Hoppa yfir valmynd

Nr. 592/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 26. október 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 592/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17070035

Kæra […]

og barns hennar

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 17. júlí 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefnd kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 3. júlí 2017 um að synja kæranda og barni hennar, […] fd. […], um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér ásamt eiginmanni sínum og barni.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að henni og barni hennar verði veitt staða flóttamanna og þeim veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda og barni hennar verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda og barni hennar verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd fyrir sig og barn sitt hér á landi þann 5. nóvember 2016. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 21. apríl 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum dags. 3. júlí 2017 synjaði Útlendingastofnun kæranda og barni hennar um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru þær ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 17. júlí 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 14. ágúst 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hún umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún og barn hennar séu í hættu vegna þess að hún sé […] og stafi af þeim sökum ógn af aðilum á borð við […] . Auk þess hafi hún ekki að neinu að hverfa snúi hún aftur til […] enda eigi hún þar hvorki eignir né tengslanet.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið skv. 74. gr. og 78. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barns kæranda, kom fram að það væri svo ungt að árum að ekki yrði talið tilefni til að taka viðtal við það. Fram kom að umsókn barns kæranda væri grundvölluð á framburði foreldra þess og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðunum foreldra hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnsins og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli foreldra þess, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, útlendingalaga og barnaverndarlaga, að barni kæranda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis. Barni kæranda var vísað frá landinu.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli d -liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að ástæða flótta hennar frá heimaríki sé að henni stafi ógn af öfgafullum íslamistum. Kærandi hafi alist upp á munaðarleysingjahæli í […] fylki í […], en móðir kæranda hafi fallið frá þegar hún hafi verið ung. Jafnframt hafi faðir hennar yfirgefið hana og systur hennar á þessum tíma. Við 16 ára aldur hafi kærandi gifst […] og hafi þau flutt til borgarinnar […] í […] fylki í norðausturhluta […]. Árið 2010 hafi kærandi, fjölskylda hennar og […] þegar [...] hafi hafið skothríð á […]. Á þessum tíma hafi kærandi verið barnshafandi og hafi mennirnir frelsissvipt kæranda, börn hennar, eiginmann og annan […]. [...]. Mennirnir hafi skipað eiginmanni kæranda að hafa sig á brott og hætta að […]. Þegar hann hafi neitað hafi þeir pyntað hann m.a. með því að brenna hann og að lokum hafi þeir myrt hann. Eftir að mennirnir hafi yfirgefið […] hafi þeir ráðist á aðra […] á svæðinu. Í kjölfarið hafi kærandi ákveðið að flýja með eftirlifandi börnin sín til borgarinnar […] í norðvesturhluta […]. Kærandi kveður lögregluna í heimaríki hennar ekki hafa útbúnað til að veita íbúum vernd gagnvart [...]. Hafi lögreglan ekki komið kæranda og fjölskyldu hennar til bjargar meðan á árásinni hafi staðið.

Í […] hafi kærandi og börn hennar þurft að betla mat á götunni. Dag einn hafi kærandi komið auga á mann í verslun í borginni. Hafi kærandi beðið hann um að kaupa mat fyrir sig og börn sín. Hafi maðurinn orðið við beiðni kæranda. Þá hafi hann einnig boðið þeim húsaskjól heima hjá sér. Í ágúst [...] hafi kærandi og maðurinn gengið í hjónaband. Eiginmaður kæranda hafi rekið verslun með snyrtivörum á markaði í […]. Hafi kærandi selt mat fyrir framan verslunina með aðstoð elstu dóttur sinnar. Í maí [...] hafi sprenging orðið á markaðnum. Ekki sé vitað fyrir víst hver hafi verið valdur að sprengingunni en kærandi kveðst hafa heyrt að […] hafi borið ábyrgð á ódæðinu. Í kjölfar sprengingarinnar hafi átök breiðst út um borgina og hópar farið ránshendi og unnið skemmdaverk á húsum og öðrum eigum fólks. Hafi kærandi, elsta dóttir hennar og eiginmaður öll orðið fyrir áverkum í sprengingunni. Hafi þeim verið komið á spítala í borginni […] í nágrannaríkinu […], en hin börn kæranda hafi orðið eftir hjá systur kæranda í […]. Fregnir hafi borist kæranda og eiginmanni hennar þess efnis að bæði vinnustaður þeirra á markaðinum og heimili þeirra hafi verið lagt í rúst. Hafi kærandi, dóttir hennar og eiginmaður dvalið um tíma í […] þar sem þau hafi ekki talið öruggt að snúa aftur til […]. Erfitt hafi verið fyrir kæranda og eiginmann hennar að sjá fyrir fjölskyldunni í […] og hafi þau af þeim sökum ákveðið að ferðast til […]. Í […] hafi kærandi og dóttir hennar fengið vinnu við þrif og hárgreiðslu. Jafnframt hafi eiginmaður kæranda starfað við að leggja flísar í hús. Í fyrstu hafi allt gengið vel í [...] en árið [...] hafi bæði kærandi og eiginmaður hennar hætt að fá greitt fyrir vinnu sína. Í kjölfarið hafi kærandi og dóttir hennar orðið fyrir aðkasti og líkamsmeiðingum af hálfu fólks sem hafi ætlast til þess að þær myndu vinna fyrir sig án þess að fá greitt fyrir. Hafi ungir menn sem kalli sig „[…]“, og séu eins konar mafía í […], ráðist á mæðgurnar og rænt þær. Þá hafi dóttir kæranda verið numin á brott af mannræningjum sem hafi hótað að drepa hana ef kærandi og eiginmaður hennar greiddu ekki lausnargjald. Í mars árið [...] hafi fólk komið heim til kæranda og krafist þess að eiginmaður kæranda kæmi út úr húsi þeirra. Þegar eiginmaður kæranda hafi neitað hafi einstaklingarnir hafið skothríð á hús kæranda. Hafi vinur þeirra að nafni […] komið kæranda og fjölskyldu hennar til bjargar. Kærandi og eiginmaður hennar hafi ekki talið sig óhult á heimilinu eftir þetta og um tíma hafi kærandi og dóttir hennar dvalið á heimili […]. Hafi eiginmaður kæranda á þessum tíma dvalið hjá öðrum kunningja. […] hafi að lokum gert ráðstafanir til að koma kæranda, dóttur hennar og eiginmanni úr landi og til Ítalíu. Á Ítalíu hafi þeim verið veitt vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Hafi [...] ára dóttir kæranda horfið þegar fjölskyldan dvaldi á Ítalíu og hafi kærandi engar upplýsingar um hvar hún sé niðurkomin. Börn kæranda sem hafi orðið eftir í […] dvelji hjá systur kæranda sem flytji á milli staða í […] í von um launaða vinnu.

Kærandi heldur því fram í greinargerð að hún njóti ekki verndar yfirvalda eða lögreglu í […], enda hafi lögreglan ekki burði til að veita […] viðnám. Kærandi og fjölskylda hennar hafi búið í norðurhluta […], en þar sé […] fólk í miklum minnihluta og hafi öfgahópar á borð við […] til langs tíma ofsótt […] fólk. Kærandi eigi engar eignir í heimalandi sínu né heldur vísan stuðning ættingja eða annars fólks.

Í greinargerð er fjallað um aðstæður í […]. Því er haldið fram að frásögn kæranda af ástandinu í […] árið sem þau hafi flúið þaðan komi heim og saman við heimildir frá þeim tíma. Ástand mannréttindamála í […] sé afar slæmt og m.a. hafi hryðjuverkahópurinn […] gerst sekur um gróf mannréttindabrot og þá einkum í [...] landsins. Refsilöggjöf landsins sé ábótavant og engin alríkislög séu í gildi í heimaríki kæranda sem banni ofbeldi gegn konum. Jafnframt sé heimilisofbeldi algengt og samfélagslega viðurkennt í […]. Hafi stjórnvöld í landinu reynt að breyta þessu viðhorfi og koma á alríkislöggjöf sem snúi að ofbeldi gegn konum, en einungis fáein fylki einkum í suðurhluta […] hafi samþykkt þessa löggjöf. Í greinargerð kæranda er einnig fjallað um stöðu barna í […], en fjölmörg […] börn séu heimilislaus og hafist við á götunni. Af þeim tæplega [...] milljónum einstaklinga sem séu vegalausir innan […] (IDP‘s) séu börn undir 18 ára um 55% þeirra. Barnaþrælkun sé útbreidd í landinu og samkvæmt skýrslu [...] hafi opinberir aðilar áætlað að um [...] milljón börn séu þátttakendur í barnaþrælkun og þar af um [...] milljónir barna við vinnu sem talin sé hættuleg. Samkvæmt sömu skýrslu sé almenna skólakerfið í […] ófullnægjandi og skortur á aðstöðu geri það að verkum að mörg börn séu útilokuð frá skólakerfinu. Í norðurhluta landsins sé hæsta hlutfall barna á skólaaldri sem séu ekki skráð í viðurkennda skóla, um 35-45%, þar sé m.a. talið að aðgerðir […] komi í veg fyrir að börn sæki sér menntun.

Í greinargerð kæranda er jafnframt fjallað um [...] […]. Kærandi hafi lýst ofbeldisfullum atvikum sem hún hafi þurft að ganga í gegnum í heimaríki sínu. Sé því ljóst að kærandi og fjölskylda hennar eigi á hættu að verða fyrir frekari ofbeldi og mannréttindabrotum verði þeim gert að snúa aftur til […]. Samkvæmt framangreindu eru kærandi og barn hennar flóttamenn skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og ber að veita þeim alþjóðlega vernd á Íslandi. Einnig byggir kærandi á 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, en samkvæmt ákvæðinu á maki útlendings sem nýtur alþjóðlegrar verndar og börn hans yngri en 18 ára einnig rétt á vernd nema sérstakar ástæður mæli gegn því.

Þá heldur kærandi því fram í greinargerð að börn teljist til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd. Því til stuðnings vísar kærandi til 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, 1. mgr. 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga sem kveði m.a. á um að ávallt skuli það sem barni sé fyrir bestu hafa forgang þegar ákvarðanir séu teknar um málefni þess.

Varðandi varakröfu kæranda kemur fram í greinargerð að með vísan til ótryggs ástands í […], en ófriðarástand ríki í [...] landsins, séu kærandi og barn hennar sérstaklega berskjölduð fyrir slíkri ógn enda tilheyri þau minnihlutahópi sem markvisst sé gerður að skotmarki öfgafullra íslamista. Stjórnvöld hafi með aðgerðarleysi sínu gegn íslömskum öfgahópum sýnt að þau hafi hvorki getu né vilja til að vernda kæranda og barn hennar. Af ofangreindu sé ljóst að aðstæður kæranda og barns hennar uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því geri kærandi þá kröfu að þeim verði veitt viðbótarvernd.

Varðandi þrautavarakröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er í greinargerð vísað til athugasemda með frumvarpi með sömu lögum. Með hliðsjón af framangreindri umfjöllun um aðstæður kæranda og fjölskyldu hennar í […] telur kærandi skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Að lokum kemur fram í greinargerð kæranda að við mat á því hvort einstaklingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta upprunalands þurfi að fara fram einstaklingsbundið mat á persónulegum aðstæðum viðkomandi og þeim aðstæðum sem séu í landinu. Kærandi ítrekar að hún eigi engar eignir í […] og njóti ekki stuðning ættingja eða annars fólks, en kærandi hafi alist upp á munaðarleysingjahæli ásamt systur sinni eftir að móðir þeirra hafi látist. Kærandi kveður ekki mögulegt fyrir sig að flytjast um set innan […] þar sem hún sé hvergi örugg, en eins og komið hafi fram sé eins konar refsileysisstefna í gildi í öllu landinu gagnvart […] ofbeldi. Kærandi telur það annmarka á ákvörðun Útlendingastofnunar að henni hafi ekki verið veitt augljós og fullnægjandi tilkynning um að stofnunin væri að kanna möguleika á flutningi innanlands. Samkvæmt leiðbeiningum Flóttamannastofnunnar er gerð krafa um að umsækjenda sé gefinn augljós og fullnægjandi tilkynning um að viðkomandi stjórnvald sé að íhuga þann möguleika hvort flutningur innanlands teljist raunhæft og sanngjarnt úrræði.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga með áorðnum breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Kærandi hefur ekki lagt fram gögn til að sýna fram á auðkenni sitt og barns síns. Kærandi kveðst vera fædd og uppalin í […] fylki í […]. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var leyst úr auðkenni kæranda á grundvelli trúverðugleikamats og lagt til grundvallar að kærandi væri frá […]. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að kærandi og barn hennar séu […] ríkisborgarar.

Réttarstaða barns kæranda

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að barn það sem hér um ræðir er í fylgd foreldra sinna og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[…]

Efnahagur ríkisins byggist aðallega á útflutningi hráolíu. Þrátt fyrir að olían hafi fært […] mikil auðæfi þá búi meirihluti íbúa landsins við fátækt. Misskipting auðs sé mikil í […] og fjárhagur íbúanna virðist vera mismunandi eftir landshlutum og trúarbrögðum. Mikil óánægja sem tengist efnahag landsins ríki í landinu sem talin sé ein orsök átakanna sem þar geisi. Þá kemur fram að […], einkum í […] og […]. Íbúar landsins hafi þurft að þola mannskæðar árásir af völdum samtakanna en þau tengist samtökum á borð við […] og […]. Þá hafi […] lögreglan, öryggissveitir og stjórnarher barist gegn […] , en spilling í öllum hlutum stjórnkerfisins, pólitískur óstöðugleiki og mannréttindabrot hafi hindrað framgang þeirra. Efling […] í norðurhluta […] hafi leitt til talsverðar eyðileggingar á þessum svæðum. Þá séu þúsundir manna særðir eða látnir og hafi um [...] milljónir […] lagt á flótta frá [...]. Dæmi séu um að öryggisþjónusta landsins hafi gerst sek um tilhæfulaus manndráp, pyndingar og óréttmætar fangelsanir. Árið 2015 hafi verið forsetakosningar í [...]. Úrslitum kosninganna hafi verið fagnað þar sem […] hafi verið talinn líklegri til þess að stöðva framgang […] en fyrirrennari hans. Hafi […] miðað áfram í baráttunni gegn […] . Síðastliðið ár hafi yfirvöld hert á sókninni gegn samtökunum og haldi stjórnvöld í landinu því fram að stutt sé í uppgjöf […] . Á næstu vikum eigi um [...] einstaklingar grunaðir um þátttöku í íslömskum öfgahópum að mæta fyrir […] dómstóla. Hafi þegar [...] einstaklingar verið sakfelldir fyrir þátttöku sína í […] og hafi þeir verið dæmdir í allt frá þriggja til þrjátíu og eins árs fangelsi. Vegna öryggis hafi stjórnvöld ákveðið að halda leynd yfir réttarhöldunum og muni fjórir dómarar dæma í hundruðum mála. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað er erfitt að staðfesta hvaða svæði séu undir stjórn hryðjuverkasamtakanna […] í dag, en allt bendi til þess að samtökin hafi enn þá einhver ítök í […] og […] fylki í norðausturhluta […].

Af gögnunum má einnig ráða að spilling sé mikið vandamál í […], þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Samkvæmt skýrslu [...] frá árinu 2016 er gert ráð fyrir að um helmingur íbúa landsins séu múslimar og hinn helmingurinn kristinn. Þá komi fram að trúfrelsi sé verndað í stjórnarskrá […] og einnig sé að finna ákvæði sem banni stjórnvöldum að koma á ríkistrú. Flestir íbúar svæða í […] séu múslimar og í […] séu kristnir í meirihluta. Bæði kristnir og múslimar hafi greint frá mismunun á grundvelli trúar sinnar á þeim svæðum þar sem þeir séu í minnihluta.

Ákvæði 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á ástandinu í […] og ofsóknum á grundvelli […] af hálfu […] .

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimaríki sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013). Kærunefnd lítur svo á að skoða beri tilkall kæranda til stöðu flóttamanns út frá aðstæðum hennar og barns hennar á því svæði þar sem þau bjuggu áður en þau lögðu á flótta innan […] og því svæði sem þau flúðu til innan heimaríkis.

Kærandi kveðst hafa búið í […], sem er í […], frá árinu [...] þar til hún hafi flúið þaðan til borgarinnar […] í […] árið [...]. Kærandi kvaðst hafa orðið fyrir ofbeldi og hótunum af hálfu öfgafullra [...] í […] vegna þess að hún hafi verið […]. Þessir aðilar hafi einnig myrt fyrri eiginmann hennar og barn þeirra. Í alþjóðlegum skýrslum kemur fram að […] hafi á árunum [...] heyrt til mannskæðustu hryðjuverkasamtaka í […]. Árið [...] hafi […] herinn sótt hart að samtökunum og hafi þau þurft að hörfa frá landsvæðum sem samtökin hafi barist við […] stjórnvöld um yfirráðin yfir í mörg ár. Þá hafi yfir [...] milljónir manna lagt á flótta innanlands eða til nágrannaríkjanna […], […] og […].

Í […] hafi kærandi kynnst núverandi eiginmanni sínum. Árið [...] hafi kærandi, eiginmaður hennar og dóttir orðið fyrir áverkjum í sprengjuárás og í kjölfarið hafi átök brotist út í borginni. Þó kærandi viti það ekki fyrir víst þá telji hún öfgafulla [...] hafa borið ábyrgð á átökunum í […].

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar má rekja upphaf samtakanna […] til borgarinnar […]. Í kjölfar uppreisnar samtakanna árið [...] hafi milljónir manna þurft að flýja heimili sín í […] vegna ótta við árásir hryðjuverkasamtakanna. Samtökin hafi aukið umsvif sín í [...] landsins í kjölfar uppreisnar árið [...] og hafi meðlimir […] ofsótt [...] á svæðinu og alla þá sem hafi staðið upp á móti samtökunum. Hafi […] barist fyrir stofnun […]. […].

Útlendingastofnun mat frásögn kæranda trúverðuga. Með vísan til gagna málsins hefur kærunefnd ekki forsendur til annars en að byggja á því mati. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er ljóst að hryðjuverkasamtökin hafi átt upptök sín í borginni […] þar sem kærandi hafði búsetu. Framburður kæranda fær stoð í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað en þar kemur fram að árið [...] hafi […] framkvæmt fjölda árása um alla […] þ. á m. sprengjuárás í borginni […].

Verður því fallist á að það ofbeldi sem kærandi kveður að hún og fjölskylda hennar hafi orðið fyrir í […] árið [...] hafi verið á grundvelli […] þeirra og nái því alvarleika stigi að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 2. mgr. 38. gr. laganna. Þá telur kærunefnd að það ofbeldi sem kærandi varð fyrir í borginni […] teljist ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð í skilningi 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur að þó að stjórnvöldum í […] hafi að einhverju marki tekist að draga úr þeirri hættu sem stafi af […] í [...]hluta landsins sé varhugavert að telja að ástandið á því svæði hafa breyst það verulega til batnaðar að óhætt sé fyrir kæranda og barn hennar að snúa aftur þangað. Að mati kærunefndar hafa kærandi og barn hennar á nægilega skýran hátt sýnt fram á að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga verði þau send til þess svæðis innan heimaríkis sem kærandi dvaldi á áður en hún flúði landið. Þá telur kærunefnd þau jafnframt eiga á hættu að vera í þeirri aðstöðu sem 2. mgr. 37. gr. laganna fjallar um verði þau send til baka til umrædds svæðis.

Við þetta mat hefur kærunefnd litið til þeirra atvika sem kærandi kveðst hafa orðið til þess að hún hafi flúið […] og […] sem og til öryggis og velferðar barns kæranda, sbr. 2. mgr. 10. gr. og 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur að þó að þeir aðilar sem valdir séu að ofsóknunum og því ofbeldi sem kærandi varð fyrir teljist ekki vera á vegum stjórnvalda […] hafi á nægilega skýran hátt verið sýnt fram á að […] ríkið hafi ekki getað veitt kæranda og fjölskyldu hennar vernd gegn, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Að þessu virtu er það mat kærunefndar að kærandi og barn hennar uppfylli skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi. Kemur því næst til athugunar hvort innri flutningur sé tækt úrræði fyrir kæranda og hvort útilokunarástæður eigi við í málinu.

Mat á möguleika á flutningi innanlands

Í 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga segir að ef útlendingur getur fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimalands síns en hann flúði frá, viðkomandi getur ferðast þangað á öruggan og löglegan hátt og hægt er með sanngirni að ætlast til þess af viðkomandi að hann setjist að á því svæði getur verið að 1. og 2. mgr. eigi ekki við í þeim tilvikum og hann teljist ekki flóttamaður. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga segir m.a. að beiting ákvæðisins geti aðeins komið til sem hluti af mati á því hvort viðkomandi einstaklingur teljist flóttamaður og geti því ekki verið grundvöllur fyrir synjun á því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Niðurstaða um hvort útlendingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta heimalands geti aðeins verið byggð á einstaklingsbundnu mati á persónulegum aðstæðum útlendingsins og þeim aðstæðum sem séu í því landi. Við mat á því hvort hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að útlendingur setjist að á því svæði sem talið er öruggt samkvæmt ákvæði þessu skuli tekið tillit til ýmissa þátta, svo sem aldurs, kyns, heilsu, fjölskylduaðstæðna, trúar, menningar sem og möguleika viðkomandi útlendings á vinnu eða menntun. Við mat samkvæmt ákvæðinu skuli m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Guidelines on International Protection: „Internal Flight or Relocation Alternative“ within the Context og Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relating to the Status of Refugees, frá 23. júlí 2003).

Í leiðbeiningunum, sem varða möguleika á flutningi innanlands þegar einstaklingur hefur flúið heimaríki af ástæðuríkum ótta við ofsóknir, er lagt til grundvallar að mat á því hvort möguleiki sé á að einstaklingur geti flust búferlum til annars svæðis í heimaríki sé tvíþætt. Annars vegar verði að kanna hvort flutningur innanlands sé raunhæft úrræði. Að því er mál kæranda varðar kemur í þessu sambandi einkum til athugunar hvort það svæði sem lagt er til að hún flytjist til sé aðgengilegt á öruggan og löglegan hátt og hvort flutningur hennar þangað skapi hættu á að kærandi verði fyrir ofsóknum eða alvarlegum skaða. Hins vegar beri að kanna hvort viðkomandi geti, með hliðsjón af aðstæðum í heimaríki hans, lifað tiltölulega eðlilegu lífi án þess að standa frammi fyrir óþarfa erfiðleikum. Við þann þátt matsins verður m.a. að horfa til persónulegra aðstæðna viðkomandi, t.a.m. félags- og efnahagslegra aðstæðna á því svæði sem lagt er til. Í leiðbeiningunum segir m.a. um síðastnefnt atriði að það sé ósanngjarnt að ætlast til þess að lífsviðurværi einstaklings verði lægra en það sem talist geti viðunandi eða að viðkomandi búi við eymd. Í leiðbeiningunum kemur einnig fram að andleg áföll tengd fyrri ofsóknum gætu leitt til þess að flutningur innanlands teljist ekki tækur.

Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér kemur fram að hryðjuverkasamtökin […] hafi á árunum [...] framkvæmt mörg hryðjuverk og aðrar stórfelldar árásir víðs vegar um […]. Árið [...] hafi samtökin komið á [...] ríki á því landsvæði sem þau hafi lagt undir sig […]. Í forsetakosningunum [...] í […] hafi nýr forseti tekið við embættinu og síðan þá hafi stjórnvöld með hjálp stjórnarhers […] sótt hart að […]. Hafi framgangur […] stjórnarhersins í kjölfar forsetakosninganna orðið til þess að hryðjuverkasamtökin […] hafi þurft að hörfa frá þeim landsvæðum sem þau hafi lagt undir sig.

Í dag séu mörg hundruð meðlimir samtakanna í haldi […] stjórnvalda. Þegar hafi [...] einstaklingar verið sakfelldir fyrir þátttöku sína í […] og sé fyrirhugað að ákæra um [...] einstaklinga sem séu grunaðir um að tilheyra [...] hryðjuverkasamtökum. Hafi […] stjórnvöld fullyrt að stríðið gegn […] sé á enda og að eftirlifandi meðlimir samtakanna séu í felum einkum í […] og/eða í […] í […]. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað hafi engar árásir verið gerðar af […] í […] síðan [...]. Samkvæmt skýrslum séu svæði í [...] landsins undir stjórn […] stjórnvalda og eins og framan greinir hafi þessi svæði ekki orðið fyrir árásum […] síðastliðin [...] ár. Í […] stjórnarskránni sé kveðið á um að allir […] skuli njóta dvalar- og ferðafrelsis í öllu landinu. Bendir ekkert til annars en að svæði í suðurhluta heimaríkis kæranda, sem sé undir stjórn […] stjórnvalda, séu henni aðgengileg á raunhæfan, öruggan og löglegan hátt.

Með hliðsjón af fyrri umfjöllun um aðstæður í […] verður heldur ekki talið að flutningur kæranda innanlands, til svæða í suðri sem eru undir stjórn […] stjórnvalda, skapi henni hættu á að verða fyrir ofsóknum eða alvarlegum skaða. Bæði kærandi og eiginmaður hennar séu […] og líkt og kemur fram í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað eru flestir íbúar í […] […]. Samkvæmt framansögðu telur kærunefnd að flutningur innanlands sé ekki óraunhæfur kostur fyrir kæranda og barn hennar.

Sé fyrra skilyrði möguleika flutnings innanlands uppfyllt verður því næst að taka afstöðu til þess hvort unnt sé, með hliðsjón af einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda og aðstæðum í heimaríki hennar, að ætlast með sanngirni til þess að kærandi og barn hennar setjist að á öðru svæði í […].

Kærunefnd telur að þó svo að tengsl eiginmanns kæranda við […] geti skipt máli við mat á því hvort flutningur kæranda og barns hennar til […] teljist sanngjarn kostur verður einnig að líta til þess hversu sterk sjálfstæð tengsl kæranda séu við þá landshluta heimaríkis hennar sem teljast öruggir.

Við ákvörðun sína byggði Útlendingastofnun á framburði kæranda sem stofnunin taldi trúverðugan. Samkvæmt þeim framburði ólst kærandi upp á [...]. Í gögnum hefur ekki komið fram að hún eigi þar eignir, aðra fjölskyldumeðlimi, eða annað tengslanet sem stutt gæti við hana. Samkvæmt framburði kærandi hefur hún því aðeins óveruleg tengsl við þá hluta heimaríkis hennar sem telja má örugga. Kærandi kvaðst ennfremur hafa orðið fyrir alvarlegu ofbeldi í heimaríki sínu, þ.m.t. [...]. Þá kvaðst hún einnig hafa orðið vitni að grófu ofbeldi þar sem fjölskyldumeðlimir hennar, þ.m.t. [...]. Í ljósi eðlis og alvarleika þess ofbeldis sem kærandi hefur þegar orðið fyrir í heimaríki er það mat kærunefndar að ekki sé með sanngirni hægt að ætlast til þess að hún setjist að í […] þar sem hún hefur ekki sterkan sjálfstæðan bakgrunn og traust tengslanet. Við það mat hefur verið litið til 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga sem mælir fyrir um að ákvörðun sem varðar barn skuli vera tekin með hagsmuni þess að leiðarljósi og að hugað sé að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska. Það er mat kærunefndar að þær aðstæður sem barn kæranda yrði sett í við mögulegan flutning innanlands, í ljósi stöðu móður barnsins, sé með þeim hætti að það sé ekki barninu fyrir bestu að setjast að í suðurhluta […]. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að ekki komi til greina að beita 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga í máli kæranda.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda og barni hennar alþjóðlega vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. laganna og leggja fyrir Útlendingastofnun að veita þeim dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. s.l.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barns hennar eru felldar úr gildi. Kæranda og barni hennar er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda og barni hennar dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellant and her child are vacated. The appellant and her child are granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue them residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir                                                      Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum