Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 130/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA 

 nr. 130/2015

 

Ár 2015, miðvikudaginn 1. apríl, er tekið fyrir mál nr. 32/2015; kæra A og B, dags. 12. janúar 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :


I.

Málavextir eru þeir að kærendur sóttu um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 26. maí 2014. Kærendum var birt ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar og ráðstöfun hennar sitt í hvoru lagi. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð var 1.838.646 kr. og var sú fjárhæð birt kærendum 11. nóvember 2014.

Með kæru, dags. 12. janúar 2015, hafa kærendur kært fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Kærendur krefjast þess að farið verði yfir útreikninga á skuldaleiðréttingu þeirra. Í kæru kemur fram að leiðréttingarfjárhæð þeirra sé ekki í samræmi við útreikninga þeirra. Kærendur greina frá því að þau hafi reiknað út að þau ættu að fá um 2.250.000 kr. Kærendur velta fyrir sér hvort innborgun að fjárhæð 2.000.000 kr. sem greidd hefði verið inn á lánið þann 2. nóvember 2009 hafi mögulega skekkt útreikningana.

 

II.

Ágreiningsefni máls þessa snýr að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014. Kæra verður skilin á þann veg að kærendur krefjist endurútreiknings og hækkunar útreiknaðrar leiðréttingarfjárhæðar án þess þó að þau bendi á ákveðin atriði sem þau telji röng í útreikningi eða forsendum ríkisskattstjóra.

Kærendur voru á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009, þ.e. leiðréttingartímabili 1. gr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, skuldarar að láni hjá bankanum x. nr. 1 (síðar lán nr. 1,2 hjá bankanum x).  Samkvæmt lið 5.2. í skattframtölum kærenda árin 2009 og 2010 var það lán alfarið til íbúðarkaupa. Hluta af fyrrgreindu leiðréttingartímabili, frá 1. janúar 2009 til 31. desember 2009, voru kærendur skuldarar að láni nr. 1 hjá bankanum x og var það lán tilgreint alfarið til íbúðarkaupa í lið 5.2 í skattframtali þeirra árið 2010. Bæði lánin voru lögð til grundvallar útreiknings leiðréttingarfjárhæðar.

Frá útreiknaðri leiðréttingarfjárhæð lána kærenda eru dregnar samtals 72.438 kr. vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu, sbr. f-lið sömu lagagreinar.

Í 7. gr. laga nr. 35/2014 er fjallað um útreikning á leiðréttingu einstaklings. Í 1. mgr. kemur fram að útreikningur á leiðréttingu hvers láns, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna, miðist við mismun raunverðbóta og leiðréttra verðbóta. Samkvæmt 2. mgr. skal við útreikning skv. 1. mgr. miða við að lánið hafi verið í fullum skilum miðað við það greiðsluflæði og þá lánaskilmála sem í gildi voru við upphaf leiðréttingartímabils þess, sbr. 1. mgr. 3. gr., að frádregnum umframgreiðslum sem kunna að hafa verið greiddar á tímabilinu. Útreikningurinn skal einnig miðaður við þannig reiknaðan höfuðstól í lok leiðréttingartímabils lánsins. Tekið er fram að með greiðsluflæði sé átt við samtölu afborgana og vaxta, án verðbóta, sem bar að greiða að teknu tilliti til umframgreiðslna. Í 3. mgr. segir að á greiðsluflæðið og reiknaða höfuðstólinn í lok leiðréttingartímabils láns séu reiknaðar verðbætur samkvæmt verðtryggingarvísitölu lánsins og teljist samtala þessara verðbóta raunverðbætur við útreikninginn. Í 4. mgr. kemur fram að á greiðsluflæðið og reiknaða höfuðstólinn í lok leiðréttingartímabils láns séu einnig reiknaðar verðbætur út frá viðmiðunarvísitölu og telst samtala þessara verðbóta leiðréttar verðbætur við útreikninginn. Í 5. mgr. kemur fram að leiðrétting einstaklings og hámark hennar ráðist af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins. Samkvæmt 6. mgr. skal heildarsamtala útreiknaðrar leiðréttingar einstaklings, hjóna, sambýlisfólks sem uppfyllir skilyrði til samsköttunar vegna hjúskaparstöðu sinnar og tveggja eða fleiri einstaklinga sem áttu í sameign heimili að hámarki verða 4 milljónir kr.

Um útreikningana er fjallað nánar í reglugerð nr. 698/2014 um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar kemur fram í 1. mgr. 4. gr. að viðmiðunarvísitölur skv. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 miðist við 5,8% hækkun á ársgrundvelli. Þannig verði hvert gildi viðmiðunarvísitölu láns jafnt og síðasta gildi á undan margfaldað með 1,058 í veldinu einn deilt með tólf. Tekið er fram í 2. mgr. að öll lán skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 skuli reikna sem eina heild miðað við þá lánaskilmála sem voru í gildi við upphaf leiðréttingartíma viðkomandi láns, óháð því hvort lán hafi færst á milli kröfuhafa eða innheimtuaðila á leiðréttingartímabilinu. Í 3. mgr. segir að fjárhæð leiðréttingar einstaklings og hámark hennar ráðist skv. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Ef breytingar hafi orðið á á högum umsækjanda, einu sinni eða oftar, sbr. 1. málsl., á leiðréttingartímabilinu skal útreikningur leiðréttingar miða við að breytingin taki gildi í sama mánuði. Að lokum segir í 4. mgr. að heildarsamtala fjárhæðar útreiknaðrar leiðréttingar hvers heimilis geti að hámarki orðið 4 millj. kr. Við útreikning á hámarki leiðréttingar hvers heimilis skuli, eftir atvikum, skipta fjárhæð leiðréttingar í samræmi við breytingar á hjúskapar- eða heimilisstöðu hvers einstaklings á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins.

Í 8. gr. laga nr. 35/2014 er fjallað um frádráttarliði einstaklings. Þar segir í 1. mgr. að frá þeirri fjárhæð sem ákvarðist skv. 7. gr. skuli draga samtölu hlutdeildar einstaklings í niðurfellingu vegna fasteignaveðlána sem hafa glatað veðtryggingu í kjölfar nauðungarsölu eða annarrar ráðstöfunar eignar eftir 1. janúar 2008. Hið sama eigi við um endanlega niðurfellingu fasteignaveðlána, sérstaka vaxtaniðurgreiðslu, ákvarðaðar lánsveðsvaxtabætur og önnur fjárhagsleg úrræði fyrir atbeina stjórnvalda samkvæmt eftirfarandi upptalningu:

a. Niðurfelling veðkrafna í kjölfar afmáningar fasteignaveðkrafna skv. 12. gr. laga nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

b.  Niðurfelling fasteignaveðkrafna sem mælt er fyrir um í samningi um sértæka skuldaaðlögun skv. 2. gr. laga nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, sbr. samkomulag um verklagsreglur um sértæka skuldaaðlögun, dags. 31. október 2009, með breytingum, dags. 22. desember 2010.

c. Lækkun skulda samkvæmt eða í tilefni af samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, dags. 15. janúar 2011, sbr. einnig ákvæði til bráðabirgða XIV í lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, sbr. 1. gr. laga nr. 29/2011, óháð því hvort sótt hefur verið sérstaklega um slíka lækkun eða hún framkvæmd að frumkvæði lánveitanda.

d. Niðurfelling fasteignaveðkrafna í kjölfar greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga. Gildir þetta þrátt fyrir ákvæði 33. gr. laga nr. 101/2010.

e.  Niðurfelling fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum nr. 103/2010, um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota. Gildir þetta þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 103/2010.

f.  Sérstök vaxtaniðurgreiðsla samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XLII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 6. gr. laga nr. 164/2010.

g.  Ákvarðaðar lánsveðsvaxtabætur samkvæmt ákvæði til bráðabirgða LII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 43/2013.

Í 2. mgr. sömu lagagreinar segir að þá skuli önnur almenn lækkun eða niðurfelling fasteignaveðkrafna sem lögaðilar skv. 1. mgr. 2. gr. laganna framkvæmdu frá og með 1. janúar 2008 og var sambærileg þeim úrræðum sem getur í b- og c-lið 1. mgr. og ekki telst til tekna samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXXVII í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, dregin frá þeirri fjárhæð sem ákvarðast skv. 7. gr. Í 3. mgr. segir að frádráttur einstaklings skv. 1. og 2. mgr. taki mið af hjúskapar- eða heimilisstöðu, sbr. 6. mgr. 7. gr., eins og hún var við framkvæmd niðurfellingar.

Í 1.-3. mgr. 9. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram að leiðréttingarfjárhæð umsækjanda skv. 2. mgr. 4. gr. sé samtala fjárhæðar einstaklinga skv. 7. gr. að teknu tilliti til frádráttarliða einstaklinga skv. 8. gr. og sé að hámarki 4 milljónir kr. á hvert heimili hvort sem um er að ræða einstaklinga, hjón eða sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði til samsköttunar vegna hjúskaparstöðu sinnar í árslok 2013, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá fjárhæð skal hvorki verðbæta né vaxtareikna.

   

III.

Í ljósi framangreindra lagaákvæða hefur úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána endurreiknað leiðréttingarfjárhæð kærenda með sjálfstæðum hætti. Þar sem kærendur hafa ekki, þrátt fyrir áskoranir, mótmælt einstökum forsendum ríkisskattstjóra, s.s. um lán til grundvallar útreikningi, hjúskaparstöðu eða frádráttarliðum eru þeir lagðir til grundvallar. Helstu niðurstöðutölur útreikninga nefndarinnar eru sem hér segir:

 

          hlutfall til umsækjandi maki
  lán lánsnúmer: lánveitandi leiðrétting íbúðakaupa 50% 50%
  1 (1) x banki 1.856.334 100% 928.167 928.167
  2 (2) x banki 54.748 100% 27.374 27.374
        Leiðrétting lána samtals: 955.541 955.541
               
  fyrri leiðréttingar veitandi   upphæð    
  Sérstök vaxtaniðurgr. Ríkissjóður   72.438 36.219 36.219
               
               
               
        Frádráttur samtals 36.219 36.219
               
  Niðurstaða leiðréttingar að teknu tilliti frádráttar:   919.322 919.322
               
           

Ljóst er af útreikningum nefndarinnar að útreiknuð fjárhæð leiðréttingar kærenda hjá ríkisskattstjóra er samtals 1.838.646 kr. og í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Sér í lagi hefur innborgun kærenda að fjárhæð 2.000.000 kr. ekki skekkt niðurstöðuna. Nánari sundurliðun útreikninga er að finna í fylgiskjali með úrskurði þessum. Ákvörðun ríkisskattstjóra um útreikning leiðréttingarfjárhæðar verður ekki hnekkt og er kröfu kærenda því hafnað. 

             

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda er hafnað


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum