Hoppa yfir valmynd
Mannanafnanefnd

Mál nr. 3/2018 Úrskurður 26. janúar 2018

Mál nr. 3/2018                       Eiginnafn: Maríon

 


 

 

 

Hinn 26. janúar 2018 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 3/2018 en erindið barst nefndinni 23. janúar.

 

Eiginnafnið Maríon er ekki á mannanafnaskrá sem karlmannsnafn. Það er hins vegar á þeirri skrá sem kvenmannsnafn. Hefur því verið óskað afstöðu mannanafnanefndar um hvort nafnið fullnægi skilyrðum laga um mannanöfn nr. 45/1996 til að vera tekið á skrána sem kvenmannsnafn.

Til þess að fallist sé á eiginnafn og það fært á mannanafnaskrá verður öllum skilyrðum 5. gr. laga um mannanöfn að vera fullnægt.

Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 er kveðið á um að stúlku skuli gefa kvenmannsnafn og dreng skuli gefa karlmannsnafn. Í þessu ákvæði felst ekki bann við því að nafn sé hvorutveggja karlmannsnafn og kvenmannsnafn. Það á til dæmis við um eiginnöfnin Blær, Júní og Auður. Ef nafn telst hins vegar einvörðungu vera annaðhvort karlmannsnafn eða kvenmannsnafn í íslensku máli leiðir hins vegar af 2. mgr. 5. gr. að slíkt nafn má ekki gefa einstaklingi af gagnstæðu kyni.

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár þá ber enginn karl nafnið Maríon í þjóðskrá sem uppfyllir skilyrði vinnulagsreglna mannanafnanefndar varðandi hefð en ein stúlka ber nafnið, sú er fædd árið 2010. Nafnið kemur fyrir í einu manntali frá 1703–1920 bæði sem kvenmanns og karlmannsnafn. Í ljósi lítillar hefðar orðsins sem mannsnafns hér á landi telur nefndin að líta beri til þess sjónarmiðs, meðal annarra, við mat á því hvort nafnið geti ekki einnig verið sem karlmannsnafn í íslensku. Nafnið tekur eignarfallsendingu (Maríons). Það er einnig ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og ekki verður séð að það geti verið nafnbera til ama. Í þessu ljósi verður ekki séð að eiginnafnið Maríon sem karlmannsnafn brjóti í bág við íslenskt málkerfi. Mannanafnanefnd er því á grundvelli laga um mannanöfn ekki heimilt að hafna nafninu sem eiginnafni karlmanns.

Eiginnafnið Maríon (kk.) telst uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

 

 

 

 

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Maríon (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum