Hoppa yfir valmynd

Synjun Vinnumálastofnunar frá 20. apríl 2007. Frávísun.

Með erindi, dags. 16. maí 2007, sem barst ráðuneytinu 24. maí 2007, kærði A synjun Vinnumálastofnunar, dags. 20. apríl 2007, um veitingu tímabundins atvinnuleyfis fyrir B, sem er filippseyskur ríkisborgari.

 

I. Málavextir og málsástæður

Mál þetta varðar synjun Vinnumálastofnunar um veitingu atvinnuleyfis til handa A í því skyni að ráða til starfa á heimili sitt B, sem er filippseyskur ríkisborgari. Vinnumálastofnun synjaði um veitingu atvinnuleyfisins með vísan til a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.

Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hana til ráðuneytisins. Ráðuneytið sendi bréf, dags. 31. maí 2007, þar sem athygli kæranda var vakin á því að kærufrestur í málinu hefði runnið út 18. maí 2007 en samkvæmt 24. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning berst um ákvörðun Vinnumálastofnunar. Viðkomandi kæra hafi borist ráðuneytinu 24. maí 2007 og því að liðnum lögbundnum kærufresti.

Í fyrrnefndu bréfi ráðuneytisins var enn fremur tekið fram að þrátt fyrir 24. gr. laganna um atvinnuréttindi útlendinga færi um kæru að öðru leyti samkvæmt VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Því óskaði ráðuneytið eftir því að kærandi tilgreindi ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum kærufresti.

Ráðuneytinu barst svarbréf frá kæranda 11. júní 2007, þar sem fram kemur að kærandi hafi ekki skýringu á því hvers vegna kæran barst ráðuneytinu að liðnum kærufresti. Kæran hafi verið send með sendli þann 16. maí 2007 og tekur kærandi fram að ástæðna geti verið að leita víða og geti legið hjá hverjum þeim sem umlék bréfið allt frá þeim tíma sem kærandi afhenti bréfið og það barst ráðuneytinu.

 

II. Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, er heimilt að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun eða afturköllun atvinnuleyfa til félagsmálaráðuneytisins. Samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning berst um ákvörðun Vinnumálastofnunar en að öðru leyti fer um kæru skv. VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um stjórnsýslukæru. Samkvæmt 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga telst kæra komin fram nógu snemma ef bréf, sem hefur hana að geyma, er komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en fresturinn er liðinn. Samkvæmt athugasemdum við 5. mgr. 27. gr. í greinargerð með lögunum teldist nægileg sönnun í síðara tilvikinu t.d. póstkvittun fyrir viðtöku á ábyrgðarbréfi þar sem fram kæmi hver væri sendandi og hver viðtakandi bréfs. Einnig mætti taka mið af póststimpli bréfsins ef ekki væri til að dreifa öðrum gögnum. Lægi ekkert annað fyrir mætti sennilega miða við að kæra hafi verið afhent pósti á póstlagningardegi hennar. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ber að vísa stjórnsýslukæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi ekki skýringu á því hvers vegna stjórnsýslukæran barst að liðnum kærufresti. Kæran hafi verið send með sendli þann 16. maí 2007 og telur kærandi að ástæðu þess að kæran barst ráðuneytinu að liðnum kærufresti geti verið að leita víða.

Það er mat ráðuneytisins að kærandi hafi ekki sýnt nægilega fram á að stjórnsýslukæran hafi komið fram nógu snemma í skilningi 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga enda liggja engin gögn fyrir í málinu til staðfestingar því hvenær kæran fór sannanlega frá kæranda. Í því sambandi verður meðal annars að líta til þess að sex dagar liðu frá því að kærufrestur rann út og þar til að kæran barst ráðuneytinu. Þá verður ekki ráðið af málsatvikum eða gögnum málsins að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, eða að veigamiklar ástæður mæli með því að stjórnsýslukæran verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá ráðuneytinu, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Ráðuneytið skortir því heimildir að lögum til að taka málið til efnislegrar umfjöllunar og ber að vísa erindi kæranda frá ráðuneytinu, sbr. 24. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Stjórnsýslukæru A, dags. 16. maí 2007, sem barst ráðuneytinu 24. maí 2007, vegna synjunar Vinnumálastofnunar, dags. 20. apríl 2007, um veitingu tímabundins atvinnuleyfis fyrir B, sem er filippseyskur ríkisborgari, er hér með vísað frá félagsmálaráðuneytinu.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum