Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 20/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 20/2015

Miðvikudaginn 22. júní 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 31. ágúst 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. ágúst 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 25. september 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 7. október 2015.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 14. október 2015 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust 27. október 2015. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 2. nóvember 2015 og óskað eftir sjónarmiðum embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 10. febrúar 2016. Var hún send kærendum með bréfi 13. apríl 2016 og óskað eftir athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kærenda, sbr. 1. gr. laga 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd 1957 og 1953 og eru í sambúð. Kærandi A starfar við C en hún býr í einbýlishúsi kærenda í D sem er 199,6 fermetrar að stærð. Kærandi B starfar í E þar sem hann leigir sér húsnæði.

Að sögn kærenda má einkum rekja fjárhagserfiðleika þeirra til atvinnuleysis, tekjulækkunar og ábyrgðarskuldbindinga.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 42.052.730 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2007.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 29. maí 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 18. desember 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Í bréfi umsjónarmanns kom fram að hann hefði sent frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun til kröfuhafa 30. maí 2014. Landsbankinn hefði hafnað frumvarpinu þar sem kærendur væru talin komast af með ódýrara húsnæði. Þá hefði bankinn einnig óskað upplýsinga um tryggingarbréf sem hvíldi á fasteign kærenda að F. Tryggingarbréfið væri í eigu G en það félag væri í eigu sonar kærenda. Þetta hefði verið kynnt lögmanni kærenda og niðurstaðan verið sú að eign kærenda yrði sett á sölu. Beiðni um sölu á eigninni hefði verið send fasteignasala 20. október 2014. Eftir ítrekaðar tafir hefði umsjónarmaður sent lögmanni kærenda tölvupóst 2. desember 2014 þar sem óskað var eftir því að söluyfirlit fyrir eignina lægi fyrir í síðasta lagi 5. desember sama ár. Ekkert hafi heyrst frá kærendum eða lögmanni þeirra vegna málsins og því sé það mat umsjónarmanns að kærendur hafi með háttsemi sinni komið í veg fyrir sölu á eigninni, sbr. 5. mgr. 13. gr. lge. Þá telji umsjónarmaður að kærendur hafi ekki sinnt skyldu sinni samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. um samstarf við umsjónarmann.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 29. júlí 2015 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan einnar viku og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar. Engin svör bárust frá kærendum.

Með bréfi til kærenda 14. ágúst 2015 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. e-lið 2. mgr. 6. gr., 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 16. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Þess er krafist að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála felli úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar og veiti kærendum áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunar.

Kærendur vísa til þess að þeim hafi verið veitt heimild til að leita samnings um greiðsluaðlögun með ákvörðun umboðsmanns skuldara 29. maí 2012. Undir rekstri málsins hafi komið í ljós að kærendur teldust geta greitt af veðkröfum innan mats fasteignar sinnar og hafi þeim verið send drög að frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun 15. maí 2014. Kærendur hafi samþykkt frumvarpið sem síðan hafi verið lagt fyrir kröfuhafa.

Landsbankinn hafi gert athugasemdir við frumvarpið og talið að kærendur kæmust af með ódýrara húsnæði. Einnig hafi bankinn haft efasemdir um tilurð tryggingarbréfs sem hvíldi á fasteign kærenda. Bankinn hafi gefið þeim kost á að endurskoða frumvarpið með tilliti til sölu eignarinnar. Lögmaður kærenda hafi kynnt starfsmanni umboðsmanns skuldara 13. október 2014 að kærendur myndu vilja setja eignina í söluferli og tilnefndu H til að sjá um sölu eignarinnar. Kvaðst starfsmaður umboðsmanns mundu hafa samband við fasteignasöluna vegna þessa, sbr. tölvupóst 20. október 2014.

Í tölvupósti 30. október 2014 hafi starfsmaður umboðsmanns greint frá því að söluyfirlit fyrir eignina hefði ekki borist. Hann hafi óskað eftir því að lögmaður kærenda kannaði hvort búið væri að skoða eignina. Lögmaðurinn hafi þá fengið staðfest hjá kæranda A að fasteignasali myndi skoða eignina í vikunni á eftir og hafi þetta verið tilkynnt starfsmanni umboðsmanns. Atvik hafi hagað því þannig til að ekki hafi verið unnt að skoða eignina á tilætluðum tíma og 11. nóvember 2014 hafi starfsmaður umboðsmanns látið lögmanninn vita að eignin hefði ekki verið skoðuð. Lögmaðurinn hafi þá aftur haft samband við kæranda A svo og fasteignasala. Ákveðið hafi verið að fasteignasalinn myndi skoða eignina 13. nóvember 2014 og hafi lögmaðurinn lagt áherslu á að í kjölfar skoðunar þyrfti að senda söluyfirlit yfir eignina til umsjónarmanns. Fasteignasalinn hafi síðan skoðað eignina og bæði kærendur og lögmaður þeirra hafi talið að málið væri í réttum farvegi hjá umboðsmanni skuldara. Með bréfi 29. júlí 2015 hafi kærendum borist tilkynning frá umboðsmanni skuldara um hugsanlega niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana þar sem fyrrnefnt söluyfirlit hefði ekki borist. Kærendum hafi komið þetta á óvart þar sem þau töldu málið úr sínum höndum. Á þessum tíma hafi lögmaður kærenda verið í sumarfríi og kærendur ekki náð sambandi við hann. Með bréfi 14. ágúst 2015 hafi kærendum síðan verið tilkynnt að heimild þeirra til greiðsluaðlögunar hefði verið felld niður.

Niðurfelling umboðsmanns skuldara sé byggð á því að söluyfirlit fasteignasala hafi ekki borist umsjónarmanni kærenda. Lögmaður þeirra hafi haft samband við fasteignasalann vegna þessa 21. september 2015 og þá hefði komið í ljós að um misskilning fasteignasalans hefði verið að ræða en hann hefði aldrei gert söluyfirlitið. Hér verði kærendum ekki kennt um en þau hafi verið í góðri trú um að fasteignasalinn hefði lokið málinu á þann hátt er honum bar. Umboðsmaður skuldara vísi til tölvupósts til lögmanns kærenda 2. desember 2014 þar sem óskað hafi verið eftir því að söluyfirlit bærist embættinu eigi síðar en 5. desember 2014 en lögmaðurinn kannist ekki við að hafa fengið þann tölvupóst. Lögmaður kærenda hafi séð um öll samskipti við umboðsmann skuldara fyrir þeirra hönd og telji hann aðfinnsluvert að umboðsmaður skuldara hafi ekki sent honum bréf um hugsanlega niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana kærenda eða ákvörðun um niðurfellingu. Hefði þetta verið gert hefði mátt bregðast við fyrr en ella og unnt hefði verið að koma að andmælum áður en umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Með tilliti til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sé það mat kærenda að umboðsmaður skuldara hefði átt að hafa samband við fasteignasalann og kanna hvers vegna söluyfirlit hefði ekki borist áður en kærendum var tilkynnt um hugsanlega niðurfellingu greiðsluaðlögunar.

Kærendur hafi verið í góðri trú um að þau hefðu framfylgt öllum fyrirmælum umboðsmanns skuldara. Þau hafi ekki með neinu móti reynt að koma í veg fyrir sölu á fasteign sinni í skilningi 5. mgr. 13. gr. lge. Kærendur leggi áherslu á að þau hafi aldrei látið í ljós við fasteignasalann að til stæði að hætta við sölu eignarinnar en fasteignasalinn hafi sjálfur staðfest að um misskilning hafi verið að ræða eins og framlagðir tölvupóstar beri með sér. Frá því að fasteignasali skoðaði eign kærenda í lok árs 2014 og fram til 29. júlí 2015, er tilkynning um hugsanlega niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana var dagsett, hafi umsjónarmaður hvorki sett sig í samband við fasteignasalann né kærendur til að kanna hvers vegna söluyfirlit eignarinnar hefði ekki borist. Þetta verði að telja verulega ámælisvert.

Niðurfelling umboðsmanns skuldara sé einnig byggð á því að kærendur hafi brotið gegn e-lið 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. 137. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 með því að hafa viku áður en þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar látið þinglýsa tryggingarbréfi að fjárhæð 10.000.000 króna á fasteign sína að F í D.

Kærendur hafi fest kaup á eigninni seinni hluta ársins 2007 en þá hafi hún verið rúmlega fokheld. Á þessum tíma hafi kærendur átt fasteign að J. Kærendur hafi áformað að koma eigninni við F í íbúðarhæft ástand og selja þá eignina að J. Þegar að því kom hafi hægt mikið á fasteignamarkaðnum og eignin ekki selst jafn fljótt og vonast hafi verið eftir. Kærendur hafi því ekki haft nægilega fjármuni til að ljúka við eignina að F. Eignin að J hafi loks selst síðari hluta ársins 2009 en á mun lægra verði en gert hafi verið ráð fyrir. Á þeim tíma höfðu tekjur kæranda B dregist mikið saman og hafi kærendur því ekki getað greitt K reikninga alls að fjárhæð 10.436.624 krónur vegna vinnu sem innt hafi verið af hendi við eignina að F. Aðilar hafi komist að samkomulagi um að félagið G myndi greiða gjaldfallna skuld kærenda við K og þau myndu síðan greiða G skuldina. Til tryggingar kröfu G hafi kærandi A gefið út tryggingarbréfið til G 26. febrúar 2011.

Hér beri að hafa í huga að kærendur hafi ekki tekið ákvörðun um hvenær tryggingarbréfinu yrði þinglýst en það hafi verið í höndum kröfuhafans G. Þá beri að líta til þess að umboðsmaður skuldara hafi aldrei gert athugasemdir við tryggingarbréfið á meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda stóð. Að mati kærenda hefði umboðsmaður skuldara aldrei átt að heimila kærendum greiðsluaðlögunarumleitanir ef hann hefði talið tilkomu eða tilurð tryggingarbréfsins óeðlilega. Ákvæðum 6. gr. lge. sé ætlað að taka til atvika sem komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð en ekki til atvika sem ljós hafi verið frá upphafi og engin athugasemd verið gerð við. Kærendur benda á að e-liður 2. mgr. 6. gr. lge. feli í sér heimild til að synja um greiðsluaðlögun þegar skuldari hafi efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Við túlkun og beitingu þessa ákvæðis beri að hafa í huga umfjöllun 2. mgr. 6. gr. í frumvarpi til lge. þar sem segi að ástæðurnar sem þar séu taldar upp eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Að mati kærenda túlki umboðsmaður skuldara hið matskennda ákvæði 2. mgr. 6. gr. lge. mun rýmra en efni standi til. Kærendur hafi ekki grunað að það gæti orðið þeim til tjóns að undirrita tryggingarbréfið eða að reyna að greiða úr fjárhagsvanda sínum áður en til greiðsluaðlögunar kæmi.

Kærendur vísa til þess að athugasemdir kröfuhafa við frumvarp til greiðsluaðlögunar hafi verið þess efnis að kærendur kæmust af með ódýrari fasteign. Athugasemdirnar hafi ekki snúið að tryggingarbréfinu sjálfu. Öll samskipti kærenda við umsjónarmann og ferill málsins eftir það hafi snúist um breytingar á frumvarpinu en ekki títtnefnt tryggingarbréf. Af þessum ástæðum hafi kærendur ekki fengið tækifæri til þess að kanna hvort hægt væri að fá tryggingarbréfið afmáð en engar athugasemdir hafi borist við tryggingarbréfinu fyrr en með bréfi umboðsmanns skuldara 29. júlí 2015.

Umboðsmaður skuldara byggi á því að kærendur hafi ekki lagt fram gögn um lán frá G. Þetta sé rangt þar sem umsjónarmaður kærenda hafi fengið allar upplýsingar sem óskað hafi verið eftir áður en frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun hafi verið gert. Umsjónarmaður hafi talið framlagðar skýringar fullnægjandi. Kærendur hafi á hinn bóginn aldrei fengið möguleika á því að skýra tilurð skuldarinnar undir rekstri málsins hjá umboðsmanni skuldara.

Af öllu framangreindu röktu feli ákvæði e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. ekki í sér fullnægjandi heimild til niðurfellingar á greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda með tilliti til atvika þeirra sem voru að baki tryggingarbréfinu.

Í ljósi alls sem að framan greinir telja kærendur ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr., 1. mgr. 16. gr. og e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. ekki eiga við rök að styðjast.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að veita hana þar sem skuldari hafi gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti, sbr. lög um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.).

Í 1. mgr. 137. gr. gþl. komi fram að krefjast megi riftunar á veðrétti sem kröfuhafi hafi fengið á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag sé það á öðrum tíma en stofnað hafi verið til skuldar. Einnig komi fram í ákvæðinu að það sama eigi við sé slíkum réttindum ekki þinglýst án ástæðulauss dráttar eftir að skuldin varð til og ekki fyrr en á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag.

Kærendur hafi lagt fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. júní 2011, en umboðsmaður skuldara telji að jafna megi þeim degi til frestdags í skilningi gþl. Tæpri viku áður, eða 23. júní 2011, hafi kærendur látið þinglýsa tryggingarbréfi að fjárhæð 10.000.000 króna á fasteign sína að F. Tryggingarbréfið hafi verið útgefið til G 26. febrúar 2011 eða tæpum fjórum mánuðum fyrir frestdag. Í tölvupósti kærenda 19. desember 2013 komi fram að tryggingarbréfið hafi verið gefið út samhliða því að G hafi tekið að sér að greiða skuld kæranda A við K samkvæmt reikningum að fjárhæð 10.436.624 krónur sem gefnir hafi verið út á tímabilinu 17. október 2009 til 15. nóvember 2010. Engin gögn liggi fyrir um samkomulag kærenda við G um greiðslu nefndra reikninga eða að G hafi greitt reikningana.

Orðalagið ákvæðisins um að þinglýsa beri „án ástæðulauss dráttar“ beri að skýra bókstaflega. Þannig sé ljóst að sá fjögurra mánaða dráttur, sem orðið hafi á þinglýsingu tryggingarbréfsins, teljist verulegur. Einnig sé ljóst að kærendur hafi verið ógjaldfær þegar tryggingarbréfinu hafi verið þinglýst þar sem eignastaða þeirra hafi verið neikvæð samkvæmt skattframtölum, bæði í árslok 2011 og 2012. Þá hafi yfirdráttarskuldir að fjárhæð 13.384.292 krónur verið í vanskilum frá september 2010. Samkvæmt þessu telji umboðsmaður að veðsetningin hafi verið riftanleg við gjaldþrotaskipti á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 137. gr. gþl.

Að mati lögmanns kærenda teljist riftanleg ráðstöfun ekki lengur riftanleg samkvæmt gþl. sé hún afturkölluð í framhaldi af athugasemdum kröfuhafa eða umsjónarmanns. Á þetta fallist embættið ekki. Hafi riftanleg ráðstöfun þegar verið viðhöfð leiði það að mati embættisins til niðurfellingar á heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. burtséð frá því hvort skuldari dragi ráðstöfun til baka.

Kærendur geri athugasemd við að þau hafi ekki haft færi á að skýra tilurð skuldar þeirra við G. Þessu hafni embættið með vísan til bréfs 29. júlí 2015.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. hvíli jafnframt á skuldara skylda til samráðs við umsjónarmann við undirbúning frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun.

Umboðsmaður skuldara telji að kærendur hafi ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um sölu fasteignar sinnar en kærendur hafi ekki gengið eftir því að fasteignasali gerði söluyfirlit yfir eignina. Kærendur hafi þannig komið í veg fyrir sölu á eigninni en það sé almennt á ábyrgð skuldara að sjá til þess að fasteign sé skráð til sölu. Fasteignasalar hafi á hinn bóginn engar beinar skyldur samkvæmt lge. Erfitt sé að ráða af fyrirliggjandi samskiptum lögmanns kærenda og fasteignasala hvað olli því að fasteignasali gerði ekki söluyfirlit fyrir eign kærenda. Umboðsmaður dragi þó þá ályktun af samskiptunum að kærendur hafi sjálf kosið að halda ekki áfram með sölu eignarinnar. Þá telji umboðsmaður að kærendum hafi borið að spyrja fasteignasalann um áframhaldandi vinnu við sölu eignarinnar, hafi verið um að ræða misskilning á milli kærenda og fasteignasalans. Framlögð gögn um samskipti við fasteignasala breyti engu um forsendur ákvörðunar umboðsmanns á grundvelli 5. mgr. 13. gr.

Lögmaður kærenda haldi því fram að honum hafi ekki borist tilteknir tölvupóstar frá umsjónarmanni um að söluyfirlit fyrir fasteign kærenda hefði ekki borist. Embættið hafi afrit póstanna, sem séu frá 24. nóvember og 2. desember 2014, og telji því að lögmaðurinn hafi fengið þá. Í skeytunum hafi lögmaðurinn verið upplýstur um að söluyfirlit fasteignarinnar hefði ekki borist. Einnig hafi þar komið fram að bærist söluyfirlit umsjónarmanni ekki fyrir 5. desember 2015 myndi umsjónarmaður leggja til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður.

Kærendur telji að umboðsmanni skuldara hafi borið að kanna ástæður þess að söluyfirlit hafði ekki borist frá fasteignasala. Í 2. mgr. 13. gr. lge. komi skýrt fram að skuldara sé skylt að annast sölu fasteignar ef umsjónarmaður ákveði það. Í 5. mgr. 13. gr. komi fram að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. um sölu fasteignar eða komi í veg fyrir sölu með einhverjum hætti skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður. Í lge. sé lögð rík skylda á skuldara að hlutast til um að leggja fram nauðsynlegar upplýsingar. Einnig beri skuldara að taka virkan þátt í greiðsluaðlögunarumleitunum. Embættið telji samkvæmt þessu að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 13. gr. lge. með því að hlutast ekki til um að fá fasteign sína skráða til sölu. Kærendur hafi fengið svigrúm í tæpa tvo mánuði til að koma eigninni á sölu hjá fasteignasölu sem að mati umboðsmanns hafi verið ríflegur tími.

Þá hafi kærendur ekki sinnt skyldu sinni til samstarfs við umsjónarmann.

Lögmaður kærenda hafi gert athugasemdir við að hafa hvorki fengið sent afrit bréfs umboðsmanns skuldara til kærenda 29. júlí 2015 né ákvörðun embættisins um niðurfellingu á heimild kærenda til greiðsluaðlögunar. Umboðsmaður telur að jafnvel þó að réttast hefði verið að senda lögmanninum fyrrnefnd bréf, beri kærendur sjálf ábyrgð á því að taka á móti bréfum vegna umsóknar sinnar um greiðsluaðlögun. Þannig hefði það ekki haft áhrif á niðurstöðu eða gildi ákvörðunar umboðsmanns um að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar þótt lögmanninum hefðu ekki borist bréfin.

Kærendur telji að það hefði „breytt öllu“ hefði lögmanni þeirra borist afrit tilkynningar um að umsjónarmaður hafi lagt til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður. Umboðsmaður skuldara telji að lögmanni kærenda hljóti að hafa verið fullkunnugt um þann farveg sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru komnar í, sbr. fyrrnefnda tölvupósta. Þá telji umboðsmaður að lögmaður kærenda hefði átt að hafa samband við embættið að fyrra bragði, hefði honum þótt málsmeðferð óljós, þar sem átta mánuðir hafi liðið frá því að umsjónarmaður tilkynnti um lokafrest til að framvísa söluyfirliti fyrir fasteign og þar til embættið sendi kærendum bréf.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., e-lið 2. mgr. 6. gr., 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 16. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Þess er krafist að úrskurðarnefnd velferðarmála felli úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar og veiti kærendum áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunar.

Felli umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara getur skuldari kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015. Við úrlausn málsins fyrir úrskurðarnefndinni getur því aðeins komið til þess að nefndin staðfesti eða felli ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi. Verði fallist á kröfu kærenda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi leiðir það sjálfkrafa til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda halda áfram. Skilja verður kröfugerð kærenda með tilliti til þessa.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. e-lið 2. mgr. 6. gr., 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 16. gr. lge.

Í e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að veita hana þar sem skuldari hafi gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti, sbr. lög um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.). Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 2. mgr. 13. gr. segir að skuldara sé skylt að annast söluna ef umsjónarmaður ákveður það. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. Í 1. mgr. 16. gr. lge. segir að umsjónarmaður skuli eins fljótt og auðið sé eftir að kröfulýsingarfrestur sé liðinn gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Skuli frumvarpið samið í samráði við skuldara. Þá segir í 15. gr. lge. að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Að því er varðar e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. byggir umboðsmaður skuldara á því að kærandi, A, hafi viðhaft ráðstöfun sem væri riftanleg við gjaldþrotaskipti á búi hennar samkvæmt 137. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Í 1. mgr. 137. gr. gþl. kemur fram að krefjast megi riftunar á veðrétti eða öðrum tryggingarréttindum sem kröfuhafi fékk á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag en ekki um leið og stofnað var til skuldarinnar. Það sama eigi við ef slíkum réttindum er ekki þinglýst eða þau eru ekki tryggð á annan hátt gegn fullnustugerðum án ástæðulauss dráttar eftir að skuldin varð til og ekki fyrr en á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Þannig mælir 137. gr. gþl. fyrir um að krefjast megi riftunar á veðrétti sem kröfuhafi hafi fengið á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag sé það á öðrum tíma en stofnað hafi verið til skuldar. Ákvæðið á við þegar um eldri skuld er að ræða, þ.e. þegar til skuldar hefur verið stofnað á fyrra tímamarki, og veðrétturinn veittur eftir á til tryggingar skuldinni.

Kærendur hafa lagt fram eftirtalda reikninga sem gefnir hafa verið út á hendur kæranda A en fjárhæðir eru í krónum:

Dags. Kröfuhafi Vegna Fjárhæð
17. október 2009 K Vinna á byggingarstað o.fl. 2.541.375
31. október 2009 K Vinna á byggingarstað o.fl. 1.938.185
28. febrúar 2010 K Vinna á byggingarstað o.fl. 1.976.067
Júní 2010 L Innréttingar að F 2.563.000
15. nóvember 2010 K Vinna á byggingarstað o.fl. 1.417.997
Samtals: 10.436.624

Þá liggur fyrir í málinu tryggingarbréf að fjárhæð 10.000.000 króna útgefið af kæranda A til G 26. febrúar 2011. Bréfið var gefið út tæpum fjórum mánuðum fyrir þann dag er jafna megi til frestdags í skilningi gþl. Bréfinu var þinglýst á 2. veðrétt á fasteigninni F 21. júní 2011 eða tæpri viku fyrir frestdag.

Að sögn kærenda var fyrrnefnt tryggingarbréf gefið út þar sem G greiddi fyrir þau skuld við K en þau hugðust síðan endurgreiða G skuldina á lengri tíma. Samkvæmt ofangreindum reikningum stofnaði kærandi A til skuldar við K að fjárhæð samtals 7.873.624 krónur á tímabilinu 17. október 2009 til 15. nóvember 2010. Tryggingarbréf til tryggingar þeirri skuld var síðan gefið út fjórum mánuðum fyrir frestdag og ekki þinglýst á 2. veðrétt fyrrnefndrar fasteignar fyrr en viku fyrir það tímamark eins og rakið er að framan. Sá dráttur sem varð á þinglýsingu tryggingarbréfsins er þannig verulegur. Að framangreindu virtu þykir því að mati úrskurðarnefndarinnar ljóst að bæði skilyrði 1. og 2. málsliðar 1. mgr. 137. gr. gþl. eru fyrir hendi eins og atvikum er háttað í málinu. Samkvæmt því verður fallist á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara um að með framangreindri ráðstöfun hafi kærendur stofnað til veðréttar sem sé riftanlegur á grundvelli e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. 137. gr. gþl.

Þá vísar umboðsmaður skuldara til 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 16. gr. og lge.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið þeirra aðgerða, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu teljist það ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður getur þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem sá fyrrnefndi telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án.

Í tölvupósti umsjónarmanns til lögmanns kærenda 20. október 2014 kveðst umsjónarmaður hafa sent veðkröfuhöfum tilkynningu um að fasteign kærenda færi á sölu. Einnig segist umsjónarmaður munu óska eftir því við þann starfsmann Embættis umboðsmanns skuldara sem sjái um sölu fasteigna að hann hafi samband við tilnefndan fasteignasala. Í tölvupósti starfsmanns umboðsmanns skuldara til fasteignasalans sama dag sem ber yfirskriftina „[b]eiðni um sölumeðferð fasteignar: F...“ er óskað eftir myndum og söluyfirliti eignar áður en hún verði auglýst til sölu. Fasteignasali svarar samdægurs og segir „[v]ið förum í þetta mál“. Í tölvupósti umboðsmanns skuldara til lögmanns kærenda 30. október 2014 segir að embættið hafi óskað eftir því við tilgreindan fasteignasala 20. október 2014 að eignin yrði „sett á skrá hjá“ honum. Embættið hafi þó ekkert „heyrt og ekki fengið afhent söluyfirlit.“ Þá er lögmaðurinn spurður að því hvort hann viti hvort búið sé að skoða eignina. Í svari lögmannsins sama dag segir hann að fasteignasali komi strax eftir helgi til að skoða og mynda eignina. Af tölvupóstsamskiptum umboðsmanns skuldara og lögmanns kærenda fyrri hluta nóvember 2014 má ráða að fasteignasali hafi ekki náð tali af kærendum. Umsjónarmaður segir í tölvupósti 11. nóvember 2014 að það væri mjög gott að söluyfirlit bærist í síðasta lagi 18. nóvember næstkomandi. Í svari lögmannsins 12. nóvember 2014 kemur fram að fasteignasali skoði eignina daginn eftir og söluyfirlit liggi fyrir „öðru hvorum megin við helgi“. Í tölvupósti umsjónarmanns til lögmanns kærenda 24. nóvember 2014 kemur fram að söluyfirlit hafi ekki borist. Lögmaðurinn er spurður hvort hann viti hver staðan sé. Í tölvupósti umsjónarmanns til lögmanns kærenda 2. desember 2014 segir: „Söluyfirlit hefur ekki borist embættinu. Söluyfirlitið þarf að berast eigi síðar en föstudaginn 5. desember nk. Ef söluyfirlitið hefur ekki borist fyrir þann tíma mun umsjónarmaður senda málið til kærudeildar embættisins á grundvelli 15. gr. lge. Frekari frestir verða ekki veittir.“ Samkvæmt gögnum málsins var tölvupóstum umsjónarmanns 24. nóvember og 2. desember 2014 ekki svarað.

Samkvæmt þeim samskiptum umsjónarmanns og lögmanns kærenda, sem rakin eru hér að framan, má ráða að umsjónarmaður hafi tekið ákvörðun um sölu fasteignar kærenda 20. október 2014 eftir að kærendur hafi fallist á það fyrir sitt leyti en samkvæmt 2. mgr. 13. gr. lge. er skuldara skylt að annast söluna ef umsjónarmaður ákveður það. Kærendur sáu þó ekki til þess að fasteignasali hlutaðist til um nauðsynlegar aðgerðir til að unnt væri að auglýsa eignina til sölu, þrátt fyrir að þau fengju ítrekaðar áminningar frá umsjónarmanni á tímabilinu 20. október til 24. nóvember 2014 um að hefjast þyrfti handa við sölutilraunir á eigninni.

Í málinu liggja fyrir tölvupóstar umsjónarmanns til lögmanns kærenda 24. nóvember og 2. desember 2014 en þar er kærendum gefinn lokafrestur til að hlutast til um sölu á fasteigninni. Lögmaðurinn kveðst ekki hafa fengið tölvupóstana en þeir voru þó sendir á sama netfang og fyrri tölvupóstar til lögmannsins. Engar vísbendingar eru um að síðastnefndir tölvupóstar hafi ekki komist til vitundar lögmannsins. Eins og fyrri tölvupóstsamskiptum hafði verið háttað telur úrskurðarnefndin að kærendum hafi, hvað sem öðru leið, átt að vera ljóst að þeim bar skylda til að koma fasteign sinni í sölumeðferð án frekari tafa.

Ekki er að sjá að unnið hafi verið frekar að málinu fyrr en 29. júlí 2015. Þá fengu kærendur bréf frá umboðsmanni skuldara þar sem þeim er gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan einnar viku og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara taki ákvörðun um hvort fella skuli niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar, meðal annars þar sem þau hafi ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um sölu á eigninni. Kærendur svöruðu bréfinu ekki og óskuðu ekki eftir fresti til þess. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 14. ágúst 2015.

Kærendur gera athugasemdir við að þau hafi sjálf fengið sent bréfið 29. júlí 2015 en ekki lögmaður þeirra. Að mati úrskurðarnefndinarinnar er þessi athugasemd kærenda haldlaus, enda hafa kærendur ekki borið á móti því að hafa fengið bréfið. Þeim var jafnframt í lófa lagið að kynna lögmanninum efni ákvörðunarinnar sjálf eða óska eftir frekari fresti til að svara bréfinu, teldu þau sig ekki geta svarað með fullnægjandi hætti innan frestsins sem veittur var.

Meðal annars með hliðsjón af þeim samskiptum, sem rakin eru hér að framan, telur úrskurðarnefndin að ekki sé unnt að líta öðruvísi á málavexti en að kærendur hafi ekki framfylgt fyrirmælum umsjónarmanns um sölu á eigninni að F, í skilningi 5. mgr. 13. gr. Þá hafi þau með framgöngu sinni látið hjá líða að sinna samstarfi við umsjónarmann að þessu leyti, enda verður frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun ekki samið nema í samráði við skuldara. Kærendur hafi því einnig brotið gegn ákvæði 1. mgr. 16. gr.

Með vísan til þessa verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. e-lið 2. mgr. 6. gr., 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 16. gr. lge.

Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður er staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum