Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20samkv%C3%A6mt%20l%C3%B6gum%20um%20hollustuh%C3%A6tti%20og%20mengunarvarnir

Nr. 3/2003

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2004, miðvikudaginn 30. júní, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2003  Össur Kristinsson og Björg Rafnar Sæbólsbraut 42 í Kópavogi  gegn Heilbirgðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.  

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

Úrskurður

 I.

Stjórnsýslukæra  Péturs Guðmundarsonar hrl. f.h. Össurar Kristinssonar og Bjargar Rafnar, eigenda Sæbólsbrautar 42 í Kópavogi hér eftir nefnd kærendur, barst nefndinni m. bréfi dags. 1. júlí, 2003.  Gögn sem með fylgdu eru :

1)      Litmyndir af bifreiðum.

Afrit af gögnum var sent Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, hér eftir nefnt kærði og  er greinargerð dags. 10. september, 2003.

 

 II.

Stjórnsýslukæran snýst um fjórar númerslausar bifreiðar sem staðsettar eru á ófrágengnu svæði á einkalóð Sæbólsbrautar 40 í Kópavogi.  Í stjórnsýslukæru er gerð sú krafa að úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun heilbrigðisnefndar í málinu verði ógilt, en ákvörðun kærða var að ástand bifreiða, staðsetning og framkvæmdir á lóðinni að Sæbólsbraut 40 í Kópavogi  gæfu ekki tilefni til frekari afskipta.  Jafnframt er þess krafist að úrskurðarnefndin leggi fyrir heilbrigðisnefnd að annast um að fjarlægja bílhræin og að beitt verði að öðru leyti þeim viðurlögum sem fyrir hendi eru á grundvelli 10. gr. heilbrigðissamþykktar nr. 251/2000.

Til skýringar sendi lögmaður kærenda myndir sem teknar hafa verið af umdeildum bifreiðum.   Bendir lögmaður kærenda á að steyptur veggur afmarki lóðir umbjóðenda sinna og eiganda Sæbólsbrautar 40.  Hafi veggurinn verið byggður í samræmi við útgefið leyfi bæjaryfirvalda í Kópavogi.  Eftir að veggur hafi verið reistur hafi eigandi Sæbólsbrautar 40 lagt umræddum “bílhræjum” í skurðinn.  Þetta valdi því að ekki hafi tekist að ganga frá framkvæmdum og byggingu veggjarins að Sæbólsbraut 42, þó leyfi hafi verið veitt fyrir þeim framkvæmdum.  Þá telur lögmaður kærenda að staðsetning bifreiðanna gangi gegn ákvæðum samþykktar um umgengni og þrifnað utanhúss í umdæmi kærða.  Sérstaka athygli vekja kærendur á því að bifreiðarnar séu skráningarskyld ökutæki og skv. því skuli bifreiðar sem geymdar eru, vera  á þar til gerðum stæðum sem samþykkt hafi verið af byggingaryfirvöldum.  Skurður þessi sé ekki samþykktur sem bílastæði og því hafi kærði brotið gegn samþykktinni að þessu leyti.

          Lögmanni kærenda var sent bréf og greinargerð kærða.  Ekki taldi hann ástæðu

          til frekari umfjöllunar um málið.

 

III.

Stjórnsýslukæra var send kærða.  Greinargerð kærða ásamt meðfylgjandi gögnum er dagsett 10. september 2003.  Greinir kærði frá því að lögmaður kærenda hafi óskað skriflegra svara um hvort kærði léti óátalið að umrædd bílhræ, eins og það sé orðaði í erindinu, standi í óvarinni holu á lóðarmörkum og hafi verið vísað til ákvæða heilbrigðissamþykktar nr. 251/2000.   Hafi jafnframt verið bent á að lóðarmörkin væru ófrágengin vegna framkvæmda eigenda Sæbólsbrautar 42 í samræmi við útgefið byggingaleyfi Kópavogsbæjar og hafi ekki tekist að ljúka framkvæmdum vegna afstöðu eigenda lóðarinnar að Sæbólsbraut 40.  Kveður kærði að í svarbréfi sínu sem sent hafi verið sem símbréf sama dag og erindi barst, hafi verið gerð grein fyrir fyrr aðkomu kærða að málinu og hvers vegna kærði myndi ekki skipta sér af umræddum bifreiðum á grundvelli tilgreindrar heilbrigðissamþykktar.  Um rök fyrir höfnun afskipta af málinu vísar kærði til efnisreglna vegna afskipa af íbúðalóðum.  Er í greinargerð kærða bent á að þegar heilbrigðiseftirlit í umboði heilbrigðisnefndar hafi afskipti af númerslausum bifreiðum eða öðrum hlutum á íbúðalóðum séu eftirfarandi efnisreglur hafðar að leiðarljósi:

1)      Eignarréttur sé verndaður af stjórnarskrá, hann sé friðhelgur og engan megi  skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji, til þess þurfi lagafyrirmæli.

2)      Heimilt hafi þó verið að setja í lög reglur þar sem eigendum fasteigna sé gert að þola eignarskerðingar af hollustuhátta og mengunarvarnaaástæðum.  Þetta nái þó ekki til óvenjulegra aðgerða og gæti valdið því að stjórnvald verði skaðabótaskylt.

3)      Þau lagaákvæði sem komi til skoðunar séu lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998  og reglugerðir og heilbrigðissamþykktir.  Aðallega reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002, heilbrigðissamþykkt nr. 251/2000. Þá beri og að gæta ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

4)      Vísar kærði til 20. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002, þar sem fram komi að bannað sé að skilja eftir flytja, dreifa eða geyma hluti, búnað eða tæki á þann hátt að valdið gæti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu.  Ekki séu í ákvæðinu nein fyrirmæli um númerslausar bifreiðar en um þær sé fjallað sérstaklega í 21. gr. þar sem fjallað sé um heimild til að fjarlægja hluti sem séu á almannafæri.

5)      Í 6.gr reglugerðar um úrgang nr. 805/1999 komi fram að bannað sé að skilja eftir, dreifa eða geyma úrgang á þann hátt að valdið gæti skaða, mengun eða lýtum á umhverfi.  Þetta gildi jafnt um smærri sem stærri hluti og þá sé heilbrigðisnefnd heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök að undangenginni viðvörun t.d. með álímingarmiða.  Í reglulgerðinni sé úrgangur skilgreindur “ hvers kyns efni eða hlutir sbr. 1. viðauka með reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang sem einstaklingar eða lögaðilar ákveða að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt”.

6)      Kærði vísar til álits umboðsmanns Alþingis 1994:93 sem fjalli um samsvarandi ákvæði eldri heilbrigðisreglugerðar.  Komi þar fram sú skoðun að heilbrigðiseftirliti sé ekki heimilt að fjarlægja númerslausar bifreiðar nema af þeim sé lýti eða að þær geti valdið skaða eða mengun í umhverfinu.

7)      Kærði getur þess að skv. 25. gr. laga nr. 7/1998 sé sveitarfélögum heimilt að setja samþykktir þar sem gerðar eru ítarlegri kröfur um einstök atriði enda falli þau atriði undir lögin. Slíkt hafi verið gert með samþykkt nr. 251/2000.

8)      Kærði vísar og til þess að geymsla og notkun bifreiða og annarra skráningarskyldra ökutækja geti valdið ýmsum óþægindum s.s. hávaða, loftmengun, óþrifnaði og óprýði.  Ákvæði 4. gr. samþykktar nr. 251/2000 sé túlkuð út frá skilgreiningum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir út frá þessum atriðum.  Bílhræ séu sjaldnast skráningarskyld og séu metin út frá reglugerð um úrgang og 20. gr. reglugerðar um hollustuhætti.

Kærði vísar til þess að lóðin við Sæbólsbraut 40 í Kópavogi sé einbýlishúsalóð.  Íbúðarhús á lóðinni hafi verið byggt áður en Kópavogur hafi orðið sérstakt sveitarfélag skv. upplýsingum sem kærði hafi aflað sér.  Ekki liggi fyrir samþykktar teikningar af byggingayfirvöldum um skipulag lóðarinnar.  Á samþykktri afstöðumynd fyrir íbúðarhúsið að Sæbólsbraut 42 sé aðkoma og hluti bifreiðastæða fyrir Sæbólsbraut 40 sýnd nálægt lóðarmörkum umræddra húsa.  Kærði telur að við skoðun á umræddum fjórum bifreiðum sem staðsettar hafi verið á lóðinni hafi komið í ljós að þær hafi ekki litið illa út .  Hafi því verið mat kærða að af þessum bifreiðum stafaði hvorki sú mengunarhætta né hlytust af þeim þau lýti að það réttlætti afskipti heilbrigðiseftirlitsins.  Kærði bendir á að ekki hafi verið haft samband við eiganda húss og lóðar að Sæbólsbraut 40, þar sem það hafi verið talið augljóslega óþarft.  Vekur kærði athygli á þessu þar eð úrskurðarnefnd hafi ákveðið að taka kæruna til meðferðar. 

Kærði vísar enn á ný til þess að mat kærða hafi verið að ekki væru ástæður til að aðhafast frekar í málinu. 

 

IV.

Með vísan til stjórnsýslulaga var eiganda lóðarinnar að Sæbólsbraut 40 gefinn kostur á að skila athugasemdum vegna málsins.  Skilaði hann inn bréfi þar sem vísað var til greinargerðar og gagna kærða í málinu. 

 

V.

Í máli þessu snýst deilan um töku bifreiða sem standa á lóð að Sæbólsbraut 40 í Kópavogi.  Krafa kærenda er að sú ákvörðun kærða, að hafa ekki afskipti af umdeildum bifreiðum verði ógilt og jafnframt að úrskurðarnefnd leggi fyrir kærða að fjarlægja “bílhræin”.  Þá gerir lögmaður kærenda athugasemd vegna þess að ekki sé unnt að ganga frá framkvæmdum við vegg milli húsanna. Hvað varðar síðastgreinda málsástæðu  er hún ekki viðfangsefni nefndarinnar.  Svo sem fram er komið, er heimild í 20. gr. rgl. nr. 941 um hollustuhætti um að bannað sé að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma úrgang á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfi.  Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti.  Í 21. gr. sömu rgl. er heimild til töku númerslausra bifreiða bílflaka og sambærilegra hluta á almannafæri. Í samþykkt nr. 251/2000 um umgengni og þrifnað utan húss í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi, kemur fram hliðstætt ákvæði og er í 20 gr. rgl. nr. 941/2002 og ennfremur í 3. gr. samþykktanna að óheimilt sé að geyma hvers kyns drasl, bílhræ og þess háttar á lóðum þannig að það snúi að almannafæri. 

Með tilvísan til framangreinds verður að telja að efnisleg skilyrði til töku bifreiða séu þau að þær geti valdið skaða, mengun eða lýtum á umhverfi sínu.  Mat kærða í málinu er það að ekki sé efnislegum skilyrðum til að dreifa til töku bifreiðanna.  Fallist er á það mat.

Varðandi tilvísan kærenda til 4. gr. fyrrgreindra samþykktar um umgengni og þess að bifreiðar verði að standa á þar til gerðum stæðum sem samþykkt hafa verið af byggingaryfirvöldum er vísað til greinargerðar kærða.  Þar kemur fram að íbúðarhúsið við Sæbólsbraut 40 var byggt áður en Kópavogur varð sérstakt sveitarfélag.  Því liggja ekki fyrir samþykktar teikningar af byggingayfirvöldum um skipulag lóðarinnar, en hluti bifreiðastæða fyrir fasteignina er sýndur nálægt lóðarmörkum umræddra húsa.  Verður því ekki fallist á kröfu kærenda varðandi þetta.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ekki er fallist á kröfur kærenda um töku bifreiða. 

 

___________________________________

Lára G. Hansdóttir

  

__________________________         ___________________________

    Gunnar Eydal                                      Guðrún Helga Brynleifsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum