Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 21/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 21/2015

Fimmtudaginn 25. ágúst 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 8. september 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 25. ágúst 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 10. september 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 11. september 2015.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 14. september 2015 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir og gögn kæranda bárust 28. september 2015.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fæddur 1974. Hann er einstæður faðir og býr ásamt [...] í eigin húsnæði að B. Kærandi er menntaður [...]og starfar hjá C.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara eru 30.303.014 krónur.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína einkum til kaupa á íbúðarhúsnæði á árinu 2007 og launalækkunar.

Kærandi sótti um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 1. ágúst 2012 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. janúar 2013 var honum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í ákvörðun umboðsmanns og sérstöku fylgiskjali með henni var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge. Alls hafa þrír umsjónarmenn komið að máli kæranda.

Í bréfi þriðja umsjónarmannsins til umboðsmanns skuldara 18. nóvember 2014 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli lge. þar sem kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem hann hefði lagt of lítið fyrir á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Kærandi hefði aðeins lagt fyrir 150.000 krónur á tímabilinu en sparnaður hans ætti að nema 783.028 krónum. Því væri það mat umsjónarmanns að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge.

Með bréfum umboðsmanns skuldara til kæranda 4. desember 2014 og 29. júní 2015 var kæranda gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör kæranda bárust með tölvupóstum 15. desember 2014 og 7. júlí 2015.

Með ákvörðun 25. ágúst 2015 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og að hann fái nýjan umsjónarmann.

Kærandi kveðst hafa uppfyllt skyldur sínar við greiðsluaðlögunarumleitanir. Í stað þess að deila um hvað honum hafi borið að leggja fyrir á ári hafi hann viljað fá einfalda leiðbeiningu um hve mikið hann hafi átt að leggja fyrir mánaðarlega eða heildarfjárhæð sparnaðar á tímabilinu. Kærandi hafi talið að aðalatriðið væri hvað hann hefði alls lagt til hliðar á tímabilinu. Málatilbúnað umboðsmanns skuldara megi skilja þannig að hann hunsi það sem kærandi hafi lagt til hliðar. Í forsendum bréfs umsjónarmanns segi að hann hefði átt að leggja fyrir 2.226.997 krónur á tímabilinu en síðan segi að umboðsmaður sé tilbúinn til þess að líta til þess hvernig 554.274 krónum hafi verið ráðstafað. Í framhaldinu segi að óútskýrt sé hvernig 1.672.723 krónum hafi verið ráðstafað.

Ekki hafi verið tekið tillit til kostnaðar að fjárhæð um 300.000 krónur vegna fæðingar barns kæranda árið X, en gögn vegna þessa hafi verið afhent fyrsta umsjónarmanni og tekið tillit til þeirra á fyrri stigum. Þessi kostnaður sé á hinn bóginn ekki tiltekinn í ákvörðun umboðsmanns um niðurfellingu.

Kærandi mótmælir því að hafa einungis lagt til hliðar 150.000 krónur. Hið rétta sé að hann hafi lagt þá fjárhæð til hliðar árið 2013 og sömu fjárhæð árið 2014. Einnig hafi hann lagt til hliðar á árinu 2015 og nemi sparnaður hans nú alls 1.275.000 krónum. Sé tekið tillit til ofangreinds kostnaðar vegna fæðingar barns hafi kærandi lagt til hliðar það sem honum hafi borið á tímabilinu.

Þá óski kærandi eftir því að fá úr því skorið hvort það sem hann hafi fengið greitt úr séreignarsparnaði sínum sé tekið með þegar sparnaður sé reiknaður út. Að mati kæranda sé ekki vit í því að taka út séreignarsparnað til þess að leggja til hliðar fyrir lánardrottna. Kærandi telur 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge., sem fjallar um tekjur skuldara, ekki hafa áhrif í máli sínu því ákvæðið eigi ekki við um úttekt séreignarsparnaðar. Í þessu sambandi vilji kærandi sérstaklega benda á að í lögum um séreignarsjóði sé sérstaklega tekið fram að úttekt séreignarsparnaðar eigi ekki að hafa áhrif á barna-, vaxta- og húsaleigubætur. Að mati kæranda samrýmist það ekki tilgangi bráðabirgðarákvæðis laga um heimild til að taka út úr séreignarsjóði að gera kröfu til þess að slíka úttekt skuli leggja til hliðar í greiðsluaðlögun. Kærandi telji þetta ekki heldur samrýmast tilgangi lge. Þar sem lge. geri kröfu um að skuldari eyði ekki öllum launum sínum á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana, sé aðeins átt við hefðbundin laun og bætur sem skuldari þiggi á tímabilinu. Ekki sé verið að ætlast til þess að skuldari tæmi alla mögulega sjóði og leggi til hliðar fyrir kröfuhafa. Hafi kærunefnd greiðsluaðlögunarmála úrskurðað á þennan veg sé sá úrskurður að mati kæranda rangur og beri að líta fram hjá honum við meðferð á máli hans.

Kærandi gerir athugasemdir við fjölda umsjónarmanna og málsmeðferð umboðsmanns skuldara.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun 7. janúar 2013. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kæranda því mátt vel vera ljóst að hann skyldi halda til haga þeim fjármunum, sem hann hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum, þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Í máli umboðsmanns skuldara kemur fram að greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í rúmlega 28 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. febrúar 2013 til 31. maí 2015. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, þar á meðal staðgreiðsluskrám og skattframtölum, hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. febrúar 2013 til 31. desember 2013 að frádregnum skatti 3.517.525
Barnabætur 277.445
Heildartekjur 3.794.970
Meðaltekjur á mánuði 344.997
Samtals greiðslugeta 1. febrúar 2013 til 31. desember 2013 714.307
Launatekjur 1. janúar 2014 til 31. desember 2014 að frádregnum skatti 4.128.003
Samtals 4.128.003
Meðaltekjur á mánuði 344.000
Samtals greiðslugeta 2014 236.364
Launatekjur 1. janúar 2015 til 31. maí 2015 að frádregnum skatti* 2.793.636
Barnabætur 92.944
Samtals 2.886.580
Meðaltekjur á mánuði 577.316
Samtals greiðslugeta 1. janúar 2015 til 31. maí 2015 1.405.326
Greiðslugeta alls 1. febrúar 2013 til 31. maí 2015 2.355.997

Í framangreindum útreikningum sé miðað við að unnt sé að leggja fyrir mismun meðaltekna og framfærslukostnaðar á mánuði. Sé sú fjárhæð nefnd greiðslugeta.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kæranda með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að honum sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., séu lögð fram gögn þar um.

Framfærslukostnaður kæranda hafi verið mismikill á tímabilinu. Frá febrúar til nóvember 2013 sé áætlaður framfærslukostnaður kæranda 274.708 krónur á mánuði miðað við hjón/sambýlisfólk með tvö börn. Gert hafi verið ráð fyrir að kærandi greiddi framfærslukostnað til jafns við maka. Frá desember 2013 til september 2014 sé áætlaður framfærslukostnaður á mánuði 333.583 krónur miðað við fullorðinn einstakling með eitt barn á framfæri. Frá október 2014 til maí 2015 sé áætlaður framfærslukostnaður 296.646 krónur á mánuði miðað við hjón/sambýlisfólk með þrjú börn á framfæri. Gert sé ráð fyrir að kærandi hafi greitt framfærslukostnað til jafns við maka.

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir 2.355.997 krónur á því 28 mánaða tímabili sem hann naut greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kæranda í hag. Þá sé gert ráð fyrir að kærandi greiði 4% framlag í séreignarsparnað allt tímabil greiðsluskjóls.

Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 18. nóvember 2014 komi fram að kærandi hafi tiltekið aukin útgjöld að fjárhæð 258.000 krónur vegna fæðingar barns á tímabili greiðsluskjóls. Kærandi hafi ekki lagt fram gögn til staðfestingar á þessum kostnaði. Verði gert ráð fyrir að kærandi hafi reitt fram helming þessa fjár hefði hann þó átt að hafa getað lagt fyrir 2.226.997 krónur á tímabilinu. Kærandi hafi aðeins sýnt fram á að hafa lagt til hliðar 150.000 krónur.

Kærandi kveðist hafa þurft að standa undir meira en helmingi framfærslukostnaðar fjölskyldu sinnar á árinu X þegar barnsmóðir hans var í fæðingarorlofi. Af þessum ástæðum hafi umboðsmaður óskað eftir skattframtali barnsmóður kæranda en kærandi hafi sent embættinu yfirlit yfir fæðingarorlofsgreiðslur hennar. Miðað við þessar greiðslur megi ætla að barnsmóður kæranda hafi vantað 279.274 krónur til að geta staðið straum af helmingi framfærslukostnaðar fjölskyldunnar á tímabilinu. Kærandi kveðist einnig hafa farið í augnaðgerð árið 2013 og hún hafi kostað 275.000 krónur. Hann hafi þó ekki lagt fram kvittanir vegna þessa. Sé engu að síður tekið tillit til þessara útgjaldaliða skorti 1.672.723 krónur upp á sparnað kæranda á tímabilinu.

Kærandi hafi gert athugasemd við það að umboðsmaður skuldara hafi talið séreignarsparnað þann, sem kærandi leysti út í upphafi árs 2015, til tekna. Bendi umboðsmaður á að skuldheimtumönnum sé óheimilt að krefjast þess að séreignarlífeyrissparnaður sé leystur út, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Þá sé lífeyrissparnaður ekki aðfararhæfur á meðan hann hafi ekki verið leystur út. Þetta gildi þó ekki þegar sparnaðurinn hafi verið leystur út. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. sé ekki heimilt að undanþiggja tilteknar tekjur og/eða laun frá þeirri fjárhæð sem skuldari hafi til ráðstöfunar á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Því sé ekki unnt að líta öðruvísi á en svo að séreignarlífeyrissparnaður, sem leystur hafi verið út á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana, teljist til framfærslutekna kæranda. Í þessu sambandi sé vísað til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 108/2013.

Gera verði þá kröfu til einstaklinga sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem er umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla. Auk þess sem óheimilt sé að stofna til nýrra skulda á tímabilinu.

Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kæranda til greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir þessum kostnaði í mánaðarlegum framfærslukostnaði kæranda.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi kærandi brotið gegn skyldum sínum í greiðsluskjóli og því hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 18. nóvember 2014 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem bentu til þess að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 25. ágúst 2015.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hans var samþykkt hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 1.672.723 krónur frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt, eða allt frá 7. febrúar 2013 til 25. ágúst 2015, og hefur þá verið tekið tillit til óvæntra útgjalda og aukins framfærslukostnaðar. Fyrir úrskurðarnefndinni hefur kærandi sýnt fram á sparnað að fjárhæð 1.275.000 krónur auk þess sem hann kveðst hafa orðið fyrir óvæntum útgjöldum á tímabili greiðslufrestunar.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. febrúar 2013 til 31. desember 2013: Ellefu mánuðir
Nettótekjur 3.517.525
Mánaðartekjur að meðaltali 319.775
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. desember 2014: 12 mánuðir
Nettótekjur 4.128.003
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 344.000
Tímabilið 1. janúar 2015 til 31. júlí 2015: Sjö mánuðir
Nettótekjur 3.439.862
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 491.409
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 11.085.390
Nettó mánaðartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 369.513

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda, bætur og úttekinn séreignarlífeyrissparnað var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. febrúar 2013 til 31. desember 2013: Ellefu mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 3.517.525
Mánaðartekjur til ráðstöfunar að meðaltali 319.775
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns 274.708
Greiðslugeta kæranda á mánuði 45.067
Alls sparnaður í 11 mánuði x 45.067 495.737
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. desember 2014: 12 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 4.128.003
Bótagreiðslur 2014 188.021
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 4.316.024
Mánaðartekjur að til ráðstöfunar meðaltali 359.669
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns 333.583
Greiðslugeta kæranda á mánuði 26.086
Alls sparnaður í 12 mánuði x 26.086 313.028
Tímabilið 1. janúar 2015 til 31. júlí 2015: Sjö mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 3.439.862
Mánaðartekjur að til ráðstöfunar meðaltali 491.409
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns 296.464
Greiðslugeta kæranda á mánuði 194.945
Alls sparnaður í 7 mánuði x 194.945 1.364.614
Alls sparnaður í 30 mánuði í greiðsluskjóli 2.173.379

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Kærandi mótmælir því að séreignarsparnaður, sem hann hafi tekið út á tímabilinu, teljist til launa og annarra tekna við útreikning á því hver sparnaður hans í greiðsluskjóli hefði átt að vera. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. er ekki heimilt að undanþiggja tilteknar tekjur og/eða laun frá þeirri fjárhæð sem skuldari hefur í höndum á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana, en séreignarsparnaður sem hefur verið greiddur út telst til tekna. Er því ekki unnt að taka tillit til þessarar athugasemdar kæranda.

Það er mat umboðsmanns skuldara að framfærslukostnaður kæranda hafi alls verið 279.274 krónum hærri en framfærsluviðmið geri ráð fyrir vegna lágra tekna sambýliskonu og ber að fallast á þá viðmiðun við úrlausn málsins. Samkvæmt þessu verður sú fjárhæð sem kærandi hefði átt að leggja fyrir á tímabili greiðsluskjóls lækkuð um þá fjárhæð eða í 1.894.105 krónur (2.173.379 krónur - 279.274 krónur).

Kærandi hefur lagt fram kvittun vegna augnaðgerðar að fjárhæð 275.000 krónur. Verður að telja þann kostnað tilheyra óvæntum útgjöldum kæranda á tímabilinu. Verður sú fjárhæð, sem hann hefði átt að leggja fyrir, lækkuð um 275.000 krónur vegna þessa eða í 1.619.105 krónur (1.894.105 krónur - 275.000 krónur). Þá kveðst kærandi hafa orðið fyrir óvæntum kostnaði að fjárhæð um 300.000 krónur vegna fæðingar barns árið X. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærandi hafi lagt fram viðeigandi gögn til staðfestingar á þessum útgjöldum á fyrri stigum málsins gagnstætt því sem hann heldur fram. Fyrir úrskurðarnefndina hefur hann heldur ekki lagt fram nein gögn varðandi umræddan kostnað. Er því ekki unnt að taka tillit til þessa kostnaðar við útreikning á sparnaði.

Eins og áður segir hefur kærandi lagt fram staðfestingu á sparnaði að fjárhæð 1.275.000 krónur. Munar samkvæmt þessu 344.105 krónum á þeirri fjárhæð sem kærandi hefði átt að leggja fyrir á tímabilinu og þeirri fjárhæð sem hann hefur lagt fyrir. Þrátt fyrir það að á sparnað kæranda skorti þykir sá munur að mati úrskurðarnefndarinnar, eins og á stendur í málinu, ekki það veigamikill að hann verði hafður til marks um það að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja fyrir fé þannig að staðið geti í vegi fyrir því að látið verði reyna á vilja kröfuhafa til að gera samning til greiðsluaðlögunar við kæranda. Eru því, eins og málið liggur fyrir, ekki skilyrði fyrir því að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður.

Samkvæmt framangreindu er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til umboðsmanns skuldara til meðferðar að nýju.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er felld úr gildi og málinu vísað til meðferðar umboðsmanns skuldara að nýju

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum