Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurðir 19. október 1999

Þriðjudaginn 19. október 1999 var í Matsnefnd eignarnámsbóta, skv. lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, tekið fyrir matsmálið nr. 7/1999:



Vegagerðin

gegn

Bergsveini Guðmundssyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :




I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu skipuðu þeir Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.



II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

Með matsbeiðni dags. 9. september 1999, sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 30. september 1999, fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við nefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á 10.000 m³ af malarefni úr námi í landi Vatnsdals, Patreksfirði. Eignarnámsþoli er eigandi Vatnsdals, Bergsveinn Guðmundsson, kt. 080636-3189, Sævangi 6, Hafnarfirði.

Eignarnámsheimildina er að finna í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir fimmtudaginn 30. september 1999. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu til 8. október 1999.

Föstudaginn 8. okóber 1999 var málið tekið fyrir. Flogið var vestur á Patreksfjörð og gengið á vettvang. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð, en eignarnema var gefinn frestur til 15. október 1999 til að skila inn greinargerð.

Föstudaginn 15. október 1999 var málið tekið fyrir. Eignarnemi lagði fram greinargerð ásamt fylgigögnum og var málið að því búnu tekið til úrskurðar, en af hálfu matsnefndarinnar var ekki talin þörf á munnlegum flutningi málsins. Sáttatilraunir hafa ekki borið árangur.


IV. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema er þess krafist að við verðmat á hinu eignarnumda malarefni verði litið til orðsendingar nr. 14/1999 sem lögð hefur verið fram í málinu. Að mati eignarnema hentar efnið illa til notkunar í burðarlag, en er hins vegar ákjósanlegt til notkunar í fyllingar auk þess sem það er hæft til frekari vinnslu og notkunar í malarslitlag. Samkvæmt orðsendingunni er verð á slíku efni utan markaðssvæða kr. 4,50 pr. m³. Eignarnemi hefur ekki kannað mögulega nýtingu efnisins í bundið slitlag, enda ekki fyrirsjáanleg þörf á slíku efni á svæðinu.

Eignarnemi bendir sérstaklega á að malarnáman sé fjarri öllum markaðssvæðum og ekkert liggi fyrir um eftirspurn eftir efni úr námunni af hálfu annarra aðila en eignarnema sjálfs. Eignarnemi telur að líta verði til þess við matið að hann er stærsti notandi malarefnis til mannvirkjagerðar á landinu og þar sem landeigendur geti almennt ekki sýnt fram á eftirspurn frá öðrum aðilum en eignarnema, sé eðlilegt að verð til eignarnema séu almennt lægri en aðrir eru tilbúnir til að greiða, vegna hins mikla magns sem um ræðir.

Eignarnemi heldur því fram að efni í námunni sé ekki lengur nýtt sem steypuefni, þar sem það uppfylli ekki núgildandi gæðakröfur auk þess sem góða steypuefnisnámu sé að finna skammt frá, eða í Örlygshöfn. Þá bendir eignarnemi á að malartakan muni ekki á neinn hátt takmarka möguleika eignarnámsþola á sölu efnis til annarra aðila.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að við mat á bótum fyrir hið eignarnumda malarefni verði litið til markaðsverðs sem gildir á stór-Reykjavíkursvæðinu. Eignarnámsþoli heldur því fram að söluverð jarðvegsfyllingarefna frá Björgun hf. nemi kr. 412- pr. m³ um þessar mundir og við það beri að miða, enda sé hið eignarnumda efni síst lakara efni. Eignarnámsþoli heldur því fram að Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins hafi metið efnið á þessu svæði sem mjög gott efni í steypu og því sé enginn grundvöllur fyrir því að selja efnið til uppbyggingar vega.

Eignarnemi krefst þess einnig að allur kostnaður við eftirlit með framkæmdum eignarnema og efnistökunni verði greiddur af eignarnema sjálfum, þ.e. laun eftirlitsmanns o.fl. Þá er þess krafist að allt efni úr námunni verði viktað af löggiltum viktaraðila svo fylgjast megi með því hversu mikið magn efnis tekið verði úr námunni.

Eignarnámsþoli bendir á að hann vilji ekki selja efnið eða leyfa neina röskun á landareigninni og að ekkert verð sé ásættanlegt nema hæsta verð á landinu á þeim tíma sem efnið er tekið.

VI. Álit matsnefndar:

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms sker Matnefnd eignarnámsbóta úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Störf nefndarinnar afmarkast af þessari lagagrein og eru því ekki efni til að taka kröfur eignarnámsþola er lúta að öðrum atriðum til greina í máli þessu.

Fallist er á það með eignarnema að malarnáman sé utan markaðssvæða þar sem ekki liggur neitt fyrir um eftirspurn annarra aðila eftir efni úr námunni. Ekki er fallist á það með eignarnámsþola að miða verð efnis við markaðsverð efnis á stór-Reykjavíkursvæðinu, enda stjórnast verðlag slíkra efna að miklu leyti af framboði og eftirspurn. Allt að einu þykir verð það sem fram kemur í orðsendingu eignarnema ekki gefa raunhæfa mynd af verðmæti efnisins m.t.t. þess rasks sem efnistakan hefur í för með sér, auk þess sem ekki er útilokað að efnið megi nýta í annað en fyllingarefni, t.d. í slitlög, þó engin áform séu um það nú.

Efnisnáman er mjög aðgengileg fyrir eignarnema og hefur það áhrif til hækkunar.

Með vísan til þess sem að framan greinir þykja hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda malarefni vera kr. 100.000-. Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 40.000- í málskostnað og kr. 200.000- í kostnað við störf matsnefndarinnar í máli þessu.


ÚRSKURÐARORÐ


Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, Bergsveini Guðmundssyni, kt. 080636-3189, Sævangi 6, Hafnarfirði, kr. 100.000- í eignarnámsbætur og kr. 40.000- í málskostnað.

Þá greiði eignarnemi kr. 200.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.




_________________________________

Helgi Jóhannesson hrl.


Ragnar Ingimarsson, verkfr. Kristinn G. Jónsson, vskfr. og bóndi


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum