Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 17/2013.

 

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

 

 

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála, miðvikudaginn 11. desember 2013, var tekið fyrir mál A hjá kærunefnd barnaverndarmála varðandi umgengni við sonarson hennar, B, mál nr. 17/2013.

 

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

Með bréfi 25. september 2013 skaut A, úrskurði barnaverndarnefndar Eyjafjarðar frá 28. ágúst 2013 til kærunefndar barnaverndarmála, en úrskurðurinn varðar umgengni kæranda við sonarson hennar, B, sem er í varanlegu fóstri. Með úrskurðinum var ákveðið að umgengni drengsins við kæranda sem og kynföður sinn, C, skuli valinn staður á fósturheimilinu, nema samkomulag væri um annað.

 

B er fæddur árið 2009 og er því tæplega fimm ára gamall. Faðir hans, C, er sonur kæranda þessa máls. B hefur verið í fóstri hjá D og E frá 15. apríl 2011 og er þar nú í varanlegu fóstri.

 

Kærandi krefst þess að úrskurður barnaverndarnefndar Eyjafjarðar frá 28. ágúst 2013 verði ógiltur og að umgengni hennar við B fari ekki fram á heimili fósturforeldra drengsins. Kærandi óskar enn fremur eftir rýmri umgengni við drenginn og að hún fari fram án eftirlits. Einnig tekur kærandi fram að hún myndi vilja hafa umgengnina við B án þess að umgengni drengsins við kynföður sinn væri samtímis.

 


 

 

I. Helstu málavextir.

 

Foreldrar B slitu samvistum í júní 2009, en báðir foreldrar áttu við lyfja- og fíkniefnavanda að stríða og geðræna erfiðleika. Þeir voru sviptir forsjá drengsins með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 26. desember 2011. Dómurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar 27. september 2012.

 

B var vistaður hjá kæranda í desember 2009 samkvæmt 84. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Gert var upphaflega ráð fyrir því að um skamma vistun yrði að ræða en af ýmsum ástæðum, sem rakin eru í gögnum málsins, ílendist drengurinn hjá föðurömmu sinni í rúma 15 mánuði, fyrst með formlegri vistun samkvæmt 84. gr. barnaverndarlaga en síðan með samþykki forsjáraðila þar sem formlegt leyfi Barnaverndarstofu til vistunarinnar lá ekki fyrir. B hefur verið hjá núverandi fósturforeldrum frá því í apríl 2011 eins og fram hefur komið.

 

Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar kvað upp úrskurð um umgengni drengsins við kæranda og báða foreldra 25. maí 2011. Var ákveðið að umgengni föður við drenginn yrði fyrsta laugardag í mánuði kl. 9-11. Umgengni kæranda við drenginn yrði í kjölfarið sömu daga kl. 11-13. Umgengnin yrði á heimili kæranda eða á hlutlausum stað sem nefndin ákvæði í hvert sinn, nema samkomulag yrði um annað. Umgengni kæranda við drenginn fór fram á heimili kæranda næstu mánuði og stóð í samfellt fjóra tíma, en síðar var talið að þessi samfellda fjögurra klukkustunda umgengni gæti verið of erfið fyrir hann og var gerð tillaga um að stytta hana í hvert sinn. Ekki náðist sátt um umgengnina og var því kveðinn upp úrskurður um umgengni kæranda við drenginn 14. desember 2011. Með þeim úrskurði var ákveðið að kærandi ætti umgengni við drenginn fyrsta laugardag í mánuði kl. 10-12 í húsakynnum Fjölskyldudeildar Akureyrar að Glerárgötu 26, nema samkomulag yrði um annað.

 

Í kjölfar forsjársviptingar foreldra B 26. desember 2011 var að nýju kveðinn upp úrskurður um umgengni við drenginn 22. febrúar 2012. Sá úrskurður tók til umgengni drengsins við föður sinn, móður sína og móðurömmu. Umgengni föður og föðurömmu var ákveðin þannig að bæði hefðu umgengni þrisvar sinnum á ári, faðir á laugardögum kl. 11.30 – 13 í húsnæði Fjölskyldudeildar Akureyrar að Glerárgötu 26 undir eftirliti barnavendar­starfsmanns, nema samkomulag væri um annan stað. Umgengni við föðurömmu á laugardegi kl. 10-11.30 á sama stað og faðir og einnig undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns, nema samkomu væri um annan stað. Ákveðið var að umgengni föður og föðurömmu gæti verið samfelld í allt að þrjá tíma, kl. 10-13. Forfallist annað þeirra eða nýti ekki umgengnina sé hinu heimilt að nýta tíma hins, til viðbótar sínum eigin tíma. Í úrskurðinum var ákveðið að umgengni móður drengsins færi fram á fósturheimili hans. Fram kemur að sá háttur, þ.e. að móðir hitti drenginn á fósturheimilinu, feli í sér minna álag fyrir drenginn að mati fósturforeldra og sérfræðinga barnaverndarnefndar.

 

Í hinum kærða úrskurði, sem kveðinn var upp 28. ágúst 2013, var ákveðið að umgengni móður, föður og föðurömmu yrði á fósturheimili barnsins. Kærandi var mótfallin þessu fyrirkomulagi og vildi að umgengni yrði áfram í húsnæði Fjölskyldudeildar. Hún vildi ekki koma á fósturheimilið þar sem fósturforeldrar hefðu orðið ber að ósannindum í hennar garð og enn fremur myndi nærvera þeirra trufla samskipti hennar við barnið.

 

Í greinargerð Áskels Arnar Kárasonar, framkvæmdastjóra barnaverndarnefndar Akureyrar, 5. nóvember 2013 kemur fram að B sé vel aðlagaður í fóstrinu en hann hafi virst nokkuð eftir sig að lokinni umgengni við föðurömmu sína. Vanlíðan hans hafi komið fram í svefntruflunum og grátgirni sem annars bæri ekki á. Fósturforeldrar B hafi haft frumkvæði að því að bjóða til umgengni á heimili sínu í mars 2012, en kærandi hafi ekki viljað þiggja boðið og hafi umgengnin farið fram í skrifstofuhúsnæði á Fjölskyldudeild. Í kjölfar umgengninnar hafi B sýnt vanlíðan næstu daga og hafi viðbrögð komið frá leikskóla drengsins sem lýstu töluverðum áhyggjum af þeim breytingum sem urðu á barninu í kjölfar umgengninnar. Málið hafi verið kannað af nefndinni enn á ný, m.a. með þátttöku utanaðkomandi sálfræðings, sem hafi mikla reynslu af börnum í tilfinningalegum vanda. Sú könnun hafi ekki leitt til skýrrar niðurstöðu um orsakir þess að hegðun barnsins breyttist svo mjög eftir umgengnina, en þar sem fyrir hafi legið ítrekað boð fósturforeldranna um að ljá aðstöðu á heimili þeirra og drengsins hafi verið lagt til að umgengni 31. ágúst 2013 skyldi vera á fósturheimilinu. Kærandi hafnaði þeirri tillögu á fundi með starfsmönnum barnaverndarnefndar og síðan aftur á fundi barnaverndarnefndar 14. ágúst 2013. Málið var því tekið til úrskurðar 28. ágúst 2013 og ákveðið að umgengni föður B og kæranda við drenginn yrði á fósturheimili hans, nema samkomulag væri um annað.

 

 


 

II. Sjónarmið kæranda.

 

Kærandi mótmælir niðurstöðu hins kærða úrskurðar þess efnis að umgengni hennar við B fari fram á heimili fósturforeldranna. Hún bendir á að á heimili þeirra búi einnig bróðir B sem hún muni þá hitta en það sé ekki í samræmi við fyrri ákvörðun nefndarinnar. Enn fremur gefi það fósturforeldrunum möguleika á að ljúga upp á hana sökum þó svo hún hafi aldrei brotið lög þá verði réttarstaða hennar og möguleiki á að verja sakleysi sitt erfiðari, verði hún skikkuð inn á heimili fósturforeldranna.

 

Kærandi fer fram á að henni verði úthlutaður tími með barnabarni sínu þar sem hún geti faðmað það og talað við það án þess að fósturforeldarnir vokri yfir henni og reyni að hindra samneyti þeirra. Frá því B hafi farið í fóstur hafi fósturforeldranir ætíð reynt að hamla og hindra samneyti hennar við hann. Geðtengsl hennar og drengsins séu mjög sterk og nefnir kærandi dæmi því til staðfestu. Varðandi tal um vanlíðan B bendir kærandi á þætti eins og þá að hann sé nýfluttur í bæinn, byrjaður í nýjum leikskóla o.s.frv. Enn fremur geti vanlíðan hans verið hans leið til þess að tjá sig hvað varði langanir hans og óskir. 

 

 

III. Sjónarmið barnaverndarnefndar Eyjafjarðar.

 

Fram kemur af hálfu barnaverndarnefndar Eyjafjarðar að samskipti í tengslum við umgengi kæranda við barnabarn sitt geti verið stirð. Eftirlitsmenn barnaverndarnefndar hafi stundum lýst áhyggjum vegna þeirrar spennu og stundum opnu óvildar sem kærandi hafi látið í ljósi við þessi tækifæri, bæði í garð fósturforeldra og ýmissa starfsmanna barnaverndar­nefndar. Hafi menn velt fyrir sér hvaða áhrif þessi spenna og óvild kynni að hafa á barnið. Að öðru leyti hafi umgengni þó virst ganga eðlilega fyrir sig. Bætt er við að ávallt hafi ríkt skilningur af hálfu barnaverndarnefndar á vandasamri stöðu kæranda í málinu og að það rof sem orðið hafi á tengslum hennar við barnið hljóti að hafa valdið henni sársauka og hugarangri. Hafi henni m.a. verið boðin sérfræðileg aðstoð vegna þess, bæði sálfræðiþjónusta og einnig verið gerð tilraun til að fá utanaðkomandi sérfræðinga til sáttamiðlunar með það í huga að bæta samstarf allra aðila með hagsmuni barnsins í huga. Í báðum tilvikum hafi kærandi kosið að hafna þátttöku en fósturforeldrar barnsins hafi lýst sig tilbúin til að taka þátt í slíku starfi.

 

Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar bendir á vanlíðan B í kjölfar umgengni, sem fram fór í skrifstofuhúsnæði á Fjölskyldudeild, sem m.a. leikskóli drengsins hafi vakið athygli á. Ætla megi að það henti B betur að hitta ömmu sína á eigin heimili, geta sýnt henni herbergið sitt og dótið sitt. Þetta fyrirkomulag hafi gengið mjög vel þegar móðir hans og hennar fólk komi í heimsókn til hans. Þótt engar sönnur verði færðar á það að vanlíðan barnsins í kjölfar umgengni hafi verið vegna staðsetningarinnar eða á einhvern hátt ömmu hans að kenna sé sjálfsagt að leita leiða til að minnka álag á barnið í þessu sambandi og a.m.k. kanna hvort breytt staðsetning gæti orðið til þess.

 

 

IV. Sjónarmið fósturforeldra.

 

Varðandi afstöðu sína til máls þessa vísa fósturforeldrar B til úrskurðar barnaverndarnefndar Eyjafjarðar frá 28. ágúst 2013 og gagna sem sá úrskurður byggist á,  þ.m.t. sálfræðilegri álitsgerð Eyrúnar Kristínar Gunnarsdóttur (EKG), sálfræðings, á hegðun og atferli B. Þau benda á að sú athugun hafi komið til í kjölfar athugasemda kennara drengsins um hegðunarfrávik í leikskóla eftir umgengni og hafi verið framkvæmd fyrir atbeina Fjölskyldudeildar af óvilhöllum fagaðila.

 

 

V. Niðurstaða.

 

Í máli þessu er um að ræða tæplega fjögurra ára gamlan dreng, B, sem hefur verið í fóstri á vegum barnaverndarnefndar Eyjafjarðar síðan í apríl 2011. Fram að þeim tíma hafði hann verið vistaður hjá kæranda frá því í desember 2009, en þá var hann sjö mánaða gamall. Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 26. desember 2011 voru foreldrar drengsins sviptir forsjá hans og var sá dómur staðfestur með dómi Hæstaréttar frá 27. september 2012. Drengnum hefur nú verið ráðstafað í varanlegt fóstur. Hann hefur haft umgengni við foreldra sína og kæranda samkvæmt því sem að framan greinir á þeim tíma sem hann hefur verið í fóstri.

 

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga á barn í fóstri rétt til umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir en með umgengni er átt við samveru og önnur samskipti. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar eiga þeir sem telja sig nákomna barni í fóstri rétt til umgengni við barnið með sama hætti og foreldrar, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Í 3. mgr. lagagreinarinnar segir að við ráðstöfun barns í fóstur skuli tekin afstaða til umgengnis barns við foreldra og aðra nákomna og skuli tekið mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best.

 

Með úrskurði barnaverndarnefndar Eyjafjarðar 22. febrúar 2012 var ákveðið að B hefði umgengni við kæranda þrisvar sinnum á ári. Umgengni skyldi fara fram á laugardegi klukkan 10.00 til 11.30 í húsnæði Fjölskyldudeildar Akureyrar undir eftirliti barnaverndar­starfsmanns nema samkomulag verði um annan stað. Í rök­semdum fyrir þessari ákvörðun kemur fram að virt hafi verið bæði sjónarmið um að barnið aðlagaðist og tilheyrði fósturfjölskyldunni og að það haldi tengslum við blóðskyld ættmenni sín að því marki að það þekki uppruna sinn.

 

Engar breytingar hafa orðið á þeim ákvörðunum sem teknar voru með framan­greindum úrskurði nema að umgengni drengsins við föður sinn og ömmu skuli fara fram á fósturheimili drengsins nema samkomulag verði um annan stað, eins og ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Aðrar kröfur kæranda en krafan um að umgengni fari ekki fram á fóstheimilinu heldur hjá Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar koma því ekki til umfjöllunar í kærumáli þessu.

 

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að reynt hafi verið að ná samkomulagi við kæranda um breytt fyrirkomulag umgengninnar þegar fram hafði komið að drengurinn sýndi merki um vanlíðan í kjölfar umgengni við kæranda. Mat sérfræðinga barnaverndar­nefndar hafi verið að umgengni barnsins við móður sína á fósturheimilinu hafi falið í sér minna álag fyrir barnið en umgengni við föður og kæranda í húsnæði Fjölskyldudeildar Akureyrar. Samkvæmt úrskurðinum kvaðst kærandi ekki kæra sig um að umgengni barnsins við hana færi fram á heimili barnsins heldur vildi kærandi að hún færi fram í húsnæði Fjölskyldudeildar.

 

Í greinargerð barnaverndarnefndar 5. nóvember síðastliðinn er því lýst að drengurinn hafi stundum virst nokkuð eftir sig að lokinni umgengni við kæranda. Vanlíðan hafi komið fram í svefntruflunum og hann hafi verið grátgjarn sem annars hefði ekki borið á. Í mars 2013 hafi fósturforeldrar drengsins boðið kæranda til umgengni við hann á heimili þeirra en kærandi hafi ekki viljað þiggja það. Umgengnin hafi þá farið fram hjá Fjölskyldudeildinni. Drengurinn hafi aftur sýnt vanlíðan næstu daga eftir að umgengnin fór fram og hafi komið viðbrögð frá leikskólanum vegna breytinga sem urðu á barninu í kjölfar umgengninnar. Kæranda hafi verið boðin umgengni við drenginn 31. ágúst sl. á fósturheimilinu en hún hafi hafnað þeirri tillögu.

 

Samkvæmt gögnum málsins hefur umgengni kæranda og drengsins ekki gengið nægilega vel. Kærandi hefur lýst því að hún vilji ekki sæta þeim skilmálum að umgengnin verði með þeim hætti að hún heimsæki drenginn á heimili hans. Hún fer fram á að henni verið úthlutaður tími með barninum þannig að fósturforeldrarnir geti ekki hindrað samneyti hennar og barnsins en það hafi fósturforeldrarnir ætíð reynt frá því að drengurinn fór í fóstur til þeirra.

 

Við úrlausn málsins ber að taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Mikilvægt er fyrir barnið að umgengni við kæranda veiti barninu ánægju en valdi því ekki vanlíðan eða togstreitu.

 

Kærandi lýsir miklum samskiptaörðugleikum í tengslum við umgengnina sem koma meðal annars fram í skrifum hennar í garð starfsmanna barnaverndarnefndarinnar. Kærandi hefur ekki, eins og að framan er lýst, verið reiðubúin til samstarfs um þá tilhögun á umgengni sem talin er henta barninu best. Við þessar aðstæður er þess ekki að vænta að ró geti skapast um hagsmuni barnsins og að því markmiði verði náð að barninu líði vel við framkvæmd umgengninnar.

 

Við ítrekaðar tilraunir fóstur­foreldranna og starfsmanna barnaverndarnefndar til að ná sátt um framkvæmd umgengninnar telur kærandi að hún hafi á sáttafundi þurft á lögfræðingi að halda, sem henni hafi verið neitað um, en hún hafi sífellt lent í því að vera borin sökum um hluti sem hún hafi ekki gert. Kærandinn virðist álíta að erfiðleikarnir við fyrirkomulag umgengninnar sé að rekja til lögfræðilegrar deilu. Kærunefndin telur hins vegar að málið snúist um að koma á jákvæðum samskiptum milli þeirra sem koma að umgengninni þannig að sú ró sem stefnt er að verði til staðar í þeim tilgangi að þjóna sem best hagsmunum barnsins við þessar aðstæður.

 

Kærandi hefur þá réttarstöðu í málinu að þurfa að vera til samvinnu og hlíta þeim skilmálum sem með réttu eru settir varðandi framkvæmd umgengninnar í þeim tilgangi að þjóna hagsmunum barnsins. Mikilvægt er að leita leiða til að ná því marki. Kærunefndin telur, með vísan til þeirra forsendna sem hér að framan eru raktar, að það hafi verið gert með hinni kærðu ákvörðun.

 

Með vísan til alls þessa og til 1.-3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.    

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun barnaverndarnefndar Eyjafjarðar um umgengni B við föðurömmu sína, B, er staðfest.

 

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir,

 formaður

 

 

Guðfinna Eydal                     Jón R. Kristinsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum