Hoppa yfir valmynd

Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. IRR12060292

 

Ár 2012, þann 15. ágúst er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR 12060292

Jón Jósef Bjarnason

gegn

Mosfellsbæ

I.       Kröfur, kæruheimild og kærufrestur

Þann 20. júní 2012 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Jóns Jósefs Bjarnasonar, kt. xxxxxx-xxxx (hér eftir nefndur JJB), vegna þeirrar stjórnsýslu Mosfellsbæjar að verða ekki við beiðni hans um að fá mál á dagskrá 1078. fundar bæjarráðs og 583. fundar bæjarstjórnar. 

Kæran er fram borin á grundvelli 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og er hún fram komin innan hins lögmælta þriggja mánaða kærufrests, sbr. 2. mgr. 111. gr. sömu laga.

II.      Málavextir, sjónarmið og meðferð máls.

Í upphafi er rétt að geta þess að JJB er kjörinn bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ og á þeim tíma sem beiðnin kom fram átti hann jafnframt sæti sem aðalmaður í bæjarráði Mosfellsbæjar.

Í kæru tekur JJB fram að hann hafi með tölvupósti þann 8. júní 2012 óskað eftir „umræðum á næsta bæjarráðsfundi um hvers vegna formaður fræðslunefndar og/eða bæjarstjóri hafi ekki vitað um það ástand sem skapast hefur í Varmárskóla eins og fram er komið þegar ég spurði fyrir síðasta bæjarstjórnarfund.“ Í kæru kemur fram að beiðni JJB hafi verið hafnað, án samráðs við hann, á þeim grundvelli að skólastjórnendur Varmárskóla hafi upplýst að ekki væri fyrir hendi neitt vandamál með skólastjórnendur. Í sama tölvupósti óskaði JJB einnig eftir umræðum á næsta bæjarstjórnarfundi um það vinnulag að auglýsing vegna tilboða í viðgerð á Hlégarði í Mosfellsbæ virðist hafa verið send til birtingar áður en bæjarstjórn samþykkti að fara í útboð vegna verksins. Verður málatilbúnaður JJB ekki skilin á annan veg en þann að það mál hafi ekki verið tekið á dagskrá bæjarstjórnar.

Þann 2. júlí 2012 sendi ráðuneytið bréf til Mosfellsbæjar þar sem óskað var eftir því að upplýst yrði hvort beiðni JJB hefði verið svarað og þá hvers efnis það svar hefði verið. Þann 17. júlí 2012 barst ráðuneytinu svar Mosfellsbæjar.

Í svari Mosfellsbæjar kemur fram að það mál sem JJB hafi óskað eftir að fá á dagskrá bæjarráðsfundar beri heitið „erindi kennara um stjórnun í Varmárskóla“ og sé viðkvæmt starfsmannamál. Barst  tölvubréf JJB aðfaranótt 8. júní 2012 en strax að morgni þess dags sendi framkvæmdastjóri fræðslusviðs tölvupóst til allra bæjarfulltrúa þar sem staða þess máls var reifuð. Í svari Mosfellsbæjar kemur jafnframt fram að á 583. fundi bæjarstjórnar þann 20. júní 2012 hafi verið bókað, að beiðni JJB, að það hafi verið kært til ráðuneytisins að erindið hans hafi ekki verið tekið á dagskrá bæjarráðs. Á 1079. fundi bæjarráðs þann 21. júní 2012 var á dagskrá mál er bar heitið „viðhorfskönnun Mosfellsbæjar 2011“ en sú könnun tengist „erindi kennara um stjórnun í Varmárskóla“.  Erindinu var frestað til næsta fundar bæjarráðs. Á 1080. fundi bæjarráðs þann 26. júní 2012 voru bæði erindin á dagskrá þ.e. „viðhorfskönnun Mosfellsbæjar 2011“ og „erindi kennara um stjórnun í Varmárskóla“. Var umræða um viðhorfskönnunina, sem fjallar að hluta til um sömu atriði og koma fram í erindi kennara um stjórnun Varmárskóla, en síðarnefnda erindinu var frestað til næsta fundar vegna tímaskorts. Bendir Mosfellsbær á að enginn fundarmanna hafi gert athugasemd við þá frestun. Erindið var síðan tekið fyrir á 1081. fundi bæjarráðs þann 2. júlí 2012, þar sem það fékk umfjöllun og sé nú í þeim farvegi sem bæjarráð sammæltist um á fundinum, en starfsmannamál heyri undir bæjarráð. Mosfellsbær hafnar því að hafa vitandi vits brotið á þeim rétti JJB að fá erindi tekið á dagskrá bæjarráðs. Bendir Mosfellsbær á að JJB hafi haft alla möguleika á að óska eftir upptöku málsins á dagskrá, bæði við útsendingu á fundarboði og í upphafi 1078. fundar bæjarráðs þann 14. júní 2012. Þá hafi JJB einnig haft möguleika á að óska upptöku málsins á 583. fundi bæjarstjórnar þann 20. júní 2012 og við útsendingu á fundarborði þess fundar, en í stað þess hafi JJB látið bóka að hann hefði sent kæru til innanríkisráðuneytisins vegna málsins. Í bréfi Mosfellsbæjar kemur jafnframt fram að erindið hafi verið tekið á dagskrá og því komið í ákveðinn farveg með fulltingi allra bæjarfulltrúa, bæði aðalmanna og áheyrnarfulltrúa í bæjarráði, og telur Mosfellsbær að andlag kærunnar sé þar með fallið á brott.

Í bréfi Mosfellsbæjar er ekki vikið að því að þeirri beiðni JJB að fá á dagskrá bæjarstjórnar umræður um það vinnulag Mosfellsbæjar að auglýsing vegna tilboða í viðgerð á Hlégarði í Mosfellsbæ virðist hafa verið send til birtingar áður en bæjarstjórn samþykkti að fara í útboð vegna verksins.

Ráðuneytið taldi ekki þörf á að óska eftir frekari gögnum eða sjónarmiðum og er málið er því tekið til úrskurðar.

III.      Niðurstaða ráðuneytisins

Í 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir að aðila máls sé heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess skv. 109. gr. laganna. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum er ljóst að einungis svonefndar stjórnvaldsákvarðanir verða bornar undir ráðuneytið með stjórnsýslu­kæru. Vísar orðalagið „ákvarðanir um rétt eða skyldu manna“ til 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Eru það eru því einvörðungu slíkar ákvarðanir sem sæta stjórnsýslukæru.

Með stjórnvaldsákvörðun er átt við ákvörðun stjórnvalds í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslu­laga sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og er beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldur þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli (sjá t.a.m. Páll Hreinsson, Hæfisreglur stjórnsýslulaga, 2003, bls. 169). Ljóst er að ágreiningsefni það sem JJB hefur borið undir ráðuneytið fellur ekki þar undir, enda ekki um það að ræða að stjórnvaldið hafi í máli þessu tekið stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til ráðuneytisins. Er því óhjákvæmilegt að vísa kæru þessari frá ráðuneytinu enda fellur hún ekki undir kæruheimild 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga.

Úrskurðarorð

Stjórnsýslukæru Jóns Jósefs Bjarnasonar, kt. xxxxxx-xxxx, vegna þeirrar stjórnsýslu Mosfellsbæjar að verða ekki við beiðni hans um að fá mál á dagskrá annars vegar á 1078. fund bæjarráðs og hins vegar 1080. fund bæjarstjórnar, er vísað frá.

Fyrir hönd ráðherra

 

Bryndís Helgadóttir

Hjördís Stefánsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum