Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 381/2018 - Úrskurður

Endurhæfingarlífeyrir

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 381/2018

Miðvikudaginn 30. janúar 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 29. október 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. október 2018, um upphafstíma endurhæfingarlífeyris.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænum umsóknum, mótteknum 21. júlí og 1. ágúst 2018. Tryggingastofnun ríkisins synjaði báðum umsóknum kæranda með bréfum, dags. 31. júlí 2018 og 9. ágúst 2018. Kærandi sótti í þriðja skiptið um endurhæfingarlífeyri með framlagningu nýrrar áætlunar, dags. 17. ágúst 2018. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. september 2018, var umsókn kæranda samþykkt frá X 2018 til X 2019. Með tölvupósti 1. október 2018 sótti kærandi um afturvirkar greiðslur frá X 2018. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. október 2018, var kæranda synjað um breytingu á upphafstíma greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. október 2018. Með bréfi, dags. 30. október 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 19. nóvember 2018, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslna endurhæfingarlífeyris verði breytt og fallist verði á að hann verði X 2018.

Í kæru kemur fram að læknir kæranda hafi metið það svo að vinnugeta hennar væri ekki lengur 100%. Til þess að halda sambandi við vinnumarkaðinn hafi kærandi því minnkað starfshlutfall sitt í X% en hún hafi einnig viljað sækja endurhæfingu á öllum þeim stöðum sem völ hafi verið á til þess að ná bata. Fyrsta skrefið hafi verið að minnka álag á líkamann með minni vinnu og verkjastillingu svo að hún yrði ekki kvalin allan daginn.

Heimilislæknir kæranda til margra ára hafi gert með henni endurhæfingaráætlun þar sem á mörgum stöðum hafi verið biðlistar eftir endurhæfingu. Ákveðið hafi verið að þær skyldu hittast einu sinni til tvisvar í mánuði og taka stöðuna hvað líkamlega verki varðaði. Kærandi hafi einnig verið hjá geðlækni og hafi verið áætluð samvinna með honum. Varðandi hreyfingu þá geti kærandi áfram stundað sund og léttar gönguferðir. Kærandi hafi einnig sótt um viðbótarúrræði hjá VIRK en þá hafi verið X vikna bið eftir að komast að hjá þeim. Kærandi hafi fengið synjun á umsókn um endurhæfingarlífeyri á þeim forsendum að þetta væru ekki endurhæfingarúrræði. Kærandi hafi sótt aftur um og bætt við undirritaðri staðfestingu frá VIRK um að hún væri á biðlista hjá þeim en henni hafi aftur verið synjað.

Í kjölfarið hafi kærandi leitað til félagsráðgjafa hjá B til að fá aðstoð og ráð sem hún hafi fengið og þá hafi henni verið boðið að koma einu sinni í mánuði til þess að spjalla og taka stöðuna, enda mikil streita og erfiðleikar í lífi kæranda. Félagsráðgjafinn hafi gert nýja endurhæfingaráætlun, en í henni hafi eftirfarandi verið tilgreint: Heimilislæknir, geðlæknir, félagsfræðingur, sund og ganga ásamt staðfestingu frá C lækni þar sem hún hafi kannað möguleika á að [...]. Einnig hafi komið fram að ekki væri enn laust hjá VIRK. Þessari umsókn hafi einnig verið hafnað á þeim forsendum að þessi úrræði væru ekki endurhæfing. Kærandi hafi komist að hjá VIRK í byrjun X og hafi hún þá sótt aftur um endurhæfingarlífeyri og hafði fulltrúi hennar hjá VIRK bætt við sjúkraþjálfun og sálfræðingi í endurhæfingaráætlunina. Þessi áætlun hafi verið samþykkt en einungis frá X 2018 þó svo að upphaf endurhæfingarinnar hafi verið X 2018. Frá þeim tíma hafi kærandi sinnt allri endurhæfingu samviskusamlega. Vísar kærandi í meðfylgjandi gögn frá meðferðaraðilum.

Kærandi líti svo á endurhæfing hennar hafi byrjað í X og því eigi hún að fá greiddan endurhæfingarlífeyri fyrir X. Kærandi hafi sent aftur til Tryggingastofnunar gögn þar sem allir aðilar hafi staðfest að hún hafi verið að sinna endurhæfingu frá því að hún minnkaði við sig vinnu en samt telji Tryggingastofnun það ekki nóg.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingarstofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um upphafstíma greiðslna endurhæfingarlífeyris.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum, og kveðið á um skilyrði sem uppfylla þarf til að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða umsækjanda endurhæfingarlífeyri Lagagreinin sé svohljóðandi:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.

Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um hvaða aðila skuli falið að annast gerð endurhæfingaráætlunar.“

Þá segi í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar að réttur til bóta skuli miðast við daginn sem umsækjandi teljist uppfylla skilyrðin til bótanna og þá miðist greiðslur til greiðsluþegans við fyrsta dag næsta mánaðar eftir að öll nauðsynleg gögn til mats hafi skilað sér til Tryggingastofnunar.

Við mat á umsókn um endurhæfingarlífeyri þann 17. október 2018 hafi legið fyrir tölvupóstur kæranda frá X 2018 þar sem farið hafi verið fram á endurhæfingarlífeyri fyrir X 2018. Þá hafi fylgt með tölvupóstur læknis frá X 2018, tölvupóstur félagsráðgjafa B frá X 2018, staðfesting frá ráðgjafa VIRK, dags. X 2018, og afrit af tveimur endurhæfingaráætlunum, annars vegar frá 18. júlí 2018 fyrir tímabilið X 2018 til X 2018 og hins vegar frá 17. ágúst 2018 fyrir tímabilið X 2018 til X 2018. Báðum þessum endurhæfingaráætlunum hafi verið synjað.

Í læknisvottorði D, dags. X 2018, komi fram að umsækjandi sé með ADHD, kvíða og verki. Mikið álag sé vegna veikinda í fjölskyldu. [...] hái kæranda og þá eigi hún erfitt með að hreyfa sig mikið þar sem hún fái þá verki. Hún sé metin óvinnufær frá X 2018.

Fyrir liggi þrjár endurhæfingaráætlanir með fylgigögnum og tölvupóstum og einn tölvupóstur frá kæranda með beiðni um greiðslur fyrir tímabil sem áður hafi verið synjað.

Í fyrstu áætlun frá lækni, dags. 18. júlí 2018, hafi verið sótt um tímabilið X 2018 til X 2018. Í þeirri áætlun hafi verið lagt upp með eftirfarandi endurhæfingarþætti: Viðtöl við geðlækni einu sinni til tvisvar í mánuði, viðtal við heimilislækni mánaðarlega, sálfræðiviðtöl í gegnum VIRK „vonandi“, sjúkraþjálfun í gegnum VIRK „vonandi“. Beiðni hafi verið send á VIRK. Líkamsræktarúrræði í gegnum VIRK tvisvar í viku til að byrja með, sund á eigin vegum tvisvar í viku og þá hafi kærandi verið í X% vinnu. Þessari áætlun hafi verið synjað 31. júlí 2018 þar sem virk starfsendurhæfing hafi ekki verið talin hafin.

Í annarri endurhæfingaráætlun, sem sé sama áætlun og hafi verið synjað þann 31. júlí 2018, hafi verið viðbót frá heimilislækni þar sem hann hafi staðfest lið 2 í áætlun um mánaðarleg viðtöl við heimilislækni. Þrír tölvupóstar frá kæranda hafi einnig legið fyrir frá X 2018. Í fyrsta tölvupóstinum sé staðfesting frá VIRK um að beiðni hafi borist fyrir kæranda til VIRK. Ekki hafi verið tekin afstaða til starfsendurhæfingar þar sem beiðnin bíði afgreiðslu. Í öðrum tölvupósti hafi verið staðfesting frá geðlækni þess efnis að kærandi hafi verið í viðtölum hjá honum frá árinu X og hafi síðast komið á stofu X 2018 og eigi næst bókaðan tíma X 2018. Í þriðja tölvupóstinum hafi kærandi ítrekað þau gögn sem hafi legið fyrir og beðið um að málið yrði opnað aftur og endurmetið. Þessari áætlun hafi einnig verið synjað 9. ágúst 2018 þar sem það var metið svo að nýjar upplýsingar gæfu ekki tilefni til breytinga á fyrra mati.

Þriðja áætlunin sé frá félagsráðgjafa B, dags. 17. ágúst 2018. Sótt hafi verið um tímabilið X 2018 til X 2018. Í þeirri áætlun hafi verið lagt upp með viðtöl við geðlækni einu sinni til tvisvar í mánuði, viðtöl við heimilislækni einu sinni í mánuði, reglulega hreyfingu, þ.e. sund tvisvar í viku, X% vinnu og viðtöl við félagsráðgjafa einu sinni í mánuði. Það sem hafi bæst við frá fyrri áætlun hafi verið mánaðarleg viðtöl við félagsráðgjafa. Endurhæfingarúrræði á vegum VIRK hafi ekki verið hafin. Tölvupóstur hafi borist frá ráðgjafa VIRK þann X 2018 um að kærandi myndi hefja endurhæfingu hjá VIRK X 2018. Kæranda hafi því verið sent bréf, dags. X 2018, þar sem óskað hafi verið eftir endurhæfingaráætlun frá VIRK.

Fjórða endurhæfingaráætlunin hafi verið frá VIRK, móttekin 18. september 2018, fyrir tímabilið frá X 2018 til X 2019. Eftirfarandi endurhæfingarúrræði hafi verið tilgreind: Fimm tímar hjá sjúkraþjálfara, líkamsrækt þrisvar í viku með stuðningi sjúkraþjálfara í þrjá mánuði að minnsta kosti, viðtöl hjá geðlækni einu sinni til tvisvar í mánuði, átta sálfræðiviðtöl, viðtöl við félagsráðgjafa einu sinni í mánuði og vinna í X% starfshlutfalli. Einnig komi fram í áætluninni að kærandi hafi átt að fara í [aðgerð] X 2018 og í framhaldinu yrði mánaðarlegt eftirlit í um það bil ár. Eftir aðgerð muni kærandi þurfa að draga úr hreyfingu í um eina viku. Endurhæfingarmat hafi verið frá X 2018 til X 2018.

Í framhaldi síðustu áætlunar hafi borist tölvupóstur frá kæranda X 2018 þar sem óskað hafi verið eftir afturvirkum greiðslum fyrir X 2018. Fylgigögn tölvupósts kæranda hafi verið eftirfarandi:

„1. Staðfesting frá geðlækni dags. - kærandi hefur verið í reglulegri meðferð og eftirliti hjá geðlækni undanfarin ár. Kærandi er í endurhæfingarvinnu og hefur verið undanfarna mánuði. Á tímabilinu X 2018 – X 2019 mætti hún í viðtal X og átti næst tíma í X.

2. Staðfesting frá félagsráðgjafa B – kærandi kom í mánaðarleg viðtöl og mætti X 2018 og X 2018.

3. Staðfesting frá ráðgjafa VIRK - kærandi kom í fyrsta viðtal X 2018 og er sagt að það sé í beinu framhaldi af fyrri endurhæfingu sem hófst X en var synjað. 

4. Afrit af endurhæfingaráætlunum sem hafði áður verið synjað.“

Kæranda hafi þann 17. október 2018 verið synjað um endurhæfingarlífeyri fyrir mánuðina X. Ekki hafi þótt rök til að meta afturvirkar greiðslur þar sem starfsendurhæfing hafi ekki verið talin hafin fyrr en í X og hafi því matið verið frá fyrsta degi næsta mánaðar, sbr.1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar, eða frá X 2018.

Eins og rakið hafi verið hér að framan þá þurfi kærandi að stunda endurhæfingu með starfshæfni að markmiði til að uppfylla skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris. Óvinnufærni ein og sér veiti ekki rétt til greiðslna endurhæfingarlífeyris. Endurhæfingarlífeyrir hjá Tryggingastofnun taki þannig mið af því tímabili sem viðkomandi taki þátt í skipulagðri endurhæfingu með utanumhaldi fagaðila þar sem áhersla sé lögð á endurkomu á vinnumarkað. Jafnframt skuli endurhæfingaráætlun miða að því að taka á vanda kæranda hverju sinni og innihalda endurhæfingarþætti sem séu til þess fallnir að styðja við þá nálgun. Í máli kæranda hafi endurhæfingin ekki verið talin hafin fyrr en í X og því hafi verið miðað við næstu mánaðamót þar á eftir, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar. Á þeim forsendum hafi kæranda verið synjað um afturvirkar greiðslur endurhæfingarlífeyris.

Að lokum telji Tryggingastofnun ljóst að stofnunin hafi afgreitt umsókn kæranda í samræmi við innsendar endurhæfingaráætlanir, lög um félagslega aðstoð, lög um almannatryggingar og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga. 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma endurhæfingarlífeyris kæranda.

Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er kveðið á um skilyrði sem uppfylla þarf til að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða umsækjanda endurhæfingarlífeyri. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Slík reglugerð hefur ekki verið sett.

Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur Tryggingastofnun ríkisins eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kemur fram að réttur til bóta stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og bætur skuli reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi.

Í málinu liggur fyrir staðfesting frá E í tölvupósti frá X 2018 um að kærandi hafi verið í viðtölum hjá F geðlækni frá árinu X og hafi síðast komið á stofu til hans X 2018. Einnig liggur fyrir staðfesting frá F geðlækni í tölvupósti X 2018 og þar segir meðal annars:

„Hún hefur mætt [v]el og samviskusamlega í viðtalstíma og kom síðast til mín þann X 2018 og á síðan tíma næst í X.“

Fyrir liggur einnig staðfesting á viðtölum við kæranda í tölvupósti frá X 2018 frá G, félagsráðgjafa hjá B. Fram kemur að kærandi hafi mætt í viðtöl X og X 2018 og að fyrirhugað sé að næsta viðtal verði að mánuði liðnum. Þá liggur fyrir staðfesting um X% starfshlutfall kæranda frá vinnuveitanda hennar í tölvupósti frá X 2018.

Í endurhæfingaráætlun D læknis, dags. 18. júlí 2018, kemur fram að tímabil starfsendurhæfingar sé frá X 2018 til X 2018 og að endurhæfingaráætlun samanstandi af eftirfarandi þáttum:

„1. [V]iðtöl geðlæk[n]is 1-2x í mánuði. 2. Viðtal heimilislæknis mánaðarlega. 3. [S]álfræðiviðtöl í gegnum VIRK vonandi. 4. [S]júkraþjálfun í gegnum VIRK vonandi. Beiðni send í VIRK. 4. Líkamsræktarúrræði í gegnum VIRK tvisvar í viku til að byrja með. 5. Sund á eigin vegum 2svar í viku.“

Í endurhæfingaráætlun G félagsráðgjafa, dags. 17. ágúst 2018, kemur fram að tímabil starfsendurhæfingar sé frá X 2018 til X 2018, og að endurhæfingin felist í X% vinnu, sundi tvisvar sinnum í viku auk reglulegra viðtala við geðlækni, heimilislækni og við G sjálfa.

Fyrir liggur endurhæfingaráætlun frá VIRK, móttekin 18. september 2018, þar sem fram kemur að kærandi hafi byrjað í þjónustu VIRK þann X 2018 og áætlað tímabil sé til X 2019. Í áætlun um endurhæfingu kæranda segir að markmið endurhæfingarinnar sé að stefna á fulla atvinnuþátttöku X 2019. Samkvæmt bréfi frá VIRK, dags. X 2018, kemur fram að kærandi hafi byrjað endurhæfingu hjá VIRK með fyrsta viðtali X 2018. Í bréfinu segir einnig meðal annars: „Endurhæfing Virk er í beinu framhaldi af fyrri endurhæfingu sem hófst X.“

Í framangreindri endurhæfingaráætlun frá VIRK kemur fram að áætlunin varðandi líkamlega þætti kæranda samanstandi af eftirfarandi úrræðum:

1. Líkamsrækt með stuðningi sjúkraþjálfara, X mánuðir og mæting minnst þrisvar í viku. Kort í ræktina fylgir með. Bæta við fjórða deginum þegar treystir sér til þess.

2. Sjúkraþjálfun fimm tíma og greinargerð. Vinna með vanda í mjóbaki sem hefur áhrif út í fætur.

3. Fer í [aðgerð] X og síðan [...] eftirlit í u.þ.b. X ár. Þarf að draga sig úr hreyfingu í um eina viku á eftir fyrsta inn inngrip en einn dag í endurkomu.

4. Göngur, sund og önnur hreyfing daglega.

Varðandi andlega þætti kæranda samanstendur endurhæfingaráætlunin af eftirfarandi úrræðum:

1. Viðtöl hjá F geðlækni einu til tvisvar sinnum í mánuði.

2. Regluleg viðtöl hjá D heimilislækni uþb. einu sinni í mánuði.

3. Viðtöl einu sinni í mánuði hjá G félagsráðgjafa.

4. Átta viðtöl hjá sálfræðingi á vegum Virk. Fá greinargerð að þeim loknum og meta þá framhaldið.

5. Sálfræðilegt námskeið eins og t.d. núvitund á tímabilinu en þó í samráði við sálfræðing.

Varðandi atvinnuþátttöku kæranda samanstendur endurhæfingaráætlunin af eftirfarandi úrræðum:

1. Er í X% starfshlutfalli í [...] með möguleika á að bæta við sig. Stefnt á að auka í X% á tímabilinu.

2. Áhugahvetjandi viðtöl hjá ráðgjafa.

Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort kærandi eigi rétt á greiðslum endurhæfingarlífeyris vegna X 2018. Tryggingastofnun ríkisins telur að skilyrði endurhæfingarlífeyris hafi ekki verið uppfyllt fyrr en í X 2018 þar sem ekki hafi verið um virka endurhæfingu að ræða fyrir þann tíma og kærandi eigi því rétt á greiðslum frá X 2018. Kærandi byggir á því að hún hafi ekki komist fyrr að hjá VIRK en að hún hafi í samvinnu við heimilislækni, geðlækni og félagsráðgjafa stundað sannarlega endurhæfingu fram að þeim tíma sem VIRK hafi tekið við endurhæfingu hennar og því eigi hún rétt á greiðslum fyrir framangreint tímabil.

Við mat á upphafstíma greiðslu endurhæfingarlífeyris lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess að skýrt er kveðið á um það í 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð að endurhæfingarlífeyrir greiðist á grundvelli endurhæfingaráætlunar og tekur mið af því tímabili sem viðkomandi tekur þátt í skipulagðri endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Það liggur fyrir að kærandi glímir við líkamlega og andlega erfiðleika og telur úrskurðarnefnd að formleg endurhæfing hafi ekki hafist fyrr en í X 2018. Að mati úrskurðarnefndar uppfyllti kærandi því ekki skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris fyrr en X 2018 sem var fyrsti dagur næsta mánaðar eftir að endurhæfing hófst, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð og 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma endurhæfingarlífeyris kæranda.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma endurhæfingarlífeyris A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira