Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 403/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 4. október 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 403/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18070030

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 17. júlí 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...](hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. júlí 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 15. september 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 18. apríl 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 2. júlí 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 17. júlí 2018. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 31. júlí 2018. Þá bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir kæranda þann 25. september sl. Kærandi óskaði eftir því í greinargerð að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann óttist föðurbróður sinn, sem hafi náin tengsl við valdamikla einstaklinga í heimaríki hans. Því geti hann ekki leitað aðstoðar þarlendra lögregluyfirvalda.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Þá frestaði kæra réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fæddur og uppalinn í [...]og hafi búið þar allt þar til hann hafi neyðst til að yfirgefa heimaríki sitt. Þá eigi hann kærustu og son sem sé á [...] ári. Sonurinn dvelji hjá móðurfjölskyldu sinni í [...] og telji kærandi hann vera öruggan. Hann bendi þó á að sonur hans sé eini lögerfingi hans. Faðir kæranda hafi látist í janúar 2015, eftir baráttu við [...], og þá hafi hann og yngri bróðir hans verið einir eftir á heimilinu. Móðir þeirra hafi yfirgefið þá þegar þeir hafi verið litlir og því hafi þeir verið einu erfingjar föður síns. Kærandi kveður að faðir hans hafi átt mikið af eignum, þ. á m. ræktarlönd, byggingar, verslanir og fyrirtæki. Hafi kærandi tekið yfir rekstur þeirra eftir andlát föður síns auk þess að sjá um bróður sinn sem hafi verið unglingur á þessum tíma. Dag einn hafi föðurbróðir kæranda haft samband við hann og óskað eftir því að hitta hann. Kærandi hafi orðið við því og hitt hann ásamt lögfræðingi sínum. Þá hafi föðurbróðir hans óskað eftir því að fá hlut í eignum þeirra bræðra og hafi kærandi fallist á það, að ráði lögfræðings síns, til að koma í veg fyrir leiðindi.

Kærandi kveður að föðurbróðir hans starfi innan lögreglunnar og hafi ítök hjá valdamiklu fólki. Kærandi hafi látið honum í té hús, land, peninga, lítinn búgarð og fleira. Nokkrum mánuðum síðar hafi föðurbróðirinn krafist þess að fá stærri hlut í eignunum og lagt hart að kæranda að selja stórt og gróið land sem hafi verið afar verðmætt vegna mikils trjágróðurs. Kærandi hafi ekki haft áhuga á að selja umrætt land og hafi föðurbróðirinn reiðst honum vegna þessa. Í kjölfarið hafi landið verið eyðilagt að hluta til þegar menn í einkennisbúningum hafi komið og höggvið niður trén. Þá hafi óprúttnir aðilar skorið niður maís á stóru ræktarlandi í eigu kæranda og skemmt þar vélar og tæki. Telji kærandi að þar hafi föðurbróðir hans verið að verki. Kærandi hafi þá leitað til svæðisstjóra (e. local chairman) en sá hafi ekki getað gert neitt í málinu þar sem um hafi verið að ræða öfluga aðila. Nokkru síðar hafi fimm aðilar komið til svæðisstjórans með gögn um eignarhald á ræktarlandinu. Hafi svæðisstjórinn þá hvatt kæranda til að kæra málið til lögreglu, sem hann hafi og gert. Framangreindir aðilar hafi verið handteknir í kjölfarið en sleppt úr haldi þremur dögum síðar.

Þá kemur fram í greinargerð kæranda að framið hafi verið eignatjón á fleiri eignum hans. Í þann mund hafi kærandi fengið skilaboð frá föðurbróður sínum, sem kærandi hafi túlkað á þá leið að hann myndi ekki veita kæranda vernd fyrr en kærandi hefði ákveðið að gefa eignirnar eftir til hans. Í kjölfar alls þessa hafi verið ráðist á kæranda, unnustu hans og son úti á götu. Þegar kærandi hafi sagt lögfræðingi sínum frá því hafi lögfræðingurinn sagt kæranda vera í miklum vanda. Um hafi verið að ræða glæpahóp sem kallist [...] og sé talinn tengjast lögreglunni. Hópurinn fari um með ránshendi og ógni fólki. Þá hafi kærandi fengið ógnandi símtöl frá föðurbróður sínum á þessum tíma. Kærandi hafi kært hótanir og ógnandi hegðun föðurbróður síns til lögreglu og lagt fram fjölda gagna. Viku síðar hafi verið kveikt í eign kæranda sem hafi hýst heildsölu og allt hafi brunnið til kaldra kola.

Kærandi kveður að í kjölfar kærunnar sem hann hafi lagt fram gegn föðurbróður sínum hafi lögreglan ákveðið að [...]. Þá hafi kærandi freistað þess að fá afhent gögn frá símafyrirtækinu sínu með dómsúrskurði en ekki haft erindi sem erfiði. Lögfræðingur kæranda hafi ráðlagt honum að óska eftir aðstoð frá aðila tengdum forseta landsins, manni að nafni [...], og hafi kærandi hitt hann á fundi ásamt lögfræðingi sínum og föðurbróður. Ekki hafi náðst samkomulag við föðurbróðurinn en þann 25. október 2016 hafi kærandi fengið skilaboð um að forsetinn hygðist taka málið til skoðunar. Þann 20. nóvember s.á. hafi kæranda borist þær fregnir að [...] hafi verið skotinn til bana. Þá hafi bróðir kæranda látist í bruna í desember sama ár. Í kjölfar alls þessa hafi kærandi ákveðið að flýja land.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi farið með rútu áleiðis til [...] í janúar 2017. Hafi rútan verið stöðvuð á landamærum [...] og [...] og hafi kærandi verið tekinn höndum, frelsissviptur í tvo sólarhringa og persónuskilríki hans tekin af honum. Hann hafi verið niðurlægður, pyndaður og verið án matar og drykkjar. Þegar kæranda hafi verið sleppt hafi hann verið símalaus og ekki vitað hvar hann hafi verið. Þá hafi hann verið í felum í heimaríki sínu í rúmlega hálft ár, bankareikningar föður hans hafi verið frystir og hann hafi því ekki haft aðgang að fjármagni. Kveður kærandi að hann óttist um líf sitt og sé viss um að hann muni verða drepinn, snúi hann aftur til heimaríkis.

Þá fjallar kærandi í greinargerð sinni ítarlega um ástand mannréttindamála og almennt öryggisástand í [...] og vísar í því sambandi til ýmissa skýrslna og gagna, þ. á m. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um mannréttindi í [...] fyrir árið 2017 og síðustu ársskýrslu mannréttindasamtakanna Human Rights Watch um [...]. Í gögnunum komi m.a. fram að meðal alvarlegustu mannréttindabrota í landinu séu spilling á öllum stigum stjórnkerfisins og mannréttindabrot öryggissveita, sem hlíti ekki reglum réttarríkisins. Sjálfstæði skorti í dómskerfinu og dæmi séu um að sakborningar njóti ekki opinberrar og réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Þá sé tjáningar-, funda- og félagafrelsi skert og skort hafi á gagnsæi í síðustu kosningum. Forseti landsins, [...], hafi setið á valdastóli frá árinu [...] og sé hvort tveggja þjóðhöfðingi landsins og æðsti maður þingsins. Refsileysi sé vandamál innan stjórnkerfisins og mikil tregða sé til að rannsaka mál, sakfella embættismenn og refsa þeim sem hafi gerst brotlegir í starfi.

Til stuðnings aðalkröfu sinni um viðbótarvernd vísar kærandi til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Kærandi hafi flúið frá heimaríki sínu vegna ótta við föðurbróður sinn sem sé lögreglumaður með tengsl við háttsetta aðila. Vísar kærandi í þessu sambandi m.a. til lögskýringargagna að baki lögum um útlendinga, 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. stjórnskipunarlög nr. 97/1995, og lögskýringargagna þar að baki, 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og c-liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Til stuðnings varakröfu sinni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vísar kærandi til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og lögskýringargagna að baki ákvæðinu.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans, þ. á m. trúverðugleikamat stofnunarinnar. Þá gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun telji ekki ósanngjarnt að krefja kæranda um gögn af einhverju tagi, í því skyni að styðja við framburð sinn. Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé ítrekað vísað í færslur kæranda á samfélagsmiðlum, svo og færslur annarra notenda þar sem kærandi hafi verið merktur (e. tagged) á myndum með nafni. Að mati stofnunarinnar séu fyrrgreindar færslur á samfélagsmiðlum í ósamræmi við framburð kæranda. Kveður kærandi að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að kynna sér umrædd gögn eða veita skýringar á meintu ósamræmi áður en Útlendingastofnun hafi tekið ákvörðun í málinu. Vísar kærandi í því sambandi til IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 13. og 15. gr. laganna. Þá vísar kærandi til skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um trúverðugleikamat, Beyond Proof – Credibility Assessment in EU Asylum Systems, þar sem m.a. sé vísað til 1. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2011/95/ESB. Í skýrslunni komi m.a. fram að gefa skuli umsækjanda um alþjóðlega vernd möguleika á að gera athugasemdir við það sem stjórnvöld nota sem grundvöll fyrir óhagstæðu trúverðugleikamati.

Þá kveður kærandi hvorki eðlilegt né sanngjarnt að krefjast þess að hann leiti verndar með flutningi innanlands (e. internal flight) og vísar í því sambandi m.a. til leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um flutning innanlands (e. Internal Flight or Relocation Alternative Guidelines) og lögskýringargagna að baki 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá vísar kærandi að endingu til 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga og fer þess á leit að honum verði gefinn kostur á að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins, m.a. í ljósi þess að andmælaréttur hans hafi ekki verið virtur við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Vegna athugasemda kæranda við málsmeðferð Útlendingastofnunar sendi kærunefnd kæranda gögn málsins með tölvupóstum, dags. 20. september sl., og bauð honum að koma að frekari athugasemdum. Þann 25. september sl. bárust kærunefnd andmæli kæranda vegna gagnanna. Í andmælunum koma m.a. fram skýringar kæranda á ætluðu misræmi milli frásagnar hans og upplýsinga af samfélagsmiðlum. Í gögnum málsins sé m.a. látið að því liggja að kona sem hafi ítrekað merkt kæranda á myndum á samfélagsmiðlinum Facebook sé kærasta hans. Kærandi kveður svo ekki vera, hún sé einungis fjölskylduvinur. Þá komi m.a. fram í trúverðugleikamati Útlendingastofnunar að stofnuninni þyki ótrúverðugt að kærandi hafi verið í felum í heimaríki sínu í allt að hálft ár fyrir flótta hans hingað, þar sem hann hafi verið virkur á samfélagsmiðlum og m.a. birt þar símanúmer sitt og dvalarstað. Þá hafi stofnuninni þótt ótrúverðugt að kærandi hafi verið mikill efnamaður, þar sem hann hafi staðið í braski með farsíma og önnur raftæki á samfélagsmiðlum fyrir smápeninga. Er skýring kæranda á því m.a. sú að hann hafi vantað fjármuni og ekki lengur haft aðgang að sjóðum föður síns. Þá sé, í gögnum málsins, látið að því liggja að drengur á mynd sem kærandi sé merktur á á Facebook, sé sonur hans. Sá hafi verið staddur í [...] en skv. framburði kæranda sé sonur hans staddur í [...]. Skýring kæranda á því sé sú að sonur hans hafi áður dvalið í [...] en sé nú kominn aftur til [...].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað [...] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé [...] ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...].

[...] er lýðræðisríki með [...] milljónir íbúa. [...] gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum þann [...]. Árið [...] gerðist ríkið aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þá gerðist ríkið aðili að alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið [...], alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið [...] og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið [...].

Í ofangreindum skýrslum bandarísku og sænsku utanríkisráðuneytanna, um ástand mannréttindamála í [...], og nýjustu ársskýrslum mannréttindasamtakanna Amnesty International og Human Rights Watch kemur m.a. fram að meðal helstu mannréttindabrota þar séu morð og pyndingar af hálfu öryggissveita, slæmar fangelsisaðstæður, geðþóttahandtökur og -varðhald, takmarkanir á prent-, tjáningar-, funda- og félagafrelsi og pólitískri þátttöku, opinber spilling, refsivæðing samkynhneigðar og áreitni gegn hinsegin fólki. Þá séu heimilisofbeldi og kynbundið ofbeldi vandamál í [...], svo og mismunun gegn fólki með fötlun, þvingaðir brottflutningar og skortur á aðgangi að húsnæði og viðhlítandi heilbrigðisþjónustu.Í ofangreindum gögnum kemur jafnframt fram að spilling, fjárdráttur og refsileysi grafi undan mannréttindum í landinu, þ. á m. fjárdráttur úr sjóðum sem eigi með réttu að renna inn í t.d. mennta-, heilbrigðis- og refsivörslukerfið. Aðgangur að sjálfstæðu dómsvaldi og réttlátri málsmeðferð sé ekki fyllilega tryggður m.a. vegna undirmönnunar og -fjármögnunar, spillingar og mútuþægni. Í skýrslu Human Rights Watch frá 2013, um spillingu í [...], kemur m.a. fram að í kjölfar krafna [...] almennings um sérhæfðan dómstól til að dæma í umfangsmiklum spillingarmálum hafi verið stofnaður dómstóll gegn spillingu (e. [...]) árið [...]. Þá hafi eftirlitsskrifstofa ríkisstjórnarinnar (e. [...]) heimild til að sækja opinbera embættismenn til saka vegna spillingar en ríkissaksóknari geti saksótt bæði einkaaðila og embættismenn. Þá geti einstaklingar lagt fram kvörtun vegna starfa lögreglu á þar til gerðu eyðublaði á heimasíðu [...] lögreglunnar. Nokkuð skorti á eftirfylgni með framangreindu eftirlitskerfi og erfitt sé að sækja æðstu embættismenn til saka. Hins vegar hafi einstaklingar á lægri stigum verið saksóttir og í sumum tilvikum hlotið fangelsisrefsingu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Líkt og fram hefur komið byggir kærandi á því að hann óttist föðurbróður sinn sem hafi ásælst verðmætar eignir sem kærandi og bróðir hans hafi erft eftir föður sinn, þ. á m. fyrirtæki, ræktarlönd og aðrar fasteignir. Föðurbróðir kæranda hafi haft í frammi ógnandi tilburði og hótað kæranda og bróður hans vegna tregðu kæranda til að afhenda föðurbróður sínum eignirnar. Þá telji kærandi föðurbróður sinn bera ábyrgð á dauða bróður síns, sem hafi látist í eldsvoða. Föðurbróðirinn sé lögreglumaður og hafi náin tengsl við valdamikla einstaklinga í heimaríki hans. Því geti kærandi ekki leitað aðstoðar þarlendra lögregluyfirvalda. Þá hafi kærandi verið í felum í heimaríki sínu síðasta hálfa árið áður en hann hafi flúið til Íslands.

Kærandi hefur ekki lagt fram gögn til stuðnings kröfu sinni um alþjóðlega vernd, önnur en framburð sinn. Í ljósi þess hvernig ferð kæranda til Íslands kom til í upphafi telur kærunefnd ekki ósanngjarnt að gera þá kröfu að kærandi leggi fram einhver trúverðug gögn til að styðja við frásögn sína. Það er mat kærunefndar að önnur fyrirliggjandi gögn í málinu, þ. á m. gögn sem urðu til við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun og kærandi hefur nú fengið aðgang að, styðji ekki við framburð kæranda.

Í trúverðugleikamati Útlendingastofnunar kemur m.a. fram að stofnuninni þyki ótrúverðugt að kærandi hafi erft eignir frá föður sínum sem hafi verið virði allt að [...] bandaríkjadala, m.a. í ljósi þess að hann hafi ekki getað gefið upp ítarleg nöfn á eignum eða fyrirtækjum föður síns eða lagt fram einhvers konar tölvutæk gögn um tilvist þeirra. Vefleit að nöfnum þeirra fyrirtækja sem kærandi hafi þó gefið upp hafi ekki leitt í ljós tilvist þeirra. Með tilliti til mynda og annarra upplýsinga af samfélagsmiðlum hafi stofnuninni jafnframt þótt ótrúverðugt að kærandi hafi lifað dýrum lífsstíl í heimaríki sínu á sama tíma og hann hafði aðgang að sjóðum föður síns. Enn fremur hafi stofnuninni þótt ótrúverðugur framburður kæranda um að hann hafi starfað í téðum fyrirtækjum föður síns þar sem bankayfirlit hans hafi gefið til kynna að reglulega hafi verið greitt inn á reikning hans af fyrirtæki að nafni [...]. Líkt og fram hefur komið þótti Útlendingastofnun jafnframt ótrúverðugt að kærandi hafi verið í felum í heimaríki sínum í hálft ár fyrir komu hans hingað til lands í ljósi þess að hann hafi birt símanúmer sitt og dvalarstað á samfélagsmiðlum á téðu tímabili.

Að mati kærunefndar benda gögn málsins ekki til annars en að tilteknir reikningar á samfélagsmiðlum, sem vísað er til í ákvörðun Útlendingastofnunar, stafi frá kæranda sjálfum enda hefur hann ekki haldið öðru fram. Kærandi hefur nú fengið aðgang að öllum gögnum málsins og komið að andmælum, sem áður hafa verið rakin. Hefur kærandi, að mati nefndarinnar, ekki lagt fram haldbærar skýringar á ósamræmi milli framburðar hans og annarra gagna málsins. Í samræmi við það sem fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar er það því niðurstaða kærunefndar í ljósi gagna málsins að frásögn kæranda af því að hann hafi erft verðmætar eignir frá föður sínum og um deilur við föðurbróður sé ótrúverðugur og verður því ekki byggt á frásögninni við úrlausn málsins.

Því er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum 74. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga um útlendinga kemur m.a. fram að með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi hefur greint frá því að hann óttist aðila sem hafi tengsl við yfirvöld í heimaríki hans. Því geti hann ekki leitað aðstoðar þarlendra yfirvalda vegna aðstæðna sinna. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna, þ. á m. upplýsinga um aðstæður í [...], framburðar kæranda sem kærunefnd hefur metið ótrúverðugan og annarra gagna sem hafa orðið til við meðferð máls hans fyrir stjórnvöldum, er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á slíkar aðstæður í heimaríki.

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi [...] ára karlmaður og ekki liggur annað fyrir en að hann sé heilsuhraustur. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að hann hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað. Athugasemdir við ákvörðun ÚtlendingastofnunarLíkt og fram hefur komið gerir kærandi athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans, m.a. þess efnis að andmælaréttur hans hafi ekki verið virtur, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Ber kærandi m.a. fyrir sig að hann hafi ekki haft aðgang að gögnum sem hafi orðið hluti af máli hans, og verið honum í óhag, fyrir ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun.

Af 13. gr. stjórnsýslulaga leiðir að þegar aðila er ókunnugt um að ný gögn og upplýsingar hafa bæst við í máli hans og telja verður að upplýsingarnar séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins er stjórnvöldum almennt óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær. Þótt aðila sé kunnugt um tilvist tiltekinna upplýsinga kviknar skylda stjórnvalds til að veita honum sérstakt færi á að koma að andmælum ef slíkar upplýsingar bætast við stjórnsýslumál án þess að honum sé kunnugt um það.

Í máli kæranda liggur fyrir að tiltekin gögn, þ. á m. af samfélagsmiðlum, urðu hluti af máli hans við meðferð þess hjá Útlendingastofnun. Í ákvörðun stofnunarinnar er ítrekað vísað til framangreindra gagna sem telja verður að séu kæranda í óhag og hafi haft verulega þýðingu við trúverðugleikamat stofnunarinnar. Þrátt fyrir að ætla megi að kæranda hafi verið kunnugt um tilvist gagnanna var honum, skv. gögnum málsins, ókunnugt um að þau hefðu orðið hluti af stjórnsýslumáli hans fyrir Útlendingastofnun. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að málsmeðferð stofnunarinnar hafi, að þessu leyti, ekki verið í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga.

Meginmarkmiðið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Kærandi hefur nú fengið aðgang að öllum gögnum málsins og komið að andmælum. Það er því mat kærunefndar, eins og hér stendur á, að bætt hafi verið úr framangreindum annmarka á málsmeðferð Útlendingastofnunar á æðra stjórnsýslustigi. Ljóst er, með vísan til framangreindrar niðurstöðu kærunefndar í máli kæranda, að annmarkinn hafi ekki haft efnisleg áhrif á niðurstöðu máls hans og sé ekki slíkur að fella beri ákvörðunina úr gildi af þeirri ástæðu.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi hingað til lands 12. september 2017 og sótti um alþjóðlega vernd þremur dögum síðar, eða þann 15. september s. á. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Anna Tryggvadóttir                                                                                      Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum