Hoppa yfir valmynd

Mál 15060093 Löggilding slökkviliðsmanns

Þann 31. mars 2016 var í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Úrskurður:

Með stjórnsýslukæru Unnars Arnar Ólafssonar, dags. 25. júní 2015, til ráðuneytisins var kærð ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 3. júní 2015 þess efnis að synja kæranda löggildingar sem slökkviliðsmaður. Kæruheimild er í 36. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000.

I. Málavextir.
Þann 22. ágúst 2014 lagði kærandi fram umsókn um löggildingu slökkviliðsmanns til Mannvirkjastofnunar. Með umsókninni fylgdu eftirfarandi fylgigögn: staðfesting slökkviliðsstjóra á starfstíma þar sem fram kom að kærandi hafi gegnt slökkvistarfi að aðalstarfi að lágmarki í eitt ár samfellt, vottorð Brunamálaskólans um að kærandi hafi tekið þátt í námskeiðunum Fjarnám og Fjarnám verklegt, alls 85 kennslustundir, ásamt vottorði um að kærandi væri skráður stúdent við Háskólann á Akureyri í viðskipafræði með áherslu á stjórnun og markaðsgreinar, BS.

Í bréfi Mannvirkjastofnunar til kæranda, dags. 26. ágúst 2014, vegna umsóknar hans um löggildingu eru rakin skilyrði laga nr. 75/2000 og reglugerðar nr. 792/2001 um Brunamálaskólann og réttindi og skyldur slökkviliðsmanna. Fram kemur að skv. 17. gr. laga nr. 75/2000 skuli slökkviliðsmenn sem sæki um löggildingu til að starfa sem slökkviliðsmenn hafa lokið námi fyrir slökkviliðsmenn við Brunamálaskólann eða hlotið sambærilega menntun. Jafnframt skuli þeir hafa gegnt slökkvistarfi eða starfað við brunavarnir að aðalstarfi að lágmarki í eitt ár samfellt eða starfað í hlutastarfi í slökkviliði að lágmarki í fjögur ár. Fyrir liggi staðfesting frá Isavia um eins árs starfsreynslu kæranda hjá fyrirtækinu. Jafnframt liggi fyrir staðfesting á að kærandi hafi lokið námi frá Brunamálaskólanum fyrir hlutastarfandi slökkviliðsmenn. Í reglugerð nr. 792/2001 séu tilgreindar kröfur til náms slökkviliðsmanna. Samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar skiptist slökkviliðsmenn í eftirfarandi flokka: Þá sem gegna slökkvistarfi eða starfi við brunavarnir í aðalstarfi hjá slökkviliðum og þá sem gegna slökkvistarfi eða starfi við brunavarnir í hlutastarfi, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir. Þá skiptist nám slökkviliðsmanna skv. 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 792/2001 í eftirfarandi þætti:
1. Nám atvinnuslökkviliðsmanna.
2. Nám hlutastarfandi slökkviliðsmanna.
3. Nám eldvarnaeftirlitsmanna.
4. Endurmenntun.

Samkvæmt 1. og 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 792/2001 skuli slökkviliðsmenn sem hafi slökkvistarf að aðalstarfi hafa lokið a.m.k. fornámi (80 kennslustundir) og námi fyrir atvinnuslökkviliðsmenn (540 kennslustundir). Slökkviliðsmenn sem gegni hlutastarfi skuli hafa lokið a.m.k. fornámi (20 kennslustundir) og námskeiðum 1 (30 kennslustundir) og 2 (60 kennslustundir), sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt framangreindum ákvæðum reglugerðarinnar séu gerðar mismunandi menntunarkröfur til atvinnuslökkviliðsmanna og hlutastarfandi slökkviliðsmanna. Í 17. gr. laga um brunavarnir séu einnig gerðar mismunandi kröfur til starfsreynslu atvinnuslökkviliðsmanna og hlutastarfandi slökkviliðsmanna við löggildingu þeirra. Mannvirkjastofnun telji að túlka eigi ákvæði reglugerðarinnar þannig að til að sá sem starfi við slökkvistarf að aðalstarfi geti fengið löggildingu þurfi hann að ljúka námi fyrir atvinnuslökkviliðsmenn skv. ákvæðum 10. gr. reglugerðar nr. 792/2001, jafnframt því að uppfylla eins árs starfsreynslukröfu atvinnuslökkviliðsmanna. Í því tilviki þurfi viðkomandi að hafa gegnt slökkvistarfi eða starfað við brunavarnir að aðalstarfi að lágmarki í eitt ár samfellt. Ekki sé gerð fortakslaus krafa um að viðkomandi hafi starfað hjá slökkviliði sveitarfélaganna. Telur Mannvirkjastofnun því að unnt sé að veita aðila löggildingu sem hafi gegnt slökkvistarfi eða starfað við brunavarnir að aðalstarfi t.d. á vegum einkaaðila eða opinberrar stofnunar, enda hafi sá hinn sami lokið námi við Brunamálaskólann fyrir atvinnuslökkviliðsmenn eða sambærilegu. Hvað hlutastarfandi slökkviliðsmann varði þá þurfi hann skv. ákvæðum reglugerðarinnar að hafa lokið námi fyrir hlutastarfandi slökkviliðsmenn auk þess að hafa starfað í hlutastarfi hjá slökkviliði að lágmarki í fjögur ár. Í slíkum tilvikum sé skilyrði að viðkomandi hafi starfað í slökkviliði sveitarfélags. Í gögnum málsins komi fram að kærandi hafi gegnt slökkvistarfi og starfað við brunavarnir að aðalstarfi í a.m.k. eitt ár samfellt hjá Isavia. Jafnframt komi fram að kærandi hafi lokið námi fyrir hlutastarfandi slökkviliðsmenn. Til að geta fengið löggildingu sé það álit Mannvirkjastofnunar, með vísan til þess sem að framan sé rakið, að kærandi þurfi að hafa lokið atvinnumannanámi við Brunamálaskólann eða sambærilegu námi eða hafa starfað í hlutastarfi í slökkviliði sveitarfélaganna í að lágmarki fjögur ár. Sé það mat Mannvirkjastofnunar að gögn málsins beri það ekki með sér að kærandi uppfylli skilyrði til að fá útgefna löggildingu fyrir slökkviliðsmann. Var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum og frekari gögnum innan tilskilins frests áður en ákvörðun var tekin í málinu. Fram kom að eftir þann tíma yrði tekin ákvörðun um umsókn kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Í tölvupósti kæranda til Mannvirkjastofnunar frá 25. september 2014 kemur fram að kærandi hafi reynslu af því að starfa með atvinnuslökkviliði á Keflavíkurflugvelli en hann starfi hvorki í hlutastarfi né atvinnuliði í dag. Á honum hvíli því ekki krafa frá vinnuveitanda um hvers konar námi hann ljúki. Telur kærandi að reglugerðin fjalli bara um atriði út frá eðlilegum forsendum og ef hann starfi hjá atvinnuslökkviliði þá þurfi hann að ljúka viðeigandi námi. Telur kærandi að sú lýsing sem fram komi á vefsíðu Mannvirkjastofnunar um löggildingu slökkviliðsmanna fjalli að einhverju leyti um sínar aðstæður en þar segi: „Slökkviliðsmenn, sem sækja um löggildingu til að starfa sem slökkviliðsmenn, skulu hafa lokið lágmarksnámi fyrir slökkviliðsmenn við Brunamálaskólann eða hlotið sambærilega menntun sem skólaráð Brunamálaskólans metur jafngilda. Jafnframt skulu þeir hafa gegnt slökkvistarfi eða starfað við brunavarnir að aðalstarfi a.m.k. í eitt ár samfellt eða starfað í hlutastarfi a.m.k. í fjögur ár.“ Samkvæmt framangreindu telur kærandi að hann hafi starfsreynslu og þá lágmarksmenntun sem þurfi til þess að sækja um löggildingu. Fram kemur einnig að þeir aðilar sem kærandi hafi rætt við séu sammála um það að eitt ár hjá atvinnuliði samsvari því að starfa í fjögur ár sem hlutastarfandi slökkviliðsmaður. Ef það sé réttur skilningur og að á kæranda hvíli ekki krafa frá vinnuveitanda um að ljúka námi eins og krafist sé af atvinnuslökkviliðsmönnum þá eigi ekkert að vera því til fyrirstöðu að veita kæranda löggildingu. 

Með bréfi Mannvirkjastofnunar til kæranda, dags. 3. júní 2015, var umsókn hans um löggildingu slökkviliðsmanns synjað. Röksemdir þær er fram komu í áðurnefndu bréfi Mannvirkjastofnunar til kæranda frá 26. ágúst 2014 eru ítrekaðar í umræddu bréfi. Því til viðbótar kemur fram það mat Mannvirkjastofnunar að eins árs starfsreynsla í atvinnuliði jafngildi ekki fjögurra ára starfsreynslu í hlutastarfandi slökkviliði. Að mati stofnunarinnar bera gögn málsins það ekki með sér að kærandi uppfylli skilyrði til að fá útgefna löggildingu fyrir slökkviliðsmenn skv. 17. gr. laga um brunavarnir sbr. reglugerð nr. 792/2001. Athugasemdir kæranda breyti ekki því áliti stofnunarinnar og sé umsókninni því synjað.

Með bréfi dags. 9. júlí 2015 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Mannvirkjastofnunar um kæruna. Ráðuneytinu barst umsögnin ásamt gögnum málsins með bréfi dags. 5. ágúst 2015.

Með bréfi dags. 31. ágúst 2015 gaf ráðuneytið kæranda færi á að koma með athugasemdir við umsögn Mannvirkjastofnunar. Ráðuneytinu bárust athugasemdir kæranda með tölvupósti þann 10. september 2015.


II. Málsástæður kæranda og umsagnir um kæru.
Kærandi telur að synjun Mannvirkjastofnunar á umsókn um löggildingu kæranda sem slökkviliðsmanns sé í grófum dráttum á þeirri forsendu að hann hafi lokið námskeiði fyrir hlutastarfandi slökkviliðsmenn og sé með reynslu frá atvinnuliði. Mannvirkjastofnun haldi fram að eins árs reynsla í atvinnuliði sé ekki sambærileg við fjögurra ára reynslu hjá hlutastarfandi. Greinin sem Mannvirkjastofnun vísi til sé 17. gr. laga um brunavarnir. Orðalag greinarinnar vísi hins vegar til þess að enginn munur sé gerður á þessu tvennu. Ekkert segi til um að sá sem sótt hafi hlutastarfandi námskeið þurfi reynslu úr hlutastarfandi liði. Eina og sama löggildingin gildi fyrir bæði hlutastarfandi- og atvinnuslökkviliðsmann og telur kærandi að stofnunin fari með rangt mál þegar hún segi að munur sé á þessari starfsreynslu, sbr. orðalag 17. gr. laga um brunavarnir sem og 13. gr. reglugerðar nr. 792/2001. Opinberum stofnunum sé ekki heimilt að túlka lög og reglugerðir með rýmri hætti en skv. orðanna hljóðan þegar það sé borgaranum í óhag. Telur kærandi að Mannvirkjastofnun hafi að því leyti gerst brotleg og leggur kærandi fram kæruna í þeim tilgangi að umsókn hans um löggildingu sem slökkviliðsmanns verði samþykkt eða til vara að umsóknin verði endurskoðuð.

Með kæru fylgdi afrit af ódagsettu og óundirrituðu bréfi varaformanns Félags flugmálastarfsmanna ríkisins. Í bréfi félagsins er vísað til álits lögfræðings BSRB á afgreiðslu Mannvirkjastofnunar á umsókn kæranda um löggildingu sem slökkviliðsmanns. Samkvæmt bréfinu er það álit lögfræðings BSRB að tilefni sé til að skoða vel hvort að rétt sé að kæra synjun Mannvirkjastofnunar til umhverfis- og auðlindaráðherra. Telur lögfræðingur BSRB ljóst að samkvæmt þröngri túlkun reglugerðar þá starfi kærandi ekki í hlutastarfi sbr. 2. mgr. 19. gr. laga um brunavarnir. Mannvirkjastofnun færi ekki fyllilega skýr rök fyrir því að hvaða leyti starfsreynsla í atvinnuliði í eitt ár jafngildi ekki fjögurra ára starfsreynslu í hlutastarfandi slökkviliði. Þá feli ákvæði 17. gr. laga um brunavarnir ekki í sér skýra reglu um að kærandi hafi þurft að starfa í hlutastarfi í fjögur ár heldur sé það valkvætt og sömuleiðis kveði ákvæði reglugerðarinnar ekki með skýrum hætti á um þetta.

Í umsögn Mannvirkjastofnunar vísar stofnunin til fyrri rökstuðnings stofnunarinnar fyrir synjun um löggildingu sem fram kemur í bréfi til kæranda, dags. 3. júní 2015. Fram kemur í umsögninni að skilyrði löggildingar skv. 17. gr. laga um brunavarnir séu tvíþætt, annars vegar krafa um menntun, þ.e. að viðkomandi hafi lokið námi fyrir slökkviliðsmenn við Brunamálaskólann eða hlotið sambærilega menntun, og hins vegar krafa um starfsreynslu. Menntunarkröfur komi fram í reglugerð nr. 792/2001 og fari lengd náms eftir því hvort viðkomandi starfi í atvinnuliði eða hlutastarfandi slökkviliði. Skýrt komi fram í þeirri reglugerð að mismunandi kröfur séu gerðar til menntunar slökkviliðsmanna, eftir því hvort þeir starfi í atvinnuslökkviliðum eða séu slökkviliðsmenn í hlutastarfi, sbr. m.a. 2. gr., 9. gr., 10. gr. og 11. gr. reglugerðarinnar. Skulu atvinnuslökkviliðsmenn auk fornáms ljúka 540 kennslustunda námi, sem sé u.þ.b. eitt misseri, en hlutastarfandi 90 kennslustunda námi, sem sé u.þ.b. tvær og hálf vika. Í 17. gr. laga um brunavarnir sé síðan kveðið á um að skilyrði fyrir löggildingu sé jafnframt að viðkomandi hafi gegnt slökkvistarfi eða starfað við brunavarnir að aðalstarfi að lágmarki í eitt ár samfellt eða starfað í hlutastarfi í slökkviliði að lágmarki í fjögur ár. Mannvirkjastofnun hafi túlkað framangreind ákvæði þannig að þeir sem hafi starfað í atvinnuslökkviliði þurfi að hafa menntun sem atvinnuslökkviliðsmenn til að geta fengið útgefna löggildingu og hlutastarfandi þurfi að hafa lokið námi fyrir hlutastarfandi slökkviliðsmenn. Telji stofnunin að sú túlkun eigi sér stoð í orðalagi 17. gr. laganna og ákvæðum reglugerðar nr. 792/2001 sem lagaákvæðið vísi til. Þó skilyrði til útgáfu löggildingar séu mismunandi sé löggildingin skv. gildandi löggjöf sú sama hvort sem í hlut eigi atvinnuslökkviliðsmaður eða hlutastarfandi. Þetta hafi valdið óvissu um þýðingu löggildingar, t.d. við ráðningar löggiltra hlutastarfandi slökkviliðsmanna til atvinnuliða. Sé það svo að ekkert samhengi þurfi að vera milli starfsreynslu annars vegar og menntunar hins vegar auki það enn á óvissuna. Þá muni þeir sem starfi að brunavörnum að aðalstarfi, hvort sem sé hjá einkaaðilum eða hinu opinbera, geta aflað sér löggildingar slökkviliðsmanns með því að taka rúmlega tveggja vikna námskeið auk 20 tíma fornáms á vegum vinnuveitanda. Mannvirkjastofnun fagni því að ráðuneytið taki afstöðu til þessa álitaefnis og að tekinn verði af allur vafi um túlkun framangreindra ákvæða. Dæmi séu um að slökkviliðsmenn í atvinnuslökkviliðum sem einungis hafi lokið námi fyrir hlutastarfandi slökkviliðsmenn þrátt fyrir skýr ákvæði reglugerðar nr. 792/2001 um að krafist sé menntunar fyrir atvinnumenn, hafi sótt um löggildingu en verið synjað á sömu forsendum og í máli kæranda. Þá séu einnig dæmi um að menn sem starfi að brunavörnum hjá einkaaðilum eða opinberum aðilum, öðrum en slökkviliðum sveitarfélaganna, hafi sótt um löggildingu á grundvelli þess að þeir hafi starfað við brunavarnir að aðalstarfi lengur en eitt ár samfellt og lokið 90 kennslustunda námi við Brunamálaskólann eða sambærilegu. Þeim aðilum hafi einnig hingað til verið synjað um löggildingu á sömu forsendum.

Kærandi segir Mannvirkjastofnun halda því fram að hann geti ekki fengið löggildingu sem slökkviliðsmaður á þeirri forsendu að hann sé með starfsreynslu úr atvinnuliði og hafi lokið hlutastarfandi námi. Þrátt fyrir orðalag 17. gr. laga 75/2000, þar sem segi eftirfarandi: „Jafnframt skulu þeir hafa gegnt slökkvistarfi eða starfað við brunavarnir að aðalstarfi að lágmarki í eitt ár samfellt eða starfað í hlutastarfi í slökkviliði að lágmarki í fjögur ár.“, telji Mannvirkjastofnun að eitt ár hjá atvinnuliði sé ekki sambærilegt fjórum árum hjá hlutastarfandi. Í ákvæðinu sé ekki gefið til kynna að munur sé á framangreindri starfsreynslu og telur kærandi að eðlilegast væri að túlka þetta orðalag sem svo að það taki fjögur ár fyrir hlutastarfandi starfsmann að öðlast sambærilega reynslu og atvinnumaður öðlast á einu ári. Í umsögninni vísi Mannvirkjastofnun einnig til 11. gr. reglugerðar nr. 792/2001 þar sem segir: „Sæki hlutastarfandi slökkviliðsmaður nám fyrir atvinnuslökkviliðsmenn sbr. 2. tölulið 10. gr. telst hann hafa lokið námi fyrir hlutastarfandi slökkviliðsmenn sbr. 2. tölulið 11. gr.“  Að mati kæranda skjóti þetta skökku við og sýni að ákvörðun Mannvirkjastofnunar sé geðþóttaákvörðun og skoðun Mannvirkjastofnunar á því hvernig stofnunin vilji að málunum sé háttað án þess þó að það eigi sér einhverja stoð í lögum. Það sé skýrt að óheimilt sé að túlka lagagreinar rýmra en orðanna hljóðan ef það sé borgaranum í óhag. Hljóti túlkun á ákvæði 17. gr. laga um brunavarnir, um að eitt ár hjá atvinnuliði sé ekki sambærilegt og fjögur ár hjá hlutastarfandi, að brjóta í bága við framangreinda málsgrein reglugerðarinnar. Í athugasemdum kæranda segir einnig: „Ég er sammála því að til þess að starfa hjá atvinnuliði, þurfi að ljúka námi atvinnumanns. Að mínu mati (með túlkun á orðalagi í 17.gr) ætti hins vegar engu máli skipta hvort einstaklingar hafi að baki 1 ár hjá atvinnuliði eða 4 ár hjá hlutastarfandi. Þetta þýðir að hlutastarfandi slökkviliðsmaður með 4 ára reynslu gæti valið á milli þess að taka atvinnu- eða hlutastarfandi. Til að starfa hjá hlutastarfandi hins vegar skiptir engu máli hvort starfsmaður hafi lokið hlutastarfandi eða atvinnumanni (líkt og kemur fram í 11.gr. 792/2001) og sömuleiðis ætti starfsreynslan því ekki að skipta neinu máli svo lengi sem hún uppfylli lágmarksskilyrði atvinnu- eða hlutastarfandi.“

Samkvæmt upplýsingum frá Mannvirkjastofnun sem bárust ráðuneytinu með tölvupósti þann 22. mars 2016 telur Mannvirkjastofnun að námskeiðin Fjarnám og Fjarnám verklegt (85 kennslustundir) geti samsvarað fornámi því sem kveðið er á um í 1. tölul. 10. gr. reglugerðarinnar þ.e. fornámi fyrir slökkviliðsmann með slökkvistarf að aðalstarfi sem er 80 kennslustundir.

III. Forsendur ráðuneytisins.
Um löggildingu slökkviliðsmanna gilda lög um brunavarnir nr. 75/2000 og reglugerð nr. 792/2001 um Brunamálaskólann og réttindi og skyldur slökkviliðsmanna. Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2000 segir: „Slökkviliðsmenn sem sækja um löggildingu til að starfa sem slökkviliðsmenn skulu hafa lokið námi fyrir slökkviliðsmenn við Brunamálaskólann eða hlotið sambærilega menntun. Jafnframt skulu þeir hafa gegnt slökkvistarfi eða starfað við brunavarnir að aðalstarfi að lágmarki í eitt ár samfellt eða starfað í hlutastarfi í slökkviliði að lágmarki í fjögur ár. Mannvirkjastofnun veitir slíka löggildingu.“ Í 3. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2000 segir: „Ráðherra skal að fenginni tillögu Mannvirkjastofnunar setja reglugerð um menntun og önnur skilyrði til að öðlast löggildingu, um reglubundna læknisskoðun vegna reykköfunar og um réttindi og skyldur slökkviliðsstjóra og slökkviliðsmanna.“

Ráðuneytið bendir á að 1. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2000 felur í sér að slökkviliðsmenn þurfa annars vegar að hafa lokið námi fyrir slökkviliðsmenn við Brunamálaskólann eða hlotið sambærilega menntun. Hins vegar þurfa slökkviliðsmenn að hafa gegnt slökkvistarfi að aðalstarfi í að lágmarki eitt ár samfellt eða í hlutastarfi í að lágmarki fjögur ár. Í 3. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2000 er hins vegar að finna heimild fyrir ráðherra til að setja reglugerð þar sem gert er ráð fyrir að útfærð verði nánar skilyrði hvað varðar menntun ásamt öðrum skilyrðum til að öðlast löggildingu. Kveður umrætt lagaákvæði því ekki með nákvæmum hætti um tilgreindar kröfur til umsækjanda. Við túlkun á því hvaða kröfur eru gerðar þegar sótt er um löggildingu slökkviliðsmanns ber því að horfa bæði til 17. gr. laga nr. 75/2000 sem og viðeigandi ákvæða reglugerðar nr. 792/2001 sem sett er á grundvelli 3. mgr. 17. gr. laganna.

Í 13. gr. reglugerðar nr. 792/2001 er fjallað um löggildingu slökkviliðsmanna með sambærilegum hætti og í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2000, en þar segir: „Slökkviliðsmenn, sem sækja um löggildingu til að starfa sem slökkviliðsmenn, skulu hafa lokið lágmarksnámi fyrir slökkviliðsmenn við Brunamálaskólann eða hlotið sambærilega menntun sem skólaráð Brunamálaskólans metur jafngilda. Jafnframt skulu þeir hafa gegnt slökkvistarfi eða starfað við brunavarnir að aðalstarfi a.m.k. í eitt ár samfellt eða starfað í hlutastarfi a.m.k. í fjögur ár.“ Í  2. gr. reglugerðar nr. 792/2001 er slökkviliðsmenn skilgreindir en þar segir: „Slökkviliðsmenn samkvæmt reglugerð þessari eru: 1. Þeir sem gegna slökkvistarfi eða starfa við brunavarnir í aðalstarfi hjá slökkviliðum. 2. Þeir sem gegna slökkvistarfi eða starfa við brunavarnir í hlutastarfi, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 75/2000, um brunavarnir.“

Í 19. gr. laga nr. 75/2000 segir: „Allir verkfærir menn 18–60 ára að aldri sem hafa búsetu í sveitarfélagi eru skyldir til þjónustu í slökkviliði. Þeim er skylt að koma til æfinga í störfum slökkviliðs allt að 20 klukkustundir á ári og auk þess skulu þeir koma hvenær sem eldsvoða ber að höndum samkvæmt nánari reglum um útköll. Sveitarstjórn skipar menn í slökkvilið, sbr. 1. mgr., að fengnum tillögum slökkviliðsstjóra. Um þóknun fyrir störf í slökkviliði fer eftir ákvörðun sveitarstjórnar að höfðu samráði við samtök slökkviliðsmanna. Í sveitarfélögum þar sem slökkvilið er skipað fastráðnum starfsmönnum má takmarka skyldur skv. 1. og 2. mgr. eða fella þær niður.“

Í 9. gr. reglugerðar nr. 792/2001 segir: „Menntun slökkviliðsmanna samkvæmt reglugerð þessari er fólgin í bóklegu námi og verklegri starfsþjálfun. Nám slökkviliðsmanna skiptist í eftirfarandi þætti: 1. Nám atvinnuslökkviliðsmanna. 2. Nám hlutastarfandi slökkviliðsmanna. 3. Nám eldvarnaeftirlitsmanna. 4. Endurmenntun. Námið mælist í kennslustundum og er hver kennslustund 40 mínútur. Sá fjöldi kennslustunda sem tilgreindur er í 10.-12. gr. er lágmarksfjöldi kennslustunda.“

Í 10. gr. reglugerðar nr. 792/2001 er fjallað um nám fyrir slökkviliðsmenn í aðalstarfi. Þar segir: „Nám fyrir slökkviliðsmenn að aðalstarfi, sbr. 1. tölul. 2. gr., skiptist í eftirfarandi þrjá hluta auk endurmenntunar. Skulu þeir a.m.k. hafa lokið námi skv. 1. og 2. tölul. þessarar greinar. 1. Fornám: Nýliði skal ljúka 80 kennslustunda fornámi áður en hann hefur störf sem atvinnuslökkviliðsmaður. Fornámið er í umsjón og á ábyrgð viðkomandi slökkviliðs en Brunamálaskólinn lætur slökkviliði í hendur gögn vegna fornáms svo sem námslýsingu, kennsluefni og próf. Að loknu námi skal nemandinn vera hæfur til starfa sem byrjandi í atvinnuslökkviliði. 2. Atvinnuslökkviliðsmaður: Námið fyrir atvinnuslökkviliðsmenn er 540 kennslustundir. Þátttakendur skulu hafa lokið fornámi fyrir slökkviliðsmenn og miðað skal við að þeir hafi starfað í atvinnuslökkviliði í sex mánuði. Námi skal lokið innan þriggja ára frá upphafi starfs. Að loknu námi skal nemandinn vera hæfur til almennra slökkvistarfa, reykköfunar, björgunarstarfa og viðbragða við mengunar- og eiturefnaslysum.“

Í 11. gr. reglugerðar nr. 792/2001 er fjallað um nám fyrir slökkviliðsmenn í hlutastarfi. Þar segir eftirfarandi: „Slökkviliðsmenn, sem gegna hlutastarfi, sbr. 2. tölul. 2. gr., skulu hljóta menntun í samræmi við þá þjónustu sem slökkvilið skulu veita samkvæmt brunavarnaráætlun viðkomandi sveitarfélags. Námið skiptist í eftirfarandi fjóra hluta auk endurmenntunar. Slökkviliðsmenn, sem gegna hlutastarfi, skulu a.m.k. hafa lokið námi skv. 1. tölul. og námskeiði 1 og 2 skv. 2. tölul. þessarar greinar.
1. Fornám: Nýliðar skulu ljúka að lágmarki 20 kennslustunda fornámi áður en þeir hefja störf sem hlutastarfandi slökkviliðsmenn. Fornámið er í umsjón og á ábyrgð viðkomandi slökkviliðs en Brunamálaskólinn lætur slökkviliði í hendur gögn vegna fornáms, svo sem námslýsingu, kennsluefni og próf. Að loknu námi skal nemandinn vera hæfur til starfa sem byrjandi í hlutastarfandi slökkviliði. 2. Hlutastarfandi slökkviliðsmaður: Brunamálaskólinn veitir kennslu í fjórum hlutanámskeiðum og skulu hlutastarfandi slökkviliðsmenn sækja þau námskeið sem falla að því þjónustustigi sem sveitarfélagið hefur ákveðið að veita samkvæmt brunavarnaráætlun. Námskeið 1: Námskeiðið er 30 kennslustundir og að því loknu skal nemandi m.a. vera hæfur til slökkvistarfa utanhúss, til að annast vatnsöflun, reyklosun og dælingu. Námskeið 2: Námskeiðið er tvö 30 kennslustunda námskeið og að því loknu skal nemandi m.a. vera hæfur til reykköfunar, hafa þekkingu á þróun innanhússbruna og yfirtendrun. Námskeið 3: Námskeiðið er 30 kennslustundir og að því loknu skal nemandi m.a. vera hæfur til björgunar fólks úr bílflökum, klippuvinnu og skyndihjálpar við slasaða. Námskeið 4: Námskeiðið er 30 kennslustundir og að því loknu skal nemandi m.a. vera hæfur til að beita réttum viðbrögðum við mengunarslysum og eiturefnaslysum. Áður en nám er hafið skal viðkomandi hafa lokið námskeiði 2. Séu fleiri en eitt námskeið haldin samfleytt þá styttist heildartími námskeiðsins um 5 kennslustundir fyrir hvert hlutanámskeið. 3. Stjórnandi hlutastarfs: Námið er fyrir stjórnendur innan hlutastarfandi slökkviliða. Námið er 30 kennslustundir. Stjórnendur hjá hlutastarfandi liðum geta sótt nám sem stjórnendur fyrir atvinnumenn, enda hafi þeir lokið fullu námi sem hlutastarfandi slökkviliðsmenn. 4. Slökkviliðsstjóri: Nám fyrir slökkviliðsstjóra hlutastarfandi slökkviliða. Námið er 30 kennslustundir. Hlutastarfandi slökkviliðsmenn skulu jafnframt sækja a.m.k. eitt viðurkennt endurmenntunarnámskeið viðurkennt af skólaráði, á hverju sex ára tímabili. Hafi slökkviliðsmaður sótt önnur námskeið getur hann sótt um til skólaráðs að fá það metið sem endurmenntunarnámskeið. Sæki hlutastarfandi slökkviliðsmaður nám fyrir atvinnuslökkviliðsmenn sbr. 2. tölulið 10. gr. telst hann hafa lokið námi fyrir hlutastarfandi slökkviliðsmenn sbr. 2. tölulið 11. gr.“

Samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2000 og 13. gr. reglugerðar nr. 792/2001 eru það slökkviliðsmenn sem geta sótt um löggildingu. Samkvæmt 1. og 2. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar teljast til slökkviliðsmanna annars vegar þeir sem gegna slökkvistarfi í aðalstarfi og hins vegar þeir sem gegna slökkvistarfi í hlutastarfi og sveitarstjórn hefur skipað í slökkvilið að tillögum slökkviliðsstjóra sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 75/2000.

Ráðuneytið telur ljóst af gögnum málsins að kærandi hefur gegnt slökkvistarfi að aðalstarfi hjá Isavia. Fellur kærandi því undir skilgreiningu 1. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 792/2001.

Í 9. gr. reglugerðar nr. 792/2001 er að finna nánari útfærslu á menntunarkröfum 1. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2000 og 13. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt greininni er námi slökkviliðsmanna skipt upp í nám atvinnuslökkviliðsmanna og nám hlutastarfandi slökkviliðsmanna. Er menntun slökkviliðsmanna fólgin í bóklegu námi og verklegri starfsþjálfun og kveðið er á um að fjöldi kennslustunda sem tilgreindur er í 10. gr. -12. gr. sé lágmarksfjöldi kennslustunda. Í 10. gr. reglugerðar nr. 792/2001 er fjallað nánar um nám slökkviliðsmanna að aðalstarfi sbr. 1. tölul. 2. gr. Skiptist námið í þrjá hluta auk endurmenntunar. Skulu þeir a.m.k. hafa lokið námi skv. 1. og 2. tölul. 10. gr. reglugerðarinnar, þ.e. 80 kennslustunda fornámi og 540 kennslustunda námi. 11. gr. reglugerðarinnar fjallar nánar um nám slökkviliðsmanna í hlutastarfi. Samkvæmt greininni skulu slökkviliðsmenn sem gegna hlutastarfi, sbr. 2. tölul. 2. gr., hafa a.m.k. lokið námi skv. 1. tölul. og námskeiði 1 og 2 skv. 2. tölul. 11. gr. reglugerðarinnar þ.e. 20 kennslustunda fornámi og 90 kennslustunda námskeiðum.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að reglugerð nr. 792/2001 gerir greinarmun á slökkviliðsmönnum sem hafa slökkvistarf að aðalstarfi og þeim sem hafa slökkvistarf að hlutastarfi þar sem gerðar eru mismunandi kröfur til menntunar og starfsreynslu. Þá er skylt að starfa sem hlutastarfandi slökkviliðsmaður í slökkviliði sveitarfélags en slík skylda er ekki til staðar hvað varðar slökkvistarf að aðalstarfi, sbr. 2. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar og 19. gr. laga nr. 75/2000.

Kröfur laga nr. 75/2000 og reglugerðar nr. 792/2001 um mismunandi vægi menntunar og starfsreynslu slökkviliðsmanna, eftir því hvort um aðalstarf eða hlutastarf er að ræða, taka mið af því að um eðlisólík störf getur verið að ræða. Í þessu sambandi má benda á að í 11. gr. reglugerðarinnar er gert ráð fyrir því að menntun slökkviliðsmanna í hlutastarfi sé í samræmi við þá þjónustu sem slökkvilið veita skv. brunavarnaráætlun. Einnig gerir 1. mgr. 19. gr. laganna ráð fyrir skyldu slökkviliðsmanna í hlutastarfi til að sækja æfingar í störfum slökkviliðs allt að 20 klukkustundum á ári. Menntun slökkviliðsmanna í hlutastarfi er því hægt að sníða að þörfum hvers sveitarfélags fyrir sig. Ekki er gert ráð fyrir sama sveigjanleika hvað varðar menntun slökkviliðsmanna í aðalstarfi.

Eins og fram kemur í 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 792/2001 getur slökkviliðsmaður í hlutastarfi talist hafa lokið námi hafi hann sótt nám fyrir atvinnuslökkviliðsmann enda gerir reglugerðin ráð fyrir meiri menntunarkröfum þegar um er að ræða atvinnuslökkviliðsmann. Reglugerðin gerir hins vegar ekki ráð fyrir því að fullnægjandi sé fyrir slökkviliðsmann að aðalstarfi að sækja nám fyrir hlutastarfandi.

Að mati ráðuneytisins er það nám sem tilgreint er í 10. gr. reglugerðar nr. 792/2001 það lágmarksnám sem slökkviliðsmenn, sem hafa slökkvistarf að aðalstarfi, þurfa að hafa lokið til að geta hlotið löggildingu sem slökkviliðsmenn, sbr. einnig 13. gr. reglugerðarinnar og 17. gr. laga nr. 75/2000. Fram kemur í gögnum málsins að kærandi hefur tekið þátt í námskeiðunum Fjarnám og Fjarnám verklegt (85 kennslustundir), en samkvæmt upplýsingum frá Mannvirkjastofnun samsvara framangreind námskeið þeim námskeiðum sem nefnd eru sem námskeið 1 og námskeið 2 í ákvæði 2. tölul. 11. gr. reglugerðar nr. 792/2001. Mannvirkjastofnun telur einnig að framangreind námskeið geti talist uppfylla ákvæði 1. tölul. 10. gr. reglugerðarinnar um fornám. Samkvæmt því virðist kærandi hafa lokið fornámi fyrir slökkviliðsmenn sem hafa slökkvistarf að aðalstarfi og kveðið er á um í 1. tölul. 10. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi hins vegar ekki lokið 540 kennslustunda námi fyrir atvinnuslökkviliðsmenn sem kveðið er á um í 2. tölul. 10. gr. reglugerðarinnar. Telur ráðuneytið því að kærandi hafi ekki lokið námi fyrir slökkviliðsmenn sem hafa slökkvistarf að aðalstarfi sbr. 10. gr. reglugerðarinnar en til þess að kærandi geti hlotið löggildingu þarf hann að ljúka lágmarksnámi fyrir atvinnuslökkviliðsmenn.

Að öllu framangreindu virtu er það mat ráðuneytisins að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2000 og 13. gr. reglugerðar nr. 792/2001 til að öðlast löggildingu til að starfa sem slökkviliðsmaður.

IV. Niðurstaða.
Með vísan til þeirra forsendna sem fram koma í III. kafla telur ráðuneytið að kærandi uppfylli ekki ákvæði laga um brunavarnir nr. 75/2000 og reglugerðar nr. 792/2001 um Brunamálaskólann og réttindi og skyldur slökkviliðsmanna til að geta hlotið löggildingu sem slökkviliðsmaður. Þar sem kærandi starfaði sem slökkviliðsmaður að aðalstarfi hefði honum borið að ljúka lágmarksnámi því sem kveðið er á um í 10. gr. reglugerðarinnar til að geta hlotið löggildingu sem slökkviliðsmaður. Ljóst er að kærandi uppfyllir ekki það skilyrði laga 75/2000 og reglugerðar nr. 792/2001 að starfa sem slökkviliðsmaður í hlutastarfi hjá sveitarfélagi og getur því ekki hlotið löggildingu sem slökkviliðsmaður á þeim forsendum að vera í hlutastarfi.

Að öllu framangreindu virtu er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Mannvirkjastofnunar um að synja Unnari Erni Ólafssyni löggildingu sem slökkviliðsmaður.

Úrskurðarorð:
Hin kærða ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 3. júní 2015 um að synja Unnari Erni Ólafssyni löggildingu sem slökkviliðsmaður er staðfest.


Sigrún Magnúsdóttir
Íris Bjargmundsdóttir
   


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum