Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 14/1995

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 14/1995

A
gegn
Akureyrarbæ

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 31. maí 1996 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með bréfi dags. 22. desember 1995 fór A, þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í stöðu sviðsstjóra fræðslusviðs hjá Akureyrarbæ bryti í bága við ákvæði laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá Akureyrarbæ um:

  1. Afstöðu bæjarstjórnar til erindisins.
  2. Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um starfið.
  3. Menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var, ásamt upplýsingum um hvaða sérstaka hæfileika umfram kæranda hann hefði til að bera.
  4. Hlutfall kynja í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum hjá Akureyrarbæ.

Greinargerð bæjarlögmanns er dags. 9. febrúar 1996. Með henni fylgdi afrit af umsókn þess sem ráðinn var í stöðuna og skipurit yfir helstu embættismenn Akureyrarbæjar, Með bréfi dags. 23. febrúar sendi kærandi athugasemdir sínar við greinargerðina.

Kærandi þessa máls og C, bæjarlögmaður Akureyrarbæjar, mættu á fund kærunefndar þann 9. apríl 1996.

Haustið 1995 var auglýst laust til umsóknar starf sviðsstjóra fræðslusviðs Akureyrarbæjar/félagsmálastjóra og var umsóknarfrestur til 16. október 1995. Í auglýsingu er starfinu lýst svo og eftirfarandi hæfniskröfur gerðar:

Starfið tekur fyrst og fremst til yfirstjórnunar og samhæfingar á starfsemi eftirtalinna deilda bæjarins: íþrótta- og tómstundadeildar, leikskóladeildar, ráðgjafardeildar, skóla- og menningardeildar og öldrunardeildar. Umsækjandi þarf að hafa háskólapróf á einhverju því sviði sem tengist verkefnum þessara deilda og þá framar öðru á sviði félagsvísinda í víðtækri merkingu. Hann þarf a.m.k. að hafa eitt Norðurlandamála á valdi sínu. Æskilegt er að hann hafi þekkingu á og reynslu af stjórnun og sveitarstjórnamálum. Honum þarf að láta vel að vinna með öðrum, hafa með hendi forystu, skipuleggja verkefni og setja fram mál í ræðu og riti.

Í auglýsingunni er jafnframt tekið fram að meirihluti þeirra sem sinna stjórnun og öðrum áhrifastöðum hjá Akureyrarbæ séu karlar. Í samræmi við landslög og jafnréttisáætlun bæjarins vilji Akureyrarbær stefna að því að hlutur kynjanna í áhrifastöðum verði sem jafnastur, því sé hvatt til þess að konur jafnt sem karlar sæki um starfið.

Staða sviðsstjóra fræðslusviðs/félagsmálastjóra er ein af þremur stöðum sviðsstjóra hjá Akureyrarbæ og eru þær meðal æðstu embætta hjá bænum. Hinar tvær stöðurnar eru staða sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs og sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs. Karlar hafa fram til þessa gegnt framangreindum stöðum. Undir sviðsstjóra fræðslusviðs/félagsmálastjóra heyra fimm deildarstjórar, tvær konur og þrír karlar.

Í greinargerð bæjarlögmanns kemur fram að tíu hafi sótt um stöðuna, þrjár konur og sjö karlar. Samkvæmt upplýsingum bæjarlögmanns samþykkti bæjarráð Akureyrarbæjar þann 16. nóvember 1995 að ráða B.

Fyrir liggja upplýsingar um menntun og starfsreynslu kæranda og þess sem ráðinn var.

A lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1972 og BA prófi í sálarfræði frá Háskóla Íslands árið 1976. Hann lauk embættisprófi í hagnýtri sálarfræði frá Háskólanum í Lundi, Svíþjóð, árið 1979. Hann hóf störf sem forstöðumaður sálfræðiþjónustu hjá Fræðsluskrifstofu Norðurlandsumdæmis eystra haustið 1979 og starfaði þar til haustsins 1985, að frátöldu tímabilinu frá hausti 1983 til hausts 1984 er hann fór í leyfi og starfaði á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Haustið 1985 réðist hann til Fræðsluskrifstofu Suðurlandsumdæmis sem forstöðumaður sálfræðiþjónustu og starfaði þar í eitt ár. Hann var námsráðgjafi og kennari hjá Iðnskóla Reykjavíkur haustið 1986 en hóf störf hjá Unglingaheimili ríkisins þann 1. janúar 1987, fyrst sem deildarsálfræðingur en frá 1. febrúar 1988 sem yfirsálfræðingur og deildarstjóri móttökudeildar. Hann var ráðinn forstjóri Unglingaheimilis ríkisins þann 1. júlí 1993 og forstjóri Meðferðarstöðvar ríkisins fyrir unglinga eftir að Unglingaheimili ríkisins var lagt niður haustið 1994.

B lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1981 og BA prófi í sálarfræði frá Háskóla Íslands árið 1985. Hún lauk MA prófi í sálarfræði frá University of Minnisota, Minneapolis, Minnesota vorið 1987. Hún hóf störf sem fjölskylduráðgjafi við heilsugæslustöðina á Akureyri haustið 1987 og starfaði þar til vors 1988. Veturinn 1988 til 1989 starfaði hún sem sálfræðingur við Starfsdeild fyrir fullorðna að Löngumýri 9, Akureyri. Á árunum 1987 til 1989 rak hún eigið fyrirtæki Ábendi sf., sem sérhæfði sig í náms- og starfsráðgjöf, ráðningarþjónustu og sálfræðilegri þjónustu ýmis konar. Hún hefur starfað sem sálfræðingur hjá Félagsmálastofnun Akureyrarbæjar frá hausti 1989.

Kærandi A telur sig hæfari til að gegna umræddu starfi en B. Því til stuðnings bendir hann á að enda þótt þau hafi sömu menntun sé starfsferill hans lengri og starfsreynsla víðtækari. Hann hafi starfað sem sálfræðingur bæði innan félagsmála- og fræðslusviða og gegnt stjórnunarstöðu meira eða minna frá því að hann lauk námi Starfsferill hans falli mjög vel að þeirri starfslýsingu sem fram hafi komið í auglýsingu um starfið þar sem starf hans bæði hjá sálfræðiþjónustu skóla, Unglingaheimili ríkisins og síðar hjá Meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga hafi einmitt falist í forystu, að skipuleggja verkefni, setja fram mál bæði í ræðu og riti, hafa mótandi áhrif á tiltekna þjónustu og sýna persónulegt frumkvæði í að tengja saman ólíka þjónustuþætti.

Þá bendir A á að hann hafi bæði í umsókn sinni um starfið og í viðtali við bæjarráð Akureyrar lagt áherslu á, að í störfum sínum sl. þrjú ár sem forstjóri Unglingaheimilis ríkisins og síðar Meðferðarstöðvar ríkisins fyrir unglinga eftir að Unglingaheimili ríkisins var lagt niður, hafi reynt á sérstaka hæfni sem líklegt sé að muni nýtast í umræddu starfi. Starf sviðsstjóra fræðslusviðs/félagsmálastjóra sé stjórnunar- og samræmingarstarf á sviði þjónustu sem sé í mikilli mótun, ekki síst vegna hlutverks Akureyrarbæjar sem reynslusveitarfélags. Hann hafi verið í forystu fyrir stofnun eða þjónustu sem hafi þurft að aðlagast nýjum aðstæðum. Við slíkar aðstæður sé þörf á leiðtoga sem hafi góða yfirsýn og hæfni til að fá starfsmenn til að fylkja sér að baki ákveðnum grundvallarmarkmiðum og gera þau að sínum. Þátttaka í þessu breytingaferli krefjist víðtækrar þekkingar á hlutverki ríkis og sveitarfélaga og verkaskiptingu þeirra í milli á sviði félagsþjónustu og skyldrar þjónustu. Einnig hér hafi hann umtalsverða reynslu umfram B.

A telur því ýmislegt benda til þess að umsókn hans hafi verið hafnað vegna kynferðis þar sem bærinn hafi viljað ráða konu til starfans. Þar sem hann hljóti að teljast hæfari umsækjandi en hún, sé ráðningin brot á ákvæðum jafnréttislaga.

Í greinargerð bæjarlögmanns er upplýst að bæði kærandi og B hafi verið á meðal þeirra umsækjenda sem töldust hæf til að gegna umræddu starfi. Bæjarlögmaður leggur hins vegar áherslu á að af gögnum málsins sé ljóst að ekki beri mikið á milli þessara tveggja umsækjenda. A hafi að sumu leyti betri stöðu en B að öðru leyti. Hann hafi vissulega langa reynslu af stjórnun og lengri starfsaldur frá því hann lauk háskólanámi. Hún hafi hins vegar mun lengri þjónustualdur hjá Akureyrarbæ, meiri reynslu af stjórnsýslu sveitarfélagsins og mikla þekkingu á innviðum þess og uppbyggingu.

Því er mótmælt að kynferði hafi ráðið úrslitum um val á umsækjendum. Hins vegar geri jafnréttisáætlun Akureyrarbæjar ráð fyrir að jafnaður verði hlutur kvenna og karla í stjórnunarstöðum hjá bænum. Eftir viðtöl við umsækjendur, mat á persónulegum þáttum og nákvæma yfirferð yfir gögn málsins hafi það verið mat bæjarráðs að B teldist hæfust umsækjenda.

Bæjarlögmaður benti á að A hefði að vísu meiri stjórnunarreynslu en B ef mæld væri í árum. Hins vegar bæri að meta ýmsa aðra þætti. B hefði reynslu af sveitarstjórnarstörfum. Hún hefði starfað hjá Félagsmálastofnun Akureyrar í árdaga þeirrar stofnunar og í framhaldi af því sótt sér menntun á þessu sviði. Margt bendi til góðrar hæfni hennar til sjálfstæðra vinnubragða og stjórnunar. Umsókn hennar sé t.d. mjög skipulega fram sett og hún hafi fylgt henni vel eftir í viðtalinu. Yfirlit yfir þau fjölmörgu erindi sem hún hafi flutt og yfir greinarskrif hennar sem fram komi í umsókninni styðji einnig þetta mat.

Bæjarlögmaður lagði áherslu á að verði ekki fallist á það mat bæjarráðs að B teljist hæfari, hljóti þau a.m.k. að teljast jafnhæf. Það gefi ráðningarvaldinu að vissu leyti frjálsari hendur við val á umsækjendum. Það sé yfirlýst stefna Akureyrarbæjar eins og fram komi í starfsauglýsingu, að ráða fremur konu en karl þegar aðstæður eru með þeim hætti. Það sé rétt sem fram komi í bréfi kæranda að konur séu í miklum meirihluta þeirra sem starfa á fræðslu- og félagssviði. Á hitt beri þó að líta að sviðsstjóri fræðslusviðs/félagsmálastjóri sé einn af hæst settu embættismönnum bæjarins. Embætti hans sé eitt af þremur embættum sviðsstjóra sem einungis karlar hafi gegnt áður en hún var ráðin. Með ráðningu B hafi verið stigið ákveðið spor í jafnréttisátt þar sem verulega halli á konur í yfirstjórn bæjarins.

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Margvíslegar skyldur er lagðar á atvinnurekendur til að ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna og karlastörf.

Skv. 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólk eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Skv. 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvelli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. og 5. gr. jafnréttislaga að láta það kynið ganga fyrir sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Er þessi forgangsregla grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu kvenna og karla verði náð.

Í jafnréttisáætlun Akureyrarbæjar 1993 til 1997, sem samþykkt var í bæjarstjórn í nóvember 1993, segir í lið 2.1.1.:

Þegar ráða á í stjórnunarstörf innan bæjarkerfisins verði leitað markvisst að konum í þau störf, bæði innan bæjarkerfisins og utan. Í auglýsingum um þau störf skulu konur hvattar sérstaklega til að sækja um. Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar. Jafnréttisfulltrúi veitir aðstoð í því sambandi.

Þessi stefna bæjaryfirvalda er ítrekuð í starfsauglýsingu en í henni er tekið fram að meirihluti þeirra sem sinna stjórnun og öðrum áhrifastöðum hjá Akureyrarbæ séu karlar. Það sé stefna bæjarins að hlutur kynjanna í áhrifastöðum verði sem jafnastur og því sé hvatt til þess að konur jafnt sem karlar sæki um.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar eru báðir umsækjendur sálfræðingar að mennt. A hefur lengri starfsferil en B og hefur starfað innan félags- og fræðslusviðs, en hennar starfsferill er fyrst og fremst innan félagssviðsins. Hann hefur starfað sem yfirmaður deilda og stofnana í um 15 ár. Stjórnunarferill hennar er mun styttri, eitt ár sem deildarstjóri hjá Félagsmálastofnun Akureyrarbæjar og rekstur eigin fyrirtækis í tvö ár en það sérhæfði sig í náms- og starfsráðgjöf auk almennra sálfræðistarfa. A hefur reynslu af því að vera í forsvari fyrir stofnun sem hefur þurft að takast á við breytingar og aðlagast nýjum aðstæðum. B hefur hins vegar um árabil starfað hjá Félagsmálastofnun Akureyrar og þekkir því vel til aðstæðna þar. Það er mat kærunefndar að bæði verði að teljast mjög vel hæf til að gegna umræddu starfi.

Kærunefnd lítur svo á að við ráðningu starfsmanna hafi atvinnurekendur almennt nokkuð svigrúm til huglægs mats þegar lítill munur er á hæfni umsækjenda sem bornir hafa verið saman á hlutlægum forsendum. Telja verður að munur á hæfni A og B sé innan framangreinds svigrúms. Er jafnframt rétt að líta til þeirrar yfirlýstu stefnu Akureyrarbæjar að jafna hlut kvenna og karla í stjórnunar- og ábyrgðarstörfum hjá bænum sem telja verður lögmætt markmið, sbr. 5. gr. jafnréttislaga.

Að öllu þessu virtu telur kærunefnd jafnréttismála að ráðning B í starf sviðsstjóra félags- og fræðslusviðs/félagsmálastjóra brjóti ekki gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. 5. og 6. gr. þeirra.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum