Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 316/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 316/2017

Miðvikudaginn 17. janúar 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. september 2017, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 10. ágúst 2017 um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til barnsmóður kæranda frá 1. júlí 2015.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með tölvubréfi 5. júní 2016 fór kærandi fram á að milliganga Tryggingastofnunar ríkisins á meðlagi til barnsmóður hans yrði stöðvuð, auk niðurfellingar meðlagsgreiðslna með afturvirkum hætti frá árinu X. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 13. júní 2016, var kröfum kæranda synjað með þeim rökum að barnsmóðir kæranda og sonur væru með lögheimili á Íslandi. Sú ákvörðun Tryggingastofnunar var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála og var kveðinn upp úrskurður í málinu 29. mars 2017, úrskurður nr. 225/2016, þar sem ákvörðun Tryggingastofnunar var felld úr gildi og málinu heimvísað til nýrrar meðferðar. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. ágúst 2017, stöðvaði stofnunin milligöngu meðlagsgreiðslna til barnamóður kæranda frá 1. júlí 2015.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. september 2017. Með bréfi, dags. 4. september 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 9. október 2017, og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir umboðsmanns kæranda bárust 21. október 2017 og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. október 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd velferðarmála felli úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. ágúst 2017, um að upphafstími stöðvunar á milligöngu meðlagsgreiðslna til barnsmóður hans sé 1. júlí 2015. Gerð er krafa um stöðvun milligöngu meðlagsgreiðslna frá X. Þá er að auki málsmeðferð Tryggingastofnunar kærð með þeim rökum að hún samræmist hvorki málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar né heldur sjónarmiðum um vandaða stjórnsýsluhætti.

Í kæru segir frá málsatvikum á þá leið að kærandi og barnsmóðir hans hafi eignast saman son en þau hafi slitið sambúð árið X. Ákveðið hafi verið að forsjá barnsins yrði sameiginleg og að lögheimili barnsins skyldi vera hjá móður. Fyrst um sinn hafi verið samkomulag um umgengni og samskipti vegna barnsins verið góð. Barnsmóðir kæranda hafi flutt með son þeirra til C í X. Þau eigi þar fasta búsetu og njóti þar réttinda og beri skyldur samkvæmt C lögum.

Þrátt fyrir búsetu í C hafi barnsmóðir kæranda fengið greidd meðlög frá Tryggingastofnun. Barnsmóðir kæranda hafi fasta búsetu í C og barn þeirra hafi verið í tveimur barnaskólum þar. Samkvæmt ferilskrá hennar á Linkedin hafi hún starfað sem [...] í C frá X og það komi einnig fram í sálfræðimati barns.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. júní 2016, hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, mál nr. 225/2016. Samkvæmt úrskurðarorði, dags. 29. mars 2017, hafi Tryggingastofnun ekki gætt að rannsóknarskyldu sinni og málinu verið vísað til nýrrar meðferðar hjá Tryggingastofnun. Umboðsmaður kæranda hafi kært óhóflegan drátt á afgreiðslu Tryggingastofnunar í kjölfar úrskurðarins til úrskurðarnefndar velferðarmála. Tryggingastofnun hafi farið fram á frávísun málsins, dags. 10. ágúst 2017, þar sem ákvörðun hafi verið tekin um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna frá 1. júlí 2015 með bréfi, dags. 10. ágúst 2017. Sé það mat kæranda að ákvörðun stofnunarinnar eigi sér ekki lagastoð í 1. mgr. 9. gr. laga um lögheimili. Að auki þá hafi svörum stofnunarinnar verið ábótavant og þau til þess fallin að kasta ryki í augu kæranda sem sannarlega hafi lögmæta aðild að þessu máli á grundvelli meðlagsskyldu og þeirra umgengnistálmana sem hann sæti.

Í dómsúrskurði í máli X komi skýrlega fram að lögheimili og föst búseta barnsmóður kæranda sé í C. Í 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar sé að finna reglugerðarheimild er varðar framkvæmd útgreiðslu meðlaga vegna barna sem búsett eru erlendis. Í 5. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 segi að greiðslur falli niður „Ef meðlagsmóttakandi og/eða barn eru búsett erlendis“. Hafa beri í huga að ekki séu milliríkjasamningar um meðlagsgreiðslur í gildi á milli C og Íslands.

Samkvæmt lögheimilislögum sé bannað að hafa lögheimili annars staðar en þar sem viðkomandi hafi fasta búsetu. Hljóti því íslensk stjórnvöld, rétt eins og héraðsdómur hafi gert, að gera ráð fyrir að lögheimili barnsmóður kæranda sé allt frá X í C en ekki á Íslandi enda njóti barnsmóðir kæranda þar réttinda, þar á meðal gagnvart C velferðarkerfi og beri jafnframt skyldur. Að auki megi vera ljóst af gögnum málsins að barnsmóðir kæranda hafi unnið að starfsferli sínum ytra allt frá X.

Samkvæmt 56. gr. barnalaga geti sá sem standi straum af útgjöldum vegna framfærslu barns krafist þess að meðlag sé ákveðið og innheimt, enda hafi viðkomandi forsjá barns eða búi hjá honum samkvæmt lögmætri skipan. Að eiga fasta búsetu annars staðar en á lögheimili teljist samkvæmt íslenskum rétti ekki vera lögmæt skipan.

Til skýringarauka vísar kærandi til úrskurðar úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 54/2011 þar sem segi að samkvæmt 14. gr. reglugerðar nr. 945/2009 sé Tryggingastofnun aðeins skylt að greiða meðlagsmóttakanda meðlag sé hann búsettur hér á landi, sbr. 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í 2. mgr. 14. gr. segi að þrátt fyrir 1. mgr. skuli Tryggingastofnun hafa milligöngu um meðlag til meðlagsmóttakanda sem búsettur sé utan Íslands ef ákvæði milliríkjasamninga mæli fyrir um það.

Þá vísar kærandi í athugasemdir við 9. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 21/1990 um lögheimili þar sem segi um 1. mgr. að lagt sé til að heimild námsmanna og þeirra sem dveljist erlendis vegna veikinda til að halda lögheimili sínu hér á landi sé takmörkuð að því leyti að skilyrði sé að viðkomandi sé ekki skráður með fasta búsetu í öðru landi.

Það sé mat kæranda að ákvörðun Tryggingastofnunar geti ekki byggst á 1. mgr. laga nr. 21/1990 um lögheimili, enda hafi barnsmóðir kæranda haft fasta skráða búsetu í C á meðan hún hafi stundað nám sem taki að jafnaði X ár allt frá janúar X. Að námi loknu hafi hún starfað við [...] í C. Megi því vera ljóst að barnsmóðir kæranda hafi ekki verið í [námi] í X ár eða að meðlagsgreiðslur til hennar frá Tryggingastofnun geti grundvallast á slíku. Að auki megi nefna að ákvæðið eigi einkum við þegar föst búseta vegna námsdvalar sé á Norðurlöndunum. Jafnvel þótt ákvörðun Tryggingastofnunar ætti sér stoð í 1. mgr. 9. gr. laga um lögheimili, verði ekki séð að hægt sé að byggja á því ákvæði ótímabundið. Ef um sé að ræða námsdvöl vegna [náms], hafi þeirri námsdvöl lokið í X eins og ferilskráin sýni. Á meðan hafi kærandi ekki fengið að umgangast barn sitt. Frá þeim tíma hafi barnsmóðir starfað við [...] eins og ferilskrá og sálfræðimat barns sýni fram á.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að það standist ekki skoðun að barnsmóðir kæranda hafi verið í námi frá X til X. Í 15. gr. reglugerðar nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá sé fjallað um námsmenn. Þar segi:

„Með námsmanni í þessari reglugerð er átt við einstakling, [annan en launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling], sem er við nám eða starfsþjálfun er lýkur með útgáfu vottorð um menntun sem er viðurkennt er af yfirvöldum“.

Af reglugerðarákvæðinu leiði að ekki geti sá talist námsmaður sem sé til málamynda í háskóla og sé í fullri vinnu sem háskólamenntaður aðili á meðan. Eins og komið hafi fram í kæru þá hafi barnsmóðir kæranda verið starfandi löngu fyrir þann tíma og sé eðlileg krafa að meðlög verði felld niður með afturvirkum hætti til þess tíma.

Þá séu gerðar athugasemdir við ýmis formsatriði gagna sem Tryggingastofnun hafi stuðst við þegar ákvörðun hafi verið tekin um upphafstíma stöðvunar milligöngu meðlagsgreiðslna. Ferliskrá barnsmóður kæranda segi þá sögu að hún hafi stundað fulla vinnu sem fjölskylduráðgjafi eftir nám erlendis.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé stöðvun á milligöngu meðlags til barnsmóður kæranda frá 1. júlí 2015. Kærandi óski eftir stöðvun lengra aftur í tímann.

Samkvæmt 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, þá geti hver sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Samkvæmt 5. tölulið 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærslulaga, falli greiðslur niður ef meðlagsmóttakandi og/eða barn séu búsett erlendis.

Forsaga þessa máls sé sú að Tryggingastofnun ríkisins hafi synjað kæranda um stöðvun á milligöngu meðlagsgreiðslna til barnsmóður hans með bréfi, dags. 13. júní 2016, þar sem hún hafi verið með lögheimili hér á landi. Sú ákvörðun hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála og hafi málinu verið heimvísað til nýrrar meðferðar þar sem nefndin taldi stofnunina ekki hafa kannað til hlítar lögheimilisskráningu barnsmóður kæranda, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 225/2016.

Í millitíðinni hafi lögheimili barnsmóður kæranda verið flutt úr landi frá og með 21. júlí 2016 og Tryggingastofnun stöðvað milligöngu meðlagsgreiðslna til hennar frá þeim tíma.

Eftir að úrskurður nr. 225/2016 féll hafi Tryggingastofnun óskað eftir upplýsingum frá barnsmóður kæranda um nám hennar í C, hvenær það hafi hafist og hvenær því hafi lokið. Tryggingastofnun hafi borist þær upplýsingar að nám barnsmóður kæranda hafi lokið í X og því hafi niðurstaða Tryggingastofnunar verið sú að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til barnsmóður kæranda frá 1. júlí 2015 eða sex mánuðum eftir að námi lauk með vísan til 1. mgr. 9. gr. lögheimilislaga nr. 21/1990 og reglugerðar um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá nr. 463/1999.

Tryggingastofnun hafi eingöngu milligöngu á meðlagsgreiðslum til þeirra sem búsettir séu hér á landi, sbr. 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í úrskurði nr. 225/2016 segi úrskurðarnefnd velferðarmála að líta beri til laga nr. 21/1990 um lögheimili varðandi mat á búsetu. Í 1. gr. laganna segi að lögheimili manns teljist sá staður vera þar sem maður hafi fasta búsetu. Maður teljist hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hafi bækistöð sína, dveljist að jafnaði í tómstundum sínum, hafi heimilismuni sína og svefnstaður hans sé þegar hann sé ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.

Í lögheimilislögum sé einnig að finna undanþágu fyrir því að halda lögheimili hér á landi þrátt fyrir búsetu erlendis. Í 9. gr. laganna segi að sá sem dveljist erlendis við nám eða vegna veikinda geti áfram átt lögheimili hér á landi hjá skyldfólki sínu eða venslafólki eða í því sveitarfélagi þar sem hann hafi átt lögheimili er hann hafi farið af landi brott, enda sé hann ekki skráður með fasta búsetu erlendis.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi barnsmóðir kæranda verið í námi í C frá árinu X fram í X. Með vísan til 9. gr. lögheimilislaga hafi barnsmóðir kæranda fengið að halda lögheimili sínu hér á landi þann tíma.

Í 15. gr. reglugerðar nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá er fjallað um námsmenn. Þar segi:

„Sá sem er búsettur og tryggður hér á landi og dvelst erlendis við nám er áfram tryggður meðan á námi stendur enda sé hann ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins. Sama gildir um aðstandendur hans sem með honum dveljast.

Með námsmanni í þessari reglugerð er átt við einstakling, annan en launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling, sem er við nám eða starfsþjálfun er lýkur með útgáfu vottorðs um menntun sem viðurkennt er af yfirvöldum.

Heimilt er að veita námsmönnum og fjölskyldum þeirra sömu aðstoð og sjúkratryggðir einstaklingar á Íslandi njóta meðan á tímabundinni dvöl hér á landi stendur á námstímanum.

Heimilt er að hafa skráningu óbreytta í allt að sex mánuði eftir að námi lýkur. Snúi námsmaður ekki aftur til Íslands innan þess tíma fellur réttur til að vera skráður niður.“

Samkvæmt framansögðu sé heimilt að skrá búsetu á Íslandi sé viðkomandi í námi í öðru landi. Eftir að námi ljúki hafi viðkomandi sex mánuði til að ákveða áframhaldandi búsetu. Ef viðkomandi ákveði að búa áfram erlendis þá falli viðkomandi ekki lengur undir undanþágu á búsetu vegna náms og þar af leiðandi eigi viðkomandi ekki rétt á tengdum réttindum.

Þar sem að barnsmóðir kæranda hafi stundað nám erlendis hafi henni verið heimilt að halda lögheimili á Íslandi í allt að sex mánuði eftir að námi erlendis lauk. Það sé því mat Tryggingastofnunar að heimild stofnunarinnar til að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda hafi fallið niður frá þeim tímapunkti. Af þeim sökum hafi verið ákveðið að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til barnsmóður kæranda frá 1. júlí 2015 en ekki fyrr.

Að gefnu tilefni beri að taka það fram að þrátt fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar um stöðvun milligöngu á meðlagsgreiðslum til barnsmóður kæranda, þá hafi það engin áhrif á skyldu kæranda samkvæmt meðlagsákvörðun til að greiða kæranda meðlag vegna þess tíma sem Tryggingastofnun hafi ekki milligöngu um, þrátt fyrir búsetu barnsmóður kæranda og sonar hans í C.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. ágúst 2017, um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til barnsmóður kæranda frá 1. júlí 2015. Kærandi óskaði eftir að meðlagsgreiðslur yrðu felldar niður frá árinu X og því felur ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í sér synjun á niðurfellingu meðlagsgreiðslna lengra aftur í tímann en frá 1. júlí 2015.

Í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 er kveðið á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins en þar segir:

"Tryggingastofnun ríkisins er skylt að greiða rétthafa greiðslna skv. IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja.“

Ákvæði 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kveður á um rétt til fyrirframgreiðslu meðlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal ávallt vera innan þeirra marka sem 20. gr. laga þessara setur um fjárhæð greiðslna og aldur barna.“

Samkvæmt framangreindum ákvæðum ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur þegar umsækjandi hefur lögformlega meðlagsákvörðun og er búsettur hér á landi. Óumdeilt er í þessu máli að lögformleg meðlagsákvörðun liggur fyrir í málinu. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort barnsmóðir kæranda hafi uppfyllt skilyrðið um búsetu hér á landi til 1. júlí 2015.

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili er lögheimili skilgreint sem sá staður þar sem maður hefur fasta búsetu. Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1990 er að finna undantekningu frá framangreindri reglu 1. gr. sömu laga. Þar segir að sá sem dveljist erlendis við nám geti áfram átt lögheimili hér á landi, enda sé hann ekki skráður með fasta búsetu erlendis.

Í 15. gr. reglugerðar nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá segir:

„Sá sem er búsettur og tryggður hér á landi og dvelst erlendis við nám er áfram tryggður meðan á námi stendur enda sé hann ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins. Sama gildir um aðstandendur hans sem með honum dveljast.

Með námsmanni í þessari reglugerð er átt við einstakling, annan en launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling, sem er við nám eða starfsþjálfun er lýkur með útgáfu vottorðs um menntun sem viðurkennt er af yfirvöldum.

[…]

Heimilt er að hafa skráningu óbreytta í allt að sex mánuði eftir að námi lýkur. Snúi námsmaður ekki aftur til Íslands innan þess tíma fellur réttur til að vera skráður niður.“

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 225/2016 rannsakaði Tryggingastofnun frekar hvenær búseta barnsmóður kæranda hafi verið í C að teknu tillit til framangreinda laga- og reglugerðarákvæða. Fyrir liggur prófskírteini barnsmóður kæranda, dags. X, ásamt bréfi frá D þar sem rakinn er námsferill hennar. Á grundvelli framangreindra gagna komst Tryggingastofnun ríkisins að þeirri niðurstöðu að barnsmóðir kæranda hefði lokið námi í X og taldi því rétt að stöðva milligöngu um meðlagsgreiðslur sex mánuðum eftir að námi lauk með vísan til 1. mgr. 9. gr. laga um lögheimili og 15. gr. reglugerðar nr. 463/1999.

Kærandi byggir á því að háskólanám barnsmóður hans í C hafi verið til málamynda. Hann gerir athugasemdir við það að námsyfirlit barnsmóður hans sé ekki stimplað, það vanti þar fullt nafn hennar ásamt upplýsingum um einingafjölda. Kærandi heldur því fram að samkvæmt upplýsingum á Linkedin hafi barnsmóðir hans stundað fulla vinnu sem [...] frá árinu X til X.

Að vandlega athuguðu máli er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að framlögð gögn sýni með fullnægjandi hætti að barnsmóðir kæranda hafi verið í námi til X. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um lögheimili getur námsmaður sem er erlendis við nám áfram átt lögheimili hér á landi og heimilt er að hafa skráningu í tryggingaskrá óbreytta í allt að sex mánuði eftir að námi lýkur samkvæmt 4. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 463/1999. Með hliðsjón af framangreindu gerir úrskurðarnefndin ekki athugasemdir við þá niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins að barnsmóðir kæranda teljist hafa verið búsett á Íslandi í skilningi 67. gr. barnalaga þangað til sex mánuðum eftir að námi lauk, sbr. einnig 5. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar. Að mati úrskurðarnefndar gefa upplýsingar sem liggja fyrir á Linkedin ekki tilefni til að breyta niðurstöðu Tryggingastofnunar.

Aftur á móti liggur fyrir að Tryggingastofnun stöðvaði meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. júlí 2015, þ.e. rúmlega sjö mánuðum eftir að hún lauk námi. Niðurstaða Tryggingastofnunar um stöðvun meðlagsgreiðslna er því ekki í samræmi við þau rök stofnunarinnar að barnsmóðir kæranda teljist hafa verið búsett á Íslandi þangað til sex mánuðum eftir að námi lauk. Með vísan til þess er synjun Tryggingastofnunar ríkisins um að fella niður milligöngu meðlagsgreiðslna til barnsmóður kæranda lengra aftur í tímann en frá 1. júlí 2015 felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins um að fella niður milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður A, lengra aftur í tímann en frá 1. júlí 2015, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum