Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 151/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 151/2019

Miðvikudaginn 3. júlí 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 12. apríl 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. apríl 2019 þar sem kæranda var synjað um breytingu á gildandi örorkumati.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með örorkumati, dags. X, synjaði Tryggingastofnun ríkisins umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en hún var talin uppfylla skilyrði örorkustyrks frá X til X. Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun, með umsókn, dags. X. Með örorkumati, dags. X, var umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur synjað en hún var talin uppfylla skilyrði örorkustyrks frá X til X. Kærandi sótti á ný um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun með rafrænni umsókn, móttekinni 28. janúar 2019. Með bréfi, dags. 29. janúar 2019, var umsókn kæranda synjað þar sem ekki var talin ástæða til að breyta gildandi örorkumati. Með tölvupósti til Tryggingastofnunar 10. apríl 2019 óskaði kærandi eftir endurmati. Með bréfi, dags. 11. apríl 2019, synjaði Tryggingastofnun kæranda um breytingu á gildandi örorkumati.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. apríl 2019. Með bréfi, dags. 15. apríl 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 6. maí 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með tölvupósti 13. maí 2019 bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með bréfi, dags. 21. maí 2019, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. maí 2019. Frekari athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að fá fullar örorkubætur.

Í kæru er greint frá því að kærandi sé að sækja um fullar bætur vegna þess að hún hafi orðið 100% óvinnufær eftir [slys] í X. Kærandi hafi þurft að fara í X aðgerðir á [...] og þá þurfi hún að bíða eftir að fara í X aðgerðina sem muni örugglega gera hana óvinnufæra í X mánuði. Samkvæmt læknisvottorði sé hún óvinnufær.

Í athugasemdum kæranda, mótteknum 13. maí 2019, er vísað í læknisvottorð B frá X 2019. Kærandi álítur að eldra vottorð frá árinu X sé ógilt vegna þess að hún hafi lent í [slysi] í X.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkulífeyri. Gildistími eldra örorkumats kæranda hafi verið látinn halda sér frá X til X.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Með tölvupósti 10. apríl 2019 hafi kærandi sótt um endurmat á fyrra örorkumati sem hafi verið synjað þar sem gögn málsins hafi ekki borið með sér að neinar breytingar hafi orðið á heilsufari kæranda frá síðasta örorkumati. Tryggingastofnun hafi einnig synjað samskonar erindi kæranda með bréfi, dags. X, og hafi henni verið bent á að mat um örorkustyrk væri enn í gildi og yrði það til X. Þar á undan hafi mat um örorkustyrk runnið út í X. Það mat hafi verið frá X og hafði verið unnið á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis Tryggingastofnunar vegna skoðunardags X. Þann X, hafi Tryggingastofnun einnig synjað kæranda um endurmat með sömu niðurstöðu, þ.e. að mat stofnunarinnar hafi verið að engin breyting hafi orðið á heilsufari kæranda frá skoðun hjá skoðunarlækni þann X. 

Við endurmat á örorku styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir. Við örorkumat lífeyristrygginga, nú síðast þann X, hafi legið fyrir læknisvottorð C læknanema, dags. X, umsókn frá X og tölvupóstar kæranda með beiðni um endurskoðun á fyrra mati frá X. Jafnframt hafi legið fyrir eldri gögn vegna fyrri endurmata á örorku kæranda, þar á meðal skoðunarskýrsla tryggingalæknis frá X.

Við matið sé stuðst við staðal Tryggingastofnunar en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig.

Í gögnum málsins komi fram að kærandi sé fædd árið X, atvinnusaga hennar felist aðallega í að hafa unnið [...] Í sjúkrasögu komi fram að kærandi hafi sögu um bakverki, hún hafi lenti í [slysum], meðal annars […], og í kjölfarið haft verki í herðum og hálsi. Einnig hafi hún [brotnað] X og eftir það hafi hún einnig verið með verki í fæti. Lengri saga sé um höfuðverki [...]. Höfuðverkirnir hafi versnað mikið eftir [slys]. Kærandi hafi verið í endurhæfingu hjá VIRK X en hafi dottið úr henni vegna lélegrar mætingar og ekki hafi verið talið að starfsendurhæfing á þeirra vegum væri lengur raunhæft úrræði árið X.

Skilyrði staðals um hæsta örorkustig hafi ekki verið talin uppfyllt við örorkumat Tryggingastofnunar. Kærandi hafi fengið sex stig í líkamlega hlutanum og tvö stig í andlega hlutanum. Á þeim forsendum og samkvæmt læknisfræðivottorðum í málinu hafi kærandi ekki verið talin uppfylla skilyrði til örorkulífeyris samkvæmt 18. gr. laga almannatrygginga.

Ítarlega hafi verið farið yfir gögn málsins að nýju við vinnslu þessa kærumáls. Farið hafi verið sérstaklega yfir hvort niðurstaða skoðunarskýrslu læknis frá árinu X og örorkumats væri í samræmi við gögn málsins. Rétt sé þó að hafa í huga að í skoðunarskýrslu séu svör kæranda og aðrar upplýsingar í málinu metnar af skoðunarlækninum. Í þessu tilfelli megi benda á að það sé mat skoðunarlæknis að vegna afleiðinga líkamlegra vandamála kæranda þá hafi hún fengið sex stig í líkamlega þætti matsins og tvö stig í andlega þættinum.

Nánar tiltekið hafi kærandi fengið í andlega hluta matsins eitt stig fyrir að geta ekki einbeitt sér  að því að lesa tímaritsgrein vegna einbeitningarskorts og eitt stig vegna svefnvandamála. Í líkamlega hlutanum hafi kærandi fengið þrjú stig þar sem hún geti ekki setið á stól lengur en eina klukkustund án þess að standa upp og önnur þrjú stig þar sem að hún geti ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um. Samtals hafi kærandi fengið sex stig fyrir líkamlega færni og tvö stig fyrir andlega færni og á þeim forsendum hafi henni verið veittur örorkustyrkur sem hafi verið endurnýjaður í nokkur skipti hjá stofnuninni.

Á grundvelli fyrirliggjandi gagna málsins þann [...] hafi verið talið eins og í fyrri mötum að skilyrði staðals um hæsta örorkustig í tilviki kæranda hafi ekki verið uppfyllt en hins vegar hafi áður metið örorkumatstímabil í formi örorkustyrks samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar verið látið halda sér óbreytt, þ.e. frá X til X.

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að synja um örorkulífeyri en veita áfram örorkustyrk sé rétt niðurstaða miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 21. maí 2019, kemur fram að kærandi hafi bent á nýrra læknisvottorð B, dags. X. Stofnunin hafi skoðað framangreint læknisvottorð við synjunina á endurmati á örorku eins og öll önnur gögn í málinu með tilliti til heildargagna málsins. Að því sögðu telji stofnunin ekki ástæðu til efnislegra athugasemda nú vegna þessa læknisvottorðs þar sem fjallað hafi verið um öll gögnin áður í samræmi við önnur samtímagögn í málinu. Þá beri að nefna sérstaklega í því samhengi að fjallað hafi verið um læknisfræðilegt ástand kæranda í fyrri greinargerð stofnunarinnar, þar á meðal um læknabréfið sem minnst sé á í athugasemdunum í vottorðinu frá X og þetta tiltekna læknisvottorð bæti ekki við neinu sem ekki hafi áður komið fram í málinu.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. apríl 2019, þar sem kæranda var synjað um breytingu á gildandi örorkumati. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Fyrir liggur að örorkumat frá X var í gildi þegar kærandi fór fram á breytingu á þeirri ákvörðun, en það mat var byggt á fyrirliggjandi læknisvottorðum og skoðunarskýrslu D frá X. Í X skipti […] hefur kæranda verið synjað um breytingu á gildandi örorkumati þar sem engar nýjar læknisfræðilegar upplýsingar hafi komið fram í læknisvottorði sem gáfu tilefni til breytinga á gildandi mati.

Fyrir liggur læknisvottorð B, dags. X 2019, þar sem fram koma sjúkdómsgreiningarnar bakverkur, verkur í lið og verkur í útlim. Um vinnufærni kæranda segir að hún hafi verið óvinnufær frá X en að búast megi við að færni aukist eftir læknismeðferð. Um fyrra heilsufar kæranda segir:

„Lenti í [slysi] X sem hafði áhrif á bak og lenti síðan í nokkrum öðrum [slysum] X,  núna síðast X.“

Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir læknisvottorðinu:

„[Slys] X, […] […]  brotnaði, tognaði í herðum og hálsi. Slæm í mjóbaki líka. Hálsinn er enn slæmur og fær [verki] út frá því. Mjóbakið er orðið mikið verra þar sem hún á erfitt með að teygja sig niður eftir hlutum. Er slæm í brjósthrygg líka. Fær ennþá verki í […] lærlegg og […] hné við langar göngur. […] Brotnaði illa í X á [...], fær verki í [...] þegar hún stendur lengi eða gengur langar vegalengdir. Í X lendir hún svo í [slysi] […] Afleiðingar þess slyss: [...] sem þurfti aðgerðar við. [...].“

Í læknisvottorðinu segir í lýsingu læknisskoðunar:

„Slæm í vinstri lateral flexion í hálsi, þegar teygist á hægri hluta háls. Verki í v-sjalvöðva með leiðni út í v-öxl. Slæm í extension í baki og verkir við vinstri lateral flexion í baki. Viðvarandi verkir milli herðablaða. Ekki verkir í […] læri eða hné við activa hreyfingu. Ekki verkir yfir patellu eða femur við þreyfingu. Verkir við inversion í […] ökkla. Ennþá slæm í baki, háls, í […] læri og hné og […] ökkla. Einnig er veruleg hreyfiskerðing á [...] […].“

Í athugasemdum í vottorðinu er tekinn upp texti úr læknabréfi E, dags. X 2019: Þar segir:

„[…] Hún er að upplifa óþægindi sem henni finnst vera vegna [...]. […] Hreyfigeta er orðin mjög góð að undanskilinni kannski [...] sem er aðeins vægt skert. Ekki aum og engar bólgur. […] Rtg. myndir sem voru teknar síðast sýna aðeins aðra afstöðu í hvað varðar [...] en fyrri myndir. Hvort þetta er raunveruleg [...] er erfitt að segja. […] Setjum planið sem sagt upp svona, byrjum á því að [...] og sjáum hvað það gefur. Ef árangur af því verður ekki þannig að hún sætti sig við þá förum við út í frekari skoðun og jafnvel aðgerðir í framhaldi af því.“

Þá liggur fyrir læknisvottorð C, dags. X, þar sem fram kemur að sjúkdómsgreining kæranda sé bakverkur. Umfjöllun C um heilsuvanda og færniskerðingu í vottorðinu er að mestu samhljóða nýrra vottorði B ef frá eru taldar upplýsingar um afleiðingar [slyss] í X.

Einnig liggur fyrir læknisvottorð F, dags. X, sem fyrsta örorkumat kæranda var byggt á. Samkvæmt vottorðinu er kærandi með eftirfarandi sjúkdómsgreiningar: Óvefrænar svefnraskanir, mjóbaksverk og áverka, ótilgreindan.

Um sjúkrasögu kæranda  segir:

„[Slys] X. […] [...] […]

Við komu á slysadeild fær hún eftirfarandi greiningar:

Tognun og ofreynsla á hálshrygg, S13.4

Tognun og ofreynsla á brjóthrygg, S23.3.

Mar á öxl og upphandlegg, S40.0

Aðrir yfirborðsáverkar á úlnlið og hendi, S60.8

Mar á hné, S80.0

Tognun og ofreynsla á aðra og ótilgreinda hluta hnés, S83.6 […]

Hefur enn óþægindi í vöðvum í hálsi og herðum. Einnig milli herðablaða og niður í mjóbak. […] Hefur verið [rannsökuð] án árangurs, […] Reynt sjúkraþjálfun, nudd, kiropraktor og nálastungumeðferðir með litlum árangri. Verið á bótum frá [...] vegna óvinnufærni.

Óbreytt ástand síðasta árið. Verið boðið endurhæfing innan VIRK X, mætti í nokkur skipti en sagði sig svo úr þjónustunni.“

Um lýsingu læknisskoðunar segir í vottorðinu:

„Full hreyfigeta í hrygg við flexion, extension abduction. Ekki þreifast skekkjur eða afbrigðileikar á hryggsúlu. Þreifa eymsli yfir thoraxhrygg á milli herðablaða og undir báðum herðablöðum. Eymsli og smellir við hreyfingu um vinstri öxl. Laseque neikvætt. Gróf taugaskoðun eðlileg. […]“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn á árinu X. Kærandi lýsir þar heilsuvanda sínum þannig að hún sé með heilsuvanda tengdan baki, hálsi, hné, ökkla [...]. Annar spurningalisti liggur ekki fyrir.

Skýrsla D skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann X. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hún gæti ekki setið nema í eina klukkustund án þess að standa upp og að hún gæti ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um. Að öðru leyti taldi skoðunarlæknir að kærandi byggi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda mat skoðunarlæknir að kærandi gæti ekki einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt og að svefnvandamál hefðu áhrif á dagleg störf hennar. Að öðru leyti taldi skoðunarlæknir að kærandi byggi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsti líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„[…] Gengur óhölt. Situr í viðtali í 30 mínútur, er á iði, virðist vera vegna eirðarleysis fremur en verkja. Rís upp án stuðnings.

Eðlileg hreyfigeta í öxlum, aðeins stirðleiki í hálsi. Kveinkar sér er hún lyftir vi handlegg upp fyrir axlarhæð. Vægt jákvætt Hawkinspróf vinstra megin.

Hendur eru eðlilegar. Kraftar og reflexar griplima eru eðlileg.

Við frambeygju í baki nema fingur við gólf. Hún fer auðveldlega niður á hækjur.

Eymsli eru í hnakkavöðvafestum, niður með hrygg og glutealt. SLR er neg bilat.

Kraftar og reflexar ganglima eru eðlilegir. Það eru ör eftir aðgerð [...]. Hreyfigeta og stöðugleiki liðarins eru innan eðlilegra marka og hún getur staðið á tám og hælum.“

Geðheilsu kæranda var lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Kvíði eða athyglisbrestur en ekki mikil andleg færniskerðing.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu.

Samkvæmt skoðunarskýrslunni er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið nema í eina klukkustund án þess að standa upp. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skoðunarskýrslu er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til sex stiga samtals. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda metur skoðunarlæknir það svo að kærandi geti ekki einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Samtals er því andleg færniskerðing kæranda metin til tveggja stiga samkvæmt skýrslu skoðunarlæknis.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. laga um almannatryggingar mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Til grundvallar hinu kærða örorkumati lá fyrir framangreind skýrsla skoðunarlæknis, dags. X, sem gerð var í tilefni eldri umsóknar kæranda um örorkulífeyri. Þegar kærandi sótti um endurmat á gildandi örorkumati var henni synjað um breytingu á grundvelli fyrirliggjandi gagna án aðkomu skoðunarlæknis. Eins og komið hefur fram þá var líkamleg færniskerðing kæranda metin til sex stiga og andleg færniskerðing metin til tveggja stiga samkvæmt skoðunarskýrslu. Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorðum hefur heilsufar kæranda breyst frá því að skoðun fór fram X, enda er nú greint frá verk og hreyfiskerðingu í [...] í kjölfar slyss X. Í ljósi þessa er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að tilefni hafi verið til að boða kæranda að nýju í skoðun í kjölfar nýrrar umsóknar eða eftir atvikum benda henni á endurhæfingu telji stofnunin örorkumat vegna slyssins ótímabært. Hafa ber í huga að miklir hagsmunir eru því tengdir fyrir kæranda hvort hún uppfylli skilyrði örorkulífeyris.

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ekki verði hjá því komist að fella ákvörðun Tryggingastofnunar úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um breytingu á gildandi örorkumati, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum