Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 59/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík


Miðvikudaginn 26. nóvember 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 59/2014:                                                      


Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 9. október 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 9. júlí 2014, á umsókn hans um styrk til greiðslu tannlæknakostnaðar að fjárhæð 40.000 krónur.


I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um styrk til greiðslu tannlæknakostnaðar að fjárhæð 40.000 krónur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 21. janúar 2014. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 24. janúar 2014, með þeim rökum að hún samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar. Með bréfi, dags. 30. janúar 2014, áfrýjaði kærandi afgreiðslu þjónustumiðstöðvarinnar til velferðarráðs. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 9. júlí 2014 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna um styrk til greiðslu tannlæknakostnaðar að upphæð kr. 40.000.- þar sem eigi verður talið að aðstæður umsækjanda falli að skilyrðum þeim sem sett eru í 20. gr. reglna um fjárhagsaðstoð varðandi greiðslu sérfræðiaðstoðar.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 9. júlí 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 9. október 2014. Með bréfi, dags. 13. október 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 31. október 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 5. nóvember 2014, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi greitt um það bil 500.000 til 600.000 krónur í tannlæknakostnað frá árinu 2010. Hann óski eftir nánari rökstuðningi vegna synjunar velferðarráðs á umsókn hans um styrk til greiðslu tannlæknakostnaðar.

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda og vísað til þess að hann hafi ekki uppfyllt skilyrði 20. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg til greiðslu nauðsynlegra tannlækninga. Skilyrði fjárhagsaðstoðar vegna tannlækninga samkvæmt 20. gr. reglnanna sé að einstaklingur hafi notið fjárhagsaðstoðar til framfærslu samfleytt undanfarna tólf mánuði. Um slíkt sé ekki að ræða í tilviki kæranda en hann sé öryrki og fái greiddar örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Kærandi hafi óskað eftir styrk til greiðslu tannlæknakostnaðar en um heilbrigðiskostnað sé að ræða. Slíkur kostnaður sé ekki hluti af félagsþjónustu sveitarfélaga og falli því ekki undir reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Samkvæmt framansögðu sé ljóst að ákvörðun velferðarráðs hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum né ákvæðum laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.


IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. janúar 2011, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um styrk til greiðslu tannlæknakostnaðar að fjárhæð 40.000 krónur, sbr. 20. gr. framangreindra reglna.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Umsókn kæranda um styrk til greiðslu tannlæknakostnaðar var synjað á þeirri forsendu að skilyrðum 20. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi ekki verið fullnægt. Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að tannlæknakostnaður sé heilbrigðiskostnaður en hann sé ekki hluti af félagsþjónustu sveitarfélaga og falli því ekki undir reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Úrskurðarnefndin telur rétt að benda á að í 1. mgr. 20. gr. framangreindra reglna, sem borgin hefur sjálf sett, kemur fram að heimilt sé að veita fjárhagsaðstoð til greiðslu nauðsynlegra tannlækninga til einstaklinga sem hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglunum samfleytt undanfarna tólf mánuði. Viðmiðunarmörk aðstoðar eru 40.000 krónur á ári og skal kostnaðaráætlun tannlæknis fylgja með umsókn. Úrskurðarnefndin fellst því ekki á málsástæðu Reykjavíkurborgar um að greiðslur vegna tannlækninga falli ekki undir reglur borgarinnar.  

Kærandi sótti um styrk til greiðslu tannlæknakostnaðar í janúar 2014 en samkvæmt gögnum málsins naut kærandi ekki fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg á þeim tíma. Þá naut kærandi heldur ekki fjárhagsaðstoðar sér til framfærslu síðastliðna tólf mánuði áður en umsókn var lögð fram. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að skilyrði 20. gr. reglnanna hafi ekki verið fullnægt í málinu og átti kærandi því ekki rétt á styrk til greiðslu tannlæknakostnaðar.

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 9. júlí 2014, um synjun á umsókn A um styrk til greiðslu tannlæknakostnaðar að fjárhæð 40.000 krónur er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum