Hoppa yfir valmynd

Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. IRR11020176


Ár 2013, þann 21. janúar, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR 11020176

A

gegn

Sveitarfélaginu Árborg

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 1. febrúar 2011 kærði A, ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar dags. 2. nóvember 2010, um að synja henni um endurgreiðslu tiltekins kostnaðar vegna innheimtu fasteignaskatts fyrir fasteignirnar að [...] í sveitarfélaginu fyrir árið 2009.

A gerir þá kröfu að þær stjórnvaldsákvarðanir sem sveitarfélagið tók í málinu verði felldar úr gildi. Þá er gerð sú krafa að sveitarfélaginu verði gert að endurgreiða A að fullu þóknun sem hún hafi greitt til innheimtufyrirtækisins Lögheimtunnar ehf., og rekja megi til stjórnvaldsákvarðana sveitarfélagsins sem séu í andstöðu við stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Kæran er borin fram á grundvelli 1. mgr. 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Nánar verður vikið að sjónarmiðum um kærufresti og afmörkun kæruefnis síðar í úrskurðinum.

II.      Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Í upphafi árs 2009 lagði Sveitarfélagið Árborg á fasteignaskatt vegna fjögurra fasteigna í sveitarfélaginu í eigu A. Voru gjalddagar greiðsluseðla vegna fasteignaskattsins þann 1. maí, 1. júní, 1. júlí, 1. ágúst, 1. september og 1. október 2009. Óumdeilt er í málinu að greiðsluseðlarnir voru ekki greiddir á gjalddaga og fól sveitarfélagið í kjölfarið, haustið 2010,   Intrum á Íslandi ehf. (hér eftir nefnt Intrum) innheimtu krafnanna.

Ljóst er að umræddar kröfur voru ekki greiddar í milliinnheimtu hjá Intrum og voru þær í kjölfarið, þann 3. mars 2010, sendar Lögheimtunni ehf. (hér eftir Lögheimtan) til innheimtu. Með bréfum, dags. 15. apríl 2010, óskaði Lögheimtan eftir því við embætti sýslumannsins á Selfossi, f.h. sveitarfélagsins, að umræddar eignir yrðu seldar á nauðungarsölu til lúkningar skuldar A við Sveitarfélagið Árborg. Var A tilkynnt um framkomnar nauðungarsölubeiðnir með bréfum sýslumannsins á Selfossi, dags. 15. október 2010. Með bréfum sýslumannsins á Selfossi til A, dags. 28. september 2010, var A svo tilkynnt um að beiðni um nauðungarsölur hefði verið tekin fyrir hjá embættinu og að ákveðið hefði verið uppboð á eignunum þann 12. október 2010.

Áður en til þess kæmi að eignirnar yrðu boðnar upp greiddi A að fullu upp umræddar kröfur, þann 5. október 2010, með fyrirvara um réttmæti þeirra. Rétt er að taka fram að áður hafði A farið fram á það við sveitarfélagið að greiða vangoldinn fasteignaskatt milliliðalaust til sveitarfélagsins ásamt áföllnum dráttarvöxtum. Aðila greinir hins vegar á um hvenær slík beiðni var fyrst sett fram. Af hálfu A er staðhæft að hún hafi fyrst sett fram slíka beiðni í september 2009, en af hálfu sveitarfélagsins er haldið fram að slík beiðni hafi ekki komið fram fyrr en í ágúst 2010.

Með bréfi, dags. 6. október 2010, fór A fram á það við Árborg að henni yrði endurgreiddur kostnaður sem hún hefði orðið fyrir vegna innheimtuaðgerða sveitarfélagsins. Var þeirri kröfu hafnað af hálfu sveitarfélagsins með bréfi, dags. 2. nóvember 2010. Í ákvörðun sveitarfélagsins sagði m.a.:

     Með bréfi dags. 6. október 2010 gerðuð þér kröfu um að Sveitarfélagið Árborg endurgreiddi yður kostnað vegna aksturs, vinnuframlags og ómaks, alls kr. 272.000 auk dráttarvaxta, vegna innheimtu sveitarfélagsins á fasteignagjöldum af [...], Sveitarfélaginu Árborg.

     Af hálfu Sveitarfélagsins Árborgar er framangreindri kröfu hafnað. Svo sem fram kom í tölvupósti undirritaðrar til ykkar hinn 5. október s.l. var ekki í boði að gera kröfuna upp með greiðslu beint til Árborgar án þess að greiða innheimtukostnað. Greiða mátti gjöldin með greiðsluseðli t.d. í banka og hefði innheimtukostnaður þá einnig komið til greiðslu, þ.e. á sama hátt og fasteignagjöld vegna ársins 2010 voru gerð upp. Ekki hefðu þurft að felast í því nein samskipti við viðkomandi innheimtufyrirtæki.

     Sveitarfélagið Árborg hefur þann háttinn á varðandi innheimtu fasteignagjalda að fela innheimtufyrirtæki innheimtu þeirra þegar þau eru komin í vanskil. Innheimtukostnaður  er innheimtur hjá skuldara. Sú aðferð að heimila  yður að greiða gjöldin án þess að greiða áfallinn innheimtukostnað hefði falið í sér að ekki væri gætt jafnræðis gagnvart skuldurum og var sveitarfélaginu af þeim sökum ekki fært að samþykkja að krafan væri gerð upp án greiðslu innheimtukostnaðar.

Með bréfi, dags. 1. febrúar 2011, kærði A framangreinda ákvörðun til ráðuneytisins. Með bréfi, dags. 16. febrúar 2011, óskaði ráðuneytið eftir nánari upplýsingum og gögnum frá A aðlútandi kæruefninu. Bárust þau gögn ráðuneytinu með bréfi, dags. 4. mars 2011.

Með bréfi, dags. 8. mars 2011, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Sveitarfélagsins Árborgar um kæruna auk afrits af gögnum málsins. Bárust umbeðnar upplýsingar ráðuneytinu með bréfi, dags. 9. apríl 2011. Með bréfi, dags. 13. apríl 2011, gaf ráðuneytið A færi á að gæta andmælaréttar vegna umsagnar Sveitarfélagsins Árborgar um kæru hennar. Bárust andmæli A þar að lútandi ráðuneytinu með bréfi, dags. 6. maí 2011.

Með bréfi, dags. 29. febrúar 2012, óskaði ráðuneytið nánari upplýsinga og gagna hvoru tveggja frá A og Sveitarfélaginu Árborg. Bárust svör A ráðuneytinu með bréfi, dags. 23. mars 2012 og svör sveitarfélagsins með bréfi, dags. 4. apríl 2012. Með bréfi dags. 17. apríl 2012 gaf ráðuneytið A færi á að gæta andmælaréttar vegna svarbréfs Sveitarfélagsins Árborgar. Bárust andmæli A þar að lútandi ráðuneytinu með bréfi, dags. 10. maí 2012. Bárust ráðuneytinu svo enn frekari gögn frá A með bréfum, dags. 21. júní 2012 og 13. júlí 2012. 

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.    Málsástæður og rök A

Í kæru A er tekið fram að hún sé fram komin vegna máls er snúi að innheimtu fasteignaskatts af lóðunum [...] í Sveitarfélaginu Árborg. Telur A að sveitarfélagið hafi m.a. gerst brotlegt við 9. gr., 10. gr., 11. gr, 12. gr., 13. gr., og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins.

Í kæru kemur fram að A hafi farið þess á leit við sveitarfélagið í september árið 2009 að fá að greiða álagðan fasteignaskatt fyrir umræddar lóðir fyrir það ár, ásamt áföllnum dráttarvöxtum til greiðsludags, beint til sveitarfélagsins, og án milligöngu innheimtufyrirtækisins Intrum. Því hafi sveitarfélagið alfarið hafnað, þrátt fyrir rökstuðning hennar fyrir því að um ómöguleika í skilningi kröfuréttar væri að ræða í samskiptum hennar við innheimtufyrirtækið.

Ítrekaðar heimsóknir, símtöl og tölvupóstar A til sveitarfélagsins hafi verið virt að vettugi og framboðinni fullnaðargreiðslu fasteignaskatts lóðanna ásamt dráttarvöxtum til greiðsludags, neitað viðtöku hjá sveitarfélaginu. Samtímis hafi sveitarfélagið hafið harðar innheimtuaðgerðir fyrir milligöngu innheimtufyrirtækisins, sem hafi haft í för með sér fjárhagslegt tjón fyrir A og ófjárhagslegt tjón á nafni hennar í vanskilaskrá og sökum uppboðsbeiðna sveitarfélagsins til sýslumannsembættisins á Selfossi. A hafi greitt að lokum, með fyrirvara um réttmæti greiðslu, fasteignaskatt lóðanna fyrir árið 2009 til innheimtufyrirtækisins vegna ófrávíkjanlegrar afstöðu sveitarfélagsins í málinu og vegna yfirvofandi hækkunar á þóknun og kostnaði sem krafist hafi verið af henni hjá innheimtufyrirtækinu. A hafi áskilið sér rétt til að endurkrefja sveitarfélagið um þóknun og kostnað sem hafi fallið á hana vegna ólögmætra ráðstafana sveitarfélagsins í málinu.

Í kjölfar erindis A til sveitarfélagsins hafi verið tekin ákvörðun á fundi bæjarráðs Árborgar í september 2010 um að segja upp samningnum við innheimtufyrirtækið. Rökin fyrir því hafi verið að hagsmuni íbúa beri að hafa að leiðarljósi og að ástæða hafi verið til að milda innheimtu gagnvart íbúum sveitarfélagsins, ekki síst í ljósi þess að um öruggar veðkröfur væri að ræða sem njóti lögverndaðs forgangs á aðra kröfu- og veðhafa viðkomandi fasteignar.

A telur að meðferð málsins hafi tekið óhóflega langan tíma hjá sveitarfélaginu, sem hafi verið í ósamræmi við umfang og eðli máls og framkomna beiðni hennar frá í september 2009 sem hafi verið málefnaleg og afdráttarlaus. Með vísan til málshraðareglu stjórnsýslulaga telur A að sá dráttur sem orðið hafi á meðferð málsins í meðförum sveitarfélagsins eftir að hún hafi sett fram rökstudda beiðni um að greiða beint til sveitarfélagsins fasteignaskatt lóðanna fyrir árið 2009 að fullu ásamt áföllnum dráttarvöxtum, sbr. lög um vexti og verðtryggingu, hafi verið óhæfilegur og órökstuddur og valdið A umtalsverðum kostnaði í formi þóknunar til innheimtufyrirtækisins.

Þá telur A að málsmeðferð sveitarfélagsins hafi ekki verið í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telur A þannig að sú ákvörðun sveitarfélagsins að neita rökstuddri kröfu hennar um að greiða fasteignaskatt umræddra lóða fyrir árið 2009, beint til sveitarfélagsins og án milligöngu innheimtufyrirtækis, hafi verið íþyngjandi fyrir hana. Að mati A hefði sveitarfélagið getað náð lögmætu markmiði sínu með vægara móti en að krefjast þess að hún greiddi fasteignaskattinn fyrir milligöngu innheimtufyrirtækisins. Kostnaðurinn sem af ráðstöfun sveitarfélagsins hafi hlotist og hafi lent á A hafi verið rúmlega kr. 240.000, eða sexfaldur höfuðstóll fasteignagjalda lóðanna fyrir árið 2009.

Með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga telur A jafnframt að ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar að um að neita beiðni hennar frá í september 2009, með síðari ítrekunum, hafi verið tekin án þess að málið fengi efnislega umfjöllun og skoðun í meðförum sveitarfélagsins með hliðsjón af rökstuðningi hennar varðandi trúnaðarbrest á milli hennar og innheimtufyrirtækisins.

Með vísan til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga telur A sig hafa rökstuddan grun um að sveitarfélagið hafi ekki gætt jafnræðis við meðferð málsins og að málið hafi í meðförum sveitarfélagsins fengið ósanngjarnari, tafsamari og kostnaðarsamari meðferð fyrir A en almennt gildi um mál innan sveitarfélagsins sem séu sambærileg að efni og umfangi og mál hennar.

Þá telur A að sveitarfélagið hafi brotið gegn andmælarétti 13. gr. stjórnsýslulaga sem og 14. gr. laganna um tilkynningaskyldu um meðferð máls. Sveitarfélaginu hafi borið að virða þau sjónarmið sem hún hafi komið á framfæri samhliða því að hún hafi boðið fram fullnaðargreiðslu fasteignaskatts fyrir árið 2009 ásamt áföllnum dráttarvöxtum. Það hafi sveitarfélagið ekki gert heldur afhent innheimtufyrirtækinu til innheimtu kröfu um greiðslu fasteignaskatts. Ráðstafanir þessar hafi, eins og komið hafi fram, verið í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga þar sem segi að stjórnvald megi einungis taka íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun þegar markmiði því sem að sé stefnt verði ekki náð með öðru og vægara móti og skuli þess þá jafnan gætt að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsynlegt sé.

Í þessu sambandi hafi sveitarfélagið ekki gætt þess að virða andmælarétt A í aðdraganda töku íþyngjandi ákvarðana af hálfu sveitarfélagsins, sem varði mikla fjárhagslega hagsmuni og orðspor A. Sveitarfélagið hafi jafnframt skirrst við að tilkynna A um meðferð málsins og gripið til íþyngjandi ráðstafana án nokkurrar aðvörunar eða tilkynningar til hennar. Skráning á nafni A í vanskilaskrá og beiðni sveitarfélagsins til sýslumannsins á Selfossi um að fram færi uppboð á lóðunum séu mjög alvarlegar og íþyngjandi ráðstafanir og til þess gerðar að þvinga hana til greiðslu óhófslegs kostnaðar innheimtufyrirtækisins. Leiða megi líkur að því að ráðstafanir sveitarfélagsins hvað þetta varðar hafi valdið óvæntum stirðleika í samskiptum A við viðskiptabanka hennar og álitshnekki. Það sé almennt viðurkennt að skráningar í vanskilaskrá um yfirvofandi uppboð séu jafnan til þess fallnar að valda óróleika meðal lánadrottna og viðskiptamanna skráningarþola og valdi álitshnekki fyrir skráningarþola á meðan skráning vari og sé sýnileg þriðja aðila. Seinagangur sveitarfélagsins við að bregðast við formlegri beiðni A um niðurfellingu skráningar í kjölfar greiðslustaðfestingar sé ámælisverður og ábyrgðarhlutur fyrir sveitarfélagið að standa að málum með slíkum hætti. Hvoru tveggja sé í andstöðu við 13. gr. og 14. gr. stjórnsýslulaga. Samtímis því að sveitarfélagið hafi gripið til framangreindra ráðstafana gagnvart A, hafi hún ítrekað átt í samskiptum við starfsmenn sveitarfélagsins, til þess að lýsa yfir vilja til að greiða höfuðstól fasteignaskatts lóðanna ásamt áföllnum dráttarvöxtum, skv. lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Í andmælum sínum vegna umsagnar Árborgar um kæru hennar mótmælir A staðhæfingu sveitarfélagsins um að útsendir greiðsluseðlar fasteignaskatts fyrir árið 2009 hafi ekki verið greiddir á réttum tíma og Intrum því falin innheimta krafnanna, sem rangri og misvísandi. Áréttar A í því sambandi að um 90 dögum eftir eindaga fyrsta greiðsluseðilsins, í júní 2009, hafi A farið fram á það við sveitarfélagið í september 2009, að greiða milliliðalaust til sveitarfélagsins og að fullu álagðan fasteignaskatt lóðanna, ásamt dráttarvöxtum. Því til staðfestingar liggi fyrir símtalaskrár, tölvupóstar og heimsóknir A á skrifstofur sveitarfélagsins. Í því sambandi hafi A gert sveitarfélaginu grein fyrir því að ágreiningur hefði áður komið upp á milli fyrirtækis í eigu A, og Intrum, sem hefði gert henni ókleift að standa skil á greiðslu fasteignaskatts fyrir milligöngu Intrum. Af þeirri ástæðu hefði A óskað eftir því við sveitarfélagið að greiða fasteignaskatt lóðanna vegna ársins 2009 beint til sveitarfélagsins, eins og símtöl og heimsóknir A og umboðsmanns hennar til starfsmanna sveitarfélagsins séu til vitnis um. Sveitarfélagið hafi þannig hafnað beiðni A þegar í september 2009, þegar beiðnin hafi sannanlega verið fram komin. Enginn ágreiningur hafi verið uppi á milli A og sveitarfélagsins um tilvist krafnanna, höfuðstólsfjárhæðir eða vanskilavexti.

Óumdeilt sé að greiðslustaður kröfu sé á heimili kröfuhafa nema annað sé tilgreint sérstaklega eða um það samið á milli kröfuhafa og skuldara, samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Í því sambandi vill A árétta að sveitarfélagið hafi ekki þá, né síðar eftir því sem hún komist næst, falið innheimtufyrirtækinu Intrum almenna innheimtu fasteignaskatts í sveitarfélaginu. Þá telur A að svar sveitarfélagsins við fyrirspurn ráðuneytisins um hvort sveitarfélagið hefði gert samkomulag við innheimtufyrirtæki um innheimtu fasteignaskatts fyrir hönd sveitarfélagsins, sé ófullnægandi. Sveitarfélagið hafi ekki sýnt fram á að samkomulag þess efnis hafi verið gert.  Sveitarfélaginu hafi því borið að taka við framboðinni greiðslu A, strax í septembermánuði 2009, og gera henni þar með kleift að losna undan greiðsluskyldu sinni gagnvart sveitarfélaginu með viðtöku greiðslu fyrir álagðan fasteignaskatt lóðanna vegna ársins 2009. Sveitarfélagið hafi neitað greiðslu viðtöku og gert frekari reka að innheimtu krafnanna fyrir milligöngu þriðja aðila með ærnum tilkostnaði og óþægindum fyrir A.

Þá gerir A sérstaka athugasemd við að sveitarfélagið staðhæfi að hún hafi leitað eftir því í ágúst 2010 að gera kröfurnar upp til sveitarfélagsins með því að greiða einungis höfuðstól og dráttarvexti. A hafnar þessu sem röngu og misvísandi þar sem hún hefði um það bil einu ári fyrr, eða í september 2009, farið fram á það við sveitarfélagið að gera kröfurnar upp að fullu, þ.e. höfuðstólsfjárhæð og dráttarvexti. Sveitarfélagið hafi ekki mótmælt né hrakið þá staðreynd að A hafi farið fram á það strax í september 2009 að greiða að fullu álagðan fasteignaskatt lóðanna, einungis þremur mánuðum eftir eindaga fyrsta greiðsluseðilsins og áður en að útsendingu greiðsluseðla hafi verið lokið. Sveitarfélagið hefði ekki á þeim tíma samið við innheimtufyrirtækið Intrum um almenna innheimtu fasteignaskatts í sveitarfélaginu.

Sveitarfélagið hafi ekki rökstutt þá ákvörðun sína að halda til streitu innheimtuaðgerðum fyrir milligöngu Intrum, þrátt fyrir framboðna greiðslu af hálfu A ásamt útskýringum hennar þess efnis að um ómöguleika væri að ræða í samskiptum A og innheimtufyrirtækisins. Í því sambandi vísar A til almennra reglna kröfuréttar um ómöguleika skuldara og skyldu kröfuhafa til að taka við greiðslu sem boðin sé fram á réttum stað og í samræmi við efni og gerð kröfu. Sveitarfélaginu hafi því borið að taka við greiðslu úr hendi A.

A tekur jafnframt fram að sveitarfélagið staðhæfi í umsögn sinni um kæru hennar að umtalsverður útlagður kostnaður hafi verið áfallinn í ágúst 2010 og ófært vegna jafnræðissjónarmiða að gefa A eftir innheimtukostnað sem öðrum skuldurum sé gert að greiða. A hafnar þessu sem röngu og misvísandi þar sem hún hafi óskað eftir því í september 2009 að greiða kröfurnar að fullu, höfuðstólsfjárhæð og dráttarvexti, en þá hafi sá útlagði kostnaður sem sveitarfélagið vísi til, ekki verið orðinn til.

Hvað varði vísun sveitarfélagsins til jafnræðissjónarmiða, þá hafi Árborg ekki sýnt fram á að jafnræðisjónarmið stjórnsýslulaga hafi verið höfð að leiðarljósi varðandi erindi hennar. Hafi aðrir greiðendur skatta og gjalda í sveitarfélaginu fengið sambærilega meðhöndlun sinna erinda í meðförum sveitarfélagsins, þ.e.a.s. að sveitarfélagið neiti viðtöku greiðslu sem boðin sé fram með réttum hætti og á réttum stað og krefjist þess að þriðji aðili, sem greiðandi gjalda eigi í ágreiningsmáli við, hafi milligöngu um innheimtu gjaldanna ásamt þóknun sem nemi meira en sexföldum höfuðstól gjaldanna, þá hafi sveitarfélagið ekki fært sönnur á það. Sé tekið mið af öllum áföllnum kostnaði, sé nær að tala um tíföldun upphaflegrar kröfufjárhæðar, sem hafi verið um kr. 40.000, en hafi verið á fimmta hundrað þúsunda í meðförum innheimtufyrirtækisins Intrum, f.h. sveitarfélagsins. Telur A að hún hafi sýnt fram á að jafnræðissjónarmið, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, hafi ekki verið virt við meðhöndlun Árborgar á erindi hennar og til þess beri ráðuneytinu að líta varðandi efnislega umfjöllun og uppkvaðningu úrskurðar í málinu. Fullyrðingar og staðhæfingar Árborgar sem ekki hafi verið færðar sönnur á eða séu ekki studdar gögnum, sé úrlausn málsins óviðkomandi.

Þá telur A rétt að halda því til haga að bæjarráð Árborgar hafi tekið ákvörðun um það í september 2010, að segja upp innheimtusamningi við Intrum skömmu eftir að A hafi sent bæjarráði erindi varðandi innheimtuaðferðir Intrum fyrir hönd sveitarfélagsins. Samkvæmt upplýsingum sem A hafi aflað frá sveitarfélaginu, hafi ákvörðun bæjarráðs byggst á þeim rökum að hagsmunir skattgreiðenda í sveitarfélaginu hefðu ekki verið hafðir í fyrirrúmi með fyrra fyrirkomulagi. Þrátt fyrir uppsögn samnings sveitarfélagsins við Intrum hafi sveitarfélagið neitað að taka við greiðslu úr hendi A og þvingað hana til að greiða til innheimtufyrirtækisins með því að skrá nafn hennar í vanskilaskrá og hóta því að lóðirnar yrðu seldar á nauðungaruppboði með enn frekari kostnaði sem hún yrði krafin um. A hafi greitt kröfurnar með fyrirvara og áskilið sér rétt til að krefja sveitarfélagið um endurgreiðslu um leið og betri réttur hennar yrði staðfestur með úrskurði stjórnvalds eða dómi.

Þann 29. febrúar 2012, ritaði ráðuneytið A bréf og gerði grein fyrir því að ljóst væri að málsaðila greindi á um hvenær hún óskaði fyrst eftir því við Árborg að fá að greiða umræddar kröfur beint til sveitarfélagsins án milligöngu innheimtufyrirtækisins Intrum. Þannig kæmi fram í umsögn Árborgar um kæru hennar að það hefði fyrst verið í ágúst 2010 sem slík beiðni hefði komið fram en af hálfu A væri staðhæft að það hefði verið í september 2009. Óskaði ráðuneytið með erindi sínu eftir nánari afstöðu A til þessa atriðis. Í svari sínu til ráðuneytisins, dags. 23. mars 2012, tekur A fram að hún hafi hafið máls á því við Árborg í september mánuði árið 2009 að greiðsla fasteignaskatts fyrir árið 2009 yrði innt af hendi til sveitarfélagsins án milligöngu innheimtufyrirtækisins. Hún og umboðsmaður hennar hefðu í upphafi farið fram á það með því að hafa símleiðis samband við starfsmenn í innheimtudeild sveitarfélagsins. Það sé því rangt og rakalaust með öllu sem haldið sé fram af sveitarfélaginu að hún hafi ekki borið upp slíka beiðni fyrr en í ágúst 2010 eða um ári síðar en raunin hafi verið. Vitnar A því til sönnunar til símtalaskrár, tölvupósta, yfirlita innheimtufyrirtækis og heimsókna hennar og umboðsmanns hennar á bæjarskrifstofur sveitarfélagsins á Selfossi á síðari hluta ársins 2009 og fyrri hluta ársins 2010, gagngert í þeim tilgangi að óska eftir því við sveitarfélagið að fá að greiða fasteignaskatt til sveitarfélagsins án milligöngu innheimtufyrirtækis. Árborg hafi hafnað beiðni A í tilvitnuðum símtölum hennar og umboðsmanns hennar við starfsmenn sveitarfélagsins í innheimtudeild og á fjármálasviði.  Tekur A fram að hún hafi ekki fengið aðgang að símatalaskrá Símans fyrir umrætt tímabil, þar sem svo langt sé um liðið. Sé það bagalegt. Telur A að slík skrá myndi vitna til um símtöl A við starfsmenn sveitarfélagsins. Tekur A jafnframt fram að hún kunni ekki skýringar á því hvers vegna sveitarfélagið hafi uppi rangar staðhæfingar um samskipti þeirra á milli, þegar fyrirliggjandi gögn málsins og aðkoma umboðsmanns hennar og starfsmanna sveitarfélagsins að málinu séu til vitnis um hið sanna í málinu.

Telur A að röð atvika, sem hún greinir nánar frá í bréfi sínu, lýsi samskiptum hennar við sveitarfélagið og tiltekna starfsmenn þess allt frá sumarlokum 2009 og fram á haust 2010 og sýni svo ekki verði um villst að hún hafi hafið máls á því við sveitarfélagið á árinu 2009 að fá að greiða fasteignaskatt lóðanna milliliðalaust til sveitarfélagsins. Hafi hún ítrekað þá beiðni á árinu 2010. Samskipti hafi verið í formi símtala og heimsókna hennar og umboðsmanns hennar til sveitarfélagsins. Samhliða því hafi átt sér stað tölvupóstsamskipti milli sveitarfélagsins og innheimtufyrirtækisins og innheimtufyrirtækisins og A. Það sé því rangt og rakalaust með öllu sem haldið sé fram af sveitarfélaginu að beiðni um að greiða fasteignaskatt til sveitarfélagsins hafi ekki komið fram af hálfu A fyrr en í ágústmánuði 2010.

Þá gaf ráðuneytið A færi á að koma á framfæri athugasemdum við bréf Sveitarfélagsins Árborgar til ráðuneytisins, dags. 4. apríl 2012. Tekur A fram í því sambandi að óumdeilt sé að hún hafi hafið máls á því að greiða fasteignaskatt af lóðunum milliliðalaust til sveitarfélagsins í september árið 2009. Lagði hún fram með bréfi sínu ýmis gögn sem hún telur sýna fram á það. Sveitarfélagið staðhæfi í bréfi sínu til ráðuneytisins, dags. 4. apríl 2012, að umleitanir hennar hafi ekki hafist fyrr en í ágúst árið 2010. Hafnar A því sem röngu og rakalausu og vísar m.a. í því sambandi til fyrirliggjandi gagna um samskiptasögu hennar við sveitarfélagið.

Rétt er að taka fram að A hefur fært fram ýmis fleiri rök, málsástæður og gögn máli sínu til stuðnings sem ráðuneytið telur ekki nauðsynlegt að rekja hér frekar en hefur litið til við úrlausn málsins.

IV.    Málsástæður og rök Sveitarfélagsins Árborgar

Í umsögn Sveitarfélagsins Árborgar um kæru A kemur fram að sveitarfélagið hafi lagt fasteignaskatt á fjórar lóðir í hennar eigu í upphafi árs 2009. Þegar greiðsluseðlar hafi ekki verið greiddir á réttum tíma hafi sveitarfélagið hafi falið Intrum á Íslandi ehf. innheimtu krafnanna, en gefinn hafi verið út einn greiðsluseðill vegna hvers gjaldaga fyrir allar eignirnar. Hjá Intrum hafi verið stofnuð sex innheimtumál, eftir því sem vanskil hafi orðið.

Þegar A hafi ekki greitt fasteignagjöldin í milliinnheimtu hafi Árborg falið Lögheimtunni ehf. innheimtuna. Við skráningu í innheimtu hjá Lögheimtunni hafi gjaldfallnir gjalddagar vegna hverrar eignar verið sameinaðir í eitt mál og þannig stofnuð fjögur mál til innheimtu en það hafi verið nauðsynlegt vegna réttarfarsreglna, ef beita eigi því úrræði sem löggjafinn hafi veitt sveitarfélögum við innheimtu fasteignagjalda. Við stofnun málanna hjá Lögheimtunni hafi verið felldur niður áfallinn milliinnheimtukostnaður en á fallið innheimtuþóknun samkvæmt gjaldskrá Lögheimtunar. Þegar innheimtubréfi hafi ekki verið sinnt hafi A verið send greiðsluáskorun með aðvörun um að ef ekki yrði greitt yrði óskað eftir nauðungarsölu eignanna. Þar sem því hafi ekki verið sinnt hafi verið óskað eftir nauðungarsölu. Eftir að sú beiðni hafi verið tekin fyrir hjá sýslumanni, en áður en uppboð hafi hafist, hafi A greitt kröfurnar og nauðungarsölubeiðnir verið afturkallaðar. Er tekið fram af hálfu Sveitarfélagsins Árborgar að þetta sé í samræmi við almennt verklag þess og það sem almennt gerist við innheimtu fasteignagjalda.

Á innheimtuna hafi fallið kostnaður af vanskilum í samræmi við gjaldskrá Lögheimtunnar. Málin séu öll áþekk en sundurliðaður kostnaður vegna [...] hafi t.a.m. verið þannig:

innheimtuþóknun:                                          kr. 12.179

vottorð úr veðbók og FMR:                          kr. 1.500

greiðsluáskorun rituð og send:                       kr. 7.900

birting greiðsluáskorunnar:                            kr. 2.000

nauðungarsölubeiðni rituð og send:               kr. 7.900

nauðungarsölugjald í ríkissjóð:                      kr. 17.100

fyrirtaka nauðungarsölu hjá sýslumanni:       kr. 11.200

afturköllun nauðungarsölubeiðni:                  kr. 3.950

            Samtals:                                            kr. 63.729

Í umsögn sveitarfélagsins segir svo að Lögheimtan hafi annast löginnheimtu fyrir Árborg. Innheimtukostnaður taki mið af gjaldskrá Lögheimtunnar. Svo sem fram hafi komið hafi hluti áfallins kostnaðar verið vegna útlagðs kostnaðar við innheimtu.

Í ágúst 2010 hafi A leitað eftir þvi að gera kröfurnar upp við sveitarfélagið með því að greiða einungis höfuðstól kröfunnar og dráttarvexti. Sú málaleitan hafi ekki verið samþykkt, enda hafi þá umtalsverður útlagður kostnaður verið áfallinn á þeim tíma og ekki fært vegna jafnræðissjónarmiða að gefa A eftir innheimtukostnað sem öðrum skuldurum hafi verið gert að greiða. Er þess að lokum getið í umsögn sveitarfélagsins að við uppgjör krafnanna hafi sveitarfélagið veitt afslátt sem nam helmingi áfallinna dráttarvaxta.

Með bréfi, dags. 29. febrúar 2012, ritaði ráðuneytið Sveitarfélaginu Árborg bréf og gerði grein fyrir því að ljóst væri að málsaðila greindi á um hvenær A óskaði fyrst eftir því við sveitarfélagið að fá að greiða umræddar kröfur beint til sveitarfélagsins án milligöngu innheimtufyrirtækisins Intrum. Þannig kæmi fram í umsögn sveitarfélagsins um kæru A að það hefði fyrst verið í ágúst 2010 sem slík beiðni hefði komið fram en af hálfu A væri staðhæft að það hefði verið í september 2009. Óskaði ráðuneytið með erindi sínu eftir nánari afstöðu A til þessa atriðis. Þá óskaði ráðuneytið jafnframt upplýsinga um hvenær sveitarfélagið hefði annars vegar tekið ákvörðun um að fela Intrum milliinnheimtu umræddra krafna og Lögheimtunni hins vegar löginnheimtu þeirra. Jafnframt óskaði ráðuneytið eftir afriti af nánar tilgreindum gögnum.

Í svarbréfi Sveitarfélagsins Árborgar, dags. 4. apríl 2012 kemur m.a. fram að fyrsta erindi A þess efnis að hún fengi að greiða umræddar kröfur án milligöngu innheimtufyrirtækisins Intrum án greiðslu áfallins innheimtukostnaðar, hefði borist sveitarfélaginu með tölvubréfi, dags. 3. ágúst 2010. Þá er tekið fram í bréfi sveitarfélagsins að ekki sé haldin skrá yfir símtöl vegna innheimtumála en almennt sé beiðnum skuldara sem óski eftir að greiða gjöld til sveitarfélagsins, sem send hafi verið til innheimtufyrirtækis, án þess að greiða innheimtukostnað, hafnað og viðkomandi bent á að hafa samband við viðkomandi innheimtufyrirtæki. Telur sveitarfélagið að í gögnum málsins komi ekkert fram sem styðji það að meintur ómöguleiki á greiðslu til Intrum hafi verið kynntur sveitarfélaginu í september 2009, líkt og haldið hafi verið fram. Rétt sé að geta þess að þann 20. ágúst 2010 hafi A greitt fasteignagjöld, sem hafi verið komin til milliinnheimtu vegna ársins 2010, að meðtöldum dráttarvöxtum og innheimtukostnaði, með upphaflegum greiðsluseðli frá Landsbanka Íslands. Hafi meintur ómöguleiki ekki virst hafa áhrif á þá greiðslu.

Þá tekur Sveitarfélagið Árborg fram að unnið sé eftir því verklagi að hver gjalddagi fasteignagjalda fyrir sig sé sendur til innheimtufyrirtækis á 49. degi eftir gjalddaga, 19 dögum eftir eindaga. Gjalddagi sé 1. hvers mánaðar og eindagi 30 dögum síðar. Kröfurnar hafi síðan allar verið sendar Lögheimtunni til löginnheimtu hinn 3. mars 2010.

V.      Niðurstaða ráðuneytisins

1.         Ráðuneytinu ber að eigin frumkvæði að kanna hvort kæra hafi borist innan kærufrests. Eins og áður segir er framkomin kæra sett fram á grundvelli 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 þar sem sagði að ráðuneytið skyldi úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kynnu að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerti þó eigi rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Ekki var í lögunum kveðið á um sérstakan kærufrest en ráðuneytið leit svo á í úrskurðum sínum að um kærufrest giltu ákvæði 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiddi að kæra skyldi borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæltu á annan veg. Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að berist kæra að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. kemur svo fram að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Svo sem fram hefur komið varðar ágreiningur máls þessa innheimtu fasteignaskatts fyrir árið 2009 sem lagður var á í upphafi þess árs. Verður ráðið af gögnum málsins að frá því að innheimtuaðgerðir hófust og þangað til krafa sveitarfélagsins var að fullu greidd þann 5. október 2010 hafi verið nokkur samskipti á milli A og Sveitarfélagsins Árborgar. Kæra A var sett fram þann 1. febrúar 2011 og er því ljóst fyrrgreindar athafnir og ákvarðanir sem kunna að hafa verið teknar á því tímabili falla utan hins lögbundna þriggja mánaða kærufrests. Þann 6. október 2010 fór A hins vegar með formlegum hætti fram á að fá tiltekinn kostnað endurgreiddan úr hendi sveitarfélagsins, og var þeirri beiðni hafnað bréflega af sveitarfélaginu þann 2. nóvember 2010.  Lítur ráðuneytið svo á að það sé hin eiginlega kærða ákvörðun í máli þessu og er ljóst að kæra vegna hennar er fram komin innan kærufrests. Lýtur athugun ráðuneytisins því fyrst og fremst að þeirri ákvörðun en hins vegar verður í eftirfarandi umfjöllun vikið að öðrum atriðum eftir því sem efni standa til og í ljósi þess hvernig mál þetta er vaxið.

2.         Í 1. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 kemur fram að fasteignaskattur myndi tekjustofn sveitarfélaga ásamt útsvari og framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. sömu laga skal árlega leggja fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári, sbr. þó 4. mgr. 4. gr. og 5. gr. laganna, en þau ákvæði hafa ekki þýðingu fyrir mál þetta. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 skal fasteignamat mynda stofn til álagningar fasteignaskatts allra fasteigna. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna annast sveitarstjórn álagningu fasteignaskatts og skal hún fara fram í fasteignaskrá. Getur sveitarstjórn samkvæmt ákvæðinu falið sérstökum innheimtuaðila innheimtu skattsins. Samkvæmt 1. málsl. 4. mgr. 4. gr. laganna ákveður sveitarstjórn fjölda gjalddaga fasteignaskatts fyrir upphaf árs en heimilt er sveitarstjórn að ákveða að skatturinn greiðist allur á einum gjalddaga ef álagning er undir tiltekinni fjárhæð. Í 7. gr. laga nr. 4/1995 segir svo að fasteignaskattinum fylgi lögveð í fasteign þeirri, sem hann er lagður á, og skal ásamt dráttarvöxtum í tvö ár frá gjalddaga ganga fyrir öllum öðrum veðkröfum er á eigninni hvíla.

Ráðuneytið hefur áður komist að þeirri niðurstöðu í áliti sínu frá 18. febrúar 2009, að í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 felist ótvíræð heimild sveitarfélaga til að fela innheimtuaðila utan stjórnkerfis þess innheimtu opinberra gjalda, þ.m.t. innheimtu fasteignaskatts. Er því ljóst að Sveitarfélaginu Árborg var heimilt að semja við Intrum annars vegar og Lögheimtuna hins vegar um að fyrirtækin tækju að sér innheimtu vangoldins fasteignaskatts fyrir sveitarfélagið. Þegar sveitarfélag ákveður að semja við einkaaðila um innheimtu opinberra gjalda eða skatta, hvort sem um er að ræða millinnheimtu eða löginnheimtu, ber því hins vegar að haga undirbúningi þeirrar ákvörðunar með þeim hætti að skuldari verði ekki verr settur heldur en sanngjarnt getur talist. Bendir ráðuneytið á í því sambandi að sú almenna regla kröfuréttar gildir að kröfuhafi getur krafið skuldara um þann kostnað sem stafar af réttmætum ráðstöfunum til innheimtu kröfu vegna vanskila skuldara þannig að kröfuhafi verði skaðlaus, og á það jafnt við um innheimtu opinberra gjalda og skatta sem aðrar kröfur (sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingi frá 5. maí 1992 í málum nr. 346/1990 og 353/1990 og álit frá 30. janúar 2001 í máli nr. 2878/1999). Sveitarfélagið þarf hins vegar, sem endranær, að gæta að meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga 37/1993 við undirbúning og framkvæmd ákvörðunar um tilhögun innheimtuaðgerða þannig að ekki sé gengið lengra en þörf krefur, til óhagræðis fyrir skuldara, til að ná fram því að lögmæta markmiði að krafa innheimtist, stjórnvaldi að skaðlausu.

Í framangreindu felst að sveitarfélagi er heimilt að semja við innheimtuaðila um innheimtu opinberra gjalda og skatta, fyrir tiltekna þóknun sem greiðist af skuldara. Getur enda verið mikið hagræði að því fyrir sveitarfélög að fela öðrum aðila innheimtu vanskilakrafna og jafnframt stuðlað að betri heimtum. Þegar sveitarfélag ákveður að fela öðrum aðila slíka innheimtu verður að leggja mat á þann kostnað sem skuldari kann að þurfa að greiða semji sveitarfélagið við innheimtuaðila. Þannig verður t.a.m. ekki litið svo á að sveitarfélag geti falið tilteknum innheimtuaðila innheimtu kröfu með þeim hætti að gjaldskrá innheimtuaðilans verði sjálfkrafa lögð til grundvallar innheimtu án þess að sveitarfélagið hafi áður lagt mat á þær upphæðir er þar koma fram og hvort það myndi hafa í för með sér meira óhagræði fyrir skuldara en sanngjarnt geti talist í ljósi markmiðs innheimtunnar og með hliðsjón af 12. gr. stjórnsýslulaga. Getur sveitarfélag með öðrum orðum ekki falið innheimtuaðila sjálfdæmi um hversu hátt gjald hann innheimtir hjá skuldara vegna vanskila hans. Ber þar að hafa í huga að stjórnsýslan er lögbundin og að sá grundvallarmunur er á opinberum gjöldum og sköttum annars vegar og öðrum kröfum hins vegar, að um þau fyrrnefndu er mælt fyrir í lögum.

Hins vegar lítur ráðuneytið svo á að sveitarfélög hafi í ljósi sjálfsstjórnarréttar síns, sem leiddur verður af 78. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, nokkurt svigrúm við framangreint mat um hversu hátt gjald telst ásættanlegt að innheimta hjá skuldara enda kunna aðstæður að vera breytilegar eftir sveitarfélögum og umfangi nauðsynlegra innheimtuaðgerða. Þá kunna mismunandi innheimtuaðgerðir að eiga við eftir því hvort krafa er tryggð með lögveði eður ei. Verður slíkt mat almennt ekki endurskoðað af ráðuneytinu nema bersýnilegt sé að ómálefnalegar forsendur liggi því að baki.

Í máli þessu liggur fyrir að Sveitarfélagið Árborg og Intrum á Íslandi ehf. gerðu þann 28. apríl 2008 með sér samning um innheimtu vanskilakrafna en með samningnum tók Intrum að sér innheimtu vanskilakrafna fyrir sveitarfélagið eftir því sem nánar greindi í samningnum. Tók samningurinn til svokallaðrar milliinnheimtu. Ekki var í samningnum vikið nánar að upphæð innheimtuþóknunar eða innheimtukostnaðar og verður ekki annað ráðið en að við framkvæmd hans hafi gjaldskrá Intrum verið lögð til grundvallar. Ekki er að sjá að Sveitarfélagið Árborg hafi formlega gert ámóta samning við Lögheimtuna um löginnheimtu vanskilakrafna en ráðuneytið telur ljóst að við þá innheimtu hafi verið tekið mið af gjaldskrá Lögheimtunnar og er það í samræmi við það sem fram kemur í bréfi sveitarfélagsins til ráðuneytisins, dags. 9. apríl 2011. 

Telur ráðuneytið ekkert fram komið í máli þessu sem bendir til þess að Sveitarfélagið Árborg hafi lagt mat á eða tekið afstöðu til þess hversu háan innheimtukostnað væri ásættanlegt að innheimta hjá skuldara í ljósi þess markmiðs sem að væri stefnt, þ.e. innheimtu vanskilakrafna sveitarfélaginu að skaðlausu, áður en sveitarfélagið ákvað að fela Intrum annars vegar og Lögheimtunni hins vegar, innheimtu krafna fyrir sveitarfélagið. Telur ráðuneytið þannig ljóst að gjaldskrár fyrirtækjanna hafi verið lagðar til grundvallar innheimtu án þess að sveitarfélagið tæki frekari afstöðu til þeirra. Ráðuneytið telur hins vegar rétt að taka fram að í því sambandi að þann 1. febrúar 2009 tók gildi reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. nr. 37/2009 sem sett er með stoð í innheimtulögum nr. 95/2008. Sú reglugerð kveður m.a. á um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar við milliinnheimtu og er ekkert fram komið í máli þessu sem bendir til þess að gjaldskrá Intrum hafi verið í ósamræmi við hana.

Ráðuneytið telur rétt að taka fram að í framangreindri niðurstöðu felst hins vegar ekki að sveitarfélaginu beri að greiða A þann kostnað sem hún gerði kröfu um með erindi sínu til þess, dags. 6. október 2010. Í því erindi kom fram að krafist væri greiðslu fjármuna vegna innheimtu sveitarfélagsins, n.t.t. kostnaðar vegna aksturs, vinnuframlags og ómaks, samtals að upphæð kr. 272.000. Telst hinn kærða ákvörðun í máli þessu ákvörðun sveitarfélagsins um að synja þeirri kröfu. Ráðuneytið bendir á að úrskurðarvald þess á grundvelli sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 náði almennt einungis til þess að staðfesta ákvarðanir sveitarfélaga, fella úr gildi eða eftir atvikum lýsa ólögmætar, en ráðuneytinu var ekki heimilt að taka nýjar ákvarðanir þeirra í stað. Er ráðuneytinu þannig ekki heimilt að mæla fyrir um tiltekna athafnaskyldu sveitarfélagsins á þann hátt sem krafist er í máli þessu. Þá hefur ráðuneytið engar forsendur til að meta grundvöll og réttmæti þeirrar fjárhæðar er A tilgreinir í kröfu sinni til Sveitarfélagsins Árborgar, dags. 6. október 2010. Er kröfu A um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og sveitarfélaginu gert að greiða henni umræddan kostnað því vísað frá ráðuneytinu.

Rétt er að geta þess að í kröfugerð sinni fyrir ráðuneytinu fór A jafnframt fram á að sveitarfélaginu yrði gert að endurgreiða henni að fullu þóknun sem hún hefði greitt til innheimtufyrirtækisins Lögheimtunnar. Ekki verður hins vegar séð að í erindi A til Sveitarfélagsins Árborgar, dags. 6. október 2010 hafi verið fram á endurgreiðslu slíks kostnaðar né heldur að hin kærða ákvörðun, dags. 2. nóvember 2010, hafi tekið til þess. Ber því jafnframt að vísa þeim þætti kröfugerðar A frá ráðuneytinu.

Þá telur ráðuneytið rétt að taka fram að samkvæmt því sem fram kemur í bréfi Sveitarfélagsins Árborgar til ráðuneytisins, dags. 4. apríl 2012, sagði sveitarfélagið samningi sínum við Intrum upp með sex mánaða fyrirvara í ágúst 2010. Gerði sveitarfélagið nýjan samning við fyrirtækið Motus ehf. að undangenginni verðkönnun í apríl 2011. Er hinn nýi samningur ekki til skoðunar í máli þessu.

3.         Þá telur ráðuneytið rétt að víkja stuttlega að málsástæðum A um að sveitarfélagið hafi hafnað því að taka við greiðslu úr hennar hendi annars vegar þrátt fyrir að hún hefði útskýrt að henni væri ófært að greiða umrædda kröfu fyrir milligöngu innheimtu fyrirtæksisins, þar sem ágreiningur hefði komið upp í öðru óskyldu máli á milli þess og fyrirtækis í hennar eigu. Vísar A til ómöguleika í skilningi kröfuréttar í því sambandi.

Af hálfu A er því þannig haldið fram að hún hafi fyrst óskað eftir því í september 2009 að fá að greiða fasteignaskatt vegna fasteigna sinna ásamt dráttarvöxtum beint til Sveitarfélagsins Árborgar en þá hafi ekki verið orðinn til neinn kostnaður vegna innheimtuaðgerða. Af hálfu sveitarfélagsins er því hins vegar haldið fram að slík beiðni hafi ekki komið fram fyrr en í ágúst árið 2010, og sé engin gögn að finna hjá sveitarfélaginu sem bendi til þess að slík beiðni hafi komið fram fyrr. Að mati ráðuneytisins hefur A ekki lagt fram nein gögn í máli þessu sem styðja framangreinda staðhæfingu hennar með beinum hætti. Þannig er ekki að finna í gögnum málsins slíka beiðni hennar né synjun sveitarfélagsins frá þeim tíma sem hún greinir. Telur ráðuneytið því ljóst að ef slík beiðni var lögð fram áður en sveitarfélagið afhenti Intrum kröfuna til innheimtu hafi það verið gert munnlega og henni synjað á sama hátt. Ráðuneytið telur hins vegar rétt að taka fram að í þeim tilvikum sem greiðandi kýs að greiða kröfu beint til sveitarfélagsins verður ekki annað séð en að sveitarfélagi beri að taka við slíkri greiðslu enda sé það því ekki til sérstaks óhagræðis. Eftir að krafa hefur verið send til innheimtu með tilheyrandi kostnaði er sveitarfélagi hins vegar heimilt að hafna því að taka við greiðslu sem ekki felur í sér að vanskilakostnaður sé gerður upp samhliða.

Í ljósi þess að ráðuneytið hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að vísa beri kæru A frá ráðuneytinu er ekki þörf á að fjalla nánar um þetta atriði.

 

Úrskurðarorð

 

Stjórnsýslukæru A, á ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar dags. 2. nóvember 2010, um að synja henni um endurgreiðslu tiltekins kostnaðar vegna innheimtu fasteignaskatts fyrir fasteignirnar að [...] í sveitarfélaginu fyrir árið 2009, er vísað frá ráðuneytinu.

 

                                                           Fyrir hönd ráðherra

 

Bryndís Helgadóttir 

Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum