Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 118/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 118/2016

Fimmtudaginn 13. október 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 23. mars 2016, kærir A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. desember 2015, um innheimtu ofgreiddra bóta.  

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun á tímabilinu 1. september 2014 til 31. október 2015. Við eftirlit með greiðslum atvinnuleysisbóta í nóvember 2015 kom í ljós að kærandi hafði dvalið erlendis að minnsta kosti frá því í maí 2015. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 17. nóvember 2015, var kæranda greint frá þeim upplýsingum og óskað eftir skýringum og farseðlum vegna dvalarinnar. Með tölvupóstum þann 20. nóvember og 10. desember 2015 bárust skýringar og farseðlar frá kæranda.    

Með ákvörðun, dags. 23. desember 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 17. maí 2015 til 31. október 2015 og krafðist greiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 741.987 kr. Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 23. mars 2016. Með bréfi, dags. 7. apríl 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 27. apríl 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. apríl 2016, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi farið erlendis í [...] og sú ferð hafi einungis átt að vara í þrjá daga. Hún hafi því ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um ferðina. Kærandi hafi veikst í ferðinni og verið að mestu á sjúkrahúsi í fjóra mánuði. Hún hafi reynt að fá sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands gegn því að afskrá sig af atvinnuleysistryggingaskrá en það hafi ekki gengið eftir. Kærandi hafi því neyðst til að vera á bótum hjá Vinnumálastofnun þar sem hún hafi þurft að greiða allan sjúkrakostnað sjálf. Kærandi tekur fram að hún geti ekki endurgreitt stofnuninni.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar er vísað til 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið sé á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í c-lið ákvæðisins komi meðal annars fram að það sé skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi. Í 14. gr. laganna sé einnig tekið fram að atvinnuleitandi þurfi að vera fær til flestra almennra starfa og hafa heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum.

Í máli kæranda liggi fyrir að hún hafi verið stödd erlendis frá X maí 2015 til X nóvember 2015 og fengið greiddar atvinnuleysisbætur á sama tíma. Einnig komi fram í gögnum málsins og athugasemdum kæranda að hún hafi orðið veik á tímabilinu og þurft að dvelja á sjúkrahúsi erlendis. Þar sem kærandi hafi verið óvinnufær og stödd erlendis á umræddum tíma hafi hún ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi því ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga frá X maí 2015 til X nóvember 2015. Kærandi hafi því fengið greiddar atvinnuleysisbætur án þess að eiga rétt til þeirra og hafi Vinnumálastofnun tekið þá ákvörðun að krefja kæranda um endurgreiðslu á þeim ofgreiddu atvinnuleysisbótum sem hún hafi fengið á tímabilinu. Sú ákvörðun hafi grundvallast á 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Á umræddu tímabili hafi kærandi fengið greiddar 741.987 kr. í atvinnuleysisbætur. Þar sem hún hafi ekki uppfyllt almenn skilyrði til greiðslu atvinnuleysisbóta beri henni að endurgreiða alla þá upphæð í samræmi við 39. gr. laga nr. 54/2006.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar að fjárhæð 741.987 kr.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera búsettur og staddur hér á landi, sbr. c-liður 1. mgr. 13. gr. Þá kemur fram í b-lið 1. mgr. 14. gr. laganna að launamaður þurfi að hafa heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum til þess að teljast vera í virkri atvinnuleit.

Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt viðkomandi samkvæmt lögunum. Þá kemur fram í 2. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar.

Óumdeilt er að kærandi var stödd erlendis á tímabilinu X maí 2015 til X nóvember 2015 og var óvinnufær. Einnig er óumdeilt að kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki fyrir fram um dvöl sína erlendis. Kærandi uppfyllti því ekki skilyrði þess að vera tryggð samkvæmt lögum nr. 54/2006 á framangreindu tímabili og átti því ekki rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun.  

Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Kæranda ber því, með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt fortakslausu ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna, að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og því er ekki ágreiningur um það atriði. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. desember 2015, í máli A um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 741.987 kr. er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum