Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 416/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 416/2017

Miðvikudaginn 24. janúar 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 2. nóvember 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. október 2017 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 22. júní 2017. Með ákvörðun, dags. 14. júlí 2017, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi sótti um örorkulífeyri á ný með umsókn, dags. 4. október 2017. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. október 2017, var kæranda tilkynnt að ekki væri tilefni til breytinga á fyrri ákvörðun.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. nóvember 2017. Með bréfi, dags. 9. nóvember 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 20. nóvember 2017, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. nóvember 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að Tryggingastofnun ríkisins taki umsókn hans um örorkulífeyri og tengdar greiðslur til afgreiðslu og að örorkumat fari fram.

Í kæru kemur fram að Tryggingastofnun ríkisins hafi 11. október 2017 synjað beiðni kæranda um örorkumat og að ákvörðun stofnunarinnar sé byggð á misskilningi.

Í ákvörðun Tryggingastofnunar sé vísað í 18. gr. laga um almannatryggingar þar sem segi að heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi. Hafi beiðni kæranda verið synjað á þeim grundvelli að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd og því hafi ekki verið tímabært að taka afstöðu til örorku hans.

Taka beri fram að kærandi sé og hafi verið […] afplánunarfangi í íslensku fangelsi. Afstaða, félag fanga, hafi nýlega leitað til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og kannað hjá sjóðnum möguleika fanga til endurhæfingar í fangelsi og hafi fengið þau svör að VIRK fyndi ekki flöt á því að veita föngum í fangelsum á Íslandi þjónustu.

Þau svör séu ekki í samræmi við það sem komi fram á vefsvæði VIRK um skilyrði þess að eiga rétt á þjónustu, helstu ástæður frávísana og þess sem komi fram í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 60/2012 um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Þar segi:

„Óheimilt er að neita einstaklingi um aðild að starfsendurhæfingarsjóði, svo sem á grundvelli heilsufars, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærðar eða kyns, enda uppfylli hann skilyrði laga þessara um aðild að starfsendurhæfingarsjóði.“

Í athugasemdum með frumvarpi um breytingar á 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 segi:

„Mikilvægt er að ALLIR sem einhverja starfsgetu hafa EIGI KOST á endurhæfingarúrræðum sem leiða til aukinna möguleika á atvinnuþátttöku. Efla þarf endurhæfingu þeirra sem búa við skerta starfshæfni og gera þeim þannig mögulegt að komast á ný út á vinnumarkað eða taka á annan hátt virkan þátt í samfélaginu. Það er ekki einvörðungu mikilvægt einstaklinganna sjálfra vegna heldur ekki síður samfélagsins alls að efla endurhæfingu eins og kostur er.“

Ljóst sé af framangreindu að ekki eigi að útloka fanga í íslenskum fangelsum frá því að eiga kost á endurhæfingarúrræðum, allir eigi að eiga kost á endurhæfingarúrræðum. Afstaða VIRK starfsendurhæfingarsjóðs gangi því í berhögg við íslensk lög.

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 sé að finna almennt bann við hvers konar mismunun, sbr. 1. mgr. 65. gr. Í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar sé mælt fyrir um að öllum sem þess þurfi, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. VIRK starfsendurhæfingarsjóður sniðgangi því ekki eingöngu íslensk lög heldur einnig stjórnarskrá Íslands.

Þar sem að starfsendurhæfingarsjóðurinn neiti að veita þá þjónustu sem Tryggingastofnun geri kröfu um að kærandi gangist undir verði að líta til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þar segi:

„Heimilt er að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.“

Lykilorð þessa ákvæðis sé orðið heimilt, um sé að ræða heimildarákvæði sem rétt þyki að beita í ákveðnum tilvikum. Það þýði jafnframt að ef starfsendurhæfingarsjóðurinn neiti að veita þá þjónustu sem Tryggingastofnun krefjist þá beri að líta til þess að um heimildarákvæði sé að ræða. Til þess að tryggja stjórnarskrárbundin réttindi kæranda þurfi stofnunin að líta fram hjá umræddri heimild og taka afstöðu til örorku hans.

Umboðsmaður Alþingis hafi margoft bent á að aðstæður frelsisviptra manna séu ekki sambærilegar við aðstæður þeirra sem njóti frelsis og ljóst sé að kærandi hafi ekki möguleika á þjónustu starfsendurhæfingarsjóða.

Þegar allt þetta sé skoðað í samhengi sé ljóst að misskilnings gæti hjá Tryggingastofnun varðandi þá kröfu sem hún leggi á afplánunarfanga í íslenskum fangelsum, stofnunin geri kröfu til fanga sem þeir geti ekki með nokkru móti uppfyllt. Ljóst sé að samtal þurfi að eiga sér stað á milli Tryggingastofnunar og VIRK starfsendurhæfingarsjóðs um það hvernig beri að veita þjónustu til fanga í íslenskum fangelsum. Þar til að það samtal hafi átt sér stað og niðurstaða fáist geti Tryggingastofnun ekki skorast undan þeirri ábyrgð sem stjórnarskrá Íslands leggi á herðar stofnuninni og verði því að horfa fram hjá nefndu heimildarákvæði og taka afstöðu til örorku kæranda.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé afgreiðsla stofnunarinnar á umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eigi þeir rétt á örorkulífeyri sem uppfylla tiltekin skilyrði. Þar segi:

„Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, eru á aldrinum 18-67 ára og

a) hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert við er þeir tóku hér búsetu,

b) eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilegra viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.“

Þá segi í 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar að Tryggingastofnun sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Fjallað sé um framkvæmd örorkumats í reglugerð um örorkumat nr. 379/1999. Samkvæmt 1. og 2. gr. reglugerðarinnar meti tryggingalæknir örorku þeirra sem sæki um örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Þá segi í 4. gr. reglugerðarinnar að heimilt sé að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli, sbr. fylgiskjal 1, ef tryggingalæknir telji sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Lagagreinin sé svohljóðandi:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.

Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um hvaða aðila skuli falið að annast gerð endurhæfingaráætlunar.“

Afpláni lífeyrisþegi refsingu í fangelsi falli niður allar bætur hans, sbr. 1. mgr. 56. gr. laga um almannatryggingar. Þegar bætur hafi verið felldar niður sé heimilt að greiða ráðstöfunarfé í samræmi við 8. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn, dags. 4. október 2017. Niðurstaða örorkumats hafi verið sú að kæranda var synjað um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar. Kærandi hafi áður sótt um örorku 22. júní 2017. Út frá gögnum kæranda hafi það verið mat Tryggingastofnunar að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing væri ekki fullreynd og var því umsókn um örorkumat synjað. Kærandi sé fangi B og muni hann ljúka afplánun X. Kærandi hafi lokið X mánaða endurhæfingu á tímabilinu X til X.

Orðalag 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar sé skýrt að því leyti að löggjafinn telji heimilt að setja það skilyrði að endurhæfing sé fullreynd áður en til mats á örorku komi. Endurhæfing aðstoði einstaklinga við að komast aftur á vinnumarkað og sé um að ræða þverfagleg, einstaklingsmiðuð úrræði sem eigi að stuðla að virkri þátttöku einstaklingsins í samfélaginu. Mikilvægt sé að einstaklingar, sem hugsanlega sé hægt að endurhæfa, fullnýti öll möguleg endurhæfingarúrræði sem í boði séu við þeim heilsufarsvandamálum sem hrjái þá. Fram komi í athugasemdum við breytingar meðal annars á lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sem hafi síðar orðið að breytingarlögum nr. 120/2009, að:

„[…] Mikilvægt er að allir sem einhverja starfsgetu hafa eigi kost á endurhæfingarúrræðum sem leiða til aukinna möguleika á atvinnuþátttöku. Efla þarf endurhæfingu þeirra sem búa við skerta starfshæfni og gera þeim þannig mögulegt að komast á ný út á vinnumarkað eða taka á annan hátt virkan þátt í samfélaginu. Það er ekki einvörðungu mikilvægt einstaklinganna sjálfra vegna heldur ekki síður samfélagsins alls að efla endurhæfingu eins og kostur er.“

Kærandi hafi lokið X mánaða endurhæfingu á tímabilinu X til X. Tryggingastofnun líti á framangreint tímabil sem eina heild þar sem viðkomandi hafi haft litla sem enga vinnusögu á þessum árum. Í greinargerð þessari muni Tryggingastofnun einungis vísa í nýjustu gögnin er varða endurhæfingu kæranda. Samkvæmt greinargerðum frá C hafi kærandi hafið þátttöku í undirbúningi fyrir endurhæfingarúrræðið D í X. Endurhæfingin sjálf hafi hafist í X. Samkvæmt greinargerð C, dags. X, hafi kærandi mætt vel að undanskildum tíma sem hann hafi verið sem veikastur. Þá segi orðrétt að ,,[kærandi] sýnir áhuga á að standa sig og að taka framförum í edrúmennsku sinni og bættum lífsstíl og verða ábyrgur samfélagsþegn.“ Þá beri að nefna að greinargerðir frá C, dags. X og X, séu að öllu leyti samhljóða fyrir utan eina setningu en hún sé svohljóðandi ,,undirrituð telur endurhæfing fullreynda“. Samkvæmt greinargerðum þessum hafi kærandi verið kominn með slaka mætingu um áramótin X-X og fallið aftur í neyslu fíknefna í X. Kærandi hafi þá dottið úr endurhæfingarúrræðinu D. Greiðslur endurhæfingarlífeyris hafi verið stöðvaðar X þar sem kærandi hafi ekki lengur uppfyllt skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007, þar sem að hann hafði ekki sinnt endurhæfingu sinni.

Í viðbótarupplýsingum með læknisvottorðum kæranda, dags. 26. maí 2017 og 10. október 2017, sem hafi fylgt umsókn kæranda um örorku segi: ,,Hann er í fangelsi á B og verður […]. Hann hefur hug á að fara í D í endurhæfingu þegar hann losnar en hann hefur góða reynslu af því. Mun fara reglulega á AA fundi og hitta sálfræðing. Einnig mun hann sækja um á áfangaheimili“. Þá segi í síðara vottorðinu orðrétt: ,,Er óvinnufær vegna brjóskloss og geðræns vanda. Ætti að geta náð bæta með tímanum, eftir að hann losnar úr fangelsi vill hann fara aftur í D í endurhæfingu.“

Samkvæmt framangreindu hafi kærandi áhuga á frekari endurhæfingu. Fangelsismálastofnun geti heimilað fanga að afplána hluta refsingar utan fangelsis, til dæmis á áfangaheimili Verndar. Þegar fangi hafi afplánað að minnsta kosti 1/3 hluta refsingar í fangelsi geti viðkomandi sóst eftir afplánun á áfangaheimilinu Vernd og þurfi sá sem þar dvelji að fara eftir þeim reglum sem þar séu settar, til að mynda þurfi þeir að vera í starfsendurhæfingu, vinnu eða námi. Hugsanlegt úrræði gæti komið til greina fyrir kæranda.

Tryggingastofnun vilji vekja athygli á því að félagslegar aðstæður kæranda breyti því ekki að ráða megi bót á heilsufarsvandamálum hans með endurhæfingu, fara þurfi með mál kæranda eins og annarra sem glími við sambærilegan heilsufarsvanda en þeim sé að jafnaði vísað í endurhæfingu. Tryggingastofnun vísi í þessu samhengi til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 51/2016. Í fyrrnefndum úrskurði hafi kærandi byggt málstað sinn á þeim sjónarmiðum að kærandi byggi í E og að sömu endurhæfingarúrræði væru ekki í boði þar líkt og á höfuðborgarsvæðinu. Í niðurstöðu úrskurðarins vísi úrskurðarnefnd velferðarmála í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og segi að í fyrrnefndri grein komi skýrlega fram að skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila. Ekki sé kveðið á um neina undanþágu frá framangreindu skilyrði í lögunum. Úrskurðarnefndin hafi því ekki talið heimilt að veita undanþágu frá því skilyrði á grundvelli búsetu. Þá breyti tímabundnar aðstæður kæranda ekki ákvörðun stofnunarinnar. Því til stuðnings vísi stofnunin til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 182/2017. Í fyrrnefndum úrskurði hafi starfsendurhæfing frá VIRK verið talin óraunhæf að svo stöddu vegna þungunar kæranda en það hafi ekki sjálfkrafa í för með sér að þá ætti að gera örorkumat, enda hafi ekki verið talið að starfsendurhæfing væri óraunhæf í framtíðinni.

Ítarlega hafi verið farið yfir gögn málsins sem fylgi þessari kæru. Út frá fyrirliggjandi gögnum hafi það verið mat Tryggingastofnunar að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku að svo stöddu þar sem endurhæfing væri ekki fullreynd.

Þá telji Tryggingastofnun ekki ástæðu til að meta kæranda í samræmi við 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat þar sem um undantekningarákvæði sé að ræða sem skýra verði þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum.

Þá vilji stofnunin benda á lög um fullnustu refsinga nr. 15/2016. Í 27. gr. laganna sé fjallað um þóknun og dagpeninga sem fangar fái greidda frá Fangelsismálastofnun. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. skuli greiða fanga þóknun fyrir ástundun vinnu eða náms. Sé ekki unnt að útvega fanga vinnu eða geti hann samkvæmt læknisvottorði ekki sinnt vinnuskyldu skuli hann fá greidda dagpeninga fyrir þá daga sem hann hefði ella unnið. Fangelsismálastofnun ákveði fjárhæð dagpeninga og skuli hún miðast við að fangi eigi fyrir brýnustu nauðsynjum til persónulegrar umhirðu. Í 2. mgr. 27. gr. segi að fangi sem eigi kost á vinnu eða útvegi sér hana sjálfur fái ekki dagpeninga. Sama gildi um fanga sem vikið sé úr vinnu eða neiti að vinna án gildrar ástæðu.

Tryggingastofnun vilji jafnframt vekja athygli á því að athugasemdir kæranda varðandi VIRK starfsendurhæfingarsjóð og framboð á endurhæfingarúrræðum í fangelsum séu ekki á forræði stofnunarinnar. Telji kærandi að starfsendurhæfingarsjóðurinn eða fangelsismálayfirvöld séu ekki að standa við lögbundnar skyldur sínar þurfi hann að snúa sér til viðeigandi stjórnvalda með þær athugasemdir. Dómsmálaráðuneytið fari með yfirstjórn fangelsismála og velferðarráðuneytið með umsjón laga nr. 60/2012 um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. október 2017 þar sem kæranda var synjað um um örorkulífeyri og tengdar greiðslur þar eð ný gögn gáfu ekki tilefni til breytinga frá fyrri ákvörðun. Í fyrri ákvörðun Tryggingastofnunar frá 14. júlí 2017 var kæranda synjað um örorkumat á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þar sem endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Í vottorði F læknis, dags. 26. maí 2017, segir að sjúkdómsgreiningar kæranda séu ótilgreind kvíðaröskun, fíkniheilkenni af völdum ópíumnotkunar, aðrar liðþófaraskanir og langvinn veirulifrarbólga C. Þá segir í vottorðinu að kærandi sé óvinnufær frá 1. janúar 2011. Um sjúkrasögu kæranda segir svo:

„Löng saga um fíkniefnanotkun. […]

Byrjaði að fá geðrof vegna neyslunnar um X ára. […]

Hann hefur margoft farið á stofnanir, um X sinnum. Er núB. […]

Hann hefur náð mest X mánuðum edrú, frá X ára til X ára. Náði einnig X mánuðum á síðasta ári.

-Kvíði: hefur verið kvíðin frá því hann man eftir sér. Félagsfælni og óöryggi. […] Er verri þegar hann er í neyslu. Hefur eitthvað skánað af þessu upp á síðkastið.

-Brjósklos: Hefur tvisvar farið í aðgerð vegna þessa hjá G á LSH. MRI myndataka í X sýndi eftirfarandi: Status eftir aðgerð með arcotomiu L5. Prolaps L4-L5 sem hangir niður á við við efri brún L5 en teygir sig upp á bak við L4 og hefur áhrif bæði á L5 og L4 rót hæ.megin.

Hann finnur fyrir einkennum frá þessu dagsdaglega. Finnur fyrir straum niður í hægri fótinn daglega og stundum missir hann máttinn í fætinum. Fær inn á milli mjög slæm verkjaköst.“

Lýsing læknisskoðunar 26. maí 2017 hljómar svo:

„Almennt: Kemur vel fyrir. Segir skýrt frá. Hlutlaust geðslag og eðlilegur talþrýstingur. Ekki ber á ranghugmyndum eða geðrofseinkennum.

Við líkamsskoðun er lítið að finna. Er í eðlilegum holdum. Eðlilegur limaburður og gengur án vandræða. Ekki eymsli við þreyfingu yfir baki og straight leg raist er án einkenna.“

Samkvæmt læknisvottorðinu er kærandi óvinnufær að hluta frá 1. janúar 2011. Varðandi möguleika á að færni kæranda aukist segir:

„Hefur ekkert unnið síðan X.

Segist ekki treysta sér í vinnu eins og staðan er í dag.

Hefur ekki hugsað um neina frekari endurhæfingu heldur en D en virðist opinn fyrir því.

Álit/horfur: Hann er í fangelsi B og verður X. Hann hefur hug á að fara í D í endurhæfingu þegar hann losnar en hann hefur góða reynslu af því.

Mun fara reglulega á AA fundi og hitta sálfræðing.

Einnig mun hann sækja um á áfangaheimili.“

Í vottorði F læknis, dags. 10. október 2017, segir að sjúkdómsgreiningar kæranda séu eftirfarandi:

„Lenda- og aðrar liðþófaraskanir með rótarkvilla (G55.1*),

Misnotkun efna sem ekki eru vanabindandi,

Áráttu-þráhyggjupersónuröskun,

Ótilgreind kvíðaröskun

Langvinn veirulifrarbólga C.“

Um sjúkrasögu kærandi segir meðal annars:

„1. Brjósklos. Bakverkir með leiðni í hægri ganglim háir honum mikið. Er misslæmur eftir dögum en segist vera með verki nánast daglega. […]

2. Kvíði og áráttu- og þráhyggjuröskun. […] Félagsfælni og óöryggi. […] Er verri þegar hann er í neyslu. Hefur eitthvað skánað af þessu upp á síðkastið.

2. Fíkniefnavandi. Löng saga um fíkniefnanotkun en er nú búinn að vera edrú í X mánuði. […] Situr inni B og á X eftir.[…] Byrjaði að fá geðrof vegna neyslunnar um X ára. Gerist nú alltaf ef hann notar einhver örvandi lyf. Er mjög þungur þegar hann er ekki í neyslu og treystir sér ekki til vinnu á hinum almenna vinnumarkaði.“

Í vottorðinu segir svo um skoðun kæranda 10. október 2017:

„Virðist ekki hafa verki og gengur eðlilega. Er með pos lasegue hægra megin við ca 45°, fær verk í mjóbak og leiðni í utanverðum hæ ökkla. Skyn er minnkað í hæ stóru tá en annars eðl skyn á ganglimum. Kraftar í ganglimum gróft metnir eðlilegir. Virðist aðeins kvíðinn en annars er geðslag og affect eðlilegur þegar ég tala við hann.“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær frá 1. janúar 2011. Um álit og horfur á hvort búast megi við að færni aukist segir svo:

„Álit/horfur: Er óvinnufær vegna brjóskloss og geðræns vanda. Ætti að geta náð bata með tímanum, eftir að hann losnar úr fangelsi vill hann fara aftur í D í endurhæfingu.“

Í bréfi C, dags. 2. október 2017, er rakin endurhæfing kæranda í D. Svo segir meðal annars:

„A hefur stundað fasta dagskrá vegna undirbúnings að þátttöku í endurhæfingarúrræðinu D hjá umsagnaraðila frá því í X. A byrjaði svo í sjálfri endurhæfingu D í X.

[…]

A var orðin með slaka mætingu um X. A féll aftur í neyslu fíkniefna í X. Hann datt þá úr endurhæfingarprógrammi D og hefur ekki nýtt sér þjónustu úrræðisins síðan. Undirrituð telur endurhæfingu fullreynda.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. um almannatryggingar. Fyrir liggja gögn frá C um þátttöku kæranda í endurhæfingarúrræði D.

Kærandi vísar til þess að VIRK starfsendurhæfingarsjóður hafi lýst því yfir að sjóðurinn geti ekki staðið fyrir endurhæfingu innan veggja íslenskra fangelsa. Engin gögn liggja fyrir um framangreinda yfirlýsingu VIRK og ákvarðanir sjóðsins eru ekki kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur aftur á móti rétt að benda kæranda á að samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð er það ekki skilyrði greiðslna endurhæfingarlífeyris að sótt sé um endurhæfingu með aðstoð VIRK starfsendurhæfingarsjóðs. Eitt af skilyrðum greiðslna endurhæfingarlífeyris er að útbúin sé endurhæfingaráætlun í samvinnu við meðferðaraðila og geta slíkar áætlanir verið útbúnar til dæmis af starfsendurhæfingarsjóðum, læknum og starfsfólki félagsþjónustu. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur framangreind málsástæða kæranda því ekki áhrif á niðurstöðu máls þessa.

Í bréfi C segir að endurhæfing sé fullreynd. Aftur á móti kemur fram í framangreindum læknisvottorðum að kærandi hafi hug á frekari endurhæfingu að lokinni afplánun. Í ljósi þess og með hliðsjón af eðli veikinda kæranda er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að endurhæfing með starfshæfni að markmiði hafi ekki verið fullreynd í tilviki kæranda. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkumat er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum