Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 117/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 8. mars 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 117/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18010023

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 30. janúar 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. janúar 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi sótti um vernd ásamt eiginkonu sinni og tveimur börnum.Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn kæranda til meðferðar á ný. Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom hingað til lands þann 29. janúar 2014 ásamt eiginkonu sinni og lagði fram umsókn um dvalarleyfi þann 27. mars sama ár. Börn þeirra eru fædd hér á landi árin [...]. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. janúar 2015, var kæranda synjað um leyfi að vera á landinu meðan umsókn hans um dvalarleyfi væri í vinnslu. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála en lagði fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða í maí 2015 og afturkallaði fyrrnefnda kæru. Umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. október 2016, en gögn málsins bera með sér að afgreiðsla málsins hafi tafist m.a. vegna gagnaöflunar og tilrauna til að afla vegabréfs handa dóttur kæranda. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála sem staðfesti hana með úrskurði, dags. 22. desember 2016. Þann 16. febrúar 2017 lagði kærandi fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 27. september 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 11. janúar 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 16. janúar 2018. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 30. janúar 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda, ásamt fylgigögnum, þann 23. febrúar 2018. Kærandi óskaði eftir því að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á því að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann væri í hættu í heimaríki þar sem hann og eiginkona hans aðhylltust ekki sömu trúarbrögð.Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og að honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að umsókn hans um alþjóðlega vernd sé byggð á því að hann og eiginkona hans séu í hættu í heimaríki vegna þess að þau séu af ólíkum trúaruppruna.

Í greinargerðinni kemur fram að kærandi hafi fæðst inn í [...] fjölskyldu. Hann hafi átt erfiða æsku, sætt ofbeldi af hálfu föður síns og verið afskiptur. Á endanum hafi kærandi afneitað [...] trú og tekið upp [...] árið 1992. Fram kemur að faðir kæranda hafi beitt hann ofbeldi vegna þeirrar ákvörðunar hans að taka upp [...] og skammað hann. Þá hafi kærandi enn fremur orðið fyrir aðkasti opinberlega sem hafi lýst sér í munnlegu áreiti og móðgunum, m.a. um að bölvun hvíldi á honum fyrir að hafa snúist gegn [...]. Kærandi hafi ekki getað farið út úr húsi á helstu trúarhátíðum án þess að verða fyrir aðkasti og ofsóknum samfélagsins. Samfélagið líti á kæranda sem svikara við trúna, sér í lagi þar sem hann sé skírður í höfuðið á einum af mestu andlegu leiðtogum [...]. Hann sé þó látinn en annar kominn í hans stað. Trúarleiðtoganum fylgi ungliðar eða lærlingar [...] sem fái skipanir beint frá honum t.d. um að drepa fólk sem sé þeim ekki þóknanlegt. Hópurinn sé valdamikill og að ríkið sé hrætt og geri ekkert. Kveðst kærandi hafa verið barinn af hópnum í kirkjugarði árið 2010 eftir að þeir hafi séð nafn hans og [...] sem hann hafði meðferðis.

Fram kemur að kærandi og eiginkona hans, sem sé [...], hafi kynnst og gengið í hjónaband árið 2010. Hjónabandið hafi hins vegar ekki verið samþykkt af fjölskyldunni vegna ólíkrar trúar þeirra og hafi fjölskylda eiginkonu hans t.d. meinað þeim að [...]. Fjölskylda hennar hafi einnig reynt að fá kæranda til að taka upp [...] fyrir giftinguna. Kæranda og eiginkonu hans hafi verið neitað að sitja til borðs með fjölskyldum sínum við máltíðir vegna hjónabandsins og þá hafi þeim reynst erfitt að fá húsnæði og vinnu vegna þessa. Þá segir að kærandi glími við heilsubrest en hann sé með [...] Kærandi byggir á því að hann sé flóttamaður í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, enda sæti hann ofsóknum í heimaríki og að grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Með hliðsjón af frásögn kæranda og heimildum um aðstæður og mannréttindamál í heimaríki telur kærandi ljóst að lífi og frelsi hans og eiginkonu hans sé ógnað vegna þeirrar útskúfunar og ofsókna sem þau hafi hafi orðið fyrir, sem rekja megi til hjúskapar þeirra af ólíkri trú. Almennt verði að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd við ofsóknir ástæðuríkan í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ef hann getur sýnt fram á, upp að hæfilegu marki, að áframhaldandi dvöl hans í heimalandinu yrði honum óbærileg af þeim ástæðum sem fram koma í skilgreiningu á hugtakinu flóttamaður, eða yrðu honum óbærilegar ef hann sneri aftur. Kærandi og eiginkona hans tilheyri algerum minnihluta fólks sem giftist með ólíkan trúargrunn, þ.e. hjúskapur [...]. Bendir kærandi á að 96% íbúa í heimaríki hans séu [...]. Hann og eiginkona hans hafi bæði orðið fyrir líkamlegu og andlegu ofbeldi, útskúfun og jaðarsetningu. Byggir kærandi á því að ótti hans megi teljast ástæðuríkur að teknu tilliti til frásagnar hans og þeirrar staðreyndar að hann tilheyri minnihlutahópi sem sé illa liðinn í heimalandinu, þar sem trúfélög [...] hafi mikil völd og ítök, jafnvel meiri en stjórnvöld.

Að teknu tilliti til þess sem að framan greinir telur kærandi að verulega hafi skort á rökstuðning fyrir synjun Útlendingastofnunar á umsókn um alþjóðlega vernd. Í ákvörðun stofnunarinnar hafi verið byggt á því að heimildir bendi ekki til þess að þeir sem aðhyllist [...] trú eða beri [...] nöfn séu beittir misrétti eða ofsóknum í samfélaginu þrátt fyrir að tilheyra minnihlutahópi, heldur ríki umburðarlyndi gagnvart mismunandi trúarhópum. Framburður kæranda hafi verið afar trúverðugur á öllum stigum málsins og að hann og eiginkona hans hafi gert vel grein fyrir því hvernig raunveruleikinn sem blasi við þeim í heimaríki sé ekki í samræmi við þau fyrirheit sem lög eða reglur kveði á um, hvað þá þær fréttir sem fjölmiðlar flytji.

Í greinargerðinni er fjallað um ástand mannréttindamála í heimaríki kæranda. Í nýjustu skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um stöðu mannréttinda í landinu segi að alvarlegustu mannréttindabrotin séu m.a. slæmar aðstæður í fangelsum, lengd varðhalds og mismunun og ofbeldi gegn konum. Auk þess hafi yfirvöld ekki stjórn á öryggissveitum landsins sem gerist t.a.m. sekar um pyndingar. Þá sé spilling mikil hjá dómstólum og stjórnsýslu. Fram kemur að heimilisofbeldi í sé algengt í landinu en að mál leiði almennt ekki til refsingar nema ofbeldið leiði til dauða eða varanlegs skaða. Lögregla skipti sér ekki af slíku ofbeldi innan fjölskyldna.

Að því er trú varðar kemur fram að þrátt fyrir að ákveðin tilhneiging sé til víðsýni varðandi trúarbrögð ríki enn mikil spenna á milli trúarhópa og að átök brjótist reglulega út vegna þessa. [...] meirihlutinn í landinu sýni [...] fólki ekki mikinn skilning eða virðingu. Í mörgum ríkjum [...] sé það viðhorf ríkjandi að [...] foreldrar myndu ekki samþykkja að börn þeirra, af hvoru kyni sem væri, myndu giftast [...] manneskju. Þá telur kærandi, með vísan til fyrri umfjöllunar um spillingu hjá lögreglu og yfirvöldum í heimaríki hans, að hann geti ekki leitað til stjórnvalda eftir aðstoð vegna þeirra ofsókna sem hann hafi orðið fyrir. Heimildir um refsileysi aðila vegna spillingarmála og tregðu yfirvalda til sakfellingar styðji frásagnir kæranda um að hann og eiginkona hans eigi ekki raunhæfa möguleika á að njóta verndar yfirvalda.

Í umfjöllun um varakröfu byggir kærandi á því að hafa sætt meðferð í heimaríki sem geti talist ómannleg og vanvirðandi. Kærandi eigi ekki vísa vernd þar vegna þeirrar almennu spillingar sem þar ríki. Þá byggir kærandi á því að félagslegar aðstæður hans og eiginkonu hans séu afar erfiðar að teknu tilliti til atvinnuþátttöku, húsnæðismála og fleira sem snerti þau sem [...] og [...] fjölskyldu. Kærandi og eiginkona hans hafi verið jaðarsett og útskúfuð af samfélaginu í heimaríki hans sem eigi ekki síst við þegar verið sé að sækja um atvinnu og afla húsnæðis. Þá byggir kærandi á því að eiga við heilsubrest að stríða, en hann sé með [...] sem hann hafi ekki hlotið viðeigandi meðferð við eða komist í aðgerð eins og hann hafi þörf fyrir.

Kærandi styður þrautavarakröfu við þau rök að augljósir annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar að því leyti sem málið snýr að börnum hans. Kærandi geti ekki séð að sérstakt mat á velferð barnanna hafi verið haft að leiðarljósi við ákvörðun í málum þeirra og að verulega skorti á rökstuðning fyrir ákvörðuninni. Þá virðist ekki hafa verið tekið tillit til hagsmuna barnanna að teknu tilliti til andlegrar heilsu og líðan móður þeirra. Fullt tilefni hafi verið til að skoða sérstaklega stöðu barnanna og hvað bíði þeirra við endursendingu til [...], m.a. varðandi framfærslu, félagslega stöðu og að öðru leyti.

Að því er varðar möguleika á flutningi innanlands, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, telur kærandi að flutningur geti ekki talist viðeigandi eða sanngjörn krafa á hendur kærendum og því beri íslenskum stjórnvöldum, með hliðsjón af aðstæðum, að veita kæranda og fjölskyldu hans alþjóðlega vernd.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamálaLagagrundvöllurÍ máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.AuðkenniÍ ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað [...] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé [...] ríkisborgari. Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...]

[...], en ofangreind gögn bera með sér að landið sé eitt það stöðugasta í álfunni. [...]. [...] minnihlutinn í [...] mun einkum vera búsettur í bæjum í vestur- og suðurhluta landsins. Í stjórnarskrá landsins er mælt fyrir um trúfrelsi og sjálfstjórn trúfélaga án afskipta ríkisvaldsins. Þá eru ákvæði sem banna stjórnmálaflokkum að kenna sig við ákveðin trúarbrögð. Í gögnunum kemur fram að [...]. Þá má ráða að virðing sé borin fyrir ólíkum trúarbrögðum í landinu og að samskipti á milli þeirra séu friðsamleg. Fram kemur að umburðarlyndi í tengslum við trú og samvinna hvað það varðar sé þáttur í sjálfsmynd þjóðarinnar. Séu viðhorf til hjónabanda fólks af ólíkum trúarbrögðum nefnd í því samhengi og vísað til þess [...]. [...]

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um trúfrelsi í landinu árið 2015 kemur fram að [...] leiðtogar hafi greint frá friðsamlegum samskiptum milli trúarhópa í landinu. Í skýrslu Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna kemur fram það mat alþjóðlegra embættismanna að [...] sé fyrirmynd annarra ríkja á svæðinu hvað varði lýðræðislegar stofnanir og að landið gegni mikilvægu hlutverki í að stuðla að friði í [...]. Telji þeir að trúarkerfi landsins og umburðarlyndi hafi gert [...] að stöðugu landi á óstöðugu svæði.

Fram kemur að dómskerfi [...] sé sjálfstæðara en í sambærilegum ríkjum á svæðinu. Málafjöldi muni þó vera mikill og kerfið undirfjármagnað. Þá greinir að yfirvöld hafi gert ráðstafanir til að bæta aðgengi almennings að réttarkerfinu og að borgarar landsins geti leitað til dómstóla telji þeir að brotið hafi verið gegn mannréttindum þeirra. Þá segir að borgarar landsins geti lagt fram kvörtun hjá embætti umboðsmanns, sem sé sjálfstæður aðili innan stjórnsýslunnar. Í málum sem varði mannréttindi geti borgarar einnig áfrýjað til dómstóls í [...] sem sé hluti af samstarfi [...]. Í gögnunum kemur fram að þótt stjórnarskrá landsins mæli fyrir um sjálfstæði dómstóla grafi spilling, óskilvirkni og skortur á lögfræðiaðstoð undan þeim réttindum sem sakborningum séu tryggð í lögum.

Í gögnunum kemur fram að gæði heilbrigðisþjónustu í [...] séu meiri en í flestum öðrum löndum á svæðinu og að einstaklingar í öðrum löndum í [...] leiti til einkarekinna heilsugæslustöðva í [...] til að fá meðferð sem sé ekki í boði í heimaríki þeirra. Framfarir hafi orðið í heilbrigðiskerfinu á undanförnum árum en kerfið sé hins vegar undirmannað og að mestu leyti aðgengilegt íbúum í þéttbýliskjörnum landsins. Í gögnunum er greint frá því að árið 2013 hafi stjórnvöld í [...] hafið að veita peningastyrki til fátækustu heimila landsins að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Fram kemur að undir lok árs 2016 hafi 300 þúsund manns notið fjárhagsaðstoðar í gegnum úrræðið.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi byggir á því að hann verði fyrir ofsóknum í heimaríki vegna trúarbragða.

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimaríki sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Eins og fram hefur komið tók kærandi upp [...] trú árið 1992, en í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst hann hafa dvalið í heimaríki sínu fram til ársins 2012. Á því 20 ára tímabili sem kærandi dvaldi í heimaríki eftir að hafa tekið upp [...] trú kvaðst hann samkvæmt framansögðu hafa verið í ónáð hjá fjölskyldu sinni, fengið neikvæðar athugasemdir í sinn garð og í eitt skipti orðið fyrir líkamsárás [...] ungliða eftir að þeir urðu þess varir að hann væri [...] trúar. Í viðtali við eiginkonu kæranda sagði hún sig og eiginmann hennar hafi verið fordæmd af samfélaginu og jaðarsett vegna hjónabandsins. Eins og áður greinir byggir kærandi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að framangreindar athafnir í hans garð eftir að hann hafi snúist til [...] og gengið í hjónaband með [...] konu feli í sér ofsóknir í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 37. gr. sömu laga.

[...]. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í heimaríki kæranda benda til þess að þótt yfirgnæfandi hluti landsmanna séu [...] aðhyllist flestir þeirra [...] á [...] og að þar sé samlyndi á milli fólks af ólíkum trúarbrögðum. Þá kemur fram að umburðarlynd viðhorf landsmanna til trúarskoðana eigi mikinn þátt í þeim stöðugleika sem ríki í landinu. Í gögnunum er ekkert sem bendir til þess að [...] sem taka upp aðra trú eða hjón af ólíkum trúarbrögðum verði fyrir aðkasti eða áreiti í heimaríki kæranda.

Þegar þau atvik sem kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á ertu virt í heild er það mat kærunefnd að þau nái ekki því alvarleikastigi að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá er það einnig mat kærunefndar, með hliðsjón af þeim upplýsingum sem raktar hafa verið um aðstæður í heimaríki hans varðandi trúarbrögð, að hann hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna trúarbragða, sbr. 1. mgr. 38. gr. og og b-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi tekur kærunefnd fram að kærandi hefur ekki byggt á því að hafa sætt öðru ofbeldi af hálfu [...] ungliða en að framan greinir og í viðtali við hann hjá Útlendingastofnun kom ekkert fram sem bendir til þess að hann eigi á hættu að sæta frekara ofbeldi af þeirra hálfu. Jafnframt hefur ekki verið sýnt fram á að stjórnvöld í heimaríki kæranda geti ekki eða vilji ekki veita honum vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir. Kærandi hefur því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef hann telur sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.

Það er því mat kærunefndar að kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Af hálfu kæranda hefur komið fram að félagslegar aðstæður hans séu erfiðar eftir að hann hafi tekið upp [...] trú og að hann og eiginkona hans verði fyrir fordómum frá samfélaginu vegna hjónabands þeirra.

Þótt almennar upplýsingar um [...] bendi til þess að [...] geti mætt andúð frá fjölskyldu og öðrum [...] er ekkert í fyrrgreindum gögnum sem gefur til kynna að slík viðhorf séu ríkjandi í heimaríki kæranda. Eins og fyrri umfjöllun ber með sér benda gögnin á hinn bóginn til þess að í heimaríki kæranda ríki mikið umburðarlyndi fyrir trúarskoðunum og að samlyndi sé á milli [...] og [...] í landinu. Þá hafa yfirvöld í heimaríki kæranda veitt fátækustu fjölskyldum landsins fjárhagslegan stuðning undanfarin ár, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi vera þjáður af verkjum vegna [...]. Kvaðst hann vilja komast í uppskurð hér á landi vegna þessa og sagði engar aðgerðir vera framkvæmdar í [...] við þessu vandamáli. Í málinu liggja fyrir gögn um rannsóknir lækna á líkamlegu ástandi kæranda en í þeim kemur fram að kærandi þjáist af [...] og hafi verið með [...]. Í greinargerð kæranda kemur fram að [...] hafi verið fjarlægt með skurðarðgerð hér á landi í október 2017. Samkvæmt framangreindu verður ekki talið að þeir kvillar sem kærandi glímir við séu lífshættulegir eða að kærandi sé í meðferð sem sé óforsvaranlegt að rjúfa. Þá verður ekki annað ráðið af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um heilbrigðiskerfið í heimaríki kæranda, og nánar eru rakin að framan, en að hann geti leitað meðferðar við heilsufarsvanda sínum þar í landi.

Þegar framangreindar upplýsingar um aðstæður í heimaríki kæranda varðandi félagslegar aðstæður hans og heilsufar og önnur gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að aðstæður nái því alvarleikastigi að hann hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þrautavarakrafa - Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar

Líkt og áður segir gerir kærandi athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæða 22. gr. sömu laga um efni rökstuðnings. Kærandi byggir þrautavarakröfu sína á því að Útlendingastofnun hafi látið hjá líða að framkvæma mat á þeim þáttum er varða hagsmuni barna kæranda og þau sjónarmið sem eiga sérstaklega við um erfiða félagslega stöðu þeirra. Vísar kærandi til þess að í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga segi að við töku ákvörðunar um þörf fyrir vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða skuli sérstaklega taka tillit til barna og þannig komi til greina að minni kröfur séu gerðar til að börn njóti verndar og fái dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. ef þau fá ekki hæli samkvæmt umsókn eða ættu ekki rétt á dvalarleyfi á öðrum grundvelli. Telur kærandi að augljósir annmarkar séu á rannsókn málsins og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar hvað varðar þennan þátt málsins. Þá virðist ekki hafa verið tekið tillit til hagsmuna barnanna að teknu tilliti til andlegrar heilsu og líðan eiginkonu hans. Krefst kærandi þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka málin til meðferðar á ný.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Um frekari afmörkun á því hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlunin er að byggja stjórnvaldsákvörðun á.

Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um ástandið í heimaríki kæranda við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun í málum barna kæranda. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

Í umfjöllun Útlendingastofnunar um mat á trúverðugleika frásagnar kæranda sagði m.a. að af þeim heimildum sem stofnunin hefði kynnt sér væri ljóst að íbúum landsins stæði til boða að leita aðstoðar yfirvalda teldu þeir að á þeim hefði verið brotið. Tók Útlendingastofnun fram að hið sama ætti við um börn kæranda. Í niðurstöðu um hvort veita bæri kæranda dvalarleyfi samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga á grundvelli mannúðarsjónarmiða kom fram það mat Útlendingastofnunar að félagslegar aðstæður barna kæranda væru ekki slíkar að þau ættu rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Liggur því fyrir að Útlendingastofnun lagði mat á félagslegar aðstæður barna kæranda í heimaríki hans með þeirri niðurstöðu að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Að þessu virtu verður ekki fallist á með kæranda að rökstuðningur í ákvörðunum Útlendingastofnunar hafi ekki verið í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga og verður þrautavarakröfu hans hafnað.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands í janúar 2014 og sótti um alþjóðlega vernd þann 16. febrúar 2017 eftir að hafa verið synjað um dvalarleyfi hér á landi. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar.

Kærandi hefur því dvalið hér á landi í rúm fjögur ár og á þeim tíma eignast tvö börn með konu sinni. Það mál sem hér er til afgreiðslu hófst að frumkvæði kæranda þann 16. febrúar 2017, þremur árum eftir að kærandi kom til landsins. Með vísan til 5. mgr. 106.gr. laga um útlendinga verður frávísun ekki beitt í þessu máli. Verður því sá þáttur ákvörðunar Útlendingastofnunar felldur úr gildi.

Samkvæmt 1. og 2. málsl. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga skal við synjun umsóknar um dvalarleyfi leggja fyrir útlending að hverfa af landi brott og skal sá frestur að jafnaði vera á bilinu 7-30 dagar. Í ljósi þess hve kærandi hefur dvalið lengi hér á landi og að hann hafi á þeim tíma eignast tvö börn verður frestur til að yfirgefa landið ákveðinn með hliðsjón af 3. mgr. 104. gr. laga um útlendinga en þar er mælt fyrir um heimild til að veita lengri frest en tilgreindur er í 2. mgr. 104. gr. ef það telst nauðsynlegt vegna sanngirnissjónarmiða. Kærandi skal yfirgefa landið innan þess tímamarks sem kveðið er á um í úrskurðarorði.

Kæranda er leiðbeint um í 5. málsl. 7. mgr. 104. gr. laga um útlendinga segir að útlendingur skuli tilkynna Útlendingastofnun um fyrirhugaða brottför sína og leggja fram sönnun þess að hann hafi yfirgefið landið. Þar segir jafnframt að ef útlendingurinn fer ekki úr landi svo sem fyrir hann er lagt eða líkur eru á að hann muni ekki fara sjálfviljugur má lögregla færa hann úr landi. Athygli kæranda er jafnframt vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvörðun Útlendingastofnunar um frávísun kæranda er felld úr gildi.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest hvað varðar umsókn um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvörðun um frávísun kæranda er felld úr gildi. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 40 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration regarding the application for international protection and residence permit on humanitarian grounds is affirmed. The part of the Directorate‘s decision pertaining to refusal of entry is vacated. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 40 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                  Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum