Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 101/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 101/2016

Miðvikudaginn 23. mars 2016

Úrskurður

Þann 18. janúar 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála beiðni A, um endurupptöku á úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 149/2013 frá 8. október 2015, en með honum var staðfest ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. júní 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. september 2013 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda felldar niður. Var það annars vegar gert með vísan til þess að kærandi hefði komið í veg fyrir sölu á eignarhluta fasteignar sinnar og ráðstöfun á bifreiðum samkvæmt 1. og 5. mgr. 13. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Hins vegar var vísað til þess að kærandi hefði stofnað til skulda sem skaðað hefðu hagsmuni kröfuhafa á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, en það væri í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála barst kæra 24. september 2013 þar sem kærandi krafðist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara yrði felld úr gildi. Þann 8. október 2015 úrskurðaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála í máli kæranda. Í úrskurðinum kemur fram að með því að greiða ekki fasteignagjöld, sem kærandi hefði þó getað greitt, hefði hann stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. á árinu 2012. Þá hefði hann látið hjá líða að framfylgja ákvörðun umsjónarmanns um að selja fasteign sína samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge., sbr. 5. mgr. sömu lagagreinar. Greiðslugeta kæranda væri neikvæð, en miðað við ákvæði lge. væri eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilviki kæranda sá að selja fasteign hans, enda ljóst að kærandi gæti ekki staðið undir greiðslum af veðkröfum sem á henni hvíldu, samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara var því staðfest.

Með beiðni 27. október 2015 óskað kærandi þess að ákvörðun kærunefndarinnar yrði endurupptekin. Með úrskurði 21. desember 2015 hafnaði kærunefndin beiðninni. Með lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála nr. 85/2015, sem gildi tóku 1. janúar 2016, tók úrskurðarnefndin við störfum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Með beiðni sem barst úrskurðarnefndinni 18. janúar 2016 óskaði kærandi á ný eftir endurupptöku á úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála frá 8. október 2015.

Í seinni endurupptökubeiðni kæranda kemur fram að honum hafi verið óheimilt að greiða tiltekna skuld sem hann stofnaði til árið 2011. Greiðslugeta hans hefði verið neikvæð og því taldi hann sig ekki geta greitt skuldina. Kærandi vísar í þessu sambandi til d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Kærandi greinir einnig frá því að hann hafi leigutekjur að fjárhæð 80.000 krónur á mánuði „ef þarf.“

II. Niðurstaða

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.) er fjallað um endurupptöku stjórnvaldsákvörðunar. Samkvæmt ákvæðinu á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Við úrlausn á því hvort aðili eigi rétt á endurupptöku máls telst hann aðeins eiga rétt á því þegar ákvörðun þess er byggð á hinum röngu eða ófullnægjandi upplýsingum en til gagnstæðrar niðurstöðu leiðir ef hinar röngu eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik skiptu litlu eða engu máli við úrlausn málsins.

Fyrir nefndina hafa verið lögð eftirtalin ný gögn:

1) Yfirlit yfir fasteignagjöld frá B 20. janúar 2016.

2) Eftirtaldir reikningar vegna verktöku, útgefnir af kæranda:

Dagsetning Fjárhæð í krónum
með vsk
11. janúar 2016 558.992
9. desember 2015 255.192
3. nóvember 2015 308.016
3. nóvember 2015 425.320
1. október 2015 188.232
1. október 2015 456.320
15. september 2015 596.068
31. ágúst 2015 673.072
1. ágúst 2015 676.544
1. júlí 2015 750.200
1. maí 2015 886.600
23. mars 2015 644.552

Kærandi kveðst ekki hafa haft getu til að greiða tilteknar skuldir á árinu 2011. Eins og fram kemur í fyrri úrskurðum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála frá 8. október 2015 og 21. desember 2015 var þar byggt á því að kærandi hefði stofnað til nýrra skulda á árinu 2012 og þannig brotið gegn d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem kveðið er á um að á tímabili frestunar greiðslna skuli skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Þær skuldir sem kærandi stofnaði til á árinu 2011 eru þessu óviðkomandi. Þær höfðu því ekki áhrif á niðurstöðu kærunefndarinnar í máli því er kærandi óskar eftir að verði endurupptekið og koma því ekki til skoðunar hér.

Að því er varðar framangreinda reikninga, sem útgefnir eru á tímabilinu mars 2015 til janúar 2016, hefur kærandi ekki útskýrt hvers vegna hann leggur þá fram. Þannig er alls óljóst að hvaða marki kærandi telur þá sýna að fyrri ákvarðanir í máli hans byggðust á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum.

Samkvæmt öllu því, sem hér hefur komið fram, þykir ljóst að úrskurður kærunefndar greiðsluaðlögunarmála um að staðfesta ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi ekki verið byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða á atvikum sem hafa breyst frá því að ákvörðunin var tekin. Skilyrði samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga til að endurupptaka málið eru því ekki fyrir hendi. Með vísan til þess ber að hafna beiðni kæranda þar um.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni A til úrskurðarnefndar velferðarmála um endurupptöku úrskurðar í máli nr. 149/2013 hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála er synjað.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum