Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 314/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 314/2016

Fimmtudaginn 13. október 2016

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 24. ágúst 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, synjun Reykjavíkurborgar, dags. 19. ágúst 2016, á umsókn hennar um styrk að fjárhæð 42.500 kr. á grundvelli a-liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 24. maí 2016, sótti kærandi um styrk hjá Reykjavíkurborg að fjárhæð 42.500 kr. á grundvelli a-liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg til greiðslu á einkakennslu á spjaldtölvu. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 3. júní 2016, með þeim rökum að umsóknin samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 19. ágúst 2016 og staðfesti synjunina á þeirri forsendu að aðstæður kæranda féllu ekki að skilyrðum 27. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. ágúst 2016. Með bréfi, dags. 25. ágúst 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 8. september 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. september 2016, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi ekki tök á að greiða sjálf fyrir kennslu á spjaldtölu. Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður kæruna þannig að þess sé krafist að synjun Reykjavíkurborgar um styrk að fjárhæð 42.500 kr. verði felld úr gildi.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að í a-lið 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að heimilt sé að veita sérstaka aðstoð í málum þar sem verið sé að veita markvissan stuðning. Aðstoðin miði að því að viðhalda árangri sem hafi náðst með stuðningsvinnu. Skilyrði sé að umsækjandi eigi í miklum félagslegum erfiðleikum.

Byggt er á því af hálfu Reykjavíkurborgar að ákvæði 27. gr. reglnanna sé heimildarákvæði sem beri að nota í undantekningartilfellum. Við mat á því hvort skilyrði a-liðar 27. gr. reglnanna sé uppfyllt sé litið til þeirrar vinnu sem verið hafi í málum umsækjanda undanfarin ár og sé tilgangur aðstoðarinnar að viðhalda þeim árangri sem hafi náðst. Þá sé það skilyrði að viðkomandi hafi átt í miklum félagslegum erfiðleikum. Það hafi verið mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar að aðstæður kæranda féllu ekki að a-lið 27. gr. reglnanna, þ.e. með því að veita fjárhagsaðstoð til þess að greiða fyrir einkakennslu á spjaldtölvu væri hvorki verið að veita markvissan stuðning né viðhalda árangri sem hafi náðst með stuðningsvinnu.

Með hliðsjón af framansögðu hafi það verið mat velferðarráðs að ekki væri unnt að veita sérstaka aðstoð vegna stuðningsvinnu og/eða annarra sérstakra aðstæðna og því hafi synjun um styrk verið staðfest.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um styrk að fjárhæð 42.500 kr. á grundvelli a-liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um sérstaka aðstoð vegna stuðningsvinnu og/eða annarra sérstakra aðstæðna. Samkvæmt a-lið 27. gr. er heimilt að veita sérstaka aðstoð í málum þar sem verið er að veita markvissan stuðning. Aðstoðin miðar að því að viðhalda árangri sem náðst hefur með stuðningsvinnu. Skilyrði er að umsækjandi eigi í miklum félagslegum erfiðleikum.

Umsókn kæranda var synjað á grundvelli þess að aðstæður hennar hafi ekki fallið að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 27. gr. framangreindra reglna. Við meðferð kærumáls þessa hefur komið fram af hálfu Reykjavíkurborgar að ekki sé unnt að líta svo á að það sé verið að veita markvissa stuðningsvinnu í máli kæranda. Þá kemur fram að með aðstoð til að greiða fyrir einkakennslu á spjaldtölvu væri ekki verið að viðhalda árangri sem náðst hafi með stuðningsvinnu.

Samkvæmt gögnum málsins þiggur kærandi ekki fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg en hefur þegið félagslega ráðgjöf og farið í viðtöl hjá sálfræðingi á þjónustumiðstöð. Að mati úrskurðarnefndarinnar benda gögn málsins ekki til þess að málefni kæranda hafi talist vera í markvissu ferli þegar hún sótti um styrk til greiðslu á einkakennslu á spjaldtölvu. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 27. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun á umsókn A, um styrk að fjárhæð 42.500 kr. á grundvelli a-liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum