Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 19/2013.

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

 

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála 5. febrúar 2014 var tekið fyrir mál nr. 19/2013, A og Bvegna dóttur þeirra, C.

 

Óskað er eftir því að kærunefnd barnaverndarmála kanni hvort rétt hafi verið staðið að þeirri ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur að loka máli dóttur þeirra.

 

Kveðinn var upp svohljóðandi

             

 

Ú R S K U R Ð U R

 

 

I. Málavextir og kröfugerð

 

Kæra þessi varðar lokun barnaverndarmáls A og B vegna dóttur þeirra, C, á grundvelli 23. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, hjá Barnavernd Reykjavíkur. Barnaverndarmálið snýst um einelti kennara í D í garð stúlkunnar sem var þar nemandi. Kærendum var tilkynnt lokun málsins hjá Barnavernd Reykjavíkur með bréfi 30. júlí 2013.

 

Kærendur sendu málið upphaflega til Barnaverndarstofu 2. september 2013 sem framsendi það til kærunefndar barnaverndarmála í samráði við lögmann kærenda með bréfi 2. október 2013. Með bréfi lögmanns kærenda 2. nóvember 2013 var óskað eftir því að kærunefndin kanni tilefni kvörtunar kærenda vegna starfa Barnaverndar Reykjavíkur og athugi hvort rétt hafi verið að málum staðið við meðferð málsins. Kæruheimild varðandi lokun barnaverndarmálsins er í 1. mgr. 23. gr. i.f. barnaverndarlaga, sbr. 12. gr. laga nr. 80/2011, og nær meðferð málsins fyrir kærunefndinni eingöngu til þess þáttar málsins.

 

Af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur er fallist á það með kærendum að niðurstaða könnunar í máli dóttur þeirra frá 30. júlí 2013 hafi ekki verið í samræmi við málsmeðferðarreglur barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

 


 

Forsaga máls þessa er sú að móðir stúlkunnar tilkynnti Barnavernd Reykjavíkur 17. maí 2013 um einelti sem stúlkan hefði orðið fyrir af hálfu kennara síns í D. Enn fremur tilkynnti E sálfræðingur um eineltið 30. maí 2013. Af hinni kærðu ákvörðun má ráða að málið hafi í kjölfarið verið tekið til meðferðar og að stúlkan hafi lýst vanlíðan vegna eineltis sem hún hefði orðið fyrir af hálfu kennara.

 

Fram kemur í skjali sem hefur að geyma hina kærðu ákvörðun og nefnist „Niðurstaða könnunar“ frá 30. júlí 2013 að foreldri stúlkunnar hafi komið í viðtal og einnig afhent greinargerð um meint einelti og andlegt ofbeldi af hálfu kennara í garð stúlkunnar. Einnig hafi sálfræðingar Barnaverndar Reykjavíkur rætt bæði við foreldri og barn. Í viðtali við barnið hafi komið fram að henni liði afar illa vegna framkomu kennarans við sig og væri hún hrædd við kennarann. Einnig hafi komið fram að stúlkan hafi verið í viðtölum hjá barnasálfræðingi vegna vanlíðunar sinnar.

 

Í fyrrnefndu skjali, „Niðurstaða könnunar“, segir einnig að í svarbréfi frá D komi fram að málið verði leyst á þann veg að unnið verði að því að umræddur kennari kenni stúlkunni ekki næsta skólavetur. Einnig komi fram í svarbréfi skólans að stuðningsfulltrúi hafi ávallt verið í þeim tímum sem umræddur kennari kenndi bekknum og að sá starfsmaður hefði engar athugasemdir við starfshætti kennarans. Skólinn hefði fengið ráðgjöf hjá skólaráðgjafa Vesturgarðs og leitað til framkvæmdastjóra Olweusaráætlunar. Umsjónarkennari hefði einnig unnið með bekknum varðandi tilfinningar og líðan. Skólinn taki fram í svarbréfi sínu að ekkert annað foreldri eða barn hafi kvartað yfir framkomu kennarans hvorki í garð þessa nemanda né annarra nemenda. Þá er tekið fram í skjalinu að ekki komi fram í svari skólans að talað hafi verið við umrætt barn varðandi ásakanir foreldra um einelti kennarans eða á annan hátt kannað hvort að um einelti eða andlegt ofbeldi af hálfu kennarans hafi verið að ræða. Í lok skjalsins „Niðurstaða könnunar“ segir:

 

Í ljósi framangreinds er ekki talin þörf á frekari afskiptum af málinu á grundvelli barnaverndarlaga en með tilliti til líðan barnsins og þar sem ásakanir foreldra verða að teljast alvarlegar beinir Barnavernd Reykjavíkur þeim tilmælum til D og Skóla- og frístundasviðs að kanna betur hvort um einelti af hálfu kennarans í garð barnsins hafi verið að ræða. Málinu er lokað hjá Barnavernd Reykjavíkur.“

 

 

 


 

 

II. Sjónarmið kæranda

 

Í bréfi kærenda 2. nóvember 2013 er því lýst að tilefni kvörtunar þeirra sé niðurstaða könnunar Barnaverndar Reykjavíkur sem fram komi í bréfi 30. júlí 2013. Kærendur vísa til þess í bréfinu að málið hafi upphaflega verið sent til Barnaverndarstofu sem hafi tilkynnt lögmanni kærenda að erindið ætti ekki að vera hjá stofunni heldur hjá kærunefnd barnaverndarmála. Hafi erindinu í kjölfarið verið beint til kærunefndarinnar og óskað eftir því að hún kanni tilefni kvörtunar kærenda vegna starfa Barnaverndar Reykjavíkur og athugi hvort rétt hafi verið að málum staðið við meðferð málsins.

 

Kærendur telja niðurstöðu barnaverndar um að loka málinu í andstöðu við 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. barnaverndarlaga en samkvæmt honum beri barnaverndarnefndum að kanna aðbúnað, hátterni og uppeldisskilyrði barna og meta þarfir þeirra sem ætla megi að sæti illri meðferð. Barnavernd Reykjavíkur hafi hafið könnun í samræmi við 35. gr. laganna og hafi niðurstaðan orðið sú að barnaverndarnefndin hafi gert skólanum að rannsaka starf starfsmanns síns og að rannsaka hvernig skólinn hefði tekið á þeim ávirðingum sem borist höfðu skóla­stjórnendum. Það sé skylda barnaverndar að tryggja börnum viðunandi aðbúnað. Barnavernd skuli samkvæmt lögum hefja könnun ef grunur leiki á að aðbúnaður barns sé á einhvern hátt óásættanlegur, skila af sér niðurstöðum könnunar og koma með tillögur að úrbótum. Það að vísa rannsókn málsins áfram til skólastjórnenda geti ekki með nokkrum móti talist viðunandi tillögur að úrbótum í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga.

 

 

 

III. Sjónarmið Barnaverndar Reykjavíkur

 

Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur 28. nóvember 2013 kemur fram að barnaverndin hafi bæði hafið könnun máls á grundvelli 21. gr. sem og 35. gr. barnaverndarlaga í kjölfar tilkynningar frá kærendum. Í samræmi við ákvæði 35. gr. laganna, sem varðar úrræði gagnvart þeim sem vinna með börnum, hafi málið verið tilkynnt viðkomandi vinnuveitanda og kennara. Kærendur eigi ekki aðild að því máli hjá Barnavernd Reykjavíkur samkvæmt ákvæðinu heldur lúti sú vinnsla málsins að kennaranum og vinnuveitanda hans.

 

Við könnun á grundvelli 21. gr. barnaverndarlaga, sem varðar málsmeðferð vegna tilkynninga, hafi stúlkan lýst vanlíðan vegna eineltis sem hún hafi orðið fyrir af hálfu kennara og hafi hún farið í viðtöl hjá sálfræðingum í kjölfarið. Í greinargerðinni kemur einnig fram að málið hafi verið tekið fyrir á ný og enn sé unnið að könnun í því sem ekki hafi verið lokið við ritun greinargerðarinnar.

 

Barnavernd Reykjavíkur fellst á það með kærendum málsins að niðurstaða könnunar í máli stúlkunnar frá 30. júlí 2013 hafi ekki verið í samræmi við málsmeðferðarreglur barnaverndarlaga. Í framangreindri greinargerð er vísað til þess að í tilefni af niðurstöðu könnunar í máli barnsins hefði átt að taka saman greinargerð vegna vanlíðunar barnsins, sem það reki til hegðunar og framkomu kennarans, þar sem lýst væri niðurstöðum könnunar, tiltekið hverra úrbóta væri þörf og settar fram tillögur að heppilegum úrræðum, sbr. 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga.

 

 

IV. Forsendur og niðurstaða

Kærendur óska eftir því að kærunefnd barnaverndarmála kanni tilefni kvörtunar þeirra vegna þeirrar ákvörðunar Barnaverndar Reykjavíkur að loka barnaverndarmáli vegna dóttur þeirra og athugi hvort rétt hafi verið að málum staðið við meðferð málsins. Hin kærða ákvörðun varðandi lokun máls þessa hjá Barnavernd Reykjavíkur var tekin 30. maí 2013 af ráðgjafa hjá barnaverndinni. Í 3. mgr. 14. gr. barnaverndarlaga segir að barnaverndarnefnd sé heimilt að fela starfsmönnum sínum könnun og meðferð einstakra mála eða málaflokka samkvæmt reglum sem hún sjálf setur. Í reglum um könnun og meðferð einstakra barnaverndarmála eða málaflokka hjá starfsmönnum barnaverndarnefndar Reykjavíkur, sem samþykktar voru af barnaverndarnefnd Reykjavíkur 11. desember 2012, er í 1. gr. fjallað um umboð barnaverndarnefndar til starfsmanna. Segir þar að starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur sé falið umboð til könnunar, meðferðar og ákvarðanatöku einstakra barnaverndarmála eða málaflokka samkvæmt reglunum og í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga að undanskildum þeim ákvörðunum sem óheimilt sé samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga að framselja til starfsmanna og sem samkvæmt reglunum skuli teknar af barnaverndarnefnd. Samkvæmt framanskráðu verður að telja að ráðgjafa barnaverndar hafi verið heimilt að taka hina kærðu ákvörðun og verða því ekki taldir annmarkar á henni að þessu leyti.

 

Í 23. gr. barnaverndarlaga er fjallað um áætlun um meðferð máls. Í lagagreininni kemur fram að þegar mál hefur verið nægjanlega kannað að mati barnaverndarnefndar skuli nefndin taka saman greinargerð þar sem lýst sé niðurstöðum könnunar, tiltekið sé hverra úrbóta sé þörf og settar fram tillögur að heppilegum úrræðum ef því er að skipta. Í 2. mgr. lagagreinarinnar segir að ef könnun leiði í ljós að þörf sé á beitingu sérstakra úrræða samkvæmt lögunum skuli barnaverndarnefnd, í samvinnu við foreldra og eftir atvikum barn sem náð hefur 15 ára aldri, gera skriflega áætlun um frekari meðferð máls. Hafa skuli samráð við yngri börn eftir því sem aldur þeirra og þroski gefi tilefni til. Áætlun skuli gera til ákveðins tíma og endurskoða eftir þörfum. Í 3. mgr. lagagreinarinnar segir að barnaverndarnefnd skuli ætíð meta þörf á samstarfi við aðra aðila við gerð og framkvæmd áætlunar. Sérstaklega beri að meta þörf á samstarfi við þá sem vinni með málefni viðkomandi barns og nefndir séu í 2. mgr. 17. gr. laganna.

 

Í niðurstöðu könnunar Barnaverndar Reykjavíkur 30. júlí 2013 kemur fram að foreldri stúlkunnar, sem hér um ræðir, hafi komið í viðtal og einnig afhent greinargerð í tilefni af hinu meinta einelti og andlegu ofbeldi af hálfu kennarans í garð stúlkunnar. Einnig hafi sálfræðingar barnaverndar rætt við foreldri og stúlkuna. Í viðtali við hana hafi komið fram að henni liði afar illa vegna framkomu kennarans við sig og að hún væri hrædd við hann. Einnig hafi komið fram að stúlkan hafi verið í viðtölum hjá barnasálfræðingi vegna vanlíðunar sinnar. Þá er því lýst í niðurstöðu könnunar að bréf hefði verið sent Skóla- og frístundasviði 28. maí sama ár og að afrit af því hafi verið send til D og kennarans. Viðbrögðum við því er lýst í könnuninni sem fram hafi komið í svarbréfi skólans. Niðurstaða könnunarinnar varð sú að ekki væri talin þörf á frekari afskiptum af málinu á grundvelli barnaverndarlaga en með tilliti til líðanar barnsins og þar sem ásakanir foreldra verði að teljast alvarlegar var þeim tilmælum beint til D og Skóla- og frístundasviðs að kanna betur hvort um einelti af hálfu kennarans í garð barnsins hafi verið að ræða. Málinu væri lokað hjá barnavernd Reykjavíkur. Í greinargerð barnaverndarnefndar 28. nóvember sl. til kærunefndarinnar kemur fram að unnið væri að könnun í málinu og henni væri enn ekki lokið.

 

Með vísan til þess sem hér að framan er rakið verður að telja að ekki hafi verið tímabært að loka málinu 30. júlí 2013. Það var þó gert þrátt fyrir að ekki hafi legið fyrir greinargerð um úrbætur sem þörf kynni að vera á varðandi líðan og aðstæður stúlkunnar svo og um viðhlítandi tillögur að heppilegum úrræðum eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga. Þar sem þessa var ekki gætt verður að telja að óheimilt hafi verið að svo komnu máli að loka málinu samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði. Ákvörðunin var því ólögmæt og ber með vísan til þess að hrinda henni.

 

Samkvæmt framangreindu er hinni kærðu ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur frá 30. júlí 2013 hrundið.


 

Ú r s k u r ð a r o r ð

 

Ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur frá 30. júlí 2013 um að loka máli dóttur kærenda, A og B, er hrundið.

 

                            

 

Sigríður Ingvarsdóttir,

formaður

 

 

 

 

                        Guðfinna Eydal                                                         Jón R. Kristinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum