Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 326/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 326/2016

Fimmtudaginn 27. október 2016

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. september 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvarðanir Reykjavíkurborgar, dags. 25. maí 2016 og 1. júní 2016, á umsóknum hans um fjárhagsaðstoð aftur í tímann.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 28. apríl 2016, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg fyrir tímabilið 1. apríl til 25. apríl 2016. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 3. maí 2016, á þeirri forsendu að hún samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 25. maí 2016 og staðfesti synjunina. Með umsókn, dags. 12. maí 2016, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg fyrir tímabilið 1. mars til 31. mars 2016. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 18. maí 2016, á þeirri forsendu að hún samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 1. júní 2016 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 1. september 2016. Með bréfi, dags. 2. september 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 16. september 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. september 2016, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að erfitt hafi verið að ná sambandi við félagsráðgjafa hans en hann hafi hvorki svara tölvupóstum né fyrirspurnum. Kærandi eigi ekki að gjalda fyrir slæm vinnubrögð félagsráðgjafans. Þá bendir kærandi á að hann eigi heldur ekki að gjalda fyrir breytingar á reglum um hvenær skrifa eigi undir umsókn um fjárhagsaðstoð.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi hafi átt lögheimili í Reykjavík frá maí 2015 en hann sé að eigin sögn búsettur í B. Kærandi hafi þegið aðstoð frá þjónustumiðstöð og gert hafi verið við hann samkomulag um félagslega ráðgjöf.

Reykjavíkurborg tekur fram að um fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu gildi sú meginregla að umsækjandi fái aðeins greidda fjárhagsaðstoð geti hann ekki framfleytt sér sjálfur. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, sbr. og 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.

Í 7. gr. reglnanna sé kveðið á um skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð aftur í tímann, en þar komi fram að ekki sé skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn sé lögð fram, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991. Rökstuddar ástæður þurfi að liggja að baki ef aðstoð sé veitt aftur í tímann og skilyrði reglnanna fyrir fjárhagsaðstoð verði að vera uppfyllt allt það tímabil sem sótt sé um. Það hafi verið mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 7. gr. reglnanna þar sem engar rökstuddar ástæður hafi legið til grundvallar því að aðstoð yrði veitt aftur í tímann. Kærandi hafi fyrst haft samband við þjónustumiðstöð þann 20. apríl 2016 og óskað eftir því að fá að ræða við ráðgjafa. Kæranda hafi þá verið bent á að hafa samband á símatíma sem hann hafi ekki gert sökum þess að hann hafi sofið tímann af sér. Að lokum hafi ráðgjafi haft samband við kæranda sem hafi í kjölfarið sótt um fjárhagsaðstoð aftur í tímann.

Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi velferðarráð talið að synja bæri umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð aftur í tímann fyrir tímabilin 1. mars til 31. mars 2016 og 1. apríl til 25. apríl 2016 á grundvelli 7. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Ljóst sé að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð aftur í tímann fyrir tímabilið 1. mars 2016 til 25. apríl 2016.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 3. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991 kemur fram að aldrei sé skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram. Í 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er samhljóða ákvæði, auk þess sem þar er einnig gert að skilyrði að rökstuddar ástæður verði að réttlæta aðstoð aftur í tímann og verði skilyrðum fjárhagsaðstoðar að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt er um.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að reynst hafi örðugt að ná sambandi við félagsráðgjafa á þjónustumiðstöð en hann eigi ekki að gjalda fyrir slæm vinnubrögð félagsráðgjafans. Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram að kærandi hafi fyrst haft samband við þjónustumiðstöð þann 20. apríl 2016 og óskað eftir því að fá að ræða við ráðgjafa.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við það mat Reykjavíkurborgar að ekki séu til staðar rökstuddar ástæður sem réttlæti fjárhagsaðstoð aftur í tímann til handa kæranda. Úrskurðarnefndin bendir á að samkvæmt 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð skal umsókn um fjárhagsaðstoð undirrituð á sérstakt umsóknareyðublað og lögð fram hjá þjónustumiðstöð. Samkvæmt því er ekki nauðsynlegt að hafa samband við starfsmann þjónustumiðstöðvar til þess að sækja um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Verður því ekki séð að vinnubrögð félagsráðgjafa kæranda, eins og kærandi lýsir, hafi valdið því að hann hafi ekki sótt fyrr um fjárhagsaðstoð. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 7. gr. reglnanna. Hinar kærðu ákvarðanir eru því staðfestar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Reykjavíkurborgar, dags. 25. maí 2016 og 1. júní 2016, á umsóknum A, um fjárhagsaðstoð aftur í tímann eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum