Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 158/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 158/2016

Fimmtudaginn 27. október 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. apríl 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. febrúar 2016, um innheimtu ofgreiddra bóta.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun til 25. febrúar 2014 og fékk tekjur af hlutastarfi samhliða þeim greiðslum. Vegna framangreindra tekna fékk kærandi greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hún átti rétt á og því myndaðist endurgreiðslukrafa á hendur henni. Með innheimtubréfi, dags. 22. febrúar 2016, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda að hún greiddi skuld að fjárhæð 84.734 kr., að viðbættu 15% álagi, vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. desember 2013 til 28. febrúar 2014.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. maí 2016. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 6. júní 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að henni hafi ekki verið kunnugt um að hafa fengið ofgreiddar bætur frá Vinnumálastofnun fyrr en með innheimtubréfi í febrúar 2016. Vinnumálastofnun hafi hvorki haft samband við kæranda með tölvupósti né símleiðis. Kærandi bendir á að hún hafi verið á vinnumarkaði frá því í mars 2014 og því ekki haft neina ástæðu til að skrá sig inn á vef Vinnumálastofnunar. Það sé ljóst að samskiptamáti Vinnumálastofnunar sé ekki að virka sem skildi og það sé ekki réttlátt að hún þurfi að bera kostnað vegna þess. Það hafi aldrei verið ætlun hennar að taka við bótum umfram það sem hún hafi átt rétt á.

Kærandi vísar til þess að af greiðsluseðlum frá Vinnumálastofnun megi sjá að það hafi verið fyrst í febrúar 2014 sem skuld hennar við stofnunina hafi verið skráð en ekki í mánuðunum á undan þegar skuldin hafi raunverulega orðið til. Kærandi fer fram á að 15% álag á skuld hennar verði fellt niður þannig að skuldin verði lækkuð í 84.734 kr.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að málið varði innheimtu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum og eigi rætur sínar að rekja til áranna 2013 og 2014. Tekjur kæranda sem hún hafi fengið samhliða atvinnuleysisbótum hefðu jafnan verið hærri en þær upphæðir sem hún hafi tilkynnt til stofnunarinnar. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að unnt sé að kenna öðrum um misræmi á tekjuáætlun og rauntekjum hennar á þeim tíma sem hún hafi þegið atvinnuleysisbætur.

Vinnumálastofnun bendir á að krafa stofnunarinnar um endurgreiðslu sé byggð á 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt ákvæðinu beri atvinnuleitendum að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að viðbættu 15% álagi, en fella beri niður álagið ef atvinnuleitandi færi rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Með vísan til framangreindra sjónarmiða telji stofnunin að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að viðbættu 15% álagi, samtals að fjárhæð 97.444 kr.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar að fjárhæð 97.444 kr., að meðtöldu 15% álagi.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna. Í 1. mgr. 36. gr. segir meðal annars að þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða og atvinnuleysisbætur hans eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skuli skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildi um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu og elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þá segir í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í 35. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um tilhögun greiðslna atvinnuleysisbóta. Þar segir að atvinnuleysisbætur skuli greiddar fyrsta virka dag hvers mánaðar og þær skuli greiddar eftir á fyrir undanfarandi mánuð eða hluta úr mánuði þannig að miðist við fyrsta til síðasta dag viðkomandi mánaðar. Óumdeilt er að kærandi var í hlutastarfi samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta og að hún tilkynnti Vinnumálastofnun um tekjur sínar eftir á. Samkvæmt gögnum málsins lá fyrir tekjuáætlun vegna ársins 2013, en kærandi fékk greidd hærri laun fyrir flesta mánuði þess árs en tekjuáætlunin gerði ráð fyrir. Ekki lá fyrir tekjuáætlun fyrir árið 2014, en kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur fyrir janúar og febrúar 2014. Eftir að kærandi hafði skila inn upplýsingum um tekjur sínar fyrir hvern mánuð endurreiknaði Vinnumálastofnun atvinnuleysisbætur hennar og birti niðurstöðuna í samskiptakerfi stofnunarinnar „mínar síður“ sem kærandi hafði aðgang að og var í reglulegu sambandi við stofnunina með þeim hætti. Ljóst er að kæranda var tilkynnt um ofgreiðsluna við uppgjör hvers mánaðar í samskiptakerfi Vinnumálastofnunar og hver skuld hennar væri við stofnunina á hverjum tíma. Þá var einnig vísað til þess að frekari upplýsingar kæmu fram á greiðsluseðli. Það er mat úrskurðarnefndar velferðarmála að Vinnumálastofnun hafi komið upplýsingum um stöðu málsins á framfæri við kæranda og hefði henni því átt að vera fullkunnugt um að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Hins vegar skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur kærandi ekki fært fram fullnægjandi rök fyrir því að henni verði ekki kennt um þá annmarka sem leiddu til hinnar kærðu ákvörðunar. Því verður ekki fallist á kröfu kæranda að 15% álag á þá fjárhæð sem henni ber að endurgreiða verði fellt niður.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. febrúar 2016, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samtals að fjárhæð 97.444 kr. er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum