Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 288/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 288/2018

Miðvikudaginn 7. nóvember 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 13. ágúst 2018, kærði B lögmaður f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. júní 2018 um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna og endurkrefja hana um ofgreitt meðlag.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Tryggingastofnun ríkisins hóf milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda frá X í kjölfar dóms Héraðsdóms C frá X 2017 þar sem kröfu um sviptingu forsjár barna hennar var hafnað. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 15. mars 2018, var kæranda tilkynnt um stöðvun milligöngu stofnunarinnar á meðlagsgreiðslum með börnum hennar og endurkröfu ofgreidds meðlags frá X til X. Vísað var til þess að samkvæmt upplýsingum frá barnavernd væru börn kæranda ekki lengur búsett hjá henni. Veittur var frestur til 29. mars 2018 til að koma að rökstuddum andmælum ásamt gögnum sem sýndu fram á hið gagnstæða. Ákvörðun Tryggingastofnunar var mótmælt með bréfi, dags. 23. mars 2018, og farið fram á greiðslur til kæranda. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. apríl 2018, var þeirri beiðni hafnað og kæranda tilkynnt að endurkrafan stæði óbreytt. Kærandi ítrekaði kröfu um greiðslu og mótmælti endurkröfunni með bréfi, dags. 25. apríl 2018. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 7. júní 2018, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun stofnunarinnar stæði óbreytt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. ágúst 2018. Með bréfi, dags. 14. ágúst 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 4. september 2018, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. september 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda 17. október 2018 og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að meðlagsgreiðslur til hennar verði leiðréttar þannig að hún fái greiðslur fyrir tímabilið X 2017 til X 2018 vegna þeirra barna sem hafi átt lögheimili hjá henni. Kærandi krefst þess einnig að Tryggingastofnun felli niður endurkröfu á hendur henni vegna meðlagsgreiðslna […] á árinu X.

Kærandi greinir frá því að hún eigi X börn með fyrrum eiginmanni sínum og X þeirra séu með lögheimili hjá henni. Fyrir milligöngu barnaverndar hafi öll börnin verið vistuð utan heimilis móður fram til X 2017 og jafnframt gerð krafa fyrir héraðsdómi að hún yrði svipt forsjá. Þeirri kröfu hafi verið hafnað með dómi Héraðsdóms C þann X 2017 og þá hafi vistun barnanna utan heimilis fallið úr gildi. Í kjölfarið hafi aftur tekið gildi samningur foreldra um að lögheimili og búseta X barnanna yrði hjá kæranda en X barnsins hjá föður. Með samkomulagi foreldra hafi börnin verið á báðum heimilum en til að byrja með verið fleiri nætur hjá föður sínum. Það samkomulag breyti ekki greiðsluskyldu eða rétti viðkomandi aðila þar sem við uppkvaðningu héraðsdóms hafi fallið úr gildi allar ákvarðanir og vistanir sem hafi getað komið í stað samkomulags foreldra um forsjá, búsetu og lögheimili. Þegar af þeirri ástæðu eigi kærandi rétt á þeim kjörum sem hún og fyrrverandi eiginmaður hennar hafi gengið frá um lögheimili og meðlagsgreiðslur, enda hafi hún ekki síður en faðirinn farið með framfærslu barnanna á því tímabili sem um ræði. Til að breyta þeirri greiðsluskyldu hefði þurft að gera kröfu um úrskurð þess efnis hjá sýslumanni en það hafi ekki verið gert.

Kærandi tekur fram að Tryggingastofnun hafi fellt niður meðlagsgreiðslur til hennar á grundvelli bréfa frá starfsmanni barnaverndar sveitarfélagsins, án þess að hafa verið gefinn kostur á að tjá sig um þau. Kærandi mótmælir því að bréfin hafi þýðingu í málinu þar sem börnin séu ekki í vistun á vegum barnaverndar eftir uppkvaðningu dóms héraðsdóms. Barnaverndarnefnd geti einungis haft umsagnarstöðu um það hvernig greiðslutilhögun vegna barna eða búsetu þeirra sé háttað ef þau séu vistuð á þeirra vegum á grundvelli barnaverndarlaga. Barnavernd sveitarfélags kæranda eigi enga aðild að málinu og því hafi Tryggingastofnun ekki heimild til að byggja ákvörðun á umsögn þess aðila sem standi þar að auki í málarekstri við kæranda fyrir dómi. Kærandi hafi mótmælt og krafist leiðréttingar hjá Tryggingastofnun en án árangurs. Í engu hafi verið tekið tillit til frásagna hennar um búsetu og framfærslu barnanna heldur aðeins lagðar til grundvallar fullyrðingar barnaverndar. Kærandi fullyrði hins vegar að engar breytingar hafi átt sér stað frá því að dómurinn var kveðinn upp. Börnin séu búsett hjá henni og eigi rétt á framfærslu og ekkert liggi fyrir sem hnekki því. Þar af leiðandi eigi hún rétt á meðlagsgreiðslunum.

Kærandi bendir á að barnavernd hafi áfrýjað dómi héraðsdóms til Landsréttar og þar hafi verið fallist á kröfur um sviptingu forsjár. Kærandi hafi því tapað forsjá barnanna við uppkvaðningu dómsins X 2018 og þau hafi takmarkað búið hjá henni frá þeim tíma. Eftir sem áður hafi kærandi farið með forsjá þeirra, framfærslu og búsetu frá uppkvaðningu héraðsdóms X 2017 til uppkvaðningar Landsréttardóms X 2018 og eigi því rétt á greiðslum þann tíma, bæði meðlags með þeim börnum sem hafi átt lögheimili hjá henni og mæðralauna.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Tryggingastofnunar er því alfarið hafnað að börnin hafi á umkröfðu tímabili verið búsett hjá föður og ekki á hennar framfæri. Kærandi hafi haft forsjá barnanna frá X 2017 og til X 2018 þegar dómur var kveðinn upp í Landsrétti. Á því tímabili hafi börnin búið jafnt hjá kæranda og föður og á því tímabili hafi verið í gildi samkomulag þeirra um meðlag og lögheimili. Af þeim sökum hafi kærandi því átt að fá meðlag, barnalífeyri og aðrar greiðslur vegna tveggja barnanna svo sem kveðið sé á um í samkomulagi aðila, staðfestu af sýslumanni. Á tímabilinu hafi kærandi raunverulega annast framfærslu barnanna, enda hafi þau dvalið hjá henni nokkurn veginn til jafns við dvöl á heimili föður.       

Kærandi ítrekar mótmæli sín um að byggt sé á upplýsingum frá barnaverndaryfirvöldum þar sem þau hafi ekki neina umsagnarstöðu um framfærslu eða búsetu barnanna. Með bréfi barnaverndar, dags. 15. febrúar 2018, hafi sérstaklega verið óskað eftir því að greiðslur meðlags og barnalífeyris yrðu greiddar kæranda. Því virðist mega ráða að barnaverndaryfirvöld hafi talið kæranda réttan móttakanda meðlags allt fram til þess tíma hið minnsta. Af greinargerð Tryggingastofnunar verði ekki ráðið með hvaða hætti barnavernd hafi aflað upplýsinga um búsetu barnanna. Ekki sé hægt að taka íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun í garð kæranda, þvert á staðfestan fyrirliggjandi samning um framfærslu barnanna, án þess að hið minnsta liggi fyrir hvaðan þær upplýsingar komi.

Kærandi bendir á að eintak af dómi Landsréttar frá X 2018 sé birt á vefsíðu réttarins. Í honum komi ekkert fram um búsetu barnanna á umþrættu tímabili, nema ef til vill ein setning þar sem haft sé eftir móður að vel hafi gengið eftir að börnin hafi farið að koma til hennar aftur. Þannig styðji ummælin í dóminum við atvikalýsingu kæranda, þ.e. að börnin hafi farið að koma aftur mikið til hennar, þvert á það sem faðir barnanna haldi fram. Þá ítrekar kærandi allar fyrri kröfur og óskar eftir að málinu verði hraðað eins og kostur sé.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er vísað til þess að forsaga þessa máls sé sú að í X hafi stofnuninni borist þær upplýsingar að börn kæranda væru vistuð utan heimilis frá og með X. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. X, hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslur meðlags og barnalífeyris með börnunum yrðu stöðvaðar frá og X. Í X hafi stofnuninni borist þær upplýsingar frá barnavernd að börnin væru vistuð hjá föður þeirra frá og með X.

Þann X 2018 hafi borist bréf frá barnavernd þar sem fram komi að vistun barnanna utan heimilis hefði lokið í kjölfar dóms Héraðsdóms C þann X 2017. Í bréfinu hafi barnavernd óskað eftir því að greiðslur barnalífeyris og meðlags yrðu greiddar kæranda. Stuttu áður eða þann X 2018 hafi borist bréf lögmanns kæranda, dags. X 2018, þar sem óskað hafi verið eftir að greiðslur meðlags til kæranda hæfust að nýju og vísað hafi verið í framangreindan dóm þar sem kröfu fjölskyldunefndar um sviptingu forsjár barnanna hefði verið hafnað.

Með bréfum, dags. X 2018, hafi Tryggingastofnun samþykkt að greiða kæranda meðlag og barnalífeyri með börnunum frá X. Út frá bréfi frá barnavernd hafi verið litið svo á að börnin væru komin aftur til móður eftir að dómur héraðsdóms hafi fallið. Þann X 2018 hafi borist tölvupóstur frá föður barnanna þar sem hann upplýsi stofnunina að þrátt fyrir að vistunin hafi runnið út þá væru börnin enn búsett hjá honum að hans ósk og barnaverndaryfirvalda og hann standi straum af framfærslu þeirra. Jafnframt komi fram í tölvupósti þessum að [...] fari aðra hvora helgi til móður sinnar en [...] neiti því. Í lok tölvupóstsins komi fram að verið sé að bíða eftir því að Landsréttur taki fyrir mál Barnaverndar D gegn kæranda þar sem barnavernd fari fram á að kærandi verði sviptur forræði yfir börnunum.

Tryggingastofnun beri að rannsaka mál og sjá til þess að það sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tryggingastofnun hafi því óskað eftir uppýsingum um búsetu barnanna frá barnavernd, sbr. tölvupóst, dags. X 2018. Þann X 2018 hafi stofnuninni borist tölvupóstur frá barnavernd þar sem fram komi að vistunin hafi fallið úr gildi þann X 2017 en foreldrar hafi haldið óbreyttu fyrirkomulagi eftir að vistun hafi lokið. Börn kæranda hafi því dvalið áfram hjá föður og farið til kæranda aðra hvora helgi. Þá komi jafnframt fram að börnin hafi verið í skóla í D en kærandi verið búsett í C.

Í ljósi framangreindra upplýsinga hafi Tryggingastofnun ákveðið að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda frá þeim tíma sem hún hafi verið sett af stað, eða frá X. Tryggingastofnun hafi einnig ákveðið að endurkrefja kæranda um meðlag frá þeim tíma til X 2018 þar sem börnin hefðu ekki verið á framfæri hennar frá þeim tíma. Kærandi hafi verið  upplýst um ákvörðun þessa með bréfi, dags. X 2018, og veittur frestur til að andmæla þeirri ákvörðun til X 2018. Lögmaður kæranda hafi andmælt ákvörðuninni með bréfi, dags. X 2018, en með bréfi Tryggingastofnunar, dags. X 2018, hafi verið tilkynnt að ákvörðun stofnunarinnar væri óbreytt út frá þeim gögnum sem lágu fyrir í umræddu máli.

Tryggingastofnun hafi borist tölvupóstar frá kæranda í X 2018 þar sem kærandi hafi mótmælt stöðvuninni. Kæranda hafi þá verið bent á að skila inn nýjum gögnum um búsetu barnanna. Þann X 2018 hafi borist enn eitt bréfið frá lögmanni kæranda með andmælum varðandi stöðvun greiðslna til kæranda. Tryggingastofnun hafi svarað athugasemdum lögmanns með bréfi, dags. X 2018, og þar hafi verið tilkynnt að ákvörðunin um stöðvun og endurkröfu stæði. Engin staðfest gögn hafi borist frá kæranda eða lögmanni hennar um búsetu barnanna eða gögn sem staðfesti að framfærsla barnanna hafi verið hjá kæranda.

Tryggingastofnun tekur fram að skilyrði fyrir milligöngu meðlags frá stofnuninni sé að börnin séu á framfæri viðkomandi, sbr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Barnavernd hafi staðfest að börnin séu búsett hjá föður þeirra, þrátt fyrir að vistun á vegum þeirra hafi lokið með dómi héraðsdóms. Út frá öllu framangreindu líti stofnunin svo á að börnin séu á framfæri föður en ekki lengur á framfæri kæranda, þrátt fyrir að fara til hennar aðra hvora helgi. Heimild Tryggingastofnunar til milligöngu meðlagsgreiðslna hafi því ekki verið fyrir hendi frá þeim tíma sem hún hafi verið sett af stað í janúar 2018. Því telji stofnunin að rétt hafi verið að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda frá 1. janúar 2018 og endurkrefja hana um ofgreiddar greiðslur frá þeim tíma og fram til 31. mars 2018. Barnavernd sé opinber aðili og því bær til að veita upplýsingar um búsetu barna, þrátt fyrir að ekki sé um að ræða vistun á þeirra vegum.

Tryggingastofnun bendir á að andmælaréttar hafi verið gætt í bréfi, dags. X 2018, og að stofnunin hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína með því að óska eftir upplýsingum frá barnavernd um búsetu barnanna eftir að faðir þeirra hafi mótmælt stöðvun greiðslna til sín. Þá ítrekar Tryggingastofnun að engar staðfestar upplýsingar hafi borist frá kæranda um búsetu barnanna. Kærandi hafi hvorki lagt fram í heild sinni dóm Héraðsdóms C frá X 2017 né dóm Landsréttar frá X 2018. Einungis hafi verið lagðar fram fremstu og öftustu síður með vísan til trúnaðargagna en í dómunum gætu hugsanlega verið upplýsingar um raunverulega búsetu barnanna á þeim tíma sem ágreiningur málsins lýtur að.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnun ríkisins um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda og krefja hana um endurgreiðslu vegna meðlagsgreiðslna á tímabilinu X.

Kveðið er á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar segir að Tryggingastofnun sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu snúið sér til Tryggingastofnunar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga. Í 6. mgr. 63. gr. laganna kemur fram að heimilt sé að setja reglugerð um framkvæmd þessarar greinar þar sem meðal annars sé kveðið á um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldri eða börn séu búsett erlendis og um hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun ríkisins inni af hendi. Reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga hefur verið sett með stoð í framangreindu lagaákvæði.

Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur berist beiðni þar um frá meðlagsmóttakanda á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar. Það skilyrði er sett fyrir milligöngunni að það barn sem greiða skuli meðlag með sé á framfæri umsækjanda.

Í gögnum málsins liggur fyrir leyfisbréf til lögskilnaðar, dags. X, þar sem fram kemur að kærandi og barnsfaðir hennar fari sameiginlega með forsjá barnanna. Þá segir að X barna þeirra skuli eiga lögheimili hjá kæranda og að barnsfaðir kæranda greiði kæranda með þeim einfalt meðlag til 18 ára aldurs. Á grundvelli þess sá Tryggingastofnun um milligöngu meðlagsgreiðslnanna. Með hinni kærðu ákvörðun stöðvaði Tryggingastofnun milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda á þeirri forsendu að börnin væru ekki lengur búsett hjá henni og því ekki á hennar framfæri. Kærandi krefst þess að fá greiðslur meðlags vegna tímabilsins frá X 2017 til X 2018. Byggt er á því að lögheimili barnanna hafi verið hjá kæranda á framangreindu tímabili og hún hafi farið með framfærslu barnanna ekki síður en faðir. Þá segir í kæru að í kjölfar dóms Héraðsdóms C frá X 2017 hafi börnin með samkomulagi foreldra verið á báðum heimilum en þau hafi gist til að byrja með meira hjá föður. Í athugasemdum kæranda segir að á umræddu tímabili hafi börnin dvalist hjá henni nokkurn veginn til jafns við föður.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að af 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar verði ráðið að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun beri að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur í samræmi við meðlagsákvörðun. Þar sem sérstaklega er tekið fram í ákvæðinu að barn skuli vera á framfæri umsækjanda telur úrskurðarnefnd velferðarmála að heimilt sé að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna ef fyrir liggur að barn sé ekki lengur á framfæri umsækjanda.

Tryggingastofnun ríkisins byggir ákvörðun sína um stöðvun á milligöngu meðlagsgreiðslna á upplýsingum sem stofnunin fékk frá barnavernd með tölvupósti X 2018. Í framangreindum tölvupósti segir meðal annars svo:

„Börnin eru með lögheimili hjá móður. Foreldrar héldu óbreyttu fyrirkomulagi áfram eftir að vistun barnanna lauk þannig að börnin dvöldu áfram hjá föður og fóru til móður aðra hvora helgi. Samkvæmt upplýsingum frá foreldrum var það gert til að styðja við ástundum í skóla. […].“

Óumdeilt er að lögheimili barnanna var skráð hjá móður á umræddu tímabili. Þá er óumdeilt að börnin dvöldu fyrst um sinn meira hjá föður í kjölfar dóms Héraðsdóms C frá X 2017. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála liggja aftur á móti engin gögn fyrir sem staðfesta að börnin hafi ekki verið á framfæri kæranda á umræddu tímabili. Úrskurðarnefndin telur að slík ályktun verði hvorki dregin af framangreindum tölvupósti frá barnavernd frá X 2018 né öðrum gögnum málsins. Í ljósi þess að það liggur fyrir lögformleg meðlagsákvörðun þar sem fram kemur að barnsfaðir kæranda skuli greiða meðlag með börnunum og engin gögn liggja fyrir sem staðfesta að börnin hafi ekki verið á framfæri kæranda er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki verið heimilt að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda. Að því virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda felld úr gildi. Þegar af þeirri ástæðu kemur endurgreiðslukrafa stofnunarinnar á hendur kæranda ekki til skoðunar. Tryggingastofnun hefur ekki tekið afstöðu til kröfu kæranda um milligöngu meðlagsgreiðslna frá X 2017. Þeim hluta málsins er vísað aftur til stofnunarinnar til frekari meðferðar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til A, er felld úr gildi. Þeim hluta málsins er varðar kröfu kæranda um milligöngu meðlagsgreiðslna frá X 2017 er vísað aftur til stofnunarinnar til frekari meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum