem eignarnemi kemur til með að skila aftur til eignarnámsþola.  Miðað við að landinu sé skipt í eftirsóknarvert sumarbústaðaland á kr. 300.000- pr. ha. annars vegar og  verðminna land hins vegar á kr. 150.000- pr. ha. telji skýrsluhöfundur að tjón eignarnámsþola vegna eignarnámsins miðað við framangreindar forsendur nemi kr. 10,5 til 11 millj.

 

Þá bendir eignarnámsþoli ennfremur á verðmat Magnúsar Leópoldssonar lögg. fasteignasala sem lagt hafi verið fram í málinu.  Skv. því telji Magnús verðrýrnun jarðarinnar nema a.m.k. kr. 15.000.000- vegna framkvæmda eignarnema.

 

Eignarnmálsþoli heldur því fram að eignarnemi sé bundinn við tilboð sitt um að greiða kr. 600.000- í efnisbætur, þó af greinargerð eignarnema megi ráða að hann telji sig óbundinn af því boði.  Eignarnámsþoli telur hins vegar fram boðnar bætur fyrir efnistökuna vera of lágar, enda sé ljóst að með tilkomu Urriðafossvirkjunar muni eftirspurn eftir efni sem þessu stórlega aukast.  Eignarnámsþoli telur nýtanlegt efnismagn nema 112.000 m³ og að markaðsverð pr. m³ vera kr. 33 samkvæmt samningi sem eigendur nærliggjandi jarðar hafa gert um efnistöku og lagður hefur verið fram í málinu.

 

Eignarnámsþoli leggur á það þunga áherslu að við mat á bótum sé tekið tillit til aðstæðna á hverjum stað og þess hversu illa eignarnámið komi við á hverri jörð fyrir sig.  Þannig komi hinn nýji vegur til með að skera verðmætt land hans illa svo sem lýst hafi verið, og því beri að líta til annarra atriða við matið en einungis verðmætis þess lands sem fari undir veginn sjálfan.

 

Eignarnámsþoli mótmælir því sérstaklega að fyrirhugaðar vegaframkvæmdir hafi í för með sér sérstakt hagræði fyrir eignarnámsþola sem taka verði mið af við ákvörðun bóta.  Þjóðvegurinn um jörðina hafi legið þar sem hann nú er um langan aldur og allt skipulag á jörðinni miðist við það.

 

Varðandi lagarök vísar eignarnámsþoli til 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar og hefðbundinna sjónarmiða við verðmat eigna við eignarnám og innlausn.  Þá vísar eignarnemi eftir því sem við á til ákvæða vegalaga nr. 45/1994, einkum 9. kafla.  Málskostnaðarkröfu reisir eignarnámsþoli á 11. gr. laga nr. 11/1973.

 

VI.  Álit matsnefndar:

 

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður.  Stærð og lega þess lands sem eignarnemi ætlar undir hinn nýja veg er ágreiningslaus með aðilum.

 

Fallist er á það með eignarnámsþola að jörðin Þjórsártún sé vel staðsett og einmitt á því svæði landsins sem eftirsóknarvert þykir vegna nálægðar við þéttbýlið á Stór-Reykjavíkursvæðinu.  Telur matsnefndin að þróun landverðs á þessum slóðum undanfarin ár renni stoðum undir þessa staðhæfingu. 

 

Hinn nýji vegur um land eignarnámsþola kemur til með að skera verðmætan hluta jarðarinnar eftir endilöngu og felur því framkvæmdin í sér meira tjón fyrir eignarnámsþola en væri ef einungis skák í útjaðri jarðarinnar væri tekin eignarnámi.  Í þessu sambandi ber einnig að hafa í huga að jörðin er ekki landmikil og því öll skerðing á nýtanlegu landi hennar til þess fallin að rýra heildarverðmæti jarðarinnar meira en væri ef um landmikla jörð væri að ræða.  Af þessum sökum er það álit matsnefndarinnar að veglagningin sem slík feli í sér almenna verðlækkun á jörðinni sérstaklega þar sem hluti af gamla veginum á að haldast opinn sem reiðleið.

 

Fallist er á það með eignarnámsþola að við matið skulu ekki einungis taka tillit til þeirrar nýtingar sem á jörðinni er nú.  Þrátt fyrir að hið eignarnumda land hafi ekki verið sérstaklega skipulagt fyrir sumarhúsabyggð þykir ljóst að landið geti að einhverju leyti hentað fyrir lóðir undir sumarhús eða heilsársbyggð.  Verður því við matið að miða við þann möguleika á framtíðarnýtingu landsins.  Í þessu sambandi er sérstaklega vísað til dóms Hæstaréttar frá árinu 1984 bls. 906.

 

Matsnefndinni þykir ljóst að land í allt að 150 m. fjarlægð frá hinum nýja vegi, þ.e. 120 m. hvorum megin vegarins frá hinni eignarnumdu spildu,  muni aldrei nýtast undir byggð, hvort sem er sumarhúsabyggð eða annars konar byggð.  Eignarnámsþoli mun allt að einu geta nýtt þann hluta landsins til hefðbundinna landbúnaðarnota svo sem verið hefur og því er ekki litið svo á að þessi hluti landsins verði verðlaus þrátt fyrir lagningu hins nýja vegar.

 

Fallist er á það með eignarnema að til frádráttar bótum fyrir hið eignarnumda skuli koma verðmæti 1,95 ha. spildu sem skilað er aftur.  Þess ber þó að geta að á þeirri spildu er nú steyptur vegur sem gerir hana verðminni til sumarhúsabyggðar og/eða frístundarnotkunar auk þess sem af veginum er nokkur sjónmengun.  Sú spilda er því að áliti matsnefndarinnar ekki eins verðmikil og óspjallað land á svæðinu.

 

Ekki er fallist á það með eignarnámsþola að hann eigi að fá sérstakar bætur fyrir efnistöku á þeim hluta landsins sem eignarnemi telur eignarnámi, enda eru bætur fyrir þann hluta landsins miðaðar við að um fullt verð á því landi sé að ræða með þeim gögnum og gæðum sem því fylgja. 

 

Ekki er fallist á það með eignarnema að hin nýja veglagning feli í sér sérstakt hagræði fyrir eignarnámsþola, jafnvel þó umferð færist fjær húsakosti á jörðinni.

 

Með vísan til þess sem að framan greinir þykja hæfilegar bætur vegna eignarnámsins vera sem hér segir:

 

Bætur fyrir land undir nýtt vegsvæði 8,95 ha. x 400.000                           kr.     2.685.000-

- skilað landi 1,95 ha. x 200.000                                                           (  kr.        390.000-  )

Verðrýrnun lands í næsta nágrenni við hinn

hinn nýja veg 1.060 m. x 240 m. x 150.000- pr. ha.                                 kr.     3.816.000-

Almenn verðrýrnun jarðarinnar vegna aðstæðna sem lýst hefur verið       kr.        5.000.000-  

Eignarnámsbætur samtals                                                                         kr.   11.111.000-

 

Ekki þykja efni til að greiða sérstakar bætur fyrir meint tjón eignarnámsþola af völdum ónæðis og/eða röskunar á framkvæmdatímanum.

 

Af hálfu lögmanns eignarnámsþola hefur verið lagt fram málskostnaðaryfirlit.  Skv. því er gerð krafa um kostnað upp á kr. 1.380.457- sem sundurliðast þannig:

 

Þóknun lögmanns skv. gjaldskrá m. vsk.                                                  kr.     1.122.616-

Útlagður kostnaður og akstur                                                                   kr.        257.841-

Samtals                                                                                                   kr.     1.380.457-

                                                                                                                       

Af tímaskýrslum lögmanns eignarnámsþola sem fylgdu málskostnaðaryfirlitinu er ljóst að a.m.k. hluti vinnu lögmannsins er til kominn vegna vinnu fyrir eignarnámsþola í tengslum við útgáfu nýs framkvæmdaleyfis o.fl. tengt undirbúningi framkvæmdarinnar.  Af hálfu eignarnema hefur þessum þætti í kostnaðarkröfu eignarnámsþola verið mótmælt með vísan til þess að skv. 11. gr. laga nr. 11/1973 skuli eignarnemi einungis greiða eignarnámsþola kostnað sem hlýst af rekstri matsmálsins fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.

 

Fyrir liggur að eftir að Matsnefnd eignarnámsbóta barst matsbeiðni í máli þessu varð ljóst að framkvæmdaleyfi sem gefið hafði verið út vegna framkvæmdar þeirrar sem um ræðir í máli þessu var gallað.  Af þessum sökum var lögmanni eignarnámsþola nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að fá þetta leiðrétt.  Þótt sú vinna sé strangt til tekin ekki þáttur í kostnaði við rekstur málsins fyrir matsnefndinni þykir rétt með vísan til álits umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 3541/2002 að eignarnemi beri kostnað af þeim þætti málsins einnig.  Tímaskýrslur eignarnámsþola eru ekki véfengdar og því þykir rétt að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 1.380.457- í kostnað vegna reksturs málsins.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, Kristbjörgu Hrólfsdóttur, kt. 100917-2389,  Þjórsártúni, Ásahreppi, kr. 11.111.000- í eignarnámsbætur og kr. 1.380.457, þ.m.t. virðisaukaskattur, í kostnað vegna rekstur málsins fyrir matsnefndinni.

Þá skal eignarnemi greiða kr. 720.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar við störf Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

___________________________________

Helgi Jóhannesson hrl.

 

 

_____________________________              _________________________________

Ragnar Ingimarsson                                          Kristinn Gylfi Jónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum