Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 17/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 17/2015

Miðvikudaginn 1. júní 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 6. ágúst 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 23. júlí 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 6. október 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara. Greinargerðin barst með bréfi 22. október 2015. Var hún send kærendum með bréfi 26. október 2015 og þeim boðið að gera athugasemdir. Engar athugasemdir bárust.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kærenda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd 1955 og 1956. Þau eru gift og búa í eigin íbúð að C. Þau eiga aðra íbúð í sama húsi sem þau leigja út. Kærandi A starfar hjá [...]. Kærandi B er í hlutastarfi [...] en hún er öryrki. Tekjur kærenda eru leigutekjur, launatekjur og örorkulífeyrir.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt greiðsluyfirliti umboðsmanns skuldara eru 64.546.646 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína einkum til þess er kærandi A missti vinnuna árið 2004 eftir tæplega 27 ára starf hjá sama vinnuveitanda. Hann hafi verið atvinnulaus um nokkurt skeið en stofnað eigin fyrirtæki með öðrum árið 2005. Laun hans séu nú mun lægri en áður. Einnig hafi afborganir lána hækkað mjög mikið.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 17. janúar 2011 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 17. janúar 2012 var þeim veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 6. nóvember 2012 var lagt til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. lge., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Kærendur hefðu ekki lagt fyrir í greiðsluskjólinu og að auki hefðu þau stofnað til nýrra skulda á tímabilinu. Umboðsmaður skuldara hefði ekki getað lagt mat á fyrrnefnda tillögu umsjónarmanns þar sem ekki hefðu legið fyrir fullnægjandi upplýsingar um tekjur kærenda. Heimild kærenda til greiðsluaðlögunar hefði því verið felld niður með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. júní 2013. Kærendur hefðu kært ákvörðunina til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála og jafnframt lagt fram ný gögn. Á grundvelli nýrra gagna hefði umboðsmaður skuldara afturkallað ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir 24. mars 2015 og tekið málið til efnismeðferðar.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 2. júní 2015 var þeim á ný gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í bréfi umboðsmanns var vísað til þess að ný gögn hefðu verið lögð fram við meðferð málsins hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Kærendur óskuðu ítrekað eftir frestum til að framvísa gögnum en engin gögn bárust.

Með bréfi til kærenda 23. júlí 2015 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru þeirra svo að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur kveðast ekki hafa getað lagt til hliðar á tímabili greiðsluskjóls þar sem þau hafi nýtt tekjur sínar til að sjá fjölskyldu sinni farborða. Þau hafi stutt dóttur sína fjárhagslega en hún hafi verið við nám [...]. Kærendur hafi talið þennan stuðning hluta af því að sjá fjölskyldunni farborða.

Að mati kærenda segi það sig sjálft að erfitt sé að stofna ekki til nýrra skulda við þessar aðstæður. Að sama skapi sé örðugt að leggja fyrir. Kærendur standi nú frammi fyrir því að skipta um járn á þaki húss síns en þar sé farið að leka. Sé ekki tekið í taumana strax liggi húsið undir skemmdum. Með viðgerðinni muni þau auka verðgildi eingarinnar til muna.

Kærendur hafi gert ýmsar ráðstafanir sem gætu aukið líkur þeirra á að fá heimild til greiðsluaðlögunar. Bifreið þeirra hafi verið flutt yfir á nafn kæranda B en með því hafi þau fengið afslátt af bílatryggingum þar sem hún sé öryrki. Einnig hafi þau fengið mikinn afslátt af fasteignagjöldum og bifreiðagjöldum vegna örorku hennar. Þá hafi þau fengið 4.000.000 króna niðurfellingu af höfuðstól húsnæðislána í gegnum svokallaða höfuðstólsleiðréttingu.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá sé í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Öllum þeim sem óskað hafi greiðsluaðlögunar hafi verið sent bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um þetta verið á heimasíðu embættisins. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 17. janúar 2012 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Einnig hafi skyldurnar verið útskýrðar aftur og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og kærenda 23. apríl 2012. Kærendum hafi því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim væri óheimilt að stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna þeirra þar til að því kæmi að gengið yrði til samninga við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kærenda hafi því staðið yfir í rúman 51 mánuð miðað við tímabilið frá 1. febrúar 2011 til 31. maí 2015. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. febrúar 2011 til 31. desember 2011 að frádregnum skatti 2.939.133
Bætur og endurgreidd opinber gjöld 2011 486.589
Nettó leigutekjur 2011 1.135.200
Alls tekjur febrúar til desember 2011 4.560.922
Meðaltekjur febrúar til desember 2011 414.629
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 273.114
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 141.515
Samtals greiðslugeta febrúar til desember 2011 1.556.668
Launatekjur 2012 að frádregnum skatti 3.132.762
Endurgreidd opinber gjöld 2012 133.366
Nettó leigutekjur 2012 1.290.000
Alls tekjur 2012 4.556.128
Meðaltekjur 2012 379.677
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 273.114
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 106.563
Samtals greiðslugeta 2012 1.278.760
Launatekjur 2013 að frádregnum skatti 2.828.572
Nettó leigutekjur 2013 1.393.200
Alls tekjur 2013 4.209.988
Meðaltekjur 2013 350.832
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 273.114
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 77.718
Samtals greiðslugeta 2013 932.620
Launatekjur 2014 að frádregnum skatti 2.243.796
Endurgreidd opinber gjöld 2014 328.885
Nettó leigutekjur 2014* 1.393.200
Alls tekjur 2014 3.965.881
Meðaltekjur 2014 330.490
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 273.114
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 57.376
Samtals greiðslugeta 2014 688.513
Launatekjur janúar til apríl 2015 að frádregnum skatti 917.360
Nettó leigutekjur janúar til apríl 2015* 464.400
Alls tekjur janúar til apríl 2015 1.381.760
Meðaltekjur janúar til apríl 2015 345.440
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 273.114
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 72.326
Samtals greiðslugeta janúar til apríl 2015 289.304
Alls lagt fyrir á tímabilinu 4.745.865

*Áætlun.

Í ofangreindum útreikningum sé miðað við að unnt sé að leggja fyrir mismun meðaltekna á mánuði og framfærslukostnaðar. Sú fjárhæð sé nefnd greiðslugeta.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. séu lögð fram gögn þar um.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið 273.114 krónur á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kærendum í hag, þ.e. framfærslukostnað maímánaðar 2015 fyrir hjón/sambýlisfólk. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi átt að geta lagt fyrir 4.745.865 krónur á fyrrnefndu tímabili.

Að sögn kærenda hafi framfærslukostnaður þeirra verið hærri á tímabilinu þar sem þau hafi aðstoðað uppkomna dóttur sína fjárhagslega en hún hafi verið í námi [...]. Umboðsmaður skuldara geti ekki tekið tillit til fjárhagsaðstoðar við uppkomin börn skuldara, enda ljúki framfærsluskyldu foreldra lögum samkvæmt við 18 ára aldur eða 20 ára aldur sé ungmenni í námi.

Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kærenda til greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir þessum kostnaði í mánaðarlegum framfærslukostnaði þeirra. Meðan á frestun annarra greiðslna standi sé skuldara ætlað að greiða gjöld og kostnað vegna framfærslu sé greiðslugeta hans jákvæð í mánuði hverjum, enda markmið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á skuldir og greiðslugetu.

Kærendur kveðist hafa greitt skuldir að fjárhæð 1.600.000 krónur á tímabilinu til að forða fasteign sinni frá nauðungarsölu. Þau hafi ekki lagt fram gögn þessu til staðfestingar en samkvæmt upplýsingum frá innheimtuaðila hafi þau greitt alls 1.225.161 krónu vegna fasteignagjalda á tímabilinu. Kærendum hafi samkvæmt ofangreindu borið skylda til að greiða þessi gjöld og verði því ekki litið svo á að um aukin eða óvænt útgjöld sé að ræða. Ekki verði því tekið tillit til þessarar fjárhæðar við útreikning á þeirri fjárhæð sem kærendur hafi átt að leggja fyrir á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt ofangreindu telji umboðsmaður skuldara að kærendur hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar þá fjármuni sem hafi verið umfram framfærslukostnað í greiðsluskjóli.

Gera verði þá kröfu til einstaklinga, sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem sé afgangs eftir að framfærslukostnaður hefur verið greiddur og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla. Auk þess sé óheimilt að stofna til nýrra skulda á tímabilinu.

Kærendur hafi lagt fram umsókn sína um greiðsluaðlögun 17. janúar 2011 og samkvæmt II. ákvæði til bráðabirgða lge. hafi þau þá þegar farið í greiðsluskjól og skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. hafist. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærendur að miklu leyti vanrækt greiðslu vatns-, fráveitu- og fasteignagjalda frá árinu 2011. Nemi þessi gjöld nú alls 2.450.869 krónum. Einnig hafi kærendur stofnað til skulda að fjárhæð 115.683 krónur vegna samskipta og áskrifta. Ætla megi að með þessu hafi kærendur stofnað til nýrra skulda sem skaðað hafi hagsmuni kröfuhafa samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt d-lið sama ákvæðis er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi 6. nóvember 2012 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 23. júlí 2015.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist annars vegar á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið unnt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls. Hins vegar byggir ákvörðunin á því að kærendur hafi látið hjá líða að greiða vatns-, fráveitu- og fasteignagjöld auk áskriftargjalda og þannig stofnað til skulda á tímabilinu. Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Kærendum bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að leggja til hliðar 4.745.865 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 17. janúar 2011 til 23. júlí 2015. Kærendur hafi ekkert lagt til hliðar og auk þess stofnað til skulda á tímabilinu.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum, álagningarseðlum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. febrúar 2011 til 31. desember 2011: Ellefu mánuðir
Nettótekjur A 906.964
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 82.451
Nettótekjur B 1.947.685
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 177.062
Nettótekjur alls 2.854.649
Mánaðartekjur alls að meðaltali 259.514
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 1.002.520
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 83.543
Nettótekjur B 2.130.242
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 177.520
Nettótekjur alls 3.132.762
Mánaðartekjur alls að meðaltali 261.064
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur A 536.284
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 44.690
Nettótekjur B 2.292.288
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 191.024
Nettótekjur alls 2.828.572
Mánaðartekjur alls að meðaltali 235.714
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. desember 2014: 12 mánuðir
Nettótekjur A 545.999
Nettó mánaðartekjur Aað meðaltali 45.500
Nettótekjur B 2.054.141
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 171.178
Nettótekjur alls 2.600.140
Mánaðartekjur alls að meðaltali 216.678
Tímabilið 1. janúar 2015 til 30. júní 2015: Sex mánuðir
Nettótekjur A 350.106
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 58.351
Nettótekjur B 1.027.185
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 171.198
Nettótekjur alls 1.377.291
Mánaðartekjur alls að meðaltali 229.549
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 12.793.414
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 241.385

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda, bætur og leigutekjur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. febrúar 2011 til 30. júní 2015: 53 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 12.793.414
Nettó leigutekjur 2011 1.238.400
Nettó leigutekjur 2012 1.290.000
Nettó leigutekjur 2013 1.393.200
Nettó leigutekjur 2014 1.453.161
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 18.168.175
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 342.796
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 273.114
Greiðslugeta kærenda á mánuði 69.682
Alls sparnaður í 53 mánuði í greiðsluskjóli x 69.682 3.693.133

Samkvæmt framangreindu ætti sparnaður kærenda að vera 3.693.133 krónur en þau hafa ekki sýnt fram á neinn sparnað. Kærendur hafa ekki gefið skýringar á því hvers vegna þau hafa ekki lagt fyrir í greiðsluskjóli að öðru leyti en því að þau hafi aðstoðað uppkomna dóttur sína fjárhagslega en hún hafi verið í námi [...].

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu á umsóknareyðublaði, á vefsíðu Embættis umboðsmanns skuldara og fylgiskjölum sem þau fengu í hendur með ákvörðun umboðsmanns skuldara þar sem þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls í samræmi við skýr fyrirmæli í a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eigi að leggja fyrir af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Að því er varðar fullorðna dóttur kærenda verður að gera ráð fyrir að hún standi straum af eigin framfærslu en að sögn kærenda var hún í námi [...]. Kærendur hafa ekki sýnt fram á að þeir hafi haft framfærsluskyldu gagnvart henni á því tímabili sem hér skiptir máli.

Í greiðsluáætlunum umboðsmanns skuldara var gert ráð fyrir að kærendur greiddu 26.000 krónur á mánuði í fasteigna-, vatns- og fráveitugjöld á tímabili greiðsluskjóls eða alls 1.378.000 krónur. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir hafa þessi gjöld verið að minnsta kosti 361.350 krónum hærri, alls 1.739.350 krónur á tímabilinu eða að meðaltali 32.818 krónur á mánuði. Verður tekið tillit til þess við útreikning á sparnaði kærenda í greiðsluskjóli. Þannig verður talið að kærendur hefðu átt að geta lagt fyrir 3.331.783 krónur á tímabilinu (3.693.133 krónur - 361.350 krónur) en þau hafa ekkert lagt fyrir. Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Þá byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að kærendur hafi stofnað til nýrra skulda í greiðsluskjóli í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að greiða ekki fasteigna-, vatns- og fráveitugjöld á tímabili greiðsluskjóls. Af gögnum málsins, verður ráðið að kærendur hafa vangreitt eftirtalin gjöld á tímabilinu:

Fasteignagjöld 29.308 Apríl og maí 2015
Fasteignagjöld 152.415 Febrúar til október 2014
Vatns- og fráveitugjöld 102.952 Febrúar til október 2014
Þing- og sveitarsjóðsgjöld 236.231 2014
Bifreiðagjald 15.350 2014
Sektir 17.000 2014
Staðgreiðsla og tryggingagjald 181.525 2010 til 2014
Brunatrygging 173.936 2013 til 2015
Samtals: 908.717

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að telja ofangreinda skuldasöfnun kærenda brjóta gegn skyldum skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Af hálfu nefndarinnar er því fallist á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt því lagaákvæði.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum