Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 496/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 496/2016

Mánudaginn 24. apríl 2017

A og B

gegn

C

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með kæru 22. desember 2016 kærði D hrl., fyrir hönd A og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð C frá 6. desember 2016. Kærð er ákvörðun C um að beita einhliða málsmeðferð í máli þriggja [barna] kærenda á grundvelli 26. gr. barnaverndarlaga. Er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

C fer með störf Barnaverndarnefndar í E en starfsmenn C gegna störfum barnaverndarstarfsmanna á grundvelli þeirra reglna sem þar gilda. Með samkomulagi C við Barnaverndarnefnd G og Barnaverndarnefnd H var ákveðið að C færi áfram með málið þrátt fyrir flutning fjölskyldunnar eða lögheimilis hennar til þessara umdæma á árinu 2016.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eiga saman [þrjú börn], J [fætt] X, K [fætt] X og L fætt í X. Mál [barnanna] kom fyrst til kasta barnaverndar árið 2014 en þá barst ein barnaverndartilkynning vegna [elsta barns] kærenda. Árið 2015 barst aftur tilkynning en þá voru [börn] kærenda [orðin tvö]. Annars vegar var um að ræða tilkynningu vegna heimilisofbeldis og hins vegar vegna gruns um fíkniefnaneyslu á heimilinu.

Á árinu 2016 bárust barnavernd sjö tilkynningar vegna [barna] kærenda. Fyrsta tilkynningin barst X 2016. Tilkynnandi óskaði nafnleyndar. Tilkynningin varðaði vanrækslu varðandi umsjón og eftirlit J og K og grun um áfengis- og fíkniefnaneyslu kærenda á heimilinu.

Á teymisfundi barnaverndar daginn eftir, X, var ákveðið að hefja könnun máls samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002 (bvl.). Kærendum var ritað bréf vegna þessa og hringt í þau en aðeins náðist í kæranda B símleiðis. Kæranda A var sendur tölvupóstur. Aðspurð um dvalarstað [barnanna] svaraði kærandi A að [þau] væru í sinni umsjá hjá ömmu kærandans í H. Kærandi A gaf ekki upp heimilisfang og kvaðst eingöngu koma með [börnin] […] til að tæma húsið en [þau] væru að leita að nýju húsnæði. Sama dag, X mars 2016, hafði barnavernd samband við leikskóla J, M, og óskaði upplýsinga um hvort [barnið] hefði sótt skólann undanfarnar þrjár vikur. Í svari leikskólans kom fram að kærandi A hefði sótt [barnið] á leikskólann X mars 2016 X og tilkynnt að [þau] væru að fara til H. [Barnið] hefði ekki mætt í leikskólann síðan og ekki hafi verið tilkynnt um frí eða veikindi. Það hefði ekki verið venjan að leikskólinn væri látinn vita ef [barnið] væri [veikt] eða í fríi.

Barnavernd óskaði eftir fundi með kærendum X mars 2016 en kærendur óskuðu eftir því að fundinum yrði frestað.

Önnur tilkynning vegna [barnanna] barst X. apríl 2016 og varðaði sama tilkynningarefni og fyrri tilkynning. Tilkynnandi, sem óskaði nafnleyndar, hafði áhyggjur af velferð barnanna vegna ölvunar og háreysti frá heimili kærenda. Á teymisfundi barnaverndar X apríl 2016X var ákveðið að taka tilkynninguna inn í barnaverndarmálið sem þegar hafði verið opnað. Þá var ákveðið að láta kærendur og lögmann þeirra vita um nýja tilkynningu.

Barnavernd óskaði eftir því að kærendur kæmu til fundar X apríl 2016 en kærendur afboðuðu sig daginn áður. Þá var óskað eftir því að þau kæmu til fundar X apríl en kærendur svöruðu ekki fundarboði.

Í þrjú skipti voru gerðar kannanir samkvæmt bvl. og lagðar fram niðurstöður könnunar í málinu. Fyrsta könnunin var vegna tímabilsins X mars til X apríl 2016 á grundvelli fyrrnefndra tilkynninga. Niðurstöður könnunarinnar voru meðal annars þær að með vísan til fyrri málasögu og afskipta barnaverndar teldi barnaverndin að umsjón og eftirliti [barnanna] væri ábótavant vegna gruns um neyslu áfengis og/eða fíkniefna á heimili þeirra og vegna óþrifnaðar á heimilinu, sbr. upplýsingar sem komið hefðu fram við könnun. Þá virtist ekki vera farið að öllum leiðbeiningum heilsugæslu í umönnun [barnanna]. Tekið var fram að erfitt hefði reynst að koma á fundi með kærendum og lögmanni þeirra en vonir stæðu til að sá fundur gæti orðið X maí 2016. Ráðgert hafði verið að leggja fyrir niðurstöður könnunar ásamt áætlun um meðferð máls á fundinum. Samkvæmt þeirri áætlun skyldu kærendur meðal annars samþykkja að sækja ráðgjöf hjá viðurkenndum áfengisráðgjafa, kærendur skyldu hvorki neyta áfengis né fíkniefna á tímabili meðferðaráætlunar, þau skyldu samþykkja óboðaðar heimsóknir barnaverndar á heimili barnanna og að kærendur myndu undirgangast fíkniefnapróf þegar og ef barnavernd óskaði þess. Tímabil áætlunar skyldi vera 2 mánuðir eða frá X maí til X júlí 2016. Kærendur afboðuðu sig á fundinn X maí 2016 en barnavernd átti símafund með lögmanni þeirra.

Í þriðja skiptið barst tilkynning vegna [barna] kærenda og nú frá lögreglunni í E X maí 2016. Tilkynningin var vegna gruns um áfengis-/vímuefnanotkun kærenda og heimilisofbeldi. Fjórða tilkynningin barst frá lögreglu á N þX maí 2016. Tildrögin voru samkvæmt dagbók lögreglunnar á N þau að óskað var eftir aðstoð lögreglu að O í G. Þegar lögreglan kom á staðinn hitti hún þar fyrir konur er greindu frá því að kærandi A væri í húsinu, hún byggi við andlegt og líkamlegt ofbeldi en búið væri að ganga í skrokk á henni. X ung börn kæranda A væru inni í húsinu og hefðu þau orðið vitni að ofbeldinu. Lögregla ræddi við húsráðanda sem vildi ekki hleypa lögreglumönnum inn. Húsráðandinn kannaðist í fyrstu ekki við að nein A væri í húsinu en eftir þras og viðræður sótti hann konu sem reyndist vera kærandi A. Lögregla ræddi við hana í gegnum eldhúsglugga þar sem hún vildi ekki ræða við lögreglu í anddyri hússins. Engir áverkar sáust á kæranda A í gegnum gluggann og hún vildi enga aðstoð fá frá lögreglu. Kærandi A kvaðst ekki hafa verið beitt ofbeldi og sagði börn sín ekki vera þarna heldur hjá móður sinni á P. Lögregla hafði samband við móður kæranda A sem sagðist ekki vera með börnin. Hún taldi að kærandi A væri með kæranda B í G og börnin væru hjá þeim.

Teymisfundur var haldinn í barnavernd vegna málsins X maí 2016. Ákveðið var að boða kærendur til viðtals og kynna þeim efni nýrra tilkynninga. Hinn X maí 2016 var staðfest að kærandi A hefði flutt lögheimili sitt og barnanna að O í G. Að sögn húsráðanda þar ætluðu kærendur þó ekki að setjast þar að.

Barnavernd óskaði eftir að kærendur kæmu til fundar X maí 2016 en þau brugðust ekki við fundarboði. Beiðni um fund var ítrekuð X maí 2016 án viðbragða frá kærendum.

Barnavernd ritaði lögmanni kærenda bréf X maí 2016. Þar kom fram að barnaverndin ítrekaði enn ósk sína um að kærendur yrðu til samvinnu við meðferð barnaverndarmálanna. Síðan segir: „Í þessum barnaverndarmálum sem öðrum er meginmarkmið barnaverndarstarfs að tryggja góðan aðbúnað, uppeldisskilyrði, líðan, öryggi og aðstæður barna og í því skyni að leita leiða til að styrkja foreldra í mikilvægu hlutverki þeirra við umönnun barna sinna. Eins og barnavernd hefur á sl. dögum bent á í tölvvubréfum til lögmanns og móður [barnanna] þá hafa sl. daga. – auk fyrirliggjandi niðurstöðu könnunar barnaverndarmálanna sem og áætlunar um meðferð málana um úrbætur, - ný gögn borist barnavernd E sem renna enn styrkari stoðum undir niðurstöðu barnaverndar að úrbóta sé þörf í aðstæðum og aðbúnaði [barnanna]. Þessar forsendur ásamt staðfestum upplýsingum um að dvalarstaður [barnanna] verði ekki sá sami og nýskráð lögheimili þeirra sýna brýna nauðsyn á samvinnu foreldra við barnavernd E um úrbætur...Það er því einlæg von barnaverndar E að foreldrar [barnanna] sjái hag þeirra og fjölskyldunnar allrar best borgið með samvinnu við barnaverndaryfirvöld og þátttöku í áætlun um meðferð málanna um úrbætur til handa [börnum] sínum.“

Í framhaldi af þessu var gerð önnur könnun og nú vegna tímabilsins X mars 2016 til X júní 2016. Þar kom fram að kærendur hefðu hafnað öllu samstarfi við barnavernd og þeim tillögum sem barnavernd hefði komið með til úrbóta. Fjölskyldan byggi á heimili föðurforeldra á P þar til þau fengju húsnæði á leigu. Starfsmenn barnaverndar teldu börnin ekki í hættu á núverandi dvalarstað en óvissa ríkti um framhaldið. Því væru ekki forsendur til að ljúka málinu. Ákveðið var að gera nýja meðferðaráætlun.

Þann X júní 2016 barst lögreglu á Q fimmta tilkynningin. Tilkynnandi kvaðst hafa miklar áhyggjur af ástandinu hjá fjölskyldu kærenda vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu. Sama dag mættu kærendur í fyrsta skipti til fundar hjá barnavernd.

Sjötta tilkynningin vegna barna kærenda barst frá heilsugæslustöð X ágúst 2016vegna ófædds barns kærenda. Kom þar fram að uppi væru áhyggjur af kæranda A sem ætti von á sínu X barni en hefði ekki mætt í mæðraeftirlit. Þá hefði hún ekki mætt með [yngra barn sitt] í reglubundið barnaeftirlit. Erfiðlega hefði gengið að ná símasambandi við kæranda A.

Þriðja könnunin í málinu tók til tímabilsins X ágúst 2016 til X september 2016. Niðurstaðan var sú að staðfest hefði verið líkamleg vanræksla og vanræksla varðandi umsjón og eftirlit barna. Kærendur hefðu mætt stopult með [eldra barn sitt] í reglubundnar skoðanir og ungbarnaeftirlit með [yngra barnið]. Þá hefði kærandi A vanrækt að mæta í mæðraeftirlit þrátt fyrir að vera gengin rúmlega 20 vikur. Saga gruns um vímuefnanotkun og heilsufar kæranda A ylli heilbrigðisstarfsfólki áhyggjum. Teldist það æskilegt að mæta í reglubundnar skoðanir og tólf vikna sónar til þess að ganga úr skugga um að allt væri eðlilegt til þess að tryggja öryggi móður og barns. Þá gæfu ný gögn frá lögreglu tilefni til að ætla að aðstæður á heimili væru ekki ákjósanlegar fyrir börn. Renndi niðurstaðan enn frekari stoðum undir fyrri niðurstöður um að nauðsynlegt væri að veita kærendum aðstoð og stuðning til þess að bæta stöðu sína.

Áætlun var gerð um meðferð máls fyrir tímabilið X nóvember 2016 til X mars 2016 . Var hún samhljóða fyrri áætlun að því viðbættu að þar kom fram að kærendur skyldu sinna samvinnu við starfsmenn máls, tryggja öryggi barnanna þannig að í návist þeirra væri neysla áfengis og vímuefna ekki viðhöfð, þau yrðu vandlát á aðila sem þau umgengjust eða byðu inn á heimili sitt, börnunum væru tryggð viðunandi uppeldisskilyrði og aðbúnaður, kærendur færu með börn sín í reglubundnar skoðanir á heilsugæslu og kærandi A mætti í mæðravernd.

Í september 2016 barst barnavernd sjöunda tilkynningin og þessu sinni frá lögreglunni á Q. Tilkynningin var vegna atviks sem átti sér stað X apríl 2016 en hafði fyrir mistök ekki verið send barnavernd á þeim tíma. Lögreglu hafði verið tilkynnt að á heimili kærenda væri mikil fíkniefnaneysla og hefði svo verið um langt skeið. Mikla kannabislykt væri gjarnan að finna af kæranda B.

Í september 2016 barst barnavernd hjúkrunarbréf frá Heilbrigðisstofnun Q þar sem fram kom að [yngra barn] kærenda hefði komið í skoðanir í júní og ágúst. [Barnið] dafnaði vel og væri „á pari“ með bólusetningar. Einnig kemur fram í bréfinu að kærandi A hefði hringt X ágúst og kvartað undan samstarfi heilbrigðisstofnunarinnar við félagsþjónustu. Í öðru hjúkrunarbréfi sama dag kemur fram að kærendur hefðu komið með [eldra barn sitt] í tveggja og hálfs árs skoðun X júní 2016.

Óskað var eftir því að kærendur kæmu til fundar við barnavernd X september 2016 en þau komu ekki. Þau voru þá boðuð á fund X september 2016 sem þau mættu á. Á fundinum var farið yfir framlagða meðferðaráætlun. Kærendur gerðu athugasemdir við flest ákvæði hennar og öll stuðningsúrræði. Meðal annars voru þau andstæð ákvæði um að þau hættu allri áfengis- og vímuefnaneyslu þar sem þau ættu ekki við slíkan vanda að stríða, ákvæði um að þau væru vandlát á þá sem þau byðu inn á heimili sitt þar sem barnavernd gæti ekki haft afskipti af því, ákvæði um að þau undirgengjust fíkniefnapróf og að þau færu með börnin í reglubundnar skoðanir á heilsugæslu en þau kváðust mæta í þessar skoðanir. Einnig mótmæltu þau ákvæði um að kærandi A mætti í mæðravernd þar sem hún kvaðst hafa mætt. Þá gerðu þau athugasemdir við tilkynningu frá lögreglunni á N og kváðu hana tilefnislausa.

Í bréfi Landspítala til barnaverndar X október 2016 kemur fram að kærandi A hafi mætt til mæðraverndar X október 2016 . Það hafi verið í fyrsta sinn sem kærandinn hafi mætt í bókaðan tíma í mæðravernd á tilsettum tíma.

Enn voru kærendur boðuð á fund hjá barnavernd og að þessu sinni X október 2016 . Þau mættu ekki á fundinn.

Í bréfi Landspítala X nóvember 2016 kemur fram að kærandi A hafi komið á spítalann frá P vegna yfirvofandi fyrirburafæðingar. Kærandi B hafi komið fljótlega og virst undir áhrifum áfengis.

Í bréfi Landspítala X desember 2016 kemur fram að þriðja [barn] kærenda hafi fæðst eftir X vikna meðgöngu. [Það] hafi dvalist á vökudeild frá fæðingu. Viðvera foreldra hafi verið með minna móti en kærandi A hafi komið í um 6 klukkustundir (2 gjafir á dag). Eftir að rætt hefði verið við kærendur hafi þau aukið viðveru og komi nú í þrjár til fjórar gjafir á dag. Kærandi A sinni barninu af alúð og natni. Kærandi B komi sjaldnar en sinni barninu vel þegar hann komi.

Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp 6. desember 2016. Þar kemur fram að starfsmenn málsins hafi kynnt kærendum niðurstöður kannana í málinu, áætlanir til úrbóta og málsmeðferðaráætlanir varðandi börnin á skrifstofu barnaverndar X september 2016. Á þeim fundi hafi kærendur samþykkt að mæta til annars fundar með starfsmönnum X október 2016 en ekki mætt. Því hafi kærendur verið boðuð til nýs fundar X október 2016 en hafi heldur ekki mætt. Símasamband hafi verið haft við kæranda A sem reynst hafi á sjúkrahúsi og því ekki komist á fund. Starfsmenn hafi þá óskað eftir því að kærandi B mætti á fund eða hefði samband en hann hafi ekki gert það. Símasamband hafi náðst við kæranda B X október 2016 og hafi starfsmaður óskað eftir samstarfi kærenda í meðferðaráætlun vegna barnaverndarmála [barnanna]. Kærandi B hefði upplýst að hann vildi hvorki samþykkja meðferðaráætlun né koma til fundar. Honum hefði þá verið kynnt sú ákvörðun barnaverndarstarfsmanna að ef kærendur samþykktu ekki fyrirliggjandi meðferðaráætlun er varðaði öll börn þeirra, teldu starfsmenn sig knúna til að óska heimildar C til að gera einhliða áætlun um meðferð máls. Starfsmaður hafi greint kæranda A frá rétti kærenda til að koma á næsta fund nefndarinnar X október 2016 og gera þar grein fyrir sjónarmiðum sínum. Starfsmenn hafi sent kæranda A málsmeðferðaráætlanir með tölvupósti sama dag, X október 2016. Hún hafi svarað tölvupóstinum daginn eftir, hafnað samstarfi við barnaverndarstarfsmenn og upplýst að hún myndi ekki samþykkja meðferðaráætlanir. Fundi nefndarinnar hafi því verið frestað til X október 2016 og kærendum tilkynnt um nýjan fundardag. Kærandi B hafi mætt á fundinn X október 2016, gert grein fyrir sjónarmiðum kærenda og lagt fram gögn sem hann hafði aflað frá leikskóla og heilbrigðisstofnun. Um hafi verið að ræða gögn er lýstu góðri líðan J á leikskóla og ágætri heilsufarsstöðu J og K.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að þar sem kærendur hafi ítrekað neitað þátttöku í meðferðaráætlun vegna máls [barnanna], auk þess að neita að samþykkja hana, hefði það verið mat barnaverndarstarfsmanna að til þess að tryggja hag, öryggi og aðstæður barnanna yrði að leggja til við C að hún úrskurðaði um beitingu einhliða meðferðaráætlunar samkvæmt 26. gr. bvl.

Með hinum kærða úrskurði var ákveðið að beita einhliða málsmeðferð í barnaverndarmáli barna kærenda og vísað til 26. gr. bvl. Nánar tiltekið voru tilgreind markmið áætlunar, hlutverk kærenda og stuðningsúrræði barnaverndar. Tímabil áætlunar var ákveðið 7. desember 2016 til 7. mars 2017. Þá var bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála.

II. Sjónarmið kærenda og kröfur

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og vísa því til stuðnings til 23. gr. og 1. og 2. mgr. 41. gr. bvl. Einnig krefjast þau þess að C verði gert að greiða þeim styrk vegna meðferðar málsins, bæði fyrir C samkvæmt fyrirliggjandi reikningi lögmanns og vegna rekstrar málsins fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála. Krafa um styrk er studd við 47. gr. bvl.

Kærendur telja að málsmeðferð C hafi brotið gegn skýrum fyrirmælum bvl. Því til stuðnings vísa kærendur til 23. gr. bvl. þar sem segi að þegar mál hafi verið nægilega kannað að mati barnaverndarnefndar skuli hún taka saman greinargerð þar sem lýst sé niðurstöðum könnunar, tiltekið hvaða úrbóta sé þörf og settar fram tillögur að heppilegum úrræðum, sé því að skipta. Fyrir liggi að málið hafi verið opið að minnsta kosti frá því í mars 2016. Málinu hafi á hinn bóginn ekki verið lokið með því að tekin hafi verið saman greinargerð. C hafi nokkrum sinnum boðað kærendur á fundi til skrafs og ráðagerða. Í eitt skipti hafi verið haldinn fundur á skrifstofu lögmanns kærenda þar sem C hafi fengið allar þær upplýsingar sem óskað hafi verið eftir. Síðasti fundur sem haldinn hafi verið um mál kærenda hafi verið X nóvember 2016. Þar hafi kærandi B mætt og lagt fram ýmis gögn sem sýnt hafi fram á að það sem komið hafi fram í tilkynningum til C ætti sér enga stoð. Í kjölfarið hafi mátt ætla að C tæki saman greinargerð í samræmi við fyrirmæli 23. gr. bvl. Það hafi ekki gerst heldur hafi C tekið ákvörðun um einhliða meðferðaráætlun. Þetta sé brot á málsmeðferðarreglum bvl. sem eitt og sér valdi því að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Kærendur telja að C hafi brotið gegn ákvæðum 1. og 2. mgr. 41. gr. bvl. Í 1. mgr. 41. gr. bvl. segi að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Mál þetta sé að engu leyti upplýst í skilningi ákvæðisins. Fyrir liggi að börn kærenda búi við gott atlæti að sögn leikskóla og heilsugæslu og séu við góða heilsu. Ekki sé á nokkurn hátt upplýst að börnin búi við slíkar aðstæður að réttlætt geti inngrip á grundvelli bvl. Hin kærða ákvörðun byggi þó á því að ekki verði litið fram hjá þeim tilkynningum sem fyrir liggi í málinu. Engin tilraun virðist hafa verið gerð til að kanna forsendur tilkynninganna sem séu með öllu rangar. Slíkt athæfi sé refsivert, sbr. 96. gr. bvl. Kærendur telja að ákvörðun í barnaverndarmáli verði ekki byggð á tilkynningum einum. Staðreyna verði eftir atvikum, til dæmis með upplýsingum frá skóla eða heilsugæslu, að þær geti átt sér stoð. Það hafi ekki tekist heldur liggi fyrir upplýsingar um að tilkynningarnar séu rangar. Við þær aðstæður geti stjórnvald ekki tekið ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða.

Í 2. mgr. 41. gr. bvl. komi fram að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og henni skuli hraðað svo sem kostur sé. Ákvörðun um beitingu viðeigandi úrræða skuli að jafnaði liggja fyrir innan þriggja mánaða og eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að ákveðið hafi verið að hefja könnun. Af þessu verði ráðið að heimild til könnunar máls falli niður eftir að liðnir séu fjórir mánuðir frá því könnun hafi hafist. Rökin fyrir þessu séu meðal annars þau að könnun máls sé inngrip í og rask á friðhelgi einkalífs sem ekki geti staðið yfir án takmarkana. Svonefnd könnun máls, sem C hafi staðið fyrir, hafi að minnsta kosti staðið yfir í níu mánuði en líklega lengur. Kærendur telja að C hafi ekki haft heimild til að taka ákvörðun um beitingu einhliða ákvörðunar eftir að liðnir voru fjórir mánuðir frá því að málið hófst.

Að mati kærenda gengur hin kærða ákvörðun allt of langt. Þar sé mælt fyrir um takmarkanir á neyslu þeirra á áfengi og bann við notkun vímuefna. Sé kæranda A raunar bannað að neyta áfengis með öllu. Kærendur gera ekki athugasemdir við að þeim sé bannað að neyta vímuefna, enda neyti þau ekki ólöglegra vímuefna og hafi aldrei gert. Hvorugt kærenda eigi sögu um vandamál tengd neyslu áfengis eða vímuefna. Það er mat kærenda að lagaheimild skv. 26. gr. bvl. bresti til að mæla einhliða fyrir um bann við neyslu áfengis, að minnsta kosti án þess að staðreynt sé að neysla áfengis hafi áhrif á hagsmuni barna viðkomandi, svo sem aðbúnað og umsjón forráðamanna með þeim. Sama gildi um þau fyrirmæli í áætluninni að kærendum beri að vera „vandlátir á aðila sem þau umgangast eða bjóði inn á heimili sitt.“ Með hinni kærðu ákvörðun sé í raun verið að meina kærendum að umgangast ótiltekið fólk. Verði að telja þessi fyrirmæli freklegt brot á friðhelgi einkalífs og heimilis, sem hvorki sé heimilt að mæla fyrir um samkvæmt 26. gr. bvl. né standist 71. gr. stjórnarskrár.

Niðurstaða í málinu byggist eingöngu á tilkynningum. Eftirfarandi tilkynningar liggi fyrir í málinu:

1. Tilkynning X mars 2016. Tilkynnt um neyslu fíkniefna á heimilinu. Kærendur viti ekki hver sé tilkynnandi en mótmæla tilkynningunni. Kærendur hafi farið á Heilbrigðisstofnun Q þannX mars 2016 og gefið fíkniefnaprufu sem hafi verið neikvæð. Vottorð læknis um þetta hafi verið lagt fyrir barnaverndarnefnd. Kærendur hafi ítrekað undirgengist og boðist til að undirgangast prufur en C hafi ekki viljað taka prufur.

2. Tilkynning X apríl 2016 vegna ölvunar og háreysti frá heimili. Tilkynnandi hafi óskað nafnleyndar. Hvorki lögregla né aðrir hafi haft afskipti af kærendum. Kærendur hafni tilkynningu og telja að ef um ölvun og háreysti hefði verið að ræða hefði verið rétt að hringja í lögreglu sem síðan hefði tilkynnt barnavernd. Það hafi ekki verið gert. Kærendur hafi verið hjá vinafólki sínu í R og því geti tilkynningin ekki staðist.

3. Tilkynning X apríl 2016. Grunur um heimilisofbeldi. Fyrir liggi lögregluskýrsla um atvikið. Óþekktur aðili virtist hafa kallað til lögreglu eftir að hafa séð kæranda A hlaupa út úr húsinu og aftur inn. Skýringar hafi fengist en engin ástæða hafi verið talin til afskipta.

4. Tilkynning X maí 2016 í gegnum barnavernd í G. Tilkynningarefni hafi verið mansal, heimilisofbeldi og nauðung. Kærendur hafi gist hjá kunningja sínum í G. Þangað hafi tvær stúlkur leitað inngöngu í von um að þar væri gleðskapur. Húsráðandi hafi vísað þeim á dyr. Samkvæmt því sem fram komi í lögregluskýrslu hafi stúlkurnar hringt í lögreglu og tilkynnt um nauðung, mansal og fleira. Lögregla hafi komið á vettvang og tekið skýrslu af stúlkunum sem hafi játað að vera undir áhrifum fíkniefna. Athugað hafi verið með þá sem dvalið hafi í húsinu, meðal annars kæranda A, en ekkert óeðlilegt hafi komið í ljós. Lögregla hafi engu að síður tilkynnt um atvikið þar sem börn kærenda hafi sofið í húsinu. Lögregla hafi aftur farið á staðinn daginn eftir en barnavernd hafi farið þangað X maí og fengið þær upplýsingar að kærendur væru farin til síns heima.

5. Tilkynning X ágúst 2016. Um hafi verið að ræða eina skiptið sem kærandi A hafi ekki komið með barn í bólusetningu. Hafi það komið til af því að barnið var lasið og kærandi A í mæðraeftirliti á S á sama tíma. Samtal muni hafa átt sér stað á milli ljósmóður og heilsugæslunnar þess efnis að fyrir lægju tilkynningar um meint heimilisofbeldi og fleira. Af þeim sökum hafi heilsugæslan ákveðið að senda barnaverndartilkynningu. Fyrir liggi hjúkrunarbréf um að kærandi A hafi mætt í skoðun með barnið sem hafi fengið eðlilega skoðun, dafni vel og allar bólusetningar á pari.

Þá er því hafnað að kærandi A hafi ekki mætt í skoðun fyrr en á 26. viku meðgöngu með [þriðja barn] kærenda. Hún hafi bæði farið í mæðraskoðun á S og á Landspítalanum fyrir þann tíma.

Kærendur telja að engin framangreindra tilkynninga hafi réttlætt það að C tæki ákvörðun um einhliða áætlun um meðferð máls. Kærendur vísa til fjölmargra vottorða frá leikskóla, heilsugæslu og öðrum aðilum sem gefi [börnum] kærenda góða umsögn að því er varði aðbúnað og þroska:

a. Minnispunktar leikskóla E frá X febrúar 2016 . [Elsta barn] kærenda fái mjög góða umsögn.

b. ESTER skimun [elsta barns] kærenda X mars. Barnið fái mjög góða umsögn. Erfiðleikar helst þeir að barnið sé óþolinmótt.

c. Hjúkrunarbréf X mars 2016 vegna [elsta barns] kærenda. Engar athugasemdir.

d. Hjúkrunarbréf X apríl 2016 vegna [næstelsta barns] kærenda.

e. Hjúkrunarbréf X september 2016. X árs skoðun [elsta barns] kærenda og skoðun á [næstelsta barni] kærenda X júní 2016. Góð skoðun.

f. Hjúkrunarbréf X. Staðfesting hjúkrunarfræðings á góðri heilsu [elsta barns] kærenda.

g. Hjúkrunarbréf X október 2016. Staðfesting hjúkrunarfræðings á góðri heilsu [næstelsta barns] kærenda.

h. Bréf frá leikskóla X október 2016. Elsta [barn] kærenda [byrjað] á leikskóla, kátur og skammtilegur krakki, [duglegur og sjálfstæður í öllu sem hann gerir, alltaf hreinn og snyrtilegur], góð mæting. Málþroski mjög góður.

Samkvæmt ofangreindu hafi aldrei verið staðfest að börn kærenda búi við þær aðstæður sem kalli á afskipti barnaverndaryfirvalda. Kærendur hafi verið undir miklu álagi vegna sífelldra og tilefnislausra afskipta C. Kærendur telja að ákvörðun nefndarinnar um einhliða áætlun sé freklegt inngrip í einkalíf þeirra sem ekkert tilefni hafi verið til. Kærendur telja greinargerð C til úrskurðarnefndar velferðarmála í raun staðfestingu á því að markmið hinnar einhliða áætlunar sé ekkert annað en að fá kærendur til að hætta neyslu áfengis og stjórna því hverja þau umgangist. Hvorugt sé grundvöllur ákvörðunar um einhliða meðferð máls samkvæmt bvl. þegar ekkert liggi fyrir um að hagsmunum barna sé ógnað.

Að mati kærenda byggi málið að mestu á getgátum en ekki staðreyndum. C hafi staðið til boða að skoða heimili kærenda og gera vímuefnapróf en því hafi verið hafnað. Eingöngu hafi verið í boði að samþykkja áætlanir nefndarinnar meðal annars um bann við neyslu áfengis af beggja hálfu, óboðað eftirlit og takmarkanir á því hverja kærendur umgangist. Kærendur telja ekkert tilefni til að ákveða einhliða áætlun um meðferð máls sem auk þess gangi of langt og sé ekki í samræmi við meðalhóf. Fulltrúar C hafi oft hitt kærendur og börn þeirra. Börnin séu oft úti við og C hafi ítrekað fengið upplýsingar um hvar börnin sé að finna. Kærendur hafi ítrekað boðið samstarf við C en því hafi ávallt verið hafnað nema á forsendum nefndarinnar.

Frá því að kærendur hafi lagt fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála í desember 2016 hafi barnaverndaryfirvöld fylgt eftir þeirri meðferðaráætlun sem komið hafi verið á með hinni kærðu ákvörðun. Fulltrúar Barnaverndar H hafi komið til kærenda í desember 2016 en þá hafi kærandi A enn verið á sjúkrahúsi að jafna sig eftir fæðingu. Hafi fulltrúarnir komið í húsnæði þar sem kærandi B hafi dvalið með börnin á meðan þau voru í H vegna fæðingarinnar. Ekki liggi annað fyrir en að engar athugasemdir hafi verið gerðar. Þann X febrúar 2017 hafi barnaverndaryfirvöld aftur komið í heimsókn til kærenda og nú á heimili þeirra í E. Fulltrúarnir hafi dvalið hjá kærendum í um það bil 10 mínútur og hafi mesti tíminn farið í að ræða húsnæðismál. Kærendur hafi ekki fengið umsögn um þá heimsókn. Eftir að hin einhliða ákvörðun C var tekin hafi engar tilkynningar borist, þrátt fyrir að ekkert hafi breyst hvað heimilishald kærenda varði.

Kærendur hafi notið aðstoðar lögmanns frá því í mars 2016. Lögmaðurinn hafi sinnt samskiptum við C og mætt á fundi, bæði símleiðis og á skrifstofu sinni. Lögmaður hafi sent C reikning í júlí 2016 ásamt beiðni um styrkveitingu fyrir kærendur. Í ágúst 2016 hafi borist bréf frá C þar sem gert hafi verið að skilyrði fyrir styrkveitingu að undirritað yrði og útfyllt eyðublað um fjárhagsaðstoð samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Einnig að gefin yrði upp afstaða kærenda til „ítrekaðra beiðna og tilmæla starfsmanna yfirstandandi 2ja barnaverndarmála um að koma til nauðsynlegs samstarfs með barnavernd E í umfjöllun málanna og málsmeðferð...“. Lögmaður hafi sent forstöðumanni tölvupóst þar sem hann hafi gert grein fyrir þeirri skoðun sinni að þessi skilyrði fyrir styrkveitingu stæðust ekki lög. Bent hafi verið á að kærandi A sé öryrki sem hafi þegið félagslega aðstoð frá E og bærinn hefði nægar upplýsingar um félagslegar aðstæður kærenda. Ekki væri skilyrði fyrir styrkveitingu til rekstrar barnaverndarmáls að fylla út umsókn um félagslega aðstoð, enda væri ekki um félagslega aðstoð að ræða heldur styrk samkvæmt 47. gr. bvl. Skorað hafi verið á C að samþykkja styrkbeiðnina. Því hafi C hafnað. Í greinargerð C til úrskurðarnefndar velferðarmála hafi komið fram að engin „formleg umsókn borist v. greiðslu lögfræðikostnaðar“, aðeins reikningur ásamt bréfi frá lögmanni. Við þetta geri kærendur þær athugasemdir að í því bréfi sem fylgt hafi reikningi og tímaskýrslu lögmannsins hafi verið farið fram á að kærendum yrði veittur styrkur á grundvelli bvl. í samræmi við reikninginn. Á þetta hafi borið að líta sem umsókn um styrk á grundvelli bvl. Bent sé á að umsókn um styrk samkvæmt bvl. sé ekki formbundin og ekki sé að lögum heimilt að gera það. Því hafi styrkumsókn sannarlega borist C. Þá sé í greinargerð C byggt á því að reikningur lögmannsins, svo sem tímagjald og annað, sé ekki í samræmi við reglur C og því sé ekki hægt að verða við styrkbeiðninni. Við þetta verði að gera þá athugasemd að það sé ákvörðun barnaverndarnefndar hversu hár styrkur sé veittur. Sé útgefinn reikningur hærri en sem nemi styrk sem ákveðið sé að veita geti það ekki haft áhrif á styrkveitingu. Af framangreindum ástæðum sé því kærð synjun C á styrkbeiðni kærenda, enda byggi afstaða C á ólögmætum sjónarmiðum. Óheimilt sé að gera að skilyrði fyrir veitingu styrks til aðila að barnaverndarmáli að lagðar séu fram upplýsingar sem þegar liggi fyrir hjá sveitarfélagi. Einnig að umsækjandi um styrk fari að tilteknum fyrirmælum barnaverndarnefndar en sem fyrr segi hafi C gert að skilyrði fyrir styrkveitingu að kærendur yrðu til samstarfs. Kærendur telja ekki lögmætt að reisa of miklar skorður við því að njóta lögmannsaðstoðar í barnaverndarmáli. Barnaverndarmál hefjist með afskiptum stjórnvalds af einkalífi einstaklinga og eftir atvikum inngripum. Tryggja þurfi að einstaklingar sem verði fyrir afskiptum af því tagi fái notið nauðsynlegrar aðstoðar án skilyrða.

Kærendur mótmæla því sem fram komi í málavaxtalýsingu C og stangist á við málavaxtalýsingu þeirra.

III. Afstaða C

Í greinargerð C dags X. janúar 2017 er vísað til þess að upphaf málsins megi rekja til barnaverndartilkynningar sem barst X mars 2016. Tilkynnt hafi verið vegna vanrækslu og gruns um áfengis-/fíkniefnaneyslu foreldra. Á teymisfundi barnaverndar X mars hafi verið tekin ákvörðun um að opna barnaverndarmál og hefja könnun málsins. Reynt hafi verið að ná í kærendur símleiðis til að láta vita af tilkynningu. Kærandi A hafi ekki svarað en kærandi B hafi brugðist illa við og hafnað samstarfi. Í tölvupósti sama dag hafi kærandi A upplýst að hún færi ein með forsjá barnanna. Hún væri í H og hygðist ekki koma aftur í E. Starfsmaður hafi sent kæranda A bréf um að mál hefði verið opnað og að óskað væri samvinnu við kærendur. Kærendur hafi síðan verið boðuð á fund hjá C en óskuðu eftir því að fundi yrði frestað.

Önnur barnaverndartilkynning hafi borist X apríl 2016. Tilkynnandi hafi haft áhyggjur af velferð barna kærenda sökum hávaða og drykkjuláta fram á nótt frá heimilinu. Einnig komi fram í tilkynningu að oft væri mikið ónæði og læti frá heimilinu. Kærendur hafi verið boðuð á fund X. apríl 2016 en afboðuðu sig daginn áður. Þeim hafi verið boðið upp á nýjan fundartíma en því hafi ekki verið svarað.

Hinn X. apríl 2016 hafi lögregla verið kölluð til vegna gruns um heimilisofbeldi á heimili kærenda. Þann X maí 2016 hafi borist þær upplýsingar frá Heilsugæslunni T að kærandi A væri flutt með börnin til G. Einnig hafi verið upplýst að hún hefði ekki mætt með [börn sín] í skoðun og eftirlit.

Enn hafi kærendur verið boðuð á fund og að þessu sinni X maí 2016. Með tölvupósti til lögmanns kærenda X maí hafi verið lögð áhersla á mikilvægi þess að ganga til samstarfs við C. Á símafundi með lögmanninum X maí hafi hann upplýst starfsmenn C um að kærendur höfnuðu allri samvinnu við starfsmenn málsins en lögmaðurinn yrði í samskiptum við C fyrir þeirra hönd.

Enn hafi borist tilkynning vegna barna kærenda og þá frá lögreglu og barnavernd í G. Tilkynningarefni hafi verið heimilisofbeldi þar sem kærandi A dvaldi ásamt börnum sínum. Starfsmaður barnaverndar í G hafi farið á staðinn til að staðsetja börnin og gera fíkniefnapróf á kæranda A. Húsráðandi hafi sagt þau farin til E. Reynt hafi verið að ná símasambandi við kæranda B sem hafi sagt kærendur í H ásamt börnunum. Óskað hafi verið eftir því að kærandi A hefði samband við C eigi síðar en X maí 2016. Daginn eftir, X maí, hafi C sent kæranda A og lögmanni kærenda tölvupóst, upplýst um nýja tilkynningu og óskað fundar með kærendum til að ræða niðurstöður könnunar. Einnig hafi verið ítrekuð ósk um að barnavernd fengi upplýsingar um dvalarstað barnanna svo að hægt væri að kanna líðan þeirra, stöðu og aðstæður. Í svari lögmanns kærenda daginn eftir komi fram að kærendur gætu ekki fallist á áætlun um meðferð máls þar sem hún gengi of langt. Þá hygðist fjölskyldan flytja til G og því væri ekki grundvöllur fyrir því að vinna málið í E. Í ljós hafi komið að lögheimili kæranda A og barnanna hafði verið flutt til G. Af þessu tilefni hafi C óskað eftir því að starfsmaður barnaverndar í G færi á dvalarstað barnanna og kynnti sér aðstæður. Þar hafi húsráðandi staðfest að kærendur og börnin hefðu dvalið hjá sér en væru nú farin. Hann kvað þau ekki búsett hjá sér. Kærandi A hafi sent C tölvupóst þar sem meðal annars var upplýst um að börnin yrðu hjá ömmu sinni á P til X maí 2016.

Með tölvupósti X maí hafi starfsmaður C óskað eftir því við kæranda A að hún upplýsti um dvalarstað barnanna þar sem nýtt lögheimili væri sýndarlögheimili. Þá hafi óskir verið ítrekaðar um fund og samstarf. Frestur hafi verið veittur til X maí 2016 en að öðrum kosti neyddist C til að gera einhliða áætlun um meðferð máls á grundvelli bvl. Engin svör hafi borist og hafi ítrekun verið send X maí en einnig hringt til lögmanns og skilin eftir skilaboð þar sem hann hafi ekki verið viðlátinn. Engin viðbrögð hafi borist. Enn hafi verið reynt að ná í lögmann og kærendur X júní en þá hafi náðst í kæranda B í síma. Aðspurður hafi hann sagst ekki vita um dvalarstað barnanna akkúrat núna og hafi hann hafnað samstarfi. Daginn eftir, X júní, hafi starfsmenn C farið í óboðaða heimsókn til að staðsetja börnin og kanna aðbúnað þeirra. Fyrst hafi verið farið að U þar sem kærendur bjuggu áður. Þar hafi enginn verið. Síðan hafi verið farið til föðurömmu barnanna að V. Enginn hafi komið til dyra þó að bæði hafi heyrst í kæranda A og börnunum innan dyra. Elsta barn kærenda hafi opnað dyrnar en hurðinni hafi verið skellt samstundis og starfsmenn hafi heyrt kæranda A banna barninu að opna. Í því hafi föðuramma barnanna komið að húsinu og kveðið engan heima. Henni hafi verið sagt að starfsmenn hefðu heyrt í kæranda A og séð barnið. Föðuramman hafi aftekið að það væri rétt og hafi bætt því við að kærendur væru flutt. Áfram hafi verið reynt að ná í kærendur og lögmann þeirra símleiðis en án árangurs.

Næsta dag, X júní 2016, hafi borist tölvupóstur frá lögmanni kærenda þar sem fram komi að afstaða kærenda hefði ekki breyst. Þau teldu ekki grundvöll fyrir afskiptum barnaverndar auk þess sem þau væru flutt til G.

Í byrjun júní 2016 hafi staðan verið sú að ekki hafði tekist að kynna kærendum gögn málsins, ekki hafði náðst samtal við kæranda A og ekki hafði tekist að kanna aðbúnað barnanna með óyggjandi hætti allt frá því að málið var tekið til meðferðar X mars 2016. Kærendur hafi hafnað öllu samstarfi. C hafi þá haft samband við lögmann kærenda og óskað þess að hann kæmi á fundi með kæranda A. Lögmanninum hafi verið tjáð að í tilkynningum hefðu komið fram áhyggjur af velferð kæranda A og grunur um að kærandi B beitti hana ofbeldi. Hvorki væri hægt að una við að kærandi A neitaði að hitta starfsmenn barnaverndar né að ekki væri hægt að staðsetja börnin til að kanna aðbúnað þeirra og líðan. Lögmaður kærenda hafi haft samband X júní 2016 og óskað þess að starfsmaður kæmi á fund með honum og kæranda A á skrifstofu hans í H daginn eftir. Á þeim fundi hafi starfsmaður C farið yfir efni framkominna tilkynninga. Kærandi A hafi neitað því að partý hefði verið á dvalarstað hennar í G. Hún hafi sagt barnaverndaryfirvöld vera með kærendur á heilanum og neitað því að eitthvað væri að hjá þeim og síst af öllu að hún væri beitt ofbeldi. Lítið hafi verið gert úr áreiðanleika framkominna tilkynninga. Starfsmenn C hafi óskað eftir því að kærandi A yrði til samstarfs þannig að hægt væri að vinna málið á æskilegum grundvelli.

Lögheimili kærenda hafi aftur verið flutt á P í lok júní 2016.

Með tilkynningu X ágúst 2016 hafi Heilsugæslan T tilkynnt um áhyggjur af velferð ófædds barns kærenda. Í tilkynningunni komi fram að kærandi A hafi verið komin 20 vikur á leið með þriðja barn þeirra en hefði aldrei komið í skoðun. Ítrekað hefði verið reynt að ná í hana og boða í skoðun en án árangurs. Kærandi A hefði sagt að hún ætti bókaða skoðun á S en það hafi ekki reynst rétt. Einnig komi fram í tilkynningunni að stopult hefði verið mætt með börn kærenda í barnaeftirlit og að þau væru á eftir í bólusetningum. Starfsmenn C hafi hringt í kæranda A til að láta hana vita af nýrri tilkynningu og að opna ætti barnaverndarmál á ófædda barnið. Hún hafi verið spurð að því hvort þau byggju enn að V en hún hafi ekki svarað því.

Hinn X september 2016 hafi borist tölvupóstur frá kæranda A þess efnis að þau gætu mætt til viðtals gegn því skilyrði að þau mættu taka fundinn upp. Daginn eftir, X september, hafi kærandi A óskað upplýsinga um málið. Henni hafi verið send gögn, meðal annars um niðurstöður kannana í júlí og september og áætlun um meðferð máls.

C hafi borist bréf frá Heilsugæslunni T hinn X september 2016 þar sem fram komi að barnaeftirlit með dætrum kærenda væri komið í lag. Sama dag hafi borist bréf frá lögreglu vegna afskipta hennar af kæranda B þann X september 2016. Þar sé greint frá því að ítrekað hafi verið tilkynnt til lögreglu að kærandi B hefði verið að selja og neyta fíkniefna en auk þess gæti hann hafa ekið undir áhrifum. Hann hafi blásið í áfengismæli og gefið þvagsýni fyrir fíkniefnapróf. Svörun hafi verið neikvæð í öllum þáttum.

Kærendur hafi mætt á boðaðan fund X september 2016. Þar hafi meðal annars verið farið yfir gögn málsins og tilgang barnaverndar. Útskýrt hafi verið fyrir kærendum að komnar væru fram átta tilkynningar sem þyrfti að bregðast við. Þau yrðu að vera til samvinnu, aðstoða starfsmenn við að sýna fram á að ekki væri tilefni til að hafa áhyggjur af börnunum og taka á því sem betur mætti fara. Meðferðaráætlun hafi verið lögð fram en kærendur hafi gert athugasemdir við markmið áætlunar og hlutverk forsjáraðila. Þá hafi verið rætt um veru kærenda með börnin í G og farið yfir ábyrgð foreldra á að vera ekki með börn í óviðunandi aðstæðum.

Ákveðið hafi verið að kærendur kæmu á fund C þann X október 2016 en þau hafi ekki komið. Daginn eftir hafi starfsmaður reynt að ná símasambandi við kæranda A en án árangurs. Henni hafi svo verið sendur tölvupóstur X október og hún spurð um ástæður þess að kærendur mættu ekki á fundinn X október. Svar hafi borist frá kæranda A þann X október þar sem fram komi að hún hafi verið send til H vegna yfirvofandi fyrirburafæðingar. Hún fengi ekki að fara heim fyrr en í fyrsta lagi eftir áramótin. Starfsmaður hafi hringt í kæranda B og óskað eftir því að hann kæmi til viðtals og kynnti sér meðferðaráætlun. Kærandinn hafi neitað að koma, hann hafi verið æstur og stóryrtur.

Ný áætlun um meðferð máls hafi verið send kæranda A með tölvupósti X október 2016. Jafnframt hafi kærendum verið tilkynnt að málefni þeirra yrðu tekin fyrir á fundi C þann 1. nóvember þar sem óskað yrði eftir úrskurði um einhliða áætlun þar sem samvinna við kærendur næðist ekki. Kærendum var kynnt að þeim eða fulltrúa þeirra væri velkomið að mæta á fundinn og gera grein fyrir sjónarmiðum sínum. Fresta hafi þurft fundi um eina viku og hafi það verið tilkynnt kæranda A samdægurs.

Þann X nóvember 2016 hafi enn borist tilkynning vegna barna kærenda. Ástæða tilkynningar hafi verið áhyggjur af húsnæðismálum fjölskyldunnar. Í tilkynningunni komi fram að kærandi A hefði verið lögð inn á Landspítala X október vegna yfirvofandi fyrirburafæðingar. Þegar hún hafi verið færð til skoðunar hafi kærandi B virst undir áhrifum áfengis og það hafi endað með því að þurft hefði að vísa honum úr skoðunarherbergi svo að hægt væri að gera skoðun. Þá hafi borist bréf frá Landspítalanum X nóvember 2016 þar sem staðfest hafi verið að kærandi A hefði komið í mæðraeftirlit ásamt kæranda B. Um fyrstu skoðun á Landspítalanum hafi verið að ræða og kærandi A hafi þá verið komin 26 vikur á leið.

Hinn X nóvember 2016 hafi C haldið fund. Kærandi B hafi mætt á fundinn. Kærandi A hafi sent fyrirspurn varðandi málið og framgang þess. Félagsráðgjafi á fæðingardeild Landspítalans hafi hringt til C þann X nóvember til að láta vita að kærandi A hefði fætt [barn] sem þyrfti að dvelja á vökudeild um óákveðinn tíma.

Kærandi A hafi aftur óskað eftir upplýsingum um gang mála X nóvember 2016. Henni hafi verið kynnt að framhaldsfundur yrði haldinn áður en úrskurðað yrði í málinu. Einnig hafi verið bent á að kærendum væri velkomið að koma aftur fyrir C til að rökstyðja mál sitt. Framhaldsfundurinn hafi verið haldinn X desember 2016 og á hann hafi kærandi B mætt. C hafi úrskurðað um einhliða áætlun.

Starfsmenn Barnaverndar H hafi farið í boðaða heimsókn til fjölskyldunnar X desember 2016. Fjölskyldan hafi þá búið í íbúð á vegum W. Heimsóknin hafi verið liður í einhliða áætlun máls. Daginn eftir, X desember, hafi borist bréf frá Vökudeild Landspítalans. Þar komi fram að viðvera kærenda á Vökudeild hefði verið með minna móti.

Í þrígang hafi verið gerð niðurstaða könnunar máls og ný meðferðaráætlun. Í öll skiptin hafi verið tryggt að það bærist til kærenda, bæði í tölvupósti og bréflega á heimilisfang þeirra. Í öllum tilvikum hafi niðurstaða könnunar og meðferðaráætlun verið send lögmanni kærenda.

Í máli [barna] kærenda hafi öllum verkferlum verið fylgt svo sem sjá megi af gögnum málsins. Niðurstaða könnunar hafi verið byggð á þeim upplýsingum sem borist hefðu, viðtölum og samskiptum við kærendur svo og fyrri málasögu. Kærendur hafi ávallt hafnað niðurstöðu könnunar og áætlun um meðferð máls. Þau hafi ekki heldur verið tilbúin til að mæta á skrifstofu C til að taka þátt í gerð og skipulagningu nýrrar meðferðaráætlunar að einu skipti undanskildu. Einnig hafi þau neitað að skrifa undir meðferðaráætlun þar sem ekki hafi verið farið að kröfum þeirra í einu og öllu.

Niðurstaða könnunar skuli liggja fyrir innan þriggja mánaða frá því að tilkynning berst. Í málinu sé tímabil könnunar í öllum tilvikum innan við þrír mánuðir. Umfangið sé vegna síendurtekinna tilkynninga frá mismunandi aðilum. Auk þess hafi ósamvinna kærenda tafið málið til muna. Þá hafi kærendur gripið til ýmissa ráða til að tefja málið. Einnig megi nefna að kærendur hafi ekki haft fasta búsetu megnið af þeim tíma sem málið hafi verið í vinnslu.

Á þeim eina fundi sem fengist hafi með báðum kærendum til að ræða meðferðaráætlun hafi verið reynt að koma til móts við þau að því leyti sem unnt hafi verið. Nauðsynlegt sé að setja mælanleg markmið í meðferðaráætlun. Þar sem vímuefnaneysla sé ólögleg sé ef til vill ekki óraunhæft markmið að slík neysla sé bönnuð. Hvað varðar áfengisneyslu hafi sérstaklega verið rætt um að hún skyldi vera í hófi en það sé gert þar sem kærendur hafi áður lýst því að áfengisneysla hafi neikvæð áhrif á samband þeirra. Auk þess sé það börnum ekki bjóðandi að vera í umhverfi þar sem óhófleg neysla áfengis fari fram. Þá hafi ef til vill ekki verið óeðlilegt að ætlast til þess að kærandi A neytti ekki áfengis þar sem hún hafi verið barnshafandi á þessum tíma. Hvað varði það skilyrði að vera vandlátur á þá sem eru í umhverfi barna sé það skylda allra foreldra. Eins og sjá megi af málavöxtum hafi kærendur verið á töluverðum þvælingi með börnin og vísbendingar um að þessa hafi ekki alltaf verið gætt.

Að því er varði niðurstöður úr þvagsýnum kærenda hafi sýnin verið tekin á þeirra forsendum. Það sé ekki rétt að kærendur hafi boðist til að taka áfengis- og fíkniefnapróf. Þau hafi þvert á móti verið mjög ósamvinnuþýð og neitað samstarfi um áætlun máls. C hafi ekki getað farið fram á áfengis- eða fíkniefnapróf þar sem meðferðaráætlanir hafi ekki verið samþykktar fyrr en C hafði tekið einhliða ákvörðun í málinu í desember 2016.

Í tæpt ár hafi verið reynt að fá kærendur til samstarfs. Þau, og sér í lagi kærandi B, hafi ávallt brugðist afar illa við, hann hafi verið æstur og haft í hótunum. Kærendur hafi hvorki verið til samtals né mats á niðurstöðum könnunar máls, þau hafi hvorki verið til viðtals um að leggja mat á inntak og markmið meðferðaráætlunar né árangur hennar með starfsmönnum B. Þrátt fyrir ítrekuð boð og óskir starfsmanna B um að fá kærendur til samstarfs hafi því ávallt verið hafnað. Þá hafi starfsmönnum verið meinaður aðgangur að heimili barnanna eða dvalarstað þannig að ekki hafi verið unnt að kanna aðbúnað þeirra. Einnig hafi kærendur í upphafi málsins leynt dvalarstað barnanna. Við þau tímamót er kærandi B hafi mætt á tvo fundi C til að koma sjónarmiðum kærenda á framfæri hafi skýrt komið fram að kærendur höfnuðu allri samvinnu. Það sé á þeim grunni og með hagsmuni barnanna að leiðarljósi sem einhliða ákvörðun um meðferð máls hafi verið tekin. Meginmarkmið þeirrar áætlunar hafi verið að tryggja öryggi og aðbúnað barna kærenda á heimili og/eða dvalarstað.

Fjöldi tilkynninga frá mismunandi aðilum gefi til kynna að ekki sé allt með felldu. Í öllu ferli málsins hafi ekki tekist að ganga úr skugga um að aðbúnaður barnanna væri tryggur þar sem kærendur hafi ekki verið samvinnuþýð. Því hafi verið erfitt fyrir C að sýna fram á að efni tilkynninga ætti ekki við rök að styðjast. Af þessum ástæðum hafi C ekki séð sér fært að loka málinu. Gögn málsins beri með sér að starfsmönnum C hafi oftast reynst örðugt að ná til kærenda til að fá upplýsingar um til dæmis staðsetningu þeirra og aðstæður, staðfestingu á móttöku gagna og viðbrögð við efnisatriðum mikilvægra upplýsinga.

Að því er varði kröfur um greiðslu lögfræðikostnaðar kærenda hafi kærendur verið upplýst um rétt sinn til að sækja um styrk til greiðslu lögfræðikostnaðar. Kærendum hafi verið bent á að ef þau óskuðu eftir afgreiðslu á beiðni um styrk þyrftu þau að senda C umsókn á þar til gerðu eyðublaði ásamt fylgigögnum um tekjur og efnahag í samræmi við reglur C um greiðslu lögmannskostnaðar í barnaverndarmálum. Enn hafi ekki borist formleg umsókn um styrkinn. Aðeins hafi borist reikningur ásamt bréfi lögmanns. Því erindi hafi verið svarað í tvígang en einnig hafi reglur C verið sendar lögmanni ásamt því sem tilgreint hafi verið að umsókn kærenda ásamt gögnum þyrfti að berast. Hvorki hafi formleg umsókn borist né hafi C hafnað slíkri umsókn. Á öllum stigum máls hafi leiðbeiningarskyldu varðandi styrk til greiðslu lögmannskostnaðar samkvæmt bvl. verið gætt gagnvart kærendum, til dæmis hafi lögmanni kærenda verið sent umsóknareyðublað um fjárhagsaðstoð og reglur um greiðslu lögmannskostnaðar í barnaverndarmálum. Af gögnum málsins megi sjá að fullyrðing lögmanns kærenda um að C hafi synjað kærendum um styrk vegna lögmannskostnaðar sé röng.

Starfsmenn C hafa lagt sig alla fram um að ná samvinnu við kærendur með traust, virðingu og umhyggju fyrir þeim og börnunum í fyrirrúmi. Við vinnslu málsins hafi barnaverndarstarfsmenn sýnt mikla biðlund og tillitsemi við kærendur og aðstæður þeirra. Forsendur kærunnar gefi ekki tilefni til að úrskurður C 6. desember 2016 verði felldur úr gildi.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar úrskurð C 6. desember 2016 um að beita einhliða málsmeðferð í barnaverndarmálum þriggja [barna] kærenda í þrjá mánuði. Vísar C til 26. gr. bvl. ákvörðun sinni til stuðnings. Verður hinn kærði úrskurður ekki skilinn á annan veg en að með honum sé beitt þvingunarúrræðum gagnvart kærendum, þ.e. úrræðum án samþykkis foreldra samkvæmt 26. gr. bvl.

Í 23. gr. bvl. er gerð grein fyrir áætlun um meðferð máls. Í 1. mgr. lagagreinarinnar segir að þegar mál hafi verið nægjanlega kannað að mati barnaverndarnefndar skuli C taka saman greinargerð þar sem lýst sé niðurstöðum könnunar, tiltekið hverra úrbóta sé þörf og settar fram tillögur að heppilegum úrræðum. Í 4. mgr. 23. gr. kemur fram að náist ekki samkomulag við foreldra skuli barnaverndarnefnd einhliða semja áætlun um framvindu máls og beitingu úrræða samkvæmt ákvæðum bvl. Áætlunina skuli kynna fyrir foreldrum. Í málinu var þetta gert í tvígang.

Í 1. mgr. 26. gr. bvl. eru talin upp sérstök úrræði sem barnaverndarnefnd getur beitt með úrskurði, án samþykkis foreldra, hafi úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. laganna ekki skilað árangri að mati barnaverndarnefndar eða eftir atvikum að barnaverndarnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. getur barnaverndarnefndin við þessar aðstæður kveðið á um eftirlit með heimili. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. getur barnaverndarnefnd gefið fyrirmæli um aðbúnað og umönnun barns, svo sem dagvistun þess, skólasókn, læknisþjónustu, rannsókn, meðferð eða þjálfun. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skulu ráðstafanir samkvæmt 1. mgr. hennar ávallt vera tímabundnar og standa eigi lengur en þörf krefur hverju sinni og skulu endurskoðaðar eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti.

Í hinum kærða úrskurði er kafli sem ber heitið „Áætlun um meðferð máls“. Þar er meðal annars gerð grein fyrir markmiðum áætlunar en þau eru sögð þessi:

- Að börn búi við viðunandi og tryggar uppeldisaðstæður.

- Að foreldrar ábyrgist að í návist barna sé neysla vímuefna eða óhófleg neysla áfengis ekki viðhöfð.

- Að foreldrar mæti með börn í reglubundnar skoðanir hjá heilsugæslu.

- Að ekki komi til óeðlilegra afskipta lögreglu á tímabili meðferðaráætlunar.

Einnig er í hinum kærða úrskurði kaflinn „Úrræði og aðgerðir til að ná settum markmiðum“. Þar eru þessi atriði tilgreind undir hlutverk forsjáraðila:

- Samvinna við starfsmenn máls.

- Tryggja öryggi barna þannig að í návist þeirra sé neysla vímuefna og neysla áfengis ekki viðhöfð.

- Að foreldrar séu vandlátir á aðila sem þeir umgangast eða bjóða inn á heimili sitt.

- Að faðir neyti ekki vímuefna né drekki áfengi fram úr hófi.

- Að móðir neyti hvorki vímuefna né áfengis.

- Tryggja börnunum viðeigandi uppeldisskilyrði og aðbúnað.

- Foreldrar undirgangist fíkniefna- og/eða öndunarpróf sé þess óskað af hálfu barnaverndar.

- Mæta með börn sín í reglubundnar skoðanir á heilsugæslu.

Þá voru stuðningsúrræði barnaverndar tiltekin:

- Mæta í óboðaðar og boðaðar heimsóknir á heimili eða dvalarstað barna ásamt lögreglu til þess að kanna aðstæður og aðbúnað.

- Boða forsjáraðila í vímuefnapróf og/eða áfengismælingu annars vegar hjá heilsugæslu og hins vegar hjá lögreglu.

- Starfsmenn mála aðstoði foreldra svo sem kostur er við útvegum íbúðarhúsnæðis.

Eins og áður segir getur barnaverndarnefnd samkvæmt 26. gr. bvl. kveðið á um eftirlit með heimili og gefið fyrirmæli um aðbúnað og umönnun barns, svo sem dagvistun þess, skólasókn, læknisþjónustu, rannsókn, meðferð eða þjálfun, sbr. a- og b- liði lagagreinarinnar. Að því er varðar hinn kærða úrskurð hafði C heimild til að mæla fyrir um óboðaðar og boðaðar heimsóknir á heimili eða dvalarstað barnanna og að foreldrar mættu með börnin í reglubundnar skoðanir hjá heilsugæslu, væru skilyrði fyrir hendi. Jafnframt hafði C heimild til að gefa kærendum fyrirmæli um aðbúnað barnanna í þeim tilgangi að tryggja öryggi þeirra.

Hér að framan eru rakin samskipti starfsmanna barnaverndar og kærenda vegna dætra kærenda. Samskiptin áttu sér stað vegna sjö barnaverndartilkynninga sem bárust vegna atvika frá mars og fram í september 2016 vegna vanrækslu við umsjón og eftirlit [barnanna], grun um áfengis- og/eða fíkniefnaneyslu kærenda á heimili og/eða dvalarstað barnanna, háreysti frá heimilinu og heimilisofbeldi.

Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins var starfsmönnum barnaverndar fyrst tilkynnt að [börn] kærenda byggju við vanrækslu X mars 2016. Tilkynningin varðaði einnig grun um áfengis- og/eða fíkniefnaneyslu kærenda. Tilkynning X apríl var sama efnis. Tilkynning X apríl var vegna fíkniefnaneyslu á heimili kærenda. Tilkynningar X og X maí voru vegna gruns um áfengis- og/eða fíkniefnaneyslu kærenda og heimilisofbeldi. Tilkynning X júní var vegna gruns um áfengis- og/eða fíkniefnaneyslu kærenda. Tilkynning X ágúst var vegna þess að kærandi A hafði ekki komið í mæðraeftirlit þrátt fyrir að vera gengin um 19 vikur.

Þann X mars 2016, daginn eftir fyrstu tilkynninguna, ákvað barnavernd að hefja könnun máls samkvæmt bvl. Símasamband var haft við kærendur vegna þessa og þau spurð um dvalarstað [barnanna]. Því var svarað til að [þau] væru hjá ömmu sinni í H án þess að aðsetur væri gefið upp. Óskað var eftir að kærendur kæmu á fund X mars en þau óskuðu eftir að fundi yrði frestað. Kærendur voru spurð um dvalarstað barnanna X apríl en því var ekki svarað. Eftir að önnur tilkynningin barst voru kærendur aftur boðuð á fund X apríl en þau afboðuð sig daginn fyrir fund. Þeim var boðið upp á annan fundartíma en svöruðu ekki. Kærendur voru enn spurð um dvalarstað barnanna X apríl, X maí og X maí en svöruðu ekki. Þann X maí átti barnavernd símafund með lögmanni kærenda en hvorugt kærenda var á fundinum. Þriðja tilkynning vegna barnanna barst X maí og sú fjórða X maí. Barnavernd óskaði eftir upplýsingum um dvalarstað barnanna X maí og svaraði kærandi B því að þau væru hjá foreldrum sínum á P. Daginn eftir, X maí, bárust upplýsingar frá lögmanni kærenda um að [börnin] væru á lögheimili sínu í G. Barnavernd sendi kærendum skilaboð X maí og óskaði eftir því að þau ættu fund með barnavernd en engin svör bárust frá kærendum. Þann X maí voru kærendur enn beðin um að mæta til fundar og spurð um dvalarstað [barnanna] en engin viðbrögð bárust. Kærendum var enn send fyrirspurn um dvalarstað [barnanna] X maí og X júní en því var ekki svarað. Þann X júní 2016 barst fimmta tilkynningin og sama dag mættu kærendur á fund barnaverndar í fyrsta sinn. Sjötta tilkynningin barst barnavernd X ágúst 2016 þar sem kærandi A hafði ekki komið í mæðraskoðun þrátt fyrir að eiga von á sínu þriðja barni. Þann X ágúst sendi barnavernd fyrirspurn til kærenda um dvalarstað barnanna en því var ekki svarað. ÞannX september var þess óskað að kærendur kæmu á fund barnaverndar en engin viðbrögð bárust frá þeim. Þau voru þá boðuð á fund X september og mættu á þann fund. Þá voru þau boðuð á fundi X og X október en mættu ekki. Kærandi B mætti loks til fundar X nóvember 2016.

Gögn málsins bera með sér að í þrjú skipti voru gerðar kannanir á málinu, lagðar fram niðurstöður könnunar og áætlanir um meðferð máls samkvæmt bvl. Margítrekað var reynt að fá kærendur til samstarfs við gerð kannana og áætlana um meðferð máls en án árangurs. Lutu áætlanir um meðferð máls meðal annars að gerð foreldrahæfnismats, að fram færu boðaðar og óboðaðar heimsóknir á heimilið, fíkniefnapróf, bann við neyslu vímuefna, bann við áfengisneyslu kæranda A og að áfengisneysla kæranda B væri í hófi, að kærendur væru vandlátir á þá aðila sem þau umgengjust eða byðu inn á heimili, að börnunum væru tryggð viðunandi uppeldisskilyrði o.fl. Þessar málsmeðferðaráætlanir báru ekki árangur þar sem kærendur neituðu að samþykkja þær. Sömuleiðis var í ellefu skipti óskað upplýsinga um dvalarstað [barnanna] sem aðeins var gefinn upp tvisvar.

Kærendur gera margvíslegar athugasemdir við málsmeðferð og vinnubrögð barnaverndar í málinu. Kærendur kveðast hafa lagt fram ýmis gögn sem sýni að það sem fram hafi komið í tilkynningum ætti sér ekki stoð. Þar vísa þau til fundar X nóvember 2016 en samkvæmt fundargerð lagði kærandi B fram gögn frá leikskóla og heilbrigðisstofnun. Lýstu gögnin því að [börnin] hefðu eðlilegan þroska og byggju við góða heilsu. Flest gögnin varða efnislega tímabilið september og október 2016 og eiga ekki nema að mjög litlu leyti við það tímabil sem tilkynningarnar bárust.

Kærendur halda því fram að engin tilraun virðist hafa verið gerð til að kanna forsendur þeirra tilkynninga sem bárust en þær séu með öllu rangar. Í málinu liggur fyrir að barnavernd fékk eina tilkynningu vegna barns kærenda árið 2014 og eina tilkynningu árið 2015. Þessar tilkynningar voru vegna gruns um fíkniefnaneyslu kærenda og heimilisofbeldi. Þegar hliðstæð tilkynning barst X mars 2016 bar barnavernd að taka tilkynninguna alvarlega og hefja könnun máls, sbr. 21. gr. bvl., eins og gert var. Um þetta voru kærendur upplýst sama dag og ákveðið var að hefja könnun. Þrátt fyrir það sáu þau sér ekki fært að ganga til samstarfs og þar með hafði barnavernd ekki forsendur til að meta sannleiksgildi tilkynninga.

Þá halda kærendur því fram að ekki hafi verið heimilt að taka ákvörðun um beitingu einhliða ákvörðunar eftir að liðnir voru fjórir mánuðir frá því að málið hófst. Þessu til stuðnings er vísað til 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem segir að könnun barnaverndarmáls skuli hraðað svo sem kostur er. Ákvörðun um beitingu viðeigandi úrræða skuli að jafnaði liggja fyrir innan þriggja mánaða og eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að ákvörðun var tekin um að hefja könnun. Tilgangur þessa ákvæðis er að könnun máls sé hraðað svo sem kostur er til að niðurstaða fáist sem fyrst. Eins og rakið hefur verið hófst málið með tilkynningu X mars 2016 og daginn eftir, X mars, var ákveðið að hefja könnun máls. Stóð tímabil könnunar til X apríl 2016 en að því loknu var gerð áætlun um meðferð máls sem gilda skyldi frá X maí til X júlí 2016. Kærendur voru ekki til samstarfs um meðferð málsins. Önnur könnun var því gerð, meðal annars á grundvelli nýrra tilkynninga sem borist höfðu, en sem fyrr voru kærendur ekki til samstarfs um meðferð málsins. Þriðja könnunin var gerð og tók hún til tímabilsins X ágúst til X september 2017. Á grundvelli niðurstöðu könnunarinnar var gerð ný málsmeðferðaráætlun og skyldi hún gilda fyrir tímabilið X nóvember 2016 til X mars 2017. Kærendur féllust heldur ekki á þessa málsmeðferðaráætlun. Af framangreindu má sjá að meðferð málsins dróst einungis vegna þess að kærendur voru ekki fúsir til samstarfs við barnavernd og stóðu þannig í vegi fyrir því að niðurstaða fengist í málið. Fellst úrskurðarnefndin því ekki á að heimild barnaverndar til beitingar einhliða ákvörðunar væri niður fallin vegna þess tíma sem málið tók. Einnig ber að líta til þess að málsmeðferðaráætlun lá í öllum tilvikum fyrir innan fjögurra mánaða frá því að könnun máls hófst. Úrskurðarnefndin telur því að C hafi að öllu leyti farið að fyrirmælum 23. gr. bvl.

Þá kveða kærendur að barnavernd hafi staðið til boða að skoða heimili þeirra og gera vímuefnapróf en því hafi verið hafnað. Kærendur halda því einnig fram að C hafi ítrekað fengið upplýsingar um hvar börnin væri að finna. Loks halda kærendur því fram að þau hafi ítrekað boðið samstarf við C en því hafi ávallt verið hafnað nema á forsendum C. Þessar fullyrðingar eiga sér ekki stoð í gögnum málsins eins og þegar hefur verið rakið.

Kærendur segja að ekki sé á neinn hátt upplýst að [börnin] búi við þær aðstæður að réttlætt geti inngrip á grundvelli bvl. Á það ber að líta að þær ábendingar sem hafa komið fram í málinu varða grun um fíkniefnaneyslu kærenda, heimilisofbeldi og vanrækslu barnanna. Í málinu liggur fyrir að kærendur sáu hvorki til þess að barnavernd hitti [börnin] né að hún fengi almennt upplýsingar um dvalarstað þeirra. Þá mættu kærendur aðeins á fjóra fundi af ellefu sem þau voru beðin um að sækja, létu sjaldan ná í sig og voru með engu móti til samstarfs. Þegar litið er til þessa verður að telja margt óljóst hvað varðar öryggi stúlknanna og aðbúnað þeirra á heimilinu. Þessir óvissuþættir leiða til þess að fylgjast bar með heimilinu og eftir atvikum gefa fyrirmæli um aðbúnað barnanna samkvæmt því sem fyrir er mælt í a- og b-liðum 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga svo sem gert var með hinum kærða úrskurði. Sé tekið tillit til ungs aldurs barnanna telur úrskurðarnefndin enn brýnna en ella að haft sé reglubundið og ítarlegt eftirlit með heimilinu. Er þar einkum litið til þess að börnin geta sjálf ekki verið til frásagnar um aðstæður sínar, aðbúnað og líðan.

Kærendur krefjast þess að C greiði þeim fjárstyrk vegna lögmannskostnaðar, bæði fyrir C og úrskurðarnefnd velferðarmála.

Lögmaður kærenda ritaði C bréf 4. júlí 2016. Yfirskrift bréfsins er „Styrkveiting skv. 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga.“ Í bréfinu segir að C hafi haft til meðferðar mál barna kærenda um nokkurt skeið en því sé ólokið. Lögmaðurinn hafi annast málið fyrir þeirra hönd samkvæmt umboði og verið í samskiptum við kærendur og starfsmenn barnaverndar vegna málsins. Lögmaðurinn hefði þurft að kynna sér gögn í málinu og haldnir hefðu verið fundir sem hann hefði verið viðstaddur, meðal annars símleiðis. Alls hefðu farið 12 klukkustundir í starfið. Síðan segir: „Fyrir hönd A og B er þess hér með farið á leit við C, með vísan til 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, að þau verði styrkt um þann kostnað sem að þjónustunni hlaust. Meðfylgjandi er sundurliðuð tímaskýrsla lögmanns.“ Meðfylgjandi, auk tímaskýrslu, var reikningur vegna 9,5 klukkustunda vinnu sem nam 250.914 krónum með virðisaukaskatti.

Í svari C 18. júlí 2016 kom fram að til þess að erindið færi til efnislegrar umfjöllunar væri þörf á viðbótargögnum. Annars vegar útfylltu umsóknareyðublaði um fjárhagsaðstoð og hins vegar afstöðu kærenda til ítrekaðra beiðna barnaverndarstarfsmanna um að koma til nauðsynlegs samstarfs en einnig að starfsmenn gætu komið í heimsóknir til að meta aðstæður [barnanna]. Í bréfi C til lögmannsins 6. október 2016 kom fram að ekki hafi verið ætlunin að binda styrkveitingu skilyrðum. Á hinn bóginn væri nauðsynlegt að fylla út umsókn og framvísa þeim gögnum sem áskilin væru samkvæmt henni til að unnt væri að leggja mat á þau skilyrði sem væru fyrir greiðslu lögmannskostnaðar í barnaverndarmálum hjá sveitarfélaginu. Þá var þess getið að ekki yrði séð að umræddur reikningur félli undir ákvæði 2. mgr. 47. gr. bvl. um greiðslu fjárstyrks.

Í 47. gr. bvl., sem ber fyrirsögnina andmælaregla, segir að aðilar barnaverndarmáls skuli eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð. Í 2. mgr. 47. gr. kemur fram að barnaverndarnefnd skuli veita foreldrum og barni sem er aðili máls fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 1. mgr. og í tengslum við rekstur máls fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála eftir reglum sem nefndin setur. Í reglunum skuli taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs málsins.

Í 2. gr. reglna C um greiðslu lögmannskostnaðar í barnaverndarmálum segir: „Við mat á því hvort aðila máls verði veittur fjárstyrkur til greiðslu fyrir lögmannsaðstoð og við mat á fjárhæð styrksins er horft til efnahags aðilans, eðli þess máls sem óskað er beiðni um fjárstyrk lýtur að og umfangi þess. C eða eftir atvikum starfsmaður barnaverndar getur í þessu skyni lagt fyrir aðila að leggja fram gögn um efnahag sinn áður en tekin er ákvörðun um styrkveitingu.“

Kærendur halda því fram að gögn um fjárhag þeirra hafi þegar legið fyrir hjá C vegna örorku kæranda A sem hafi þegið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Óheimilt sé að gera að skilyrði fyrir veitingu styrks að lagðar séu fram upplýsingar sem þegar liggi fyrir hjá sveitarfélagi. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þessi sjónarmið kærenda ekki haldbær, enda var beiðni C um gögn í samræmi við þær reglur sem settar hafa verið um greiðslu fjárstyrks vegna barnaverndarmála hjá sveitarfélaginu.

Einnig gera kærendur athugasemd við að það eyðublað, sem þeim var gert að fylla út vegna styrksins, hafi verið eyðublað vegna umsóknar um fjárhagsaðstoð samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Að mati úrskurðarnefndarinnar væri heppilegra að sérstakt eyðublað hefði verið útbúið vegna beiðni um styrk fyrir greiðslu lögmannsaðstoðar í barnaverndarmálum en það ræður þó ekki úrslitum.

Lögmanni kærenda var bent á að útfylla þyrfti eyðublað um fjárhagsaðstoð og framvísa gögnum þar að lútandi til þess að hægt væri að taka afstöðu til styrkbeiðni. Kærendur höfnuðu því að fylla út eyðublaðið og framvísa umbeðnum gögnum og lögmaður þeirra óskaði eftir því að ákvörðun yrði tekin um fjárstyrk á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Leit C þannig á að formleg umsókn um styrk hefði ekki borist þar sem umrætt eyðublað var hvorki útfyllt né tilskildum gögnum framvísað. Styrkbeiðnin hefur því ekki enn verið afgreidd og þar af leiðandi ekki verið hafnað. Því er ekki um að ræða að fyrir hendi sé kæranleg ákvörðun að því er varðar synjun á fjárhagsstyrk vegna lögmannsaðstoðar.

Kærendur hafa einnig krafist þess að C greiði þeim fjárstyrk vegna vinnu lögmanns við meðferð málsins fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála. Kærendur hafa ekki lagt beiðni þess efnis fyrir C. Eru því ekki forsendur til að úrskurða um greiðslu fjárstyrks vegna þessa þáttar málsins.

Með vísan til alls þess, sem hér hefur verið rakið svo og a- og b-liða 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga, ber að staðfesta úrskurð C að því leyti er hann kveður á um óboðaðar og boðaðar heimsóknir starfsmanna barnaverndar á heimili eða dvalarstað barnanna, veitir fyrirmæli um aðbúnað barnanna og að kærendur mæti með [börn] sínar í reglubundnar skoðanir hjá heilsugæslu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður C frá 6. desember 2016 er staðfestur að því leyti sem hann kveður á um óboðaðar og boðaðar heimsóknir starfsmanna barnaverndar á heimili eða dvalarstað barnanna, veitir fyrirmæli um aðbúnað barnanna og skyldu kærenda til að mæta með [börn sín] í reglubundnar skoðanir hjá heilsugæslu á tímabilinu 7. desember 2016 til 7. mars 2017.

Kröfu um fjárstyrk til kærenda vegna greiðslu lögmannskostnaðar er vísað frá.

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum