Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Grei%C3%B0slua%C3%B0l%C3%B6gunarm%C3%A1l

Nr. 255/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

 

Mál nr. 255/2018

Mánudaginn 24. september 2018

 

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

 

Þann 17. júlí 2018 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð er ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 11. júní 2018 þar sem heimild kæranda til greiðsluaðlögunar var felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og c-lið 1. mgr. 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

 

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

 

Málsatvik eru þau að með ákvörðun 11. júní 2018 felldi umboðsmaður skuldara niður heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar. Fjárhagur kæranda var talinn óglöggur í skilningi b-liðar 6. gr. lge. þar sem hún hefði ekki sýnt fram á dvalarstað sinn eða kostnað vegna húsnæðis á tímabilinu X til X 2018. Þá var kærandi talin hafa veitt misvísandi upplýsingar um ráðstöfun fjár á bankareikningi en með því teldist fjárhagur hennar óglöggur, auk þess sem hún var talin hafa brotið gegn skyldum sínum við greiðsluaðlögun með ráðstöfun fjárins samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. lge. Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að af þessum ástæðum hafi embættið fellt niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar.

 

Þann 17. júlí 2018 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra vegna málsins.

 

Kærandi greinir frá því að umrædd bankainnstæða hafi verið tryggingarfé vegna leigusamnings sem væri lokið en hún hafi ráðstafað fjárhæðinni til að [...]. Eftir lok leigusamningsins hafi kærandi dvalið tímabundið hjá [...] eða þar til hún hafi fengið húsnæði á leigu án leigusamnings um X 2018. Það hafi ekki verið fyrr en X 2018 að hún hafi fengið húsnæði á leigu með leigusamningi. Kærandi sé ellilífeyrisþegi og eigi fullt í fangi með að greiða húsaleigu og framfleyta sér. Hún þurfi einnig á [...] að halda. Hún geti ekki staðið í skilum með skuldbindingar sínar og fari fram á að heimild til að leita greiðsluaðlögunar standi.

 

Samkvæmt gögnum málsins var hin kærða ákvörðun send á uppgefið netfang kæranda 13. júní 2018. Ákvörðunin var einnig send á netfang [...] sama dag en  [...], hafði verið í tölvupóstsamskiptum við umboðsmann skuldara fyrir hennar hönd. Í bréfi umboðsmanns skuldara sem fylgdi ákvörðun embættisins kom fram að kærufrestur væri tvær vikur frá móttöku ákvörðunar.

 

Með bréfi 19. júlí 2018 óskaði úrskurðarnefndin skýringa á því hvers vegna kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Engin svör bárust frá kæranda.

 

 

II. Niðurstaða

 

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. skal stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana berast úrskurðarnefnd velferðarmála innan tveggja vikna frá því að tilkynning um ákvörðun barst skuldara, sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015. Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.) nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess.

Kæran barst úrskurðarnefndinni sem fyrr segir 17. júlí 2018. Bæði kærandi og [...] fengu hina kærðu ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda í tölvupósti 13. júní 2018 á þau netföng sem þau höfðu gefið upp en [...] hafði verið í tölvupóstsamskiptum við umboðsmann skuldara vegna málsins. Samkvæmt þessu byrjaði kærufrestur að líða þann dag en honum lauk 27. júní 2017. Kæran barst því úrskurðarnefndinni tæpum þremur vikum of seint.

Í 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. ssl. kemur fram að ákvörðun sé bindandi eftir að hún er komin til aðila máls. Það er þó ekki gert að skilyrði í þessu sambandi að ákvörðun sé komin til vitundar hans en þetta kemur fram í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til ssl. Í samræmi við þetta verður að telja að hin kærða ákvörðun hafi borist kæranda í skilningi ssl. 13. júní 2018 er bæði hún og [...], sem kom fram fyrir hennar hönd í málinu, fengu ákvörðunina senda á uppgefin netföng sem notuð höfðu verið í málinu. Samkvæmt því og sem fyrr segir byrjaði kærufrestur að líða 13. júní 2018 og lauk 27. júní 2018. Svo sem komið er fram barst úrskurðarnefndinni kæran 17. júlí 2018 eða tæpum þremur vikum of seint.

Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr, en engar skýringar bárust frá kæranda þegar henni var veitt tækifæri til að gera grein fyrir ástæðum þess. Önnur atvik málsins þykja ekki leiða til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

ÚRSKURÐARORÐ

Kæru A á ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 11. júní 2018 um að fella niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

 

 

 

Lára Sverrisdóttir

 

 

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir                                                                        Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum