Hoppa yfir valmynd

IRR12010498

Ár 2014, 19. febrúar er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR 12010498

 

Kæra A

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru sem barst ráðuneytinu þann 2. febrúar 2012, kærði A, kt. […], ríkisborgari X, ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. janúar 2012, um að synja henni um útgáfu dvalarleyfis vegna námsdvalar.

Ákvörðunin er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Þess ber að geta að kæran barst ráðuneytinu eftir lok hins lögmælta 15 daga kærufrests sbr. 2. mgr. 30. gr. laganna. Kærandi hafði hins vegar áður, eða þann 20. janúar 2012, sent ráðuneytinu tölvubréf þar sem hún leitaði nánari upplýsinga um hvernig henni væri rétt að bera sig að við framlagningu kæru. Ekki er hins vegar að sjá að því tölvubréfi hafi verið svarað af hálfu ráðuneytisins. Í því ljósi telur ráðuneytið að afsakanlegar ástæður séu fyrir hendi í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga mr. 37/1993 fyrir því að kæran hafi ekki borist ráðuneytinu fyrrr og að rétt sé því að taka hana til efnismeðferðar.

 

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Kæranda var fyrst veitt dvalarleyfi vegna námsdvalar með gildistíma frá 24. ágúst 2010 til 1. febrúar 2011. Leyfið var endurnýjað með gildistíma frá 14. febrúar 2011 til 1. júlí 2011. Hinn 6. júlí 2011 sótti kærandi svo aftur um endurnýjun á dvalarleyfi á grundvelli námsdvalar. Þeirri umsókn var synjað með hinni kærðu ákvörðun með vísan til þess að kærandi hefði ekki náð fullnægjandi námsárangri á vorönn 2011.

Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til ráðuneytisins með bréfi sem barst ráðuneytinu þann 2. febrúar 2012. Með bréfi, dags. 2. febrúar 2012, óskaði ráðuneytið afrits af öllum gögnum málsins frá Útlendingastofnun auk athugasemda stofnunarinnar ef einhverjar væru. Umbeðin gögn bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 10. maí 2012. Með bréfi, dags. 29. maí 2012, gaf ráðuneytið kæranda færi á að gæta andmælaréttar eða koma á framfæri frekari gögnum eða athugasemdum teldi hún ástæðu til. Engin frekari gögn bárust ráðuneytinu frá kæranda.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.    Ákvörðun Útlendingastofnunar

Hin kærða ákvörðun er svohljóðandi:

Lagarök:

Um umsókn þessa gilda lög nr. 96/2002 um útlendinga (hér eftir nefnd útlendingalög) og reglugerð nr. um útlendinga nr. 53/2003, með síðari breytingum.

Niðurstaða:

Í 12. gr. e útlendingalaga er fjallað um dvalarleyfi vegna náms. Í 1. mgr. segir að heimilt sé að veita útlendingi sem ætlar að stunda fullt nám hér á landi dvalarleyfi. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt b-lið 1. mgr. 12. gr. e. útlendingalaga er að útlendingur stundi fullt nám hér á landi samkvæmt vottorði frá hlutaðeigandi skóla. Fullt nám á Háskólastigi eru 30 ECTS einingar. Í 4. mgr. 12. gr. e. kemur fram að heimilt sé að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu á námstíma ef útlendingur fullnægir skilyrðum 1. og 2. mgr. greinarinnar og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur. Námsárangur telst viðunandi ef útlendingur hefur lokið a.m.k. 75% af fullu námi.

Samkvæmt yfirliti frá Háskóla Íslands lauk umsækjandi einungis 4 einingum á síðustu önn. Sem áður segir er fullt nám 30 einingar á önn. Fjöldi lokinna eininga á síðustu námsönn var því einungis 13% af því sem telst vera fullt nám.

Umsækjandi lagði inn vottorð til staðfestingar á veikindum sínum sl. ár sem kunni að hafa valdið því að hún hafi átt erfitt með að einbeita sér við námið. Í 12. gr. e. útlendingalaga er ekki að finna neinar heimildir til þess að víkja frá skilyrðum laganna um að umsækjandi hafi lokið a.m.k. 75% af fullu námi.

Miðað við framlagðar upplýsingar um nám umsækjanda er ljóst að Útlendingastofnun getur ekki viðurkennt nám umsækjanda sem grundvöll námsdvalar á Íslandi þar sem námið fullnægir ekki skilyrðum 12. gr. e. útlendingalaga. Umsókn fullnægir þar með ekki skilyrðum útlendingalaga og verður umbeðið leyfi því ekki veitt, sbr. ofanritað. Umsækjanda ber jafnframt að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku ákvörðunar þessarar nema umsækjandi hafi rétt til dvalar á grundvelli áritunarfrelsis milli Íslands og [X]. En samkvæmt því hafa [ríkisborgarar X] rétt til að vera á landinu í 90 daga án dvalarleyfis.

Það athugist að skv. 20. gr. útlendingalaga getur ólögmæt dvöl leitt til brottvísunar og endurkomubanns til Íslands, tímabundið eða að full og öllu.

Því er ákvarðað:

 

ÁKVÖRÐUNARORÐ

Umsókn [A], kt. […], ríkisborgara [X], um endurnýjun dvalarleyfis vegna náms á Íslandi er synjað.

 

Að lokum er leiðbeint um kæruleið og kærufrest.

 

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kemur m.a. fram að ástæða þess að kærandi hafi ekki skilað fullnægjandi námsárangri á vorönn 2011 sé að hún hafi verið skráð í erfiða áfanga og [veikindi] hafi haft áhrif á námsástundun. Haustönn 2011 hafi hún hins vegar skilað fullnægjandi námsárangri. Það sé m.a. vegna þess að hún hafi skipt um námsbraut. Þá hefur kærandi lagt fram læknisvottorð til staðfestingar veikindum sínum.

 

V.      Niðurstaða ráðuneytisins

Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi hér á landi vegna námsdvalar.

Í 4. mgr. 12. gr. e laga um útlendinga nr. 96/2002 kemur fram að dvalarleyfi vegna náms samkvæmt ákvæðinu skuli að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða í senn. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi vegna náms á námstíma ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. 12. gr. e og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur. Námsárangur telst samkvæmt ákvæðinu fullnægjandi hafi útlendingur lokið a.m.k. 75% af fullu námi. Við fyrstu endurnýjun dvalarleyfis telst námsárangur viðunandi hafi útlendingur lokið a.m.k. 50% af fullu námi. Í máli þessu var um það að ræða að kærandi sótti í annað sinn um framlengju dvalarleyfis vegna náms og þurfti hún því að sýna fram á 75% námsárangur.

Í gögnum málsins kemur fram að vorönn 2011 lauk kærandi einungis 4 einingum eða um 13% af fullu námi. Er þar með ljóst að ekki eru uppfyllt skilyrði 4. mgr. 12. gr. e fyrir því að dvalarleyfi hennar vegna námsdvalar verði framlengt, en ekki er gert ráð fyrir því að unnt sé að víkja frá ákvæðinu af ástæðum líkt og þeim sem kærandi hefur tilgreint máli sínu til stuðnings. Ber þá þegar af þeirri ástæðu að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. janúar 2012, um að synja umsókn A, kt. […], ríkisborgara [X], um útgáfu dvalarleyfis hér á landi, er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum