Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 7/2015

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 31. mars 2015 í máli nr. 7/2015.
Fasteign: Njálsgata [ ], Reykjavík, fnr. [ ].
Kæruefni: Fasteignamat

Árið 2015, 31. mars, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 7/2015 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 10. mars 2015, kærir X f.h. Y, kt. [ ], ákvörðun Þjóðskrár Íslands um endurmat á fasteignamati Njálsgötu [ ], Reykjavík, fnr. [ ], fyrir árið 2015. Þá krefst kærandi málskostnaðar að mati yfirfasteignamatsnefndar.

Samkvæmt kæranda hefur engin tilkynning borist frá Þjóðskrá Íslands um fasteignamat fyrir árið 2015. Ljóst er samkvæmt úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 5/2015 og nr. 6/2015 að fasteignamat fyrir árið 2015 var tilkynnt í júní 2014 í samræmi við 32. gr. a. laga um skráningu og mat fasteigna. Tilkynningarseðlar voru aðgengilegir eigendum á upplýsinga- og þjónustuveitunni island.is, en slík rafræn tilkynning fasteignamats var tekin upp árið 2012. Í stað hins lögbundna fjögurra vikna frests sem kveðið er á um í 32. gr. a. fyrrgreindra laga var frestur til þess að koma á framfæri athugasemdum vegna fasteignamats 2015 framlengdur til 1. nóvember 2014. Með bréfi, dags. 10. mars 2015, óskaði kærandi eftir skýringum á hækkuðu fasteignamati sem og þeirra gagna sem lágu að baki ákvörðunar. Þegar málið er tekið til úrskurðar liggur svar Þjóðskrá Íslands ekki fyrir enda var málið kært með bráðabirgðakæru sama dag og Þjóðskrá Íslands barst beiðni um skýringar á hækkun fasteignamats.

Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. a. laga um skráningu og mat fasteigna skal Þjóðskrá Íslands endurmeta skráð matsverð allra fasteigna 31. maí ár hvert. Skal það verð talið fasteignamatsverð frá og með 31. desember þess árs til jafnlengdar næsta árs nema sérstök matsgerð komi til. Frestur eiganda til athugasemda skal vera mánuður frá tilkynningu ákvörðunar. Matsgerðir framkvæmdar á tímabilinu júní til desember skulu taka bæði til skráðs matsverðs og fyrirhugaðs matsverðs. Í 2. mgr. 32. gr. a. laganna er kveðið á um að Þjóðskrá Íslands beri eigi síðar en í júnímánuði ár hvert að gera hverju sveitarfélagi og hverjum eiganda grein fyrir niðurstöðum endurmats samkvæmt 1. mgr. sem tekur gildi í viðkomandi sveitarfélagi næsta 31. desember. Af ákvæðinu má ráða að komi engar athugasemdir fram innan frestsins taki fasteignamatið gildi.

Í 1. mgr. 31. gr. laga um skráningu og mat fasteigna er kveðið á um að aðili, sem verulega hagsmuni geti átt í matsverði eignar og sætti sig ekki við skráð mat samkvæmt 29. og 30. gr., geti krafist nýs úrskurðar Þjóðskrár Íslands um matið. Krafa um endurmat skuli vera skrifleg og studd rökum og nauðsynlegum gögnum.

Ekki er kveðið á um kærufrest í lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og fer því um hann eftir 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar segir í 1. mgr. að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Í 28. gr. stjórnsýslulaga er síðan kveðið á um hvernig með skuli fara þegar kæra berst að liðnum kærufresti en þar segir:

 „Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Forsenda kæru til yfirfasteignamatsnefndar er að fyrir liggi ákvörðun Þjóðskrár Íslands um endurmat, sbr. 1. mgr. 34. gr. laga um skráningu og mat fasteigna. Niðurstöður árlegs endurmats voru kynntar fasteignaeigendum með rafrænum tilkynningaseðli á þjónustu og upplýsingaveitu sem Þjóðskrá Íslands rekur og voru aðgengilegir frá júní 2014. Þá liggur fyrir að hvorki bárust athugasemdir frá kæranda innan lögboðins eða framlengds frests né beiðni um endurmat. Eins og áður greinir óskaði kærandi hinn 10. mars 2015 eftir nákvæmum skýringum frá Þjóðskrá Íslands á umræddri hækkun fasteignamats 2015. Bréf kæranda felur ekki í sér beiðni um endurmat samkvæmt 31. gr. laga um skráningu og mat fasteigna. Kærufrestur vegna ofannefndrar ákvörðunar frá júní 2014 var því liðinn þegar framangreind kæra barst nefndinni þann 12. mars 2015.

Þá verður ekki séð að undanþáguákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga geti átt við. Kærandi telur að Þjóðskrá Íslands hafi borið að senda umræddar tilkynningar með bréfi, sbr. 4. mgr. 21. gr., 3. mgr. 31. gr. og 32. gr. a. laga um skráningu og mat fasteigna. Í 4. mgr. 21. gr. laganna er kveðið á að tilkynna skuli skráðum eiganda fasteignar bréflega um breytingar á fasteignaskrá. Ákvæðið tekur til upplýsinga um breytingar landa og mannvirkja í fasteignaskrá en ekki til fasteignamats enda fjallað um framkvæmd þess mats í V. kafla laganna. Framangreint ákvæði á því ekki við í þessu máli. Ef litið er til ákvæða 3. mgr. 31. gr. og 32. gr. a. laganna er ljóst að samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu skal Þjóðskrá Íslands tilkynna eiganda um nýtt eða breytt fasteignamat og samkvæmt hinu síðarnefnda að gera hverju sveitarfélagi og hverjum eiganda grein fyrir niðurstöðum endurmats. Ekki er gerður áskilnaður um að framangreindar tilkynningar skuli sendar með bréfum.

Þá telur kærandi að Þjóðskrá Íslands hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr., jafnræðisreglu 11. gr., 13. gr. um andmælarétt, 14. gr. um upplýsingarétt og gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með lögum nr. 83/2008, um breytingu á lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, var lagt til að gerðar yrðu aðrar kröfur til málsmeðferðar í málum um frummat og endurmat einstakra fasteigna en leiðir af stjórnsýslulögum á þá leið að ákvæði 13. gr., 14. gr. og 18. gr. stjórnsýslulaga gildi ekki við meðferð þeirra mála vegna séreðlis þessara ákvarðana. Var slíkt ákvæði lögfest í 3. mgr. 31. gr. laga um skráningu og mat fasteigna. Þá er rakið í athugasemdum við frumvarp það sem varð að umræddum breytingalögum að með hliðsjón af því að framangreind ákvæði stjórnsýslulaga gildi ekki um meðferð þessara mála verði kveðið á um rúma endurupptökuheimild til að gæta hagsmuna eiganda. Þar segir ennfremur að eiganda skuli send tilkynning um nýtt fasteignamat strax og ákvörðun liggur fyrir þar sem veittar skuli leiðbeiningar um rétt hans til að krefjast rökstuðnings fyrir ákvörðuninni í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga og rétt til endurupptöku mats innan eins mánaðar svo og um kæruheimild. Vilji eigandi ekki una breytingu á mati hefur hann eins mánaðar frest til að krefjast endurskoðunar mats og óska breytinga sem gildi frá sama tíma og hin fyrri ákvörðun. Hið endurskoðaða mat er jafnframt kæranlegt til yfirfasteignamatsnefndar. Með hliðsjón af því að kærendur hafa ekki nýtt sér þá heimild að óska eftir endurmati samkvæmt 31. gr. laga um skráningu og mat fasteigna verður ekki séð að undanþáguákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga eigi við.

Kærandi gerir kröfu um málskostnað. Það er utan valdsviðs nefndarinnar að ákvarða um málskostnað.

Að virtu öllu framangreindu er kærunni vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð

Kæru Y vegna Njálsgötu [ ], Reykjavík, fnr. [ ], er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd þar sem hún er of seint fram komin.

Kröfu um málskostnað er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

  

__________________________________

Inga Hersteinsdóttir

   ______________________________           ________________________________

   Ásgeir Jónsson                                  Hulda Árnadóttir

  


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum