Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 66/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík


Miðvikudaginn 14. janúar 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 66/2014:


Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með bréfi, dags. 9. nóvember 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Reykjavíkurborgar um lækkun húsaleigubóta, dags. 1. október 2014.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi hefur verið með leigusamning við Reykjavíkurborg frá 16. ágúst 2008 vegna félagslegs leiguhúsnæðis að B í Reykjavík og fengið greiddar húsaleigubætur og sérstakar húsaleigubætur frá Reykjavíkurborg. Með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 22. ágúst 2014, var kæranda tilkynnt að húsaleigubætur til hennar yrðu lækkaðar frá og með 1. ágúst 2014 þar sem dóttir hennar væri ekki lengur með lögheimili hjá henni. Kærandi áfrýjaði ákvörðun þjónustumiðstöðvar til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 1. október 2014 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti ákvörðun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um lækkun á greiðslu húsaleigubóta. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur greiðast bætur vegna barna frá næsta mánuði eftir fæðingu barns eða lögheimilisskráningu og þar til ungmenni nær 18 ára aldri eða flytur. Vakin er athygli á að um húsaleigubætur gilda lög nr. 138/1997. Velferðarráð hefur ekki heimild til að víkja frá settum lögum.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 1. október 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 9. nóvember 2014. Með bréfi, dags. 12. nóvember 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun á umsókn kæranda. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 19. nóvember 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 20. nóvember 2014, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að húsaleigubætur til hennar hafi lækkað um 30.000 krónur á mánuði. Hún geti ekki greitt svo háa leigu og óskar eftir fullum húsaleigubótum a.m.k. þar til hún komist í ódýrara leiguhúsnæði.

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð sveitarfélagsins er greint frá því að kærandi hafi fengið greiddar 36.000 krónur í húsaleigubætur og 38.000 krónur í sérstakar húsaleigubætur þar sem dóttir hennar hafi verið búsett hjá henni. Dóttir hennar hafi nú flutt lögheimili sitt og því hafi húsaleigubætur kæranda lækkað. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, skulu húsaleigubætur ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við ákveðinn grunn sem miðist við ákveðna fjárhæð fyrir hverja íbúð og hvert barn á framfæri umsækjanda að teknu tilliti til leigufjárhæðar, eigna og tekna. Í 2. mgr. 5. gr. komi fram að bætur vegna barna skuli greiðast frá næsta mánuði eftir fæðingu barns eða lögheimilisskráningu og þar til ungmenni nái 18 ára aldri eða flytji.

Óumdeilt sé að dóttir kæranda hafi flutt lögheimili sitt og sé ekki lengur á heimili kæranda. Kærandi uppfylli því ekki skilyrði 5. gr. laganna fyrir því að húsaleigubætur hennar séu ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við að kærandi hafi barn á framfæri. Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi það verið mat velferðarráðs að ekki bæri að veita kæranda undanþágu frá lækkun húsaleigubóta.    

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í máli þessu er ágreiningur um lækkun húsaleigubóta til handa kæranda.

Markmið laga um húsaleigubætur er að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum, sbr. 1. gr. laganna. Í 1. mgr. 5. gr. laga um húsaleigubætur segir að húsaleigubætur skuli ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við ákveðinn grunn sem miðist við ákveðna fjárhæð fyrir hverja íbúð og hvert barn á framfæri umsækjanda að teknu tilliti til leigufjárhæðar, eigna og tekna. Þá segir í 2. mgr. 5. gr. að bætur vegna barna greiðist frá næsta mánuði eftir fæðingu barns eða lögheimilisskráningu og þar til ungmenni nái 18 ára aldri eða flytji.

Samkvæmt gögnum málsins voru húsaleigubætur kæranda ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við að kærandi væri með barn á framfæri. Óumdeilt er að barn kæranda er ekki lengur með lögheimili hjá kæranda.

Í 15. gr. laga um húsaleigubætur er gerð grein fyrir þeim tilvikum sem leitt geta til brottfalls bótaréttar. Segir þar meðal annars í 1. mgr. að réttur til húsaleigubóta falli niður ef skilyrðum laga um húsaleigubætur sé ekki lengur fullnægt. Þar sem barn kæranda er ekki lengur með lögheimili hjá henni á hún ekki rétt á að húsaleigubætur hennar séu ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við að hún sé með barn á framfæri. Að því virtu var Reykjavíkurborg rétt að lækka greiðslur húsaleigubóta og sérstakra húsaleigubóta til kæranda með þeim hætti sem gert var.

Úrskurðarnefndin bendir á að verði breytingar á högum og heimilisaðstæðum kæranda ber henni skv. 14. gr. laga um húsaleigubætur að tilkynna Reykjavíkurborg þegar í stað um þær breytingar, en samkvæmt ákvæðinu skal bótaþegi tilkynna viðkomandi sveitarfélagi um hverjar þær breytingar á högum sínum og heimilisaðstæðum og öðrum þeim atriðum sem áhrif geta haft á rétt til húsaleigubóta og á bótafjárhæð.  

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 1. október 2014, um lækkun húsaleigubóta til handa A er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum